Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 643. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 974 —  643. mál.
Frumvarp til lagaum Ríkisútvarpið sf.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Eignaraðild.

    Ríkisútvarpið sf. er sameignarfélag í eigu íslenska ríkisins. Sala félagsins, hluta þess, sameining þess við önnur félög eða slit þess eru óheimil án samþykkis Alþingis. Félagið skal vera sjálfstæður skattaðili.
    Íslenska ríkið er í einfaldri ábyrgð fyrir öllum skuldbindingum Ríkisútvarpsins sf.

2. gr.
Leyfi til útvarps.

    Ríkisútvarpið sf. hefur leyfi til útvarps á þeim rásum og á þeim tíðnisviðum sem það fær til umráða eða sem því kann síðar að verða úthlutað.

II. KAFLI
Hlutverk og skyldur.
3. gr.
Hlutverk.

    Hlutverk Ríkisútvarpsins sf. er rekstur hvers konar útvarpsþjónustu í almannaþágu, bæði hljóðvarps og sjónvarps, eftir því sem nánar er ákveðið í lögum, einkum 3. mgr. þessarar greinar, og stofnsamningi.
    Enn fremur er félaginu heimilt að standa að stofnun og gerast eignaraðili að öðrum félögum og fyrirtækjum, sbr. 6. gr.
    Útvarpsþjónusta í almannaþágu felur í sér eftirfarandi:
     1.      Að leggja rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð.
     2.      Að senda út til alls landsins og næstu miða a.m.k. eina hljóðvarps- og sjónvarpsdagskrá árið um kring. Enn fremur að birta valda hluta efnis síns, breytta eða óbreytta, ásamt öðru þjónustuefni í breyttu eða óbreyttu formi með öðrum miðlum, þ.m.t. að gera efni aðgengilegt almenningi með þeim hætti að hver og einn geti fengið aðgang að verkinu á þeim stað og á þeirri stundu er hann sjálfur kýs.
     3.      Að framleiða og dreifa hvers konar útvarpsefni fyrir sjónvarp og hljóðvarp á sviði fréttamiðlunar, fræðslu, lista og afþreyingar. Efnið skal fullnægja eðlilegum kröfum almennings um gæði og fjölbreytni. Beitt skal hverjum þeim tæknilegu aðferðum sem tiltækar eru hverju sinni, þar á meðal hvort sem er hliðrænum eða stafrænum aðferðum.
     4.      Að veita almenna fræðslu og gera dagskrárþætti er snerta málefni lands og þjóðar sérstaklega og með þeim hætti tryggja opinbera og hlutlæga upplýsingagjöf um íslenskt samfélag.
     5.      Að halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana. Gæta skal fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð.
     6.      Að flytja fjölbreytt skemmtiefni við hæfi fólks á öllum aldri. Sérstaklega skal þess gætt að hafa á boðstólum fjölbreytt efni við hæfi barna, jafnt í hljóðvarpi og sjónvarpi.
     7.      Að veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga fréttaþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar og vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst eru á baugi hverju sinni eða almenning varða.
     8.      Að flytja efni á sviði lista, vísinda, sögu, íþrótta og annars tómstundastarfs.
     9.      Að miða útvarpsefni við fjölbreytni íslensks þjóðlífs, þar á meðal að sinna eðlilegum þörfum minnihlutahópa.
     10.      Að veita alla þá þjónustu sem unnt er með tækni útvarpsins og þjóðinni má að gagni koma.
     11.      Að koma upp aðstöðu til dagskrárgerðar og útvarps utan höfuðborgarsvæðisins.
     12.      Að halda uppi nauðsynlegri öryggisþjónustu á sviði útvarps.
     13.      Að eiga eða leigja, sem og að reka, hvers konar búnað og eignir, þar á meðal tæknibúnað og fasteignir sem nauðsynlegar eru fyrir starfsemi félagsins.
     14.      Að taka saman, gefa út og dreifa hvers konar efni, án endurgjalds eða gegn endurgjaldi, sem stuðlar að því að tilgangi félagsins verði náð, svo sem ritað mál, hljómplötur, hljóðsnældur, geisladiska, myndbönd og margmiðlunarefni.
     15.      Að sjá um að frumflutt dagskrárefni félagsins verði varðveitt til frambúðar. Skal félagið hafa til útláns eða sölu valið dagskrárefni sem flutt hefur verið, enda sé gengið frá samningum við aðra rétthafa efnis um að slíkt sé heimilt.
     16.      Að standa fyrir, taka þátt í eða styðja tónleika og annað skemmtanahald sem tengist dagskrárefni.
     17.      Að ávaxta þá fjármuni félagsins sem lausir kunna að vera hverju sinni.
     18.      Að gera hvaðeina sem stjórn félagsins telur óhjákvæmilegt eða stuðlar að því að tilgangi félagsins verði náð.
    Að fengnu sérstöku samþykki menntamálaráðherra skal Ríkisútvarpið sf. veita aðra þjónustu í almannaþágu sem tengist með eðlilegum hætti aðalþjónustu félagsins.

4. gr.
Efni á erlendu máli.

    Efni á erlendu máli, sem sýnt er í sjónvarpsdagskrá Ríkisútvarpsins sf., skal jafnan fylgja íslenskt tal eða texti á íslensku eftir því sem við á hverju sinni. Það á þó ekki við þegar fluttir eru erlendir söngtextar eða þegar dreift er viðstöðulaust um gervitungl og móttökustöð fréttum eða fréttatengdu efni sem sýnir að verulegu leyti atburði er gerast í sömu andrá. Við þær aðstæður skal, eftir því sem kostur er, látin fylgja endursögn eða kynning á íslensku á þeim atburðum sem gerst hafa. Skal lögð áhersla á að allt tal og texti sé á lýtalausu íslensku máli.

III. KAFLI
Önnur starfsemi.
5. gr.
Samvinna um dagskrárgerð o.fl.

         Ríkisútvarpið sf. skal kosta kapps um að hafa samvinnu við aðra aðila um dagskrárgerð og útsendingar.
    Ríkisútvarpinu sf. er heimilt að leigja öðrum aðilum afnot af tækjabúnaði sínum til útsendingar.

6. gr.
Þátttaka í nýrri starfsemi.

    Ríkisútvarpinu sf. er heimilt að standa að annarri starfsemi sem tengist starfsemi félagsins á sviði dagskrárgerðar eða til nýtingar á tæknibúnaði þess, sérþekkingu starfsmanna þess og aðstöðu þess að öðru leyti, þar á meðal á sviði fjarskipta og margmiðlunar eða öðrum sviðum er fjölmiðlun tengjast. Getur félagið gert þetta hvort sem er innan eigin vébanda eða með því að standa að öðrum fyrirtækjum í þessu skyni sem félagið á eitt eða með öðrum aðilum. Undir ákvæði þessarar greinar fellur m.a. hvers konar nýsköpunarstarf á þeim sviðum sem hér um ræðir.
    Halda skal fjárreiðum alls reksturs, sem félagið kann að verða aðili að samkvæmt heimild þessarar greinar, aðskildum frá fjárreiðum reksturs skv. 1. mgr. 3. gr. Er félaginu óheimilt að nota fjármuni frá rekstri skv. 1. mgr. 3. gr. til þess að greiða niður kostnað af rekstri samkvæmt þessari grein, nema um sé að ræða starfsemi sem flokkast undir útvarp í almannaþágu.

IV. KAFLI
Stjórnskipulag Ríkisútvarpsins sf.
7. gr.
Umboð menntamálaráðherra.

    Menntamálaráðherra fer með eignarhlut íslenska ríkisins í Ríkisútvarpinu sf.
    Um réttindi og skyldur Ríkisútvarpsins sf. skal mælt nánar fyrir um í stofnsamningi félagsins. Stofnsamningur og breytingar á honum skulu birtar í Stjórnartíðindum.

8. gr.
Stjórn Ríkisútvarpsins sf.

    Stjórn félagsins skal kosin á aðalfundi sem haldinn skal fyrir lok maímánaðar ár hvert. Hana skulu skipa fimm menn og jafnmargir til vara. Áður en kosið er til stjórnar á aðalfundi skulu fimm menn kjörnir hlutbundinni kosningu á Alþingi ásamt jafnmörgum til vara og skulu þeir kosnir í stjórn félagsins.
    Stjórnarmenn skulu vera lögráða, bú þeirra hafi ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta og hafa óflekkað mannorð. Stjórnarmenn skulu í störfum sínum eingöngu hafa að leiðarljósi hagsmuni Ríkisútvarpsins sf., fyrst og fremst skyldur þess til útvarps í almannaþágu. Þeir mega ekki, hvorki beint né óbeint, inna af hendi nokkurt starf, taka við greiðslu eða hafa nokkurra hagsmuna að gæta í öðrum fjölmiðlafyrirtækjum eða fjölmiðlatengdum fyrirtækjum sem leitt geta til árekstra við hagsmuni Ríkisútvarpsins sf.

9. gr.
Starfssvið stjórnarinnar.

    Starfssvið stjórnar Ríkisútvarpsins sf. nær sérstaklega til eftirfarandi þátta í starfi félagsins:
     a.      Að ráða útvarpsstjóra og leysa hann frá störfum, ákveða laun hans og önnur starfskjör.
     b.      Að taka ákvarðanir um lán til þarfa félagsins og taka ábyrgð á greiðslum og öðrum skuldbindingum í sama skyni. Að því leyti sem nýjar skuldbindingar og ábyrgðir fara fram úr 10% af veltu (rekstrartekjum í lok næstliðins árs) á ári hverju þarf stjórn félagsins að leita samþykkis eiganda félagsins, sbr. 1. mgr. 7. gr.
     c.      Að taka allar meiri háttar ákvarðanir um rekstur félagsins, þ.e. ákvarðanir sem ekki falla undir daglegan rekstur, ýmist að eigin frumkvæði eða að fengnum tillögum útvarpsstjóra eða annarra starfsmanna. Meðal slíkra ákvarðana má nefna kaup og sölu hluta í öðrum félögum, nýja starfsemi á vegum félagsins og að leggja niður tiltekna starfsemi sem félagið hefur haft með höndum, sem og önnur þýðingarmestu verkefni félagsins.
     d.      Að samþykkja fyrir fram fjárhagsáætlun fyrir hvert starfsár.
     e.      Að gefa út reglur um fréttaflutning og auglýsingar í útvarpi, þar á meðal auglýsingatíma, og gæta þess að reglum sé fylgt.
    Að öðru leyti en að framan greinir ákveðst starfssvið stjórnar í stofnsamningi Ríkisútvarpsins sf.

10. gr.
Útvarpsstjóri.

    Útvarpsstjóri er framkvæmdastjóri Ríkisútvarpsins sf. og skal uppfylla skilyrði 2. mgr. 8. gr. laga þessara. Hann er jafnframt æðsti yfirmaður allrar dagskrárgerðar.
    Útvarpsstjóri ræður aðra starfsmenn Ríkisútvarpsins sf.

V. KAFLI
Tekjur Ríkisútvarpsins sf.
11. gr.
Tekjustofnar.

    Tekjustofnar Ríkisútvarpsins sf. eru sem hér segir:
     1.      Samkvæmt sérstöku gjaldi sem skattstjórar leggja á samhliða álagningu opinberra gjalda skv. 93. gr. laga nr. 90/2003. Gjaldskylda hvílir á þeim einstaklingum sem skattskyldir eru skv. 1. gr. og þeim lögaðilum sem skattskyldir eru og bera sjálfstæða skattaðild skv. 2. gr. laga nr. 90/2003, öðrum en dánarbúum, þrotabúum og þeim lögaðilum sem undanþegnir eru skattskyldu skv. 4. gr. sömu laga. Skal gjaldið nema 13.500 kr. ár hvert á hvern einstakling og lögaðila. Undanþegnir gjaldinu eru þeir einstaklingar sem ekki skulu sæta álagningu sérstaks gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra eða skulu fá það gjald fellt niður skv. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra.
     2.      Tekjur af auglýsingum, kostun og sölu eða leigu á vörum sem tengjast dagskrárefni þess í útvarpi eða í öðrum miðlum.
     3.      Aðrar tekjur sem Alþingi kann sérstaklega að ákveða.
    Við álagningu, innheimtu, eftirlit og viðurlög fer samkvæmt ákvæðum VIII.–XIV. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, að frátöldu ákvæði 98. gr.
    Hinn 15. febrúar og 15. maí ár hvert skal fjármálaráðuneytið greiða Ríkisútvarpinu fyrir fram í hvort sinn fjárhæð sem svarar til áætlaðs fjórðungs heildartekna af gjaldi ársins samkvæmt grein þessari.
    Stjórn félagsins skal setja gjaldskrár fyrir auglýsingabirtingu og aðra skylda tekjustofna.

VI. KAFLI
Ýmis ákvæði.
12. gr.
Verkefni samkvæmt óskum stjórnvalda.

    Nú óska stjórnvöld eftir því að Ríkisútvarpið sf. leggi í framkvæmdir eða rekstur til almannaheilla í öryggisskyni fyrir landsmenn eða vegna byggðasjónarmiða sem ljóst er að ekki skilar arði, og skal þá gera um það samning milli ríkisstjórnarinnar og Ríkisútvarpsins sf.

13. gr.
Gildistaka laganna o.fl.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Með lögum þessum falla úr gildi lög um Ríkisútvarpið, nr. 122/2000, að undanteknum eftirtöldum ákvæðum: 12., 13., 14. og 16. gr., sem falla úr gildi 1. janúar 2008, og 15., 17. og 18. gr., sem falla úr gildi 1. janúar 2011. Heiti þeirra laga verður: Lög um útvarpsgjald og innheimtu þess. Skulu lögin gefin út svo breytt með nýjum greinanúmerum.
    Þar sem í öðrum lögum er vísað til Ríkisútvarpsins er átt við Ríkisútvarpið sf.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
Stofnun sameignarfélags um Ríkisútvarpið.

    Með lögum þessum er stofnað sameignarfélag um Ríkisútvarpið. Skal heiti þess vera Ríkisútvarpið sf. Félagið skal skráð hjá sýslumanninum í Reykjavík. Frestur til þess að setja félaginu sérstakan stofnsamning og halda stofnfund er 15 dagar eftir að Alþingi hefur kosið menn til setu í stjórn. Ríkissjóður leggur allar eignir, réttindi, viðskiptavild, skuldir og skuldbindingar Ríkisútvarpsins til sameignarfélagsins.
    Menntamálaráðherra ákveður heildarfjárhæð stofnfjár í Ríkisútvarpinu sf. Við stofnun félagsins skal lögð fram a.m.k. 5.000.000 kr. fjárhæð og skal hún greiðast af ríkissjóði eigi síðar en hálfum mánuði eftir skráningu félagsins hjá sýslumanninum í Reykjavík.
    Við gildistöku laga þessara tekur sameignarfélagið við rekstri og starfsemi Ríkisútvarpsins, og um leið er Ríkisútvarpið lagt niður. Tekur félagið þá m.a. við lögbundnu leyfi Ríkisútvarpsins til útvarpsreksturs.
    Ríkisútvarpið sf. skal yfirtaka þær skyldur sem Ríkisútvarpið hefur undirgengist í samningum við þriðju aðila.

