Tekjuskattur

Þriðjudaginn 21. mars 2006, kl. 15:12:22 (6500)


132. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2006.

Tekjuskattur.

623. mál
[15:12]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur ekki farið fram hjá mér og öðrum að hv. þingmaður ber mjög hag eldri borgara fyrir brjósti og kemur það bæði fram hjá honum í ræðu og riti. Það er hins vegar líka á vitorði flestra að ríkisstjórnin hefur skipað sérstaka nefnd til þess að fara yfir kjör og aðstæður eldri borgara. Í þeirri nefnd er kannski ekki sérstaklega vikið að skattamálunum en hins vegar er önnur nefnd að störfum á vegum fjármálaráðuneytisins sem er að fara yfir reynslu okkar af þeim skattalögum og því skattaumhverfi sem við höfum búið við síðan 1988 og meta hvernig til hefur tekist. Þar er út af fyrir sig ekkert undanskilið og eðlilegt að þeir hlutir sem hv. þingmaður nefndi hér verði teknir þar til athugunar að einhverju leyti.

Það ber hins vegar að geta þess í umræðunni að það sem hv. þingmaður er að leggja til gengur í meginatriðum í berhögg við það sem sú skattalöggjöf byggist á en það er það að skattlagningin ráðist af tekjum manna en ekki aðstæðum. Það eru dæmi um að aðstæður komi til áhrifa hvað varðar skattlagninguna en meginatriðin eru öll þau að það séu tekjur en ekki aðstæður sem ráða. En eins og ég segi þegar verið er að meta það hvernig til hefur tekist með þessa skattalöggjöf og það umhverfi sem hún hefur skapað er rétt að skoða þetta í leiðinni.