Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 607. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 992  —  607. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Kristjáns L. Möller um sölu grunnnets Landssímans.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hefur Samkeppnisstofnun skilað skýrslu eða áliti um hvaða áhrif það hafi á samkeppni á fjarskiptamarkaði ef grunnnet Landssímans verður selt með fyrirtækinu? Ef svo er, þá er óskað eftir því að skýrsla eða álit Samkeppnisstofnunar verði birt í heild sinni og jafnframt upplýst fyrir hvaða ráðherra verkið var unnið.

    Við undirbúning á sölu Landssíma Íslands hf. (Símans) árið 2001 kallaði framkvæmdanefnd um einkavæðingu, sem umsjón hefur með sölu ríkiseigna, eftir áliti fjölmargra sérfróðra aðila varðandi ýmsa þætti sölu á Símanum. Meðal annars var óskað eftir minnisblaði frá Samkeppnisstofnun eftir fund nefndarinnar með fulltrúum stofnunarinnar 24. mars árið 2000. Framkvæmdanefndin kallaði eftir minnisblaðinu að eigin frumkvæði, ekki að ósk ráðherranefndar um einkavæðingu eða annarra einstakra ráðherra.
    Í minnisblaðinu, sem dagsett er 7. apríl árið 2000, koma fram áhersluatriði Samkeppnisstofnunar varðandi söluna á Símanum sem þá var fyrirhuguð og þau snúa m.a. að svokölluðu grunnneti félagsins. Umrætt minnisblað fellur undir undantekningarákvæði 5. gr. og 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga, nr. 50/1996. Hins vegar hefur ítrekað verið vitnað til innihalds minnisblaðsins, ekki síst af fyrirspyrjanda, og mun forsætisráðuneytið ekki leggjast gegn birtingu þess í heild.
    Fyrir liggur að umrætt minnisblað er fimm ára gamalt og fjarskiptamarkaðurinn hefur tekið miklum breytingum síðan þá. Fyrirtæki í samkeppni við Símann hafa eflst og samkeppni aukist, hvort heldur er í grunnnetsþjónustu eða ýmiss konar virðisaukandi þjónustu, og lagaumhverfið hefur sömuleiðis tekið breytingum með tilliti til samkeppnissjónarmiða. Íslensk stjórnvöld hafa því einungis styrkst í þeirri trú að rétt sé að selja Símann í heilu lagi eins og lög nr. 75/2001, um sölu ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf., heimila.
    Fyrir liggur að lagaumhverfið á Evrópska efnahagssvæðinu gerir ráð fyrir samkeppni í rekstri grunnneta í fjarskiptageiranum. Önnur íslensk fyrirtæki veita grunnnetsþjónustu. Nægir þar að nefna Orkuveitu Reykjavíkur, Og fjarskipti og Fjarska. Lagalegt umhverfi á Íslandi tryggir samkeppnisaðilum Símans að evrópskri fyrirmynd greiðan og jafnan aðgang að grunnnetinu. Lög um þetta, sem endurskoðuð voru árið 2003, gera ríkar kröfur til markaðsráðandi aðila á fjarskiptamarkaði og gefa skýr fyrirmæli um aðgang annarra að grunnneti slíks aðila. Póst- og fjarskiptastofnun og Samkeppnisstofnun hafa úrræði til inngripa verði markaðsráðandi aðili uppvís að brotum.
    Því mæla nú sem fyrr ótvíræð rök með því að selja Símann í heilu lagi. Víðast hvar í Evrópu hafa fjarskiptafyrirtæki verið seld úr ríkiseigu. Í því ferli hafa grunnnet hvergi verið aðskilin af þeirri ástæðu að hvergi var sú leið talin skynsamleg, hvorki fyrir neytendur né fjarskiptamarkaðinn. Nýleg skýrsla frá OECD styður enn fremur þessi sjónarmið en þar segir m.a.: „Aðskilnaður [grunnnets frá öðrum þjónustuþáttum fyrirtækja] er áhættusamur, ávinningurinn takmarkaður, mjög óviss og getgátukenndur“. Þá hefur Póst- og fjarskiptastofnun, fag- og eftirlitsaðili með fjarskiptamarkaðnum, bent á ókosti þess að skilja grunnnet Símans frá öðrum rekstrarþáttum fyrirtækisins.
    Aðskilnaður grunnnetsins frá öðrum þjónustuþáttum Símans hefði tvímælalaust í för með sér aukna óvissu við sölu á fyrirtækinu og yrði til þess fallinn að lækka söluverðmæti þess, sem að hluta til er ætlað til uppbyggingar á fjarskiptaþjónustu. Einmitt með sölu á Símanum, og samhliða styrkingu ríkissjóðs, hefur ríkisvaldið fleiri úrræði en áður til að ráðast í uppbyggingu á fjarskiptaþjónustu, ekki síst á landsbyggðinni.
    Markmið stjórnvalda með sölu á hlut sínum í Símanum eru skýr – að auka samkeppni á fjarskiptamarkaði og bæta þannig hag neytenda. Eðlilegt er að fylgjast með þróun samkeppni á innlendum fjarskiptamarkaði og endurskoða eftirlitsúrræði ef með þarf til að tryggja samkeppni frekar. Slíkt er sjálfsagt, enda þróun á fjarskiptamarkaði ör og lög um fjarskiptaþjónustu og eftirlitsúrræði hljóta ávallt að vera í endurskoðun.