Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 802. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1269  —  802. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um stofnun háskólaseturs á Akranesi.

Flm.: Jón Bjarnason.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að hefja undirbúning að stofnun háskólaseturs á Akranesi með áherslu á iðn- og tæknigreinar auk almennra grunngreina háskólanáms. Ráðherra geri Alþingi grein fyrir undirbúningsstarfinu og tillögum sínum um uppbyggingu háskólanáms á Akranesi fyrir 1. nóvember 2005.

Greinargerð.


    Efling menntastofnana og rannsóknasetra sem víðast um landið er eitt brýnasta mál landsbyggðarinnar. Reynslan hefur sýnt fram á kosti þess að heimamenn stjórni slíkri starfsemi að sem mestu leyti sjálfir og byggi þá á tækniþekkingu, menningu, atvinnulífi og auðlindum hvers héraðs um sig. Nægir í því sambandi að horfa til háskólanna á Hvanneyri, á Bifröst og á Hólum sem hafa með sjálfstæði sínu, frumkvæði og sveigjanleika fyllilega staðist þær kröfur sem gerðar eru til háskólanáms. Fáir efast heldur um það núorðið að sjálfstæði Háskólans á Akureyri var ein meginforsenda þess að hann næði að vaxa og dafna. Hins vegar er samstarf sjálfstæðra menntastofnana ávallt af hinu góða, hvort heldur er samstarf við skóla í öðrum landshlutum eða erlendis.
    Blómlegt mannlíf byggist á menntun, fjölbreyttri atvinnu og góðri almannaþjónustu. Enginn einn þessara þátta nægir þar til. Íbúum Akraness fjölgaði um 500 á árunum 1997 til 2004 og voru þá um 5.650. Ef með eru taldir íbúar nærsveitanna, þ.e. Skilmannahrepps, Innri-Akraneshrepps, Hvalfjarðarstrandarhrepps og Leirár- og Melasveitar, er heildarfólksfjöldinn á svæðinu rúmlega 6.200 manns. Uppbygging atvinnulífs þar hefur að mestu hvílt á aukinni stóriðju. Því er afar mikilvægt að auka fjölbreytni í atvinnulífi á svæðinu, efla menntunarmöguleika og almenna þjónustu við íbúana.
    Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum könnunar sem Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi létu gera á viðhorfum fólks til búsetuskilyrða á Vesturlandi er ljóst að menntamálin eru mörgum þar ofarlega í huga. Á svæðinu sunnan Skarðsheiðar lentu möguleikar á að afla sér háskólamenntunar í 2. sæti yfir þá þætti sem íbúarnir töldu helst ábótavant hjá sér. Sama könnun leiddi í ljós brýna þörf fyrir iðnaðarmenn með framhaldsmenntun og ákveðnar vísbendingar um að skortur á iðn- og tæknimenntuðu fólki hamlaði vexti almenns iðnaðar á Akranesi.
    Þótt ekki sé orðið ýkja langt að fara milli Akraness og Reykjavíkur, þar sem þegar eru starfræktar deildir sem bjóða upp á háskólanám í iðn- og tæknigreinum, má ætla að aðstæður fólks til að sækja slíkt nám þangað séu alls ekki alltaf nógu góðar. Það á einkum við fólk sem þegar er starfandi í iðnaðinum, hefur verið á vinnumarkaði um allnokkurt skeið og komið sér þar fyrir til frambúðar. Það gefur auga leið að háskólasetur, sem mundi færa námið til fólksins í stað hefðbundinnar skólasóknar sem hugsanlega hefði atvinnumissi og daglegan akstur frá heimili til skóla, ef ekki búferlaflutninga í för með sér, mundi gerbreyta aðstæðum fólks til að sækja sér slíka menntun.
    Ekki er vafi á því að stofnun háskólaseturs á Akranesi yrði kærkomin viðbót við Fjölbrautaskóla Vesturlands sem þar er fyrir. Slíkar menntastofnanir mundu styðja vel hvor við aðra, og ekki bara á sviði menntunar þótt sú samvinna yrði hvað dýrmætust. Eins og fram kemur í ársskýrslu Fjölbrautaskólans fyrir árið 2004 fer ásókn fólks, sem komið er af framhaldsskólaaldri, í nám við skólann stöðugt vaxandi. Þar hófust framkvæmdir við byggingu nýs kennsluhúsnæðis á síðasta ári og talið er brýnt að reisa að auki nýtt verknámshús fyrir kennslu í bygginga- og mannvirkjagreinum. Vel má hugsa sér að háskólasetur á Akranesi gæti samnýtt ýmiss konar húsnæði með Fjölbrautaskólanum og þannig mætti dreifa stofn- og rekstrarkostnaðinum á fleiri hendur. Áratuga hefð er fyrir öflugri og fjölbreyttri iðnmenntun á Akranesi. Iðnnámið hefur þó átt undir högg að sækja síðustu missiri vegna þess að það nám krefst almennt meiri kostnaðar á hvern nemanda en hefðbundið bóknám. Hefur einmitt Fjölbrautaskólinn þurft að heyja stöðuga baráttu fyrir iðnnámi sínu og þeirri sérstöðu sem hann hefur haft á því sviði.
    Sókn er besta vörnin og áðurnefnd könnun sýnir mjög sterka þrá íbúanna eftir auknu framboði á háskólamenntun í heimabyggð. Háskólarnir á Bifröst og Hvanneyri hafa náð sterkri stöðu á sínum sviðum. Háskólasetur með kennslu og rannsóknir á þeim sviðum sem hér er lagt til mun auka enn fjölbreytni í tækni- og háskólanámi í héraðinu. Háskólasetur á Akranesi mun styrkja þessa heildarmynd menntunar og bæta enn frekar búsetuskilyrðin og koma þar með til móts við eindregnar óskir íbúanna í þessu ört vaxandi byggðarlagi. Því er lagt til að menntamálaráðherra skipi nú þegar nefnd með heimamönnum sem vinni tillögur að stofnun Háskólaseturs á Akranesi og skili hún áliti 1. nóvember í haust svo að hægt sé að taka tillögur hennar inn í gerð fjárlaga fyrir árið 2006.