Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 492. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 749  —  492. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um að heimila auglýsingar á heilbrigðisþjónustu.

Flm.: Ágúst Ólafur Ágústsson.



    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að undirbúa lagabreytingar sem heimila læknum, tannlæknum og öðrum heilbrigðisstarfsmönnum, svo og heilbrigðisstofnunum, að auglýsa þjónustu sína og starfsemi. Við undirbúning slíkrar löggjafar hafi ráðherra samráð við helstu hagsmunaaðila og fagfélög heilbrigðisstétta.


Greinargerð.


Bætt þjónusta við almenning.
    Nú er flestum heilbrigðisstarfsmönnum og heilbrigðisstofnunum óheimilt samkvæmt lögum að auglýsa starfsemi sína. Með afnámi á takmörkunum á auglýsingum heilbrigðisstarfsmanna og heilbrigðisstofnana er hins vegar ljóst að almenningur fær betri upplýsingar um þjónustu lækna, tannlækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna þar sem þessum aðilum verður þá heimiluð eðlileg upplýsingagjöf um þjónustu sína. Með nauðsynlegum lagabreytingum í þessa átt þarf almenningur því ekki lengur að treysta orðrómi og umtali þegar kemur að vali á heilbrigðisþjónustu.
    Í auglýsingum er að finna margvíslegar upplýsingar til almennings. Auglýsingar hjálpa almenningi að átta sig á hvað er í boði og með hvaða hætti. Með því að heimila auglýsingar lækna, tannlækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna, svo og sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana, er því fyrst og fremst komið til móts við almenning í landinu og þar á meðal aldraða sem e.t.v. eru ekki allir vanir því að sækja sér upplýsingar um heilbrigðisþjónustu sem nú þegar er að finna á heimasíðum.
    Gjörbreyttar aðstæður eru nú víða í heilbrigðisþjónustunni. Starfsemi og þjónusta heilbrigðisstétta hefur breyst mikið og orðið fjölbreytilegri. Ýmsir fagaðilar í heilbrigðisgeiranum hafa heimasíður og kynningarefni með margs konar upplýsingum um hvað viðkomandi aðili eða stofnun býður upp á.
    Með auglýsingabanni er komið í veg fyrir að heilbrigðisstarfsmenn og heilbrigðisstofnanir geti kynnt þjónustu sína með fullnægjandi hætti. Svo virðist sem sjúklingar verði að treysta á umtal eða ímynd þegar þeir velja sér heilbrigðisþjónustu. Með brottfellingu á auglýsingabanni lækna mun einnig losna um hömlur á auglýsingum hinna ýmsu heilbrigðisstétta þar sem viðkomandi sérlög eða siðareglur vísa til læknalaga.
    Almenningur á í mörgum tilfellum fjölbreytilega valkosti um lækna og fleiri heilbrigðisstarfsmenn sem keppa um þjónustu og aðstöðu þrátt fyrir að í flestum tilvikum sé það hið opinbera sem greiði fyrir þjónustuna.
    Í þessu sambandi má nefna sérstaklega þjónustu tannlækna. Tannlæknar starfa á frjálsum og opnum markaði þar sem gjaldskrá þeirra er frjáls. Eins og með aðra þjónustu er það almenningi í hag að vita hvar bestu og hagkvæmustu þjónustuna er að fá. Samkvæmt núgildandi lögum getur hins vegar verið erfitt að finna bestu tannlæknaþjónustuna þar sem tannlæknum er óheimilt að auglýsa starfsemi sína með eðlilegum hætti. Þetta á víða við í heilbrigðisþjónustunni og má þar t.d. nefna þjónustu lýtalækna, bæklunarlækna og augnlækna. Svo virðist sem almenningur verði að treysta á orðróm þegar kemur að því að sækja sér heilbrigðisþjónustu.

