Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Fimmtudaginn 08. desember 2005, kl. 14:56:14 (2943)


132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

327. mál
[14:56]
Hlusta

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar sem undir skrifa, auk mín, hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Ögmundur Jónasson og Lúðvík Bergvinsson. Þetta er nefndarálit fulltrúa stjórnarandstöðu Samfylkingar og Vinstri grænna í nefndinni um breytingu á lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., með síðari breytingum.

Minni hlutinn telur að leggja þurfi meiri vinnu í þetta frumvarp, svo og heildarendurskoðun á lögunum, en það álit kemur reyndar fram í umsögnum fjölmargra aðila um málið. Upptaka olíugjalds í stað þungaskatts átti að vera til að auðvelda kerfið, en raunin er allt önnur. Vont kerfi fer versnandi og hér er um bútasaum að ræða eins og komið hefur fram í málinu. Sumir gestir nefndarinnar töldu að verið væri að flækja flókið kerfi enn meira. Það er sannarlega rétt.

Minni hlutinn er sammála þeirri skilgreiningu og leggur því til að lögin verði endurskoðuð í heild sinni og að þeirri endurskoðun verði lokið fyrir þingbyrjun haustið 2006. Leiðarljós þeirrar vinnu á að vera að gera kerfið einfaldara, skilvirkara og réttlátara og að mismuna ekki aðilum eftir gerð og útbúnaði ökutækjanna eða fylgivagna þeirra, eins og gert er reyndar og bætt í með því frumvarpi sem hér hefur verið flutt.

Virðulegi forseti. Með frumvarpinu er lagt til að tekinn verði upp enn einn flokkur kílómetragjalds sem m.a. á að vera fyrir steypuhræribifreiðar, eins og það er nefnt. Gjald þetta er fyrir ökutæki frá 5.000 kg til 31.000 kg og þar yfir. Að mati nokkurra umsagnaraðila er hækkunin allt að 60%, eins og komið hefur fram í umsögnum, m.a. frá Skeljungi en þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Hið sérstaka kílómetragjald er hins vegar allt of hátt. Kílómetragjald fyrir 18 tonna bifreið er í dag 5,09 kr./km og hið sérstaka gjald samkvæmt frumvarpinu er 21,40, eða samtals 26,49 kr./km. Til samanburðar var kílómetragjald fyrir 18 tonna bifreið 16,61 kr./km til 30. júní sl. og nemur hækkunin því 60% sem þarf að skoða, enda engin rök fyrir slíkri hækkun.“

Frá því að þessi umsögn var skrifuð hefur meiri hluti nefndarinnar, fulltrúar stjórnarflokkanna, hækkað þetta gjald enn meira. Tökum sem dæmi, fyrir 18 tonna bifreið er hækkunin úr 21,40 kr. í 23,99 kr., þ.e. um rúm 12%.

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra mælti fyrir frumvarpinu með þessu sérstaka gjaldi og þar töldu ýmsir aðilar, eins og Skeljungur sem ég hef hér nefnt og fulltrúar frá Samtökum iðnaðarins sem mældu þetta frá 20 og upp í 40%, sig ekki hafa séð þá breytingu sem sett hefur verið fram af stjórnarmeirihlutanum í nefndinni sem gerir ráð fyrir hækkun á flestöllum flokkum, örlítilli lækkun á þyngstu flokkunum. Það var rökstutt með því að það væri vegna þess að menn hefðu skoðað betur eyðslutölur steypuhræribíla og annarra slíkra, vitnuðu m.a. í upplýsingar frá BM Vallá, stærsta fyrirtækinu sem sér um steypu. Hér er sem sagt enn einu sinni verið að hækka þetta gjald og þennan taxta og þótti hann þó hár fyrir.

Áfram segir í nefndaráliti minni hlutans í kafla sem ég kalla Skattahækkun á bændur: Við upptöku olíugjalds misstu bændur endurgreiðslu vegna nota eigin bifreiða í landbúnaði. Sú endurgreiðsla var framkvæmd í gegnum skattkerfið og nam fyrir árið 2002 u.þ.b. 71 þús. kr. á hvert lögbýli, þ.e. um 60 millj. kr. það ár.

Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að endurgreiðslan var gerð í gegnum skattkerfið. Það bendir til og er auðvitað rökstuðningur fyrir því að hægt er að nota skattkerfið til að jafna aðstöðu manna eftir því hvar þeir búa á landinu eða í hvaða atvinnugrein þeir starfa.

Í umsögn Bændasamtaka Íslands kemur m.a. þetta fram, með leyfi forseta:

„Ávallt var tekið fram að þessi kerfisbreyting ætti ekki að hafa áhrif á einstaka hópa landsins og atvinnugreinar, hvorki til tekjulækkunar eða -hækkunar.

