Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 677. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1030 —  677. mál.
Frumvarp til lagaum uppboðsmarkaði sjávarafla.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)1. gr.

    Lög þessi taka til starfsemi uppboðsmarkaða fyrir sjávarafla.
    Sjávarútvegsráðherra veitir leyfi til reksturs uppboðsmarkaðar fyrir sjávarafla. Við veitingu leyfa skal ráðherra m.a. meta hvort skilyrði séu til frjálsrar verðmyndunar á uppboðsmarkaði með hliðsjón af líklegu fiskframboði, fjölda fiskvinnslustöðva á markaðssvæði og starfsemi annarra uppboðsmarkaða.
    Svipta má aðila leyfi til reksturs uppboðsmarkaðar fullnægi hann ekki skilyrðum settum í lögum þessum eða reglugerð um starfsemi uppboðsmarkaða, sbr. 5. gr.

2. gr.

    Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     1.      Leyfishafi: Sá sem fengið hefur leyfi ráðherra samkvæmt lögum þessum til að starfrækja uppboðsmarkað fyrir sjávarafla.
     2.      Uppboðsmarkaður: Markaður þar sem sjávarafli er seldur á frjálsu uppboði og aðilar hafa tækifæri til að kynna sér ástand aflans á uppboðsstað.
     3.      Uppboðsstaður: Staður þar sem aðilar geta kynnt sér afla sem seldur verður á uppboði.
     4.      Uppboðsstjóri: Sá aðili sem leyfishafi hefur falið að annast framkvæmd uppboðs og hlotið hefur löggildingu ráðherra til þeirra starfa.

3. gr.

    Leyfi til reksturs uppboðsmarkaðar má einungis veita aðilum sem fullnægja eftirfarandi skilyrðum:
     a.      Hafa íslenskan ríkisborgararétt og eiga lögheimili hér á landi. Erlendur ríkisborgari sem á lögheimili hér á landi og hefur átt það samfellt í a.m.k. eitt ár skal þó vera undanþeginn skilyrði um íslenskt ríkisfang.
     b.      Eru fjárráða.
     c.      Hafa forræði á búi sínu.
    Enn fremur má veita hlutafélögum eða öðrum lögaðilum sem eiga heimili hér á landi leyfi til reksturs, enda uppfylli stjórnarmenn og framkvæmdastjórar lögaðila skilyrði b- og c-liðar 1. mgr. Sé um að ræða erlendan aðila eða íslenskan lögaðila sem erlendur aðili á hlut í skal auk þess fullnægt skilyrðum laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.

4. gr.

    Um húsnæði og búnað uppboðsmarkaðar og meðferð afla gilda lög nr. 55/1998, um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, og reglur settar á grundvelli þeirra laga eftir því sem við á.

5. gr.

    Ráðherra setur í reglugerð frekari reglur um starfsemi uppboðsmarkaða, m.a. um gagnsæi viðskipta, birtingu uppboðsskilmála og um uppboðslýsingar. Ráðherra er jafnframt heimilt í reglugerð að setja reglur um sölu afla sem ekki er kominn á uppboðsstað.

6. gr.

    Leyfishafar skulu standa skil á uppboðsandvirði hins selda afla til seljenda og sjá um skil á greiðslum samkvæmt ákvæðum II. kafla laga nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.
    Leyfishafi skal krefjast greiðslutrygginga af kaupanda sé ekki um staðgreiðslu að ræða.
    Við skiptingu greiðslna samkvæmt þessari grein skal miða við uppboðsandvirði að frádregnum beinum kostnaði af uppboðinu.

7. gr.

    Um sjávarafla, sem seldur er á uppboðsmarkaði, gilda ekki ákvæði um lágmarksverð samkvæmt lögum nr. 43/1985, um Verðlagsráð sjávarútvegsins.

8. gr.

    Leyfishafi skal hafa í þjónustu sinni a.m.k. einn starfsmann sem sér um framkvæmd uppboðs, uppboðsstjóra, og skal hann hafa löggildingu til starfans.
    Sjávarútvegsráðherra veitir löggildingu.
    Uppboðsstjórar mega hvorki gera boð á uppboði sjálfir né láta aðra gera það fyrir sína hönd.

9. gr.

    Með brot gegn lögum þessum skal fara að hætti opinberra mála. Brot gegn lögum þessum varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.

10. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 123 28. desember 1989, um uppboðsmarkað fyrir sjávarafla.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Núgildandi lög um uppboðsmarkaði eru frá árinu 1989. Starfsemi fiskmarkaða hefur breyst töluvert síðan þá og hefur verið bent á þörf á endurskoðun laganna. Helstu atriði sem þörf hefur verið talin á að breyta eru gildistími rekstrarleyfa sem er nú aðeins eitt ár. Jafnframt hafa komið fram sjónarmið um að samræma þurfi starfsreglur markaða í því skyni að viðskiptaumhverfið verði skýrara fyrir kaupendur og seljendur. Af þeim sökum er hér lagt til að ráðherra setji í reglugerð nánari skilyrði um starfsemi markaða í stað þess að staðfesta starfsreglur hvers markaðar fyrir sig. Loks er lagt til að sett verði viðurlagaákvæði í lögin en slíkt ákvæði er ekki í núgildandi lögum. Aðrar breytingar sem felast í frumvarpi þessu eru óverulegar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í núgildandi lögum er gert ráð fyrir að gildistími rekstrarleyfa sé einungis eitt ár. Upphaflega var þetta ákvæði sett inn í lög nr. 19/1987 þar sem ástæða þótti til að geta endurskoðað árlega starfsemi hvers markaðar. Fiskmarkaðir hafa nú starfað í nærfellt átján ár og töluverð reynsla fengist af þessari starfsemi. Því verður að teljast óþarft að kveða á um svo skamman gildistíma rekstrarleyfa. Í frumvarpi þessu er því gert ráð fyrir að rekstrarleyfi verði ekki tímabundin.

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 3. gr.

    Greinin er samhljóða 2. gr. núgildandi laga.

Um 4. gr.

    Í lögum nr. 55/1998, um meðferð vinnslu og dreifingu sjávarafurða, er kveðið á um skyldur sem hvíla á fiskmörkuðum varðandi meðferð og vinnslu sjávarafurða. Þeir þurfa að hafa starfsleyfi frá Fiskistofu og þurfa að uppfylla kröfur um hreinlæti og búnað sem kveðið er á um í þeim lögum og reglugerðum sem byggjast á þeim. Vegna skýrleikasjónarmiða þykir rétt að í þessum lögum sé tilvísun í lög nr. 55/1998.

Um 5. gr.

    Í núgildandi lögum er ekki gert ráð fyrir að ráðherra setji sérstaka reglugerð um starfsemi fiskmarkaða heldur er kveðið á um að ráðherra staðfesti starfsreglur hvers markaðar fyrir sig. Þetta hefur leitt til þess að mjög mismunandi reglur hafa gilt á mörkuðum. Hafa komið fram óskir frá hagsmunaaðilum um að settar yrðu samræmdar starfsreglur fyrir fiskmarkaði. Þetta eykur öryggi í viðskiptum. Kaupendur og seljendur eru þannig upplýstir um það hvaða grundvallarreglur gildi um viðskiptin.
    Í þessari grein er því kveðið á um reglugerðarheimild ráðherra.

Um 6. og 7. gr.

    Greinarnar eru samhljóða 6. og 7. gr. núgildandi laga.

Um 8. gr.

    Greinin er lítið breytt frá 8. gr. núgildandi laga. Hér er þó kveðið á um að uppboðsstjórar megi hvorki gera boð á uppboði sjálfir né láta aðra gera það fyrir sína hönd. Eðlilegt þykir að gera þessa kröfu til uppboðsstjóra og því er kveðið sérstaklega á um það hér.

Um 9. gr.

    Í þessari grein er kveðið svo á um að um brot gegn lögunum fari að hætti opinberra mála auk þess sem kveðið er á um viðurlög.

Um 10. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:Umsögn um frumvarp til laga um uppboðsmarkaði sjávarafla.

    Frumvarpið er lagt fram í þeim tilgangi að taka yfir lög nr. 123/1989, um uppboðsmarkað fyrir sjávarafla, en markmiðið er að færa lögin í nútímalegra horf. Með frumvarpi þessu er lagt til að rekstrarleyfi uppboðsmarkaða sem eru gefin út af sjávarútvegsráðuneyti verði ótímabundin í stað þess að gilda í eitt ár í senn.
    Uppboðsmarkaðir greiða nú 5.000 kr. fyrir endurnýjun leyfa og verður því sjávarútvegsráðuneytið af 100.000 kr. tekjum árlega miðað við að 20 uppboðsmarkaðir séu starfræktir vegna þess að sú gjaldtaka fellur niður.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki séð að það hafi kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð.