Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 3. máls.

Þskj. 3  —  3. mál.
Frumvarp til laga

um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)
1. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að ráðstafa söluandvirði Landssíma Íslands hf. til að styrkja innviði íslensks samfélags án þess að raska stöðugleika í efnahagsmálum.
    Af söluandvirðinu, samtals 66,7 milljörðum kr., skal 43 milljörðum kr. varið til framkvæmda fram til ársins 2012 eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum.

2. gr.

Vegaframkvæmdir.


    Á árunum 2007–2010 skal verja 15.000 millj. kr. til framkvæmda í vegamálum til viðbótar við það fé sem ætlað er til slíkra framkvæmda á vegáætlun.
    Fé til framkvæmda í vegamálum skiptist svo:
     a.      Sundabraut: 8.000 millj. kr.
        Verja skal til þessa verkefnis 1.500 millj. kr. árið 2007, 2.500 millj. kr. árið 2008, 2.000 millj. kr. árið 2009 og 2.000 millj. kr. árið 2010.
     b.      Breikkun Reykjanesbrautar: 1.600 millj. kr.
        Verja skal til þessa verkefnis 700 millj. kr. árið 2007, 600 millj. kr. árið 2008 og 300 millj. kr. árið 2009.
     c.      Gerð gatnamóta við Nesbraut: 600 millj. kr.
         Fé þessu skal verja til framkvæmda árið 2007.
     d.      Vestfjarðavegur: 700 millj. kr.
        Verja skal til þessa verkefnis 300 millj. kr. árið 2008, 200 millj. kr. árið 2009 og 200 millj. kr. árið 2010.
     e.      Tröllatunguvegur um Arnkötludal: 800 millj. kr.
         Verja skal til þessa verkefnis 400 millj. kr. árið 2007 og 400 millj. kr. árið 2008.
     f.      Þverárfjallsvegur: 300 millj. kr.
         Verja skal til þessa verkefnis 200 millj. kr. árið 2007 og 100 millj. kr. árið 2008.
     g.      Norðausturvegur: 1.500 millj. kr.
        Verja skal til þessa verkefnis 300 millj. kr. árið 2007, 400 millj. kr. árið 2008, 400 millj. kr. árið 2009 og 400 millj. kr. árið 2010.
     h.      Hringvegur um Hornafjarðarfljót: 800 millj. kr.
         Verja skal til þessa verkefnis 400 millj. kr. árið 2008 og 400 millj. kr. árið 2009.
     i.      Bræðratunguvegur um Hvítá: 300 millj. kr.
         Verja skal til þessa verkefnis 100 millj. kr. árið 2008 og 200 millj. kr. árið 2009.
     j.      Suðurstrandarvegur: 400 millj. kr.
         Verja skal til þessa verkefnis 200 millj. kr. árið 2008 og 200 millj. kr. árið 2009.

3. gr.

Uppbygging Landspítala – háskólasjúkrahúss.


    Verja skal samtals 18.000 millj. kr. til uppbyggingar Landspítala – háskólasjúkrahúss á lóð stofnunarinnar við Hringbraut í Reykjavík. Framlagi þessu skal verja til að ljúka skipulagsvinnu og undirbúningi svæðisins, byggja slysa- og bráðaþjónustu og reisa hús fyrir rannsóknir.
    Fjárframlögin skiptast þannig milli ára að verja skal 300 millj. kr. til þessa verkefnis árið 2005, 200 millj. kr. árið 2007, 1.500 millj. kr. árið 2008, 4.000 millj. kr. árið 2009, 4.000 millj. kr. árið 2010, 4.000 millj. kr. árið 2011 og 4.000 millj. kr. árið 2012.

4. gr.

Landhelgisgæslan.


    Verja skal 2.000 millj. kr. árið 2008 til kaupa eða leigu á fjölnota varðskipi fyrir Landhelgisgæslu Íslands.
    Þá skal verja 1.000 millj. kr. árið 2007 til kaupa eða leigu á eftirlitsflugvél fyrir Landhelgisgæslu Íslands.

5. gr.

Nýsköpun í íslensku atvinnulífi.


    Árið 2005 skal leggja fram til Nýsköpunarsjóðs 1.000 millj. kr. sem verði varið til að fjárfesta í sprotafyrirtækjum í samræmi við lögbundið hlutverk sjóðsins og ákvarðanir stjórnar hans.
    Þá skal Nýsköpunarsjóður fá 1.500 millj. kr. viðbótarframlag á árunum 2007–2009 til að standa undir hlutdeild sinni í stofnun nýrra samlagssjóða með lífeyrissjóðum og öðrum fjárfestum í sprotafyrirtækjum, enda nemi eignarhlutur annarra en Nýsköpunarsjóðs í slíkum sjóði a.m.k. 50%.

