Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 735. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1271  —  735. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um skipan ferðamála.

Frá samgöngunefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur og Helgu Haraldsdóttur frá samgönguráðuneyti, Jón Karl Ólafsson og Ernu Hauksdóttur frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Magnús Oddsson frá Ferðamálaráði Íslands, Pétur Rafnsson frá Ferðamálasamtökum Íslands, Þórð Skúlason og Sigurð Óla Kolbeinsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Írisi Ösp Ingjaldsdóttur frá Neytendasamtökunum, Ólaf Örn Haraldsson frá Ferðafélagi Íslands, Árna Jóhannsson frá Útivist, Ástu Óla Halldórsdóttur frá Félagi leiðsögumanna og Drífu Magnúsdóttur frá Höfuðborgarstofu.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Eyþingi – Sambandi sveitarfélaga í Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslum, Ferðamálaráði Íslands, Vegagerðinni, Birnu G. Bjarnleifsdóttur, Félagi leiðsögumanna, þróunarsviði Byggðastofnunar, Ferðamálasamtökum Íslands, Flugmálastjórn, Ferðamálaráði Íslands og Neytendasamtökunum.
    Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á skipan ferðamála og er lagt til að hlutverki Ferðamálaráðs verði breytt og skrifstofu Ferðamálaráðs gert kleift að gegna hlutverki stjórnsýslustofnunar. Þá er ætlunin með frumvarpinu að einfalda leyfisveitingar og tryggingamál ferðaskrifstofa frá því sem verið hefur.
    Á fundum nefndarinnar var rætt um þær breytingar sem lagðar eru til á skipun Ferðamálaráðs frá gildandi lögum en þær eru að Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefni ekki neinn fulltrúa í ráðið en tilnefndi áður tvo. Fellst nefndin á þau sjónarmið sambandsins að sveitarfélögin hafi stutt við uppbyggingu og grunnþætti í rekstri ferðaþjónustu í landinu, m.a. með aðkomu að rekstri upplýsingamiðstöðva. Þau hafi mikla þekkingu á stöðu ferðamála víða um land og mikla hagsmuni af því að byggja upp og efla ferðaþjónustu í sveitarfélögum. Þá kunni sjónarmið höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar að vera mismunandi og leggur því nefndin til þá breytingu á frumvarpinu að fjölgað verði í ráðinu um tvo fulltrúa sem Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefni.
    Nefndin ræddi einnig stöðu innlendra ferðafélaga á borð við Ferðafélag Íslands og Útivist en með frumvarpinu er lagt til að niður falli heimild ráðherra til að veita undanþágu frá skilyrðum laganna varðandi rekstur ferðaskrifstofu. Telur nefndin að rökin fyrir setningu þessa lagaákvæðis hafi verið þau að veita fjölmennum ferðafélögum sem byggt hefðu starf sitt á sjálfboðaliðastarfi um áratugaskeið og staðið fyrir umfangsmikilli uppbyggingu á ferðamannastöðum víða um land undanþágu frá skilyrðum laganna vegna hagsmuna almennings. Þessi félög hafa reist skála á hálendinu sem eru öllum opnir, lagt brýr og vegi, ásamt því að stika gönguleiðir, sinna landvörslu og náttúruvernd. Fellst nefndin því á mikilvægi þess að áfram verði unnt að veita undanþágur frá lögunum fyrir slíka starfsemi og leggur til breytingartillögu þess efnis. Samkvæmt tillögunni verði það Ferðamálastofa sem ákveði þessar undanþágur.
    Þá ræddi nefndin nokkuð skilyrði frumvarpsins til reksturs ferðaskrifstofu sem umsækjandi eða forsvarsmaður umsækjanda þarf að fullnægja. Þau eru m.a. þau að hann má ekki hafa orðið gjaldþrota eða hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, lögum um hlutafélög og einkahlutafélög og lögum um bókhald og ársreikninga, á síðustu þremur árum. Það eru mun vægari kröfur en í gildandi lögum sem kveða á um að leyfi til reksturs ferðaskrifstofu skuli hafnað ef umsækjandi hefur haft leyfi til slíkrar starfsemi á síðustu fimm árum og sú ferðaskrifstofa orðið gjaldþrota. Telur nefndin að með hliðsjón af neytendavernd séu ekki séu nægileg rök fyrir því að rýmka skilyrðin svo mikið og leggur til þá breytingu á frumvarpinu að miðað verði við síðustu fjögur ár í stað þriggja ára eins og frumvarpið kveður á um.
    Nefndin ræddi nokkuð um einstakar starfsstéttir en í frumvarpinu er ekki fjallað sérstaklega um þær. Þó er ljóst að t.d. leiðsögumenn og landverðir hafa þýðingarmiklu hlutverki að gegna við að fræða ferðamenn um land og þjóð. Þeir eru mikilvægur hlekkur í að tryggja góða umgengni um landið. Náttúra landsins er hornsteinn íslenskrar ferðaþjónustu og því er starf þessara hópa greininni mikilvægt. Telur nefndin rétt að ráðuneytið hugi að setningu reglna um kröfur sem gera þarf til þessara hópa varðandi hæfni, menntun og öryggismál.
    Þá ræddi nefndin nokkuð um markaðsmál ferðaþjónustunnar og hvetur til þess að Ferðamálastofa semji við Útflutningsráð og Samtök ferðaþjónustunnar um að þeir aðilar vinni í sameiningu að markaðssetningu íslenskrar ferðaþjónustu erlendis, líkt og tíðkast í öðrum atvinnugreinum.
    Loks hvetur nefndin Ferðamálastofu til að efna til formlegs samstarfs við Samtök ferðaþjónustunnar með málefni atvinnugreinarinnar í huga.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Jón Bjarnason sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er ósamþykkur áliti þessu.
    Arnbjörg Sveinsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 28. apríl 2005.Guðmundur Hallvarðsson,


form., frsm.


Una María Óskarsdóttir.


Björgvin G. Sigurðsson.Guðjón Hjörleifsson.


Kristján L. Möller.


Bryndís Hlöðversdóttir.Guðjón A. Kristjánsson,


með fyrirvara.


Magnús Stefánsson.