Tekjuskattur

Þriðjudaginn 21. mars 2006, kl. 15:07:33 (6498)


132. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2006.

Tekjuskattur.

623. mál
[15:07]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.

Eins og rakið er í greinargerð með frumvarpi þessu er með því kveðið á um tvær breytingar á lögum um tekjuskatt. Annars vegar er lagt til að samlagshlutafélag teljist ekki sjálfstæður skattaðili nema eftir því sé sérstaklega óskað við skráningu og hins vegar að kveðið verði skýrar á um undanþágu lífeyrissjóða frá greiðslu tekjuskatts.

Samkvæmt gildandi lögum um tekjuskatt er samlagshlutafélag sjálfstæður skattaðili með sama hætti og hlutafélag og einkahlutafélag, þó svo að hluti félagsaðila í samlagshlutafélagi beri ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum þess. Í löggjöf nágrannaríkja Íslands er víða að finna ákvæði þess efnis að samlagshlutafélög séu ekki sjálfstæðir skattaðilar, nema annars sé óskað, og beri því að skattleggja tekjur samlagshlutafélaga hjá eigendum þeirra. Þannig er því t.d. háttað í dönskum rétti, þó svo að önnur ákvæði dönsku hlutafélagalaganna, eins og um skráningu í hlutafélagaskrá, gildi um samlagshlutafélög eftir því sem við á.

Á það hefur verið bent að ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um tekjuskatt, þar sem kveðið er á um sjálfstæða skattskyldu samlagshlutafélaga, hafi leitt til þess að þetta tiltekna félagaform hafi ekki verið notað í neinum mæli hér á landi þrátt fyrir ýmsa kosti sem því fylgi. Íslensk löggjöf á sviði tekjuskatta sem og hlutafélaga hefur í gegnum tíðina tekið mið af danskri löggjöf og er með frumvarpi því sem hér er mælt fyrir lagt til að sambærilegar reglur gildi í íslenskum lögum um skattskyldu samlagshlutafélaga og eru í danskri löggjöf.

Samkvæmt frumvarpinu verða því tekjur samlagshlutafélags, sem ekki óskar eftir því að vera sjálfstæður skattaðili, skattlagðar hjá eigendum þess. Má því segja að eitt af markmiðum frumvarpsins sé að vekja samlagshlutafélagaformið til lífsins og skapa grundvöll þess að það verði nýtt sem tæki til eflingar fjármögnun, t.d. á sviði nýsköpunar. Taka ber fram að áfram er gert ráð fyrir að reglur hlutafélagalaga gildi almennt um samlagshlutafélög, þar með talið reglur um skráningu.

Í 4. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er að finna upptalningu á þeim aðilum sem undanþegnir eru skattskyldu. Þar á meðal eru lífeyrissjóðir, sbr. 5. tölul. 4. gr., svo fremi sem þeir reki ekki atvinnustarfsemi. Í vissum tilvikum hefur leikið vafi á því hvort lífeyrissjóður teljist stunda atvinnustarfsemi, m.a. í tilviki samlagsfélaga. Með frumvarpi því sem hér er mælt fyrir er lagt til að tekin verði af öll tvímæli um það að lífeyrissjóðir séu undanþegnir skattskyldu af hvers konar tekjum af starfsemi sem þeim er á annað borð heimil samkvæmt lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Íslenskir lífeyrissjóðir eru meðal stærstu og virkustu fjárfesta á innlendum fjármálamarkaði, og með þessari breytingu er þeim gert kleift að fjárfesta í formi samlaga eða samlagshlutafélaga, sem t.d. fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum, án þess að skattskylda myndist hjá þeim.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.