6. gr.

Fjarskiptasjóður.


    Leggja skal fram samtals 2.500 millj. kr. til nýs fjarskiptasjóðs sem hafi það hlutverk að stuðla að uppbyggingu á sviði fjarskiptamála, m.a. bættri farsímaþjónustu á landsbyggðinni og víðtækari dreifingu stafræns sjónvarps um gervihnött og átaki í háhraðatengingum á landinu.
    Fjárframlagið skiptist þannig milli ára að í sjóðinn fara 1.000 millj. kr. árið 2005, 500 millj. kr. árið 2007, 500 millj. kr. árið 2008 og 500 millj. kr. árið 2009.

7. gr.

Framkvæmdir í þágu geðfatlaðra.


    Verja skal samtals 1.000 millj. kr. til uppbyggingar búsetuúrræða og þjónustu við geðfatlaða.
    Fjárframlögin skiptast þannig milli ára að verja skal 200 millj. kr. til verkefnisins árið 2005, 200 millj. kr. árið 2007, 300 millj. kr. árið 2008 og 300 millj. kr. árið 2009.

8. gr.

Nýbygging fyrir Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun.


    Verja skal samtals 1.000 millj. kr. til nýbyggingar fyrir Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun.
    Fjárframlögin skiptast þannig milli ára að verja skal 300 millj. kr. til þessa verkefnis árið 2007, 300 millj. kr. árið 2008 og 400 millj. kr. árið 2009.

9. gr.

Gildistaka.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Söluferli á hlut ríkisins í Landssíma Íslands hf. hófst í byrjun árs 2004 með gerð áreiðanleikakönnunar og verðmats á fyrirtækinu. Hinn 4. apríl 2005 kynnti framkvæmdanefnd um einkavæðingu fyrirkomulag sölunnar á hlut ríkisins og lagði til að hluturinn yrði allur seldur í einu lagi einum hópi kjölfestufjárfesta. Var sú tilhögun í samræmi við tillögu fjármála- og ráðgjafarfyrirtækisins Morgan Stanley. Sala bréfa til hóps kjölfestufjárfesta var hins vegar háð ákveðnum skilyrðum, m.a. að enginn einstakur aðili eða skyldir eða tengdir aðilar eignuðust stærri hlut í Landssíma Íslands hf. en 45% fram að skráningu félagsins á hlutabréfamarkaði og að ekki minna en 30% af heildarhlutafé félagsins yrðu af hálfu kaupanda boðin almenningi og öðrum fjárfestum til kaups í síðasta lagi í árslok 2007.
    Gert var ráð fyrir tvíþættu söluferli. Fyrst, hinn 17. maí sl., skiluðu bjóðendur, á grundvelli fyrirliggjandi útboðsgagna, inn óbindandi tilboðum. Við mat á þeim var m.a. horft til verðtilboðs, fjárhagslegs styrks og lýsingar bjóðenda á fjármögnun, reynslu þeirra af rekstri fyrirtækja, hugmynda og framtíðarsýnar varðandi rekstur Landssíma Íslands hf., starfsmannastefnu og þjónustu í þéttbýli og dreifbýli næstu fimm árin, svo og sjónarmiða bjóðenda hvað varðar markmið ríkisins með sölunni. Alls bárust 14 óbindandi tilboð í hlutabréf ríkisins í Landssíma Íslands hf. Að baki tilboðunum stóðu 37 fjárfestar, innlendir og erlendir.
    Alls uppfylltu 12 aðilar, sem að stóðu 35 innlendir og erlendir fjárfestar, skilyrði nefndarinnar og var boðið til þátttöku á síðara stigi söluferlis. Var þeim gert kleift að fá frekari upplýsingar um Landssíma Íslands hf. með kynningu, heimsóknum og áreiðanleikakönnunum og, á grundvelli þessara athugana, gera bindandi tilboð.
    Þrír hópar fjárfesta gerðu síðan bindandi tilboð í fyrirtækið. Eftir að tilboðin voru opnuð hinn 26. júlí 2005 samþykkti fjármálaráðherra, sem fór með eignarhlut ríkisins í Landssíma Íslands hf., í samráði við ráðherranefnd um einkavæðingu, tillögu framkvæmdanefndar um einkavæðingu um að taka hæsta tilboðinu sem Skipti ehf. átti og hljóðaði upp á 66,7 milljarða kr.
    Kaupverðið var greitt til íslenska ríkisins hinn 6. september 2005 eftir að Samkeppniseftirlitið hafði samþykkt kaupin fyrir sitt leyti.
    Með frumvarpi þessu eru gerðar tillögur um ráðstöfun söluandvirðisins. Er þar fylgt meginstefnumiðum ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum eins og þeim er lýst í stefnuyfirlýsingu hennar frá 23. maí 2003 þar sem segir m.a.:
    „Að tryggja að jafnvægi og stöðugleiki ríki í efnahagsmálum þjóðarinnar. Með því skapast skilyrði til enn frekari vaxtar þjóðartekna og aukins kaupmáttar almennings. Jafnframt er stöðugleiki í efnahagsmálum forsenda aukinnar samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.“
    Annars vegar er gert ráð fyrir að verulegum hluta söluandvirðisins, þ.e. 43 milljörðum kr., verði varið til þess á næstu árum að styrkja innviði samfélagsins, m.a. að bæta þjónustu í heilbrigðiskerfinu, styrkja rannsókna- og þróunarstarf og örva þannig frumkvöðlastarfsemi og nýsköpun í atvinnulífinu, treysta undirstöður byggðar í landinu og skapa jöfn skilyrði til atvinnu með bættum samgöngum og jöfnun aðgengis landsmanna að fjarskiptum.
    Til þess að afstýra ofþenslu í efnahagslífinu er gert ráð fyrir að meginhluti framkvæmdanna verði ekki fyrr en eftir að yfirstandandi stóriðjuframkvæmdum lýkur.
    Hins vegar er lagt til að afgangi söluandvirðisins verði varið til að greiða niður erlendar skuldir ríkisins. Það mun leiða til minni endurgreiðslu- og vaxtabyrði fyrir ríkissjóð. Áætlað er að í árslok 2005 verði hreinar erlendar skuldir ríkisins 79 milljarðar kr.
    Með því að kveða á um ráðstöfun fjárins til svo langs tíma sem hér er lagt til er verið að eyða óvissu um hvert fjármunirnir fara og um leið tryggja að þeir nýtist sem best til þjóðþrifaframkvæmda sem annars yrði ekki kleift að ráðast í. Það fé sem ekki er ráðstafað strax til greiðslu erlendra skulda verður ávaxtað í Seðlabanka Íslands og smám saman af því tekið til framkvæmda sem frumvarpið kveður á um. Þetta mun færa ríkinu umtalsverðar vaxtatekjur á komandi árum og stuðla að bættri afkomu ríkissjóðs.
    Þótt með frumvarpi þessu sé kveðið á um ráðstöfun fjárins á sjö ára tímabili mun jafnframt verða gerð nánari grein fyrir sjóðstilfærslum í fjárlögum og fjáraukalögum hvers árs. Í töflunni hér á eftir er gefið yfirlit yfir skiptingu útgjalda frá ári til árs.