Starfs- og stjórnarmenn Bændasamtakanna hafa margítrekað þetta erindi og átt fund í fjármálaráðuneytinu, þar sem heitið var úrbótum, en jafnframt sagt að líklega þyrfti lagabreytingu til og að því yrði hugað við endurskoðun laganna í ár. Nú lítur frumvarpið dagsins ljós til lagfæringa fyrir atvinnulífið, en bændur hafa alveg gleymst.“

Minni hlutinn átelur ráðuneytið og meiri hlutann fyrir þessi vinnubrögð og gerir breytingartillögu við frumvarpið þar sem komið er til móts við bændur og tryggt að þeir séu ekki verr settir hvað endurgreiðslu varðar og þegar þungaskattskerfið var við lýði. Það má með sanni segja að þetta hafi verið hluti af starfskjörum bænda hér áður fyrr. Eins og þeir vitna hér til er það ekki meiningin við að leggja niður þungaskattskerfið og taka upp olíugjald að ráðast svo á tekjur bænda, eða starfskjör þeirra öllu heldur.

Síðan kem ég að kafla í nefndarálitinu sem heitir Aukin skattheimta á almenningssamgöngur. Eins og fram kemur í umsögn Strætós bs. í 30. máli, sem Jóhanna Sigurðardóttir er fyrsti flutningsmaður að, hefur upptaka olíugjalds aukið kostnað við strætisvagnarekstur. Þetta er m.a. vegna þess að virðisaukaskattur af olíugjaldinu er ekki endurgreiddur.

Umsögn Strætós bs. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Í löngum aðdraganda að upptöku olíugjalds í stað þungaskatts, voru tvö meginatriði sem Strætó bs., áður SVR, óskaði eftir í umbeðnum umsögnum til nefndarinnar. Þau eru að breytingin yrði ekki til útgjaldaauka eða aukinnar fjárbindingar.

Niðurstaðan er hins vegar að upptakan leiddi til aukins kostnaðar og fjárbindingar fyrir þjónustu strætisvagna.

Upptaka olíugjalds í stað þungaskatts hefur leitt til um 39 millj. kr. kostnaðarauka á ári fyrir strætisvagnaþjónustu á þjónustusvæði Strætó bs. frá því sem var er þungaskattskerfi var til staðar. Því til viðbótar er 11–12 millj. kr. fjárbinding, þar sem olíugjald er greitt að fullu við afhendingu, en 80% af 41 kr. sem er 64,3% af olíugjaldinu, er endurgreitt síðar. Virðisaukaskattur er lagður á olíugjaldið, en ekki endurgreiddur að neinu.

Strætó bs. áréttar jafnframt að gerðar verði ráðstafanir til að leiðrétta þann kostnaðarauka og fjárbindingu sem þjónustustarf strætisvagna er látið bera þvert gegn því sem óskað hefur verið. Þar vekur þó mesta athygli að 80% endurgreiðsluhlutfall í lögunum er við framkvæmd ekki látið ná til virðisaukaálagningar þannig að endurgreiðsla er liðlega 64%“ eins og áður kom fram.

Þetta sannar svo að ekki verður um villst að ríkisstjórnin notar upptöku olíugjalds til að auka skattheimtu af umferð í landinu. Fram komu viðvörunarorð um þetta í umræðu um málið á sínum tíma sem þáverandi fjármálaráðherra mótmælti. Dæmið frá Strætó bs. sannar þetta.

Minni hlutinn leggur til þá breytingu að olíugjaldið og virðisaukaskattur af því verði endurgreiddur til almenningssamgöngufyrirtækja eins og var í gamla þungaskattskerfinu.

Fram hafa komið, virðulegi forseti, eins og ég hef áður sagt, margar athugasemdir og margir töluðu um heildarendurskoðun. Fjölmargir umsagnaraðilar lýstu ýmsum öðrum göllum laganna, svo sem hvað varðar eftirlitsskyldu söluaðila, og lögðu jafnvel til að auðkenna ætti þau ökutæki sem mega nota gjaldfrjálsa olíu með númeraplötum í öðrum lit og að herða þyrfti refsiákvæði brota.

Eftir standa fjölmörg álitamál sem vafalaust eiga eftir að koma til kasta ráðuneytisins og jafnvel Alþingis á næstu missirum. Undir þetta skrifa eins og áður sagði fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í efnahags- og viðskiptanefnd. Auk þess sem hér stendur eru það hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Ögmundur Jónasson og Lúðvík Bergvinsson.