Röksemdir fyrir banni.
    Þegar litið er til þeirra röksemda sem lágu að baki banni á auglýsingum lækna á sínum tíma, og sjá má í frumvarpi til læknalaga, nr. 53/1988, sést að ákvæði um auglýsingabann um starfsemi lækna voru lögfest árið 1932 í því skyni að halda uppi aga innan stéttarinnar og var auglýsingabann talið nauðsynlegt vegna fámennis í landinu og kunningsskapar (Alþt. 1987–1988, 110. lögþ., þskj. 120, bls. 816).
    Í frumvarpi til laga nr. 38/1985, um tannlækningar, eru hins vegar ekki tilgreindar sérstakar röksemdir sem mæli með því að tannlæknum sé óheimilt að auglýsa starfsemi sína. Vísað er til þess að ákvæðið sé tekið upp úr læknalögum, auk þess sem tekið er fram að ekki sé nægilegt að hafa slíkt ákvæði í siðareglum stéttarfélags tannlækna (Alþt. 1984–1985, 107. lögþ., þskj. 110, bls. 761).
    Þau rök sem tilgreind eru í lögskýringargögnum snúa því annars vegar að því að halda uppi aga innan stéttarinnar og hins vegar að því að auglýsingabann helgist af fólksfæð og kunningsskap. Flutningsmaður telur að þessi rök eigi ekki við í dag, hafi þau einhvern tímann átt við.
    Auglýsingar eru sömuleiðis ekki einungis upplýsingar heldur einnig eitt form tjáningar sem þarf veigamikil rök fyrir ef það á að takmarka á einhvern hátt. Flutningsmaður telur að það þurfi því sérstakar röksemdir og réttlætingar fyrir lagalegum takmörkunum eða bönnum í samfélaginu. Þessar sérstöku röksemdir telur flutningsmaður að séu ekki fyrir hendi þegar kemur að takmörkun og hömlum á rétti lækna, tannlækna og annarra heilbrigðisstétta ásamt heilbrigðisstofnunum til að kynna sig og auglýsa þjónustu sína og starfsemi.

Núverandi löggjöf er flókin og umdeild.
    Núverandi takmarkanir á upplýsingagjöf heilbrigðisstarfsmanna og heilbrigðisstofnana geta verið erfiðar og flóknar í framkvæmd. Mörkin milli upplýsingagjafar t.d. á heimasíðu annars vegar og hefðbundinna auglýsinga hins vegar geta verið óljós. Upp hafa komið álitamál hvort umfjöllun í fjölmiðlum, svo sem í viðtali, teljist auglýsing eða ekki. Eins er það oft á gráu svæði hvort um sé að ræða auglýsingu eða almenna umfjöllun um þjónustu, tækni, getu, tæki eða ákveðna læknisaðferð. Mörk heilsuræktar og forvarna annars vegar og læknisþjónustu hins vegar geta jafnvel í sumum tilfellum skarast. Núgildandi lagaumhverfi er því bæði umdeilt meðal heilbrigðisstétta og jafnframt flókið í framkvæmd.
    Í 17. gr. læknalaga, nr. 53/1988, segir t.d. að lækni sé einungis heimilt að auglýsa læknastarfsemi sína með efnislegum og látlausum auglýsingum þegar hann hefur störf eða breyting verður á aðsetri eða viðtalstíma. Lækni er þó heimilt að auðkenna sig með nafni, sérgrein, aðsetri, síma og viðtalstíma á dyraspjöldum, nafnspjöldum og lyfseðlum. Í 2. mgr. 23. gr. laganna eru auglýsingar um sjúkrahús og hvers konar heilbrigðisstofnanir bannaðar fram yfir nafn og stað.
    Í 11. gr. laga nr. 38/1985, um tannlækningar, má finna svipað ákvæði og er í 17. gr. læknalaga. Það getur hins vegar verið erfitt matsatriði hvað sé efnisleg og látlaus auglýsing. Sömuleiðis hafa komið upp álitamál hvort einkenni eða kennileiti lækna- eða tannlæknastofu, svo sem skilti, samræmist núgildandi lögum. Í siðareglum tannlækna er t.d. nákvæm útlistun á hvað skilti við tannlæknastofu megi vera stór (40 cm á lengd og 15 cm á hæð) og hvar þau eigi að vera (við inngang, anddyri og hurð stofu).
    Með lögum nr. 30/2002, um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, voru gerðar breytingar vegna skuldbindinga EES-samningsins í þá átt að afnumdar voru tálmanir lækna og tannlækna til að geta nýtt sér rafræna þjónustu við beinar eða óbeinar auglýsingar. Flutningsmaður telur hins vegar að læknum, tannlæknum og öðrum heilbrigðisstéttum ásamt heilbrigðisstofnunum eigi almennt séð að vera heimilað að auglýsa starfsemi sína og þjónustu. Þannig er komið til móts við ríka almannahagsmuni af því að vita hvar bestu og hagkvæmustu þjónustuna er að finna.

