Staðgreiðsla opinberra gjalda

Fimmtudaginn 08. desember 2005, kl. 13:26:04 (2903)


132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Staðgreiðsla opinberra gjalda og virðisaukaskattur.

18. mál
[13:26]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég vil vegna nokkurra orða í ræðu síðasta hv. ræðumanns og ekki síður vegna viðbragða eins flutningsmannsins, hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur, í dagblaði fyrr í vikunni taka fram að mér sýnast þær breytingar sem hafa orðið á þessu frumvarpi í meðförum nefndarinnar vera til mikilla bóta og heilla. Ég tel að gagnrýnendur hins upphaflega frumvarps hafi haft rétt fyrir sér og náð sínu fram með þessum breytingum.

Það er rétt sem komið hefur fram í ræðum sem hér hafa verið fluttar að líta má svo á að hinar ströngu reglur um refsingar vegna vanskila á vörsluskatti geti verið ósanngjarnar og að það sé rétt að hjálpa fólki sem lent hefur í áföllum, persónulegum eða fjárhagslegum, í þeim viðskiptum sem leiða menn til slíks. Ég vil þó ítreka að eftir sem áður, hvað sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson flytur margar ræður um það, eru skil á vörslusköttum meiri skylda en að standa sig á ýmsum öðrum sviðum. Vörsluskattar eru skattar sem menn fara með og eru fé frá öðru fólki sem á að renna til samneyslu, þar á meðal velferðarþjónustu. Það er alvarlegt mál að standa ekki skil á því fé. Hins vegar er auðvitað í því máli, eins og öllum öðrum, munur á ásetningsbrotum eða auðgunarbrotum og síðan því sem kann að koma fyrir menn út úr vandræðum eða jafnvel af einhvers konar misskilningi.

Þetta vil ég bara að komi fram þannig að ekki leiki neinn vafi á því að hér í þinginu er enn litið svo á að það að standa skil á vörslusköttum sé fyrsta skylda þeirra sem standa í viðskiptum og fá vörsluskatta í hendur þess vegna.