Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Fimmtudaginn 08. desember 2005, kl. 14:50:13 (2938)


132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

327. mál
[14:50]
Hlusta

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Einmitt þau tvö dæmi sem hv. þingmaður nefndi sýna hvernig þessi markmið stangast á. Annars vegar vilja menn taka inn í notkun á vegum og þar af leiðandi ættu snjóruðningstæki, sem eru oft að athafna sig án þess að nota vegina, eða keyra mjög hægt eftir vegum og nota mjög mikla olíu við að ryðja snjó, að borga minna. Hins vegar vilja menn að notkun á vegum sé ekki tekin inn þegar um er að ræða flutning út á land, langa flutninga. Þetta stangast á og það eru einmitt þessi tvö sjónarmið sem menn hafa glímt við að leysa með þessu lagafrumvarpi sem ég endurtek aftur að var aðallega sett á til að gera mögulegan innflutning á dísilbifreiðum en sá innflutningur var ómögulegur þegar um var að ræða (Forseti hringir.) þungaskatt.