Aðrar heilbrigðisstéttir.
    Sé litið til annarra heilbrigðisstétta er ýmist vísað til læknalaga eða ekkert bann er að finna þegar kemur að auglýsingum. Siðareglur sumra fagfélaga geta þó takmarkað auglýsingar.
    Auglýsingar um starfsemi hjúkrunarfræðinga eru ekki bannaðar samkvæmt hjúkrunarlögum, nr. 8/1974. Hins vegar segir í 7. gr. siðareglna hjúkrunarfræðinga að hjúkrunarfræðingi beri að haga svo störfum sínum að hann sé stétt sinni til sóma. Hann skal varast að nota starfsheiti sitt í auglýsingaskyni og skal ekki njóta hlunninda frá skjólstæðingi sínum. Í 11. gr. laga nr. 58/1976, um sjúkraþjálfun, kemur fram að um sjúkraþjálfara gilda að öðru leyti, eftir því sem við getur átt, reglur laga um lækningaleyfi, réttindi og skyldur lækna og annarra, er lækningaleyfi hafa. Sambærilegt gildir um iðjuþjálfa samkvæmt lögum um iðjuþjálfun, nr. 75/1977, og þroskaþjálfa samkvæmt lögum um þroskaþjálfa, nr. 18/1978. Í 8. gr. ljósmæðralaga, nr. 67/1984, kemur einnig fram að um ljósmæður gilda að öðru leyti og eftir því sem við getur átt reglur læknalaga.
    Þar sem ekki eru sérstakar takmarkanir á auglýsingum þessara stétta í sérlögum mun brottfelling 17. gr. læknalaga, nr. 53/1988, einnig ná til þeirra. Sama má segja um aðrar heilbrigðisstéttir sem hafa svipaða skírskotun til læknalaga.
    Auglýsingar sjúkraliða eru hins vegar hvorki bannaðar samkvæmt lögum um sjúkraliða, nr. 58/1976, né í siðareglum sjúkraliða. Sama er að segja um sálfræðinga samkvæmt lögum um sálfræðinga, nr. 40/1976. Hins vegar er í lið 3.2 í siðareglum sálfræðinga að finna athugasemdir varðandi upplýsingagjöf til almennings. Upplýsingar til almennings eiga m.a. að innihalda upplýsingar um siðferðilegar skyldur sálfræðinga.

Auglýsingar heilbrigðisstofnana.
    Í 23. gr. læknalaga, nr. 53/1988, er að finna bann við auglýsingum sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana umfram nafn og stað.
    Framangreindar röksemdir um afnám auglýsingabanns eiga hins vegar einnig við um sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir. Sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir bjóða margs konar þjónustu sem aðrar heilbrigðisstofnanir, heilbrigðisfyrirtæki og almenningur kaupa. Í því sambandi má minnast á aukinn áhuga og getu íslenskra heilbrigðisstofnana til að sinna útlendingum á sérhæfðu sviði heilbrigðisþjónustunnar. Upplýsingar og auglýsingar um viðkomandi þjónustu og starfsemi eru því að mati flutningsmanns fullkomlega eðlilegar.