II.
Réttindi starfsmanna.

    Þegar stofnunin Ríkisútvarpið verður lögð niður fer um réttindi og skyldur starfsmanna hennar eftir lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum, og lögum nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, eftir því sem við á.
    Fastráðnir starfsmenn Ríkisútvarpsins skulu eiga rétt á störfum hjá hinu nýja félagi og skulu þeim boðin störf hjá því, sambærileg þeim er þeir áður gegndu hjá stofnuninni. Þó fer um biðlaunarétt þeirra eftir lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
    Nú hefur félagið boðið fastráðnum starfsmanni stofnunarinnar sambærilega stöðu hjá félaginu með eigi lakari launum en hann áður naut, og fellur biðlaunaréttur þá niður ef starfsmaður hafnar boðinu eða hefur ekki samþykkt það innan sex vikna frá því honum barst boðið.
    Ef fastráðinn starfsmaður stofnunarinnar, sem ráðinn hefur verið hjá félaginu samkvæmt ákvæðum 1. og 2. mgr., fær eigi að síður greidd biðlaun eða bætur fyrir missi biðlauna úr ríkissjóði vegna formbreytingar þeirrar á starfsemi stofnunarinnar, sem lög þessi kveða á um, fellur sjálfkrafa niður biðlaunaréttur hans hjá félaginu.
    Fastráðinn starfsmaður stofnunarinnar, sem áunnið hefur sér rétt til lífeyrisgreiðslna samkvæmt ákvæðum laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og hefur ráðist til starfa hjá félaginu með óskertum launum skv. 1. og 2. mgr. þessarar greinar, heldur þeim réttindum gagnvart félaginu en á ekki jafnframt rétt til greiðslu lífeyris úr sjóðnum meðan hann heldur óskertum launum sínum hjá félaginu.
    Þeir starfsmenn Ríkisútvarpsins sem við gildistöku laga þessara eiga aðild að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins skulu halda rétti til aðildar að henni.

III.
Fyrsta stjórn félagsins.

    Eigi síðar en 15 dögum eftir að Alþingi kýs menn til setu í stjórn félagsins, sbr. 8. gr., skal menntamálaráðherra halda stofnfund Ríkisútvarpsins sf. þar sem jafnt stjórn sem stjórnarformaður félagsins skal kjörin. Þar til skipuð hefur verið stjórn fyrir félagið er menntamálaráðherra í fyrirsvari fyrir félagið sem eini stjórnarmaður þess.

IV.
Lok á umboði útvarpsráðs.

    Umboð aðalmanna og varamanna í útvarpsráði, sem síðast voru kjörnir af Alþingi skv. 19. gr. útvarpslaga, nr. 68/1985, með síðari breytingum, fellur niður við gildistöku laga þessara.

V.
Álagning og innheimta útvarpsgjalds.

    Megintekjustofnar Ríkisútvarpsins sf. til og með 31. desember 2007 eru gjöld fyrir útvarpsafnot, gjöld fyrir auglýsingar í hljóðvarpi og sjónvarpi og öðrum miðlum og aðrir tekjustofnar sem Alþingi kann að ákveða. Menntamálaráðherra skal staðfesta útvarpsgjöld að fengnum tillögum útvarpsstjóra.
    Eftir 1. janúar 2008 fer um tekjur félagsins skv. 11. gr. laga þessara.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið á vegum menntamálaráðuneytisins.
    Á 125. löggjafarþingi lagði menntamálaráðherra fram frumvarp til nýrra útvarpslaga (125. löggjafarþing 1999–2000, þskj. 241, 207. mál). Frumvarpið var samþykkt sem lög frá Alþingi með nokkrum breytingum, sem menntamálanefnd Alþingis lagði til, útvarpslög nr. 53 17. maí 2000 (125. löggjafarþing 1999–2000, þskj. 1217, 207. mál, Stjórnartíðindi A 2000, bls. 130). Með hinum nýju útvarpslögum voru felld úr gildi útvarpslög nr. 68/1985, með síðari breytingum, að undanteknum ákvæðum laganna sem varða Ríkisútvarpið. Heiti þeirra laga varð lög um Ríkisútvarpið og voru þau gefin út svo breytt með nýjum greinanúmerum sem lög um Ríkisútvarpið, nr. 122 30. júní 2000.
    Útvarpslög nr. 53/2000 mynda almennan ramma um alla útvarpsstarfsemi í landinu, bæði sjónvarp og hljóðvarp. Helsta tilefni endurskoðunar útvarpslaganna var setning tilskipunar Evrópusambandsins 97/36/EB sem breytti sjónvarpstilskipun sambandsins 89/552/EBE. Ýmis nýmæli fólust í hinni nýju sjónvarpstilskipun og vísast um það efni til frumvarpsins til laga nr. 53/2000. Þá voru gerðar á útvarpslögunum ýmsar breytingar sem ekki leiddi beinlínis af tilskipun 97/36/EB.
    Í áliti menntamálanefndar, þar sem mælt var með samþykkt útvarpslagafrumvarpsins, kom fram það álit nefndarinnar að nauðsynlegt væri að endurskoða lagaákvæði um Ríkisútvarpið og endurmeta hlutverk þess í breyttu fjölmiðlaumhverfi. Lagði nefndin áherslu á að þeirri vinnu yrði hraðað. Menntamálaráðuneytið hefur um nokkurt skeið unnið að tillögum til breytinga á lagaákvæðum um Ríkisútvarpið og flytur menntamálaráðherra nú frumvarp þetta í framhaldi af þeirri vinnu og í samræmi við ósk menntamálanefndar Alþingis. Því frumvarpi sem hér liggur fyrir og útvarpslögum nr. 53/2000 er ætlað að mynda heildarlöggjöf um útvarpsmálefni hér á landi.
         Útvarp er í frumvarpi þessu notað sem samheiti fyrir hljóðvarp og sjónvarp, eins og gert er í a-lið 1. gr. útvarpslaga.
    Skal hér á eftir gerð grein fyrir efni frumvarps þessa, einkum þeim breytingum sem lagt er til að gerðar verði frá núgildandi ákvæðum um Ríkisútvarpið, og þá sérstaklega breytingu á rekstrarforminu í þá átt að Ríkisútvarpið verði eftirleiðis rekið í sameignarfélagsformi.

2. Meginefni frumvarpsins.
    Helstu nýmæli með frumvarpi þessu eru eftirfarandi: Í fyrsta lagi er ráðgert með frumvarpi þessu að leggja niður ríkisstofnunina Ríkisútvarpið og stofna samtímis sameignarfélag um reksturinn. Með því er rekstrarformi Ríkisútvarpsins breytt og rekstur yfirfærður í félagsform. Hér er einungis um formbreytingu að ræða þar sem stofnað er sameignarfélag en ekki hlutafélag um reksturinn. Ábyrgð ríkisins á rekstrinum mun því vera ótakmörkuð sem fyrr. Í öðru lagi er mælt fyrir um afnám afnotagjalda frá og með 1. janúar 2008 og lagt til að rekstur sameignarfélagsins verði eftir það grundvallaður á sérstöku gjaldi, framlagi af fjárlögum, auglýsingatekjum og öðrum tekjum sem Alþingi kann að ákveða sérstaklega. Í þriðja lagi er stjórnun félagsins breytt. Þessi breyting er í meginatriðum tvíþætt. Annars vegar er ytra eftirlit útvarpsráðs lagt af með niðurlagningu þess og hins vegar er innra eftirlit framkvæmdastjórnar Ríkisútvarpsins lagt niður. Gerir breytingin því ráð fyrir því að sameignarfélagið verði rekið á rekstrarlegum forsendum og stjórnunarvald fyrirtækisins verði alfarið í höndum stjórnar þess.
    Auk framangreinds er lagt til að fella niður þátttöku þess í rekstri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sbr. b-lið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 36/1982. Ekki er mælt fyrir um þá breytingu í þessum lögum, en ráðgert er að leggja fram frumvarp um breyting á lögum nr. 36/1982, um Sinfóníuhljómsveit Íslands, þar sem m.a. verður felld niður greiðsluþátttaka Ríkisútvarpsins í rekstrarkostnaði hljómsveitarinnar.
    Að teknu tilliti til framangreinds eru meginatriði frumvarpsins eftirfarandi:
     1.      Rekstrarformi Ríkisútvarpsins verður breytt með því að stofnað verður sameignarfélag um rekstur Ríkisútvarpsins, sem beri heitið Ríkisútvarpið sf., sbr. 1. gr. og ákvæði til bráðabirgða I. Ætlunin er að í meginatriðum hagi félagið starfsemi sinni í samræmi við almennar reglur um sameignarfélög og Ríkisútvarpið fái þann sveigjanleika í rekstri sem á að fylgja því að breytast úr ríkisstofnun í sameignarfélag. Þá er og gert ráð fyrir því að félagið verði sjálfstæður skattaðili og starfi þannig við sömu skilyrði í landinu og önnur félög. Íslenska ríkið er í einfaldri ábyrgð fyrir öllum skuldbindingum Ríkisútvarpsins sf. líkt og verið hefur. Við lántöku félagsins eða ábyrgð þess á greiðslum ber stjórn þess að leita samþykkis menntamálaráðherra þegar lántakan eða ábyrgðin nemur 10% af árlegri veltu, eins nánar er kveðið á um í b-lið 1. mgr. 9. gr.
     2.      Ríkið verður eigandi félagsins og verður sala þess, slit eða innkoma nýrra sameigenda óheimil án samþykkis Alþingis, sbr. 1. gr.
     3.      Ríkissjóður leggur allar eignir, réttindi, viðskiptavild, skuldir og skuldbindingar Ríkisútvarpsins til sameignarfélagsins, sbr. 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I. Þá fær Ríkisútvarpið sf. með lögunum leyfi til útvarps á þeim rásum og á þeim tíðnisviðum sem Ríkisútvarpið hefur til umráða eða Ríkisútvarpinu sf. kann síðar að verða úthlutað, sbr. 2. gr. og 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I.
     4.      Starfsemi Ríkisútvarpsins sf. er skilgreind sem útvarp í almannaþágu eða útvarp með opinbert þjónustuhlutverk („public service broadcasting“), sbr. 1. mgr. 3. gr. Skyldur félagsins eru tilgreindar í samræmi við þetta hlutverk, sbr. 3. mgr. 3. gr.
     5.      Ríkisútvarpinu sf. er heimilað að standa að stofnun og gerast eignaraðili að öðrum félögum og fyrirtækjum í samræmi við tilgang þess og efna til samvinnu við aðra aðila, sbr. 2. mgr. 3. gr., 5. gr. og 6. gr., þó með fyrirvara um fjárhagslegan aðskilnað milli slíkrar starfsemi og aðalstarfseminnar, þar sem það á við, sbr. 2. mgr. 6. gr.
     6.      Menntamálaráðherra fer með eignarhlut ríkisins í félaginu, sbr. 7. gr. Í því felst m.a. að ráðherra kýs stjórn á aðalfundum félagsins, sbr. 1. mgr. 8. gr. Hins vegar er ekki mælt fyrir um vald hans til ráðningar á tilteknum starfsmönnum Ríkisútvarpsins sf., eins og nú er gert í lögum um Ríkisútvarpið, sbr. 1. mgr. 6. gr. (skipun útvarpsstjóra) og 6. mgr. 9. gr. (ráðning framkvæmdastjóra).
     7.      Stjórn félagsins skal kosin á aðalfundi, sbr. 1. mgr. 8. gr. Hlutverk stjórnarinnar verður í meginatriðum hið sama og stjórna almennt í sameignarfélögum, þ.e. yfirumsjón með rekstri félagsins, sbr. nánar 1. mgr. 9. gr. Stjórninni er ætlað að skipuleggja starfsemi félagsins ásamt stjórnendum þess. Felld eru brott öll ákvæði um deildaskiptingu fyrirtækisins. Slík ákvæði þykja ekki lengur eiga heima í lögum, heldur heyrir það undir eðlilegt starfssvið stjórnenda Ríkisútvarpsins sf. að taka ákvarðanir um skiptingu fyrirtækisins í rekstrareiningar, eins og almennt tíðkast í fyrirtækjarekstri. Það er ekki talið meðal verkefna stjórnar fyrirtækisins að hafa afskipti af dagskrá, sbr. 9. gr. Útvarpsstjóri er æðsti yfirmaður dagskrárgerðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. Tryggir þetta fyrirmæli ritstjórnarlegt sjálfstæði Ríkisútvarpsins sf. Þá er og gert ráð fyrir því að nánari útfærslu á innra skipulagi félagsins verði lýst í stofnsamningi sameignarfélagsins.
     8.      Útvarpsstjóri verður æðsti stjórnandi Ríkisútvarpsins sf. í daglegum rekstri, bæði framkvæmdastjóri og yfirmaður allrar dagskrárgerðar á vegum félagsins, svo sem nefnt hefur verið, sbr. 1. mgr. 10. gr. Er þetta í stórum dráttum í samræmi við núverandi fyrirkomulag og er þó sjálfstæði útvarpsstjóra aukið frá því sem nú er. Það verður stjórn félagsins sem ræður útvarpsstjóra og hefur yfir honum að segja, sbr. a-lið 1. mgr. 9. gr. Útvarpsstjóri ræður aðra starfsmenn Ríkisútvarpsins sf. án umsagnar eða tillagna annarra aðila gagnstætt því sem nú er. Skv. 6. mgr. 9. gr. laga um Ríkisútvarpið ræður útvarpsstjóri starfsfólk við dagskrá aðeins að fengnum tillögum útvarpsráðs og menntamálaráðherra ræður framkvæmdastjóra einstakra deilda. Er breytingin í þessu efni einn þátturinn í því að treysta sjálfstæði Ríkisútvarpsins sf.
     9.      Útvarpsráð verður lagt niður og þar með hætt afskiptum þess af dagskrá, sbr. nú 8. gr. laga um Ríkisútvarpið. Er þetta enn einn liðurinn í þeirri stefnu að treysta sjálfstæði Ríkisútvarpsins sf. og starfsmanna félagsins.
     10.      Ríkisútvarpið sf. verður stofnað með setningu laganna, sbr. 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I. Framlag ríkissjóðs verður í upphafi ákveðið 5.000.000 kr.
     11.      Tryggilega er búið um réttindi núverandi starfsmanna Ríkisútvarpsins, sbr. nánar ákvæði til bráðabirgða II. Allir starfsmenn Ríkisútvarpsins, sem við gildistöku laganna eru ráðnir ótímabundinni ráðningu, sbr. 1. mgr. 41. gr. laga nr. 70/1996, eða eru skipaðir, skulu eiga rétt á störfum hjá Ríkisútvarpinu sf. við yfirtöku þess á starfsemi Ríkisútvarpsins. Er gert ráð fyrir að með hinum fyrirhuguðu lögum verði þeim veittur fortakslaus réttur til starfa hjá félaginu sambærileg þeim sem þeir áður gegndu hjá Ríkisútvarpinu. Þá eru ákvæði um biðlaunaréttindi og lífeyrisréttindi starfsmanna sem tryggja eiga hag þeirra með sanngjörnum hætti.
     12.      Tekjustofnar félagsins breytast þannig að sérstakt gjald er lagt á þá einstaklinga sem skattskyldir eru skv. 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, og lögaðila sem skattskyldir eru skv. 2. gr. sömu laga, sbr. 12. gr. og ákvæði til bráðabirgða V. Fram að þeim tíma, þ.e. til og með 31. desember 2007, verður lagt á og innheimt afnotagjald með sama hætti og verið hefur. Þannig er gert ráð fyrir því að frá og með 1. janúar 2008 falli niður öll ákvæði núgildandi laga um Ríkisútvarpið er varða afnotagjald og innheimtu þess, sbr. 2. og 4. mgr. 10. gr. og 12.–18. gr. laga um Ríkisútvarpið, en það verður þó að gerast í áföngum til þess að tryggja innheimtu þeirra afnotagjalda sem gjaldfalla í tíð núgildandi laga, sbr. gildistökuákvæði frumvarps þessa.
     13.      Ákvæði útvarpslaga eiga að gilda um Ríkisútvarpið sf. að því leyti sem ekki eru sett sérákvæði um félagið samkvæmt þessu frumvarpi. Almenn ákvæði útvarpslaga nr. 53/2000 eiga því að gilda um Ríkisútvarpið sf. eins og aðrar útvarpsstöðvar, svo sem ákvæði um auglýsingabirtingu, ákvæði til verndar börnum, önnur fyrirmæli sem sett verða í samræmi við Evrópusambandstilskipanir 89/552/EBE og 97/36/EB, svo sem um hlutfall evrópsks efnis í útvarpsdagskrá og hlutfall efnis frá sjálfstæðum framleiðendum, ákvæði um eftirlit útvarpsréttarnefndar og ákvæði um ábyrgð á útvarpsefni.
     14.      Ekki þykir ástæða til þess að taka upp í frumvarp þetta ýmis ákvæði sem nú er að finna í lögum um Ríkisútvarpið. Við gerð frumvarps þessa hefur verið leitast við að einfalda innra skipulag Ríkisútvarpsins. Vísast til þess að í texta laganna er einungis lýst helstu atriðum er varða innra skipulag Ríkisútvarpsins sf. Þannig er ekki gert ráð fyrir því að rekstrarleg atriði séu upptalin í lögunum sem eðlilegast er að stjórn félagsins og daglegir stjórnendur taki ákvarðanir um.
     15.      Í stórum dráttum munu gilda svipaðar reglur um Ríkisútvarpið sf. og giltu áður um Ríkisútvarpið samkvæmt útvarpslögum nr. 68/1985 og nú samkvæmt lögum um Ríkisútvarpið, nr. 122/2000, að því leyti sem ekki hefur verið gerð grein fyrir breytingum hér að framan.

