Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 222. máls.

Þskj. 222  —  222. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)
1. gr.

    Á undan 11. gr. laganna kemur ný grein, 10. gr. a, svohljóðandi:
    Einkaréttur höfundar skv. 3. gr., sbr. 2. gr., gildir ekki um gerð eintaka sem
     1.      eru til skamms tíma eða tilfallandi,
     2.      eru órjúfanlegur og mikilvægur liður í tækniferli,
     3.      hafa þann tilgang einan að gera mögulega sendingu af hálfu milliliðar milli þriðju aðila um net eða löglega notkun á verki eða öðru efni og
     4.      hafa enga sjálfstæða fjárhagslega þýðingu.
    Ákvæði 1. mgr. gilda ekki um tölvuforrit og gagnagrunna.

2. gr.

    1. mgr. 11. gr. laganna orðast svo:
    Heimilt er einstaklingum að gera eintök af birtu verki til einkanota eingöngu, enda sé það ekki gert í fjárhagslegum tilgangi. Ekki má nota slík eintök í neinu öðru skyni.

3. gr.

    12. gr. laganna orðast svo:
    Setja má í reglugerð reglur um heimild skjalasafna, bókasafna, safna og menntastofnana til að gera eintök af verkum til notkunar í starfsemi sinni samkvæmt nánari skilgreiningu í reglugerðinni, enda sé það ekki gert í fjárhagslegum tilgangi. Ekki má án samþykkis höfundar lána slík eintök eða birta þau með öðrum hætti nema innan stofnunarinnar.

4. gr.

    Við 2. mgr. 14. gr. laganna bætist: enda sé ekki um fjárhagslegan tilgang að ræða.

5. gr.

    Við 1. málsl. 1. mgr. 17. gr. laganna bætist: enda sé ekki um fjárhagslegan tilgang að ræða.

6. gr.

    24. gr. laganna orðast svo:
    Nú hefur eintak af verki með samþykki höfundar verið selt eða með öðrum hætti framselt til annarra innan Evrópska efnahagssvæðisins, og er þá frekari dreifing þess heimil. Ef um er að ræða dreifingu í formi láns eða leigu verður ákvæði 1. málsl. einnig beitt um sölu eða annars konar framsal til annarra utan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er óheimilt að dreifa eintökum af verkum til almennings með því að leigja þau án þess að samþykki höfundar liggi fyrir. Þetta gildir þó ekki um byggingar og nytjalist.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er óheimilt án samþykkis höfundar að dreifa til almennings eintökum af kvikmyndaverkum og tölvuforritum í stafrænu formi með því að lána þau út. Þetta gildir þó ekki þegar eintak af tölvuforriti í stafrænu formi er hluti af bókmenntaverki og er lánað með því.
    Ákvæði 1. mgr. hefur ekki í för með sér skerðingu á rétti til úthlutunar samkvæmt lögum um Bókasafnssjóð höfunda.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 45. gr. laganna:
     a.      Síðasti málsliður 3. mgr. fellur brott.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Sama rétt og listflytjandi samkvæmt þessari grein hefur flytjandi þjóðmenningarlegs efnis.

8. gr.

    Síðari málsliður 2. mgr. 46. gr. laganna fellur brott.

9. gr.

    Við 1. mgr. 47. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Heimild til notkunar útgefins hljóðrits til flutnings í útvarpi eða annarrar opinberrar dreifingar listflutnings gildir ekki um þá miðlun hljóðrita sem í því felst að hljóðrit er gert aðgengilegt með þeim hætti að hver og einn geti fengið aðgang að því á þeim stað og á þeirri stundu sem hver og einn sjálfur kýs.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 48. gr. laganna:
     a.      4. tölul. 1. mgr. orðast svo: Eftirgerð á áður framkvæmdri upptöku útvarps hennar, sem og það að birta slíka upptöku.
     b.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Réttur útvarpsstöðva skv. 1. mgr. gildir uns liðin eru 50 ár frá næstu áramótum eftir fyrstu útsendingu.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 49. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Enn fremur er óheimilt að birta slíkar ljósmyndir án samþykkis rétthafa.
     b.      Í stað orðanna „25 ár“ í lokamálslið 1. mgr. kemur: 50 ár.

12. gr.


    Á eftir V. kafla laganna kemur nýr kafli, V. kafli A, Tæknilegar ráðstafanir o.fl., með fjórum nýjum greinum, svohljóðandi:

    a. (50. gr. a.)
    Óheimilt er að eiga viðskipti með eða hafa undir höndum í fjárhagslegum tilgangi tæki eða gögn sem hafa þann tilgang einan að auðvelda með ólöglegum hætti að fjarlægja eða komast fram hjá tæknilegum búnaði ætluðum til þess að koma í veg fyrir ólögmæta eftirgerð tölvuforrits.

    b. (50. gr. b.)
    Óheimilt er án samþykkis rétthafa að sniðganga tæknilegar ráðstafanir, sbr. 4. mgr.
    Óheimilt er að framleiða, flytja inn, dreifa, selja, leigja, auglýsa til sölu eða leigu eða eiga í viðskiptalegum tilgangi búnað, vörur eða íhluti sem
     1.      eru kynnt eða auglýst sem leið til að komast fram hjá tæknilegum ráðstöfunum,
     2.      hafa aðeins takmarkað fjárhagslegt gildi eða notkunarmöguleika nema sem leið til að komast fram hjá tæknilegum ráðstöfunum eða
     3.      eru fyrst og fremst hönnuð, framleidd, aðlöguð eða veitt í því skyni að gera kleift eða auðvelda að komast fram hjá tæknilegum ráðstöfunum.
    Ákvæði 2. mgr. gildir einnig um þjónustu.
    Með tæknilegum ráðstöfunum í 1. og 2. mgr. er átt við hvers konar skilvirkar tæknilegar ráðstafanir sem samkvæmt eðlilegri notkun eru ætlaðar til þess að vernda verk og annað efni verndað með lögum þessum.
    Ákvæði 1.–4. mgr. gilda ekki um vernd tölvuforrita.
    Ákvæði 1.–4. mgr. eru því ekki til fyrirstöðu að gerðar séu rannsóknir á dulritun.

    c. (50. gr. c.)
    Úrskurðarnefnd skv. 57. gr. getur samkvæmt kröfu notanda gert rétthafa, sem gripið hefur til skilvirkra tæknilegra ráðstafana skv. 1. mgr. 50. gr. b, að veita notanda aðgang að þeim úrræðum sem nauðsynleg eru til þess að hann geti nýtt sér ákvæðin í 12. gr., 2. mgr. 14. gr. og 1. mgr. 17. gr., að því er kennslu varðar, 1. tölul. 1. mgr. 21. gr., 1. og 2. mgr. 22. gr., 22. gr. a og 5. mgr. 23. gr. Hafi rétthafi ekki farið að fyrirmælunum innan fjögurra vikna frá ákvörðun nefndarinnar er notanda rétt, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 50. gr. b, að sniðganga hinar tæknilegu ráðstafanir. Ákvæðum þessarar málsgreinar verður aðeins beitt um þá notendur sem eiga löglegan aðgang að viðkomandi verki eða efni.
    Ákvæði 1. mgr. verður því aðeins beitt að rétthafi hafi ekki sjálfviljugur gert ráðstafanir, til að mynda samninga við aðra hlutaðeigandi aðila, sem tryggja að notandinn geti nýtt sér hin tilvitnuðu ákvæði í 1. mgr. hvað sem líður beitingu skilvirkra tæknilegra ráðstafana.
    Ákvæði 1. mgr. verður ekki beitt um verk og annað efni sem á grundvelli samnings er gert almenningi aðgengilegt á þann hátt að hver og einn geti haft aðgang að því á þeim stað og á þeirri stundu sem hann sjálfur kýs.

    d. (50. gr. d.)
    Óheimilt er án samþykkis rétthafa að
     1.      fjarlægja eða breyta rafrænum upplýsingum um réttindaumsýslu eða
     2.      dreifa eintökum, flytja inn í því skyni að dreifa eintökum eða miðla til almennings verkum og öðru efni þar sem rafrænar upplýsingar um réttindaumsýslu hafa verið fjarlægðar eða þeim breytt án samþykkis rétthafa.
    Ákvæði 1. mgr. verður því aðeins beitt að sá sem að gerningi stóð hafi vitað eða mátt vita að með gerningnum komi hann til leiðar, geri kleift, auðveldi eða leyni broti gegn rétti til verks eða annars efnis sem verndar nýtur samkvæmt lögum þessum.

13. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 54. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „1. mgr. 50. gr.“ í 5. tölul. 1. mgr. kemur: 50. gr. a, 50. gr. b, 50. gr. d.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr., sbr. 4. og 5. tölul. 2. mgr. 11. gr. og 1. mgr. 50. gr. b, varðar eftirtalin eintakagerð einstaklinga til einkanota ekki refsingu:
                  1.      eintakagerð eftir einstöku eintaki verndaðs tölvuforrits eða eintaki véllæsilegs gagnagrunns sem hefur verið gefinn út, seldur eða varanlega látinn af hendi með samþykki höfundar eða framleiðanda,
                  2.      eintakagerð sem fram fer andstætt 1. mgr. 50. gr. b.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 60. gr. laganna:
     a.      1. tölul. 1. mgr. orðast svo: Verka manna sem eru ríkisborgarar eða búsettir í landi innan Evrópska efnahagssvæðisins.
     b.      2. tölul. 1. mgr. fellur brott.
     c.      1. málsl. 2. mgr. orðast svo: Ákvæði 25. gr. b taka til verka manna sem eru ríkisborgarar eða búsettir í landi innan Evrópska efnahagssvæðisins.

15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 61. gr. laganna:
     a.      1. tölul. 1. mgr. orðast svo: Listflutnings manna sem eru ríkisborgarar eða búsettir í landi innan Evrópska efnahagssvæðisins.
     b.      1. málsl. 2. tölul. 1. mgr. orðast svo: Listflutnings annarra erlendra ríkisborgara og ríkisfangslausra manna sem hér segir.
     c.      2. mgr. orðast svo:
                  Ákvæði 46. gr. taka til myndrita og hljóðrita hvar og af hverjum sem þau hafa verið framleidd, en réttur til endurgjalds skv. 3. og 4. mgr. 11. gr. fylgir aðeins upptökum sem gerðar hafa verið í landi innan Evrópska efnahagssvæðisins eða í öðrum ríkjum sem veita íslenskum upptökum sams konar rétt.
     d.      3. mgr. orðast svo:
                  Ákvæði 47. gr. taka til:
                  1.      Hjóðritaðs listflutnings manna sem eru ríkisborgarar eða búsettir í landi innan Evrópska efnahagssvæðisins.
                  2.      Hljóðrita, svo og listflutnings þess er þau hafa að geyma, ef framleiðandi hljóðrits er ríkisborgari eða aðili búsettur í landi innan Evrópska efnahagssvæðisins.
     e.      Í stað orðanna „hér á landi“ í 1. og 2. tölul. 4. mgr. kemur: í landi innan Evrópska efnahagssvæðisins.

16. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Með lögum þessum eru leidd í lög ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/29/EB frá 22. maí 2001 um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Frumvarp til endurskoðunar á ákvæðum b- og c-liðar 12. gr. laga þessara (50. gr. b og 50. gr. c laganna) skal lagt fyrir Alþingi eigi síðar en á löggjafarþinginu 2006–2007.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið á vegum menntamálaráðuneytisins. Höfundaréttarnefnd, sem er menntamálaráðherra til ráðuneytis í höfundaréttarmálefnum skv. 58. gr. höfundalaga, hefur farið yfir drög að frumvarpinu og gert á því ýmsar breytingar. Er frumvarpið lagt fram á Alþingi eins og höfundaréttarnefnd leggur til að það verði samþykkt.
    Frumvarpið var upphaflega lagt fram á 131. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Er það er nú lagt fram að nýju í lítt breyttri mynd.
    Megintilefni frumvarps til breytinga á höfundalögum, nr. 73/1972, nú er setning tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/29/EB frá 22. maí 2001 um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu (hér eftir kölluð tilskipun um höfundarétt í upplýsingasamfélaginu eða tilskipunin (e. „InfoSoc“ Directive). Af hálfu menntamálaráðuneytisins og höfundaréttarnefndar er litið á frumvarp þetta sem fyrsta áfanga í heildarendurskoðun höfundalaga sem er orðin brýn vegna lagaþróunar á sviði höfundaréttar. Talið er að heildarendurskoðun höfundalaga muni taka allnokkurn tíma og því var ákveðið að draga þá þætti út úr endurskoðuninni er snúa að innleiðingu tilskipunarinnar og mæla fyrir þeim sérstaklega í frumvarpi þessu, enda bar EES/EFTA-ríkjunum að leiða tilskipunina í landslög fyrir 10. janúar 2005 eins og nánar greinir hér á eftir.
    Hugtakið upplýsingasamfélag er víðtækt og erfitt að skilgreina það nákvæmlega, en orðuð hefur þó verið sú skilgreining að upplýsingasamfélag sé samfélag þar sem þjónusta, samskipti og upplýsingar eru ráðandi þættir (Framtíðarsýn ríkisstjórnar Íslands um upplýsingasamfélagið, útg. af ríkisstjórn Íslands 1996). Tölvutækni, fjarskiptatækni og rafeindatækni eru áberandi þættir í upplýsingasamfélaginu.
    Með frumvarpinu er meðal annars ætlunin að breyta íslenskum lögum til samræmis við ákvæði tilskipunarinnar.
    Helstu atriði tilskipunarinnar, sem birt er sem fylgiskjal með frumvarpinu, eru þessi:
          Höfundum og rétthöfum svonefndra skyldra réttinda (listflytjendum, framleiðendum hljóðrita, kvikmyndaframleiðendum og útvarpsfyrirtækjum) skal tryggður einkaréttur til hvers konar eftirgerðar verka sinna og nánar tiltekins efnis. Skal einkarétturinn þannig ekki aðeins ná til áþreifanlegra eintaka, heldur einnig til dæmis til eintaka á stafrænu formi.
          Höfundum skal tryggður einkaréttur til hvers konar svokallaðrar „miðlunar verka sinna til almennings“ (e. communication to the public). Þessi réttur er skilgreindur svo að hann taki til allrar miðlunar til almennings sem er ekki staddur á þeim stað þar sem miðlunin fer fram. Undir þetta fellur meðal annars gagnvirk pöntunarþjónusta á netinu (e. on-demand service).
          Rétthöfum skyldra réttinda skal tryggður einkaréttur til þess að nánar tiltekið efni þeirra verði gert aðgengilegt almenningi með þeim hætti að hver og einn geti fengið aðgang að því á þeim stað og á þeirri stundu sem hann sjálfur kýs. Samkvæmt þessu geta til dæmis rétthafar hljóðrita og kvikmynda heimilað eða bannað miðlun efnis síns um netið og sett skilyrði fyrir notkun þess.
          Höfundum skal tryggður einkaréttur til dreifingar til almennings á verkum sínum með sölu eða á annan hátt.
          Í tilskipuninni er að finna tæmandi upptalningu á heimilum undantekningum og takmörkunum á einkaréttinum til eftirgerðar og/eða miðlunar til almennings, sem og á dreifingarréttinum. Aðeins eina þeirra er skylt að taka upp í landslög, en tuttugu þeirra eru valfrjálsar.
          Skylt er að kveða á um fullnægjandi lögvernd gegn því að farið sé fram hjá tæknilegum ráðstöfunum (e. technical protection measures – TPM) sem gerðar eru til þess að vernda verk og annað efni sem fellur undir höfundarétt og skyld réttindi, sem og lögvernd gegn því að rafrænar upplýsingar um réttindaumsýslu (e. digital rights management – DRM) séu fjarlægðar eða þeim breytt.
Nánari grein er gerð fyrir einstökum ákvæðum tilskipunarinnar síðar.
    Eins og yfirlitið að framan um efni tilskipunarinnar ber með sér tekur hún sérstaklega á þeim vandamálum sem hin stafræna tækni hefur í för með sér fyrir eigendur höfundaréttar og skyldra réttinda, fyrst og fremst að því er varðar tónlist og kvikmyndir og þá ekki síst vegna möguleika til dreifingar slíkra verka á netinu. Af þessum sökum er tilskipunin kennd við upplýsingasamfélagið, en allt eins mætti kenna hana við hina stafrænu tækni eins og gert var t.d. í Bandaríkjunum við innleiðingu svonefndra Internet-sáttmála Alþjóðahugverkastofnunarinnar (WIPO) með svonefndum „Digital Millennium Copyright Act“ lagabálki árið 1998. Þessi tækni gefur möguleika til svo fullkominnar afritunar verka og annars efnis á stafræna miðla, t.d. á geisladiska (CD-ROM/DVD-ROM), að afrit ná fullum gæðum frumrita. Með tilkomu netsins skapast ný tækifæri til víðtækrar dreifingar efnis sem nýtur höfundaréttarverndar. Í því felast hættur fyrir höfunda og útgefendur því unnt er að miðla útgefnum verkum á stafrænu formi á augabragði heimshorna á milli með slíkum gæðum að ekki verður greint á milli frumrita og afrita verkanna. Er sú hætta einkum fyrir hendi með svonefndum skráardeiliforritum og skráarsvæðum sem gefa notendum netsins og annarra netkerfa kost á að deila sín á milli afritum verndaðra verka um jafningjanet, samhliða vistun þeirra á opnum skráarmiðlurum án samþykkis rétthafa. Talið er að verk sem þannig er miðlað á milli aðila án heimildar rétthafa séu einkum tónlistar- og kvikmyndaverk, auk hugbúnaðar. Það gefur augaleið að sporna verður við því að hin nýja tækni, sem gagnast höfundum, öðrum rétthöfum og öllum almenningi með margvíslegum hætti, sé notuð til óheimillar hagnýtingar á efni sem nýtur höfundaréttarverndar. Hagsmunir rétthafanna eru að sjálfsögðu kveikjan að því að hamlað sé gegn óheimilli nýtingu verka þeirra og annars efnis því að vernd réttinda þeirra er forsenda fyrir skapandi vinnu þeirra og fjárfestingum í fyrirtækjum sem byggjast á höfundarétti. En þjóðhagslegir hagsmunir skipta einnig miklu máli. Í nútímaþjóðfélögum er framlag vöru og þjónustu, sem byggist á höfundarétti, til þjóðarframleiðslunnar mikið og fer sífellt vaxandi. Þannig sýndi finnsk rannsókn, sem gerð var fyrir nokkrum árum, að þetta framlag næmi að minnsta kosti 4% af vergri þjóðarframleiðslu Finna. Í Evrópusambandsríkjunum í heild er hlutfallið áætlað um 6%. Sem dæmi um þýðingu höfundaréttarefnis í bandarísku efnahagslífi má nefna að á árinu 2000 urðu útflutningstekjur Bandaríkjanna af hljóð- og myndefni hærri en tekjurnar af útflutningi flugvéla. Í nýlegri bók (Hagræn áhrif tónlistar eftir Ágúst Einarsson prófessor, útg. viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands 2004) kemur fram að framlag menningar til landsframleiðslu sé 4%, sem sé meira en öll veitustarfsemi og nær þrefalt meira en landbúnaður annars vegar og ál- og kísilframleiðsla hins vegar. Jafnframt kemur þar fram að 5.000 manns starfi við menningu hérlendis, sem sé álíka fjöldi og starfi í útgerð annars vegar og hótel- og veitingarrekstri hins vegar.
    Það er ekki eingöngu svo að hin nýja tækni feli í sér hættur fyrir hagsmuni rétthafanna. Þvert á móti skapar hún einnig möguleika fyrir þá til þess að vernda verk sín og annað efni gegn óheimilli notkun með tæknilegum ráðstöfunum, svo sem aðgangsstýringum að vefsvæðum og afritunarvörnum vegna efnis á geisladiskum. Notkun þess háttar tæknilegra ráðstafana er þegar orðin allútbreidd, og reiknað er með enn frekari notkun þeirra í framtíðinni. Um leið og tæknilegar ráðstafanir hafa þau jákvæðu áhrif að auðvelda vernd höfundaréttar geta þær haft þá skuggahlið að notendum sé gert erfitt um vik að hagnýta sér lögheimilaðar takmarkanir á réttindum höfunda og annarra rétthafa samkvæmt höfundarétti. Í þessu efni, eins og víðar í höfundaréttinum, þarf því að leita jafnvægis milli hagsmuna rétthafa og notenda.
    Með tilkomu netsins hefur höfundarétturinn orðið enn alþjóðlegri en áður, og hafa þó lengi verið í gildi alþjóðlegir samningar á sviði höfundaréttarins. Í desembermánuði 1996 í Genf samþykktu 120 þjóðir á ráðstefnu Alþjóðahugverkastofnunarinnar (World Intellectual Property Organization, WIPO) tvo samninga til þess að takast á við þau vandamál sem fylgja hinni nýju tækni, og eru þeir af þeim sökum í daglegu tali kallaðir Internet-samningar WIPO. Annars vegar er samningur um réttindi höfunda (WIPO Copyright Treaty, WCT) og hins vegar samningur um réttindi listflytjenda og framleiðenda hljóðrita (WIPO Performances and Phonograms Treaty, WPPT). Báðir samningarnir gengu í gildi á árinu 2002 (WCT 6. mars 2002 og WPPT 20. maí 2002) þar sem tilskilinn fjöldi ríkja (30) hafði þá fullgilt samningana. Með tilskipuninni um höfundarétt í upplýsingasamfélaginu gefa ESB-ríkin og EFTA-ríkin innan EES forskrift að samræmingu höfundaréttar síns til þess að mæta kröfum Internet-samninga WIPO. Þegar ríkin hafa leitt ákvæði tilskipunarinnar í lög sín geta þau fullgilt WIPO-samningana. Evrópusambandsríkin áttu að hafa lögleitt ákvæði tilskipunarinnar 22. desember 2002, en aðeins tvö ESB-ríkjanna náðu að standa við þá tímasetningu (Danmörk og Grikkland).
    Sameiginlega EES-nefndin samþykkti tilskipunina sem breytingu á XVII. viðauka EES- samningsins um hugverkaréttindi á fundi sínum 9. júlí 2004 og varð tilskipunin hluti af EES- samningnum 10. júlí 2004. Ástæðu fyrir drætti á upptöku tilskipunarinnar í EES-samninginn má rekja til afstöðu framkvæmdastjórnar ESB til bókunar, sem EES/EFTA-ríkin höfðu lagt til að tekin yrði upp sem viðauki við tilskipunina, þess efnis að EFTA-ríkin væru óbundin af reglu 2. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar um svæðisbundna tæmingu höfundaréttar. Lausn hefur nú fengist í framangreindri deilu sem stóð yfir um þriggja ára skeið og hefur sameiginlega EES-nefndin tiltekið sex mánaða frest til innleiðingar tilskipunarinnar sem reiknast frá 10. júlí 2004. Á síðasta þingi (131. löggjafarþingi) var samþykkt tillaga til þingsályktunar um staðfestingu framangreindrar ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 110/2004, um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn (438. mál, þskj. 1177). Tilgangurinn með samþykkt tillögunnar var að afla heimildar Alþingis fyrir ríkisstjórnina til að staðfesta breytingu á EES samningnum fyrir Íslands hönd og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/29 frá 22. maí 2001 um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu.
    Auk þess að laga EES-réttinn að ákvæðum WIPO-samninganna er tilskipuninni um höfundarétt í upplýsingasamfélaginu almennt ætlað að samræma frekar höfundarétt á EES-svæðinu til þess að misræmi í löggjöf ríkjanna hafi ekki skaðleg áhrif á starfsemi innri markaðarins. Frá árinu 1991 og fram til marsmánaðar 2005 hafa verið samþykktar átta tilskipanir til þess að samræma ákvæði höfundalaga innan ESB og EES, og er tilskipunin um höfundarétt í upplýsingasamfélaginu sú sjötta í röðinni og hin umfangsmesta. Hinar fyrri varða lögvernd fyrir tölvuforrit (91/250/EBE), leigu- og útlánsrétt (92/100/EBE), útsendingar um gervihnött og endurvarp um kapal (93/83/EBE), verndartíma höfundaréttar og skyldra réttinda (93/98/ EBE) og lögvernd gagnagrunna (96/9/EB). Allar þessar tilskipanir hafa verið lögleiddar hér á landi með breytingu á höfundalögum. Búið er að samþykkja tilskipanir númer sjö og átta í framangreindri röð, þ.e. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um rétt höfundar til þóknunar við endursölu frumgerðar listaverks 2001/84/EB og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um framfylgni hugverkaréttinda 2004/48/EB. Tilskipun 2001/84/EB var tekin upp í EES-samninginn 1. ágúst 2003. Frestur til lögleiðingar ákvæða þeirrar tilskipunar er til 1. janúar 2006 svo að ákveðið var að sleppa því við samningu þessa frumvarps að taka tillit til hennar. Frestur aðildarlanda EB til lögleiðingar tilskipunar 2004/48/EB er til 29. apríl 2006 en hún verður þó ekki tekin upp í EES-samninginn þar sem hún telst falla utan gildissviðs hans. Tilskipun 2001/84/EB mun leiða til breytinga á ákvæðum 25. gr. b í höfundalögunum þar sem mælt er fyrir um svonefnt fylgiréttargjald til höfunda listaverka (f. Droit de Suite) við endursölu á verkum þeirra í atvinnuskyni. Tilskipunin um höfundarétt í upplýsingasamfélaginu á ekki að hafa nein áhrif á þau efni sem eldri tilskipanirnar gilda um nema það sé sérstaklega ákveðið (2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar, sbr. 11. gr.).
    Þá er bætt við nokkrum ákvæðum um takmörkun á höfundaréttinum og önnur ákvæði þar að lútandi skerpt og skýrð.
    Aðrar breytingartillögur frumvarpsins eru fyrst og fremst til skýringar á einstökum ákvæðum laganna.
    Við undirbúning breytinganna á höfundalögum vegna ákvæða tilskipunarinnar um höfundarétt í upplýsingasamfélaginu og nokkur önnur atriði hafa þau ráðuneyti hjá Norðurlandaþjóðunum, sem með höfundaréttarmálefni fara, haft með sér samráð. Er löng hefð fyrir því að Norðurlandaþjóðirnar leitist við að hafa sem mest samræmi í höfundalöggjöf sinni. Við samningu frumvarpsins hefur sérstaklega verið höfð hliðsjón af ýmsum ákvæðum í frumvarpi Dana til breytinga á höfundalögum þeirra sem lagt var fram í danska þjóðþinginu 2. október 2002 og varð að lögum 11. desember sama ár.
    Tekið er fram að víða í frumvarpinu, þar sem einungis er talað um höfundarétt, er einnig átt við hin skyldu réttindi, sem að framan eru nefnd, þ.e. réttindi listflytjenda, hljóðritaframleiðenda o.s.frv. Með sama hætti er víðast þar sem talað er um höfunda einnig átt við listflytjendur o.s.frv.

