Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði

Þriðjudaginn 14. febrúar 2006, kl. 17:23:33 (4925)


132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[17:23]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í þessu frumvarpi um breytingu á lögreglulögum, og þá ekki síður í greinargerð með frumvarpinu og í ræðu hæstv. dómsmálaráðherra, er lögð áhersla á að ástæða sé til að leggja aukna áherslu á rannsóknir á hryðjuverkum og landráðum, sem svo eru nefnd. Hér erum við farin að feta okkur inn á vettvang sem er harla pólitískur því markalínur á milli afbrota og pólitísks andófs eru iðulega mjög óljósar. Þegar hæstv. ráðherra vísar í breytt umhverfi er það einmitt þetta umhverfi sem hefur verið að breytast og því ástæða til að stíga varlega til jarðar. Ég vil taka undir spurningar hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar, um að áhættumatið, í hverju það felist að mati hæstv. dómsmálaráðherra. Og hvernig á þetta mat á áhættu á hryðjuverkum og skipulegri glæpastarfsemi að fara fram? Þar vísa ég sérstaklega í (Forseti hringir.) hinn pólitíska þátt.