Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 765. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1343  —  765. mál.
Svarlandbúnaðarráðherra við fyrirspurn Rannveigar Guðmundsdóttur um tolla á innfluttar búvörur og matvöruverð.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hver er afstaða ráðherra til þess að teknar verði upp beinar greiðslur úr ríkissjóði til stuðnings landbúnaði í stað tolla á innfluttar búvörur í því skyni að lækka matvöruverð?
     2.      Hvaða vinna fer fram í ráðuneytinu með það að markmiði að lækka eða fella niður tolla á innfluttar búvörur?


    Eins og kunnugt er standa nú yfir viðræður á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um ákveðið umbótaferli í landbúnaðarviðskiptum með það að langtímamarkmiði að koma á viðskiptakerfi fyrir landbúnaðarvörur sem er sanngjarnt og miðast við þarfir markaðarins. Stefnt er að því að minnka verulega stuðning og vernd í landbúnaði og koma í veg fyrir takmarkanir og raskanir á heimsmarkaði fyrir landbúnaðarvörur. Í þessu samhengi er brýnt að horfa á mikilvægi annars vegar tollverndar fyrir afkomu íslenskra framleiðenda og hins vegar heimildir íslenskra stjórnvalda til að styðja við bakið á landbúnaðinum með styrkjum og þróun reglna hins fjölþjóðlega viðskiptakerfis í því sambandi. Á þessari stundu liggur ekki fyrir hvernig samningar á vettvangi WTO þróast og því of snemmt fyrir íslensk stjórnvöld að taka afstöðu til beinna greiðslna úr ríkissjóði til stuðnings landbúnaði í stað tolla á innfluttar búvörur í því skyni að lækka matvöruverð.
    Á undanförnum árum hafa starfsmenn ráðuneytisins tekið þátt í fríverslunarviðræðum ásamt utanríkisráðuneytinu á vettvangi EFTA. Samningar um aukinn markaðsaðgang í formi lækkunar og/eða niðurfellingar tolla á ýmsum landbúnaðarvörum hafa verið gerðir við mörg lönd, svo sem Chile, Mexíkó, Singapúr og Líbanon og nú er verið að ljúka samningum við fimm ríki í sunnanverðri Afríku. Þá standa nú yfir viðræður við Evrópusambandið um viðskipti með landbúnaðarvörur á grundvelli 19. gr. EES-samningsins og standa vonir til þess að þeim viðræðum ljúki á þessu ári.