Hlutafélög

Föstudaginn 03. mars 2006, kl. 10:32:10 (5567)


132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Hlutafélög.

461. mál
[10:32]
Hlusta

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 2/1995, um hlutafélög, með síðari breytingum, upplýsingaákvæði. Nefndarálitið er frá efnahags- og viðskiptanefnd.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Ögmund Þormóðsson frá viðskiptaráðuneyti. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Samtökum verslunar og þjónustu, Viðskiptaráði Íslands, Kauphöll Íslands hf., Fjármálaeftirlitinu, Alþýðusambandi Íslands, Félagi löggiltra endurskoðenda, Samtökum atvinnulífsins og Seðlabanka Íslands.

Frumvarpið er byggt á ákvæðum um skyldu til upplýsingagjafar í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/58/EB frá 15. júlí 2003 um breytingu á tilskipun ráðsins 68/151/EBE að því er varðar birtingarskyldu félaga af tiltekinni gerð. Nánar tiltekið er um það að ræða að ríkið skuli kveða á um að tilteknar lágmarksupplýsingar skuli birta á vefsíðu hlutafélaga, þar á meðal samlagshlutafélaga, og einkahlutafélaga.

Mál þetta var rætt og afgreitt samhliða 462. máli — sem er hér á dagskrá á eftir — en þar eru lagðar til samsvarandi breytingar á lögum um einkahlutafélög.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Í stað orðanna „heimasíðu hlutafélaga og útibúa þeirra“ í 1. gr. komi: vef hlutafélaga og útibúa þeirra ef til er.

Undir nefndarálitið rita hv. þm. Pétur H. Blöndal, Dagný Jónsdóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Lára Margrét Ragnarsdóttir, Bjarni Benediktsson, Siv Friðleifsdóttir og Lúðvík Bergvinsson.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og Ögmundur Jónasson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Þá var nokkuð rætt í nefndinni hvort skylda ætti öll félög til að hafa vef eða heimasíðu en það var talið óframkvæmanlegt enda hefur sú leið verið farin í Danmörku að þau félög sem hafa vef á annað borð skuli birta þær upplýsingar sem um ræðir en það eru upplýsingar um heiti, kennitölu, heimilisfang, svo og skráningaraðila og hugsanlega skráningarnúmer annað en kennitölu. Svo á að segja frá því á viðkomandi heimasíðu ef fyrirtækið er í gjaldþrotaskiptum eða félagaskiptameðferð. Svo var ákveðið að nota orðið „vefur“ í staðinn fyrir heimasíðu þar sem það er víðara hugtak. Heimasíða gæti maður sagt að væri bara fyrsta síðan á vefnum.