3. Formbreyting.
    Sú leið hefur verið farin í auknum mæli á undanförnum árum, bæði hér á landi og í nágrannalöndunum, að breyta ríkisstofnunum í sjálfstæð félög, og þá ýmist þannig að félögin eru alfarið í eigu ríkisins, þau seld á markaði eða einhver hluti þeirra seldur öðrum aðilum. Af nýlegum dæmum um slíka formbreytingu ríkisstofnana hér á landi má nefna breytingu á rekstrarformi Lyfjaverslunar ríkisins, Landsbanka Íslands, Búnaðarbanka Íslands og Póst- og símamálastofnunar.
    Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir þeirri leið að ríkisstofnunin Ríkisútvarpið verði lögð niður og nýtt félag, sameignarfélag, taki við réttindum og skyldum þess. Þá er gert ráð fyrir því að ríkið eigi allan eignarhlut í Ríkisútvarpinu sf. og sala félagsins eða eignarhluta þess svo og slit þess séu óheimil án samþykkis Alþingis (1. gr.).
    Við samningu frumvarps þessa var ekki farin sú leið að stofna hlutafélag um rekstur Ríkisútvarpsins. Ástæða þess er sú að Ríkisútvarpið hefur sérstöðu – hér er um að ræða félag sem ekki er ráðgert að selja og staða þess því ekki sambærileg stöðu t.d. Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands. Með því að stofna sameignarfélag um rekstur Ríkisútvarpsins gefst tækifæri á að nýta þá kosti sem félagarekstur hefur í för með sér en halda enn fremur í þau sérkenni sem einkenna Ríkisútvarpið og með þeim hætti sameina kosti bæði opinbers rekstrar og einkarekstrar.
    Auk framangreinds er ástæða til að taka fram að það rekstrarform sem felst í sameignarfélagsforminu felur í sér ótakmarkaða ábyrgð á skuldum og skuldbindingum Ríkisútvarpsins, en ekki takmarkaða ábyrgð eins og hlutafélagaformið hefur í för með sér.
    Í flestum eða öllum Evrópuríkjum hefur ríkisvaldið um langan aldur staðið að útvarpsrekstri og á því hefur yfirleitt ekki orðið breyting þó að einkaaðilum hafi í seinni tíð einnig verið heimilaður útvarpsrekstur og ríkiseinokun á þessu sviði teljist ekki samrýmast fyrirmælum um tjáningarfrelsi. Eru útvarpsstöðvar, sem reknar eru af ríkjum, hugsaðar sem opinberar þjónustustofnanir („public service broadcasting“). Er ríkisútvarpsstöðvum ætlað að flytja vandað efni, sérstaklega af innlendum og menningarlegum toga, sem ekki sé víst að útvarpsstöðvar, sem eingöngu eru reknar með viðskiptasjónarmið í huga, telji arðvænlegt að láta gera eða flytja. Einnig er sú krafa gerð til ríkisútvarpsstöðvanna að þær tryggi vissa fjölbreytni í efnisvali og efnismeðferð og tryggi að skoðanir og sjónarmið í þýðingarmiklum þjóðfélagsmálum, er almenning varða, komist á framfæri, sem og að um mál sé fjallað málefnalega og af hlutlægni. Á seinni tímum er því m.a. haldið fram að almenningur eigi kröfu á því að geta gengið að einni opinni sjónvarpsrás að minnsta kosti, og styðst þessi röksemd við hugmyndina um hið svokallaða upplýsingasamfélag. Það er skýr stefna í öllum Evrópuríkjum að starfrækt skuli útvarp í almenningsþágu í formi opinberra þjónustufyrirtækja, núorðið víðast hvar við hlið útvarps einkaaðila í viðskiptalegum tilgangi. Til að mynda ítrekaði ráðherranefnd Evrópuráðsins á fundi sínum 11. september 1996 álit sitt um hið nauðsynlega hlutverk útvarps í almannaþágu sem afgerandi þátt í fjölhyggju í fjölmiðlun sem sé aðgengileg fyrir alla bæði á landsgrundvelli og svæðisbundið með því að séð sé fyrir víðtækri dagskrárþjónustu er nái til upplýsingar, menntunar, menningar og afþreyingar. Pólitísk öfl innan Evrópusambandsins, þar á meðal ráðherraráð sambandsins, leggja einnig mjög ríka áherslu á rétt ríkjanna til þess að reka útvarp í almannaþágu og rétt einstakra ríkja til þess að skilgreina hlutverk þess. Loks hafa menningarmálaráðherrar Norðurlanda á síðustu árum lýst yfir stuðningi við útvarp í almannaþágu.
    Þar sem ríkið rekur útvarpsstarfsemi verður að gera þá kröfu að sá rekstur sé eins hagkvæmur og við verður komið. Þykir þetta best verða gert þannig að fjárhagslegum rekstri fyrirtækisins verði hagað sem líkast rekstri einkafyrirtækis og þá í sameignarfélagsformi. Það er þekkt víða í Evrópu að ríkisútvarpsstöðvarnar séu reknar af sjálfstæðum félögum. Af Norðurlöndunum má nefna að í Noregi, Finnlandi og Svíþjóð hafa verið stofnuð hlutafélög um rekstur ríkisútvarpsstöðvanna (í Svíþjóð eru hlutafélögin að vísu í eigu sérstakra stofnana). Í Danmörku er Danmarks Radio sjálfstæð ríkisstofnun með sama hætti og íslenska Ríkisútvarpið er nú.
    Helstu kostir þess að breyta rekstrarformi Ríkisútvarpsins í sameignarfélagsform þykja vera þessir: Ábyrgð stjórnenda verður aukin og þeir verða sjálfstæðari í störfum sínum. Með breytingu í sameignarfélag gefst færi á að skilgreina verkaskiptingu á milli daglegra stjórnenda og stjórnar. Í frumvarpinu hefur verið leitast við að skerpa nokkuð skilgreininguna á verkaskiptingunni milli framkvæmdastjóra (útvarpsstjóra) og samstarfsmanna hans og stjórnar (9. og 10. gr.). Stjórnendur í sameignarfélagi geta brugðist skjótar við breyttum markaðsaðstæðum og öðrum breytingum á aðstæðum heldur en stjórnendur ríkisstofnunar, og þar með á fyrirtækið að vera betur í stakk búið til þess að standast samkeppni og skila hagnaði. Loks má nefna að sameignarfélagi eru ekki settar eins þröngar skorður í starfsemi sinni og ríkisstofnun. Að sjálfsögðu er þó ekki gert ráð fyrir því í frumvarpi þessu að Ríkisútvarpið geti eftir rekstrarformsbreytingu ráðist í verkefni sem eru alls óskyld grundvallarhlutverki þess, en hins vegar er beinlínis gert ráð fyrir því að fyrirtækið geti tekið upp samvinnu við aðra aðila, staðið að stofnun nýrra fyrirtækja, gengið inn í starfandi félag, allt innan marka tiltekinna tengsla við hina reglulegu starfsemi þess, sbr. 2. mgr. 3. gr., 5. og 6. gr. frumvarpsins. Er mælt fyrir um það að slíkur rekstur verði fjárhagslega aðskilinn grunnrekstri félagsins, sbr. 2. mgr. 6. gr. Aukið sjálfstæði félagsins og svigrúm þess til athafna á svo að skila sér til allra starfsmanna þess í betri möguleikum til framtaks í starfi og þar með áhugaverðari starfsvettvangi. Þykja þannig öll rök mæla með því að breyta Ríkisútvarpinu í sameignarfélag þó að ríkið verði áfram eigandi félagsins.
    Þá ber að geta þess að nýtt frumvarp um sameignarfélög er í vinnslu hjá iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu. Af efni frumvarps þessa er ljóst að byggja verður fyrst um sinn á almennum ólögfestum reglum félagaréttarins um sameignarfélög, en þegar fyrrgreint frumvarp iðnaðar- og viðskiptaráðherra er orðið að lögum má gera ráð fyrir því að taka þurfi tillit til efnis þeirra laga við rekstur Ríkisútvarpsins. Frá þessu er a.m.k. ein undantekning og lýtur hún að því hversu margir eigendur koma að rekstri sameignarfélagsins. Af almennum reglum félagaréttarins leiðir að eigendur sameignarfélags verði að vera a.m.k. tveir. Hér er hins vegar sú leið farin að einungis einn eigandi verður að félaginu, þ.e. íslenska ríkið. Sú leið sem hér er lögð til byggist á fyrri framkvæmd þegar félög hafa verið stofnuð um rekstur ríkisstofnana. Má hér sem dæmi nefna 2. gr. laga nr. 75/1994, um stofnun hlutafélags um Lyfjaverslun ríkisins og heimild til sölu hlutabréfa í því félagi, og 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 103/1996, um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar. Í fyrrgreindum ákvæðum var veitt heimild til stofnunar hlutafélaga þrátt fyrir að áskilnaður væri í þágildandi hlutafélagalögum að fleiri hluthafa þyrfti til stofnunarinnar.