II. Efni tilskipunarinnar um höfundarétt í upplýsingasamfélaginu.
     1. Einkaréttur til eftirgerðar. Rétturinn til eftirgerðar er þýðingarmestur af einkaréttindunum samkvæmt höfundarétti. Í einkaréttinum felst að öðrum en höfundum er óheimilt að gera eftirgerðir af verkum nema til komi samningar þar um eða sérstök lagafyrirmæli. Um hugtakið eftirgerð eru oft notuð önnur orð, svo sem eintak, afrit og eftirrit. Hugtakið eintak er sennilega oftast notað í íslensku höfundalögunum, en þar er það skilgreint sem eintakagerð þegar hugverk (bókmenntaverk eða listaverk) er tengt hlutum, einum eða fleiri (2. gr. laganna). Eintak er með öðrum orðum áþreifanlegt. Eftirgerð samkvæmt tilskipuninni er miklu víðtækara hugtak því að í 2. gr. hennar er rétthöfunum áskilinn einkaréttur „til að heimila eða banna, með beinum eða óbeinum hætt, tímabundna eða varanlega eftirgerð með hvaða hætti sem er og í hvaða formi sem er, í heild eða að hluta“. Nær einkarétturinn til eftirgerðar þannig ekki aðeins til þess að gera áþreifanleg eintök, heldur einnig til þess að gera óáþreifanlegar eftirgerðir, til dæmis til hvers konar stafrænna afrita sem verða til við vinnslu í tölvum og netkerfum, þar á meðal tímabundinna afrita sem ekki koma fyrir augu nokkurs manns.
    Einkarétturinn til eftirgerðar er veittur höfundum vegna verka þeirra, listflytjendum vegna upptakna á flutningi þeirra, framleiðendum hljóðrita vegna hljóðrita þeirra, framleiðendum frumupptakna kvikmynda vegna frumrita og afrita af kvikmyndum þeirra og útvarpsfyrirtækjum að því er varðar upptökur á útvarpi þeirra, hvort sem útsendingar eru um þráð eða þráðlaust, þ.m.t. útsendingar um kapal eða gervihnött.
    Nánar er fjallað um einkaréttinn til eftirgerðar samkvæmt tilskipuninni í niðurlagskafla frumvarpsins.
     2. Réttur til miðlunar verka til almennings og réttur til að gera annað efni aðgengilegt almenningi. Í 3. gr. tilskipunarinnar er mælt fyrir um einkarétt til miðlunar verka til almennings (e. „communication to the public“) og einkarétt til að gera annað efni aðgengilegt almenningi (e. „making available to the public“). Síðargreindi rétturinn er talinn vera hluti af hinum fyrrgreinda. Höfundum er veittur víðtækari rétturinn, en rétthöfum hinna skyldu réttinda hinn þrengri. Ástæðan er sú að í 8. gr. tilskipunarinnar um leigu- og útlánsrétt er mælt fyrir um einkarétt til miðlunar til almennings til handa listflytjendum og útvarpsfyrirtækjum, þó ekki eins víðtækan rétt og höfundum er veittur í 3. gr. þessarar tilskipunar.
    Í einkarétti höfunda til miðlunar verka sinna til almennings felst skv. 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar réttur höfunda „til að heimila eða banna hvers konar miðlun verka sinna til almennings, um þráð eða þráðlaust, þar með talið að gera verk sín aðgengileg almenningi með þeim hætti að hver og einn geti fengið aðgang að verkunum á þeim stað og á þeirri stund sem hann sjálfur kýs“. Í tilskipuninni (23. skýringargrein) er rétturinn til miðlunar til almennings skilgreindur nánar, en þar segir að þennan rétt beri að skilja á almennan hátt þannig að hann taki til allrar miðlunar til almennings sem er ekki staddur á þeim stað þar sem miðlunin fer fram. Þá segir að þessi réttur skuli ná yfir hvers kyns útsendingar eða endurvarp á verkum til almennings um þráð eða þráðlaust, þar á meðal útvarp (hljóðvarp og sjónvarp). Loks segir að þessi réttur skuli ekki ná yfir neinar aðrar aðgerðir. Ekki er fyllilega ljóst hversu víðtækur einkarétturinn til miðlunar til almennings er. Þó er skýrt að í ákvæðinu er gert ráð fyrir einhverri fjarlægð milli þess staðar þar sem miðlunin fer fram og þeirra sem á móti miðluninni taka („almennings, sem er ekki staddur á þeim stað, þar sem miðlunin fer fram“). Þannig nær ákvæðið til dæmis ekki til milliliðalauss flutnings á verkum höfunda frammi fyrir áhorfendum eða áheyrendum. Að því leyti nær einkaréttur höfunda til miðlunar verka til almennings skemmra en einkaréttur höfunda til birtingar verka sinna samkvæmt íslensku höfundalögunum, en verk telst meðal annars birt þegar það er með réttri heimild flutt eða sýnt opinberlega (3. mgr. 2. gr., sbr. 3. gr., höfundalaga).
    Einkaréttur til þess að gera annað efni en höfundaverk aðgengilegt almenningi er veittur rétthöfum hinna skyldu réttinda (listflytjendum o.s.frv.) með 2. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar. Þar er þessum rétthöfum áskilinn einkaréttur til þess að heimila eða banna að efni þeirra verði gert aðgengilegt almenningi, um þráð eða þráðlaust, með þeim hætti að hver og einn geti fengið aðgang að því á þeim stað og á þeirri stund sem hann sjálfur kýs. Í þessum rétti felst ákveðinn fjarlægðarþáttur eins og í miðlunarréttinum (sbr. 24. skýringargrein tilskipunarinnar). Það er skilyrði fyrir beitingu ákvæðisins að hið verndaða efni sé boðið almenningi til afnota á þann hátt að það sé í valdi hvers og eins að ákveða hvar og hvenær hann nálgast efnið. Með ákvæðinu er til dæmis verndaður einkaréttur hljóðritaframleiðenda og kvikmyndaframleiðenda til pöntunarþjónustu (e. „on-demand service“) á netinu með efni þeirra.
    Í miðlun verka til almennings og því að gera annað efni aðgengilegt almenningi felst ekki dreifing áþreifanlegra eintaka, heldur fellur hvort tveggja undir veitingu þjónustu.
    Um einkaréttinn til miðlunar verka til almennings og réttinn til að gera annað efni aðgengilegt samkvæmt tilskipuninni er nánar fjallað síðar.
     3. Dreifingarréttur. Tilskipunin áskilur höfundum einkarétt til þess að heimila eða banna hvers konar dreifingu til almennings á frumritum eða afritum verka þeirra með sölu eða á annan hátt (1. mgr. 4. gr.). Þetta ákvæði gildir eingöngu um höfunda, eins og berum orðum er fram tekið, en ekki um rétthafa skyldra réttinda, svo sem listflytjendur, hljóðritaframleiðendur, kvikmyndaframleiðendur og útvarpsfyrirtæki. Hinum síðargreindu er áskilinn einkaréttur til dreifingar á efni sínu í 9. gr. tilskipunarinnar um leigu- og útlánsrétt. Einnig hefur höfundum tölvuforrita og gagnagrunna verið tryggður einkaréttur til dreifingar á verkum sínum með fyrri tilskipunum (c-liður 4. gr. tölvuforritatilskipunar og c-liður 5. gr. gagnagrunnatilskipunar). Ákvæðið um einkarétt höfunda til dreifingar á verkum sínum í tilskipuninni um höfundarétt í upplýsingasamfélaginu hefur þá þýðingu fyrst og fremst að dreifingarréttur höfunda annarra tegunda verka, bókmenntaverka, tónverka o.s.frv., er samræmdur.
    Samkvæmt gildandi íslenskum höfundalögum má líta svo á að dreifingarréttur höfundar sé talinn vera hluti af einkarétti hans til birtingar á verki (3. gr., sbr. 2. mgr. 2. gr. höfundalaga).
    Í 2. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar er tekið fram að dreifingarréttur tæmist ekki innan bandalagsins (og EES) að því er varðar frumrit eða afrit verks nema rétthafi annist fyrstu sölu á viðkomandi eintaki eða annað framsal eignarréttar innan bandalagsins (EES) eða það sé gert með leyfi hans. Með þessu ákvæði er tekin upp svokölluð evrópsk tæmingarregla. Í tæmingu (e. „exhaustion“, d. „konsumption“) dreifingarréttar felst í reynd að réttur höfundar til þess að hamla dreifingu verka sinna á markaði fellur niður þegar búið er að selja fyrsta eintakið af verkinu, enda standi höfundur sjálfur að sölunni (eða annars konar framsali eignarréttarins) eða framsalið fari að minnsta kosti fram með samþykki hans. Þannig getur til dæmis bókarhöfundur ekki stöðvað frekari sölu bókar sinnar á markaði eftir að hún er á annað borð komin í sölu (þ.e. fyrsta eintakið selt) þó að hann hafi ráðið því hvort verk hans var yfirleitt sett á markað.
    Yfirleitt er litið svo á að tæming dreifingarréttarins sé alþjóðleg, nema annað sé sérstaklega ákveðið, þ.e. að ef verk er komið löglega í dreifingu einhvers staðar í heiminum geti höfundur ekki stöðvað frekari dreifingu. Svæðisbundin tæmingarregla, eins og hin evrópska tæmingarregla samkvæmt tilskipuninni, hefur það hins vegar í för með sér að höfundi er áskilinn réttur til þess að hamla dreifingu innan svæðisins (í þessu tilviki innan EES) nema fyrsta eintak þess hafi verið selt eða með öðrum hætti framselt innan svæðisins. Sem dæmi um beitingu hinnar evrópsku tæmingarreglu má nefna að höfundur, sem sett hefur eintök verks síns á markað í Bandaríkjunum, getur ákveðið að þeim eintökum megi ekki dreifa á EES-svæðinu.
    Í norrænum höfundarétti hefur til þessa verið byggt á reglunni um alþjóðlega tæmingu, en nú ber að taka upp evrópska tæmingarreglu. Það er ráðandi viðhorf innan Evrópusambandsins að alþjóðleg tæmingarregla í höfundaréttinum skuli vera háð gagnkvæmni í alþjóðlegum samningum eða alþjóðlegum sáttmálum. Í WIPO-samningunum var ákveðið að einstökum samningsaðilum skuli vera heimilt að ákveða hvaða skilyrði, ef einhver, gildi um tæmingu dreifingarréttarins (2. mgr. 6. gr. WCT og 2. mgr. 8. gr. WPPT).
    Sérstök ákvæði um tæmingu dreifingarréttar eru í tilskipunum um tölvuforrit (c-lið 4. gr.), gagnagrunna (c-lið 5. gr.) og leigu- og útlánsrétt (2. mgr. 9. gr.). Allnokkur ríki innan EES, þar á meðal Norðurlöndin, töldu lengi vel vafa leika á því að ákvæðin í tilskipununum um höfundarétt að tölvuforritum og gagnagrunnum kvæðu afdráttarlaust á um evrópska tæmingarreglu. Ríkisstjórnir Íslands, Liechtenstein og Noregs höfðu lýst yfir fyrirætlun sinni um að innleiða ekki evrópska tæmingarreglu við lögleiðingu tilskipunarinnar í höfundalög sín. Var sú fyrirætlun rökstudd með því að EES-samningurinn fæli ekki í sér tollabandalag EES/EFTA-ríkjanna og aðildarríkja ESB. Því bæri þeim ekki að fylgja eftir fyrirmælum 2. mgr. 4. gr. tilskipunar 2001/29/ EB. Enn fremur var talið að upptaka svæðisbundinnar tæmingar gæti takmarkað svigrúm EFTA til að gera fríverslunarsamninga við þriðju ríki þar sem innleiða þyrfti hömlur í slíka samninga um tollmeðferð vöru sem háð væri höfundarétti. Um framangreind atriði stóð um árabil deila á milli framkvæmdastjórnar ESB og EFTA þar sem framkvæmdastjórnin sætti sig ekki við upptöku tilskipunarinnar í EES-samninginn með fyrirvara um gildi 2. mgr. 4. gr. tilskipunar 2001/29/EB. Endi var hins vegar bundinn á þennan ágreining með samkomulagi aðila, dags. 14. júní 2004. Það samkomulag var svo staðfest með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 9. júlí 2004 um upptöku tilskipunarinnar í EES-samninginn, ásamt bókun um aðild EES/EFTA-ríkjanna að svonefndri tengslanefnd skv. 3. mgr. 12. gr. tilskipunarinnar.
    Samkvæmt tilskipuninni um höfundarétt í upplýsingasamfélaginu gildir tæming dreifingarréttarins aðeins um áþreifanleg eintök höfundaverks, en kemur ekki til álita þegar um þjónustu er að ræða og þá einkum beinlínuþjónustu (29. skýringargrein). Í samræmi við þetta er svo kveðið á í 3. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar að einkaréttindin til miðlunar til almennings (1. mgr. 3. gr.) og til þess að gera efni aðgengilegt almenningi (2. mgr. 3. gr.) tæmist ekki. Til dæmis felur afhending verks á stafrænu formi til notanda með rafrænum hætti ekki það í sér að einkaréttur höfundar til frekari dreifingar hins stafræna eintaks tæmist við hina rafrænu miðlun.
     4. Undantekningar og takmarkanir. Í tilskipuninni (5. gr.) eru ákvæði um þær takmarkanir sem höfundar og rétthafar skyldra réttinda þurfa að sæta eða geta þurft að sæta á þeim einkaréttindum sem þeim eru tryggð með tilskipuninni. Takmarkanirnar þjóna þeim megintilgangi að auðvelda notendum, í sérstökum tilvikum, aðgang að efni sem fellur undir vernd höfundaréttar.
    Í forsendum tilskipunarinnar er lögð á það áhersla að endurmeta þurfi gildandi undantekningar frá réttindum og takmarkanir á þeim með hliðsjón af hinu nýja rafræna umhverfi. Bent er á að sá munur sem er á undantekningum og takmörkunum í ríkjunum hafi bein, neikvæð áhrif á starfsemi innri markaðarins fyrir höfundarétt og skyld réttindi. Til þess að tryggja eðlilega starfsemi innri markaðarins beri að skilgreina slíkar undantekningar og takmarkanir á samræmdari hátt. En hversu langt skuli gengið í að samræma þær skuli miðast við áhrif þeirra á snurðulausa starfsemi innri markaðarins.
    Ekki tókst við gerð tilskipunarinnar nema að hluta til að samræma undantekningarnar frá einkaréttindunum. Einstök ríki reyndust fastheldin á þær undantekningar sem hjá þeim hafa tíðkast og fyrst og fremst eiga sér menningarleg rök og styðjast við lagahefðir. Samræmingin að því er lýtur að undantekningunum er því aðallega fólgin í tveimur atriðum. Í fyrsta lagi var tekin upp ein undantekning frá einkaréttindunum sem skylt er að gera (1. mgr. 5. gr.). Þessi undantekning heimilar, að uppfylltum tilteknum skilyrðum, tímabundnar og tilfallandi eftirgerðir, sem verða til í tækniferli, til dæmis við umferð gagna á netinu, og var nauðsynleg vegna þess að einkarétturinn til eftirgerðar í 2. gr. tilskipunarinnar var skilgreindur svo víðtækur að hann nær meðal annars til þess háttar eftirgerða. Í öðru lagi var sett í tilskipunina skrá um tuttugu valfrjálsar undantekningar á einkaréttinum til eftirgerðar og einkaréttinum til miðlunar til almennings (2. og 3. mgr. 5. gr., sbr. 4. mgr.). Þessi skrá er tæmandi. Undantekningar í landslögum, sem ekki falla undir þessa skrá, ber því að fella úr gildi eða breyta þeim. Ekki verða heldur teknar upp í landslög nýjar undantekningar nema þær rúmist innan heimilda skrárinnar. Þess mun ekki gerast þörf að fella alveg niður neinar undantekningarheimildir sem nú eru í höfundalögunum, en í ýmsum tilvikum þarf að laga undantekningar að skilyrðum sem áskilin eru í tilskipuninni.
    Valfrjálsu undantekningarnar eru margbreytilegar, til dæmis vegna fræðslu- eða vísindastarfsemi, í þágu opinberra stofnana, svo sem bóka- og skjalasafna, vegna fréttamennsku, vegna tilvitnana, til notkunar fyrir fatlað fólk, vegna almannaöryggis og vegna stjórnsýslumeðferðar eða málareksturs fyrir dómi (34. skýringargrein). Margar undantekninganna eru háðar því skilyrði að þeim sé ekki beitt í fjárhagslegum tilgangi, beint eða óbeint. Þetta á til dæmis við um afritun einstaklinga til einkanota (b-liður 2. mgr. 5. gr.), eftirgerðir almenningsbókasafna, menntastofnana o.fl. (c-liður 2. mgr. 5. gr.), upptökur félagslegra stofnana (svo sem sjúkrahúsa og fangelsa) á útvarpsefni (e-liður 2. mgr. 5. gr.) og notkun í þágu fatlaðra (b-liður 3. mgr. 5. gr.).
    Tilteknum undantekningum verður því aðeins beitt að rétthafar fái það sem kallað er sanngjarnar bætur eða sanngjarnt gjald (e. fair compensation). Þetta skilyrði gildir til dæmis um heimild einstaklinga til afritunar til einkanota (b-liður 2. mgr. 5. gr.) og upptökur félagslegra stofnana á útvarpsefni (e-liður 2. mgr. 5. gr.). Ekki eru í tilskipuninni sett bindandi fyrirmæli um það hvernig sanngjarnt gjald verði ákveðið. Er einstökum ríkjum því nokkuð í sjálfsvald sett með hvaða hætti þau haga gjaldinu til rétthafanna, en gjald þarf að koma fyrir og það þarf að vera sanngjarnt. Þó rúmast það innan hugtaksins að ekki sé um neina greiðsluskyldu að ræða ef tjón rétthafa af eftirgerð er metið óverulegt (35. skýringargrein), svo sem vegna ljósritunar einstaklinga til einkanota. Í tilskipuninni er kveðið á um það hvaða sjónarmið hafa beri í huga við ákvörðun sanngjarns gjalds fyrir tilteknar tegundir eftirgerðar á hljóðefni, myndefni og hljóð- og myndefni til einkanota (38. og 39. skýringargrein). Líta verður svo á að ákvæði íslensku höfundalaganna (3.–6. mgr. 11. gr. gildandi laga) um gjöld af auðum segulböndum o.fl. til upptöku á efni sem útvarpað hefur verið eða gefið hefur verið út á hljóðriti eða myndriti, fullnægi ákvæðum tilskipunarinnar í þessu efni.
