Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 289. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 922  —  289. mál.
Svarfélagsmálaráðherra við fyrirspurn Sigurlínar Margrétar Sigurðardóttur og Gunnars Örlygssonar um stöðu fatlaðra kvenna.

     1.      Hefur verið gerð rannsókn á stöðu fatlaðra kvenna hér á landi með tilliti til menntunar og atvinnumöguleika?
    Hér á landi hefur ekki verið gerð yfirgripsmikil rannsókn til að kortleggja stöðu fatlaðra kvenna í íslensku samfélagi með tilliti til menntunar og atvinnumöguleika. Hins vegar hefur fræðifólk unnið ýmis rannsóknarverkefni um fatlaðar konur sem hafa beinst að mörgum ólíkum þáttum í lífi þeirra, m.a. menntun og atvinnu. Er hér einkum vísað til rannsókna Rannveigar Traustadóttur, prófessors við félagsvísindadeild Háskóla Íslands, sem hefur ásamt nemendum sínum og samstarfsfólki unnið að fjölmörgum rannsóknarverkefnum um fatlaðar konur um margra ára skeið, m.a. um menntun og atvinnu. Flestar fötluðu kvennanna sem hafa verið þátttakendur í þessum rannsóknum hafa verið með þroskahömlun en konur með aðrar skerðingar hafa einnig verið þátttakendur.
    Mikilvægt er að benda á að niðurstöður rannsóknanna byggjast á viðtölum við fatlaðar konur á ýmsum aldri og talsvert er síðan sumar þeirra voru í skóla, en aðrar eru tiltölulega nýútskrifaðar úr skólakerfinu.
    Samkvæmt íslenskum lögum gildir sú meginregla að allir nemendur, einnig fatlaðir, gangi í sama skóla. Þrátt fyrir þetta hafa langflestar fötluðu kvennanna sem hafa tekið þátt í rannsóknum hér á landi fengið menntun sína í sérskólum eða sérdeildum almennra skóla. Aðeins örfáar þeirra hafa átt stutta viðdvöl í almennum bekk grunnskóla. Misjafnt er hvernig þær bera almenna skólanum söguna. Sumar lýsa ánægju með veruna þar og voru afar ósáttar við að vera settar í sérskóla. Aðrar kvarta yfir því hversu erfitt það hefði verið að fylgja hinum nemendunum eftir og að stuðningur hefði ekki verið nægur. Örfáar kvennanna hafa lokið grunnskólaprófi frá almennum skóla, hinar luku grunnskólaárum sínum í sérskólum.
    Flestar töldu að þær hefðu ekki fengið nægan undirbúning til að fara út á vinnumarkaðinn eftir að hafa lokið grunnskólanum og leituðu eftir áframhaldandi námi. Ekki var um marga valkosti að ræða. Þær sem bjuggu á höfuðborgarsvæðinu áttu þrjá möguleika. Í fyrsta lagi tveggja ára framhaldsnám við sama sérskóla og þær höfðu stundað grunnskólanám (úrræði sem ekki er lengur í boði). Í öðru lagi iðnnám í sérdeild almenns iðnskóla. Í þriðja lagi nám í framhaldsskóla, en framhaldsskólarnir hafa sumir sérhæft sig til að taka á móti ákveðnum hópum fatlaðra nemenda, svo sem hreyfihömluðum og heyrnarskertum, og núna nemendum með þroskahömlun. Aðeins hluti kvennanna sem hafa tekið þátt í rannsóknunum hélt áfram námi eftir grunnaskóla, hinar fóru á verndaða vinnustaði eða hæfingarstöðvar þar sem þær fengu vinnuþjálfun.
    Örfáar kvennanna fóru einn vetur í almennan húsmæðraskóla og létu vel af því.
    Í rannsóknum þessum hefur komið fram að námsleiðir sem fötluðum nemendum standa til boða eru oft miðaðar við afar hefðbundin kynhlutverk og þessum nemendum þannig beint í hefðbundnar karlagreinar (svo sem smíðar og málmiðnir) og kvennagreinar (sauma). Oftast voru litlir sem engir möguleikar á fjölbreyttu námsvali.
    Fáir fatlaðir nemendur skila sér í háskóla hér á landi. Aðgengi að þeim, bæði félagslegt og að byggingum, hefur reynst fötluðum erfitt. Nú er verið að kanna aðstæður fatlaðra í Háskóla Íslands en niðurstöður liggja ekki fyrir og ekki er hugað sérstaklega að konum.
    Fatlaðir eiga almennt erfiðara með að fá vinnu en ófatlaðir. Þetta á ekki síst við um fatlaðar konur en erlendar rannsóknir sýna að þær eiga mun erfiðara með að fá vinnu en fatlaðir karlar. Ef þær fá vinnu eru þær líklegri að vera í hlutastarfi en fatlaðir karlar í fullu starfi.
    Atvinnumál þeirra þroskaheftu kvenna sem hafa tekið þátt í rannsóknum Rannveigar Traustadóttur og samstarfsfólks hennar endurspegla að fatlaðar konur standa almennt illa á vinnumarkaði og margar hverjar eiga erfitt með að fá vinnu á almennum vinnustöðum, einkum virðast konur með þroskahömlun standa illa. Flestar þeirra vinna á vernduðum vinnustöðum eða sérstökum vinnuþjálfunarstöðum/hæfingarstöðum fyrir fatlaða. Aðeins örfáar þeirra unnu á almennum vinnumarkaði, oftast í hlutastarfi. Langflestar fötluðu kvennanna sem hafa tekið þátt í rannsóknum um atvinnumál eiga það sameiginlegt að vinna við einhæf láglaunastörf í iðnaði eða þjónustu. Þær fáu konur sem unnu á venjulegum vinnustöðum voru mun ánægðari en þær sem voru í verndaða kerfinu, bæði með vinnuna og með launin.
    Nýtt úrræði í atvinnumálum fatlaðs fólks hefur litið dagsins ljós og nefnist það „atvinna með stuðningi“. Hér er um að ræða aðferð við að aðstoða fatlað fólk við að finna og halda vinnu á almennum vinnumarkaði. Þetta úrræði hefur reynst mjög vel hér á landi eins og erlendis þar sem úrræðið hefur verið notað um margra ára skeið. Hér er um mjög jákvæða nýjung að ræða sem mun nýtast fötluðum konum ekki síður en körlum.