4. Tekjustofnar fyrirtækisins.
    Það er mjög mismunandi meðal Evrópuríkja hvaða tekjustofnar eru fengnir útvarpsstöðvum sem flokkaðar eru undir opinber þjónustufyrirtæki. Algengasti tekjustofninn er leyfisgjald (afnotagjald) sem styðst venjulega við eign á sjónvarpsviðtæki. Einnig tíðkast leyfisgjald ásamt sérstöku gjaldi til ríkisútvarpsstöðva („public service“ gjalda sem stundum a.m.k. eru lögð á aðrar útvarpsstöðvar), sömuleiðis leyfisgjald og auglýsingatekjur eða auglýsingatekjur ásamt greiðslum af fjárlögum. Oftast er um það að ræða að tekjustofnarnir séu fleiri en einn og er algengasta samsetningin leyfisgjald (afnotagjald) og auglýsingatekjur.
    Ekki eru í sjónvarpstilskipunum Evrópusambandsins nein fyrirmæli eða ráðagerðir sem takmarka heimildir aðildarríkjanna til fjármögnunar á starfsemi útvarpsstöðva í eigu opinberra aðila. Er hér um að ræða tilskipanir 89/552/EBE, sem breytt var með tilskipun 97/36/EB, en um tilskipanir þessar var ítarlega fjallað í greinargerð frumvarpsins til útvarpslaga nr. 53/2000. Á ríkjaráðstefnu Evrópusambandsins, sem haldin var í Amsterdam í júnímánuði 1997, var samþykkt sérstök bókun um útvarpsþjónustu í almannaþágu í aðildarríkjunum („Protocol on the System of Public Broadcasting in the Member States“). Í bókun þessari lýstu Evrópusambandsríkin yfir þeirri skoðun sinni að útvarpsþjónusta í almannaþágu í aðildarríkjunum tengdist með beinum hætti lýðræðislegum, félagslegum og menningarlegum þörfum þjóðfélaganna og þeirri þörf að viðhalda fjölbreytni í fjölmiðlun. Evrópusambandsríkin komu sér í bókun þessari saman um eftirfarandi túlkunarreglur sem bætt var við stofnsáttmála Evrópusambandsins þegar Amsterdamsáttmálinn tók gildi 1. maí 1999: „Ákvæði stofnsáttmálans um Evrópusambandið skulu engin áhrif hafa á heimildir aðildarríkjanna til þess að gera ráðstafanir til tekjuöflunar fyrir útvarp í almannaþágu („public service broadcasting“) að svo miklu leyti sem þeim tekjum er veitt til útvarpsstöðva til þess að þær inni af hendi þau verkefni í almannaþágu, sem þeim eru falin, skilgreind og skipulögð hjá hverju aðildarríki fyrir sig, og að því leyti sem tekjuöflunin hefur ekki áhrif á viðskiptaskilyrði og samkeppni innan sambandsins í þeim mæli, að brjóti í bága við sameiginlega hagsmuni jafnframt því sem tekið skal tillit til þeirrar ætlunar, að um sé að ræða starfsemi í almannaþágu.“
    Í þessari bókun felst að ákvarðanir um tekjuöflun til útvarps í almannaþágu („public service broadcasting“) verði að mestu leyti látnar vera í valdsviði hvers aðildarríkis, eins og verið hefur. Búast má við að ákvæði EES-samningsins verði túlkuð með svipuðum hætti.
    Hér á landi hefur það fyrirkomulag verið tíðkað lengi að Ríkisútvarpið fái greidd afnotagjöld og samkvæmt útvarpslögum er þetta gjald, útvarpsgjald, lagt á eigendur útvarpsviðtækja (2. mgr. 10. gr. og 1. mgr. 12. gr. laga um Ríkisútvarpið, nr. 122/2000). Einnig hefur Ríkisútvarpið tekjur af auglýsingum, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga um Ríkisútvarpið. Í framkvæmd hefur stofnunin einnig tekjur af þáttum sem í þessu tilliti er jafnað til auglýsinga, svo sem af kostun einstakra dagskrárliða, og fjarsölu. Lengi vel hafði Ríkisútvarpið einnig tekjur af aðflutningsgjöldum af útvarpsviðtækjum og hlutum í þau, en sá tekjustofn var felldur niður með 3. gr. laga nr. 144/1995.
    Allt frá upphafi sjónvarpsreksturs á árinu 1966 hafa verið leyfðar auglýsingar í sjónvarpi Ríkisútvarpsins og stofnunin haft af þeim tekjur. Sú ráðstöfun hefur ætíð verið nokkuð umdeild. Í upphafi var hún gagnrýnd af dagblöðunum sem töldu með þessu vegið að tekjuöflunarmöguleikum sínum. Á síðari árum hefur gagnrýnin einkum komið frá keppinautum á sjónvarpsmarkaði sem einnig hafa gagnrýnt lögbundið afnotagjald til Ríkisútvarpsins. Í skýrslu starfshóps um endurskoðun á útvarpslögum frá 1996 kom fram sú tillaga meiri hluta starfshópsins að Ríkisútvarpið hyrfi alveg af auglýsingamarkaði. Var augljóslega á því byggt í skýrslunni, að því er sjónvarpsstöðvar varðar, að í vændum væri mikil samkeppni milli einkarekinna sjónvarpsstöðva. Sú hefur hins vegar ekki orðið raunin.
    Ef sjónvarp Ríkisútvarpsins hyrfi af auglýsingamarkaði við núverandi aðstæður yrði í reynd engin samkeppni um auglýsingaframboð í sjónvarpi. Það yrðu nánast tveir aðilar sem eftir yrðu á auglýsingamarkaði í sjónvarpi (365 ehf. með Stöð 2 og Sýn annars vegar og Íslenska sjónvarpsfélagið hf. með Skjá einn hins vegar). Hver sem þróunin kann að verða í framtíðinni þykir ekki rétt að leggja það til nú að hætt verði auglýsingum í sjónvarpi Ríkisútvarpsins.
    Önnur sjónarmið koma hins vegar til álita um auglýsingar í hljóðvarpi en eiga við um auglýsingar í sjónvarpi. Á hljóðvarpssviðinu er veruleg samkeppni, en hún er hins vegar að mestu leyti bundin við þéttbýlissvæði. Hljóðvarpsstöðvum hefur yfirleitt ekki tekist að byggja upp dreifikerfi sín þannig að þær nái til landsins alls, trúlega vegna þess að auglýsingatekjur þeirra hafa ekki leyft slíkar fjárfestingar. Í þessu frumvarpi er ekki gerð tillaga um að Ríkisútvarpinu sf. verði bannað að afla tekna með auglýsingum í hljóðvarpi. Kemur þar fyrst og fremst tvennt til. Í fyrsta lagi þarf að taka slíka ákvörðun með góðum fyrirvara svo að þeir aðilar, sem fyrir eru á markaðnum, og aðilar, sem við breyttar aðstæður gætu haft hug á að fara inn á markaðinn, hafi nægan tíma til þess að laga sig að nýju umhverfi. Í öðru lagi hefur hljóðvarp Ríkisútvarpsins svo mikla útbreiðslu að ótækt þykir að svipta viðskiptalífið og allan almenning svo öflugum auglýsingamiðli án þess að gerðar hafi verið aðrar ráðstafanir sem líklegar séu til þess að bæta upp þann missi – og þá með það einnig í huga að búið verði í haginn fyrir samkeppni á þessum markaði. Eins og málum er nú háttað verður naumast hjá því komist að líta á auglýsingaþjónustu í hljóðvarpi Ríkisútvarpsins sem þátt í opinberu þjónustuhlutverki þess. Þykir af framangreindum ástæðum ekki fært að leggja það til nú að auglýsingum verði hætt í hljóðvarpi Ríkisútvarpsins.
    Afnotagjald Ríkisútvarpsins hefur einnig verið umdeildur tekjustofn. Þeir sem andvígir eru opinberum útvarpsrekstri hafa andmælt gjaldinu sem gjaldtöku fyrir þjónustu sem þeir óski ekki eftir. Er sú röksemd skiljanleg þegar litið er á hana frá sjónarhóli þeirra sem telja ekki þörf fyrir það að ríkið standi að rekstri fjölmiðla. Einnig hafa ýmsir þeir sem aðhyllast eða geta sætt sig við útvarpsrekstur ríkisins látið í ljós efasemdir um að innheimta afnotagjalds sé eðlilegasta leiðin til tekjuöflunar fyrir Ríkisútvarpið. Starfshópur sá um endurskoðun á útvarpslögum, sem fyrr er nefndur, lagði t.d. til að afnotagjaldakerfi og innheimtukerfi Ríkisútvarpsins í núverandi mynd yrði lagt niður, enda væri sú skipan í senn þunglamaleg, kostnaðarsöm og óskilvirk. Lagði starfshópurinn til að Ríkisútvarpinu yrðu fengnar tekjur með nefskatti, innheimtum af landsmönnum öllum eldri en sextán ára og af öllum lögaðilum í landinu. Til vara lagði starfshópurinn til að Ríkisútvarpið yrði flutt frá B-hluta og yfir á A- hluta ríkisreiknings þannig að rekstur stofnunarinnar byggðist á framlagi fjárveitingavaldsins samkvæmt samþykkt fjárlaga hverju sinni.
    Við samningu frumvarps þessa hefur fjármögnun á rekstri Ríkisútvarpsins komið til nýrrar skoðunar. Er það niðurstaða ráðuneytisins að leggja til að fjármögnun í formi afnotagjalds verði felld niður frá 1. janúar 2008, en í þess stað komi sérstakt gjald sem leggst á skattskylda einstaklinga og lögaðila, sbr. 1. og 2. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 11. gr. frumvarpsins. Þessi niðurstaða styðst aðallega við þrenns konar rök. Í fyrsta lagi hefur þessi leið í för með sér sparnað þar sem sérstakur kostnaður við innheimtu afnotagjalds fellur niður. Í öðru lagi fylgir sá annmarki núverandi fyrirkomulagi að allir þeir sem gerast áskrifendur að einkarekinni sjónvarpsstöð og kaupa sér sjónvarpstæki til þess að njóta þjónustu hennar verða sjálfkrafa greiðendur afnotagjalda til Ríkisútvarpsins þar sem greiðsla afnotagjaldsins er bundin við eign á viðtæki. Með því að afnema tengsl viðtækjaeignar við greiðslu til Ríkisútvarpsins eru hin neikvæðu áhrif á viðskipti sjónvarpsnotenda við einkaaðila upprætt að þessu leyti. Í þriðja lagi leiðir breytingin til þess að kostnaður hinna tekjulægstu einstaklinga við að njóta útvarps í almannaþágu fellur niður. Alls leggst gjaldið á um 160.000 einstaklinga á aldursbilinu 16–70 ára og um 22.000 lögaðila. Gjaldið lýtur sömu lögmálum og sérstakt gjald sem lagt er á samkvæmt lögum um málefni aldraðra til tekjuöflunar fyrir Framkvæmdasjóð aldraðra. Tekjutenging gjaldsins þýðir að tekjulausir eða tekjulágir einstaklingar greiða ekkert gjald, sbr. lög nr. 125/1999.
    Á árinu 2003 námu afnotagjöld rúmlega 2,1 milljarði króna af tæplega 3 milljarða króna rekstrartekjum Ríkisútvarpsins, eða tæplega 69% af rekstrartekjum. Var hlutur afnotagjalda af rekstrartekjum Ríkisútvarpsins á árinu 2003 lítið eitt lægri en á árinu 2002. Aðrar tekjur (auglýsingatekjur, kostunartekjur og ýmsar tekjur) Ríkisútvarpsins á árinu 2003 námu um 845 milljónum króna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. og 2. gr.

    Í greinum þessum er fjallað um eignaraðild að Ríkisútvarpinu sf. og leyfi þess til útvarps, hljóðvarps og sjónvarps. Hefur verið gerð grein fyrir efni 1. gr. í almennu athugasemdunum að framan og í 1. og 2. tölul. 2. kafla í almennu athugasemdunum hér að framan (meginefni frumvarpsins). Í 3. tölul. síðastnefnds kafla var gerð grein fyrir efni 2. gr., sbr. 2. og 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I. Í 1. gr. er ítrekuð yfirlýsing eldri lagaákvæða um sjálfstæði Ríkisútvarpsins. Þetta sjálfstæði er styrkt enn frekar með ýmsum breytingum sem lagt er til í frumvarpinu að gerðar verði á stjórnun Ríkisútvarpsins og vikið hefur verið að í almennu athugasemdunum hér að framan. Ritstjórnarlegt sjálfstæði er treyst með því að útvarpsstjóri er æðsti yfirmaður dagskrárgerðar, sbr. 1. mgr. 10. gr., og sjálfstæði hans er aukið þar sem ekki þarf lengur að fá tillögur útvarpsráðs um starfsfólk við dagskrá. Útvarpsráð verður lagt niður og þar með hætt afskiptum pólitískt kjörins ráðs af dagskrá. Einnig er ætlunin að binda enda á afskipti annarra en útvarpsstjóra af ráðningu annarra starfsmanna Ríkisútvarpsins, en skv. 2. mgr. 10. gr. verður það útvarpsstjóri sem ræður aðra starfsmenn Ríkisútvarpsins sf. Þá er ákvæði 2. mgr. 8. gr. um skyldu stjórnarmanna til þess að forðast hagsmunaárekstra í starfi sínu fyrir félagið ætlað að styrkja sjálfstæði þess. Öll ákvæði frumvarpsins, sem ætlað er að styrkja sjálfstæði Ríkisútvarpsins sf. sem útvarps í almannaþágu, eru í samræmi við tilmæli ráðherranefndar Evrópuráðsins 11. september 1996 til aðildarríkja Evrópuráðsins varðandi tryggingu fyrir sjálfstæði útvarps í almannaþágu, einkum að því er varðar ritstjórnarlegt og stofnanalegt sjálfstæði.
    Í 1. mgr. 1. gr. er ráðgert að félagið verði sjálfstæður skattaðili. Það mun hafa það í för með sér, ef hagnaður verður af rekstri félagsins, að það greiði skatt af hagnaði til ríkissjóðs í samræmi við ákvæði laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Þannig er eðlilegt að félagið greiði skatta eins og önnur fyrirtæki hér á landi.
    Í 2. mgr. 1. gr. er gert ráð fyrir einfaldri ábyrgð íslenska ríkisins á öllum skuldbindingum félagsins. Verður ábyrgð ríkisins á skuldbindingum félagsins því sambærileg ábyrgð ríkisins gagnvart ríkisstofnunum almennt, sbr. og hliðstætt ákvæði í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 42/1983, um Landsvirkjun.

Um 3. gr.