Ég hef skýrt frá þeim breytingartillögum sem við flytjum við frumvarpið og skýrt þær breytingartillögur með þeirri greinargerð sem hér kemur fram. Segja má að frá því að hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Pétur H. Blöndal, skýrði meirihlutanefndarálit og þær breytingartillögur sem þau nefna hafi í stuttum andsvörum komið fram þvílíkar ádeilur á frumvarpið og kerfið í heild að mér sýnist sem svo að það væri hárrétt að taka frumvarpið frá þinginu og klára það ekki fyrir jól heldur geyma það. Eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði og hv. þm. Pétur H. Blöndal tók að vissu leyti undir: Þetta er vitleysan endalausa. Þetta er allt of flókið. Ég gat ekki heyrt annað en að hv. þm. Kjartan Ólafsson væri á svipaðri skoðun um að hér væri verið að flækja þetta allt of mikið og búa til nýja flokka sem sannarlega er verið að gera. Það er sem sagt olíugjald, kílómetragjald og sérstakt olíugjald. Hvað kemur næst, virðulegi forseti? Má ég enn minna á það sem hv. þingmenn hafa sagt og allir staðið í meiningu um, að upptaka olíugjalds átti að vera til að einfalda kerfið. Upptaka olíugjalds átti líka að vera til þess að fjölga litlum sparneytnum bílum, dísilbílum, í umferð þannig að almenningur í landinu gæti farið að fjárfesta í litlum sparneytnum dísilbílum og það yrði þjóðhagslega hagkvæmt fyrir þjóðarbúið að nota meiri olíu og minna bensín.

Þetta hefur heldur betur ekki gengið eftir. Heimsmarkaðsverð á olíu er það hátt og verður held ég áfram, m.a. vegna mikillar olíunotkunar Kínverja. Ég held að við eigum eftir að sjá að þetta sé orðið fast í sessi, eins og þetta er í dag á olíutönkunum, að þetta sé svipað verð. Og svipaða verðið er auðvitað vegna hinnar svakalegu skattheimtu hæstv. ríkisstjórnar af umferð í landinu, að maður tali ekki um olíuna sem við erum hér að tala um. 45 kr. olíugjaldið sem stjórnarmeirihlutinn samþykkti og hefur verið lækkað um 4 kr. og á að framlengja lækkun á til 1. júní á næsta ári er staðfesting á því. Hvernig var þetta olíugjald fundið? Það var gert með því að hækka þungaskattinn áður upp í hæstu hæðir og nota svo þær tekjur sem komu til ríkissjóðs, ímynda sér einhverjar kílómetratölur og eyðslutölur og annað slíkt, og þannig var 45-kallinn fundinn.

Það dugði ekki til og þá var búið til þungaskattskerfi fyrir bíla sem eru 10 tonn og þyngri. Þeir borga því olíugjald og kílómetragjald og svo er hér verið að búa til enn einn flokk fyrir einhverjar ákveðnar tegundir af bílum, eins og steypuhræribílinn sem hér hefur verið rætt um og tengivagna sem eru 5.000 kg eða þyngri og dregnir af dráttarvélum.

Virðulegi forseti. Því miður komst ég ekki að í andsvari við hv. þm. Pétur H. Blöndal sem flutti meirihlutaálitið. Mig langar að spyrja hann og hann mundi kannski svara á eftir: Hvað með tengivagna 5.000 kg eða þyngri sem eru dregnir af öðrum tækjum en dráttarvélum? Í lagatextanum er fjallað um að þetta séu eingöngu tæki sem dregin eru af dráttarvélum. Hvað ef það er ekki hefðbundin dráttarvél, heldur t.d. bara payloader, hjólaskófla eða vörubíll sem getur dregið svona tæki?

Þetta er dálítið sérstakt og því miður er ekki verið að bæta kerfið með þessu. Við 1. umr. málsins tók ég dæmi, ótalmörg dæmi, sem eru mjög alvarlegs eðlis, sem mismuna og gert var ráð fyrir hér. Hér er að vissu leyti aðeins komið til móts við þetta. Ég bendi t.d. á samkeppnissjónarmiðið hvað varðar dráttarvélar sem menn keyra þá á gjaldalausri olíu og draga tengivagna og flytja efni. Hér á að koma til móts við það gagnvart samkeppni við vörubíla. Ég held að ekki sé nógu langt gengið, ég held að þetta sé enn þá til að skekkja samkeppnisstöðu en menn reyna að finna einhverja leið til að jafna þetta út en tekst ekki betur en hér hefur verið gert. Það er auðvitað alveg óþolandi að eiga það yfir höfði sér að aðilar geti kært til Samkeppnisstofnunar eða annarra þann mismun sem þar er á. Nákvæmlega hið sama gat ég um við 1. umr., mismuninn sem er á svokölluðum búkollum, sem kallast námuökutæki, og vörubílum. Hv. þm. Kjartan Ólafsson gat um hann áðan og ég hygg að við séum kannski að tala um svipað dæmi. Við Hellisheiðarvirkjun vinna menn með þessi tæki. Þar geta verktakar verið með tæki sem kallast búkollur sem keyra á gjaldfrjálsri olíu. Við hliðina á þeim, í nákvæmlega sama verki, geta verið verktakar sem eiga ekki búkollur heldur hefðbundna vörubíla. Þeir þurfa að greiða olíugjald. Þeir vörubílar geta verið í það erfiðum akstri, og þessi tæki, að þess eru dæmi að vörubílar hafa eytt upp undir 100 lítrum af olíu á 100 km vegna þess hve erfiður aksturinn er og hvað þeir flytja mikið magn upp brattar fjallshlíðar.