Skipting útgjalda


(fjárhæðir eru á verðlagi hvers árs, í millj. kr.).


2005 2006 2007 2008 2009 2010 2011 2012 Samtals
1. Vegaframkvæmdir
    Sundabraut 1.500 2.500 2.000 2.000 8.000
    Breikkun Reykjanesbrautar 700 600 300 1.600
    Gerð gatnamóta við Nesbraut 600 600
    Vestfjarðavegur 300 200 200 700
    Tröllatunguvegur um Arnkötludal 400 400 800
    Þverárfjallsvegur 200 100 300
    Norðausturvegur 300 400 400 400 1.500
    Hringvegur um Hornafjarðarfljót 400 400 800
    Bræðratunguvegur um Hvítá 100 200 300
    Suðurstrandarvegur 200 200 400
    Samtals til vegaframkvæmda 3.700 5.000 3.700 2.600 15.000
2. Uppbygging Landspítala – háskólasjúkrahúss 300 200 1.500 4.000 4.000 4.000 4.000 18.000
3. Landhelgisgæslan 1.000 2.000 3.000
4. Nýsköpun í íslensku atvinnulífi 1.000 500 500 500 2.500
5. Fjarskiptasjóður 1.000 500 500 500 2.500
6. Framkvæmdir í þágu geðfatlaðra 200 200 300 300 1.000
7. Nýbygging fyrir Stofnun íslenskra fræða –     Árnastofnun 300 300 400 1.000
Samtals 2.500 6.100 10.100 9.300 7.000 4.000 4.000 43.000

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. gr. frumvarpsins er kveðið á um markmið laganna sem er að mæla fyrir um ráðstöfun söluandvirðis Landssíma Íslands hf. til að styrkja innviði íslensks þjóðfélags án þess að raska efnahagslegum stöðugleika. Þannig verður 43 milljörðum kr. ráðstafað til framkvæmda sem nýtast munu öllum landsmönnum, t.d. á sviði samgöngu- og heilbrigðismála. Er þeim nánar lýst í síðari greinum frumvarpsins. Jafnframt verður drjúgum hluta ráðstafað til að greiða niður erlendar skuldir ríkisins.

