Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 36. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 36  —  36. mál.
Tillaga til þingsályktunarum aðgerðir til að bæta skil á fjármagnstekjuskatti.

Flm.: Ögmundur Jónasson, Hlynur Hallsson, Jón Bjarnason,
Kolbrún Halldórsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon.


         Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa setningu laga sem kveði á um að bönkum og fjármálastofnunum á Íslandi verði skylt að láta skattyfirvöldum í té upplýsingar um fjármagnseign og fjármagnstekjur skattgreiðenda. Frumvarp þess efnis verði lagt fram á þessu löggjafarþingi með það að markmiði að lög þessa efnis geti tekið gildi 1. maí 2006.

Greinargerð.


    Mál þetta var fyrst flutt á 131. löggjafarþingi en ekki tókst að ljúka afgreiðslu þess. Málið er nú endurflutt.
    Réttlát skattheimta grundvallast á því að skattgreiðendur telji tekjur sínar rétt fram og að skattyfirvöld hafi nauðsynlegar upplýsingar til að sinna virku og eðlilegu skatteftirliti. Hér á landi hafa skattyfirvöld yfirleitt greiðan aðgang að upplýsingum um launatekjur, fasteignir og fasteignaviðskipti, ökutækjaeign og ýmis lánaviðskipti alls almennings. Þegar hins vegar kemur að fjármagnstekjum er allt annað uppi á teningnum. Bankar og fjármálastofnanir á Íslandi hafa tregðast við að veita skattyfirvöldum upplýsingar um fjármagnstekjur skattgreiðenda og þrátt fyrir ítrekaðar óskir ríkisskattstjóraembættisins á síðasta ári hafa flest fyrirtækin látið það algerlega undir höfuð leggjast.
    Fram hefur komið að Ísland sker sig úr á Norðurlöndum að þessu leyti og er í miklum minni hluta innan OECD þar sem yfirvöld í 20 ríkjum af 30 fá umræddar upplýsingar sjálfkrafa frá bönkum og öðrum fjármálastofnunum. Skattyfirvöld nota slíkar upplýsingar bæði við skatteftirlit og við forskráningu skattframtals. Í viðtali við Indriða H. Þorláksson ríkisskattstjóra í Morgunblaðinu 6. mars sl. kom fram að slík skil hefðu aukist um 20% í Svíþjóð í kjölfar lagasetningar um upplýsingaskyldu fjármálafyrirtækja. Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóraembættinu má ætla að skattskil vegna fjármagnstekna mundu einnig aukast um nálega fimmtung ef sama verklag væri viðhaft hér á landi. Í skýrslu starfshóps um umfang skattsvika á Íslandi (þskj. 664, 442. mál 131. löggjafarþings) kemur fram sú skoðun að tímabært sé að leiða í lög afdráttarlaus ákvæði um skyldu banka og fjármálastofnana til að láta skattyfirvöldum í té allar upplýsingar þeirra um eignir og tekjur viðskiptavina bankans og þeirra sem þeir annast einhvers konar fjársýslu fyrir.
    Í 1. tölublaði 19. árgangs Tíundar, fréttablaði ríkisskattstjóra, kemur fram, í grein sem ber heitið Forskráning upplýsinga og skatteftirlit eftir Jóhannes H. Karlsson, að hluti íslenskra banka og annarra fjármálastofnana, 14 talsins, hafi látið ríkisskattstjóra í té upplýsingar um heildarviðskipti sín við einstaklinga árið 2003. Þessar upplýsingar voru bornar saman við upplýsingar í gagnasöfnum ríkisskattstjóra. Samanburðurinn leiddi í ljós að fjármálastofnanirnar 14 keyptu hlutabréf fyrir 24 milljarða kr. í eigin nafni af einstaklingum. Þegar litið er til uppgefins kaupverðs hinna 14 fjármálastofnana á hlutabréfum frá einstaklingum annars vegar og framtalins söluverðs einstaklinga vegna sölu til sömu fjármálastofnana kemur í ljós að kaup fjármálastofnana námu um 24 milljörðum kr. en framtalin sala einstaklinga við þessar sömu fjármálastofnanir nemur um 19 milljörðum kr. Lítur því út fyrir að 5 milljarða kr. vanti upp á að einstaklingar telji sölutekjur af hlutabréfum rétt fram. Í greininni er einnig bent á að mun færri telji sig eiga hlutabréfaviðskipti við fjármálastofnanirnar en þær sjálfar telja, eða 11 þúsund einstaklingar á móti tæplega 17 þúsundum sem er fjöldinn sem fjármálastofnanirnar gefa upp. Er það niðurstaða greinarhöfundar að verulega vanti upp á að söluhagnaður af hlutabréfum sé talinn fram. Með hliðsjón af framangreindu og því að framtalið heildarsöluverð hlutabréfa einstaklinga var um 58 milljarðar kr. reiknast honum til að vanframtalið söluverð kunni að vera um 15 milljarðar kr. Á grundvelli þess að samkvæmt framtölum er stofnverð hlutabréfa að jafnaði um 55% söluverðs en söluhagnaður um 45% reiknast honum til að undandreginn skattstofn gæti verið nærri 7 milljörðum kr. Skatthlutfall fjármagnstekna er 10% hér á landi og því bendir allt til þess að 700 millj. kr. sé skotið undan fjármagnstekjuskatti á ári hverju.
    Auðveldlega má koma í veg fyrir þess háttar skattsvik með einfaldri lagasetningu eins og hér er lagt til að Alþingi feli ríkisstjórninni að undirbúa.


