Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 79. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 79  —  79. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á útvarpslögum, nr. 53/2000, með síðari breytingum.

Flm.: Sigurður Kári Kristjánsson, Birgir Ármannsson, Guðlaugur Þór Þórðarson,
Bjarni Benediktsson, Drífa Hjartardóttir, Guðjón Hjörleifsson,
Einar Oddur Kristjánsson, Guðmundur Hallvarðsson, Sólveig Pétursdóttir,
Arnbjörg Sveinsdóttir, Pétur H. Blöndal, Gunnar Örlygsson.


1. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 8. gr. laganna orðast svo: Það á þó ekki við þegar fluttir eru erlendir söngtextar eða þegar dreift er viðstöðulaust um gervitungl og móttökustöð fréttum, fréttatengdu efni og íþróttaviðburðum sem sýna að verulegu leyti atburði sem gerast í sömu andrá.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var lagt fram á 131. löggjafarþingi (þskj. 770, 505. mál) en hlaut ekki afgreiðslu. Er það því endurflutt.
    Frumvarp þetta er lagt fram í tilefni af bókun útvarpsréttarnefndar í máli sem höfðað var árið 2004 fyrir nefndinni á hendur Íslenska sjónvarpsfélaginu hf., sem rekur sjónvarpsstöðina Skjá einn. Í málinu var því haldið fram að Íslenska sjónvarpsfélagið hf. hefði gerst brotlegt við ákvæði 1. mgr. 8. gr. útvarpslaga, nr. 53/2000, með því að senda út í beinni útsendingu frá knattspyrnuleikjum í ensku úrvalsdeildinni með lýsingu þula á ensku á sjónvarpsstöðinni Skjá einum.
    Við túlkun á inntaki 1. mgr. 8. gr. útvarpslaga komst útvarpsréttarnefnd að þeirri niðurstöðu að útsendingar Skjás eins á knattspyrnuleikjum í ensku úrvalsdeildinni með lýsingu á ensku samræmdist ekki því ákvæði útvarpslaga sem kveður á um að efni á erlendu máli, sem sýnt sé á sjónvarpsstöð, skuli jafnan fylgja íslenskt tal eða texti á íslensku. Segir í niðurstöðu útvarpsréttarnefndar að tilgangurinn að baki útvarpslögum sé sá að vernda og efla íslenska tungu og beri að hafa hliðsjón af því við skýringu á 1. mgr. 8. gr. útvarpslaga. Geti útsending á knattspyrnuleik í heild sinni í ensku úrvalsdeildinni hvorki talist frétt né fréttatengt efni heldur sé eingöngu um að ræða útsendingu frá erlendum íþróttaviðburði sem ekki sé undanþeginn skyldu útvarpslaga til að láta tal eða texta á íslensku fylgja með í útsendingunni.
    Í 1. mgr. 8. gr. núgildandi útvarpslaga kemur fram sú meginregla laganna að efni á erlendu máli, sem sýnt er á sjónvarpsstöð, skuli jafnan fylgja íslenskt tal eða texti á íslensku eftir því sem við á hverju sinni. Frá þeirri meginreglu er gerð sú undantekning í ákvæðinu að krafan um að íslenskt tal eða íslenskur texti fylgi slíku sjónvarpsefni skuli ekki eiga við þegar fluttir eru erlendir söngtextar eða þegar dreift er viðstöðulaust um gervitungl eða móttökustöð fréttum eða fréttatengdu efni sem sýnir að verulegu leyti atburði sem gerist í sömu andrá. Við slíkar aðstæður skuli sjónvarpsstöð, eftir því sem kostur er, láta fylgja endursögn eða kynningu á íslensku á þeim atburðum sem orðið hafa og skal við slíka endursögn lögð áhersla á að allt tal og texti sem fluttur er sé á lýtalausu íslensku máli. Í 2. mgr. 8. gr. segir síðan að kvöðin um íslenskt tal og textaskýringar eigi ekki við þegar sjónvarpsstöðvar endurvarpa sjónvarpsefni frá erlendum sjónvarpsstöðvum, enda sé um að ræða viðstöðulaust, óstytt og óbreytt endurvarp heildardagskrár sjónvarpsstöðva.