Um 2. gr.


    Á árunum 2007–2010 verður 15 milljörðum kr. varið til framkvæmda í vegamálum. Með þessu er framkvæmdafé til vegagerðar meira en tvöfaldað á tímabilinu. Með frumvarpinu er lagt til að verja fénu til eftirfarandi framkvæmda:
     a. Sundabraut: 8.000 millj. kr.
    Í gildandi vegáætlun fyrir árin 2005–2008 er gert ráð fyrir samtals 360 millj. kr. fjárveitingum í gerð vegar frá Sæbraut að Hallsvegi í Grafarvogi, svokallaðri Sundabraut. Verk þetta hefur lengi verið í undirbúningi. Úrskurður um mat á umhverfisáhrifum fyrir þennan vegarkafla liggur fyrir en hann var kærður til umhverfisráðherra sem væntanlega fellir úrskurð varðandi kærurnar nú á næstunni. Kostnaður þessa áfanga hefur verið metinn á bilinu 7 1/ 2–14 1/ 2 milljarður kr. eftir því hvaða leið og útfærsla er valin.
    Með frumvarpinu er lagt til að verja 8 milljörðum kr. til þessa verks. Sú ákvörðun tekur mið af því að svokölluð innri leið verði valin sem er í samræmi við álit Vegagerðarinnar. Ráðgert er að hefja framkvæmdir um mitt ár 2007 og stefnt að verklokum árið 2010.
    Frumvarpið felur í sér áframhaldandi lagningu Sundabrautar upp í Geldinganes og um Álfsnes upp á Kjalarnes. Undirbúningi verði þannig háttað að unnt verði að ráðast í framkvæmdirnar samhliða árin 2009 og 2010 og síðari áfanga, þ.e. um Álfsnes upp á Kjalarnes, verði lokið árið 2011. Áætlaður kostnaður við síðari áfanga verksins er á bilinu 6–8 milljarðar kr. og er fyrirhugað að hann verði boðinn út og fjármagnaður í einkaframkvæmd.
     b. Breikkun Reykjanesbrautar: 1.600 millj. kr.
    Árið 2004 var lokið við fyrsta áfanga breikkunar Reykjanesbrautar milli Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar úr tveimur í fjórar akreinar. Þessi fyrsti áfangi er um 12 km frá Hvassahrauni suður á Strandaheiði. Því sem eftir er af verkinu er unnt að skipta í þrjá áfanga, þ.e. Hafnarfjörður (Kaldárselsvegur) – Krýsuvíkurvegur, Krýsuvíkurvegur – Hvassahraun og Strandaheiði – Reykjanesbær (Víknavegur). Í gildandi vegáætlun eru fjárveitingar á árunum 2006–2008 samtals 983 millj. kr. og hefur verið við það miðað að sú upphæð verði notuð í síðasttalda kaflann. Kostnaðaráætlun fyrir það verk er um 2.000 millj. kr. þannig að um 1.000 millj. kr. af þeim 1.600 millj. kr. sem hér eru ætlaðar til Reykjanesbrautar þarf til að ljúka kaflanum. Í vegáætluninni er einnig gert ráð fyrir fjárveitingu til að gera mislæg gatnamót Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar en með 600 millj. kr. viðbót verður unnt að ráðast í breikkun vegarins milli Kaldárselsvegar og Krýsuvíkurvegar. Við það er miðað að þessum tveimur áföngum af þremur sem eftir eru verði lokið árið 2009.
     c. Gerð gatnamóta við Nesbraut: 600 millj. kr.
    Í gildandi vegáætlun er 100 millj. kr. fjárveiting til þessa verkefnis á árinu 2008. Kostnaðaráætlun er um 600 millj. kr. og mikil þörf á að flýta því vegna umferðarþunga. Hér er gert ráð fyrir að verja 600 millj. kr. til verksins árið 2007. Fjármagni sem hugsanlega losnar við það á vegáætlun 2008 verður ráðstafað til annarra verkefna við næstu endurskoðun vegáætlunarinnar.
     d. Vestfjarðavegur: 700 millj. kr.
    Mjög mikið er ógert á Vestfjarðavegi; annars vegar á leiðinni milli Bjarkarlundar og Flókalundar og hins vegar frá Flókalundi til Dýrafjarðar, auk þess sem eftir er að endurgera veginn um Svínadal í Dölum. Í vegáætlun eru samtals 1.083 millj. kr. til þessara verkefna á árunum 2005–2008. Ákveðið er að ráðstafa 700 millj. kr. til að flýta framkvæmdum á þessari leið. Að auki er gert ráð fyrir að við næstu endurskoðun vegáætlunar verði aukið enn við fjárveitingar til verksins á árunum 2009 og 2010.
