Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 538. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 814  —  538. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi, nr. 16/2000.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)



1. gr.

    1. mgr. 5. gr. laganna orðast svo:
    Í upplýsingakerfið má skrá eftirfarandi upplýsingar um einstaklinga:
     a.      kenninafn, eiginnafn með vísun til hugsanlegrar sérskráningar falskra nafna,
     b.      sérstök varanleg líkamleg einkenni,
     c.      fæðingarstað, fæðingardag og -ár,
     d.      kynferði,
     e.      ríkisfang,
     f.      hvort viðkomandi er vopnaður,
     g.      hvort viðkomandi er ofbeldishneigður,
     h.      hvort viðkomandi er á flótta,
     i.      ástæðu fyrir skráningu,
     j.      aðgerðir sem farið er fram á.

2. gr.

    Við b-lið 1. mgr. 6. gr. laganna bætast tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:
     3.      vegna óútfylltra skilríkja sem hefur verið stolið, hafa verið seld ólöglega eða hafa horfið,
     4.      vegna útgefinna persónuskilríkja sem hefur verið stolið, hafa verið seld ólöglega eða hafa horfið.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með lögum nr. 16/2000, um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi, voru settar reglur um starfrækslu staðbundins hluta kerfisins hér á landi sem nauðsynlegar voru vegna þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu. Af hálfu ráðherraráðs Evrópusambandsins var íslenskum stjórnvöldum tilkynnt, skv. 8. gr. 2 (a) samnings sem ráð Evrópusambandsins og lýðveldið Ísland og konungsríkið Noregur gerðu með sér um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna, um samþykkt gerðar frá 29. apríl sl., „Council Regulation concerning the introduction of some new functions for the Schengen Information System, including in the fight against terrorism“. Um er að ræða minni háttar breytingar á ákvæðum Schengen-samningsins um upplýsingakerfið sem lagðar eru til vegna þeirra samræmdu reglna sem gilda í Schengen-samstarfinu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Ákvæðið fjallar um þær upplýsingar um einstaklinga sem skrá má í Schengen-upplýsingakerfið. Hér er lagt til að felldur verði niður núgildandi c-liður 1. mgr. ákvæðisins sem kveður á um að skrá skuli fyrsta bókstaf annars eiginnafns. Þá verði heimilt að skrá upplýsingar um þá einstaklinga sem eru á flótta. Sem fyrr er þessi upptalning tæmandi.

Um 2. gr.

    Hér er lagt til að við b-lið 1. mgr. 6. gr. laganna bætist nýir töluliðir sem kveða á um upplýsingar sem skrá má um einstaklinga þegar synja á útlendingi um komu til landsins vegna endurkomubanns sem enn er í gildi á grundvelli brottvísunar, sbr. 96. gr. Schengen- samningsins. Skv. b-lið 1. mgr. 10. gr. laganna hefur Útlendingastofnun heimild til þess að bregðast við þeim upplýsingum sem skráðar eru á grundvelli framangreinds b-liðar 1. mgr. 6. gr. Um er að ræða upplýsingar um óútfyllt skilríki og útgefin persónuskilríki sem hefur verið stolið, hafa verið seld ólöglega eða hafa horfið. Með persónuskilríkjum er átt við vegabréf, nafnskírteini og ökuskírteini.
    

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 16/2000,
um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lagaákvæðum um hvaða upplýsingar má skrá um einstakling í Schengen-upplýsingakerfi íslenskra stjórnvalda. Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið leiði til útgjalda fyrir ríkissjóð verði það að lögum.