Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 2. máls.


Þskj. 2  —  2. mál.









Þjóðhagsáætlun

fyrir árið 2006.

(Lögð fram af forsætisráðherra hinn 4. október 2005.)





























Forsætisráðuneytið.

Inngangur.
    Í þjóðhagsáætlun er fjallað um helstu áherslur efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar auk þess sem stuttlega er gerð grein fyrir stöðu og horfum í efnahagsmálum næstu ára. Megináherslur ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í efnahagsmálum eru að tryggja jafnvægi og stöðugleika og stuðla þannig að bættum lífskjörum heimilanna í landinu. Mikilvæg forsenda þessa er að skapa þær aðstæður að öflug fyrirtæki fái þrifist hér á landi og að til verði störf við sem flestra hæfi.
    Í þessu skyni hefur ríkisstjórnin beitt sér fyrir umfangsmiklum skipulagsbreytingum í efnahagsmálum, meðal annars með stórfelldum skattalækkunum gagnvart fyrirtækjum og einstaklingum, aukinni samkeppni og auknu viðskiptafrelsi á fjölmörgum sviðum, einkavæðingu ríkisfyrirtækja í stórum stíl, gjörbreyttum áherslum í ríkisrekstri og mikilvægum breytingum á stjórnsýslu landsins sem horfa til sömu áttar. Jafnframt hefur velferðarkerfið verið treyst svo um munar og sömu sögu er að segja af framlögum til menntamála sem hafa stóraukist.
    Þessar áherslubreytingar hafa svo sannarlega skilað sér eins og allir hagvísar sýna. Staða ríkissjóðs hefur gjörbreyst og hann hefur nú árum saman verið rekinn með umtalsverðum afgangi. Í kjölfarið hafa skuldir ríkisins lækkað verulega og nánast verið greiddar upp þegar tillit er tekið til þeirrar eignar sem felst í gjaldeyrisforða Seðlabankans. Skattar einstaklinga hafa enn fremur lækkað umtalsvert og skattar á fyrirtæki eru með því lægsta í Evrópu. Íslensk fyrirtæki hafa þess vegna margeflst að burðum og eru nú mörg hver orðin umsvifamikil á erlendum vettvangi. Í kjölfarið á þessum breytingum er Ísland nú orðið eftirsóknarverður fjárfestingarkostur erlendra aðila.
    Traust og ábyrg efnahagsstefna hefur skilað Íslandi í efsta sæti á lista Evrópuþjóða yfir þau lönd sem þykja hvað samkeppnishæfust. Það staðfestir enn frekar að rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja hefur batnað verulega á undanförnum áratug auk þess sem skattaumhverfið þykir gott og stjórnkerfið er talið gegnsætt og stöðugt.
    Það er mikilvægt að þessi þróun haldi áfram. Af hálfu ríkisstjórnarinnar er lögð megináhersla á að viðhalda stöðugleika efnahagslífsins með áframhaldandi aðhaldi í ríkisfjármálum árið 2006. Stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum hefur á undanförnum árum skilað auknu aðhaldi í almennum rekstri.
    Meginniðurstaða fjárlagafrumvarps fyrir árið 2006 og langtímaáætlunar í ríkisfjármálum fyrir árin 2007–2009 er að áfram muni ríkja stöðugleiki í efnahagslífinu þrátt fyrir mikil umsvif vegna stóriðjuframkvæmda og aukinnar innlendrar eftirspurnar. Sú aðhaldssama stefna í ríkisfjármálum sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu og langtímaáætluninni skapar svigrúm til lækkunar skatta í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar án þess að raska þeim meginmarkmiðum efnahagsstefnunnar að viðhalda stöðugleika.

Helstu niðurstöður þjóðhagsspár.
    Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins er talið að uppsveiflan í efnahagslífinu nái hámarki á þessu ári og að hagvöxtur verði um 6%, ívið minni en á síðasta ári. Árið 2006 er spáð heldur minni hagvexti, eða um 4½%, einkum vegna minni útgjalda heimilanna. Jafnframt er gert ráð fyrir áframhaldandi hagvexti þegar stóriðjuframkvæmdunum lýkur, eða sem nemur árlega um 2½% árin 2007–2010. Skýringin á áframhaldandi hagvexti er meðal annars stóraukinn útflutningur álframleiðslu auk þess sem skattalækkanir ríkisstjórnarinnar og ýmsar framkvæmdir á vegum hins opinbera ásamt vaxtalækkun Seðlabankans vega upp á móti minnkandi innlendri eftirspurn.
    Þrátt fyrir tímabundinn þrýsting í kjölfar stóriðjuframkvæmda mun aðhaldssöm efnahagsstjórn áfram halda aftur af innlendri eftirspurn. Aukin verðbólga að undanförnu hefur einkum stafað af mikilli hækkun fasteigna- og olíuverðs. Samræmd neysluverðsvísitala evrópsku hagstofunnar, sem undanskilur húsnæðisliðinn, sýnir hins vegar að verðbólga hér á landi hefur verið svipuð og annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu, eða um 1–2% að undanförnu.

     Samræmd vísitala neysluverðs.
    (Tólf mánaða breytingar)

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     Heimild: Hagstofa Íslands.

    Atvinnuleysi hér á landi hefur minnkað ört að undanförnu. Samkvæmt spánni er gert ráð fyrir að atvinnuleysið verði rétt um 2% árið 2005 og minnki enn frekar árið 2006. Til samanburðar má nefna að atvinnuleysi mælist tæplega 9% í ríkjum Evrópusambandsins og á bilinu 4½–6% í Bandaríkjunum, Bretlandi og á Norðurlöndunum, nema í Finnlandi þar sem atvinnuleysi er nálægt 9%.

     Tölur og spá OECD um atvinnuleysi.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     Heimild: OECD Economic Outlook. Maí 2005.

    Óhjákvæmileg afleiðing mikils innflutnings vegna stóriðjuframkvæmdanna og aukinna umsvifa í hagkerfinu á síðustu misserum er aukin einkaneysla heimilanna og vaxandi halli á viðskiptum við útlönd. Talið er að viðskiptahallinn verði í hámarki á þessu ári og nemi rúmlega 13% af landsframleiðslu. Á næsta ári er gert ráð fyrir um 12% halla. Síðan er útlit fyrir að mjög dragi úr honum í kjölfar aukins álútflutnings og minnkandi innflutnings og að hallinn verði um 2½% af landsframleiðslu árin 2008–2010.
    Traust afkoma ríkissjóðs að undanförnu hefur gefið færi á mikilli lækkun skulda. Til viðbótar má nefna þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að verja umtalsverðum hluta söluandvirðis Símans til niðurgreiðslu skulda. Samkvæmt áætlun fjárlagafrumvarpsins er gert ráð fyrir að hreinar skuldir ríkissjóðs nemi einungis 5½% af landsframleiðslu í lok ársins 2005. Til samanburðar má nefna að á árinu 1995 námu skuldirnar um 34% af landsframleiðslu. Þessi staða er nánast einsdæmi meðal þjóða og aðeins Noregur getur státað af betri stöðu meðal OECD-ríkjanna.
    Það liggur fyrir og hefur verið staðfest af alþjóðaefnahagsstofnunum að það aukna aðhald sem hér hefur verið í ríkisfjármálum frá árinu 2003 er það mesta sem þekkist meðal iðnríkjanna. Jafnframt liggur það fyrir að stjórnvöld hafa tekið réttan pól í hæðina með því að setja fram og fylgja skýrri langtímastefnu í ríkisfjármálum og efnahagsmálum almennt.