Sá mismunur verður áfram og er mjög bagalegur. Það er líka mjög skrýtið og sýnir hvað kerfið er gallað og allt að því vitlaust að vörubílar eru notaðir með olíu með olíugjaldi, borga olíugjald … (Gripið fram í.) Það getur vel verið að ég tali í um 10–15 mínútur í viðbót, hv. þingmaður. — Um leið og þessir aðilar eiga að fara að þjóna Vegagerðinni og eru verktakar hjá henni og eiga að moka snjó á þjóðvegum landsins mega þeir vera með gjaldfrjálsa olíu. Að því er mér skilst á að framkvæma það þannig að vörubílstjórar eigi að hreinsa út olíuna og taka upp gjaldfrjálsa olíu meðan þeir ryðja snjó. Ef ekki snjóar, heldur rignir, sem gerist stundum, kann að vera að viðkomandi vörubíll fari í annað verk og þá á hann að skipta um olíu á tankinum hjá sér. Þá má hann ekki nota lengur gjaldfrjálsa olíu, heldur á að nota venjulega olíu. Þetta sýnir náttúrlega hvers konar vitleysa hér er á ferðinni og hvað þetta er orðið flókið og vitlaust. Ýmislegt hefur komið í ljós sem varað var við þegar málið var rætt hér en því miður var ekki hlustað á það. Hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra, Geir H. Haarde, sagði að lögin yrðu endurskoðuð þegar reynsla kæmi á þau. Ég held að hér sé endurskoðun og lagfæring númer eitt og að þær eigi eftir að koma margar.

Kannski er besta lýsingin á frumvarpinu sú að mér virðist sem aðeins einn aðili sem hafi fengið frumvarpið til athugasemda geri ekki athugasemdir við það. Sá aðili er Landssamband smábátaeigenda. Var það alveg svakalega fínt, virðulegur forseti, að Landssamband smábátaeigenda, sá ágæti félagsskapur, sem fékk frumvarpið til umsagnar sem allt snýst um olíugjald á vegum, er sá eini sem gerir ekki athugasemdir við frumvarpið og hefur ekkert við það að athuga. Ég held að það sé eiginlega forskrift að því frumvarpi sem við ræðum hér, að einn aðili gerði ekki athugasemdir.

Virðulegi forseti. Þá ætla ég að gera að umtalsefni olíugjaldið, upptöku þess, þetta háa olíugjald, 45 kr. sem stjórnarmeirihlutinn samþykkti en lækkaði svo í 41 kr. til næstu áramóta og á að framlengja, eins og áður hefur komið fram. Þetta háa olíugjald hefur auðvitað farið þráðbeint út í verðlagið og hækkað flutningsgjöld enn frekar og þótti það nú nóg fyrir. Eins og áður hefur komið fram eru flutningabílar þar að auki látnir greiða kílómetragjald eða þungaskatt. Þungaskattskerfið sem menn töldu sig vera að leggja niður er sem sagt enn þá við lýði á öllum bílum sem eru þyngri en 10 tonn. Flutningabílar falla undir það og þeir þurfa að borga kílómetragjald. Það er einmitt út af þessari skattheimtu ríkisstjórnarinnar sem flutningsgjöld eru að hækka og eru orðin eins svimandi há og þau eru.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna með því að taka þær reynslutölur sem til eru af því en þær eru hrikalegar. Þetta hefur m.a. leitt til þess að það er kominn einn liður á reikning fyrir flutningsgjöld sem heitir olíugjald þar sem flutningsaðilar eru farnir að rukka sérstaklega vegna olíugjaldsins.