    Deila má um niðurstöðu útvarpsréttarnefndar í máli Íslenska sjónvarpsfélagsins hf. og þær forsendur sem að baki henni liggja. Halda má fram með góðum rökum að þeir atburðir sem áhorfendur verða vitni að í beinum útsendingum frá íþróttaviðburðum teljist til frétta eða fréttatengds efnis í skilningi ákvæðis 1. mgr. 8. gr. núgildandi útvarpslaga. Þeir atburðir eru og hafa á síðustu áratugum verið uppspretta umfangsmikils fréttaflutnings fjölmiðla um allan heim. Hið sama má segja um ýmsa viðburði á menningarsviðinu, s.s. þegar listamenn eru verðlaunaðir vegna afreka sinna. Á hinn bóginn má halda því fram að tilgangurinn sem býr að baki núgildandi útvarpslögum sé göfugur, þ.e. að vernda og efla íslenska tungu, en á þeirri röksemd byggist úrskurður nefndarinnar meðal annars. En hvort sem fallist er á þær röksemdir sem útvarpsréttarnefnd byggir niðurstöðu sína á eða ekki, er ljóst að ákvæði núgildandi útvarpslaga þjóna ekki tilgangi sínum enda heimila núgildandi lög dreifingu erlends sjónvarpsefnis án þess að slíkum útsendingum fylgi íslensk textun, íslensk lýsing, kynning eða endursögn á atburðum, svo lengi sem slík dreifing er viðstöðulaus og felur í sér óstytt og óbreytt endurvarp heildardagskrár erlendra sjónvarpsstöðva. Gerir núgildandi löggjöf því ráð fyrir að heimilt sé að dreifa ótextuðu erlendu sjónvarpsefni og án þess að íslenskt tal fylgi í heild, en ekki að hluta. Telja flutningsmenn frumvarpsins að slíkt fyrirkomulag leiði til mismununar og ójafnræðis milli þeirra aðila sem stunda sjónvarpsrekstur á Íslandi. Túlkun útvarpsréttarnefndar á inntaki 1. mgr. 8. gr. núgildandi útvarpslaga leiðir í framkvæmd til þeirrar niðurstöðu að tilteknum sjónvarpsstöðvum er heimilt á grundvelli núgildandi laga að senda út erlent sjónvarpsefni allan sólarhringinn, án þess að íslenskt tal eða texti fylgi útsendingunni, en öðrum er óheimilt að senda út 90 mínútna sjónvarpsefni án íslenskrar talsetningar eða textunar. Telja flutningsmenn frumvarpsins ljóst að slíka mismunun þurfi nauðsynlega að leiðrétta.
    Nú um stundir er mögulegt að ná útsendingum erlendra sjónvarpsstöðva á erlendu sjónvarpsefni, þar á meðal íþróttaviðburðum, á Íslandi í gegnum gervihnetti og annan móttökubúnað. Jafnframt er mögulegt að ná slíkum útsendingum með aðstoð tölvutækninnar í gegnum netið. Skyldur núgildandi útvarpslaga um íslenska textun og íslenska endursögn eða lýsingu ná ekki til slíkra útsendinga. Jafnframt standa íslensk sjónvarps- og fjarskiptafyrirtæki fyrir endurvarpi erlends sjónvarpsefnis hér á landi án þess að þurfa að uppfylla kröfur um íslenska lýsingu og textun. Þannig býður Landssími Íslands hf. viðskiptavinum sínum upp á endurvarp dagskrár erlendra sjónvarpsstöðva í gegnum Breiðband Símans, en þær eru m.a.:
          DR1,
          BBC Prime,
          Discovery Channel,
          Sky News,
          Cartoon Network,
          MTV,
          Eurosport.
