Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 728. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1086  —  728. mál.
Beiðni um skýrslufrá forsætisráðherra um fátækt barna og hag þeirra.

Frá Helga Hjörvar, Önnu Kristínu Gunnarsdóttur, Einari Karli Haraldssyni,
Guðrúnu Ögmundsdóttur, Jóhönnu Sigurðardóttur, Lúðvík Bergvinssyni,
Margréti Frímannsdóttur, Rannveigu Guðmundsdóttur og Þórunni Sveinbjarnardóttur.


    Með vísan til 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að forsætisráðherra flytji Alþingi skýrslu um fátækt barna og hag þeirra. Í skýrslunni verði lagt mat á umfang, orsakir og afleiðingar fátæktar barna og hvernig hún hefur þróast síðastliðinn áratug.
    Í skýrslunni verði leitast við að svara eftirfarandi spurningum:
     1.      Hve stór hluti barna á Íslandi býr við fátækt samkvæmt eftirfarandi mælikvörðum:
                  a.      börn sem alast upp á heimilum sem hafa lægri tekjur en 40% meðaltekna,
                  b.      börn sem alast upp á heimilum sem hafa lægri tekjur en 50% meðaltekna, sbr. skilgreiningu OECD,
                  c.      börn sem alast upp á heimilum sem hafa lægri tekjur en 60% meðaltekna, sbr. viðmiðunarmörk Evrópusambandsins,
                  d.      börn sem alast upp á heimilum sem hafa lægri tekjur en 70% meðaltekna?
     2.      Hve stór hluti barna á Íslandi býr á heimilum sem þiggja fjárhagsaðstoð? Gerður verði greinarmunur á þeim sem þegið hafa fjárhagsaðstoð einu sinni eða oftar og þeirra sem þegið hafa fjárhagsaðstoð í fimm mánuði eða lengur. Þá komi einnig fram hve mörg börn alast upp hjá örorkulífeyrisþegum er njóta fulltrar tekjurtryggingar.
     3.      Hvert er hlutfall barna sem búa annars vegar á heimilum sem teljast fátæk samkvæmt skilgreiningu OECD (lægri tekjur en 50% meðaltekna) og hins vegar á heimilum sem fá fjárhagsaðstoð, þegar litið er til eftirfarandi þátta:
                  a.      hjúskaparstöðu foreldra:
                      1.      einstætt foreldri,
                      2.      foreldri í sambúð eða hjónabandi,
                  b.      menntunar aðalframfæranda:
                      1.      grunnskólapróf eða samsvarandi,
                      2.      framhaldsskólamenntun,
                      3.      háskólamenntun,
                  c.      aldurs aðalframfæranda:
                      1.      yngri en 30 ára,
                      2.      30–39 ára,
                      3.      40 ára og eldri,
                  d.      fjölda barna á heimili:
                      1.      1 barn,
                      2.      2 börn,
                      3.      3 börn,
                      4.      4 börn,
                      5.      5 börn eða fleiri,
                  e.      upprunalands aðalframfæranda:
                      1.      Ísland,
                      2.      önnur lönd?
     4.      Hvernig er tekjuöflun háttað hjá þeim hópum sem nefndir eru í 1. lið, hverjum fyrir sig, þ.e. er um að ræða launatekjur, atvinnuleysisbætur, örorkubætur, fjárhagsaðstoð, o.s.frv.?
     5.      Hvert er hlutfall barna sem búa á heimilum sem:
                  a.      þiggja fjárhagsaðstoð,
                  b.      eru fátæk,
                  c.      þiggja fjárhagsaðstoð og eru fátæk,
                  d.      hvorki þiggja fjárhagsaðstoð né eru fátæk?
             Miða skal við skilgreiningu OECD á fátækt (lægri tekjur en 50% meðaltekna).
     6.      Hvernig skiptist fátækt milli barna á landsvísu? Skiptir íbúafjöldi einhverju máli í því sambandi? Miða skal við skilgreiningu OECD á fátækt (lægri tekjur en 50% meðaltekna).
     7.      Hvernig skiptist hlutfall barnafjölskyldna sem fá fjárhagsaðstoð á landsvísu? Skiptir íbúafjöldi einhverju máli í því sambandi?
     8.      Hvaða áhrif hefur fátækt á andlega og líkamlega heilsu barna? Gerð verði grein fyrir rannsóknum á tengslum efnahags og heilsufars barna sem og helstu orsökum heilsubrests hjá börnum.
     9.      Hvaða tengsl eru milli efnahags barna og leikskólavistar, tómstundaiðkunar svo sem í heilsdagsskóla, þátttöku í tónlistarnámi, íþróttastarfsemi o.s.frv.? Leitað verði eftir upplýsingum um hvort merkjanleg breyting hafi orðið á hópi þátttakenda í þeim sveitarfélögum sem boðið hafa upp á endurgjaldslaust íþrótta-, tónlistar- og tómstundastarf.
     10.      Hver er staða okkar gagnvart öðrum Norðurlandaþjóðum? Er fátækt barna hér á landi algengari eða fátíðari? Hve miklu verjum við í krónutölu á íbúa í stuðning við barnafjölskyldur og hve miklu verja hinar Norðurlandaþjóðirnar?
     11.      Hver er opinber stuðningur við barnafjölskyldur (barnabætur og aðrar greiðslur) hér á landi sem hlutfall af landsframleiðslu í samanburði við önnur OECD-ríki?
     12.      Hafa verið gerðar rannsóknir á orsökum fátæktar barna og ef svo er, hverjar eru niðurstöður þeirra?
     13.      Hvaða áform hefur ríkisstjórnin um að draga úr fátækt barna?