Það er dapurlegt að ríkisstjórnarflokkarnir skuli aðeins hafa notað það rétt hálfum mánuði fyrir alþingiskosningar 2003 að tala um nauðsyn á lækkun flutningskostnaðar. Eftir kosningar, eftir endurnýjað umboð illu heilli, hafa stjórnarflokkarnir ekkert annað til ráða en að hækka álögur á flutningafyrirtæki sem gerir það að verkum að flutningsgjöld hafa hækkað. Þetta íþyngir atvinnurekstri á landsbyggðinni mjög mikið, sama hvort það er flutningur á fiski eða öðrum vörum til iðnaðarframleiðslu, og skekkir samkeppnihæfni fyrirtækja á landsbyggðinni gagnvart höfuðborgarsvæðinu og gerir það að verkum að fyrirtækin hafa nánast ekki úr neinu að spila. Ég hef séð hrikalegar tölur um flutningskostnað hjá kjötiðnaðarfyrirtækjum sem ég hef áður tekið hér sem dæmi þar sem tvö fyrirtæki eyða upp undir 100 millj. kr. í flutningsgjöld til að koma vörum sínum á markað á stórhöfuðborgarsvæðinu. Ríkisstjórnarflokkarnir halda enn þá áfram að hækka skatta af flutningastarfsemi sem leiðir til svo hárra flutningsgjalda.

Virðulegi forseti. Í nefndaráliti meiri hlutans er m.a. fjallað um að merkja bíla með sérstökum lit, þ.e. lituðum númeraplötum sem ég held að gæti orðið til bóta til að koma í veg fyrir misnotkun á þessu kerfi og eftirlitsmönnum og söluaðilum yrði þannig gert auðveldara að hafa þetta sýnilegra. Um þetta er getið í nefndarálitinu og ég spyr hv. formann efnahags- og viðskiptanefndar: Af hverju gerði meiri hlutinn ekki breytingartillögu í þessa veru? Frá ríkisskattstjóra kom fram ábending um þetta ásamt því að full þörf væri á að hækka viðurlög við brotum, hvort þetta kom frá ríkisskattstjóra eða öðrum skiptir ekki öllu máli. Ég kann ekki að segja hver viðurlögin eru núna, ég er ekki með það á hraðbergi hér en mér þótti þetta sláandi vegna þess að það liggur auðvitað í augum uppi að það er þegar byrjað að misnota þetta kerfi mjög mikið. Mér er t.d. sagt að á sjálfsölum sem selja gjaldfrjálsa olíu sé hún yfirleitt búin klukkan sex eða sjö á morgnana, menn komi að næturþeli og kaupi mikið af þessari olíu og setji á bifreiðar sínar. Mér skilst líka að þetta hreinsist tiltölulega fljótt út þannig að ef menn sleppa við eftirlitsmenn Vegagerðarinnar í einhverja daga þá geti menn komist upp með þetta.

Þetta er auðvitað ekki hægt að líða því þó svo að þetta kerfi sé komið, sem ég er nú ekki par hrifinn af, þá gengur ekki að það sé misnotað á þann hátt sem hér er að talað um að gert sé því þá skerðir þetta tekjur Vegagerðarinnar enn meira en það ætti að gera og þá stöndum við frammi fyrir því að Vegagerðin fær ekki þá peninga sem henni eru þar ætlaðir til framkvæmda.

Ég fagna því sem kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans um ábyrgð afgreiðslumanna. Ég er sammála því að starfsmenn geti ekki borið ábyrgð á afgreiðslu olíunnar. Ef einhver kemur og vill fá gjaldfrjálsa olíu á tæki sem hann á ekki rétt á að fá, þá getur það ekki verið hlutverk olíuafgreiðslumanna að bera ábyrgð á því og það er heldur ekki hægt gagnvart sjálfsölunum. Mig minnir að það hafi komið fram á fundi nefndarinnar að t.d. í Svíþjóð væri gjaldfrjáls olía ekki seld í sjálfsölum.

Sama gildir um bændur og það sem gerist hjá þeim. Um það var bara fjallað í nefndarálitinu, það var engin breytingartillaga gerð um það og ég spyr: Hvers vegna var það ekki gert? Ég minni á þá tillögu sem við minni hlutinn flytjum um það mál vegna þess að okkur finnst að þetta hafi verið hluti af starfskjörum bænda, ef þannig má að orði komast. Það má líta á þennan lið sem sambærilegan lið endurgreiðslu í gegnum skattkerfið eins og sjómannaafsláttinn til sjómanna. Þetta er orðið fast í kerfinu hvort sem okkur líkar betur eða verr og það er engin ástæða til þess að svíkja bændur um þetta vegna þessarar kerfisbreytingar sem gerð er, þ.e. þungaskatturinn var lagður niður og olíugjaldið tekið upp.