    Í þessari grein er lýst hlutverki Ríkisútvarpsins sf. Í 1. mgr. kemur fram það meginhlutverk félagsins að reka hvers konar útvarpsþjónustu í almannaþágu. Áður hefur verið að því vikið hvað felst í skilgreiningunni á útvarpsþjónustu í almannaþágu. Er stundum í þessu sambandi talað um útvarp með opinbert þjónustuhlutverk, en í báðum tilvikum er vísað til þess sama og þegar á ensku er talað um „public service broadcasting“. Þess háttar útvarpsstöðvar eiga ekki einungis að taka mið af fjárhagslegum ávinningi í rekstri sínum, heldur sinna t.d. ýmiss konar menningarlegri starfsemi, rækta þjóðlegan menningararf o.s.frv., sem ekki er víst að útvarpsstöðvar, sem eingöngu eru reknar með viðskiptaleg sjónarmið í huga, telji sér skylt eða fært að sinna með sama hætti. Að vísu er það svo að víða hafa mörkin milli útvarpsstöðva í almannaþágu og útvarps, þar sem viðskiptahagsmunir ráða ferðinni, dofnað mjög þar sem útvarpsstöðvar í almannaþágu flytja að stórum hluta efni sem mjög svipar til efnis annarra útvarsstöðva, svo sem skemmtiefni af ýmsu tagi. Eftir sem áður eru gerðar meiri kröfur til útvarpsstöðva í almannaþágu um flutning efnis af alvarlegra tagi, sem og til meiri varkárni í fréttaflutningi, kynningu allra sjónarmiða í þjóðfélagsmálum er almenning varða miklu o.s.frv. Annars vísast til þess hluta í almennu athugasemdunum að framan þar sem almennt var fjallað um útvarpsþjónustu í almannaþágu.
    Þó að um sé að ræða útvarp í almannaþágu er sú krafa í vaxandi mæli gerð til fyrirtækja, sem reka útvarp af því tagi, að þau séu sem best rekin, veiti öðrum útvarpsstöðvum á markaðnum samkeppni og aðhald og skili jafnvel hagnaði. Af sama toga eru sprottin ákvæði í 2. mgr. þessarar greinar og ákvæði III. kafla frumvarpsins um þátttöku félagsins í annarri starfsemi með fjárhagslegum aðskilnaði frá hinni hefðbundnu starfsemi Ríkisútvarpsins sf.
    Gert er ráð fyrir því að sérstakur stofnsamningur verði samþykktur og fylgja drög að honum sem fylgiskjal með frumvarpi þessu.
    Þá er í þessari grein, sem fjallar auk framangreinds um hlutverk Ríkisútvarpsins sf., fjallað um meginatriði þeirra skyldna félagsins, sem leiðir af því hlutverki þess, að það reki útvarpsþjónustu í almannaþágu.
    Talið er rétt að skilgreina skyldur Ríkisútvarpsins sf. nokkru nákvæmar en gert er í gildandi lögum um Ríkisútvarpið, sbr. einkum 3.–5. gr. laganna. Í stórum dráttum má segja að fylgt sé nokkuð hefðbundinni skilgreiningu á skyldum útvarps í almannaþágu: að flutt sé vandað og fjölbreytt dagskrárefni sem nái til allra landsmanna, lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi séu virt, lögð sé rækt við þjóðleg gildi, efnisval sé miðað við þarfir sem flestra þjóðfélagshópa, gætt sé óhlutdrægni, stutt sé við ýmiss konar menningarstarfsemi, haldið sé uppi nauðsynlegri öryggisþjónustu og starfsemin sé innt af hendi með sem fullkomnustum tæknibúnaði.
    Skal nú vikið að einstökum ákvæðum greinarinnar.
    Ákvæði 1. tölul. 3. mgr. er í samræmi við 1. mgr. 3. gr. núgildandi laga.
    Ákvæði 3. tölul. 3. mgr. er að formi til nýtt ákvæði og lýsir með almennum orðum skyldu Ríkisútvarpsins sf. til þess að standa að gerð og dreifingu fjölbreytts og vandaðs dagskrárefnis fyrir sjónvarp og hljóðvarp með tæknilega fullkomnum aðferðum.
    Ákvæði 2. og 4.–9. tölul. 3. mgr. eru sama efnis og ákvæði 2.–3. mgr. 3. gr. gildandi laga, en orðalagsbreytingar eru sums staðar gerðar. Ákvæði fyrri málsliðar 2. tölul. er í flestum meginatriðum samhljóða 1. mgr. 4. gr. núgildandi laga. Í ákvæðinu er mælt fyrir um skyldu félagsins til að senda út til alls landsins en sú breyting lögð til að miða við a.m.k. eina hljóðvarps- og sjónvarpsdagskrá í stað tveggja árið um kring. Síðan er tekið fram um skyldu félagsins til þess að birta hluta efnis síns með viðeigandi hætti í öðrum miðlum, þ.m.t. á netinu. Þá er í 8. tölul. tekin berum orðum fram skylda félagsins til þess að flytja efni á sviði íþrótta og annars tómstundastarfs, en slíkt efni er sérstaklega þýðingarmikið fyrir ungt fólk.
    Í 9. tölul. 3. mgr. er tekið upp ákvæði fyrri málsliðar 4. mgr. 3. gr. gildandi laga um skyldu til að miða útvarpsefni við fjölbreytni íslensks þjóðlífs. Síðan er bætt við ákvæði um skyldu félagsins til þess m.a. að sinna eðlilegum þörfum minnihlutahópa, en slíkar skyldur verða æ fyrirferðarmeiri í nútímaþjóðfélagi. Sem dæmi um skyldu Ríkisútvarpsins í þessu efni má nefna dóm Hæstaréttar frá 6. maí 1999 í málinu nr. 151/1999: Berglind Stefánsdóttir og Félag heyrnarlausra gegn Ríkisútvarpinu. Í máli þessu var um það deilt hvort Ríkisútvarpinu væri skylt að láta túlka á táknmáli framboðsræður í sjónvarpinu, kvöldið fyrir kosningar, um leið og þær færu fram, eða hvort Ríkisútvarpinu væri heimilt að sinna þörfum heyrnarlausra með öðrum aðferðum sem það hugðist beita. Hæstiréttur benti á að það væri óaðskiljanlegur þáttur kosningarréttar, sem verndaður væri í III. kafla stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 3. gr. I. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu, að sá sem réttarins nyti hefði tækifæri til að kynna sér þau atriði sem kosið væri um. Ljóst þótti að það sé í samræmi við lögákveðið hlutverk Ríkisútvarpsins skv. 15. gr. útvarpslaga nr. 68/1985 (nú 3. gr. laga um Ríkisútvarpið, nr. 122/2000) að það kynni frambjóðendur og stefnumál þeirra fyrir kosningar til Alþingis. Bæri Ríkisútvarpinu ótvírætt að gæta jafnræðis þegar það sinnti þessu hlutverki sínu og lyti sú skylda ekki aðeins að frambjóðendum og þeim stjórnmálaöflum sem í hlut ættu, heldur einnig að þeim sem útsendingum væri beint til. Ætti því Ríkisútvarpið að haga gerð og útsendingu framboðsumræðna þannig að aðgengilegt væri heyrnarlausum, sbr. einnig 7. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðra. Þótt játa bæri Ríkisútvarpinu verulegu svigrúmi við tilhögun dagskrár og útsendinga yrðu þær ákvarðanir, sem röskuðu þeim skyldum og réttindum sem mælt væri fyrir um í 15. gr. útvarpslaga (nú 3. gr. laga um Ríkisútvarpið) og 7. gr. laga um málefni fatlaðra, að styðjast við gild málefnaleg rök. Þótti Ríkisútvarpið ekki hafa fært fram nægilega gild og málefnaleg rök til að réttlæta þá mismunun sem fólst í ákvörðun þess, en fyrir lá að tæknilega var vel framkvæmanlegt að hafa þann háttinn á sem krafist var. Einnig var litið til þess að skammur tími var á milli útsendingar og upphafs kjörfundar. Þóttu áfrýjendur eiga rétt á því að kröfur þeirra yrðu teknar til greina við þessar aðstæður. Tilvik það sem um ræðir í máli þessu er vissulega sérstakt. Það getur hins vegar vel orðið til leiðbeiningar í öðrum málum þó að sjálfsögðu verði að meta hvert mál fyrir sig, þar á meðal það hvað teljist vera eðlilegar þarfir.
    Í 10. tölul. 3. mgr. er tekið upp ákvæði síðari málsliðar 4. mgr. 3. gr. laga um Ríkisútvarpið.
    11. tölul. 3. mgr. kemur í stað 6. mgr. 4. gr. laga um Ríkisútvarpið. Efnislega eru þrjár breytingar gerðar. Hin fyrsta er sú að í stað orðalagsins að Ríkisútvarpið skuli „stefna að því“ að koma upp aðstöðu til dagskrárgerðar og útvarps utan höfuðborgarsvæðisins er skyldan gerð ótvíræð. Önnur er sú að komið skal upp víðar um landið aðstöðu til útvarps, þ.e. bæði sjónvarps og hljóðvarps, en ekki einungis hljóðvarps, eins og orðað er í gildandi lögum. Þriðja breytingin, sem lögð er til, er á þá leið að þeirri starfsemi, sem um ræðir í greininni, skuli komið upp utan höfuðborgarsvæðisins, en ekki í hverju kjördæmi, og er þessi tillaga gerð sérstaklega með hliðsjón af örri tækniþróun á sviði útvarps og að ekki þurfi að setja upp aðstöðu til dagskrárgerðar í hverjum landsfjórðungi.
    Ákvæði 12. tölul. 3. mgr. um skyldu Ríkisútvarpsins sf. til þess að halda uppi nauðsynlegri öryggisþjónustu á sviði útvarps er að formi til nýtt. Þetta hefur þó verið viðurkennt eitt meginhlutverk Ríkisútvarpsins og felst í raun og veru, a.m.k. að verulegum hluta, í 13. gr. útvarpslaga. Í 12. gr. frumvarps þessa er svo sérstaklega ráð fyrir því gert að stjórnvöld kunni að óska eftir því að Ríkisútvarpið sf. leggi í framkvæmdir eða rekstur til almannaheilla í öryggisskyni fyrir landsmenn, og skal þá gera um það efni samning milli ríkisins og Ríkisútvarpsins sf.
    Í 13. tölul. 3. mgr., sem er nýtt ákvæði, er mælt fyrir um skyldu félagsins til þess að koma sér upp þeim eignum, föstum og lausum, sem nauðsynlegar eru fyrir starfsemi þess.
    Í 14. tölul. 3. mgr. er fjallað um skyldu félagsins til þess að gera aðgengilegt í öðru formi en sem útvarpsefni ýmislegt efni sem talið er að geti haft varanlegt gildi og sé því í samræmi við tilgang félagsins.
    Ákvæði 15. tölul. 3. mgr. er í meginatriðum sama efnis og ákvæði 5. gr. laga um Ríkisútvarpið sem fjallar um varðveislu frumflutts dagskrárefnis. Þó er breytt orðalagi síðari málsliðar greinarinnar og nú gert ráð fyrir að það sé ekki einungis heimilt, heldur skylt, að hafa slíkt efni til sölu eða leigu, en jafnframt tekið fram að það sé valið efni en ekki allt efni sem með þessum hætti verði gert almenningi aðgengilegt.
    Í 16. tölul. 3. mgr. er nýtt ákvæði sem mælir fyrir um það að félagið skuli standa fyrir, taka þátt í eða styðja tónleika og annað skemmtanahald sem tengist dagskrárefni. Ríkisútvarpið hefur lengi verið í sérstökum tengslum við Sinfóníuhljómsveit Íslands og byggjast þau tengsl á lögum um hljómsveitina, nr. 36/1982. Ákvæði 16. tölul. gerir ráð fyrir að Ríkisútvarpið sf. efni til samstarfs við fleiri aðila en Sinfóníuhljómsveitina um dagskrárefni, en það verði samningsatriði hverju sinni hvernig því samstarfi yrði háttað.
    Ákvæði 17. tölul. 3. mgr. um ávöxtun lausra fjármuna er að formi til nýtt, en er í samræmi við núverandi framkvæmd.
    Í 18. tölul. 3. mgr. er ákvæði sem einnig er að formi til nýtt. Er hér um að ræða almennt ákvæði um skyldu til þess að gera hvaðeina sem óhjákvæmilegt er eða stuðlar að því að tilgangi félagsins sem útvarps í almannaþágu verði náð. Ógjörningur má heita að telja með algjörlega tæmandi hætti einstakar skyldur félagsins. Verður ákvæði sem þetta að teljast eðlilegt, en því eru auðvitað þröngar skorður settar út í hvaða starfsemi félag eins og Ríkisútvarpið sf. getur farið þannig að það rúmist innan tilgangs þess sem útvarps í almannaþágu.
    Í 4. mgr. er nýtt ákvæði þar sem gert er ráð fyrir því að Ríkisútvarpið sf., með sérstöku samþykki menntamálaráðherra, veiti aðra þjónustu í almannaþágu sem tengist með eðlilegum hætti aðalþjónustu félagsins. Engin sérstök þjónusta er höfð í huga við mótun þessa ákvæðis, en þarfir breytast stöðugt og t.d. tækniframfarir eru örar. Má því líta á ákvæði þetta sem varnagla sem geti gert mögulegt að bregðast við þörfum er upp kunna að koma.
    Í ákvæðinu er hlutverki Ríkisútvarpsins sf. lýst með ítarlegum hætti. Í útvarpsrekstri í almannaþágu á Vesturlöndum eru fordæmi fyrir því að viðkomandi fagráðherra geri stjórnunarsamning við það félag sem annast slíkan útvarpsrekstur f.h. ríkisvaldsins. Í frumvarpi þessu er ekki lagt til að þessi leið verði farin, en telja verður að ekkert sé því til fyrirstöðu að árangursstjórnunarsamningur verði gerður milli menntamálaráðherra og Ríkisútvarpsins sf. þar sem mælt verði fyrir um nánari útfærslu á skyldum félagsins. Er hér m.a. vísað til samsetningar útsendrar dagskrár með tilliti til innlends dagskrárefnis, efnis sem ætlað er börnum eða sérstökum aldurshópum, fræðslu- og heimildaefnis, íþróttaefnis og annars þess sem við kann að eiga hverju sinni. Þá eru enn fremur fordæmi fyrir því að stjórnir þeirra félaga, sem annast útvarpsrekstur í almannaþágu, semji skýrslu og geri viðkomandi fagráðherra grein fyrir því hvernig takist til að uppfylla lögbundnar meginskyldur um útvarp í almannaþágu. Með sömu rökum og að ofan greinir er ekkert því til fyrirstöðu að stjórn Ríkisútvarpsins sf. semji slíka skýrslu og geri menntamálaráðherra grein fyrir því hvernig til takist að uppfylla skyldur félagsins skv. 3. gr. frumvarps þessa.

Um 4. gr.

    Í 4. gr. frumvarpsins er tekið upp óbreytt efni 5. mgr. 3. gr. laga um Ríkisútvarpið þess efnis að efni á erlendu máli, sem sýnt er í sjónvarpsdagskrá Ríkisútvarpsins sf., skuli jafnan fylgja íslenskt tal eða texti á íslensku eftir því sem við á hverju sinni, og önnur atriði tengd þessu fyrirmæli. Þessi áskilnaður er í samræmi við núgildandi ákvæði útvarpslaga nr. 53/2000. Ákvæðið þarfnast ekki skýringa að öðru leyti.

Um 5. gr.

    Í þessari grein eru tekin saman ákvæði um samvinnu Ríkisútvarpsins við aðra aðila um dagskrárgerð og útsendingar (1. mgr.) og heimild til þess að leigja öðrum aðilum afnot af tækjabúnaði sínum til útsendingar (2. mgr.). Heimild til hvors tveggja er nú í lögum um Ríkisútvarpið (5. mgr. 4. gr.), en samkvæmt orðalagi 1. mgr. skal lögð aukin áhersla á samvinnu við aðra aðila um dagskrárgerð og útsendingar. Að öðru leyti er ákvæði 1. mgr. samhljóða 5. mgr. 4. gr. laga um Ríkisútvarpið, og ákvæði 2. mgr. er samhljóða fyrri málslið 8. mgr. sömu greinar.

Um 6. gr.