Frjálslegri lagasetning í nágrannaríkjum.
    Í nágrannaríkjum er lagasetning um auglýsingar heilbrigðisstétta og heilbrigðisstofnana mun frjálslegri en hér á landi. Auglýsingar heilbrigðisstétta eru heimilaðar í Svíþjóð, Noregi og í Danmörku en þó er að sums staðar að finna takmarkanir á auglýsingum í ákveðnum miðlum, svo sem sjónvarpi og kvikmyndum.
    Í kjölfar tilskipunar Evrópusambandsins 2000/31/EB hefur Fastanefnd evrópskra lækna (CPME) samþykkt leiðbeiningar um góða starfshætti við markaðssetningu og kynningu á faglegri heilbrigðisþjónustu um netið. Þar kemur m.a. fram að þeir læknar sem gefa út upplýsingar um þjónustu sína á netinu skuli tryggja að upplýsingar séu réttar og sannanlegar og í samræmi við leiðbeiningar um góða starfshætti. Áhersla er lögð á það að öll markaðssetning læknisþjónustu verði að vera nákvæm hvað innihald varðar, viðeigandi í framsetningu og í samræmi við reglur hjá viðkomandi þjóð. Markmiðið er m.a. að koma skipulagi á markaðssetningu lækna í samræmi við góða starfshætti og tryggja að viðeigandi upplýsingar berist til almennings og auki öryggi lækna.

Ekki markaðsvæðing heilbrigðisþjónustu.
    Flutningsmaður leggur ríka áherslu á það að afnám auglýsingabanns heilbrigðisstétta og heilbrigðisstofnana lúti einungis að því að auka upplýsingaflæði til almennings með auglýsingum en ekki að einhvers konar markaðsvæðingu heilbrigðisþjónustunnar. Heilbrigðisþjónusta skal áfram vera óháð efnahag, búsetu eða félagslegri stöðu að öðru leyti. Til eru mörg dæmi þess að gjaldfrjáls almannaþjónusta auglýsi starfsemi sína og má þar nefna t.d. framhaldsskóla.
    Að sjálfsögðu er það síðan viðkomandi heilbrigðisstarfsmanni eða stofnun í sjálfsvald sett hvort auglýst er eða ekki. Það getur vel verið að fjárráð viðkomandi stofnunar, fyrirtækis eða einstaklings veiti ekki svigrúm til auglýsinga eða það sé í sumum tilfellum fullkomlega óþarfi. Hins vegar er mikilvægt að þessir aðilar hafi rétt á að fara þessa leið til að kynna starfsemi sína.
    Lengi vel komu siðareglur lögmanna í veg fyrir auglýsingar lögmanna en nú hefur því verið breytt. Þrátt fyrir það hafa lögmenn ekki séð ríka ástæðu til að auglýsa starfsemi sína mikið. En aðalatriðið er að þeir hafa rétt á því og almenningur nýtur góðs af betri upplýsingum um þjónustuna og jafnvel verð þar sem það á við.

Auglýsingar heilbrigðisstétta uppfylli samkeppnislög.
    Rétt er að taka fram að verði lögunum breytt í þessa átt munu auglýsingar þessara aðila að sjálfsögðu vera bundnar almennum reglum samkeppnislaga, nr. 8/1993, svo sem VI. kafla laganna um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum sem kemur nú þegar m.a. í veg fyrir að rangar, ófullnægjandi eða villandi upplýsingar birtist í auglýsingum.
    Auglýsandi verður að geta staðið við þær fullyrðingar sem koma fram í auglýsingunni og eru nú þegar takmarkanir í lögum um svokallaðar samanburðarauglýsingar. Upplýsingar í viðkomandi auglýsingum þurfa því að vera réttar, ábyrgar og málefnalegar og er að finna í samkeppnislögum margs konar önnur skilyrði og kröfur til auglýsinga. Samkeppnisstofnun mun því hafa ríkt eftirlitshlutverk með framkvæmd viðkomandi auglýsinga.
    Flutningsmaður telur einnig að fullkomlega sé hægt að treysta heilbrigðisstéttum að standa faglega að upplýsingagjöf sinni svo að sómi sé að og siðareglur virtar.

