Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 12. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 12  —  12. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum.

Flm.: Magnús Þór Hafsteinsson, Guðjón A. Kristjánsson, Sigurjón Þórðarson.



1. gr.

    6. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna orðast svo: Fólksflutningar og afnotagjald eða aðgangseyrir sem innheimtur er fyrir notkun samgöngumannvirkis. Flutningur á ökutækjum með ferjum, sem eru í beinum tengslum við fólksflutninga, telst til fólksflutninga samkvæmt þessum tölulið.

2. gr.

    5. tölul. 2. mgr. 14. gr. laganna orðast svo: Sala tímarita, dagblaða og landsmála- og héraðsfréttablaða, hvort sem þau eru seld prentuð eða á rafrænu formi.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2006.

Greinargerð.


    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögunum vegna innheimtu virðisaukaskatts af samgöngumannvirkjum annars vegar og útgáfu blaða og tímarita hins vegar.
    Í 1. gr. er gerð tillaga um að sala aðgangs og afnota af samgöngumannvirkjum, t.d. göngum, verði undanþegin virðisaukaskatti. Ósanngjarnt er að ríkið innheimti virðisaukaskatt fyrir gjöld sem reidd eru af hendi fyrir notkun samgöngumannvirkis. Hið opinbera innheimtir veruleg gjöld með ýmsum álagningum á farartæki og eldsneyti. Engin rök mæla með því að sanngjarnt sé að leggja aukaálögur í formi virðisaukaskatts á ferðir slíkra ökutækja þegar þau fara um samgöngumannvirki eða með ferjum.
    Eina samgöngumannvirki landsmanna í dag þar sem innheimt eru afnotagjöld (veggjöld) er göngin undir Hvalfjörð. Þau voru tekin í notkun 11. júlí 1998. Hið opinbera endurgreiddi á sínum tíma virðisaukaskatt vegna kostnaðar við gerð ganganna, en hefur frá því þau voru opnuð innheimt 14% virðisaukaskatt af veggjöldum. Taflan sem hér fer á eftir sýnir veggjöld og virðisaukaskatt á þau:
Tímabil Veggjöld í millj. kr. Virðisaukaskattur
í millj. kr.
Júlí 1998 til september 1998 202,7 28,4
Október 1998 til september 1999 811,3 113,6
Október 1999 til september 2000 774,1 108,3
Október 2000 til september 2001 844,4 118,2
Október 2001 til september 2002 879,8 123,2
Október 2002 til september 2003 904,8 126,7
Október 2003 til júní 2004 574,2 80,4
Samtals 4.991,3 698,8
    
    Hvalfjarðargöngin hafa fyrir löngu sannað gildi sitt sem samgöngubót sem komið hefur landsmönnum öllum til góða. Þau hafa stytt vegalengdir, aukið umferðaröryggi og styrkt byggðarlög. Enginn vafi leikur á því að hið opinbera hefur sparað verulegar fjárhæðir sem annars hefðu einkum runnið til viðhalds og reksturs vegar fyrir Hvalfjörð. Miklir fjármunir hafa einnig sparast vegna þess að slysatíðni á veginum fyrir Hvalfjörð er nú nánast engin. Fyrir tíma Hvalfjarðarganga voru alvarleg umferðarslys sem leiddu til örkumla og dauða árlegur viðburður á þeim vegi. Hvalfjarðargöngin hafa einnig orðið mikilvæg forsenda fyrir því að styrkja Vesturland sem atvinnusvæði. Síðast má geta þess að þau hafa auðveldað íbúum höfuðborgarsvæðisins að nýta sér dýrmæta möguleika til útivistar og ferðalaga um Vesturland, Vestfirði og Norðurland. Allir þessir jákvæðu þættir gera það að verkum að innheimta virðisaukaskatts af veggjöldum er ósanngjörn og ætti því að leggja hana af. Þetta gæti orðið verulegt skref í þá átt að lækka gjöld í Hvalfjarðargöngin.
    Í 2. gr. þessa frumvarps er gerð tillaga um að 5. tölul. 14. gr. laganna verði breytt þannig að sala þeirra blaða og tímarita sem þar er kveðið á um að falli undir 14% virðisaukaskatt verði sú sama hvort sem þau eru gefin út á prenti eða á rafrænu formi.
    Nú er 14% virðisaukaskattur lagður á slíka útgáfu ef hún er á pappír en 24% virðisaukaskattur ef hún er á netinu. Þetta ósamræmi styðst ekki við nein rök og rýrir möguleika útgáfufélaga til að selja efni sitt á rafrænu formi með hjálp tölvutækni. Með bættri tækni og aukinni flutningsgetu um internetið verður stöðugt algengara að blöð og tímarit séu boðin til sölu á rafrænu formi. Slíkur dreifingarmáti auðveldar til að mynda neytendum sem búa fjarri útgáfustöðum, annaðhvort hér á landi eða erlendis, að njóta útgefins efnis um leið og það kemur út.
    Lagt er til að lögin öðlist gildi 1. janúar 2006 sem tekur m.a. mið af uppgjörstímabili virðisaukaskatts.