    Fleiri en ein undantekningarheimild samkvæmt tilskipuninni getur átt við um tiltekna undantekningu í landslögum. Unnt er að víkja frá öllum valfrjálsu undantekningunum með samningum milli rétthafa og notenda.
    Þó að skránni í heimildarákvæðunum um undantekningar sé ætlað að vera tæmandi er þó fyrirvari á því gerður ef um er að ræða notkun í ákveðnum öðrum tilvikum sem hafa óverulega þýðingu og þar sem landslög kveða þegar á um undantekningar og takmarkanir, að því tilskildu að aðeins sé um að ræða hliðræna notkun og þetta hafi ekki áhrif á frjálsa dreifingu vara og þjónustu innan EES (o-liður 3. mgr. 5. gr.). Þetta ákvæði hefur ekki mikla þýðingu við endurskoðun á undantekningarákvæðum höfundalaganna. Þó verður að telja að það veiti svigrúm til þess að halda í lögum ákvæði laganna um heimild til prentunar söngtexta til afnota fyrir áheyrendur á opinberum hljómleikum (1. mgr. 20. gr.).
    Allar undantekningarnar frá þeim einkaréttindum sem tilskipunin áskilur rétthöfum eru háðar svokölluðu „þriggja þrepa skilyrði“ (d. „tre-trinstest“, e. „three-step test“). Hér er um að ræða almenna takmörkun á undantekningunum samkvæmt tilskipuninni (öllum undantekningum 1.–4. mgr. 5. gr.), ákvæði af því tagi sem í þýsku lagamáli er nefnt „schrankenschranke“ eða takmörkun á takmarkanir. Í reglunni felst að undantekningum og takmörkunum verður því aðeins beitt að þær fullnægi þremur skilyrðum: 1) að þær varði tiltekin sértilvik, 2) að þær stríði ekki gegn eðlilegri hagnýtingu verks eða annars efnis og 3) að þær skerði ekki með ósanngjörnum hætti lögmæta hagsmuni rétthafa (5. mgr. 5. gr.). Ber við mat á lögmæti tiltekinna undantekninga að mæla þær á mælikvarða þriggja þrepa skilyrðisins. Upphaf reglunnar er rakið til Bernarsáttmálans til verndar bókmenntum og listaverkum, en hana er að finna í 2. mgr. 9. gr. Parísargerðar hans frá 1971 sem Ísland er aðili að (sbr. lög nr. 80/1972). Regluna er einnig að finna í ýmsum öðrum alþjóðasamningum á sviði höfundaréttar, svo sem í WIPO-samningunum, WCT (1. mgr. 10. gr.) og WPPT (2. mgr. 16. gr) og í svokölluðum TRIPS-samningi (e. Trade Related Aspects of Intellectual Property Rights) (13. gr.) sem er einn af viðaukasamningum við svonefndan GATT-stofnsamning um Heimsviðskiptastofnunina (e. World Trade Organization – WTO) frá 1994.
    Samkvæmt skilgreiningu tilskipunarinnar teljast ákvæði í landslögum um svokölluð heildarleyfi (samningskvaðir) ekki undantekning frá einkaréttindum höfunda, heldur fyrirkomulag sem varðar umsýslu réttindanna (18. skýringargrein). Eru því ákvæði um heildarleyfi heimil, og koma þau til viðbótar undantekningunum til þess að auðvelda aðgang að verkum höfunda og öðru efni og tryggja rétthöfum endurgjald fyrir not af réttindum þeirra.
    Undantekningarheimildir tilskipunarinnar þykja ekki í sjálfu sér gefa tilefni til þess að teknar verði upp nýjar undantekningar í íslensku höfundalögin.
     5. Vernd tæknilegra ráðstafana. Hin stafræna tækni skapar rétthöfum möguleika á því að vernda verk sín og annað efni með tæknilegum ráðstöfunum, og er talið að notkun þess háttar ráðstafana eigi eftir að færast í vöxt á komandi árum. Með beitingu slíkra ráðstafana er ætlun rétthafa að koma í veg fyrir óheimil not af efni. Dæmi um tæknilega ráðstöfun er afritunarvörn á hljómdiskum og mynddiskum. Annars konar tæknileg ráðstöfun er til dæmis aðgangsstýring að efni á netinu, en allmikið er tíðkað að aðgangur að efni sé háður samningsskilmálum, meðal annars um greiðslu áskriftar, og ekki veittur öðrum en þeim sem hafa fengið úthlutað lykilorði.
    Óheimilt rof á tæknilegum verndarráðstöfunum og óheimil eftirgerð tæknilega verndaðs efnis hefur leitt til þess að óhjákvæmilegt er talið að veita tæknilegum ráðstöfunum rétthafa sérstaka vernd. Er þetta gert með 6. gr. tilskipunarinnar um höfundarétt í upplýsingasamfélaginu. Þar er sú skylda lögð á ríkin að þau kveði á um fullnægjandi lögvernd gegn því að farið sé fram hjá hvers konar skilvirkum tæknilegum ráðstöfunum, enda viti viðkomandi aðili eða hafi fulla ástæðu til að vita að hann stefnir að því marki (1. mgr. 6. gr.). Eins og sést á ákvæðinu er brot gegn því háð því huglæga skilyrði að sá sem sniðgengur skilvirka tæknilega ráðstöfun sé í vondri trú. Þannig er til dæmis ekki um brot að ræða ef fyrir liggur samþykki rétthafa fyrir rofi á afritunarvörn.
    Það er ekki aðeins sá verknaður að fara fram hjá skilvirkri tæknilegri ráðstöfun sem lýstur er ólögmætur. Tilteknar ráðstafanir til undirbúnings því að fara fram hjá þess háttar ráðstöfunum skulu einnig vera óheimilar. Þannig á að kveða á um fullnægjandi lögvernd gegn framleiðslu, innflutningi, dreifingu, sölu, leigu, auglýsingum um sölu eða leigu eða eign, í fjárhagslegum tilgangi, á tækjum, vörum eða íhlutum eða veitingu þjónustu: a) sem eru auglýst sem leið til þess að fara fram hjá ráðstöfununum, eða b) hafa aðeins takmarkað fjárhagslegt gildi eða notkunarmöguleika nema sem leið í þessu skyni, eða c) eru fyrst og fremst hönnuð, framleidd eða aðlöguð í því skyni að gera kleift eða auðveldara að fara fram hjá ráðstöfununum (sjá nánar 2. mgr. 6. gr.).
    Hugtakið „tæknilegar ráðstafanir“ er skilgreint mjög víðtækt, en það er hvers konar tækni, tæki eða íhlutur sem er hannaður með það fyrir augum að koma, við eðlilega notkun, í veg fyrir eða takmarka aðgerðir sem varða verk eða annað efni og hafa ekki fengið samþykki rétthafa (3. mgr. 6. gr.).
    Þrátt fyrir víðtæka skilgreiningu á því hvað teljast vera „tæknilegar ráðstafanir“ eru það þó ekki allar þess háttar ráðstafanir, sem verndar eiga að njóta. Það skilyrði er sett að ráðstafanirnar teljist vera „skilvirkar“ þannig að tæknilegar ráðstafanir, sem naumast eru nema til málamynda og auðvelt er að sniðganga, njóta ekki verndar. Í tilskipuninni er kveðið svo á að tæknilegar ráðstafanir teljist vera „skilvirkar“ ef rétthafa tekst að ná verndarmarkmiðinu með því að stýra notkun verndaðs verks eða annars efnis með aðgangsstjórn, verndaraðgerð, svo sem dulritun, brenglun eða annarri breytingu á verkinu eða öðru efni, eða með afritunarstjórn (3. mgr. 6. gr.). Getur það sjálfsagt orðið matsatriði í einstökum tilvikum hvort tæknileg ráðstöfun telst vera skilvirk eða ekki. Þá er tekið fram í tilskipuninni (48. skýringargrein) að við réttarvernd skilvirkra tæknilegra ráðstafana beri að virða meðalhófsregluna og ekki megi banna tæki eða starfsemi sem hafa annan fjárhagslega mikilvægan tilgang eða eru notuð til annars en að fara fram hjá hinni tæknilegu vernd, og einkum má þessi vernd ekki hindra rannsóknir á dulritun.
    Í skilgreiningunni á tæknilegum ráðstöfunum kemur fram að það eru ekki aðeins tæknilegar ráðstafanir höfunda og rétthafa hinna skyldu réttinda sem verndar eiga að njóta samkvæmt ákvæðinu, heldur einnig rétthafar svokallaðra sinnar tegundar (sui generis) gagnagrunna skv. III. kafla tilskipunar 96/9/EB. Þar er um að ræða gagnagrunna, sem ekki uppfylla skilyrði þess að geta talist höfundarverk (árangur andlegrar sköpunar, er beri vott um einstaklingsbundin höfundareinkenni), en svo mikil vinna eða fjármunir eru lagðir í að rétt þykir að láta þá njóta verndar samkvæmt höfundarétti.
    Ákvæðið gildir ekki um tæknilegar ráðstafanir til verndar tölvuforritum. Um þær ráðstafanir gildir tilskipun 91/250/EBE (c-liður 1. mgr. 7. gr).
    Við beitingu rétthafa á tæknilegum ráðstöfunum til verndar réttindum sínum kann að koma upp sú staða að notendur fái ekki hagnýtt þær undantekningar frá höfundaréttinum sem tilskipunin kveður á um. Hvort verður þá rétthærra, vernd skilvirkra tæknilegra ráðstafana eða notendaheimildirnar samkvæmt undantekningunum? Geta rétthafarnir með tæknilegum ráðstöfunum í reynd fellt undantekningarnar úr gildi? Eða eiga notendurnir að hafa úrræði til þess að nota undantekningarnar þrátt fyrir vernd hinna tæknilegu ráðstafana? Almennt er svo fyrir mælt í tilskipuninni að ríkin skuli hvetja til þess að rétthafar geri af sjálfsdáðum ráðstafanir til þess að unnt sé að ná markmiðunum með tilteknum undantekningum eða takmörkunum, þar á meðal gerð og framkvæmd samninga milli rétthafa og annarra hagsmunaaðila (51. og 52. skýringargrein). Í tilskipuninni (4. mgr. 6. gr.) er greint á milli undantekningarinnar vegna eftirgerðar einstaklinga til einkanota og annarra undantekninga þegar rétthafar hafa ekki af sjálfsdáðum gert ráðstafanir til þess að gera notkun undantekningar mögulega.
    Ljóst er að sú lögvernd skilvirkra tæknilegra ráðstafana sem ákvæðum frumvarpsins er ætlað að tryggja tekur eingöngu til þeirra atriða er falla undir einkaréttindi höfunda og annarra rétthafa. Ákvæðum frumvarpsins um vernd tæknilegra ráðstafana er með öðrum orðum ekki ætlað að vernda ýmsar ráðstafanir útgefenda hljóð- og myndrita til að skipta heiminum upp í tiltekin markaðssvæði eða stjórna því að endurmiðlun slíkra verka geti aðeins fram farið í tölvum með stýrikerfi af tiltekinni gerð. Þvert á móti nær lögvernd tæknilegra ráðstafana er tengjast áþreifanlegum eintökum hljóð- og myndrita eingöngu til þess að varna óheimilli eftirgerð þeirra. Hafi eigandi hljóð- eða myndrits eignast það með lögmætum hætti og tæknilegar ráðstafanir varna honum að nýta það vegna framangreindra atriða telst vera um óheimila aðgangsstýringu að ræða sem ekki nýtur verndar að höfundarétti. Við slíkar aðstæður kann eigandanum, að uppfylltum tilteknum skilyrðum, að vera heimilt að sniðganga hinar tæknilegu ráðstafanir. Ef útgefendur hljóð- og myndrita beita tæknilegri ráðstöfun bæði til þess að varna afritun verka sinna og stjórna notkun þeirra í afspilunartækjum sem læst eru inn á ákveðin markaðssvæði eða í tölvum með tiltekið stýrikerfi eiga þeir á hættu að missa lögvernd hinna tæknilegu ráðstafana að því er varðar afritunarvörn verkanna. Af þessu er ljóst að útgefendur hljóð- og myndrita verða að beita skilvirkum tæknilegum ráðstöfunum af skynsemi og jafnframt leitast við að tryggja að réttir eigendur lögmætra hljóð- og myndrita geti notið þeirra án tillits til gerðar afspilunarbúnaðar.
    Þrátt fyrir vernd skilvirkra tæknilegra ráðstafana skv. 1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar – og hafi rétthafar ekki gert ráðstafanir af sjálfsdáðum – skulu ríkin gera nauðsynlegar eða viðeigandi ráðstafanir (e. „appropriate measures“) til þess að tryggja að rétthafar gefi þeim sem eiga rétt á undantekningu eða takmörkun kost á að nýta hana, enda sé um að ræða eftirgreindar undantekningar og þær séu teknar upp í landslög: ljósritun; eftirgerðir almenningsbókasafna, menntastofnana o.fl.; bráðabirgðaupptökur útvarpsstöðva; eftirgerðir félagslegra stofnana á útvarpssendingum; notkun til skýringar við kennslu eða við vísindarannsóknir; notkun í þágu fatlaðra; notkun vegna almannaöryggis eða til að tryggja rétta framkvæmd eða skýrslugjöf varðandi málsmeðferð í stjórnsýslu, fyrir þingi eða fyrir dómstólum (sjá nánar 1. málsl. 4. mgr. 6. gr., sbr. a-, c-, d- eða e-lið 2. mgr. 5. gr. eða a-, b- eða e-lið 3. mgr. 5. gr.). Skilyrði er að sá sem nýtir undantekninguna hafi löglegan aðgang að viðkomandi verki eða efni.
    Ekki er það skýrt til hlítar í tilskipuninni hvað átt er við með „nauðsynlegum ráðstöfunum“, en fram kemur að ríki getur meðal annars gengist fyrir því að tæknilegri ráðstöfun sé breytt (51. skýringargrein). Hins vegar er þeim sem heimild hafa til þess að nýta hinar tilteknu undantekningar ekki rétt að rjúfa sjálfir tæknilegar varnir.
    Að því er varðar undantekninguna um eftirgerð einstaklinga vegna einkanota (b-liður 2. mgr. 5. gr.) er hún ekki eins sterk samkvæmt tilskipuninni og framangreindar undantekningar sem bera meiri keim af sjónarmiðum um almannaþörf, svo sem þarfir bókasafna, menntastofnana o.s.frv. Ríkjunum er heimilt að gera ráðstafanir til þess að undantekningin vegna einkanota verði nýtt ef rétthafar gera ekki slíkar ráðstafanir af sjálfsdáðum, en ríkjunum er það ekki skylt. Þó að ríki ákveði að gera ráðstafanir til þess að undantekningin verði nýtt útilokar það ekki að rétthafar geti til dæmis notað afritunarvörn er takmarkar fjölda afrita til einkanota (sjá nánar 2. málsl. 4. mgr. 6. gr. og 52. skýringargrein).
    Sérstaklega er tekið fram í tilskipuninni að heimildirnar til rofs á tæknilegum ráðstöfunum gildi ekki um svokallaða gagnvirka pöntunarþjónustu (4. málsl. 4. mgr. 6. gr. og 53. skýringargrein). Hér er til dæmis átt við margs konar gagnvirka þjónustu á netinu sem í té er látin samkvæmt samningsskilmálum þess sem þjónustuna veitir og notandi verður að samþykkja til þess að fá aðgang að þjónustunni. Meginreglan er sú að samningsákvæði hefur forgang fyrir lögheimilaðri undantekningu frá höfundaréttinum, nema annað sé sérstaklega tekið fram. Stundum koma upp álitamál um það hvort samningar, sem gerðir eru á grundvelli slíkra einhliða samningsskilmála, teljast vera bindandi samningar, en um það fer eftir reglum samningaréttar hverju sinni.
    Ákvæðum 6. gr. tilskipunarinnar um vernd tæknilegra ráðstafana er ætlað að útfæra í EES-réttinum ákvæði WIPO-samninganna um sama efni (11. gr. WCT og 18. gr. WPPT).
     6. Vernd upplýsinga um réttindaumsýslu. Í 7. gr. tilskipunarinnar um höfundarétt í upplýsingasamfélaginu eru verndaðar rafrænar upplýsingar um réttindaumsýslu sem höfundar og aðrir rétthafar, sem ákvæðið verndar, setja á verk sín og annað efni. Með upplýsingum um réttindaumsýslu er átt við upplýsingar sem rétthafar veita og sem auðkenna verk eða annað efni og auðkenna höfundinn eða aðra rétthafa eða upplýsingar um skilyrði og skilmála fyrir notkun verka eða annars efnis og um allar tölur og kóta sem tákna slíkar upplýsingar og geta verið hluti af lýsigögnum (e. metadata) verksins. Verndin tekur til þeirra verka og annars efnis sem tilskipunin á við eða falla undir sinnar tegundar rétt skv. III. kafla gagnagrunnatilskipunarinnar 96/9/EB (sjá nánar 2. mgr. 7. gr).
    Æskilegt þykir að rétthafar setji rafrænar upplýsingar um réttindaumsýslu (e. „rights- management information“) á efni sitt. Slíkar upplýsingar eru hluti af ráðstöfunum rétthafa til að varna ólömætum aðgangi að verkum og efni sem nýtur verndar samkvæmt höfundalögum og varna ólögmætri eftirgerð þess, jafnframt sem þær eru til þess fallnar að greiða fyrir samningum um afnot og eins til þess að fylgjast með notkun efnis (sjá til dæmis 55. skýringargrein).
    Af þessum sökum er sú skylda lögð á ríkin að þau kveði á um fullnægjandi lögvernd gegn hverjum þeim sem vitandi vits og án heimildar, fjarlægir eða breytir rafrænum upplýsingum um réttindaumsýslu – eða dreifir, flytur inn til dreifingar, útvarpar, miðlar eða gerir aðgengilegt almenningi verk eða annað efni, sem verndar nýtur, þar sem rafrænar upplýsingar um réttindaumsýslu hafa verið fjarlægðar eða þeim breytt án heimildar (sbr. nánari skilyrði í 1. mgr. 7. gr.).
    Ákvæðum 7. gr. tilskipunarinnar um vernd upplýsinga um réttindaumsýslu er ætlað að útfæra í EES-réttinum ákvæði WIPO-samninganna um sama efni (12. gr. WCT og 19. gr. WPPT).