Að sama skapi býður fyrirtækið 365 ljósvakamiðlar ehf. (áður Norðurljós hf.), sem m.a. rekur sjónvarpsstöðvarnar Stöð 2 og Sýn, viðskiptavinum sínum upp á endurvarp dagskrár 36 erlendra sjónvarpsstöðva í gegnum Digital Ísland, en þær eru:
Adventure One, Arsenal TV,
Animal Planet, Extra Music,
BBC Food, Extreme Sports,
BBC Prime, Jetix (áður Fox Kids),
Cartoon Network, Fox News,
Club TV, Hallmark,
CNBC, MGM Movie Channel
CNN International, Motor TV,
Discovery Channel, MTV,
DR1, National Geographic Channel,
DR2, Polsat,
E!, SVT1,
ESPN Classic, Private Blue,
Eurosport, Reality Channel,
Eurosport 2, Sky News,
Manchester United TV, TCM,
Chelsea TV, Travel Channel,
Liverpool TV, VH1.

    Með endurvarpi dagskrár þeirra sjónvarpsstöðva sem að framan er getið er ljóst að íslenskum sjónvarpsáhorfendum stendur til boða að fylgjast með erlendu dagskrárefni í stórum stíl, án þess að þeir aðilar sem standa að dreifingu slíks dagskrárefnis þurfi að uppfylla kröfur um að sjónvarpsefninu fylgi íslenskur texti eða íslensk lýsing. Gildir þá einu hvort um er að ræða erlent barnaefni, afþreyingarefni, fræðsluefni, fréttatengt efni, auglýsingar eða íþróttaefni hvers konar, sambærilegt því sem leiddi til niðurstöðu útvarpsréttarnefndar í máli sem tilkomið var vegna beinna útsendinga Skjás eins á knattspyrnuleikjum í ensku úrvalsdeildinni með lýsingu enskra þula.
    Tilgangur flutningsmanna þessa frumvarps er ekki sá að hefta endurvarp sjónvarpsefnis án íslenskrar textunar og lýsingar sem núgildandi útvarpslög heimila. Flutningsmenn frumvarpsins telja á hinn bóginn að markmiði laganna um að efla og vernda íslenska tungu stafi ekki meiri ógn af útsendingum erlendra viðburða á íslenskum sjónvarpsstöðvum án íslensks texta eða lýsingar heldur en af endurvarpi því sem þegar er heimilað. Telja flutningsmenn jafnframt óeðlilegt og andstætt jafnræðissjónarmiðum að banna endurvarp erlends sjónvarpsefnis án texta eða lýsingar, sé það einungis hluti af dagskrá þeirra sjónvarpsstöðvar sem að endurvarpinu stendur, þegar slíkt er heimilt ef endurvarpað er erlendu sjónvarpsefni í heild. Telja flutningsmenn nauðsynlegt að leiðrétta þá galla sem eru á núverandi útvarpslögum og er frumvarp þetta lagt fram með það að markmiði.
    Gert er ráð fyrir að verði frumvarpið að lögum taki lögin þegar gildi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Gert er ráð fyrir að 2. málsl. 1. mgr. 8. gr. útvarpslaga, nr. 53/2000, orðist svo: „Það á þó ekki við þegar fluttir eru erlendir söngtextar eða þegar dreift er viðstöðulaust um gervitungl og móttökustöð fréttum, fréttatengdu efni og íþróttaviðburðum sem sýna að verulegu leyti atburði sem gerast í sömu andrá.“
    Nýja ákvæðið er samhljóða núgildandi ákvæði að öðru leyti en því að gert er ráð fyrir að sú undantekning sem ákvæðið heimilar nái einnig til íþróttaviðburða sem sýna að verulegu leyti atburði sem gerast í sömu andrá. Helgast breytingin af nýlegri túlkun útvarpsréttar nefndar á inntaki ákvæðisins þar sem talið var að íþróttaviðburðir teldust ekki til frétta eða fréttatengds efnis. Með frumvarpinu er því lagt til að ákvæðið verði rýmkað þannig að undantekningarregla ákvæðisins nái jafnframt til slíkra viðburða. Eftir sem áður telja flutningsmenn frumvarpsins að innan undantekningarákvæðis greinarinnar rúmist sýningar frá menningarviðburðum ýmiss konar.

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.