    Ákvæði 6. gr. er nýmæli. Í greininni er mælt fyrir um heimild til handa Ríkisútvarpinu sf. til þess að standa að annarri starfsemi sem tengist starfsemi félagsins á sviði dagskrárgerðar eða til nýtingar á tæknibúnaði þess, sérþekkingu starfsmanna þess og aðstöðu þess að öðru leyti, þar á meðal á sviði fjarskipta og margmiðlunar eða öðrum sviðum er fjölmiðlun tengjast. Segir síðan að félagið geti gert þetta hvort sem er innan eigin vébanda eða með því að standa að öðrum fyrirtækjum í þessu skyni sem félagið á eitt eða með öðrum aðilum. Undir ákvæði þessarar greinar fellur m.a. hvers konar nýsköpunarstarf á þeim sviðum sem hér um ræðir.
    Segja má að Ríkisútvarpið hafi nú þegar stigið fyrstu skrefin á þeirri braut sem hér er mörkuð með þeirri þjónustu sem það hefur tekið upp á heimasíðunni www.ruv.is. Algengt er í nágrannalöndum að útvarpsstöðvar í almannaþágu hafi á seinni tímum farið út í starfsemi af því tagi sem um ræðir í greininni. Sem dæmi um starfsemi, sem getur fallið undir greinina, má nefna samvinnu við sjálfstæða framleiðendur sjónvarpsefnis, t.d. með þátttöku í fyrirtækjum þeirra eða stofnun dótturfyrirtækja með þeim. Í 10. gr. útvarpslaga er mælt fyrir um það að sjónvarpsstöðvar skuli, eftir því sem unnt er, sjá til þess að minnst 10% af útsendingartíma á ári hverju eða minnst 10% af árlegu dagskrárfé sé varið fyrir evrópsk verk sem framleidd eru af sjálfstæðum framleiðendum. Er þetta fyrirmæli byggt á ákvæðum Evrópusambandstilskipana 89/552/EBE og 97/36/EB sem gerð var grein fyrir í greinargerð frumvarpsins til útvarpslaga nr. 53/2000. Er í þessu sambandi gert ráð fyrir þeim möguleika að sjónvarpsstöðvar eigi einhvern hlut að framleiðslu sjónvarpsefnis með sjálfstæðum framleiðendum. Heimild greinarinnar er engan veginn einskorðuð við þennan þátt, eins og orðalag hennar ber með sér. Rétt er að minna á það í þessu sambandi að mjög ör þróun á sér stað í þeim efnum sem minnst er á í grein þessari, svo sem ýmiss konar margmiðlun og samruna í þróun tölvutækni, fjarskipta og sjónvarps sem halda mun áfram á næstu árum. Verður að telja rétt að Ríkisútvarpið sf. fylgist með þessari þróun og taki þátt í henni eftir því sem skynsamlegt verður metið og að sjálfsögðu af hæfilegri varkárni, þó að framtíðarsýn beri að skipa í fyrirrúm. Það verður í verkahring stjórnar Ríkisútvarpsins sf. og daglegra stjórnenda að taka einstakar ákvarðanir um þessi efni.
    Í 2. mgr. greinarinnar er kveðið á um það að halda skuli fjárreiðum alls reksturs, sem félagið kann að verða aðili að samkvæmt heimild þeirri sem í greininni felst, aðskildum frá fjárreiðum reksturs skv. 1. mgr. 3. gr., þ.e. hinum hefðbundna rekstri Ríkisútvarpsins eða þeim rekstri sem það stundar nú þegar. Verður t.d. að telja netþjónustu Ríkisútvarpsins rúmast innan reksturs þess skv. 1. mgr. 3. gr. og sjálfsagt getur það breyst í tímans rás hvers konar rekstur verður almennt talinn geta flokkast undir útvarpsþjónustu í almannaþágu. Ekki má nota fjármuni frá rekstri skv. 1. mgr. 3. gr. til þess að greiða niður kostnað af rekstri sem Ríkisútvarpinu sf. er heimilað að stofna til eða taka þátt í samkvæmt þessari grein, nema um sé að ræða starfsemi sem flokkast undir útvarp í almannaþágu. Sérstaklega þarf að gæta þess að starfsemi Ríkisútvarpsins sf. verði að þessu leyti í samræmi við reglur samkeppnislaga nr. 8/1993, með síðari breytingum, og samkeppnisreglur EES-samningsins.

Um IV. kafla.

    Í þessum kafla frumvarpsins er mælt fyrir um stjórnskipulag Ríkisútvarpsins sf.
    Samkvæmt 7. gr. fer menntamálaráðherra með eignarhlut ríkisins í félaginu. Hann kýs stjórn félagsins í samræmi við hlutbundna kosningu Alþingis. Félagsfundir fara með æðsta vald í málefnum félagsins. Stjórn þess fer með málefni félagsins á milli félagsfunda. Stjórnin skal skipuð fimm mönnum og jafnmörgum til vara, sbr. 1. mgr. 8. gr.
    Undir stjórn félagsins heyrir útvarpsstjóri, sem ráðinn er af stjórninni, og er hann æðsti yfirmaður alls daglegs rekstrar á vegum félagsins, jafnt á sviði framkvæmdastjórnar sem á sviði dagskrárgerðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. Útvarpsstjóri ræður aðra starfsmenn félagsins og skiptir með þeim verkum í samræmi við skipurit félagsins sem stjórn félagsins ákveður, sbr. 2. mgr. 10. gr.

Um 7. gr.

    Greinin þarfnast ekki frekari skýringa en fram eru komnar í athugasemdum um þennan kafla frumvarpsins og í 2. kafla í hinum almennu athugasemdum (meginefni frumvarpsins).

Um 8. gr.

    Í þessari grein er leitast við að treysta sjálfstæði stjórnar félagsins með tvennum hætti. Þannig miðar 1. mgr. að því að treysta sjálfstæði stjórnarinnar gagnvart framkvæmdarvaldinu, en 2. mgr. leitast m.a. við að treysta sjálfstæði gagnvart öðrum fjölmiðlafyrirtækjum eða fjölmiðlatengdum fyrirtækjum.
    Í ákvæðinu er gert er ráð fyrir því að stjórn félagsins verði kosin á aðalfundi sem haldinn skuli í síðasta lagi fyrir lok maímánaðar ár hvert. Alþingi skal fyrir þann tíma hafa kosið menn til setu í stjórninni.
    Hvað varðar 2. málsl. 2. mgr. er hér í raun um hæfisreglu að ræða sem tengd er almennum neikvæðum hæfisreglum hvað varðar stjórnarsetu. Þannig verður almennt að telja að einstaklingar, sem beint eða óbeint inna af hendi störf, taka við greiðslum eða hafa hagsmuna að gæta í öðrum fjölmiðlafyrirtækjum eða fjölmiðlatengdum fyrirtækjum en Ríkisútvarpinu sf., geti ekki gætt hagsmuna félagsins hvað varðar skyldur þess til útvarps í almannaþágu.

Um 9. gr.

    Í 1. mgr. greinarinnar er lýst starfssviði stjórnar Ríkisútvarpsins sf. í meginatriðum. Meðal annars er í 1. mgr. nefnt að ráða útvarpsstjóra og veita honum lausn frá störfum, ákveða laun hans og önnur starfskjör, að taka allar meiri háttar ákvarðanir um rekstur félagsins, sem ekki falla undir daglegan rekstur, að samþykkja fjárhagsáætlun fyrir hvert starfsár, o.s.frv., og annast önnur verkefni eins og ákveðið verður í stofnsamningi. Auk framangreinds er tekið fram að það falli undir starfssvið stjórnar félagsins að taka lán til þarfa félagsins og taka ábyrgð á greiðslum og öðrum skuldbindingum í sama skyni. Til að tryggja ábyrgð eiganda félagsins, íslenska ríkisins, á skuldbindingum vegna Ríkisútvarpsins sf. þarf samþykki ríkisins hverju sinni fari skuldbindingarnar fram úr vissu marki. Í frumvarpi þessu er lagt til að miðað verði við 10% af veltu (rekstrartekjum í lok næstliðins árs) á ári hverju. Þegar samþykki er nauðsynlegt fyrir skuldbindingum samkvæmt framansögðu er kveðið á um samþykki menntamálaráðherra, sbr. 1. mgr. 7. gr.
    Í 2. mgr. er svo heimilað að skilgreina nánar starfssvið stjórnarinnar í stofnsamningi og samþykktum félagsins. Þannig er ekki mælt með tæmandi hætti fyrir um starfssvið stjórnar, heldur er gert ráð fyrir að því verði gerð nánari skil í stofnsamningi.

Um 10. gr.

    Hér eru fyrirmæli um útvarpsstjóra og starfssvið hans. Í því sem mestu skiptir er starfssvið útvarpsstjóra óbreytt frá gildandi lögum. Hann er framkvæmdastjóri félagsins og gilda um þann hluta almennar reglur um störf framkvæmdastjóra. Auk þess er útvarpsstjóri æðsti yfirmaður allrar dagskrárgerðar á vegum Ríkisútvarpsins sf. Í stórum dráttum er ákvæði 1. mgr. 10. gr. í samræmi við gildandi lög, sbr. 1. og 2. mgr. 6. gr. laga um Ríkisútvarpið. Þó er sjálfstæði útvarpsstjóra og starfsmanna Ríkisútvarpsins sf. yfirleitt aukið í sambandi við dagskrárgerð þar sem útvarpsráð er lagt niður og þar með hætt afskiptum þess af útvarpsefni, sbr. nú 8. gr. laga um Ríkisútvarpið.
    Í 2. mgr. er tekið fram að útvarpsstjóri ráði aðra starfsmenn Ríkisútvarpsins sf. Er hér um að ræða verulega breytingu frá núverandi fyrirkomulagi, sbr. 6. mgr. 9. gr. laga um Ríkisútvarpið þar sem segir að framkvæmastjórar deilda, sbr. 4. mgr. 9. gr., séu ráðnir af menntamálaráðherra að fengnum tillögum útvarpsstjóra og útvarpsráðs, og útvarpsstjóri ráði starfsfólk dagskrár að fengnum tillögum útvarpsráðs. Skv. 2. mgr. á útvarpsstjóri að vera algjörlega sjálfstæður í ráðningum starfsmanna félagsins, þó fyrst um sinn með þeim fyrirvara sem greinir í ákvæði til bráðabirgða II um forgangsrétt núverandi starfsmanna Ríkisútvarpsins til sambærilegra starfa og þeir hafa haft hjá Ríkisútvarpinu.
    Að öðru leyti vísast til 8. tölul. í lýsingunni á meginefni frumvarpsins í 2. kafla almennu athugasemdanna.

Um 11. gr.

    Í 4. kafla hinna almennu athugasemda við frumvarpið (Tekjustofnar fyrirtækisins) var gerð grein fyrir því að í frumvarpi þessu er á því byggt að frá og með 1. janúar 2008 verði hætt að fjármagna rekstur Ríkisútvarpsins með afnotagjöldum (útvarpsgjaldi). Vísast til þess sem þar sagði um þessa breytingu og rökin fyrir henni.
    Í samræmi við þessa breytingu er í 11. gr. frumvarpsins lagt til að frá og með 1. janúar 2008 skiptist tekjustofnar Ríkisútvarpsins sf. í þrennt:
     1.      Sérstakt gjald sem lagt verður á einstaklinga og lögaðila.
     2.      Tekjur af auglýsingum og sölu eða leigu á vörum sem tengjast dagskrárefni þess í útvarpi og öðrum miðlum.
     3.      Aðrar tekjur sem Alþingi kann sérstaklega að ákveða.
    Tekjur skv. 1. tölul 1. mgr. ákvæðisins yrðu 13.500 kr. af hverjum gjaldanda og mundu skila alls um 2.470 milljónum kr. miðað við full skil, en gert er ráð fyrr að afnotagjaldið skili Ríkisútvarpinu um 2.500 milljónum kr. á árinu 2005. Eðlilegt er að fjárhæð nefskattsins verði endurskoðuð þegar nær dregur því að breyting á tekjustofnum Ríkisútvarpsins sf. kemur til framkvæmda. Almennt mætti þó miða við að haga skattlagningunni þannig að hvert þriggja manna heimili yrði nokkurn veginn jafnsett eftir sem áður, sem mundi þýða að gjaldið lækkaði fyrir fámennari heimili, en hækkaði fyrir heimili þar sem fullorðnir einstaklingar 16 ára og eldri væru 4 eða fleiri. Væntanlega næði gjaldið ekki til námsmanna sem væru 16 ára og eldri þar sem almennt má gera ráð fyrir að þeir falli undir þau tekjumörk sem ákvæðið tekur mið af, sbr. lög nr. 125/1999, um málefni aldraðra.
    Hvað varðar ráðstöfun á tekjum skv. 1. tölul. 1. mgr. ber að taka fram að Ríkisútvarpið sf. verður fyrst og fremst útvarp í almannaþágu, sbr. 3. gr. frumvarps þessa. Komi hins vegar til annarrar starfsemi af hálfu félagsins, sem tengist fyrrgreindri meginstarfsemi, þarf að halda fjárreiðum vegna þess rekstrar aðskildum. Á grundvelli samkeppnissjónarmiða verður félaginu óheimilt að nota tekjur sínar til að greiða kostnað niður af hinum nýja rekstri, enda sé ekki um að ræða starfsemi sem telst til útvarps í almannaþágu í skilningi 3. gr. frumvarpsins. Þannig ber að halda fjárreiðum aðskildum eftir því hvort um sé að ræða starfsemi skv. 3. gr. frumvarpsins eða starfsemi skv. 6. gr. frumvarpsins og ekki telst til útvarps í almannaþágu.
    Hvað varðar 2. tölul. 1. mgr. er lagt til að heimilt sé að birta auglýsingar er tengjast dagskrárefni þess í útvarpi og öðrum miðlum. Hér er um að ræða breytingu frá gildandi rétti, en þar er heimil gjaldtaka fyrir auglýsingar í „hljóðvarpi og sjónvarpi“. Ástæða þykir að kveða með skýrum hætti á um það að Ríkisútvarpinu sf. verði heimilt að birta auglýsingar í öðrum miðlum en útvarpi að teknu tilliti til niðurstöðu umboðsmanns Alþingis í máli nr. 3845/2003. Í málinu var kvartað yfir því að Ríkisútvarpið notaði tekjur sínar til þess að byggja upp vefinn www.ruv.is, en hluti hans væri fjármagnaður með afnotagjöldum á sjónvarp og útvarp. Niðurstaða umboðsmanns var m.a. sú að sala Ríkisútvarpsins á auglýsingum til birtingar á heimasíðunni gæti ekki talist heimil gjaldtaka fyrir auglýsingar í „hljóðvarpi og sjónvarpi“ skv. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 122/2000.
    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir því að helmingur tekna vegna gjaldsins sé greiddur fyrir fram þann 15. febrúar og 15. maí ár hvert af hálfu fjármálaráðuneytisins. Eftirstöðvar gjaldsins mundu greiðast á tímabilinu frá ágúst til desember í samræmi við innheimtu annarra opinberra gjalda.
    Í 4. mgr. eru fyrirmæli um að setja skuli gjaldskrár fyrir auglýsingabirtingu og aðra skylda tekjustofna og er þar átt við gjaldtöku skv. 15. gr. útvarpslaga. Er það í verkahring stjórnar að setja slíkar gjaldskrár, í reynd auðvitað í samráði við daglega stjórnendur sem fara með auglýsingamál og fjármál fyrirtækisins.

Um 12. gr.

