Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði

Þriðjudaginn 14. febrúar 2006, kl. 17:33:30 (4935)


132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[17:33]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef stefnt að því að geta lagt fram frumvarp um meðferð sakamála eins og þetta frumvarp mun væntanlega heita, ekki lengur um meðferð opinberra mála, heldur meðferð sakamála. Ég hef stefnt að því að geta lagt það fram til kynningar á þessu þingi. Ég mun ekki leggja það fram með ósk um að þingið taki það til afgreiðslu á þessu vorþingi. Ég tel að það þurfi lengri aðdraganda, við þurfum að ræða það helst í sumar og leggja það síðan fram aftur næsta haust, og þá munu menn geta rætt atriði eins og heimildir lögreglu og önnur slík atriði sem tekið er á í þeim lögum.