III. Aðrar helstu breytingar.
    Hér undir falla nokkrar breytingar á ákvæðum laganna um skilyrði réttarverndar varðandi útgáfu verka og listflutnings hér á landi og atriði sem ráða því hvort verk njóta vernda eða eigi (tengslaskilyrði).

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


     Ákvæði tilskipunarinnar – skammvinnar, tilfallandi eftirgerðir sem eru liður í tæknilegum ferli.
    Í 1. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar kemur fram að tímabundnar aðgerðir til eftirgerðar, sem um getur í 2. gr. tilskipunarinnar, sem séu til skamms tíma eða tilfallandi og séu órjúfanlegur og mikilvægur liður í tækniferli í þeim tilgangi einum að gera mögulega: a) sendingu af hálfu milliliðar í neti milli þriðju aðila, eða, b) löglega notkun á verki eða öðru efni en hafi ekkert sjálfstætt efnahagslegt vægi, skuli undanþegnar réttinum til eftirgerðar sem kveðið sé á um í 2. gr. tilskipunarinnar.
    Í 33. skýringargrein tilskipunarinnar segir að einkaréttur til eintakagerðar sé háður undanþágu sem heimili tilteknar tímabundnar aðgerðir til eftirgerðar sem eru til skamms tíma eða tilfallandi og eru órjúfanlegar og mikilvægur liður í tækniferli og eiga sér stað einungis í þeim tilgangi að gera mögulega annaðhvort skilvirka útsendingu af hálfu milliliðs í neti á milli þriðju aðila eða löglega notkun verks eða annars efnis. Tekið er fram að sjálfar aðgerðirnar skuli ekki hafa sjálfstætt efnahagslegt gildi. Svo fremi að aðgerðir til eftirgerðar uppfylli þessi skilyrði skuli undanþágan taka til aðgerða sem gera það kleift að vafra á vefnum og skyndivista, þar á meðal aðgerðir til að tryggja að útsendingarkerfi starfi á skilvirkan hátt, að því tilskildu að milliliðurinn breyti ekki upplýsingum og grípi ekki inn í löglega notkun tækni, sem sé viðurkennd og notuð í atvinnugreininni, í þeim tilgangi að afla sér gagna um notkun upplýsinganna. Notkun telst lögleg ef hún er heimiluð af rétthafa eða ekki takmörkuð með lögum.
     Um 1. mgr.
    Ákvæði 1. mgr. 1. gr. felur í sér innleiðingu á 1. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar sem er eina skyldubundna takmörkun tilskipunarinnar gagnvart einkarétti höfundar. Ákvæðið undanþiggur frá einkarétti höfunda til eftirgerðar skv. 3. gr. laganna þá eintakagerð sem er tæknilega óhjákvæmileg vegna miðlunar verka í tölvum, netkerfum og gagnasamskiptum um netið. Þegar verki er miðlað á netinu deilist það upp í eins konar pakka, sem hver um sig getur getur farið frá sendanda til viðtakanda eftir mismunandi fjarskiptaleiðum, í gegnum vefþjóna sem geta verið staðsettir á ólíkum stöðum í heiminum. Á áfangastað hjá þjónustuveitanda viðtakanda er framangreindum pökkum raðað saman að nýju í upprunalega mynd verksins eins og það fór frá sendanda. Á hverjum vefþjóni á framangreindri leið verður til afrit vegna skyndivistunar (e. caching) af þeim pökkum sem þar fóru í gegn. Eftirgerðir verka sem þannig verða til eru í eðli sínu skammlífar eða tilfallandi og hafa þann eina tilgang að greiða fyrir miðlun verkanna í netkerfi á milli þriðju aðila fyrir atbeina milliliðs, þ.e. fjarskiptafyrirtækis og þjónustuveitanda, eða fela í sér lögmæt afnot verks sem hafa ekki sjálfstætt fjárhagslegt gildi.
    Í ljósi 3. gr. höfundalaga og með tilliti til 2. gr. tilskipunarinnar verður talið að eintök sem eru til skamms tíma og tilfallandi og aðrar gerðir tímabundinnar afritunar falli undir einkarétt höfundar til eftirgerðar. Víðtæk skilgreining á einkarétti höfunda til eintakagerðar kallar á innleiðingu undantekningar varðandi ýmsa tilfallandi og tímabundna eintakagerð, þ.m.t. sjálfvirka afritun sem verður í tölvum vegna notkunar vafra á netinu (e. temporary internet folders; cache) sem hefur í sjálfu sér litla þýðingu fyrir rétthafana. Undantekning 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins leiðir því til þess að framangreind eintakagerð verður heimil þrátt fyrir víðtækan einkarétt höfunda til eintakagerðar.
    Ákvæðið veitir eingöngu heimild til gerðar eftirrita sem eru til skamms tíma eða tilfallandi og felur ekki í sér heimild til annarrar eintakagerðar til bráðabirgða. Ekki er gerður áskilnaður um að frumeintakið hafi sætt opinberri birtingu en að jafnaði má ganga út frá þeirri forsendu að svo sé þar sem um er að ræða notkun verka á netinu.
    Í svonefndri tilskipun um „rafræn viðskipti“, þ.e. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/31/EB frá 8. júní 2000 um tiltekna lagalega þætti þjónustu, einkum rafrænna viðskipta, í tengslum við upplýsingasamfélagið á innri markaðinum, felast ýmis úrræði sem ætlað er að varna höfundaréttarbrotum í tengslum við rafræna þjónustu. Í 50. skýringargrein með tilskipuninni um „rafræn viðskipti“ er lögð á það áhersla að tilskipanir um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu annars vegar og framangreind tilskipun um „rafræna þjónustu“ öðlist gildi á svipuðum tíma svo unnt verði að setja skýran ramma reglna um ábyrgð milliliða með tilliti til brota á sviði höfundarréttar og réttinda sem tengjast honum.
    Gera verður þann fyrirvara við undantekningarreglu 3. tölul. 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins að hún tekur ekki til eintakagerðar vegna miðlunar ólögmætra eintaka á netinu. Slík miðlun er hins vegar andstæð einkarétti höfunda og rétthafa til opinbers flutnings. Slík höfundaréttarbrot varða refsingu skv. 1. tölul. 1. mgr. 54. gr. höfundalaga og kunna að gefa rétthafa kost á beitingu réttarúrræða eins og lögbanns eða stöðvunartilkynningu til þjónustuveitanda skv. 15. gr. laga um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, nr. 30/2002, sbr. 3. mgr. 8. gr. tilskipunarinnar um „rafræn viðskipti“ og 59. skýringargrein þeirrar tilskipunar.
    Ákvæðið veitir heimild til gerðar skammvinnra eða tilfallandi eintaka sem eru órjúfanlegur og mikilvægur liður í tækniferli í þeim tveimur tilvikum sem tiltekin eru í 3. tölul. 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Í fyrra tilvikinu er um að ræða rekstraraðila gagnaflutningsneta og þjónustuveitendur á netinu. Eðlilegt þykir að þessir aðilar beri ekki ábyrgð á því efni sem miðlað er um netkerfi þeirra þegar þeir gegna eingöngu hlutverki milliðar. Þau eintök sem verða til þegar efni háð höfundarétti er flutt í gegnum netkerfi, sem rekstraraðili leggur til, eru undanþegin einkarétti höfunda til eintakagerðar eins og að ofan greinir. Þetta á jafnframt við um þau eintök sem verða til vegna varðveislu þjónustuveitanda á afritum heimasíðna með skyndivistun á netþjóni (e. proxy caching) sem hefur þann eina tilgang að auka hraða og virkni við miðlun á vinsælum heimasíðum sem eru þannig sóttar beint á vefþjón þjónustuveitanda innan lands en ekki alla leið til upphaflegs erlends efnisveitanda.
    Með hliðsjón af skýringargrein nr. 33 við tilskipunina er framangreind undantekning háð því skilyrði að milliliðurinn breyti ekki upplýsingunum og grípi ekki inn í lögmætt tækniferli í þeim tilgangi að afla sér vitneskju um notkun upplýsinganna. Um nánari skýringu þessa fyrirvara vísast til 12. gr. tilskipunar EB um rafræn viðskipti sem hefur verið innleidd með 13. gr. laga um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu.
    Í síðara tilvikinu sem um ræðir í 3. tölul. 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins er um að ræða löglega notkun hins endanlega notanda. Undir það fellur notkun stafrænna verka í tölvum. Þegar slíkt verk er framkallað eða því endurmiðlað í tölvu verða sjálfkrafa til nokkur bráðabirgðaeintök í vinnsluminni eða skyndiminni tölvunnar. Ákvæðið felur í sér að endurmiðlun verka á stafrænum miðlum eins og hljómdiskum og mynddiskum, auk notkunar vafra og þess háttar, getur farið fram án þess að leita þurfi samþykkis rétthafanna til að framkalla þau skammvinnu og tilfallandi eintök sem verða til við notkunina. Engu að síður er áskilið að um lögmæta notkun sé að ræða í þeim skilningi að rétthafar hafi heimilað notkun verks eða að engar takmarkanir fylgi notkun þess, sbr. skýringargrein nr. 33.
    Samþykki rétthafa getur bæði falist í beinu samþykki og ætluðu samþykki. Um beint samþykki er að ræða þegar rétthafi tilgreinir samþykki fyrir notkun í einhliða skilmálum sem fram koma með verkinu, samningi milli rétthafa og notanda, sem notandi verður að staðfesta áður en veittur er aðgangur að efninu eða þegar skilmálum er komið á framfæri við notanda með öðrum sambærilegum hætti. Um óbeint eða ætlað samþykki telst vera að ræða þegar ekkert er tekið fram um heimildir notenda en veittur kostur á því að endurmiðla efni á tölvu notanda eða gera eintak í þágu notanda, t.d. með útprentun, niðurfærslu efnis á tölvu notanda eða með því að óska eftir að rétthafi miðli efninu með tölvupósti til einhvers netfangs sem notandi tilgreinir.
    Notanda er rétt að líta svo á að notkun verks sé ekki háð lagalegum takmörkunum ef notkun þess fellur algerlega utan einkaréttarákvæða höfundalaga (höfundaréttarvernd er t.d. útrunnin) eða ef notkunin fellur undir einhverja af undantekningarreglunum.
    Sú athöfn að vafra um netið er varðar í sjálfu sér ekki höfundaréttindi, að svo miklu leyti sem notandi brýtur ekki á einkarétti höfundar. Slík athöfn er því ekki háð lagalegum takmörkunum.
    Heimild til eintakagerðar skv. 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins er ávallt háð því að eftirgerðin hafi ekki neina sjálfstæða fjárhagslega þýðingu, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 1. gr. Skýra ber ákvæðið til samræmis við hið svonefnda þriggja þrepa skilyrði, sem skýrt er í almennum athugasemdum hér að framan, sbr. 5. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar, en í því felst að undantekningar frá einkarétti höfundar mega m.a. ekki skerða með ósanngjörnum hætti lögmæta hagsmuni rétthafa. Skilyrðin í 1.–4. tölul. 1. mgr. 1. gr. eru samverkandi. Árétta ber að hluti af þeirri afritun sem heimiluð er í 1. mgr. 1. gr. fellur þegar innan heimillar eintakagerðar til einkanota skv. 11. gr. laganna.
    Ákvæði 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins tekur til allra gerða af verkum höfunda, að undanskildum tölvuforritum og gagngrunnum, sbr. 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Vegna vísunar í V. kafla höfundalaganna til ákvæða II. kafla höfundalaganna munu ákvæði 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins einnig taka til réttinda flytjenda, framleiðenda hljóð- og myndrita og annarra.
     Um 2. mgr.
    Ákvæði 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins fela í sér að undantekningarákvæði 1. mgr. 1. gr. um skammvinna eintakagerð taka ekki til tölvuforrita og gagnagrunna. Ástæða þessa er sú að um réttarstöðu þessara verka hefur áður verið mælt fyrir í tveimur tilskipunum EB; tilskipun um höfundarétt að tölvuforritum frá 1991 og tilskipun um lögvernd gagnagrunna frá 1996, og að ekki var talin ástæða til að breyta ákvæðum fyrrgreindra tilskipana með tilskipuninni um höfundarétt í upplýsingasamfélaginu, sbr. 2. mgr. 1. gr. þeirrar tilskipunar. Þegar eru í gildi ákvæði í 1. og 2. mgr. 11. gr. a í gildandi lögum sem heimila gerð afrita sem eru tæknilega nauðsynleg vegna löglegrar notkunar tölvuforrita og gagnagrunna. Fyrrgreind ákvæði ná yfir stóran hluta þeirra athafna sem heimilaðar eru fyrir önnur verk skv. 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Jafnframt ber að líta til þess að ákvæði 13. og 14. gr. laga um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, sem byggist á tilskipun EB um rafræn viðskipti, fela í sér að þjónustuveitendur á netinu bera, með vissum skilyrðum, ekki ábyrgð á sjálfvirkri, millistigs- og skammtímageymslu upplýsinga. Undanþága þessara aðila frá ábyrgð hefur hagnýta þýðingu að svo miklu leyti sem viðkomandi athöfn getur talist vera brot á höfundarétti, þ.m.t. eintakagerð án heimildar höfundar. Þrátt fyrir að skyndivistun (e. proxy caching) þjónustuveitanda kynni að vera óheimil skv. 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins að svo miklu leyti sem hún fæli í sér afritun gagnagrunna bæri þjónustuveitandinn ekki ábyrgð á grundvelli fyrrgreindra ákvæða laga um rafræn viðskipti o.fl. Að teknu tilliti til þessa má draga þá álykun að gerð skammvinnra eintaka tölvuforrita og gagnagrunna lúti svipuðum lögmálum og gilda fyrir verk skv. 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins, að svo miklu leyti sem hún er nauðsynlegur hluti af tæknilegu ferli.

Um 2. gr.