Ég vil líka taka undir það sem ég þykist vita að sé komið frá hv. formanni nefndarinnar, Pétri H. Blöndal, vegna þess að við höfum kannski sömu sýn á að hægt sé að gera þetta kerfi einfaldara, þ.e. að einfalda skattheimtuna með því að taka upp svokallaða aksturskubba eða ökurita sem talað er um en þá er hægt að setja í bíla til þess að mæla notkun þeirra á vegum. Virðulegi forseti: Af hverju notum við ekki þá leið að t.d. hæstv. fjármálaráðherra gæti heimilað að ákveðnir bílar sem eiga að falla undir sérstaka kílómetragjaldið fengju að taka upp ökurita og fjármálaráðherra yrði treyst til þess að búa til hæfilega gjaldskrá fyrir það. Þannig sæjum við nákvæmlega hvað vörubílar, steypuhrærubílar og þau tæki sem ferðast um vegi landsins og nota þá, ég vil ekki segja slíta, heldur nota þjóðvegi landsins. Og sama um tæki sem eru í kyrrstöðu, t.d. á byggingarstað þar sem mikil olíunotkun á sér stað við að snúa tækjunum. Það hefði verið upplagt að taka þetta upp.

Ég hef áður sagt að mér finnist að það eigi að nota þessa ökurita og ég hef komið þeirri hugmynd til hæstv. ríkisstjórnar vegna þess að t.d. byggðamálaráðherra landsins, hæstv. ráðherra Valgerður Sverrisdóttir, hefur sagt að það sé ekki hægt að lækka flutningsgjöld vegna þess að ESA banni okkur að fara ákveðnar leiðir og geri ákveðnar kröfur á það. Það getur enginn bannað okkur að lækka skattheimtu á flutningastarfsemi og við gætum t.d. sett þessa ökurita í flutningabíla. Þess vegna gætum við tekið þetta kerfi upp og látið gjaldið fyrir þá sem keyra bara á nóttunni frá miðnætti til sjö á morgnana vera helmingi lægra, því vegslit er miklu minna á næturnar þegar kalt er og þá er líka hættuminna að vera á ferðinni, almenningur er ekki í umferðinni og það er minni umferð. Þetta væri hægt að gera. Það eru ótal aðferðir til við þetta.

Þennan búnað er verið að þróa hjá íslensku fyrirtæki sem heitir ND og í Svíþjóð, Noregi og hér á Íslandi eru þegar komnir 500 ökuritar í notkun. Þetta er íslensk uppfinning og ég held að ég megi fullyrða að tækið sem fyrirtækið hefur þróað, en þar starfa sjö starfsmenn, er sennilega fremsta tækið af þeim sem eru á markaðnum í heiminum í dag, það er þetta tæki sem þessir ungu Íslendingar hafa hannað og sett upp.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur getið um það að Evrópusambandið ætli að taka upp slík mælitæki í bifreiðar árið 2011. Þá verður notkun á vegum mæld í samræmi við að taka upp svokallaða notkunarskatta eða þjónustugjöld eftir eknum kílómetrum. Ef við værum nú það huguð að stíga þetta skref núna og byrja að nota ökuritana í einhverjum ákveðnum tegundum bifreiða, eins og ég hef hér gert að umtalsefni, þá stuðlum við kannski að því að þetta fyrirtæki geti þróað tækið enn frekar og geti orðið leiðandi fyrirtæki í heiminum til að selja þessi tæki þegar kerfið verður tekið upp í Evrópu, hvort sem það verður 2011 eða fyrr. Mér dettur t.d. í hug borgarstjórinn í London, sem setti upp eftirlitsmyndavélar til þess að auka skatta og taka meiri skatta af bifreiðum sem aka inn í miðborg London til þess að minnka mengun. Það er hægt að stilla þetta þannig inn að þeir bílar sem fara inn á ákveðið svæði, þeir mundu sjálfkrafa borga hærri gjöld.

Tækið er komið í fjölmörg tæki hérna núna og var m.a. notað í aksturskeppni sem ég held að Vátryggingafélag Íslands hafi beitt sér fyrir, til þess að dæma aksturslag ökumanna. Þetta er mjög merkilegt tæki og þeir hafa líka unnið þetta eitthvað í samráði við Vegagerðina. Mér er kunnugt um að eitt olíufyrirtæki hefur óskað eftir því við samgönguráðuneytið eða fjármálaráðuneytið eða bæði að fá að nota slíkt tæki í sína bíla, en eins og við vitum eyða olíubílar töluvert mikilli olíu þegar þeir keyra um vegi landsins. Þeir eyða reyndar líka mikilli olíu þegar þeir standa kyrrir og eru að dæla olíu, t.d. um borð í skip eða annað sem er með gjaldfrjálsa olíu.

