Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 482. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1186  —  482. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um fjarsölu á fjármálaþjónustu.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þóru Margréti Hjaltested frá viðskiptaráðuneyti, Jóhannes Gunnarson og Írisi Ösp Ingjaldsdóttur frá Neytendasamtökunum og Guðrúnu Þorleifsdóttur frá embætti ríkisskattstjóra. Umsagnir um málið bárust að auki frá Félagi íslenskra stórkaupmanna, Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, Verslunarráði, Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Símanum, Fjármálaeftirlitinu, Kauphöll Íslands og Seðlabanka Íslands.
    Í frumvarpinu er lagt til að sett verði lög um fjarsölu á fjármálaþjónustu en sérlög um þetta efni hafa ekki verið sett hér áður. Frumvarpið er samið til að innleiða ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2002/65/EB frá 23. september 2002 varðandi fjarsölu á fjármálaþjónustu fyrir neytendur og um breytingu á tilskipun ráðsins 90/619/EBE og á tilskipunum 97/7/EB og 98/27/EB. Tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 47/2003, frá 16. maí 2003, um breytingu á IX. viðauka og XIX. viðauka við EES-samninginn.
    Frumvarpið byggist á vinnu nefndar viðskiptaráðherra um innleiðingu framangreindrar tilskipunar sem í voru skipaðir fulltrúar ráðuneytisins og ýmissa félagasamtaka. Eitt megin- markmið frumvarpsins er aukin neytendavernd við gerð samninga um fjármálaþjónustu í fjarsölu en sala slíkrar þjónustu fer í vaxandi mæli fram með þeim hætti.
    Nefndin leggur til að eftirfarandi breytingar verði gerðar á frumvarpinu.
          Að orðalag 1. mgr. 2. gr. verði gert skýrara.
          Að fyrirtækjaskrá verði bætt við þær skrár sem taldar eru upp í 5. gr. frumvarpsins þar sem slíkt er eðlilegt út frá grundvallarhlutverki þeirrar skrár auk þess sem það bætir stöðu neytenda að vera upplýstir um þá skrá.
          Að aukin skylda verði lögð á seljanda til að upplýsa á skýran hátt hvað geti legið til grundvallar verði samnings ef ekki er hægt að gefa upp nákvæmt verð samkvæmt fyrri málslið 3. tölul. 6. gr. og 3. tölul. 2. mgr. 9. gr. frumvarpsins. Auk þess er lagt til að orðalagi fyrri málsliðarins verði breytt.
          Að gildistöku laganna verði frestað til 1. júní verði frumvarpið samþykkt en með því er þjónustuveitendum veittur tími til að undirbúa sig og aðlagast auknum skyldum en nefndin telur slíkt svigrúm til þess fallið að tryggja góða framkvæmd laga sem þessara. Rýmri tíma þarf ekki að veita enda settu umsagnaraðilar ekki út á gildistökuákvæði frumvarpsins og þjónustuveitendur sem hér starfa virðast vel upplýstir um efni frumvarpsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Jóhanna Sigurðardóttir, Lúðvík Bergvinsson og Ögmundur Jónasson skrifa undir álitið með fyrirvara og áskilja sér rétt til að leggja fram og styðja breytingartillögur við málið. Fyrirvari Jóhönnu Sigurðardóttur lýtur að sönnunarbyrði þeirra sem selja fjármálaþjónustu í fjarsölu og að heimild Fjármálaeftirlits til að birta athugasemdir ef brotið er ítrekað eða gróflega gegn lögunum.
Gunnar Örlygsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu en áskilur sér þó rétt til að leggja fram og styðja breytingartillögur við málið.
    Össur Skarphéðinsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 22. apríl 2005.Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Dagný Jónsdóttir.


Birgir Ármannsson.Gunnar Birgisson.


Jóhanna Sigurðardóttir,


með fyrirvara.


Lúðvík Bergvinsson,


með fyrirvara.Una María Óskarsdóttir.


Ögmundur Jónasson,


með fyrirvara.