132. löggjafarþing — 111. fundur,  28. apr. 2006.

Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES og atvinnuréttindi útlendinga.

771. mál
[12:20]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það getur vel verið að það sé markaður fyrir einhvern framfaraflokk íslenskan, einhvern popúlískan hægri flokk sem elur á útlendingaótta og andúð. Það getur vel verið. En guð minn almáttugur, ég vona að hann komi aldrei fram og ég vona að þessi ræða hjá hv. þingmanni sé ekki vísbending um að Frjálslyndi flokkurinn ætli að fara róa á þessi mið eða hv. þingmaður að tala á þessum forsendum.

Ég er fyrst og fremst að segja að við getum haft uppi ólík sjónarmið um það hvort við eigum að heimila frjálsa för eða fresta henni. Ég held að það sé ósköp lítið fengið með að fresta henni um eitt ár. En málflutninginn á ekki að reka á þessum forsendum. Mér þótti hér rekið á forsendum ótta og andúðar, að yfir þjóðina væri að hellast holskefla útlendinga, óvígur her farandverkamanna. Hér er um að ræða ákaflega neikvæða orðræðu sem elur á ótta við útlendinga og ég fordæmi slíka pólitíska umræðu. Ég hef óbeit á slíkri umræðu. Ég hef óbeit á þeim viðhorfum sem hér er verið að reyna að kynda undir sums staðar úti í samfélaginu og felast í einhvers konar andúð á útlendingum og hér ríki einhver stórbrotin hætta yfir því. Ég fagna því mjög að heimurinn sé að færast saman. Ég fagna því að Íslendingar hafa fleiri tækifæri til að fara um heiminn, mennta sig og starfa. Ég fagna þessari þróun.

Það er ekki spurning að ég styð það að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu einhvern tíma, í náinni framtíð jafnvel eða fjarlægari framtíð, það kemur allt í ljós. En það hefur ekkert með þetta mál að gera. Ef þingmaðurinn ætlar að hlaupa í það skjól frá því að hann sé spurður út í það hvort hann hafi ekki gengið aðeins of langt hvað varðar útlendingaandúð og ótta við útlendinga yfir í það að menn séu að ganga eitt skref í átt að Evrópusambandinu þá hefur það ekkert með þetta mál að gera, akkúrat ekki neitt. Það er allt önnur umræða og hana tökum við vonandi fljótlega.