     e. Tröllatunguvegur um Arnkötludal: 800 millj. kr.
    Að undanförnu hafa staðið yfir athuganir á gerð nýs vegar milli Vestfjarðavegar í Reykhólasveit og Djúpvegar í Steingrímsfirði í stað núverandi vegarslóða á Tröllatunguheiði. Þessi leið styttir vegalengdina milli Hólmavíkur og Reykjavíkur um 40 km miðað við núverandi leið um Strandir. Kostnaðaráætlun fyrir verkið er 900 millj. kr. og á vegáætlun eru 100 millj. kr. ætlaðar til þess árið 2008. Ákveðið er að ráðstafa 800 millj. kr. til verksins þannig að unnt verði að ljúka þessari vegagerð árið 2008.
     f. Þverárfjallsvegur: 300 millj. kr.
    Lokið er gerð vegarins frá Skagastrandarvegi að Laxárdalsvegi en eftir er að endurgera veginn þaðan til Sauðárkróks ásamt brúargerð á Gönguskarðsá. Kostnaðaráætlun fyrir það er tæplega 600 millj. kr. og fjárveitingar til þess á vegáætlun á árunum 2005–2007 eru 285 millj. kr. Með 300 millj. kr. viðbótarráðstöfun til þessa verkefnis er unnt að ljúka því árið 2008.
     g. Norðausturvegur: 1.500 millj. kr.
    Mikið er ógert í Norðausturvegi úr Öxarfirði að Hringvegi á Vopnafjarðarheiði. Þeim 1.500 millj. kr. sem hér er ráðstafað til vegarins verður annars vegar varið til vegatengingar milli Öxarfjarðar og Þistilfjarðar með tengingu til Raufarhafnar og hins vegar í veginn frá Vopnafirði að slitlagsenda við Brunahvammsháls. Áætlaður kostnaður við fyrrnefnda verkefnið er samtals 2.000 millj. kr. og fjárveitingar á vegáætlun til þess á árunum 2005–2008 nema rúmlega 1.100 millj. kr. Áætlaður kostnaður við síðarnefnda verkefnið er 1.250–1.700 millj. kr. eftir því hvaða útfærsla er valin en Vegagerðin hefur mælt með að valin verði svonefnd Vesturárdalsleið sem er áætlað að kosti 1.300 millj. kr. Fjárveitingar á vegáætlun 2007 og 2008 til þessa verkefnis eru samtals 239 millj. kr. Til þess að ljúka báðum verkefnunum þarf því að koma um 500 millj. kr. viðbótarfjárveiting á vegáætlun á árunum 2009 og 2010.
     h. Hringvegur um Hornafjarðarfljót: 800 millj. kr.
    Á árinu 2008 er 166 millj. kr. fjárveiting á vegáætlun til byggingar nýrrar brúar yfir Hornafjarðarfljót. Kostnaðaráætlun fyrir þá framkvæmd ásamt vegtengingum er um 1.200 millj. kr. Hér er ráðstafað 800 millj. kr. til verksins og þarf því að koma 200–300 millj. kr. viðbótarfjárveiting til þess á vegáætlun 2009 til að ljúka því það ár.
     i. Bræðratunguvegur um Hvítá: 300 millj. kr.
    Hér er um nýja vegtengingu yfir Hvítá í Árnessýslu að ræða. Tenging þessi, sem er mikið hagsmunamál fyrir nærliggjandi byggðir, hefur verið lengi á döfinni. Áætlaður kostnaður er um 800 millj. kr. og á vegáætlun 2007 og 2008 eru ætlaðar 186 millj. kr. til verksins. Að viðbættum þeim 300 millj. kr. sem hér er ráðstafað til þess þurfa að koma um 300 millj. kr. á vegáætlun á árinu 2009 til að ljúka verkinu það ár.
     j. Suðurstrandarvegur: 400 millj. kr.
    Nú er unnið að gerð fyrsta áfanga endurgerðar Suðurstrandarvegar, en það er kaflinn um Festarfjall austan Grindavíkur. Í haust verður næsti áfangi boðinn út, sem er stuttur kafli næst Þorlákshöfn. Þær 400 millj. kr. sem hér er ráðstafað til verksins eru ætlaðar til næsta áfanga, frá Þorlákshöfn og vestur fyrir Hlíðarvatn.