Enn takmarkanir í siðareglum.
    Áhersla er lögð á að heilbrigðisstarfsmenn eru sem fyrr bundnir af siðareglum sínum sem m.a. setja þeim ýmis skilyrði. Má þar nefna 18. gr. siðareglna lækna en þar segir að læknir megi ekki gefa fyrirheit um undralækningar né heldur gefa í skyn að honum séu kunn lyf eða lækningaaðferðir sem ekki séu á vitorði lækna almennt. Læknir skal og forðast ummæli sem geti skapað óþarfan eða óréttlætanlegan ótta við sjúkdóma eða órökstudda vantrú á læknisstarfi. Skv. 20. gr. siðareglnanna má læknir síðan ekki leyfa notkun á nafni sínu, aðstöðu eða lærdómstitli í auglýsingum um lyf, sjúkravörur eða neinn þann varning sem talinn er lækna eða koma í veg fyrir sjúkdóma eða sjúkdómseinkenni. Ummæli um lyf eða sjúkravörur í faglegu sambandi, greinum eða fyrirlestrum, teljast ekki til auglýsinga, enda sé þar ekki ágóðavon. Þessar kröfur til lækna samkvæmt siðareglum þeirra gera það að verkum að ekki er hætta að læknar séu „keyptir“ með einhverjum hætti, t.d. af lyfjaframleiðendum til að auglýsa þeirra vörur. Lagabreytingin lyti einungis að því að heimila læknum og öðrum heilbrigðisstéttum ásamt heilbrigðisstofnunum að auglýsa starfsemi sína. Í þessu sambandi má einnig minna á 29. gr. siðareglna lækna þar sem lækni er gert skylt að auðsýna öðrum læknum drengskap og háttvísi jafnt í viðtali sem umtali, ráðum sem gerðum og hann skal forðast að kasta rýrð á þekkingu eða störf annarra lækna. Lækni er ósæmandi að eiga þátt í eða stuðla að ráðstöfunum, sem leitt geta til skerðingar á atvinnuöryggi annars læknis. Telji læknir að ástæða sé til íhlutunar vegna brots á siðareglum þessum eða vanhæfni læknis í starfi skal hann snúa sér til landlæknis og stjórnar viðkomandi svæðafélags Læknafélags Íslands. Svipað ákvæði er í siðareglum tannlækna.
    Séu takmarkanir hins vegar á auglýsingum í siðareglum ákveðinna heilbrigðisstétta, eins og í tilviki Tannlæknafélags Íslands, sem með beinum hætti byggjast á umræddu lagaákvæði sem þarf að fella á brott, mælist flutningsmaður til að viðkomandi fagfélag endurskoði þann hluta siðareglna. Flutningsmaður vill einnig hvetja fagfélög heilbrigðisstétta til að endurskoða þær siðareglur sem takmarka um of rétt félagsmanna á upplýsingagjöf, tjáningu og auglýsingum til almennings. Þó er alveg sjálfsagt að fagfélög viðkomandi heilbrigðisstétta meti það hvort þörf sé á einhverjum íþyngjandi takmörkunum á þessum rétti félagsmanna sinna með hliðsjón af siðferði og tilhlýðilegri hegðun stéttarinnar. Siðareglur viðkomandi stétta leggja því margs konar skyldur á viðkomandi einstaklinga sem tryggja að auglýsingar séu hvað eðlilegastar og sanngjarnastar.
    Sé litið til regluumhverfis lögmanna til samanburðar kemur í ljós að í lögum um lögmenn, nr. 77/1998, er ekki að finna ákvæði um bann við auglýsingum. Hins vegar kemur fram í 1. mgr. 42. gr. siðareglna (codex ethicus) Lögmannafélags Íslands að lögmaður megi auglýsa og kynna þjónustu sína svo sem samrýmist góðum lögmannsháttum. Fjallað er um góða lögmannshætti í I. kafla siðareglnanna, en þar er fjallað á fremur almennum nótum um að lögmanni beri að efla rétt og hindra órétt, að lögmaður skuli vera óháður í störfum sínum, að lögmanni beri að virða óskir skjólstæðings síns um að ekki sé fjallað um mál hans á opinberum vettvangi o.s.frv. Í 2. mgr. 42. gr. siðareglna lögmanna kemur auk þess fram að lögmanni sé óheimilt að veita rangar, ófullnægjandi eða villandi upplýsingar í auglýsingum eða með öðrum hætti, svo og að afla sér viðskipta með öðrum aðferðum sem séu sama marki brenndar. Lögmenn hafa því rétt á að auglýsa þjónustu sína og starfsemi bæði samkvæmt lögum og samkvæmt siðareglum Lögmannafélags Íslands sem þeir eru félagsskyldir að.