    Hér er lögð til breyting á 1. mgr. 11. gr. laganna sem miða að því að settar verði skýrar reglur um heimild einstaklinga til eintakagerðar eftir birtum verkum til einkanota eingöngu.
    Ákvæði tilskipunarinnar – heimild einstaklinga til eftirgerðar.
    Skv. b-lið 2. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar geta aðildarríkin kveðið á um undanþágur eða takmarkanir á réttinum til eftirgerðar sem mælt er fyrir um í 2. gr. tilskipunarinnar þegar um er að ræða eftirgerðir einstaklinga með hvers konar miðli til einkanota og í tilgangi sem er ekki viðskiptalegs eðlis, hvorki beint né óbeint, með því skilyrði að rétthafar fái sanngjarnar bætur þar sem tekið sé mið af því hvort þeim tæknilegu ráðstöfunum, sem um getur í 6. gr. tilskipunarinnar, hafi verið beitt vegna viðkomandi verks eða efnis eða ekki.
    Í 35. skýringargrein við tilskipunina er áréttaður fyrirvari um að tryggja beri rétthöfum sanngjarnar og fullnægjandi bætur, vegna afnota af vernduðum verkum þeirra eða öðru efni, þegar undanþágur eða takmarkanir eru lögfestar. Við ákvörðun á formi, fyrirkomulagi og fjárhæð bóta skal tekið mið af aðstæðum í hverju tilviki. Við mat á ætluðu tjóni rétthafa ber að leggja mat á þann skaða sem viðkomandi aðgerð gæti hugsanlega valdið honum. Ekki er sjálfgefið að slíkt mat leiði til þess að rétthöfum verði ákveðnar bætur. Nægilegt kann að vera talið að rétthafar fái greiðslu með öðrum hætti, t.d. sem hluta af höfundarþóknun. Jafnframt kann beiting tæknilegra verndarráðstafana skv. 6. gr. tilskipunarinnar af hálfu rétthafa að leiða til þess að eintakagerð til einkanota sé ekki möguleg og því beri rétthafa ekki að fá bætur. Í öðrum tilvikum, eins og t.d. ljósritun til einkanota, er skaði rétthafa svo óverulegur, að ekki stofnast til greiðsluskyldu.
    Þrátt fyrir framangreind sjónarmið um bótarétt rétthafa er tekið fram í 36. skýringargrein að aðildarríkin geti mælt fyrir um sanngjarnar bætur til rétthafa þegar þau beita valfrjálsum ákvæðum um undanþágur eða takmarkanir sem innihalda ekki kröfur um slíkar bætur.
    Í 37. skýringargrein við tilskipunina er tekið fram að innlendar reglur um ljósritun, sem kunni að vera fyrir hendi, valdi ekki miklum hindrunum fyrir innri markaðinn. Aðildarríkjunum skuli þannig vera heimilt að kveða á um undanþágu eða takmörkun að því er varðar ljósritun.
    Í 52. skýringargrein við tilskipunina segir að þegar undanþága eða takmörkun vegna afritunar til einkanota, í samræmi við b-lið 2. mgr. 5. gr., komi til framkvæmda skuli aðildarríkin með sama hætti hvetja til notkunar valfrjálsra ráðstafana til að unnt sé að ná markmiðunum með undanþágunni eða takmörkuninni. Hafi slíkar valfrjálsar ráðstafanir í tengslum við eftirgerð til einkanota ekki verið gerðar innan sanngjarns tíma geti aðildarríkin gert ráðstafanir til að gera þeim sem eiga rétt á undanþágunni eða takmörkuninni kleift að nýta sér hana. Enn fremur segir að valfrjálsar ráðstafanir rétthafa, þ.m.t. samningar milli rétthafa og annarra hagsmunaaðila, og ráðstafanir aðildarríkjanna komi ekki í veg fyrir að rétthafar geti gripið til tæknilegra ráðstafana sem samrýmist þeim undanþágum eða takmörkunum sem ákveðnar hafi verið í landslögum í samræmi við ákvæði b-liðar 2. mgr. 5. gr., að teknu tilliti til skilyrðis um sanngjarnar bætur samkvæmt því ákvæði og hugsanlegs greinarmunar sem gerður er á mismunandi skilyrðum um notkun í samræmi við 5. mgr. 5. gr., svo sem eftirliti með fjölda eftirgerða. Til að koma í veg fyrir að slíkar ráðstafanir verði misnotaðar skuli allar tæknilegar ráðstafanir til framkvæmdar þeim njóta lögverndar.
     Um ákvæði 2. gr.
    Í 2. gr. frumvarpsins sem svarar til b-liðar 2. mgr. 5. í tilskipuninni er fjallað um heimild til eintakagerðar vegna einkaafnota, t.d. með ljósritun, hljóðritun, upptöku og afritun á hljóðbönd og myndbönd og eintakagerð á stafræna miðla, svo sem geisladiska, minniskort og þess háttar búnað. Samkvæmt gildandi lögum er í 1. mgr. 11. gr. heimilað að gera eintök af birtu verki til einkanota, eingöngu. Ekki er þó heimilt að gera eða láta gera fleiri en þrjú eintök til notkunar í atvinnu sinni. Skv. b-lið 2. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar er aðildarríkjunum heimilt að lögfesta takmarkanir á einkarétti höfunda til eintakagerðar þegar um er að ræða eintak á hliðrænu eða stafrænu formi sem einstaklingur hefur gert til einkanota og í tilgangi sem er hvorki beint né óbeint tengdur atvinnurekstri, að því gefnu að rétthafarnir fái sanngjarnar bætur eða sanngjarnt gjald (e. fair compensation). Breytingar frá 1. mgr. 11. gr. gildandi laga fela í sér að heimildin til eftirgerðar af birtu verki til einkanota er nú bundin við einstaklinga eingöngu. Jafnframt er lagt til að óheimilt verði að nýta eintök sem þannig eru gerð í þágu atvinnurekstrar en gildandi ákvæði heimilar að nýta megi allt að þrjú eintök sem þannig eru fengin í atvinnuskyni. Ákvæðið tekur bæði til hliðrænnar eintakagerðar (þ.e. ljósritunar og upptöku verka úr hljóðvarpi og sjónvarpi á hliðræn tón- og myndbönd) og stafrænnar eintakagerðar (þ.e. annarra verka en tölvuforrita og gagnagrunna, sbr. 4. og 5. tölul. 2. mgr. 11. gr. laganna).
    Í 38. skýringargrein tilskipunarinnar er gerður greinarmunur á hliðrænni og stafrænni eintakagerð til einkanota. Lýsir þessi munur sér m.a. í því að ekki er talin ástæða til að bæta höfundum það tjón er hljótast kann af ljósritun einstaklinga til einkanota en aftur á móti er talin ástæða til þess að höfundar verka sem útvarpað hefur verið eða gefin hafa verið út á hljóð- eða myndriti eigi rétt á gjaldi vegna þeirrar eintakagerðar af verkum þeirra sem fram fer á auð bönd, diska og aðra geymslumiðla, óháð því hvort sú eintakgerð styðst við hliðræna eða stafræna tækni, sbr. b-lið 2. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar.
    Heimildin til eintakagerðar til einkanota hefur verið skýrð svo að hún feli í sér heimild til eintakagerðar í eigin þágu og fyrir aðra einstaklinga sem eftirgerðarmaðurinn er í persónulegu sambandi við, þ.e. fyrir fjölskyldu, vini, kunningja og jafnvel nána starfsfélaga. Af þessum ástæðum er talið nauðsynlegt að takmarka heimild til eintakagerðar skv. 1. mgr. 11. gr. laganna á þann veg að hún sé því aðeins heimil að hún fari ekki fram í fjárhagslegum tilgangi. Líta verður þó til þess að því veikari sem hin persónulegu tengsl eru á milli aðila, því meiri líkur eru á því að eintakagerðin teljist vera í fjárhagslegum tilgangi. Skýra ber hugtakið „í fjárhagslegum tilgangi“ rúmt þannig að undir það falli allar athafnir sem eru liður í einkaréttarlegri atvinnustarfsemi eða starfsemi sem jafna má við slíkt. Burtséð frá þessu getur afritun talist vera í fjárhagslegum tilgangi ef hún leiðir t.d. til lækkunar rekstrarkostnaðar hjá fyrirtæki. Aftur á móti er ekki um eintakagerð í fjárhagslegum tilgangi að ræða þegar hún fer fram gegn táknrænni greiðslu eða þátttöku í kostnaði við eintakagerðina. Ákvæði frumvarpsins leiðir ekki til breytinga á réttarstöðu hvað varðar eintakagerð hjá ríki eða sveitarfélögum, þ.m.t. hjá skólum og menntastofnunum, að svo miklu leyti sem sú starfsemi er ekki skilgreind þannig að hún fari fram „í fjárhagslegum tilgangi“ skv. 2. gr. frumvarpsins. Jafnframt er ljóst að stór hluti af eintakagerð hjá stjórnvöldum og stofnunum er þegar heimilaður á grundvelli 22. gr. og 22. gr. a í gildandi lögum. Sú eintakagerð á þeirra vegum sem fellur utan reglunnar um eintakagerð til einkanota getur fallið undir heildarleyfi (samningskvaðir) sé fyrir hendi samningur við rétthafasamtök um slíka eintakagerð. Að öðrum kosti er um ólögmæta eintakagerð að ræða.
    Heimild 2. gr. frumvarpsins til eintakagerðar er sem fyrr segir bundin við einstaklinga og rís þá spurning hvort túlka beri ákvæðið svo að utanaðkomandi aðstoð sé óheimil við eintakagerðina, sbr. b-lið 2. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar. Fyrrgreint ákvæði tilskipunarinnar er hins vegar skýrt svo að það feli jafnframt í sér heimild til að þiggja aðstoð við eintakagerðina þegar uppfyllt hefur verið bótaskilyrði (endurgjaldsskilyrði) sama ákvæðis með innheimtu sérstaks gjalds á auð hljóð- og myndbönd og auða diska, sbr. 3. og 4. mgr. 11. gr. laganna. Er því ljóst að heimilt er að þiggja aðstoð annarra utanaðkomandi við eintakagerðina að svo miklu leyti sem það er ekki bannað skv. 3. tölul. 2. mgr. 11. gr. laganna. Að því er varðar ljósritun einstaklinga til einkanota er talið að tjónið sem af henni hlýst sé svo hverfandi að ekki beri að tryggja gjald til rétthafa, sbr. lokamálslið 35. skýringargreinar tilskipunarinnar.

Um 3. gr.


    Ákvæði tilskipunarinnar – heimild bókasafna til eftirgerðar.
    Í c-lið 2. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar er mælt fyrir um að aðildarríkin geti kveðið á um undanþágur eða takmarkanir á einkaréttinum til eftirgerðar þegar um er að ræða tilteknar eftirgerðir af hálfu almenningsbókasafna, menntastofnana eða safna eða skjalasafna sem eru hvorki gerðar vegna beins eða óbeins efnahagslegs eða viðskiptalegs ávinnings.
    Í a-lið 3. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar er mælt fyrir um að aðildarríkin geti kveðið á um undanþágur eða takmarkanir á einkaréttindunum skv. 2. og 3. gr. tilskipunarinnar þegar um er að ræða notkun sem einungis er til skýringar við kennslu eða við vísindarannsóknir, að því tilskildu að heimildar sé getið, þar á meðal nafns höfundar, nema það reynist ógerlegt, og að því marki sem telja má réttlætanlegt miðað við tilgang sem ekki er viðskiptalegs eðlis.
    Í n-lið 3. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar er mælt fyrir um að aðildarríkin geti kveðið á um undanþágur eða takmarkanir á einkaréttindunum skv. 2. og 3. gr. tilskipunarinnar þegar um er að ræða að verkum eða öðru efni í söfnum almenningsbókasafna, menntastofnana eða safna eða skjalasafna er miðlað til almennings eða þau gerð aðgengileg almenningi, til fræðistarfa eða einkarannsókna, með til þess gerðum endabúnaði á athafnasvæði stofnananna enda falli verkin og efnið ekki undir kaup- eða nytjaleyfisskilmála. Samkvæmt tilskipunarákvæðinu er aðildarríkjunum þannig heimilt að innleiða takmarkanir á einkarétti höfunda til eintakagerðar, með hliðsjón af sérstökum eintökum sem gerð eru í framangreindum söfnum, enda sé ekki um að ræða eintakagerð í fjárhagslegum tilgangi.
    Skv. 40. skýringargrein tilskipunarinnar er aðildarríkjunum heimilt að kveða á um undanþágu eða takmörkun í þágu tiltekinna stofnana sem ekki eru reknar í hagnaðarskyni, svo sem almenningsbókasafna og sambærilegra stofnana sem og skjalasafna. Slík undanþága eða takmörkun skal þó einskorðuð við tiltekin sértilvik sem falla undir réttinn til eftirgerðar og má ekki taka til afnota í tengslum við rafræna miðlun verndaðra verka eða annars efnis. Tekið er þó fram að tilskipunin skuli ekki hafa áhrif á möguleika aðildarríkjanna til að víkja frá ákvæðum um einkarétt til útlána til almennings í samræmi við 5. gr. tilskipunar 92/100/EBE um leigu- og útlánsrétt. Því er í tilskipuninni hvatt til þess að gerðir verði sérstakir samningar eða veitt sérstök nytjaleyfi sem eru hagstæð þessum stofnunum og miðlunarhlutverki þeirra án þess þó að skapa misvægi.
    Skv. 42. skýringargrein tilskipunarinnar skal þess gætt þegar undanþágu eða takmörkun er beitt vegna fræðslu eða vísindarannsókna sem fara ekki fram í fjárhagslegum tilgangi, þar með talið fjarnám, að það ákvarðist af starfseminni sem slíkri hvort hún fari fram í fjárhagslegum tilgangi. Stjórnskipulag og fjármögnunarleiðir viðkomandi stofnunar séu ekki úrslitaþættir í þeim efnum.
    Ákvæðið felur í sér áréttingu á inntaki 12. gr. gildandi laga, þó með breyttu orðalagi. Markmiðið með henni er að laga reglur um eintakagerð hjá skjalasöfnum, bókasöfnum, minjasöfnum og menntastofnunum að ákvæði c-liðar 2. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar.
    Í gildandi 12. gr. er heimild fyrir menntamálaráðherra að mæla fyrir um eintakagerð í tilgreindum bóka- og skjalasöfnum og vísinda- og rannsóknastofnunum með reglugerð en hún mun ekki hafa verið sett. Með 3. gr. frumvarpsins er áréttað að framangreind eintakagerð sé því aðeins heimil að hún fari ekki fram í fjárhagslegum tilgangi. Samkvæmt hinu nýja orðalagi ákvæðisins tekur það bæði til hliðrænnar og stafrænnar eintakagerðar. Sem fyrr er gert ráð fyrir því að sett verði reglugerð um heimildir safna samkvæmt ákvæðinu. Brýnt er að sú reglugerð verði sett verði frumvarpið að lögum.

Um 4. gr.


    Í a-lið 3. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar mælt fyrir um að aðildarríkin geti kveðið á um undanþágur eða takmarkanir á einkaréttindunum sem kveðið er á um í 2. og 3. gr. tilskipunarinnar ef um er að ræða notkun sem einungis er til skýringar við kennslu eða við vísindarannsóknir, að því tilskildu að heimildar sé getið, þar á meðal nafns höfundar, nema það reynist ógerlegt, og að því marki sem telja má réttlætanlegt miðað við tilgang sem ekki er fjárhagslegs eðlis.
    Skv. 18. skýringargrein tilskipunarinnar hefur hún ekki áhrif á fyrirkomulag í aðildarríkjunum er varðar umsýslu réttinda, svo sem með heildarleyfum (samningskvöðum).
    Ákvæðið felur í sér breytingar á 14. gr. gildandi laga sem ætlað er að færa ákvæðið til samræmis við fyrrgreindan a-lið 3. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar. Í breytingunni felst að endurmiðlun listaverka vegna listgagnrýni og birting verka skv. 3. mgr. 1. gr. laganna, þ.e. uppdrátta, teikninga, líkana og þess háttar hugverka í þágu vísindarannsókna, er háð fyrirvara um að ekki sé um fjárhagslegan tilgang að ræða og heimildar sé getið.
    Samkvæmt gildandi lögum, 2. mgr. 14. gr., er heimilt að birta listaverk vegna listgagnrýni og verk er falla undir 3. mgr. 1. gr. laganna vegna vísindarannsókna, enda sé kynning og meðferð í samræmi við hinn yfirlýsta tilgang. Gildir þessi heimild óháð því hvort um fjárhagslegan tilgang er að ræða eða ekki.
    Með vísan til framangreinds ákvæðis tilskipunarinnar þykir nauðsynlegt að takmarka gildissvið 2. mgr. 14. gr. gildandi laga, þannig að heimildin eigi ekki við þegar um birtingu og umfjöllun þar tilgreindra verka í fjárhagslegum tilgangi er að ræða, án þess að fyrir liggi samþykki rétthafa. Í 42. skýringargrein við tilskipunina segir að við beitingu undanþágu eða takmörkunar í þágu fræðslu eða vísindarannsókna sem ekki fara fram í fjárhagslegum tilgangi, þar með talið fjarnám, skuli líta til þess hvort starfsemin sem slík fari fram í fjárhagslegum tilgangi. Jafnframt kemur fram að það hafi ekki úrslitaáhrif í þessu sambandi hvernig viðkomandi stofnun er stjórnað eða rekstur hennar fjármagnaður.
    Hugtakið „fjárhagslegur tilgangur“ í 4. gr. frumvarpsins er notað í víðum skilningi og tekur bæði til beinnar og óbeinnar atvinnustarfsemi. Hugtakið tekur þannig til athafna sem teljast vera liður í atvinnustarfsemi einstaklinga eða lögaðila eða hliðstæðri starfsemi. Birting kann að teljast fara fram í fjárhagslegum tilgangi ef hún fer fram í því augnamiði að skila rekstrarafgangi. Hins vegar yrði ekki talið um birtingu í fjárhagslegum tilgangi að tefla þegar birting fer fram gegn táknrænni greiðslu eða endurgjaldi sem hefur það eitt að markmiði að mæta útgjöldum sem hljótast af birtingunni. Ekki er gert er ráð fyrir að sú breyting sem hér er lögð til hafi áhrif á rannsóknarstarfsemi hjá háskólum og öðrum stofnunum og því geti þær áfram birt myndir af listaverkum og verkum er falla undir 3. mgr. 1. gr. laganna, í tengslum við listgagnrýni og vísindastarfsemi.

Um 5. gr.


     Ákvæði tilskipunarinnar – takmörkun á einkarétti vegna safnaverka til kennslu o.fl.
    Varðandi umfjöllun um a-lið 3. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar vísast til athugasemda með 4. gr. frumvarps þessa.
    Hér er mælt fyrir um breytingar á 1. mgr. 17. gr. gildandi laga vegna samræmingar við a-lið 3. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar. Skv. a-lið 3. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar geta aðildarríkin innleitt undanþágur eða takmarkanir á rétti höfunda til eftirgerðar, miðlunar verka sinna til almennings, auk réttar til að gera annað efni aðgengilegt almenningi, þegar um er að ræða notkun sem einungis er til skýringar við kennslu eða við vísindarannsóknir, að því tilskildu að heimildar sé getið, þar á meðal nafns höfundar, nema það reynist ógerlegt, og að því marki sem telja má réttlætanlegt miðað við tilgang sem ekki er fjárhagslegs eðlis.
    Skv. 1. mgr. 17. gr. gildandi laga er heimilt að birta í safnverkum, sem ætluð eru til trúarathafna, kennslu í skólum eða í útvarpi, hluta úr bókmenntaverkum og tónverkum margra höfunda þegar liðin eru fimm ár frá næstu áramótum eftir útgáfu þeirra. Jafnframt er heimilt að birta með sömu skilmálum myndir og gögn skv. 3. mgr. 1. gr. gildandi laga sem eru hluti af meginmáli. Fyrir þessi afnot á hver höfundur rétt til þóknunar. Umrædd heimild á þó ekki við í þeim tilvikum þegar frumverkið er sérstaklega samið fyrir kennslu í skólum. Að öðru leyti eru ekki takmarkanir í gildandi lögum á beitingu reglu 1. mgr. 17. gr. Til að gæta samræmis við a-lið 3. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar er nauðsynlegt að takmarka gildissvið 1. mgr. 17. gr. laganna þannig að heimildin takmarkist við notkun sem telst ekki vera birting í fjárhagslegum tilgangi. Af breytingunni leiðir að óheimilt er að nýta hluta úr verkum margra höfunda í safnverk sem ætluð eru til kennslu ef útgáfan telst vera í fjárhagslegum tilgangi. Jafnframt á við skilyrði a-liðar 3. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar um að geta skal heimildar, nema það sé ógerlegt.

