Greiðslur til foreldra langveikra barna

Þriðjudaginn 07. mars 2006, kl. 13:43:08 (5678)


132. löggjafarþing — 78. fundur,  7. mars 2006.

Greiðslur til foreldra langveikra barna.

389. mál
[13:43]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Það frumvarp sem við göngum senn til atkvæða um er mjög mikilvægt og fagnaðarefni að það skuli vera komið fram. Það hefur kostað áralanga baráttu aðstandenda langveikra barna að ná fram réttarbótum. Undir þær kröfur hafa samtök launafólks tekið og innan Alþingis hefur þessu máli margoft verið hreyft í áranna rás í alllangan tíma.

Á þessu frumvarpi eru hins vegar alvarlegar brotalamir og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, sem hefur á liðnum árum margoft hreyft þessu máli á Alþingi, ásamt okkur öðrum þingmönnum mörgum, hefur gert ágætlega grein fyrir þeim breytingartillögum sem við ásamt Samfylkingunni styðjum.