Breytingar á 17. gr. læknalaga um auglýsingar lækna.
    Til ná fram markmiðinu um afnám takmarkana á upplýsingagjöf heilbrigðisstétta og heilbrigðisstofnana þarf að huga að nokkrum lagabreytingum.
    Í 17. gr. læknalaga, nr. 53/1988, sem yrði að fella á brott, segir í 1. mgr. að lækni sé einungis heimilt að auglýsa læknastarfsemi sína með efnislegum og látlausum auglýsingum þegar hann hefur störf eða breyting verður á aðsetri eða viðtalstíma. Lækni er heimilt að auðkenna sig með nafni, sérgrein, aðsetri, síma og viðtalstíma á dyraspjöldum, nafnspjöldum og lyfseðlum. Skv. 2. mgr. 17. gr. ber læknum og stéttarfélögum þeirra að sporna við því að fjallað sé í auglýsingastíl um lækna og störf þeirra í fjölmiðlum. Á sama hátt ber þeim að vinna á móti því að eftir þeim séu höfð ummæli og viðtöl í fjölmiðlum í auglýsingaskyni. Verði ekki komið í veg fyrir það ber viðkomandi lækni eða stéttarfélagi hans jafnskjótt að leiðrétta það sem kann að vera ofmælt. Öðrum en læknum er bannað að auglýsa starfsemi þeirra eða stuðla að því á annan hátt að sjúklingar leiti til ákveðins eða ákveðinna lækna. Ákvæði 1. mgr. 17. gr. laganna var breytt með 24. gr. laga nr. 30/2002, um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu. Þessi lagabreyting var gerð vegna tilskipunar 2000/31/EB frá 8. júní 2000. Ákvæðið var áður m.a. þannig að lækni var einungis heimilt að auglýsa starfsemi sína með efnislegum og látlausum auglýsingum í blöðum sem birta má í hæsta lagi þrisvar sinnum þegar hann hefur störf eða breyting verður á aðsetri eða viðtalstíma. Markmið breytingarinnar var það að ekki skyldi leggja tálmanir við því að læknar nýti sér rafræna þjónustu við beinar eða óbeinar auglýsingar eins og segir í athugasemdum þess frumvarps. Það þarf því að fella á brott 17. gr. læknalaga, nr. 53/1988, en með því verður læknum heimilt að auglýsa læknastarfsemi sína. Í 17. gr. siðareglna lækna (codex ethicus) segir að læknir megi auglýsa starfsemi sína að því marki sem landslög leyfa. Siðareglur lækna koma því ekki í veg fyrir auglýsingar lækna þótt þar megi finna takmarkanir á þeim eins og áður hefur verið fjallað um. Við brottfall 17. gr. læknalaga opnast sömuleiðis fyrir auglýsingar þeirra heilbrigðisstétta sem vísa til læknalaga í sérlögum sínum eða siðareglum.