Um 3. gr.


    Brýnasta framtíðarverkefnið á sviði heilbrigðismála er bygging nýs hátæknisjúkrahúss sem áformað er að reisa á Landspítalalóðinni við Hringbraut. Undirbúningur þeirra framkvæmda er nokkuð á veg kominn. Dómnefnd um skipulagstillögur í alþjóðlegri samkeppni fyrir Hringbrautarsvæðið mun skila áliti sínu til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra í október 2005. Þá hefst deiliskipulagsvinna með það fyrir augum m.a. að svæðið nýtist sem best, háskólabyggingar og sjúkrahús tengist, aðgengi og samgöngur verði greiðar og gætt verði fyllstu rekstrarhagkvæmni.
    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur áætlað að heildarkostnaður við uppbyggingu hátæknisjúkrahússins sé rúmlega 40 milljarðar kr., heildarstærð nýbygginga samkvæmt frumathugun er 85 þús. m 2 og endurgera þarf um 26 þús. m 2 af eldra húsnæði.
    Með 18 milljarða kr. fjárframlagi af söluandvirði Landssíma Íslands hf. er unnt að ljúka skipulagsvinnu og undirbúningi svæðisins, byggja slysa- og bráðaþjónustu sem er mjög brýnt verkefni og reisa hús fyrir rannsóknir. Gert er ráð fyrir að undirbúningur standi fram á árið 2008 en þá geta framkvæmdir væntanlega hafist.

Um 4. gr.


    Ríkisstjórnin veitti í mars 2005 dómsmálaráðherra heimild til að undirbúa kaup eða leigu á fjölnota varðskipi fyrir Landhelgisgæslu Íslands sem sinna á öryggisgæslu, eftirliti í efnahagslögsögu Íslendinga, mengunarvörnum og afgreiðslu eldsneytis til björgunarþyrlna á flugi. Varðskipið á þannig að geta brugðist við í þágu almannavarna hvar sem er á landinu, efla viðbrögð og varnir gegn hryðjuverkaógn og nýtast til samvinnu við sérsveit lögreglunnar og tollgæslu og björgunarstarfa hvers konar. Lagt er til að verja 2.000 millj. kr. árið 2008 til kaupa eða leigu á varðskipi.
    Ríkisstjórnin veitti enn fremur í mars sl. dómsmálaráðherra heimild til að undirbúa kaup eða leigu á eftirlitsflugvél fyrir Landhelgisgæslu Íslands. Flugvélin skal búin nútímagreiningar- og samskiptatækni og hafa nægjanlegt flugþol til að sinna margvíslegu eftirliti í efnahagslögsögu Íslendinga þar sem m.a. þarf að fylgjast með skipaferðum, mengun og hafís. Þá skal vélin hafa þol til að taka þátt í björgunar- og leitaraðgerðum, sinna vettvangsstjórn og sjúkraflugi og að henni verði flogið utan til alþjóðlegra björgunarstarfa, friðargæslu og mannúðarstarfa. Lagt er til að verja 1.000 millj. kr. til þessa verkefnis á árinu 2007.
    Samkvæmt bráðabirgðakostnaðarmati dómsmálaráðuneytisins er fjárþörfin fyrir varðskip og flugvél samtals 3.500–4.000 millj. kr. Það sem á vantar verður því að fjármagna með öðrum hætti.

Um 5. gr.