Um 6. gr.


    Hér er mælt fyrir um nýtt ákvæði um tæmingu réttinda að fyrirmynd 19. gr. dönsku höfundalaganna eins og henni hefur nú verið breytt með innleiðingu tilskipunarinnar í dönsk höfundalög.
     Ákvæði tilskipunarinnar um einkarétt til dreifingar og tæmingu hans.
    Í 1. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar er mælt fyrir um að aðildarríkin skuli kveða á um einkarétt til handa höfundum til að heimila eða banna hvers konar dreifingu til almennings með sölu eða á annan hátt að því er varðar frumrit eða afrit verka þeirra.
    Í 2. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar segir svo að dreifingarrétturinn tæmist ekki innan bandalagsins, þ.e. innri markaðarins, að því er varðar frumrit eða afrit verks nema rétthafi annist fyrstu sölu á viðkomandi eintaki eða annað framsal eignarréttar innan bandalagsins eða það sé gert með leyfi hans.
    Tæmingarreglan kemur jafnframt fyrir í c-lið 4. gr. tilskipunar 91/250/EBE um lögvernd tölvuforrita og c-lið 5. gr. tilskipunar 96/6/EB um lögvernd gagnagrunna. Í tilskipun 91/100/ EBE um útlán felast engar almennar reglur um tæmingu réttinda, nema hvað varðar grannréttindi höfundaréttar, sbr. 2. mgr. 9. gr. þeirrar tilskipunar. Í 1. mgr. 1. gr. og 1., 3. og 4. mgr. 2. gr. hennar er fjallað um útleigurétt og í 1. mgr. 1. gr., 1. mgr. 2. gr. og 3. og 4. mgr. 5. gr. er fjallað um útlánarétt.
     Um tæmingu dreifingarréttar.
    Svonefnd tæmingarregla er reglan sem segir til um hvort einkaréttur höfundar til að ráða yfir eintökum verks tæmist (d. konsumptionsprincippet, e. consumption of rights) þegar höfundurinn hefur sjálfviljugur látið eintakið af hendi með sölu þess til kaupanda. Meginreglan er að kaupandinn öðlast frjálsan ráðstöfunarrétt yfir eintakinu með frekari sölu, skiptum, láni, leigu o.s.frv. Í tæmingarreglunni felst því í samræmi við framangreint, að handhöfn eignarréttarins að eintakinu gengur framar rétti höfundar til verksins. Tæmingarreglan felur í sér takmörkun á einkarétti höfundar með tilliti til 24. og 25. gr. laganna, þ.e. dreifingarrétti og sýningarrétti, en hefur ekki áhrif á einkarétt höfunda til eintakagerðar og opinbers flutnings.
    Sú regla sem hér er lögð til er eftir fyrirmynd 1. mgr. 19. gr. dönsku höfundalaganna eins og ákvæðinu hefur nú verið breytt vegna innleiðingar tilskipunarinnar í dönsku lögin.
    Í 6. gr. frumvarpsins, sem verður 24. gr. laganna, er að finna meginreglu höfundalaganna um réttindatæmingu sem mælir svo fyrir að sala eða annað varanlegt form eignaryfirfærslu eintaks viðkomandi verks, sem fram fer með samþykki höfundarins, felur í sér að eigandi eintaksins má dreifa því áfram með sölu, leigu, útláni o.s.frv. Fram til þessa hefur í norrænum höfundarétti verið á byggt á svonefndri „alþjóðlegri tæmingarreglu“. Í henni felst að eftir fyrstu sölu eintaks af verki frá höfundi til fyrsta kaupanda er för þess frjáls um heiminn, óháð því hvar verkið var upphaflega selt. Í 1. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar er hins vegar mælt fyrir um svæðisbundna tæmingu á innri markaði Evrópusambandsins. Samkvæmt því ákvæði tæmist dreifingarrétturinn aðeins þegar rétthafinn (höfundurinn) sjálfur selur eintak verks eða eignarréttur að því yfirfærist með öðrum hætti, innan Evrópusambandsins, með hans samþykki. Sama regla gildir um önnur ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins sem auk aðildarríkja ESB teljast vera Noregur, Ísland og Liechtenstein. Ekki er að finna í gildandi höfundalögum almennt ákvæði um tæmingu réttinda en samkvæmt norrænni lagahefð má telja að alþjóðleg réttindatæming hafi fram til þessa verið meginreglan samkvæmt gildandi rétti hér á landi að því er varðar höfundarétt.
    Hvað varðar listflytjendur, hljóð- og myndframleiðendur, ásamt útvarpsfyrirtækjum eru fyrir hendi reglur um svæðisbundna tæmingu á grundvelli tilskipunar 92/100/EBE um leigu- og lánsréttindi og önnur atriði varðandi höfundarétt þrátt fyrir að slík regla hafi ekki verið innleidd í íslensku höfundalögin þegar framangreind tilskipun var tekin upp í íslensk lög.
    Ekki var full eining meðal ríkja ESB um ákvæði 4. gr. tilskipunarinnar og vildu m.a. Danir, Finnar og Svíar halda í hina norrænu reglu um alþjóðlega tæmingu. Mál þróuðust hins vegar svo að hin svæðisbundna tæmingarregla varð ofan á og verður hún því innleidd í landslög á innri markaðinum.
    Í samræmi við 1. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar kveður ákvæði 1. mgr. þannig á um að sala og annars konar framsal á eintaki verks í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins leiði til tæmingar réttinda og þar með réttinum til dreifingar eintaka til almennings með sölu, gjafagerningi og öðru þess háttar. Af þessu leiðir að það er ekki aðeins forsenda að rétthafarnir hafi veitt samþykki fyrir sölu eintaka, eða annars konar eignaryfirfærslu, heldur einnig að eintakið sé sett á markað í EES-ríki.
    Ákvæðið gildir fyrir allar tegundir verka. Að því er varðar dreifingu verka með útláni og útleigu er lagt til í 2. málsl. 1. mgr. að viðhalda áðurgreindri undantekningu frá reglunni um tæmingu réttinda innan EES.
    Áhrifin af innleiðingu reglu um svæðisbundna tæmingu dreifingarréttar innan EES verða þau m.a. að dreifing eintaka sem flutt hafa verið á innri markaðinn frá landi utan EES án samþykkis rétthafa verður óheimil frá og með gildistöku ákvæðisins. Þetta á t.d. við um eintök bóka sem settar hafa verið á markað í Bandaríkjum Norður-Ameríku en er síðar dreift innan EES án samþykkis rétthafa. Dreifing slíkra eintaka er því aðeins heimil að rétthafinn hafi veitt samþykki sitt. Þrátt fyrir þetta má vænta þess að rétthafinn, t.d. bókaforlag eða hljómplötuútgáfa, hafi hagsmuni að því að heimila innflutning þegar um er að ræða sérpöntun á einstökum eintökum. Þannig má t.d. gera ráð fyrir að þegar um er að ræða beinan innflutning innlends bóksala frá erlendum útgefanda geti hinn erlendi útgefandi veitt nauðsynlegt samþykki sitt um leið og bækurnar eru pantaðar. Framangreindar reglur eiga eingöngu við um verk sem njóta verndar að höfundarétti. Dreifing verka sem ekki njóta verndar að höfundarétti getur farið fram óhindrað. Af 29. skýringargrein tilskipunarinnar leiðir að tæming hefur eingöngu þýðingu við dreifingu á áþreifanlegum miðlum, en ekki þegar um er að ræða þjónustu, þ.m.t. rafræna miðlun verka. Tæming verður heldur ekki þegar um er að ræða eintök sem verða til hjá notendum með samþykki rétthafa vegna rafrænnar miðlunar, t.d. afrit af gagnagrunni á netinu þar sem heimild til dreifingar til almennings byggist á samningi rétthafa og notenda.

Um 7. gr.


    Um a-lið.
    Sú breyting sem hér er lögð til er í samræmi við þær breytingar sem lagðar eru til á 1. mgr. 24. gr. laganna, sbr. 6. gr. frumvarpsins, varðandi tæmingu réttinda innan Evrópska efnahagssvæðisins. Nægilegt er að fjallað sé um tæmingu réttinda á einum stað í lögunum, þ.e. í 24. gr. eins og hún mun hljóða skv. 6. gr. frumvarpsins. Af 1. mgr. 24. gr. mun leiða að tæming réttinda vegna upptöku listflutnings kemur aðeins til álita þegar upptaka listflutnings er seld eða eignarréttur að eintaki yfirfærist með öðrum hætti innan Evrópska efnahagssvæðisins. Í þessu felst ekki nein breyting á gildandi rétti að því er varðar listflytjendur, sbr. síðasta málslið 3. mgr. 45. gr. gildandi laga.
     Um b-lið.
    Hér er mælt fyrir um einkarétt listflytjenda til eintakagerðar og dreifingar að því er varðar þjóðmenningarlegt efni. Með þjóðmenningarlegu efni í þessu sambandi er átt við hefðbundna menningarlega tjáningu (e. traditional cultural expressions) sem kennd er við menningu frumbyggja eða ættflokka eða tilheyrir ákveðnu landsvæði. Dæmi um slíkan listfluting er t.d. hefðbundin sönglist Samaþjóðarinnar (e. yoke).

Um 8. gr.


    Hér sambærileg breyting þeirri sem lögð er til í 1. mgr. 7. gr. frumvarpsins varðandi réttindi listflytjenda. Breytingin felur í sér að sérregla 2. málsl. 2. mgr. 46. gr. laganna um tæmingu á réttindum framleiðenda er varða útlán og leigu á upptökum listflutnings fellur brott. Í þess stað stendur eftir tilvísun í fyrri málslið 2. mgr. 46. gr. laganna til 24. gr. eins og lagt er til að henni verði breytt í 6. gr. frumvarpsins.

Um 9. gr.


    Ákvæðið, sem er nýmæli, felur í sér innleiðingu á 2. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar í íslensk lög í þágu listflytjenda og framleiðenda hljóð- og myndrita. Skv. 2. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar, sem grundvallast á 10. og 14. gr. WPPT-sáttmálans, skulu aðildarríkin kveða á um einkarétt til handa m.a. listflytjendum vegna upptakna á flutningi þeirra og framleiðendum vegna hljóðrita þeirra til að heimila eða banna að slík verk verði gerð almenningi aðgengileg, um þráð eða þráðlaust, með þeim hætti að hver og einn geti fengið aðgang að verkunum á þeim stað og þeirri stundu er hann sjálfur kýs. Tilskipunin heimilar ekki að gera almenna takmörkun á framangreindum einkarétti, þ.m.t. með afnotakvöð. Í 1. mgr. 47. gr. gildandi laga felst afnotakvöð vegna opinbers flutnings á útgefnum hljóðritum. Í ákvæðinu felst að útvarpsstöðvar og aðrir aðilar geta, án þess að gera um það samning fyrir fram við listflytjendur og framleiðendur hljóðrita, sent út hljóðrit listflutnings gegn greiðslu þóknunar. Um fjárhæð þóknunar fer eftir heildarsamningi á milli innheimtusamtaka listflytjenda og framleiðenda og viðkomandi notanda, þ.e. útvarpsstöðvar. Sérstök úrskurðarnefnd sem starfar eftir 57. gr. laganna fjallar um ágreining um þóknun skv. 47. gr.
    Ákvæðið mælir fyrir um rétt listflytjenda til að gera hljóðrit listflutnings aðgengilegt almenningi, með þeim hætti að hver og einn geti fengið aðgang að hljóðritinu á þeim stað og á þeirri stundu sem hver og einn sjálfur kýs sem er sérstakur réttur sem óháður er heimild til notkunar hljóðrits til flutnings í útvarpi og annarrar þess háttar opinberrar dreifingar. Afnotakvöð samkvæmt gildandi lögum tekur einnig til pöntunarþjónustu á netinu þar sem slík þjónusta fellur undir hugtakið opinber flutningur.
    Með ákvæðinu er listflytjendum og framleiðendum hljóðrita færður einkaréttur á að heimila aðgang að sköpun sinni í gegnum pöntunarþjónustu á netinu og öðrum tölvunetum.
    Þegar um er að ræða annað form opinbers flutnings, þ.m.t. útsendingar útvarps og sjónvarps og beinn flutningur útgefinna hljóðrita, gildir áfram afnotakvöð skv. 1. mgr. 47. gr. höfundalaganna. Ekki er talin ástæða til að taka upp að þessu sinni fyrirkomulag heildarleyfa (samningskvaða) vegna slíkrar notkunar en rétt þykir að horfa til þess við síðari endurskoðun laganna.

Um 10. gr.


    Um a-lið.
    Ákvæðið felur í sér nánari afmörkun á 4. tölul. 1. mgr. 48. gr. gildandi laga. Markmið með breytingunni er að innleiða d-lið 2. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar sem mælir svo fyrir að aðildarríkin skuli kveða á um einkarétt útvarpsfyrirtækja til að heimila eða banna að upptökur á útsendingum þeirra, hvort sem um útsendingar um þráð eða þráðlaust er að ræða, þ.m.t. útsendingar um kapal eða gervihnött, séu gerðar aðgengilegar almenningi, um þráð eða þráðlaust, með þeim hætti að hver og einn geti fengið aðgang að upptökunum á þeim stað og á þeirri stundu sem hann sjálfur kýs.
    Samkvæmt 1. mgr. 48. gr. gildandi laga hafa útvarpsfyrirtæki vernd gegn samtímisútvörpun (e. simulcasting) þráðlaust og annars konar dreifingu um þráð, ásamt upptöku á endurflutningi á útvörpun þeirra. Skv. 4. tölul. 1. mgr. 48. gr. er eftirgerð áður framkvæmdrar upptöku útvarps óheimil. Framangreint bann hefur þá þýðingu að ekki má flytja slíka upptöku yfir á annan miðil þaðan sem unnt er að endurmiðla henni, dreifa eintökum til almennings o.s.frv. Í þessu felst að óheimilt er án samþykkis útvarpsfyrirtækja að nýta upptökur af útsendingum þeirra sem felur þar með í sér óbeina og almenna vernd gegn því að upptökurnar séu gerðar aðgengilegar almenningi, þ.m.t. með opinberum flutningi í gegnum netið. Þrátt fyrir þennan skilning á 48. gr. laganna þykir með tilliti til tilskipunarinnar ástæða til að kveða skýrt á um einkarétt útvarpsfyrirtækja til miðlunar á útsendu efni sínu um netið.
    Hugtökin upptaka og eftirgerð falla bæði undir hugtakið eintakagerð. Útvarpsfyrirtæki hafa einkarétt til eintakagerðar áður útvarpaðs efnis og þess að gera slíkt efni aðgengilegt almenningi, þ.m.t. að gera upptökur útsendinga aðgengilegar í gegnum netið með sama hætti og framleiðendur hljóð- og myndrita.
    Um b-lið.
    Samkvæmt 48. gr. gildandi laga er verndartími útvarpsstöðva vegna eftirgerðar á upptökum útsendinga þeirra takmarkaður við 25 ár. Virðist hafa láðst við lögleiðingu tilskipunar 93/98/EBE um samræmingu verndartíma höfundarréttar og tiltekinna skyldra réttinda með lögum nr. 50/1996 um breytingu á höfundalögum, að taka tillit til ákvæða tilskipunarinnar um verndartíma útsendinga útvarpsstöðva. Skv. 4. mgr. 3. gr. þeirrar tilskipunar skulu réttindi útvarpsstöðva renna út 50 árum eftir fyrstu útsendingu án tillits til þess hvort sent er út í gegnum þráð eða um ljósvakann, þ.m.t. útsendingar um kapal eða gervihnött. Þykir rétt að breyta nú þessu ákvæði höfundalaga til samræmis við ákvæði tilskipunarinnar.

Um 11. gr.


    Rétt er talið að veita ljósmyndum, sem ekki njóta verndar höfundalaga sem listaverk, aukna vernd með því að láta vernd slíkra mynda fylgja hinni almennu stefnu laganna að láta einkarétt rétthafa ná til þess að birta þær. Enn fremur er talið rétt að lengja verndartíma slíkra ljósmynda úr 25 árum í 50 ár til samræmis við ákvæði annarra norrænna höfundalaga.

Um 12. gr.