     2.      Stendur til að gera slíka rannsókn á næstunni?

    Þær rannsóknir sem vitnað er til hér að framan gefa mjög góða innsýn í afmarkaða þætti en ekki tölfræðilegt heildaryfirlit. Það er því ljóst að full ástæða er til að vinna rannsókn sem gæfi heildaryfirlit yfir stöðu mála á Íslandi og það verður skoðað í ráðuneytinu hvernig best verði staðið að slíkri rannsókn eða úttekt.

     3.      Hver er staða fatlaðra kvenna almennt hvað varðar menntun og atvinnuþátttöku?

    Í stuttu máli má almennt segja að reynsla fatlaðra kvenna (einkum þroskaheftra) af hinu almenna skólakerfi hafi einkennst af því að kerfið hafi ekki verið í stakk búið til að sinna þeim vel. Í gegnum tíðina hefur þeim oftast verið vísað í sérúrræði sem einungis hefur verið ætlað fötluðum og kerfið hefur brugðist því hlutverki að veita þeim menntun sem undirbjó þær til daglegrar þátttöku í leik og starfi í íslensku samfélagi. Afleiðingin er sú að yfirgnæfandi meiri hluti þeirra hefur átt í verulegum erfiðleikum á vinnumarkaði. Skólakerfið sinnir þó í vaxandi mæli fötluðum nemendum (af báðum kynjum) í almennu skólastarfi á öllum skólastigum. Flestum rannsóknum hérlendis ber þó saman um að talsvert vanti á og að auki er afar lítið gert til að styrkja sérstaklega fatlaðar stúlkur og konur til að vinna gegn þeirri tvöföldu mismunun sem þær búa við annars vegar sem konur og hins vegar sem fatlaðir einstaklingar.
    Í stuttu máli má segja að atvinnuþátttaka fatlaðra kvenna einkennist af einhæfum láglaunastörfum. Flestar eiga í verulegum erfiðleikum með að fá vinnu á venjulegum vinnustöðum. Margar eru í störfum í verndaða kerfinu sem hefur það markmið að þjálfa þær til starfa á almennum vinnumarkaði. Það gengur hins vegar afar hægt og illa og flestum þeirra finnst sem þær sitji fastar í verndaða kerfinu. Það vekur athygli að útilokað er fyrir flestar kvennanna að sjá sér farborða af þeim launum sem þeim eru greidd fyrir vinnuna í verndaða kerfinu. Líkt og almenna menntakerfið hefur hinn almenni vinnumarkaður sögulega séð ekki sinnt fötluðum konum.