Greinargerð.


    Vaxandi misskipting í iðnríkjum hefur leitt til þess að stærri hluti barna elst upp við fátækt. Svo virðist sem draga megi úr fátækt meðal barna og neikvæðum afleiðingum hennar án þess að auka ríkisútgjöld. Margvíslegar rannsóknir hafa farið fram á þessu mikilvæga efni í nágrannalöndum okkar og samanburðarlöndum innan OECD en samanburðarupplýsingar skortir fyrir Ísland. Forsenda þess að skapa megi jöfn tækifæri til allra í samfélaginu er að draga úr fátækt barna og er það því eitthvert brýnasta verkefni stjórnmálamanna. Þá valda endurteknar fréttir af slæmu heilsufari, einkum andlegu, meðal barna og unglinga áhyggjum og vert er að skoða efnalegar aðstæður þeirra með það í huga að fátækt er algeng orsök heilsubrests.
    Samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem lögfestur var hér á landi með lögum nr. 18/1992, skal tryggja börnum borgaraleg, stjórnmálaleg, fjárhagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.
    Í nýlegri skýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, Child Poverty in Rich Countries 2005, er fjallað um hagi barna í 24 aðildarlöndum Efnahags- og framfararstofnunarinnar, OECD. Þar kemur fram að í sautján þessara landa hafi hlutfall barna sem búa undir fátæktarmörkum hækkað síðasta áratuginn. Fram kemur einnig að fátækt barna er minnst meðal frændþjóða okkar á Norðurlöndunum. Ekki eru birtar sambærilegar tölur fyrir Ísland.
    Annars staðar á Norðurlöndunum hafa verið gerðar skýrslur um fátækt barna sem rétt er að hafa til hliðsjónar, sbr. dönsku skýrslurnar Børnefattigdom i danske kommuner 1984–2001 (Soacialforskningsinstituttet 2003) og Børnefattigdom i Danmark 2002 (Soacialforskningsinstituttet 2004), norsku skýrsluna Fattige barn i Norge. Hvem er de og hvor bor de? (Fafo 2004) og sænsku skýrsluna Barns ekonomiska utsatthet (Rädda Barnen, 2003). Þá benda flutningsmenn einnig á danska skýrslu sem gerð hefur verið um fátækt og félagslega einangrun, Fattigdom og social eksklusion (Soacialforskningsinstituttet 2004).
    Eina rannsóknin sem gerð hefur verið á fátækt almennt og fátækt barna sérstaklega hér á landi og byggist á svipaðri aðferð og notuð er hjá UNICEF og OECD er rannsókn Stefáns Ólafssonar og Karls Sigurðssonar og var hún birt í bókinni Poverty and Low Income in the Nordic Countries, í ritstjórn Björn Gustafsson og Peder J. Pedersen (Aldershot: Ashgate Publishers, 2000), sjá einnig bók Stefáns Ólafssonar (1999), Íslenska leiðin, en þar er umfjöllun um fátækt og lífskjör í fjölþjóðlegum samanburði. Í þessum verkum eru vísbendingar um að fátækt meðal barna sé ívið algengari hér á landi en annars staðar á Norðurlöndunum og að fátækt barna einstæðra foreldra sé mun algengari en barna sem alast upp hjá fjölskyldum með tvær fyrirvinnur. Rannsókn Hörpu Njáls ( Fátækt á Íslandi, 2003) byggist á annarri aðferð en notuð er hjá UNICEF og OECD. Mikilvægt er að fá nýrri tölur sem eru sambærilegar við nýjustu tölur áðurnefndra fjölþjóðastofnana og einnig til að meta þróun fátæktar meðal barna á Íslandi hin síðari ár og áhrif hennar á heilsufar og félagslega og menningarlega stöðu.