    Hér er lagt til að við bætist nýr kafli, V. kafli A, með fjórum greinum, 50. gr. a – 50. gr. d, er fær kaflaheitið Tæknilegar ráðstafanir o.fl. Ákvæðum hins nýja kafla er m.a. ætlað innleiða III. kafla tilskipunarinnar varðandi „verndun tæknilegra ráðstafana og upplýsinga fyrir réttindaumsýslu“ er hefur að geyma ákvæði 6. gr. tilskipunarinnar um „skyldur að því er varðar tæknilegar ráðstafanir“ og ákvæði 7. gr. tilskipunarinnar um „skyldur að því er varðar upplýsingar vegna réttindaumsýslu“.
     Um a-lið (50. gr. a).
    Hér er lagt til að leitt verði í íslensk lög ákvæði er svarar til c) liðar 1. mgr. 7. gr. í tilskipun 91/250/EBE, um lögvernd fyrir tölvuforrit, en í 7. gr. þeirrar tilskipunar er m.a. svo fyrir mælt að kveða beri í landslögum á um úrræði gagnvart þeim sem sekur er um að setja í umferð eða hafa í fórum sínum í hagnaðarskyni hvers konar búnað sem einungis miðar að því að auðvelda að sneiða hjá eða fjarlægja með ólöglegum hætti tæknibúnað sem notaður hefur verið til að vernda tölvuforrit. Með frumvarpsgreininni er sú háttsemi, sem nefnt tilskipunarákvæði tekur til, lýst óheimil, og brot gegn greininni er lýst refsivert með tillögu til breytingar á 5. tölul. 1. mgr. 54. gr. (sjá 13. gr. frumvarps þessa).
    Í lögum nr. 57/1992, sem lögfestu gildi tilskipunar 91/250/EBE um lögvernd tölvuforrita, var ekki innleitt sérstakt ákvæði til verndar ráðstöfunum er miða að því að koma í veg fyrir ólögmæta eintakagerð hugbúnaðar líkt og gert var í 1. mgr. 78. gr. í dönsku höfundalögunum frá 1995. Ákvæði þetta samsvarar nú 75. gr. b í dönsku höfundalögunum eins og þeim var breytt við innleiðingu tilskipunarinnar í Danmörku í desember 2002. Vegna skyldleika 1. mgr. 7. gr. þeirrar tilskipunar við 2. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar um höfundarétt í upplýsingasamfélaginu þykir hins vegar rétt að lögfesta nú bann við fyrrgreindum ráðstöfunum sem eru til þess fallnar að stuðla að ólögmætri dreifingu hugbúnaðar en 1. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar tekur ekki til tæknilegra ráðstafana gegn ólögmætri eintakagerð hugbúnaðar. Um lögvernd tæknilegra ráðstafana annarra verka á stafrænu formi er fjallað í b–d-lið 12. gr. frumvarpsins (50. gr. b – 50. gr. d). Jafnframt er lagt til að ákvæðið verði talið upp meðal þeirra ákvæða í 54. gr. höfundalaganna þar sem sektarrefsing eða fangelsi, allt að tveimur árum, liggur við broti sem framið af ásetningi eða stórfelldu gáleysi.
    Þær ráðstafanir sem ákvæðinu er ætlað að vernda eru hvers konar varnir gegn ólögmætri afritun hugbúnaðar, þ.m.t. afritunarvarðir CD-ROM/DVD-ROM diskar sem hafa að geyma hugbúnað, sérstakir hugbúnaðarlyklar sem gera löglegum notendum notkun slíkra diska mögulega og aðrar þess háttar ráðstafanir.
     Um b-lið (50 gr. b).
     Ákvæði tilskipunarinnar – verndun skilvirkra tæknilegra ráðstafana.
    Í b-lið 12. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um nýtt ákvæði vegna innleiðingar 1.–3. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar. Þar er í 1. mgr. mælt fyrir um að aðildarríkin skuli kveða á um fullnægjandi lögvernd gegn því að hvers konar skilvirkar tæknilegar ráðstafanir séu markvisst og af ásetningi sniðgengnar. Í 2. mgr. er mælt fyrir um skyldu aðildarríkjanna til að kveða á um fullnægjandi lögvernd gegn framleiðslu, innflutningi, dreifingu, sölu, leigu, auglýsingum um sölu eða leigu eða eign, í viðskiptaskyni, tækja, vara eða íhluta eða veitingu þjónustu í þremur tilvikum:
          í fyrsta lagi þegar slík tæki, vörur, íhlutir eða þjónusta eru kynnt eða auglýst sem leið til að sniðganga hvers konar skilvirkar, tæknilegar ráðstafanir,
          í öðru lagi þegar slík tæki, vörur, íhlutir eða þjónusta hafa aðeins takmarkað viðskiptalegt gildi eða notkunarmöguleika aðra en sem leið til að sniðganga hvers konar skilvirkar, tæknilegar ráðstafanir, og
          í þriðja lagi þegar slík tæki, vörur, íhlutir eða þjónusta eru fyrst og fremst hönnuð, framleidd, aðlöguð eða veitt í því skyni að sniðganga hvers konar skilvirkar, tæknilegar ráðstafanir.
    Hugtakið „skilvirkar, tæknilegar ráðstafanir“ er skilgreint svo í 3. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar að það taki til hvers konar tækni, tækja eða íhluta sem hannaðir eru með það fyrir augum að koma, við eðlilega notkun, í veg fyrir eða takmarka aðgerðir sem varða verk eða annað efni og hafa ekki fengið samþykki rétthafa höfundaréttar eða annarra réttinda, sem skyld eru höfundarétti, eins og kveðið er á um í lögum, eða rétthafa „sinnar tegundar réttar“ (e. sui generis) eins og kveðið er á um í III. kafla tilskipunar 96/9/EB. Með hugtakinu „skilvirkar“ er átt við þær ráðstafanir sem til þess eru fallnar að rétthafa takist að ná verndarmarkmiðinu með því að stýra notkun verndaðs verks eða annars efnis með aðgangsstjórnun, verndaraðgerð, svo sem dulritun, brenglun eða annarri breytingu á verkinu eða öðru efni, eða með stjórnun eintakagerðar. Um nánari skýringu hugtaksins skilvirkar, tæknilegar ráðstafanir vísast til 4. mgr. b-liðar 12. gr. frumvarpsins (4. mgr. 50. gr. b).
    Lagt er til að 1.–3. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar verði innleidd með b-lið 12. gr. frumvarpsins (1.–4. mgr. 50. gr. b).
     Um 1. mgr. b-liðar (1. mgr. 50. gr. b).
    Ákvæðið felur í sér innleiðingu 1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar. Við orðalag þess hefur verið höfð hliðsjón af 75. gr. c í dönsku höfundalögunum sem á rætur að rekja til 2. mgr. 78. gr. dönsku laganna frá 1995 en þar var mælt fyrir um lögvernd tæknilegra ráðstafana fyrir hvers konar verk á stafrænu formi. Með tilliti til 6. gr. tilskipunarinnar er lögvernd tæknilegra ráðstafana ætlað að ná til allra tækja og aðferða sem unnt er að beita til sniðgöngu slíkra ráðstafana og tekur það jafnframt til þess verknaðar að sniðganga hinar tæknilegu ráðstafanir.
    Í ákvæðinu felst að óheimilt er að sniðganga skilvirkar, tæknilegar ráðstafanir án samþykkis rétthafa. Bannið gildir einnig um sniðgönguverknaðinn sjálfan, jafnvel þótt sniðgangan fari fram í þeim tilgangi að gera t.d. sjónskertum notanda kleift að nýta sér takmarkanir á einkarétti höfundar í II. kafla höfundalaganna. Um sambandið á milli reglna um sniðgöngu tæknilegra ráðstafana og undantekningarákvæðanna í II. kafla höfundalaganna vísast til athugasemda við c-lið 12. gr. frumvarpsins (50. gr. c).
    Reglur b-liðar 12. gr. frumvarpsins (50. gr. b) eiga að stuðla að því að koma í veg fyrir skipulögð og stórfelld höfundaréttarbrot, m.a. vegna ólöglegrar dreifingar tónlistar og kvikmynda, sem eru til þess fallin að valda fjárhagstjóni fyrir listflytjendur og framleiðendur. Litið er á vernd skilvirkra tæknilegra ráðstafana sem eina mikilvægustu stoðina fyrir höfundarréttarvernd verka á stafrænu formi.
    Lagt er til að brot gegn 1. mgr. b-liðar 12. gr. frumvarpsins (1. mgr. 50. gr. b) varði sektum skv. 54. gr. laganna. Gert er ráð fyrir því að refsinæmi verði bundið við brot framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi.
     Um 2. mgr. b-liðar (2. mgr. 50. gr. b).
    Ákvæðið felur í sér innleiðingu á 2. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar og hefur að geyma bann við ýmsum undirbúningsathöfnum sem geta leitt til þess að tæknilegar ráðstafanir verði sniðgengnar. Hér er um að ræða framleiðslu, innflutning, dreifingu, sölu, leigu, auglýsingu til sölu eða leigu, eignarhald í fjárhagslegum tilgangi á búnaði, vörum eða íhlutum er nota má til sniðgöngu skilvirkra, tæknilegra ráðstafana. Slíkur búnaður getur m.a. verið hugbúnaður. Framangreindar athafnir eru óheimilar í eftirfarandi tilvikum:
          ef búnaðurinn, vörurnar eða íhlutirnir eru markaðssettir til sniðgöngu á skilvirkum tæknilegum ráðstöfunum,
          ef búnaðurinn, vörurnar eða íhlutirnir hafa takmarkað fjárhagslegt gildi umfram það að nýtast til sniðgöngu skilvirkra, tæknilegra ráðstafana, og
          ef búnaðurinn, vörurnar eða íhlutirnir eru fyrst og fremst hönnuð, framleidd eða aðlöguð í því augnamiði að gera kleift eða undirbúa sniðgöngu skilvirkra, tæknilegra ráðstafana.
    Nægilegt er að um sé að tefla brot gegn einu af framangreindum tilvikum til þess að refsiábyrgð í formi sektargreiðslu verði beitt, að því tilskildu að hin huglægu saknæmisskilyrði séu uppfyllt. Af 48. skýringargrein tilskipunarinnar leiðir að bannákvæðin í 2. mgr. b-liðar 12. gr. frumvarpsins (2. mgr. 50. gr. b) fela ekki í sér skyldu til að hanna búnað, vörur eða íhluti eða veita þjónustu með þeim hætti að þau séu samhæfð hinum tæknilegu ráðstöfunum, svo framarlega sem slíkur búnaður, íhlutir eða þjónusta fellur að öðru leyti ekki undir bannákvæði 2. mgr. b-liðar 12. gr. frumvarpsins (2. mgr. 50. gr. b). Enn fremur er tiltekið að verndin megi ekki standa í vegi fyrir rannsóknum á sviði dulritunar.
    Framangreindar reglur fela ekki í sér að bannað verði að þróa og dreifa frjálsum hugbúnaði (e. „open source“) sem gerir mögulegt að spila og afrita mynddiska og aðra miðla, m.a. vegna þess að slíkur hugbúnaður hefur annan löglegan tilgang en að komast hjá afritunarvörn. Hins vegar er lagt bann við þróun og dreifingu hugbúnaðar sem hefur það eina markmið að komast hjá afritunarvörn sem felst í tæknilegum ráðstöfunum.
     Um 3. mgr. b-liðar (3. mgr. 50. gr. b).
    Samkvæmt ákvæðinu eiga ákvæði 2. mgr. er fjalla um búnað, vörur og íhluti einnig við um þjónustu. Í því felst að óheimilt er að veita þjónustu sem:
          markaðssett er í því augnamiði að sniðganga skilvirkar, tæknilegar ráðstafanir,
          hefur aðeins í takmörkuðum mæli annan fjárhagslegan tilgang en sniðgöngu skilvirkra, tæknilegra ráðstafana, og
          fyrst og fremst er hönnuð, framleidd eða aðlöguð til þess að gera kleift eða undirbúa sniðgöngu skilvirkra tæknilegra ráðstafana.
    Nægilegt er að brotið felist í einu af þremur framangreindum atriðum til þess að refsiábyrgð skapist. Einstaklingar og fyrirtæki sem bjóða fram aðstoð sína til að sniðganga afritunarvarnir o.fl. geta þannig sætt refsiábyrgð með sama hætti og þeir sem framleiða, markaðssetja o.fl. búnað og vörur sem hafa það að meginmarkmiði að sniðganga skilvirkar, tæknilegar ráðstafanir. Leiða má líkum að því að sama eigi við þegar einstaklingur gerir aðgengilegar á sinni heimasíðu á netinu leiðbeiningar sem nýta má til þess að sniðganga skilvirkar tæknilegar ráðstafanir.
     Um 4. mgr. b-liðar (4. mgr. 50. gr. b).
    Í ákvæðinu er kveðið á um að skilvirkar, tæknilegar ráðstafanir njóti verndar skv. 1. og 2. mgr., svo fremi þeim sé beitt í þeim tilgangi að vernda verk og annað efni sem er háð höfundarétti. Í 3. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar er umfang lögverndarinnar afmarkað með skilgreiningu hugtaksins skilvirkar, tæknilegar ráðstafanir. Skv. 1. málsl. 3. mgr. 6. tilskipunarinnar merkir „tæknilegar ráðstafanir“ „hvers konar tækni, tæki eða íhluti sem hannaðir eru með það fyrir augum að koma, við eðlilega notkun, í veg fyrir eða takmarka aðgerðir sem varða verk eða annað efni og hafa ekki fengið samþykki rétthafa höfundaréttar eða annarra réttinda, sem eru skyld höfundarétti, eins og kveðið er á um í lögum, eða rétthafa sinnar tegundar réttar (e. sui generis) eins og kveðið er á um í III. kafla tilskipunar 96/9/EB“.
    Samkvæmt 2. málsl. 3. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar teljast tæknilegar ráðstafanir skilvirkar „ef rétthafa tekst að ná verndarmarkmiðinu með því að stýra notkun verndaðs verks eða annars efnis með aðgangsstjórn, verndaraðgerð, svo sem dulritun, brenglun eða annarri breytingu á verkinu eða öðru efni, eða með afritunarstjórn“.
    Af hálfu menntamálaráðuneytisins er lögð áhersla á að þrátt fyrir vernd tæknilegra ráðstafana verði einstaklingum í sem flestum tilvikum gert kleift að gera eintök til einkaafnota á grundvelli 1. mgr. 11. gr. laganna. Lagt er til að framleiðendur verka á stafrænu formi hagi afritunarvörnum sínum þannig að þær hindri eða takmarki ólögmæta eintakagerð og þess háttar, jafnframt því sem þær heimili lögmæta notkun samkvæmt undantekningarákvæðum höfundalaganna.
    Áhersla er lögð á að heimilt er, að svo miklu leyti sem höfundur hefur ekki lagt við því bann, að gera eintök af hljóm- og mynddiskum til einkanota innan heimilisins. Ef afritunarvörn ef fyrir hendi í upprunaeintaki er óheimilt að fara fram hjá henni í því skyni að gera afrit en vænta má þess að í framtíðinni verði afritunarvörnum þannig hagað að mögulegt verði að gera eitt eða fleiri afrit til einkanota; að því er a.m.k. stefnt með lögum þessum.
    Túlka ber 4. mgr. b-liðar 12. gr. frumvarpsins (4. mgr. 50. gr. b) í samræmi við framangreindar skilgreiningar í 3. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar. Af því leiðir að til þess að tæknilegar ráðstafanir megi njóta verndar þurfa þær að hafa það að markmiði að hindra eða takmarka aðgerðir sem höfundur eða annar rétthafi hefur ekki heimilað. Það merkir að nota skal hinar tæknilegu ráðstafanir í tengslum við ráðstafanir sem falla undir einkaréttindi höfunda skv. 2. gr. höfundalaga. Í þeim tilvikum sem hinum tæknilegu ráðstöfunum er beitt í þágu verka sem njóta ekki verndar eða annarra hugverka njóta tæknilegar ráðstafanir ekki verndar gegn sniðgöngu og þess háttar aðgerðum á grundvelli b-liðar 12. gr. frumvarpsins (50. gr. b).
    Sama regla á við þegar tæknilegum ráðstöfunum er beitt til að hindra eða takmarka athafnir eða notkun sem er óviðkomandi höfundarétti, t.d. þegar vafrað er á netinu.
    Sem dæmi um tæknilegar ráðstafanir sem njóta verndar má nefna afritunarvarnir sem felldar eru inn í stafrænt verk og þess háttar (hljómdiska, mynddiska o.fl.) í því augnamiði að koma í veg fyrir eintakagerð án samþykkis rétthafa. Þær tæknilegu ráðstafanir sem tengjast afritunarvörðum hljómdiskum og mynddiskum og falla undir ákvæðið taka eingöngu til tæknilegra ráðstafana upprunaeintaks sem geymir verk eða efni. Auðir tölvudiskar af gerðinni DVD+R sem hafa að geyma tæknilegar ráðstafnir sem koma í veg fyrir að þeir séu nýttir til að afrita efni sem verndað er að höfundarétti falla þannig ekki undir ákvæðið.
    Sumar afritunarvarnir kunna að hafa þá eiginleika að heimill fjöldi afrita er takmarkaður, t.d. þannig að einungis er unnt að gera eitt eða tvö afrit. Framangreindar reglur vernda þannig eingöngu þær tæknilegu ráðstafanir sem beinast gegn eða takmarka athafnir er fela í sér brot á höfundarétti, þ.e. gegn óheimilli eintakagerð.
    Að því marki sem nauðsynlegt kann að vera að sniðganga tæknilega ráðstöfun, t.d. til að geta nýtt hljóm- eða mynddisk eða netútvarp til einkaafnota, falla slíkar athafnir ekki undir lögvernd tæknilegra ráðstafana. Ákvæði 4. mgr. b-liðar 12. gr. frumvarpsins (4. mgr. 50. gr. b) felur ekki í sér lögvernd fyrir þær tæknilegu ráðstafanir sem útgefandi kann að hafa komið fyrir í t.d. hljómdiski eða mynddiski og varnað geta lögmætum eiganda að njóta hans. Ákvæðinu er ætlað að tryggja lögvernd skilvirkra tæknilegra ráðstafana sem hafa það að markmiði að koma í veg fyrir ólögmæta eintakagerð og dreifingu slíkra eintaka. Þegar svo stendur á að lögmætur eigandi hljómdisks eða mynddisks getur ekki spilað hann kann eigandinn að öðlast rétt til að sniðganga kóta í hljóm- eða mynddiski sem þjónar hlutverki tæknilegrar ráðstöfunar.
    Undir slíka heimild félli t.d. sniðganga svæðisskiptingar sem tengist DVD-mynddiskum, sem þjónar því hlutverki einu að skipta veröldinni upp í sex notkunarsvæði (e. region 1-6), með tilheyrandi svæðisstýringu mynddiska og mynddiskaspilara. Tæknilegar ráðstafanir varðandi svæðisskiptingu njóta ekki verndar að höfundarétti. Slíkar ráðstafanir miða einvörðungu að því að framleiðendur kvikmynda geti markaðssett þær á mismunandi tíma í hverjum heimshluta fyrir sig og selt mynddiska til neytenda á mismunandi verði eftir mörkuðum.
    Tæknilegar ráðstafanir, sem hindra eða gera erfiðara um vik t.d. afspilun og afritun hljómdiska eða mynddiska í einkaafnotum, falla enn fremur ekki undir vernd tæknilegra ráðstafana. Það á t.d. við um tæknilegar ráðstafanir sem valda því endurmiðlun hljóm- eða mynddisks verður aðeins möguleg í tölvu með tilteknu stýrikerfi en ekki t.d. í tölvu með svonefndu „opnu“ stýrikerfi (e. „open source“). Það er því undir rétthöfunum komið að tryggja það að unnt verði að endurmiðla efni af afritunarvörðum hljóm- og mynddiskum í tölvum með „opnu“ stýrikerfi og að koma þannig í veg fyrir að notendur þurfi að „brjóta upp“ kótann til að endurmiðla tónlist eða kvikmynd á slíkum tölvum notenda.
    Hins vegar verður talið að sniðganga tæknilegra ráðstafana á afritunarvörðum hljómdiski í þeim tilgangi einum að afrita efni hans yfir á MP3 spilara eða tölvu, þ.e. að gera eintak á *.mp3, *.wav, *.wma eða *.ogg sniði, sé óheimil sniðganga og feli þar með í sér brot gegn 1. mgr. b-liðar 12. gr. frumvarpsins (1. mgr. 50. gr. b). Hins vegar er lagt til að samhliða verði gerð breyting á 54. gr. laganna, sbr. b-lið 13. gr. frumvarpsins, sem felur það í sér að refsinæmi kemur ekki til álita þegar um er að ræða sniðgöngu tæknilegra ráðstafana við eintakagerð einstaklinga til eigin nota.
    Ráðstafanir sem fela í sér aðgangsstjórnun að verkum og annað þess háttar falla undir b-lið 12. gr. frumvarpsins (50. gr. b) ef markmið þeirra er að hindra eða takmarka afritun eða aðrar athafnir sem háðar eru höfundarétti. Gera verður þó þann fyrirvara að nánari afmörkun verndar hinna tæknilegu ráðstafana heyrir endanlega undir EFTA-dómstólinn en jafnframt munu úrlausnir Evrópudómstólsins hafa ákveðið fordæmisgildi fyrir EES/EFTA-ríkin að þessu leyti. Rétt þykir að benda á að skv. 3. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar er ekki öllum tæknilegum ráðstöfunum veitt lögvernd eftir ákvæðinu, heldur aðeins þeim sem teljast „skilvirkar“. Afritunarvarnir og þess háttar, sem felldar eru inn í verk á stafrænu formi, skulu þannig fullnægja verndartilgangi ákvæðisins. Þær tæknilegu ráðstafanir sem hindra í raun ekki athafnir sem háðar eru einkarétti höfunda teldust ekki fullnægjandi og nytu þar með ekki verndar á grundvelli ákvæðisins.