    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er áhersla lögð á getu þjóðarinnar til nýsköpunar og endurnýjunar í atvinnulífinu. Þar segir m.a. um markmið stjórnarsamstarfsins:
    „Að styrkja rannsókna- og þróunarstarf, m.a. með því að auðvelda fyrirtækjum að leggja fé til þess og örva þannig frumkvöðlastarfsemi. Í samræmi við ný lög um Vísinda- og tækniráð verði unnið að markvissri uppbyggingu rannsóknastarfsemi og nýsköpun á sem flestum sviðum.“
    Á grundvelli stefnumörkunar Vísinda- og tækniráðs hefur ríkisstjórnin beitt sér fyrir ríflega tvöföldun úthlutunarfjár opinberra samkeppnissjóða á kjörtímabilinu. Á árinu 2005 er varið allt að 1,3 milljörðum kr. til þessara sjóða.
    Stofnun Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins í ársbyrjun 1998 var ætlað að fylgja eftir álitlegum rannsóknaniðurstöðum áfram yfir í sprota- og nýsköpunarfyrirtæki. Sjóðurinn hefur hins vegar ekki lengur bolmagn til nýfjárfestinga en hefur beint kröftum sínum að því að verja þær fjárfestingar sem hann hefur þegar ráðist í. Frá upphafi hefur sjóðurinn fjárfest í rúmlega 100 fyrirtækjum og á nú eignarhlut í rúmlega 60 fyrirtækjum, þar af eru 45 starfandi.
    Með lögum nr. 92/2004 fékk sjóðurinn heimildir til að stofna til nýrra samlagssjóða með öðrum fjárfestum og að semja við aðra aðila um vistun þeirra eða tiltekna þjónustu þeim til handa, með samþykki ráðherra. Þessar heimildir sjóðsins opna fyrir samstarf við innlenda jafnt sem erlenda fjárfesta.
    Hér er lagt til að auka eigið fé Nýsköpunarsjóðs um 2.500 millj. kr. Þar af fái sjóðurinn 1.000 millj. kr. á árinu 2005 sem varið verði til fjárfestinga í sprotafyrirtækjum í samræmi við lögbundið hlutverk sjóðsins og ákvarðanir stjórnar hans. Með sprotafyrirtæki er átt við fyrirtæki með innan við 50 starfsmenn og ársveltu innan við 500 millj. kr. sem byggir starfsemi sína á sérhæfðri þekkingu, tækni eða öðru nýnæmi og ver meira en 10% af veltu í viðurkennda rannsókna- og þróunarstarfsemi.
    Jafnframt fær Nýsköpunarsjóður 1.500 millj. kr. viðbótarframlag á árunum 2007–2009 til að standa undir hlutdeild sinni í stofnun samlagssjóða Nýsköpunarsjóðs, lífeyrissjóða og annarra fjárfesta í sprotafyrirtækjum, enda nemi eignarhlutur annarra en Nýsköpunarsjóðs í slíkum sjóði a.m.k. 50%. Orðið samlagssjóður er notað í daglegu tali sem samheiti fyrir hvers konar samstarfsform fjárfesta sem leggja sameiginlega fé í sjóð. Viðræður við fagfjárfesta hafa leitt í ljós að samlagshlutafélagaformið henti best samlagssjóðum af þessu tagi. Til að greiða fyrir stofnun slíkra félaga er nauðsynlegt að gera nokkrar lagabreytingar til að færa samlagshlutafélög hér á landi til samræmis við það sem tíðkast víðast hvar.
    Gert er ráð fyrir að iðnaðar- og viðskiptaráðherra flytji frumvarp á næstunni um nauðsynlegar breytingar á lagaumhverfi Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og samlagshlutafélaga til samræmis við ofangreint.

Um 6. gr.


    Lagt er til að verja 2.500 millj. kr. til uppbyggingar í samræmi við fjarskiptaáætlun sem skilgreinir aðkomu og markmið stjórnvalda á sviði fjarskipta til næstu ára.
    Meginmarkmiðið með ráðstöfun fjárins er í fyrsta lagi að auka öryggi vegfarenda og aðgengi að farsímaþjónustu á þjóðvegum landsins með því að stuðla að aukinni útbreiðslu GSM-farsímanetsins við hringveginn, helstu stofnvegi og fjölfarna ferðamannastaði sem ekki er líklegt að verði þjónað á markaðslegum forsendum. GSM-farsímakerfið er ekki landsþekjandi og skortir töluvert á að samband náist á þjóðvegakerfinu. Þrátt fyrir að GSM-farsímakerfið hafi ekki verið hannað sem öryggiskerfi er ljóst að almenn eign slíkra farsíma er mikilvægur liður í öryggi fólks, auk þess sem farsíminn gegnir mikilvægu hlutverki í samskiptum í nútímaþjóðfélagi.
    Í öðru lagi er gert ráð fyrir að fjármunum verði varið til að stuðla að dreifingu stafræns sjónvarps um gervihnött, með stórbætta þjónustu fyrir sjófarendur og strjálbýli að leiðarljósi. Neytendum á afmörkuðum svæðum stendur þegar til boða stafrænt sjónvarp sem dreift er með ýmsum hætti með þræði eða þráðlaust. Þegar er hafinn undirbúningur að uppbyggingu UHF-dreifikerfa samkvæmt DVB-T staðli sem bjóða upp á starfænt sjónvarp á landsvísu. Nauðsynlegt er að tryggja að sjófarendur og íbúar strjálbýlli svæða sem ekki njóta fullnægjandi þjónustu eigi möguleika á að ná sjónvarpsdagskrá RÚV, auk hljóðvarps Rásar 1 og Rásar 2 stafrænt í gegnum gervihnött. Markmiðið er að stafrænt sjónvarp nái til allra landsmanna.
    Í þriðja lagi er gert ráð fyrir öflugri uppbyggingu á háhraðatengingum á þeim svæðum sem ekki er líklegt að verði þjónað á markaðslegum forsendum. Upplýsingatækni er leiðandi í hagvexti og atvinnuuppbyggingu í Evrópu og víðar annars staðar, m.a. hér á landi. Háhraðatengingar eru einn af grunnþáttum tækninnar sem gerir upplýsingasamfélag nútímans mögulegt. Áætlað er að stuðla að og hraða þróun upplýsingasamfélagsins svo að allir landsmenn sem þess óska geti tengst háhraðaneti og notið hagkvæmrar og öruggrar fjarskiptaþjónustu.
    Samgönguráðherra skipar verkefnisstjórn til að hafa yfirumsjón með framkvæmd fjarskiptaáætlunar. Farin verður útboðsleið til að ná fram markmiðum áætlunarinnar og boðin verður út skýrt skilgreind þjónusta á afmörkuðum svæðum.
    Komið verður á fót sérstökum sjóði, fjarskiptasjóði, sem sér um úthlutun fjármagns á grundvelli fjarskiptaáætlunar. Fyrsti áfangi framkvæmdarinnar fer af stað á árinu 2005 og verður til hans varið 1.000 millj. kr. Eftirstöðvarnar, 1.500 millj. kr., koma síðan með jöfnum greiðslum árin 2007–2009.
    Gert er ráð fyrir að samgönguráðherra muni á næstunni flytja sérstakt frumvarp um stofnun fjarskiptasjóðs.