Fylgiskjal.

                                  

Mun minni hætta á svikum ef yfirvöld fengju upplýsingar frá bönkum.
(Frétt úr Morgunblaðinu 6. mars 2005.)

    Meira yrði talið fram og minni hætta yrði á skattsvikum ef bönkum og fjármálastofnunum yrði gert að gefa upplýsingar um fjármagnseign og viðskipti skattgreiðenda eins og gert er á hinum Norðurlöndunum, að sögn Indriða H. Þorlákssonar ríkisskattstjóra.
    Bendir hann á að skattskil hafi aukist um 20% eftir að sænsk stjórnvöld settu lög þar sem slíkar stofnanir voru skyldaðar til að gefa slíkar upplýsingar. Hér á landi gefa slíkar stofnanir skattayfirvöldum ekki upplýsingar nema þess sé óskað sérstaklega og sú krafa rökstudd.

Er þróunin víðast hvar.

    „Það er enginn efi á því að auðveldara yrði að fylgjast með skilunum og minni hætta á svikum. Ég vonast til að sett verði slík lög hér eins og víða hefur verið gert,“ sagði Indriði á blaðamannafundi í gær. Hann bendir á að í 20 af 30 OECD-ríkjum, þ. á m. í Bandaríkjunum, fái yfirvöld þessar upplýsingar sjálfkrafa. Þróunin í Evrópu sé í þessa veru. Hann leggur áherslu á að það sé ekki síst vegna þess að það yrði mun þægilegra fyrir skattgreiðendur ef búið yrði að forskrá þessar upplýsingar.
    „Við teljum sjálfsagt að þetta verði gert hér á landi bæði til að auka eftirlit og vegna þess að það myndi bæta þjónustu við skattgreiðendur. Það er líka svo að langstærstur hluti skattgreiðenda, sem er með launatekjur, á kannski húseign, bíl, fær vaxtabætur og hefur litlar sem engar fjármagnstekjur á þess engan kost að nýta sér þetta ástand.“

Aukin forskráning.

    Skattframtölum hefur verið dreift í vikunni og hafa ákveðnir nýir þættir bæst við netframtalið í ár. T.a.m. þurfa framteljendur ekki lengur að skrá kaup og sölu ökutækja, en það er nú forskráð. Lífeyrissjóðslán verða forskráð í fyrsta sinn í ár.
    Auk þess verður hægt að skila viðbótargögnum s.s. læknisvottorði vegna umsóknar um lækkun og námsvottorði vegna framhaldsnáms erlendis.
    Búið er að dreifa framtalsgögnum og skattaleiðbeiningum til einstaklinga. Framtalseyðublöð á pappír eru þó ekki borin út til allra framteljenda, þar sem nálægt 60.000 af þeim sem töldu fram á vefnum í fyrra afþökkuðu að fá eyðublöð send heim. Um 82% framteljenda skiluðu framtali rafrænt á síðasta ári.