    Hér mælir fyrir um það hvernig með skuli fara ef stjórnvöld óska eftir því við Ríkisútvarpið hf. að það leggi í framkvæmdir eða rekstur til almannaheilla í öryggisskyni fyrir alla landsmenn eða vegna byggðasjónarmiða sem ljóst er að ekki muni skila arði. Er þá gert ráð fyrir að gerður verði sérstakur samningur milli ríkisins og félagsins um hvert einstakt verkefni.

Um 13. gr.

    Ákvæði 1. mgr. þarfnast ekki skýringa.
    Í 2. mgr. er lagt til að lög nr. 122/2000, um Ríkisútvarpið, falli úr gildi. Þó er mælt fyrir um það að þær greinar sem varða álagningu afnotagjalds séu í gildi til 1. janúar 2008, er nýr tekjustofn kemur til, og þær greinar sem varða innheimtu áfallins afnotagjalds séu í gildi til 1. janúar 2011, en skv. 2. mgr. 15. gr. laga um Ríkisútvarpið helst lögveð fyrir afnotagjaldi í þrjú ár frá gjalddaga. Þar sem nauðsynlegt er að hafa ákvæði um innheimtu afnotagjalda, sem falla á í tíð núgildandi laga um Ríkisútvarpið, er lagt til að þau ákvæði verði í sérstökum lögum, lögum um innheimtu útvarpsgjalds, á meðan þau ákvæði eru í gildi. Sjá fylgiskjal II.
    Samkvæmt framansögðu mun rekstur félagsins verða fjármagnaður með sérstöku gjaldi sem lagt verður á einstaklinga og lögaðila sem skattskyldir eru skv. 1.–2 .gr. laga nr. 90/2003. Þessi breyting mun ekki eiga sér stað strax – gert er ráð fyrir því að hið nýja félag fái tveggja og hálfs árs aðlögunartíma áður en rekstur þess verður alfarið fjármagnaður með framangreindum hætti. Í þessu felst að félaginu verður veittur þriggja ára aðlögunartími, en hann mun fela í sér svigrúm til handa félaginu til að starfa áfram samkvæmt núverandi fyrirkomulagi, en jafnframt tækifæri til að aðlaga reksturinn hinu nýja umhverfi.
    Í 3. mgr. er sett ákvæði um það að þar sem í öðrum lögum er vísað til Ríkisútvarpsins sé átt við Ríkisútvarpið sf. Samkvæmt athugun á lagasafni á netinu er vikið að Ríkisútvarpinu á einn eða annan hátt í 10 réttarheimildum í lagasafni auk laga um Ríkisútvarpið, nr. 122/2000, þ.e.: 8. gr. forsetabréfs nr. 114/1945, um starfsháttu orðunefndar, 28. gr. laga nr. 17/1965, um landgræðslu, 3. mgr. 47. gr. laga nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, 4. gr. laga nr. 37/1975, um Leiklistarskóla Íslands, b-lið 1. mgr. 3. gr., 4. mgr. 3. gr., 4. gr. og 1. mgr. 7. gr. laga nr. 36/1982, um Sinfóníuhljómsveit Íslands, 3. mgr. 6. gr. laga nr. 2/1990, um Íslenska málnefnd, 2. mgr. 86. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, 25. gr. laga nr. 24/2000, um kosningar til Alþingis, 6. og 34. gr. laga nr. 53/2000, útvarpslaga, og 10. gr. laga nr. 20/2002, um skylduskil til safna. Samkvæmt framangreindu ákvæði 3. mgr. 13. gr. frumvarpsins ber eftir gildistöku laganna að skilja þau lagaákvæði þar sem talað er um Ríkisútvarpið sem þar sé átt við Ríkisútvarpið sf.

Um ákvæði til bráðabirgða I.

    Ákvæði 1. og 2. mgr. fjalla um stofnun sameignarfélags um Ríkisútvarpið og eignir og skuldir Ríkisútvarpsins sem ganga til sameignarfélagsins. Þegar hefur verið fjallað um þessa formbreytingu og þau atriði sem af henni leiðir, sbr. 3. kafla í hinum almennu athugasemdum að framan um formbreytinguna, 2. kafla almennu athugasemdanna (meginefni frumvarpsins) og athugasemdir um 1. og 2. gr. frumvarpsins. Eins og þegar hefur verið lýst í 3. kafla í hinum almennu athugasemdum er ráðgert að ríkissjóður yfirtaki hlut Ríkisútvarpsins vegna greiðsluþátttöku í rekstrarkostnaði Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sbr. b-lið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 36/1982, um Sinfóníuhljómsveit Íslands. Gera má ráð fyrir því að framlag ríkissjóðs á fjárlögum til reksturs Ríkisútvarpsins lækki vegna yfirtöku á þessari skuldbindingu Ríkisútvarpsins.
    Í 2. mgr. er m.a. mælt fyrir um að menntamálaráðherra ákveði heildarfjárhæð stofnfjár í Ríkisútvarpinu sf. Við stofnun félagsins skuli þó lögð fram a.m.k. 5.000.000 kr. fjárhæð og skuli sú fjárhæð greidd af ríkissjóði eigi síðar en hálfum mánuði eftir skráningu félagsins. Samkvæmt ákvæðinu getur menntamálaráðherra ákveðið að leggja fram hærra stofnfé í upphafi kjósi hann það.
    Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins er gert ráð fyrir því að Ríkisútvarpið sf. taki við útvarpsrekstri Ríkisútvarpsins við gildistöku laganna.
    Í 4. mgr. segir að Ríkisútvarpið sf. yfirtaki þær skyldur sem Ríkisútvarpið hafi undirgengist í samningum við þriðju aðila.

Um ákvæði til bráðabirgða II.

    Í þessu ákvæði mælir fyrir um réttindi starfsmanna við breytingu Ríkisútvarpsins í sameignarfélag. Tilgangur ákvæðisins er að réttindi starfsmanna Ríkisútvarpsins verði við formbreytinguna tryggð með eðlilegum hætti, kveðið á um rétt þeirra til sambærilegra starfa hjá sameignarfélaginu, biðlaunarétt og lífeyrisréttindi. Hefur það verið haft að leiðarljósi að ekki verði hallað á réttindi starfsmanna stofnunarinnar við breytingu á rekstrarformi hennar. Við samningu ákvæðisins hefur m.a. verið höfð hliðsjón af fyrri framkvæmd þegar ríkisstofnunum hefur verið breytt í rekstrarfélög, sbr. lög nr. 103/1996, svo og niðurstöðu dóma sem gengið hafa í málum út af réttarstöðu starfsmanna við breytingu ríkisfyrirtækja í sjálfstæð félög.
    Með 2. mgr. ákvæðisins er starfsmönnum Ríkisútvarpsins tryggður réttur til sambærilegra starfa hjá Ríkisútvarpinu sf. og þeir hafa haft hjá stofnuninni, þ.e. þeim starfsmönnum sem eru skipaðir eða ráðnir ótímabundinni ráðningu hjá stofnuninni og falla undir ákvæði laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
    Í 3. og 4. mgr. ákvæðisins er mælt fyrir um rétt starfsmanna þegar þeim hefur verið boðin sambærileg staða. Starfsmönnum er veittur eðlilegur frestur til þess að segja til um það ef þeir hyggjast ekki nýta þann rétt til starfa sem ákvæðið tryggir þeim.
    Í 5. mgr. ákvæðisins er mælt fyrir um að þeir starfsmenn, sem hafa áunnið sér rétt til lífeyrisgreiðslna og ráðast enn fremur til starfa hjá sameignarfélaginu, eigi ekki rétt á bæði lífeyrisgreiðslum og launagreiðslum að því tilskildu að þeir haldi óskertum launum sínum hjá félaginu.
    Í 6. mgr. ákvæðisins er gert ráð fyrir því að þeir starfsmenn Ríkisútvarpsins sem við gildistöku laganna eru í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins haldi þeim réttindum.

Um ákvæði til bráðabirgða III.

    Hér er gert ráð fyrir að eigi síðar en 15 dögum eftir gildistöku laga þessara skuli haldinn stofnfundur þar sem menntamálaráðherra kýs stjórn Ríkisútvarpsins sf. Frá gildistöku laganna og þar til að kosning stjórnarmanna hefur farið fram skal menntamálaráðherra vera í fyrirsvari fyrir Ríkisútvarpið sf.

Um ákvæði til bráðabirgða IV.

    Þar sem ekki er í frumvarpinu gert ráð fyrir að útvarpsráð starfi áfram eru hér fyrirmæli um það hvernig umboð þess fellur niður. Er gert ráð fyrir að umboð aðalmanna og varamanna í útvarpsráði, sem síðast voru kjörnir, falli niður við gildistöku laganna.

Um ákvæði til bráðabirgða V.

    Ráðgert er að afnema álagningu útvarpsgjalds 1. janúar 2008. Í ákvæðinu er mælt fyrir um hverjir tekjustofnar sameignarfélagsins skuli vera frá gildistöku laganna til og með 31. desember 2007. Eftir þann tíma ber að miða við 11. laganna.Fylgiskjal I.


Drög að
stofnsamningi fyrir Ríkisútvarpið sf.


1. gr.

    Félagið er sameignarfélag og er nafn þess Ríkisútvarpið sf. Félagið er sjálfstæður skattaðili.

2. gr.

    Heimilisfang félagsins er að Efstaleiti 1, 150 Reykjavík.

3. gr.

    Tilgangur félagsins er rekstur hvers konar útvarpsþjónustu í almannaþágu, bæði hljóðvarps og sjónvarps, eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum og í stofnsamningi þessum. Auk þessa er tilgangur félagsins að standa að stofnun og gerast eignaraðili að öðrum félögum og fyrirtækjum.

4. gr.

    Stofnfé félagsins er kr. 5.000.000,00 – (krónur fimmmilljónir 00/100).

5. gr.

    Æðsta vald í málefnum félagsins er í höndum lögmætra félagsfunda.

6. gr.

    Aðalfundur skal haldinn fyrir lok maí ár hvert. Félagsfundi skal halda eftir ákvörðun stjórnar eða að kröfu menntamálaráðherra. Skal krafan gerð skriflega, fundarefni tilgreint og fundur þá boðaður innan þriggja daga.

7. gr.

    Stjórn skal boða til félagsfunda með tilkynningu til eiganda sameignarfélagsins í ábyrgðarbréfi eða símskeyti eða á annan jafnsannanlegan hátt. Aðalfund og félagsfundi skal boða með minnst þriggja daga fyrirvara. Fundarefnis skal getið í fundarboði.
    Aðalfundur er lögmætur ef hann er löglega boðaður og hann sækir eigandi sameignarfélagsins. Verði fundur ólögmætur vegna annmarka að þessu leyti skal boðað til nýs fundar innan hálfs mánaðar með þriggja daga fyrirvara og verður sá fundur lögmætur til að ræða þau mál sem ræða átti á fyrri fundinum ef hann sækir eigandi sameignarfélagsins eða umboðsmaður hans.
    Félagsfundur kýs fundarstjóra og fundarritara.

8. gr.

    Eigandi getur með skriflegu umboði veitt umboðsmanni heimild til að sækja félagsfundi og koma þar fram fyrir sína hönd.
    Tillögur að breytingum á stofnsamningi þessum, svo sem um sölu eignarhluta, um sameiningu félagsins við önnur félög eða fyrirtæki, eða um slit félagsins, má ekki taka til meðferðar á fundum þess nema þess hafi verið getið í fundarboði. Ákvörðun um sölu eignarhluta, sameiningu félagsins við önnur félög eða fyrirtæki eða slit félagsins er óheimil nema að fengnu samþykki Alþingis.

9. gr.

    Á aðalfundi skulu tekin fyrir þessi mál:
     1.      Stjórn félagsins skal skýra frá hag félagsins og rekstri þess á liðnu starfsári.
     2.      Efnahagsreikningur og rekstrarreikningur félagsins fyrir liðið starfsár skulu lagðir fram ásamt athugasemdum endurskoðenda félagins til samþykktar.
     3.      Stjórn félagsins skal kjörin og endurskoðandi.
     4.      Tekin skal ákvörðun um hvernig fara skal með hagnað eða tap.
     5.      Ákvörðun skal tekin um greiðslur til stjórnarmanna fyrir störf þeirra á starfsárinu.
     6.      Umræður og atkvæðagreiðslur um önnur málefni sem löglega eru upp borin.
    Fundargerðarbók skal haldin og í hana skráð það sem gerist á félagsfundum.

10. gr.

    Stjórn félagsins skal skipuð fimm mönnum og jafnmörgum til vara, kjörnum á aðalfundi til eins árs í senn. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum. Stjórn félagsins stýrir öllum málefnum félagsins milli aðalfunda og gætir hagsmuna þess gagnvart þriðja manni.
    Undirskriftir þriggja stjórnarmanna skuldbinda félagið. Stjórnarfundir eru lögmætir ef þrír stjórnarmenn sækja fund. Afl atkvæða ræður afgreiðslu mála. Halda skal fundargerð um stjórnarfundi.

11. gr.

    Starfssvið stjórnar Ríkisútvarpsins sf. nær einkum til eftirfarandi þátta í starfi félagsins:
     a.      Að ráða útvarpsstjóra og leysa hann frá störfum, ákveða laun hans og önnur starfskjör.
     b.      Að taka ákvarðanir um lán til þarfa félagsins og taka ábyrgð á greiðslum og öðrum skuldbindingum í sama skyni. Að því leyti sem nýjar skuldbindingar og ábyrgðir fara fram úr 10% af veltu (rekstrartekjum í lok næstliðins árs) á ári hverju, þarf stjórn félagsins að leita samþykkis eiganda félagsins, sbr. 1. mgr. 7. gr.
     c.      Að taka allar meiri háttar ákvarðanir um rekstur félagsins, þ.e. ákvarðanir sem ekki falla undir daglegan rekstur, ýmist að eigin frumkvæði eða að fengnum tillögum útvarpsstjóra eða annarra starfsmanna. Meðal slíkra ákvarðana má nefna kaup og sölu hluta í öðrum félögum, nýja starfsemi á vegum félagsins og að leggja niður tiltekna starfsemi sem félagið hefur haft með höndum, sem og önnur þýðingarmestu verkefni félagsins.
     d.      Að samþykkja fyrir fram fjárhagsáætlun fyrir hvert starfsár.
     e.      Að gefa út reglur um fréttaflutning og auglýsingar í útvarpi, þar á meðal auglýsingatíma, og gæta þess að reglum sé fylgt.
    Að öðru leyti en að framan greinir gætir stjórn félagsins hagsmuna eiganda og sér til þess að starfsemi þess sé í samræmi við lög, reglur og stofnsamning þennan.

12. gr.