Helstu stefnuáherslur ríkisstjórnarinnar.
    Stefna ríkisstjórnarflokkanna miðar að því að skapa hér skilyrði til efnahagslegs stöðugleika og aukins hagvaxtar en hvort tveggja er forsenda öflugs atvinnulífs og bættra lífskjara almennings.
    Forsætisráðherra leggur fram nú í upphafi þings frumvarp til laga um ráðstöfun á söluandvirði Símans þar sem gert er ráð fyrir tugmilljarða uppgreiðslum erlendra skulda ríkissjóðs strax og að afgangurinn verði að mestu geymdur á reikningi ríkissjóðs í Seðlabanka Íslands fram til ársins 2007. Þetta mun í senn skila ríkissjóði umtalsverðum vaxtatekjum og koma í veg fyrir þensluáhrif á sama tíma og stóriðjuframkvæmdirnar eru í hámarki.
    Þegar stóriðjuframkvæmdunum lýkur verður hafist handa svo um munar. Á árunum 2007–2010 verður 15 milljörðum króna varið til framkvæmda í vegamálum, meðal annars til byggingar Sundabrautar og til framkvæmda og uppbyggingar við helstu þjóðvegi á landinu. Með þessu er framkvæmdafé til vegagerðar meira en tvöfaldað á tímabilinu.
    Þá hefur ríkisstjórnin tekið ákvörðun um að leggja fjórðung söluandvirðis Símans í uppbyggingu nýs hátæknispítala og er gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á árinu 2008. Nýr spítali markar ekki einungis tímamót í uppbyggingu íslenska velferðarkerfisins heldur einnig fyrir allt háskóla- og vísindasamfélagið.
    Ríkisstjórnin hefur lagt ríka áherslu á að styrkja íslenska menntakerfið. Í nýrri skýrslu frá OECD kemur fram að árið 2002 voru Íslendingar sú þjóð sem varði stærstum hluta þjóðarframleiðslu sinnar, eða 7,4%, til menntamála. Menntun og þekking skipta sköpum í framtíðinni í hinni hörðu samkeppni þjóða á alþjóðavettvangi. Á þessu þingi hyggst ríkisstjórnin leggja fram frumvörp er taka til grunnskóla-, framhaldsskóla- og háskólastigsins. Markmið frumvarps til breytinga á lögum um grunnskóla er að sníða af annmarka sem fram hafa komið frá því að rekstur grunnskóla var færður frá ríki til sveitarfélaga. Frumvarp til nýrra rammalaga um háskóla hefur að markmiði að tryggja að gæði menntunar hér á landi séu á heimsmælikvarða og að sjálfstæði háskóla sé tryggt. Síðastliðinn áratug hafa orðið miklar breytingar á íslensku háskólasamfélagi. Íslenskir háskólanemar hafa aldrei verið fleiri, framlög til háskólamála hafa aldrei verið hærri og námsframboðið aldrei fjölbreyttara.
    Frumvarp til laga um greiðslur til foreldra barna sem greinast langveik eða alvarlega fötluð verður lagt fyrir Alþingi á haustdögum. Markmið þess er að tryggja foreldrum fjárhagsaðstoð þurfi þeir að leggja niður launuð störf eða gera hlé á námi þegar börn þeirra greinast langveik eða alvarlega fötluð. Ríkisstjórnin hefur einnig ákveðið að verja 1 milljarði króna af söluandvirði Símans til þess að leysa úr húsnæðisþörf og bæta þjónustu við geðfatlaða um land allt. Markmiðið er að eyða biðlistum og tryggja að geðfatlaðir búi við viðunandi aðstæður.
    Verið er að hrinda í framkvæmd þeirri fjarskiptaáætlun sem Alþingi samþykkti síðastliðið vor. Þar er mörkuð stefna stjórnvalda í háhraða- og farsímavæðingu landsins auk fjölmargra annarra þátta sem skipta framtíð okkar máli. Með stofnun fjarskiptasjóðs og ákvörðun um að láta renna til hans 2½ milljarð króna af söluandvirði Símans er staðfestur sá vilji ríkisstjórnarinnar að skapa hér hin bestu skilyrði til að nýta þá auðlind sem í upplýsingatækninni felst í þágu einstaklinga og atvinnulífsins.
    Á grundvelli stefnumörkunar Vísinda- og tækniráðs hefur ríkisstjórnin beitt sér fyrir að ríflega tvöfalda úthlutunarfé opinberra samkeppnissjóða á kjörtímabilinu en ein mikilvægasta nýjungin á þeim vettvangi er stofnun Tækniþróunarsjóðs. Á árinu 2006 verður varið ríflega 1½ milljarði króna til þessara sjóða.
    Ríkisstjórnin hefur enn fremur ákveðið að auka eigið fé Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins um 2½ milljarð króna. Stjórn Nýsköpunarsjóðs verði heimilt að verja allt að 1½ milljarði króna af því fé til að stofna sameignarsjóð með lífeyrissjóðum og fjármálafyrirtækjum til að fjárfesta í sprotafyrirtækjum. Stefnt er að því að slíkur sjóður hafi til ráðstöfunar 3–4 milljarða króna.
    Allir þessir þættir munu stuðla að því að auka fjölbreytni í íslensku atvinnulífi og renna um leið traustari stoðum undir verðmætasköpun í landinu til frambúðar. Það mun aftur skapa skilyrði til enn frekari skattalækkana, jafnt hjá fyrirtækjum sem einstaklingum, og um leið gefa möguleika á áframhaldandi uppbyggingu velferðar- og menntakerfisins.