Um 7. gr.


    Lagt er til að stórátak verði gert í uppbyggingu búsetuúrræða og þjónustu við geðfatlaða með því að ráðstafa til þess málaflokks 1.000 millj. kr. af söluandvirði Landssíma Íslands hf. Markmiðið er að eyða biðlistum og koma í veg fyrir að geðfatlaðir búi við ófullnægjandi aðstæður.
    Félagsmálaráðuneytið hefur í samráði við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti látið vinna ítarlega könnun á þjónustuþörf geðfatlaðra einstaklinga. Heildarfjárþörf vegna uppbyggingar á fimm árum er 1,5 milljarðar kr. í stofnkostnað miðað við 150 einstaklinga. Gert er ráð fyrir að Framkvæmdasjóður fatlaðra verji 500 millj. kr. til verkefnisins til viðbótar þeim 1.000 millj. kr. sem ráðstafað verður af söluandvirði Landssíma Íslands hf.
    Samhliða uppbyggingu á búsetu og þjónustu fyrir geðfatlaða sem eru í brýnni þörf fyrir úrræði verður sérstök áhersla lögð á starfsendurhæfingu með það að markmiði að virkja þá til þátttöku í samfélaginu. Félagsmálaráðuneytið mun í því sambandi nýta þá þekkingu og reynslu sem fyrir er hjá félagasamtökum og fagaðilum sem unnið hafa á þessu sviði, hugsanlega með gerð þjónustusamninga við þá.

Um 8. gr.


    Lagt er til að veita sérstakt 1.000 millj. kr. framlag til nýbyggingar fyrir Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun sem rísi við hlið Þjóðarbókhlöðunnar við Suðurgötu. Með þessu verði heiðrað að árið 2011 verða 100 ár liðin frá stofnun Háskóla Íslands og 200 ár frá fæðingu Jóns Sigurðssonar.
    Menntamálaráðherra mun á næstunni flytja frumvarp um Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun sem verður til við samruna Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi, Örnefnastofnunar, Orðabókar Háskólans, Íslenskrar málstöðvar og Stofnunar Sigurðar Nordals.
    Stofnunin verði sjálfstæð háskólastofnun með sérstakri stjórn og fjárhag og sinni þeim verkefnum sem þessar stofnanir hafa sinnt hver í sínu lagi. Við samruna þeirra skapast skilyrði til þess að leggja aukna rækt við menningararf þjóðarinnar og íslenska tungu.
    Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun mun áfram varðveita og sjá um þau handrit og skjalagögn sem hafa verið flutt til Íslands frá Danmörku samkvæmt sáttmála milli Danmerkur og Íslands um flutning á hluta af handritum Stofnunar Árna Magnússonar í Danmörku í vörslu og umsjón Háskóla Íslands. Í hinu nýja húsnæði mun gefast færi á að búa handritunum umgjörð við hæfi þar sem skilyrði til varðveislu þeirra verða hin ákjósanlegustu og gestum og gangandi gefst betra færi á að skoða og fræðast um þau.

Um 9. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

    Með frumvarpinu er lögð fyrir Alþingi tillaga ríkisstjórnarinnar um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf. Verði frumvarpið óbreytt að lögum verða bein útgjöld ríkissjóðs vegna þess 43.000 m.kr. og dreifist kostnaðurinn á árin 2005–2012. Fyrirhugað er að sækja um útgjaldaheimildir í fjáraukalögum 2005 og fjárlögum áranna 2007–2012 í samræmi við frumvarpið, eins og það verður að lögum.