    Formaður boðar til stjórnarfunda. Hver stjórnarmaður getur krafist stjórnarfundar. Sama rétt á útvarpsstjóri.
    Stjórnin skal setja sér starfsreglur þar sem nánar skal kveðið á um framkvæmd starfa hennar.

13. gr.

    Stjórn félagsins ræður framkvæmdastjóra (útvarpsstjóra) og ákveður starfskjör hans. Hún veitir og prókúruumboð fyrir félagið.
    Útvarpsstjóri hefur með höndum stjórn á daglegum rekstri félagsins og kemur fram fyrir þess hönd í öllum málum sem varða venjulegan rekstur. Hann sér um reikningshald og ráðningu starfsliðs. Útvarpsstjóra ber að veita stjórnarmönnum og endurskoðendum allar upplýsingar um rekstur félagsins sem þeir kunna að óska og veita ber samkvæmt lögum.

14. gr.

    Á aðalfundi félagsins skal kjósa einn löggiltan endurskoðanda til eins árs í senn. Skal hann rannsaka reikninga félagsins fyrir hvert starfsár og leggja niðurstöðu sína fyrir aðalfund. Endurskoðandi má ekki kjósa úr hópi stjórnarmanna eða starfsmanna félagsins.

15. gr.

    Starfsár og reikningsár er almanaksárið. Stjórnin skal hafa lokið gerð ársreikninga og lagt fyrir endurskoðanda eigi síðar en einum mánuði fyrir aðalfund.

16. gr.

    Stofnsamningi þessum má breyta á lögmætum aðalfundi með samþykki eiganda sameignarfélagsins.

17. gr.

    Með tillögur um slit og skipti á félaginu skal fara sem breytingar á stofnsamningi þessum. Þarf atkvæði eiganda til að ákvörðun um slit sé gild. Félagsfundur, sem tekið hefur löglega ákvörðun um slit eða skipti félagsins, skal einnig ákveða ráðstöfun eigna og greiðslu skulda. Ákvörðun um sölu eignarhluta, sameiningu félagsins við önnur félög eða fyrirtæki eða slit félagsins er óheimil nema að fengnu samþykki Alþingis.

18. gr.

    Þar sem ákvæði stofnsamnings þessa segja ekki til um hvernig með skuli farið skal hlíta almennum reglum sem gilda um sameignarfélög, svo og lagaákvæðum er við geta átt hverju sinni.

..............Stofnsamningur Ríkisútvarpsins sf. sem samþykktur var á stofnfundi félagsins.Fylgiskjal II.Lög um útvarpsgjald og innheimtu þess.


1. gr. (áður 12. gr.)

    Eigandi viðtækis sem nýta má til móttöku á útsendingum Ríkisútvarpsins skal greiða afnotagjald, útvarpsgjald, af hverju tæki. Þó skal aðeins greiða eitt útvarpsgjald fyrir einkaafnot fjölskyldu á heimili. Afslátt skal veita þeim sem aðeins geta nýtt sér svart/hvíta móttöku sjónvarpsefnis og þeim sem einungis geta nýtt sér hljóðvarpssendingar. Einnig er heimilt að veita fyrirtækjum og stofnunum afslátt vegna fjölda tækja á sama stað. Nánari ákvæði um afslátt og skilgreiningu á heimili skal setja í reglugerð.
    Í reglugerð má ákveða að þeir sem hljóta uppbót á elli- og örorkulífeyri skv. 17. gr. laga um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum, verði undanþegnir afnotagjöldum. Í reglugerð má einnig ákveða undanþágu blindra manna frá greiðslu afnotagjalds af hljóðvarpi.

2. gr. (áður 13. gr.)

    Eigandi, sem breytir afnotum sínum, sbr. 12. gr., skal tilkynna það Ríkisútvarpinu þegar í stað.
    Hver sá er fæst við sölu viðtækja skal tilkynna innheimtudeild Ríkisútvarpsins í fyrstu viku næsta mánaðar eftir sölumánuð hverjir séu kaupendur. Í tilkynningunni skal greina fullt nafn, nafnnúmer og heimilisfang kaupanda og seljanda, enn fremur aðrar upplýsingar samkvæmt reglugerð.

3. gr. (áður 14. gr.)

    Ríkisútvarpið heldur skrá yfir öll viðtæki sem notuð eru hér á landi og í íslenskum skipum og flugvélum og nota má til móttöku útvarpsefnis.
    Afmá skal viðtæki af skrá ef sönnur, sem innheimtustjóri metur gildar, eru á það færðar að tækið sé orðið ónýtt eða verði af öðrum ástæðum ekki lengur notað til móttöku útsendingar Ríkisútvarpsins.

4. gr. (áður 15. gr.)

    Útvarpsgjaldi ásamt dráttarvöxtum, öðru vangreiðsluálagi og öllum innheimtukostnaði fylgir lögveðsréttur í viðkomandi viðtæki sem helst þótt eigendaskipti verði. Gengur veðið fyrir hvers konar eldri sem yngri samningsveðum, dómveðum og öðrum höftum sem á viðtæki kunna að hvíla, nema eignarréttarfyrirvörum.
    Lögveðið helst í þrjú ár frá gjalddaga.
    Eigendur viðtækja bera ábyrgð á greiðslu útvarpsgjalda af þeim til Ríkisútvarpsins sem á hafa fallið áður en tilkynning um eigendaskipti skv. 13. gr. hefur borist Ríkisútvarpinu.

5. gr. (áður 16. gr.)

    Innheimtustjóri Ríkisútvarpsins skal fullnægja almennum dómaraskilyrðum.

6. gr. (áður 17. gr.)

    Fyrsta virkan dag eftir eindaga leggst á útvarpsgjald 10% álag vegna kostnaðar af innheimtu.
    Lögtaksréttur er fyrir ógreiddum útvarpsgjöldum, álagi skv. 1. mgr., vöxtum og innheimtukostnaði.

7. gr. (áður 18. gr.)

    Innheimtustjóri getur framkvæmt eða látið framkvæma innsiglun á viðtæki:
     1.      ef það er hagnýtt til móttöku án þess að það hafi verið tilkynnt til Ríkisútvarpsins,
     2.      ef vanskil eru orðin á greiðslu útvarpsgjalds,
     3.      ef hlutaðeigandi aðili hefur sagt upp útvarpsnotum.
    Nú eru fyrir hendi skilyrði skv. 1. tölul. 1. mgr. eða gert hefur verið lögtak í viðtæki fyrir vangreiddu útvarpsgjaldi og getur þá innheimtustjóri tekið eða látið taka viðtækið úr vörslu eiganda eða annars vörslumanns.

    Ákvæði 1., 2., 3. og 5. gr. falla úr gildi 1. janúar 2008, en ákvæði 4., 6. og 7. gr. falla úr gildi 1. janúar 2011.Fylgiskjal III.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið sf.

    Í frumvarpinu er lagt til að stofnað verði sameignarfélag í eigu ríkissjóðs um rekstur Ríkisútvarpsins sem taki yfir eignir og skuldir þess. Í öðru lagi er mælt fyrir um afnám afnotagjalda og álagningu sérstaks útvarpsgjalds. Í þriðja og síðasta lagi eru gerðar breytingar á stjórnun. Í athugasemdum við frumvarpið eru boðaðar breytingar á fjármögnun Sinfóníuhljómsveitar Íslands.
    Samkvæmt 1. gr. frumvarpsins verður Ríkisútvarpið rekið sem sameignarfélag í eigu ríkisins en ekki sem ríkisfyrirtæki. Það þýðir að fjárreiður hins nýja félags verða væntanlega sýndar í E-hluta ríkisins, en til hans teljast sameignar- og hlutafélög sem ríkið á að hálfu eða meira en ekki í B-hluta ríkisins þar sem Ríkisútvarpið hefur verið. Hið nýja fyrirtæki mun fá fjárveitingu frá A-hluta ríkissjóðs sem svarar til tekna af sérstökum skatti, útvarpsgjaldi, á sama hátt og Ríkisútvarpið hefur fengið fjárveitingu vegna tekna af afnotagjöldum. Gjaldstofn, álagning og innheimta munu hins vegar breytast eins og greint verður frá síðar.
    Þessi formbreyting, þ.e. flutningur úr B-hluta í E-hluta, hefur að því talið er engin áhrif á ábyrgð ríkisins á rekstri og skuldbindingum. Hins vegar verður félagið losað undan ýmsum lögum og reglum sem gilda sérstaklega um ríkisrekstur svo sem varðandi fjárreiður, upplýsingagjöf, starfsmannahald og lántökuheimildir. Frumvarpið gerir ráð fyrir vissri takmörkun á heimild stjórnar til að skuldbinda sameignarfélagið fjárhagslega, og þar með ríkissjóð.
    Samkvæmt 11. gr. fumvarpsins er lagt til að Ríkisútvarpið sf. hafi fastar tekjur af sérstökum skatti, útvarpsgjaldi, sem skattstjórar leggja á samhliða álagningu tekjuskatts. Gert er ráð fyrir að þessi tilhögun hafi óveruleg áhrif á útgjöld skattstofa og innheimtumanna, en innheimta afnotagjalda kostar Ríkisútvarpið nú um 80 m.kr. á ári og ætti sú fjárhæð að sparast að mestu leyti.
    Skylda til að greiða útvarpsgjald mun hvíla samkvæmt frumvarpinu á öllum einstaklingum sem eru heimilisfastir hér á landi og þeim sem dvelja hér á landi lengur en 183 daga á ári eða hverju tólf mánaða tímabili. Undanþegnir skattinum eru þeir einstaklingar sem ekki skulu sæta álagningu sérstaks gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra eða skulu fá það gjald fellt niður samkvæmt lögum um sjóðinn. Samkvæmt álagningarskrá ríkisskattstjóra árið 2004 vegna tekna á árinu 2003 greiddu 160.520 einstaklingar gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra og hafði þeim fjölgað um 1,9% frá árinu áður. Að auki skulu lögaðilar sem eru skattskyldir og bera sjálfstæða skattaðild vera skattskyldir, þó ekki dánarbú, þrotabú og ýmsir lögaðilar sem eru undanþegnir skattskyldu svo sem stofnanir í eigu ríkis og sveitarfélaga, félagasamtök og sjálfseignarstofnanir sem ekki eru reknar í hagnaðarskyni. Samkvæmt upplýsingum ríkisskattstjóra voru 31.779 lögaðilar á skattgrunnskrá við álagningu 2004 og þar af voru 23.621 aðilar tekju- og eignarskattsskyldir. Af þeim fjölda skiluðu 16.443 framtali en áætlað var á 7.178 og kunna sumir þeirra að hafa skilað framtali síðan. Gera verður ráð fyrir að ekki takist að innheimta skattinn hjá öllum sem það verður formlega lagt á, eins og gildir um afnotagjöldin. Miðað við 13.500 kr. gjald á ári og 1,5% fjölgun greiðenda milli ára má reikna með að um það bil 183 þúsund aðilar greiddu gjaldið í ár ef það væri lagt á og að það skilaði um 2.470 m.kr. nettó.
    Til samanburðar eru brúttótekjur af afnotagjöldum áætlaðar 2.516 m.kr. í fjárlögum 2005 og þar af er áætlað að innheimtar verði 2.450 m.kr. en 66 m.kr. verði afskrifaðar. Samkvæmt þessum forsendum skilar hinn nýi skattstofn því sama og afnotagjöldin. Til viðbótar kemur að boðað er lagafrumvarp sem leiði til þess að hið nýja félag taki ekki þátt í rekstrarkostnaði Sinfóníuhljómsveitarinnar sem lækkar útgjöld þess um 120 m.kr. á ári og að 80 m.kr. árlegur sparnaður ætti að nást með breyttum álagningar- og innheimtuaðferðum.
    Í 12. tölul. 3. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að Ríkisútvarpinu sf. sé skylt að halda uppi nauðsynlegri öryggisþjónustu á sviði útvarps en í 12. gr. er gert ráð fyrir að stjórnvöld geti óskað eftir því að fyrirtækið leggi í framkvæmdir eða rekstur til almannaheilla í öryggisskyni fyrir landsmenn eða vegna byggðasjónarmiða, sem ljóst er að ekki skili arði og skal þá gera um þær samning. Fjármálaráðuneytið telur að meta þurfi hvert tilefni með tilliti til þess hvort það varði nauðsynlega öryggisþjónustu sem fjármagna skal af tekjum af útvarpsgjaldi eða útgjöld sem ekki eru nauðsynleg vegna öryggis en eru til almennaheilla í öryggisskyni eða vegna byggðasjónarmiða. Ekki eru forsendur til að meta hvaða fjárhæðir gæti verið um að ræða.
    Samkvæmt fyrsta bráðabirgðaákvæði lagafrumvarpsins er gert ráð fyrir að ríkið leggi allar eignir, réttindi, viðskiptavild, skuldir og skuldbindingar Ríkisútvarpsins til sameignarfélagsins. Samkvæmt ríkisreikningi 2003, sem er síðasti reikningur sem liggur fyrir, námu eignir Ríkisútvarpsins liðlega 4,6 milljörðum króna í lok þess árs. Þar af voru fastafjármunir metnir á 3,8 milljarða króna en veltufjármunir stóðu í 0,8 milljörðum. Á móti komu tæplega 4,6 milljarðar í skuldir og nam eigið fé stofnunarinnar 88 m.kr. í árslok. Mestu munaði um nálægt 2,6 milljarða króna skuld við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og er áætlað að afborgun af skuldabréfinu sé um 220 m.kr. í ár.
    Í öðru bráðabirgðaákvæði frumvarpsins er fjallað um breytingar sem snúa að starfsmönnum og lagt til að þeir sem eru fastráðnir eigi rétt á störfum hjá hinu nýja félagi, sambærilegum og þeir gegndu hjá Ríkisútvarpinu. Um biðlaunarétt fer eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisútvarpinu eiga 163 starfsmenn biðlaunarétt að upphæð 467 m.kr. Hins vegar eru ekki forsendur til að áætla að hvaða leyti mun reyna á þetta. Útgjöld sem af þessu kunna að leiða lenda á hinu nýja fyrirtæki samkvæmt fyrsta bráðabirgðaákvæði frumvarpsins.
    Ríkisútvarpið er skuldbundið til að greiða 25% af hallarekstri Sinfóníuhljómsveitar Íslands samkvæmt lögum um hljómsveitina. Lagafrumvarpið felur ekki í sér breytingu á þessu en í athugasemdum er boðað sérstakt frumvarp til breytinga á lögum um Sinfóníuhljómsveitina þar sem m.a. greiðsluþátttaka Ríkisútvarpsins verði felld niður. Í fjárlögum 2005 er gert ráð fyrir að greiðsluþátttakan nemi 119 m.kr.
    Niðurstaða þessa kostnaðarmats er að verði frumvarpið óbreytt að lögum muni útgjöld A- hluta ríkisins ekki breytast.