Þetta íslenska tæki sem er kallað Saga ökuriti er sem sagt til staðar fullhannað og okkur er ekkert að vanbúnaði að taka þetta upp, ef við bara viljum. Því hvet ég, virðulegi forseti, hv. þm. Pétur H. Blöndal, formann nefndarinnar, svo og aðra fulltrúa í efnahags- og viðskiptanefnd til að að skoða þetta. Þetta gæti kannski verið einn rökstuðningurinn fyrir því að við tækjum frumvarpið sem nú er til umræðu og settum það í salt fram yfir áramót en værum ekki að keyra það í gegn í þinginu í dag eða á morgun, vegna þess að þetta frumvarp hefur fengið algjöra falleinkunn, a.m.k. frá nokkrum stjórnarþingmönnum, eins og ég hef hér áður talað um.

Virðulegi forseti. Ég vildi einnig segja frá því að Saga ökuriti hefur verið settur í bíla hjá ákveðnum pitsufyrirtækjum, en stundum hefur verið kvartað yfir að þeir keyrðu hratt um götur bæjarins. Þetta hefur m.a. leitt til þess að eitt pitsufyrirtækið hefur fengið verðlaun fyrir góðakstur þannig að þetta virkar vel þar. Tækið er því hægt að nota bæði til þessa og eins til þess að mæla vegnotkun.

Varðandi hitt frumvarpið um olíugjaldið sem við vorum að ræða eru að sjálfsögðu deilur um það, ég hef deilt á fjármálaráðuneytið fyrir að auka skattheimtu á virðisaukaskatt á strætisvagnaakstur og af endurgreiðslum til bænda, og ég tek líka eftir því að það er mjög misjafnt út frá hvaða tölum menn nota það, þ.e. seldum olíulítrum. Ég tek eftir því að Vegagerðin í vegáætlun notar ákveðna milljón lítra, að mig minnir 75 milljónir, eitthvað svoleiðis, fjárlögin mæla hins vegar 80 milljónir lítra og einhvers staðar hef ég séð 90 milljónir lítra í hinu opinbera kerfi. Ég vil taka það skýrt fram að þetta skiptir auðvitað miklu máli og eftir að olíugjaldið var tekið upp 1. júlí vitum við að töluvert mikið var hamstrað af olíu fram að þeim tíma, verktakar og aðrir máttu eiga 5 þúsund lítra, en það er gaman að segja frá því og ég vil endurtaka það hér að salan í júlí, ágúst og september er 30 milljónir lítra af olíu sem greitt er olíugjald af. Þetta er gert upp svipað og virðisaukaskattur nema bara það er mánaðarlega og 15. desember næstkomandi er gert upp fyrir október.

Þess vegna þurfum við því miður að halda áfram að ræða um hver verði heildarsölufjöldi lítra til þess að reikna út hvað Vegagerðin fái og hvað ríkissjóður muni fá í aukna skattheimtu. En ég fullyrði það enn einu sinni að ríkissjóður er að ná sér í auknar tekjur við upptöku olíugjaldsins í formi virðisaukaskatts sem fer í ríkissjóð þó svo að þeir vilji afsaka sig með því að sum fyrirtæki geti notað virðisaukaskatt á olíugjaldinu sem innskatt.

Ég hef áður bent á atriði sem mér finnst vera mjög á skjön við það atriði sem kemur fram í breytingartillögum meiri hluta nefndarinnar, þ.e. hið sérstaka kílómetragjald sem nokkrir aðilar töldu að væri allt of hátt en er hækkað hér enn frekar hjá tveimur af hverjum þremur notenda. Það eru aðeins þyngstu ökutækin sem fá örlitla lækkun. Ég bendi á þetta enn einu sinni til þess að benda á þá skattahækkun sem felst í þessu að áfram skuli haldið með þetta.

Virðulegi forseti. Það eru ótalmörg atriði sem hér mætti fjalla um sem koma fram í umsögnum þeirra aðila sem gáfu umsagnir hingað til nefndarinnar, t.d. eins og frá Samtökum iðnaðarins sem greinilega hafa sett sig vel inn í þetta mál enda fulltrúar fjölmargra aðila sem eru notendur að olíunni. Þeir t.d. bentu á tæki sem eru með laus tæki sem sett eru á, ég man nú ekki alveg hvað þetta er kallað, (Gripið fram í: Gámakrókabílar.) gámakrókabílar, þannig að þetta getur nú oft og tíðum blandast dálítið saman með þessa olíu.