Breytingar á 23. gr. læknalaga um auglýsingar heilbrigðisstofnana.
    Með sömu röksemdum og reifuð eru hér að framan þyrfti að fella brott 2. mgr. 23. gr. læknalaga, nr. 53/1988, en í ákvæðinu segir að bannaðar séu auglýsingar um sjúkrahús og hvers konar heilbrigðisstofnanir fram yfir nafn og stað. 3. mgr. 23. gr. laganna hljóðar þannig að auglýsingar um lyf, lækningaáhöld, sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir eru þó leyfðar í blöðum og tímaritum sem gefin eru út fyrir heilbrigðisstéttir. Þetta er undantekningarregla frá 2. mgr. 23. gr. sömu laga. En þar sem lagt er til að 2. mgr. 23.gr. laganna verði felld brott er óþarfi að minnast á sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir í undantekningarreglu 3. mgr. 23. gr. laganna.

Breytingar á 11. gr. tannlæknalaga.
    Hið sama gildir um tannlækna og um lækna þegar kemur að réttinum til auglýsinga. Hins vegar er ekki gengið eins langt og í læknalögum þar sem það er ekki óheimilt að stuðla að því að sjúklingur leiti til tiltekins tannlæknis.
    Flutningsmaður telur sömu röksemdir vera fyrir afnámi auglýsingabanns tannlækna og fyrir afnámi á auglýsingabanni hjá læknum. Reyndar eru ríkari röksemdir fyrir rétti tannlækna til auglýsinga þar sem gjaldskrá þeirra er frjáls og samkeppni ríkir gagnvart þeirra þjónustu. Það eru því ríkir almannahagsmunir í húfi að almenningur geti fengið upplýsingar hvar sé að finna bestu og hagkvæmustu þjónustuna.
    Það þarf því að huga að breytingum á tannlæknalögum, nr. 38/1985. Fella þyrfti brott 11. gr. laganna en þar segir að tannlæknum séu óheimilar hvers konar auglýsingar um starfsemi sína sem tannlæknar. Við opnun tannlæknastofu má þó auglýsa það með látlausum auglýsingum. Tannlæknum og stéttarfélagi þeirra ber að vinna gegn því að eftir þeim séu birt ummæli eða samtöl eða um þá ritaðar greinar í blöð eða tímarit í auglýsingaskyni. Verði ekki komið í veg fyrir það ber þeim eða stéttarfélagi þeirra jafnskjótt að leiðrétta það sem ofmælt kann að hafa verið segir í 11. gr.
    Í 9. gr. laga Tannlæknafélags Íslands (TFÍ) er að finna reglu þess efnis að félagið samþykki siðareglur (codex ethicus) fyrir stéttina og er hver félagsmaður skyldur til að fylgja ákvæðum þeirra. Reglan um bann við auglýsingum er svo útfærð nánar í siðareglunum í kafla sem ber yfirskriftina reglur um auglýsingar í handbók TFÍ.
    Hið sama gildir um lög um tannlækningar og á við um læknalög, þ.e. að þeim var breytt með lögum nr. 30/2002, um rafræn viðskipti, en lögum um tannlækningar var breytt með 25. gr. laga nr. 30/2002. Ákvæðið var m.a. áður þannig að tannlæknum voru óheimilar hvers konar auglýsingar um starfsemi sína sem tannlæknar. Við opnun tannlæknastofu mátti þó auglýsa það með látlausri auglýsingu í blöðum sem mest mátti birta þrisvar sinnum. Þessi lagabreyting með lögum nr. 30/2002 var gerð í þeim tilgangi að ekki væru tálmanir við því að tannlæknar nýttu sér rafræna þjónustu við beinar eða óbeinar auglýsingar eins og fram kemur í athugasemdum þess frumvarps.

Ríkt samráð við hagsmunaaðila.
    Flutningsmaður leggur ríka áherslu á að við gerð lagafrumvarps skuli heilbrigðisráðherra hafa ríkt samráð við helstu hagsmunaaðila, svo sem Læknafélag Íslands, Tannlæknafélag Íslands, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Félag íslenskra sjúkraþjálfara, Þroskaþjálfafélag Íslands, Sjúkraliðafélag Íslands, Neytendasamtökin og landlækni. Einnig skal leitast við að hafa samráð við aðra sem láta sig þessi mál varða, svo sem samtök sjúklinga og Samkeppnisstofnun.