Staðgreiðsla opinberra gjalda

Fimmtudaginn 08. desember 2005, kl. 13:14:54 (2900)


132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Staðgreiðsla opinberra gjalda og virðisaukaskattur.

18. mál
[13:14]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það mál sem hér er komið úr nefnd og til 2. umr. hefur tekið, eins og hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar sagði, miklum breytingum frá því að það fyrst kom inn. Reyndar var það fyrst lagt fyrir Alþingi í fyrra af hæstv. sjávarútvegsráðherra, Einari K. Guðfinnssyni.

Málið fékk í fyrra mikla og góða umræðu í efnahags- og viðskiptanefnd en ekki tókst að ljúka málinu. Frá upphafi hafði nefndin mikla samúð með því sjónarmiði að dómarar sem fá það verkefni að gera mönnum fésektir fái heimild til að fara niður fyrir lágmarkssektir sem kveðið var á um. Eins og lögin eru nú er meginreglan sú að að lágmarki skuli tvöfalda sektargreiðslur miðað við þau vanskil sem áætlað er að viðkomandi hafi ekki gert skil á virðisaukaskatti. Það er að lágmarki að refsingin verði tvöföld skattskuldin. Hins vegar var málið þannig í upphafi úr garði gert að menn höfðu af því miklar áhyggjur að það gæti skaðað mjög möguleika innheimtuaðila að innheimta virðisaukaskatt og hugsanlega gætu menn skilað virðisaukaskattsskýrslu og það eitt mundi duga jafnvel til að komast hjá nokkurri refsingu.

Þetta mál hefur því fengið góða og mikla umræðu undanfarin tvö ár. Ef ég man rétt lagði hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson það fram í haust og í framhaldi af þeirri miklu umræðu sem fram fór í fyrra og einnig núna er niðurstaðan sem nú er fengin að minni hyggju mjög góð og mjög ánægjuleg. Ég hæli hv. þm. Pétri Blöndal fyrir að halda utan um málið eins og hann gerði. Ég held að málið hafi þroskast mikið í meðförum nefndarinnar og eins og málið kemur út núna er það mjög ásættanlegt og meira en það, það tryggir að dómarar geta farið niður fyrir lágmarksrefsingu þegar sérstök sjónarmið eiga við og eins var gerð ákveðin bragarbót á þeim stöðum sem lengi hefur verið í framkvæmd en vart haft lagastoð, þ.e. að skattrannsóknarstjóri hefur afgreitt mál sem hann hugsanlega ekki gat og ekki mátti. Hér er skotið stoðum undir þá afgreiðslu að skattrannsóknarstjóri getur afgreitt minni háttar mál eða allt að 6 millj. kr. eins og tillögur nefndarinnar gera ráð fyrir.

Sú umræða sem fram hefur farið hefur verið mjög af hinu góða. Hún hefur þroskað málið, margir komu fyrir nefndina og ég held að niðurstaðan sé sú að allir séu mjög sáttir við það eins og það lítur út núna. Ég ætla ekki að hafa um þetta langt eða mikið mál en vil að lokum segja að ég held að fleiri nefndir geti tekið sér til fyrirmyndar þau vinnubrögð sem tíðkuðust í þessu máli, sérstaklega þegar niðurstaðan er í samræmi við það sem við sjáum hér nú.