Vegagerðin bendir á ótal atriði varðandi það að aflétta olíugjaldinu af öllum dráttarvélum og bendir á að áður hafi það eingöngu verið gert í landbúnaði og á lögbýlum. En hér er verið að fara þá leið að taka þetta af öllum. Það getur haft í för með sér tekjutap fyrir Vegagerðina eins og við höfum hér verið að ræða. Síðan bentum við á mismuninn sem var og meiri hlutinn ætlaði að lagfæra með tengivagninum. En ég ítreka spurningu mína, virðulegi forseti, vegna þess að í breytingartillögunum er eingöngu talað um „dregnar af dráttarvélum“ og það er þá spurning hvað skeður hjá öðrum.

Olís, Olíuverslun Íslands, fjallar líka um þetta í sinni umsögn þar sem þess er getið að þrýstingur sé á starfsmenn félagsins að afgreiða litað eldsneyti sem ætla má að nota eigi á gjaldskyld ökutæki. Tekið er á því hér í nefndarálitinu um réttarstöðu starfsmanna og vænti ég að það sé fullnægjandi. En m.a. segir þar í niðurlagi umsagnar, með leyfi forseta:

„Að ofansögðu má ljóst vera að margir gallar eru enn á lögunum og verður ekki séð að neinn sá ávinningur sé af breytingunum, sem ekki var hægt að ná með öðrum hætti sem réttlæti þann kostnað og þær álögur sem lögin hafa lagt á atvinnulífið og samfélagið í heild sinni.“

Lagt er til að lögin verði endurskoðuð í heild sinni í samvinnu við hagsmunaaðila eins og við fulltrúar minni hlutans leggjum til.

Ríkisskattstjóri hefur einnig gert athugasemdir og sagði m.a. að þetta kallaði á breytingar á tölvukerfi ríkisskattstjóra og Umferðarstofu. Menn ætla að láta þessa breytingu taka gildi án þess að taka ábendingum frá ríkisskattstjóra sem telur að í fyrsta lagi 1. febrúar sé hægt að taka þetta upp.

Ég hef áður getið um skoðun bændasamtakanna.

Landssamband vörubifreiðastjóra telur þetta til bóta á vissan hátt en bendir á vörubifreiðar í snjóruðningi og bendir svo á þann mismun sem verður á dráttarvélum og vörubílum þegar búið verður að aflétta af þeim öllum. Þeir setja svo fram þessa tillögu sem meirihlutinn hefur tekið upp um tengivagna sem eru 5.000 kg eða þyngri. Fjölmörgu í umsögn Samtaka iðnaðarins væri líka full ástæða til að gera betri skil hér en ég vísa til þeirrar umsagnar. Þar er m.a. fjallað um þetta sérstaka kílómetragjald — af hverju þessi mikla hækkun? Ég vil taka skýrt fram að hækkunin hefur orðið enn meiri í meðförum nefndarinnar. Ég veit ekki hvað Samtök iðnaðarins hefðu sagt ef þau hefðu séð þær breytingartillögur sem þar koma fram. Þau benda á þennan mismun, snjóruðningsbílana og útskiptanlegar snjótennur og hvað þetta allt saman nú heitir.

Það kann vel að vera, virðulegi forseti, að vegna þess að við höfum ekki bundið það hér í lög hvað við ætlum að kalla þessa olíu — ég tek eftir því að Skeljungur kallar þetta vélaolíu, aðrir kalla þetta gjaldfrjálsa olíu. Ég hef aldrei komið að þessum tönkum og veit ekki hvernig þetta er merkt.

En virðulegi forseti. Ég hef hér farið yfir þetta mál enn einu sinni. Reynt að benda á þá galla sem ég sé á frumvarpinu og einnig þá sem eru að bætast við. Og af því hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson gengur hér fram held ég að ég megi gera hans orð að mínum hér: Þetta er vitleysan endalausa. Ég vil spyrja fulltrúa stjórnarmeirihlutans sem hér hafa talað: Er það virkilega svo að menn ætla að keyra þessa vitleysu í gegn sem hv. þingmenn stjórnarinnar hafa dæmt með þeim orðum sem hér voru sögð áðan, vitleysan endalausa, flækjukerfi sem er að flækjast enn meira og að þetta sé ekki til bóta? Á þá að halda áfram við það að gera þessa vitleysu hér á hinu háa Alþingi? Hvenær verður það, virðulegi forseti, sem næsta breytingartillaga kemur inn? Hvenær verður það sem hæstv. fjármálaráðherra gefur út reglugerð og breytir henni tíu dögum seinna? Vegna þess að hún gat ekki gengið eins og hann gaf hana út. Svona má lengi telja. Ég ítreka, virðulegi forseti, að hér er stjórnarmeirihlutinn enn einu sinni að fara fram með skattahækkun á umferð í landinu sem m.a. bitnar á flutningsstarfsemi og þeim sem við höfum hér verið að ræða um.