     Um 5. mgr. b-liðar (5. mgr. 50. gr. b).
    Um skýringu á 5. mgr. b-liðar 12. gr. (5. mgr. 50. gr. b) er vísað til athugasemda við a-lið 12. gr. (50. gr. a) hér að framan.
     Um 6. mgr. b-liðar (6. mgr. 50. gr. b).
    Í 6. mgr. b-liðar 12. gr. frumvarpsins (6. mgr. 50. gr. b) er tekið fram að vernd skilvirkra tæknilegra ráðstafana skv. 1.–4. mgr. ákvæðisins standi því ekki í vegi að gerðar séu rannsóknir á dulritun. Með hugtakinu „dulritun“ er átt við hvers konar gögn og upplýsingar á stafrænu formi sem varin eru með reikniriti (algórithma) þannig að úr verður dulmál.
     Um c-lið (50. gr. c).
     Ákvæði tilskipunarinnar – lögmæt sniðganga tæknilegra ráðstafana.
    Skv. 4. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar skulu aðildarríkin gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að rétthafar gefi þeim sem eiga rétt á undanþágu eða takmörkun, sem kveðið er á um í landslögum í samræmi við a-, c-, d- eða e-lið 2. mgr. 5. gr. eða a-, b- eða e-lið 3. mgr. 5. gr., kost á að nýta þessa undanþágu eða takmörkun í þeim mæli sem nauðsynlegt er til að nýta undanþáguna eða takmörkunina, að því tilskildu að sá sem nýtir hana hafi löglegan aðgang að viðkomandi verki eða efni. Þetta á við, þrátt fyrir lögvernd skv. 1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar, þegar rétthafar hafa ekki gripið til valfrjálsra ráðstafana, svo sem samninga milli rétthafa og annarra hagsmunaaðila, til að veita aðilum sem rétt eiga á að nýta sér undanþágu eða takmörkun.
    Í 4. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar segir enn fremur að aðildarríkjunum sé heimilt að gera nefndar ráðstafanir með tilliti til undanþágu eða takmörkunar sem kveðið er á um í samræmi við b-lið 2. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar nema rétthafi hafi þegar gert eftirgerð til einkanota mögulega að því marki sem nauðsynlegt er til að nýta viðkomandi undanþágu eða takmörkun og í samræmi við ákvæði b-liðar 2. mgr. 5. gr. og 5. mgr. 5. gr. en án þess að koma í veg fyrir að rétthafar beiti fullnægjandi ráðstöfunum að því er varðar fjölda eftirgerða í samræmi við þessi ákvæði.
    Tæknilegar ráðstafanir sem rétthafar beita af frjálsum vilja, þar á meðal ráðstafanir vegna framkvæmdar valfrjálsra samninga, og tæknilegar ráðstafanir vegna framkvæmdar ráðstafana sem aðildarríkin hafa gripið til skulu njóta lögverndar skv. 1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar.
    Samkvæmt 4. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar ber rétthöfum að tryggja eftir því sem unnt er að verka þeirra og annars efnis verði notið af ólíkum notendum, á grundvelli hinna lögbundnu undantekninga. Hvað varðar íslensku höfundalögin hefur 4. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar þannig þýðingu fyrir eftirtaldar undantekningar í II. kafla laganna:
          12. gr.,
          1. mgr. 14. gr.,
          1. mgr. 17. gr. að því er kennslu varðar,
          18. gr. 1. og 2. mgr. um framleiðslu kennslueintaka,
          1. tölul. 1. mgr. 21. gr.,
          5. mgr. 23. gr.
    Samkvæmt 4. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar er aðildarríkjunum jafnframt samhliða skylt að gera viðeigandi ráðstafanir þar sem ekki nást samningar milli hlutaðeigandi aðila. Til þess að tryggja ásættanlega lausn á ágreiningi sem upp kann að koma á þessu sviði þykir rétt að gefa hvorum/hverjum aðila um sig færi á því að vísa mögulegum ágreiningi til úrskurðarnefndar skv. 57. gr. höfundalaga. Nefndin er óháð þriggja manna úrskurðarnefnd sem menntamálaráðherra skipar úr hópi fimm manna sem höfundaréttarnefnd tilnefnir og felur niðurstaða hennar í sér endanlegan úrskurð á stjórnsýslustigi. Um störf nefndarinnar gildir reglugerð nr. 97/1996.
    Í niðurlagi 4. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar kemur fram að ákvæði fyrstu og annarrar undirgreinar gilda ekki um verk eða annað efni sem gert er aðgengilegt almenningi samkvæmt samningsskilmálum á þann hátt að hver og einn geti fengið aðgang að verkunum á þeim stað og á þeirri stund sem hann sjálfur kýs.
    Loks er tekið fram að við beitingu 6. gr. með skírskotun til tilskipana 92/100/EBE og 96/9/EB gildi 4. mgr. hennar að breyttu breytanda.
    Ákvæði c-liðar 12. gr.
    Ákvæðið er nýmæli og felur í sér innleiðingu á 4. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar sem varðar sambandið á milli bannákvæða og 4. mgr. 6. gr. gegn því að skilvirkar tæknilegar ráðstafanir séu sniðgengnar og ýmissa undantekninga frá einkaréttinum. Í samræmi við 1. mgr. b-liðar 12. gr. frumvarpsins (1. mgr. 50. gr. b), sem felur í sér lögfestingu á 1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar, er sérhver sniðganga eða brottnám afritunarvarna og þess háttar óheimil, óháð tilgangi, án samþykkis rétthafa. Þannig getur hin nýja tækni komið rétthöfum til hjálpar við að vernda verk sín og annað efni gegn óheimilli nýtingu. Á móti getur slík tækni staðið því í vegi að notendur geti nýtt sér takmarkanir á einkarétti höfunda skv. II. kafla höfundalaganna, sbr. 5. gr. tilskipunarinnar, en þar er ráð fyrir því gert að tilteknar athafnir séu heimilar án þess að fyrir liggi samþykki rétthafa. Á þetta m.a. við um undantekningar í þágu sjón- og heyrnarskertra, menntastofnana, almenningsbókasafna o.fl. Sameiginlegt með þessum undantekningum er að þær taka tillit til annars vegar hagsmuna rétthafa og hins vegar hagsmuna hins opinbera til óhindraðrar nýtingar á höfundarréttarvernduðu efni. Af samhenginu á milli þessara tvenns konar hagsmuna leiðir að rétthafar geta ekki einhliða vikið til hliðar undantekningarákvæðunum í II. kafla höfundalaganna, heldur þarf slíkt að eiga sér stað með gagnkvæmum samningi rétthafa og hagsmunaaðila.
     Um 1. mgr. c-liðar (1. mgr. 50. gr. c).
    Samkvæmt 1. mgr. c-liðar 12. gr. frumvarpsins (1. mgr. 50. gr. c) getur úrskurðarnefndin eftir kröfu notanda gert rétthafa að veita notanda úrræði til fá aðgang, þrátt fyrir skilvirkar tæknilegar ráðstafanir, svo að notandinn eða tilteknir notendahópar megi nýta sér heimildir sínar á grundvelli ákvæðanna í 12. gr., 2. mgr. 14. gr., 1. mgr. 17. gr. að því er kennslu varðar, 1.–4. mgr. 19. gr., 1. tölul. 1. mgr. 21. gr., 1. og 2. mgr. 22. gr., 22. gr. a og 5. mgr. 23. gr. Nefndin getur í því sambandi kveðið á um skilmála fyrir nýtingunni, þ.m.t. að rétthafar leggi til eintak á stafrænu eða hliðrænu formi sem ekki hefur að geyma afritunarvörn eða þess háttar búnað. Á hinn bóginn getur nefndin lagt fyrir rétthafana að afhenda kóta, lykla, afbrenglunarbúnað og þess háttar til viðkomandi notenda. Við úrlausn sína getur nefndin m.a. lagt mat á hvort raunverulegar samningaumleitanir hafi farið fram á milli rétthafa og viðkomandi notenda. Nefndinni ber jafnframt að taka tillit til hins svonefnda þriggja þrepa skilyrðis í 5. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar sem kveður svo á að takmarkanir á einkarétti megi aðeins leggja á í sérstökum tilvikum, þær megi ekki stríða gegn eðlilegri hagnýtingu verks eða annars efnis og þær megi ekki með ósanngjörnum hætti leiða til skerðinar á lögmætum hagsmunum rétthafa. Á móti hafa rétthafarnir rétt til þess, að svo miklu leyti sem ákvörðun nefndarinnar veitir þeim svigrúm, að beita öðrum tæknilegum ráðstöfunum sem til að mynda takmarka fjölda afritaðra eintaka sem notanda er heimilt að framkalla á grundvelli undantekningarreglu. Forræði nefndarinnar nær til allra verka og annars efnis, án tillits til þess hvort heimilisfesti rétthafans er hérlendis, í öðru EES-ríki eða ríki utan EES. Er það í samræmi við almenna reglu höfundalaganna að þau taki til allra tilvika á íslensku yfirráðasvæði. Á þeim grundvelli er þannig unnt að beita c-lið 12. gr. frumvarpsins (50. gr. c) um tilvik þar sem notandi nýtur undantekningarregla á íslensku yfirráðasvæði. Ákvarðanir nefndarinnar eru því bindandi fyrir alla rétthafa án tillits til tengsla þeirra við Ísland. Skv. 2. málsl. 1. mgr. c-liðar 12. gr. frumvarpsins (2. málsl. 1. mgr. 50. gr. c) getur sá notandi sem fengið hefur úrlausn hjá nefndinni sniðgengið sjálfur tæknilega ráðstöfun ef rétthafinn hefur ekki veitt honum aðgang innan fjögurra vikna frá ákvörðun nefndarinnar. Um slíka heimild vísast til 51. skýringargreinar tilskipunarinnar þar sem fram kemur að aðildarríkin skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að rétthafar, með því að breyta tæknilegri ráðstöfun sem hefur verið gerð eða með öðrum hætti, veiti þeim sem eiga rétt á slíkum undanþágum eða takmörkunum viðeigandi tækifæri til að nýta þær. Almenn forsenda fyrir úrlausnarhæfi nefndarinnar er að þeir notendur sem bera fyrir sig undantekningu hafi lögmætan aðgang að þeim verkum og öðru efni sem fyrirhugað er að nýta á grundvelli undantekningarinnar. Í því felst t.d. að notandinn hafi á lögmætan hátt keypt eintak verks eða samið um aðgang að verki t.d. í formi heildarleyfis (samningskvaðar). Hins vegar má gera ráð fyrir því að í heildarleyfum (samningskvöðum), áskriftarsamningum og þess háttar sé mælt fyrir um rétt einstakra notenda gagnvart tæknilegum ráðstöfunum sem beitt verður til að takmarka gerð eintaka. Ákvæði 1. mgr. c-liðar 12. gr. frumvarpsins (1. mgr. 50. gr. c) verður ekki beitt þegar kveðið er á um beitingu undantekninga í samningi. Taka ber fram að unnt er að bera ákvarðanir nefndarinnar undir dómstóla. Í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar frestar málshöfðun ekki framkvæmd á ákvörðun nefndarinnar.
    Ákvæði c-liðar 12. gr. frumvarpsins (50. gr. c) tekur ekki til undantekninga í 11. gr. höfundalaga um eintakagerð til einkanota. Skv. 4. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar, sbr. skýringargrein nr. 52, eru aðildarríkin ekki skyld til að innleiða ráðstafanir gagnvart rétthöfunum þegar um er að tefla heimildina til eintakagerðar til einkanota. Við samningu frumvarps þessa hefur komið til álita hvort veita eigi úrskurðarnefnd skv. 57. gr. heimild, hvað varðar 11. gr. laganna um eintakagerð til einkanota, til að mæla fyrir um að rétthafar veiti einstaklingum aðgang að verkum sínum og öðru efni. Er það einkanlega í því ljósi að rétthafar hafa í töluverðum mæli tekið upp tæknilegar ráðstafanir til að vernda verk sín og annað efni gegn óheimilli afritun o.fl. þess háttar. Markmið 6. gr. tilskipunarinnar er að hvetja rétthafana til að beita tæknilegum ráðstöfunum sem komið geta í veg fyrir afritun stafrænna verka. Það er álit menntamálaráðuneytisins að þessum tilgangi verði ekki náð ef almennt verður lagt fyrir rétthafana að fjarlægja afritunarvarnir á verkum þeirra. Sú staða að rétthöfunum verði gert að veita einstaklingum sem þess óska aðgang að verkum sínum á stafrænu formi í því skyni að gera stafrænt eintak til eigin nota getur hæglega unnið gegn markaðssetningu slíkra verka, jafnframt því að hindra stjórnun hinnar ólöglegu stafrænu eintakagerðar. Á sama tíma gæti lögþvingaður afritunarréttur unnið gegn útbreiðslu tæknilegra ráðstafana og þróun þeirra. Með tilliti til þessara sjónarmiða telur menntamálaráðuneytið útilokað að fallast á tillögur í framangreinda veru. Með hliðsjón af eðli hinna nýju reglna um tæknilegar ráðstafanir o.fl. er talið nægilegt að fylgjast með þróuninni á því sviði þannig að ákvæðin verði endurskoðuð síðar í ljósi fenginnar reynslu.
     Um 2. mgr. c-liðar (2. mgr. 50. gr. c).
    Í ákvæðinu er gerð grein fyrir skilyrðum við beitingu 1. mgr. Gengið er út frá því að rétthafar geri sjálfviljugir ráðstafanir í formi samninga o.s.frv. sem veita einstökum notendum aðgang á grundvelli þeirra heimildarákvæða sem upp eru talin í 1. mgr. Felur það í sér að ekki er unnt að leggja ágreining fyrir nefndina á grundvelli 1. mgr., nema reynt hafi verið með sannanlegum hætti að leysa ágreining aðila með samningi og þess háttar. Af skýringargrein 51 í tilskipuninni leiðir að rétthöfum ber að hafa frumkvæði að valfrjálsum ráðstöfunum, t.d. með því að leggja til og ljúka samningum á milli rétthafa og viðkomandi hagsmunaaðila, þannig að þau markmið náist sem að er stefnt með undantekningarákvæðunum. Af hálfu menntamálaráðuneytisins er talið nægilegt að fylgjast með því og staðreyna að gengið sé til nauðsynlegra samninga þannig að tæknilegar ráðstafanir standi ekki í vegi fyrir nýtingu á grundvelli undantekningarákvæðanna.
     Um 3. mgr. c-liðar (3. mgr. 50. gr. c).
    Í ákvæðinu er lagt til að 1. mgr. taki ekki til þeirra verka og annars efnis sem boðið er upp á í pöntunarþjónustu á grundvelli samningssambands. Skýring þessa er sú að í 4. málsl. 4. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar segir að skylda aðildarríkjanna til þess að gera viðeigandi ráðstafanir ef ekki takast samningar á milli rétthafa og notenda gildi ekki þegar um er að ræða gagnvirka pöntunarþjónustu, þ.e. þegar efni er gert aðgengilegt almenningi samkvæmt samningsskilmálum á þann hátt að hver og einn geti fengið aðgang að verkunum á þeim stað og á þeirri stundu er hann sjálfur kýs. Er þessi skilningur áréttaður í 53. skýringargrein tilskipunarinnar. Með framangreindri tilvísun er átt við þjónustu á netinu og sambærilega þjónustu, svo sem gagnvirkt sjónvarp, þar sem samningsákvæði mæla fyrir um skilyrði aðgangs og afnota af þjónustunni. Í orðalagi ákvæðisins felst jafnframt að unnt er að bera þá þjónustu á netinu sem ekki er gagnvirk undir úrskurðarnefnd skv. 57. gr. laganna.
     Um d-lið (50. gr. d).
     Ákvæði tilskipunarinnar – vernd upplýsinga um réttindaumsýslu.
    Í 1. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar er kveðið á um skyldur aðildarríkjanna til að veita fullnægjandi lögvernd gegn hverjum þeim sem vitandi vits og án heimildar grípur til eftirfarandi aðgerða:
     a.      fjarlægja eða breyta rafrænum upplýsingum um réttindaumsýslu,
     b.      dreifa, flytja inn til dreifingar, útvarpa, miðla eða gera aðgengilegt almenningi verk eða annað efni sem nýtur verndar samkvæmt tilskipuninni eða skv. III. kafla tilskipunar um lögvernd gagnagrunna 96/9/EB þar sem rafrænar upplýsingar um réttindaumsýslu hafa verið fjarlægðar eða þeim breytt án heimildar.
    Eins og í 6. gr. er refsinæmi bundið við að viðkomandi viti eða hafi fulla ástæðu til að vita að með þessum aðgerðum hvetji hann til brota á höfundarétti samkvæmt lögum eða hvers konar réttindum, sem eru skyld höfundarétti, samkvæmt lögum eða til brota á sinnar tegundar (sui generis) rétti, sem kveðið er á um í III. kafla tilskipunar um lögvernd gagnagrunna 96/9/EB, eða gerir brotin möguleg, auðveldar þau eða leynir þeim.
    Í 2. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar er hugtakið „upplýsingar um réttindaumsýslu“ skýrt sem: upplýsingar, sem rétthafar veita og sem auðkenna verkið eða annað efni, sem um getur í þessari tilskipun eða sem fellur undir sinnar tegundar (sui generis) rétt sem kveðið er á um í III. kafla tilskipunar 96/9/EB, og sem auðkenna höfundinn eða aðra rétthafa, eða upplýsingar um skilyrði og skilmála fyrir notkun verkanna eða annars efnis og um allar tölur og kóta sem tákna slíkar upplýsingar.
     Ákvæði d-liðar 12. gr.
    Ákvæðið sem felur í sér innleiðingu á 7. gr. tilskipunarinnar er nýmæli.
    Í 1. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar er mælt svo fyrir að aðildarríkin skuli kveða á um fullnægjandi lögvernd gegn hverjum þeim sem vitandi vits og án heimildar grípur til þess að fjarlægja eða breyta rafrænum upplýsingum um réttindaumsýslu. Sama gildir um hvern þann sem dreifir, flytur inn til dreifingar, útvarpar, miðlar eða gerir aðgengilegt almenningi verk eða annað efni sem nýtur verndar samkvæmt tilskipuninni eða skv. III. kafla tilskipunar 96/9/EB þótt rafrænar upplýsingar um réttindastjórn hafi verið fjarlægðar eða verkunum eða efninu breytt án heimildar.
    Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar geta „upplýsingar um réttindaumsýslu“ verið upplýsingar sem rétthafar veita og sem auðkenna verkið eða annað efni, sem um getur í tilskipuninni eða sem fellur undir sinnar tegundar (sui generis) rétt sem kveðið er á um í III. kafla tilskipunar 96/9/EB, og sem auðkenna höfundinn eða aðra rétthafa eða upplýsingar um skilyrði og skilmála fyrir notkun verkanna eða annars efnis og um allar tölur og kóta sem tákna slíkar upplýsingar.
    Að baki ákvæðinu liggja væntingar EB- og EES-ríkjanna um að rétthafar muni í töluverðum mæli nýta sér nýjar aðferðir við stjórn réttinda sinna. Af tækniþróun hefur leitt að rétthafar geta nú stjórnað og framfylgt notkun á vernduðum verkum sínum og öðru efni. Slíkt er m.a. unnt með því að setja stafræn vatnsmerki á vernduð verk sem tryggir að aðeins lögmætir notendur geti fengið að því aðgang og afnot. Önnur aðferð við réttindastjórnun er notkun rafrænna undirskrifta þar sem rétthafinn dulritar innihaldið á þann hátt að aðeins lögmætur notendur fá í hendur lausnarorð, kóta og þess háttar sem afbrenglar innihaldið. Einn ávinningur af stafrænni réttindastjórnun er að rétthafarnir geta tryggt réttindi sín og gefið út afnotaleyfi miðað við einstaka notendur. Eins og við á um hvers konar dulritun er samt sem áður hætta á því að hinar rafrænu upplýsingar verði fjarlægðar eða þeim breytt í því skyni að brjóta á rétti höfundar verndaðs efnis. Markmiðið með 7. gr. tilskipunarinnar er að styðja við notkun stafrænnar réttindastjórnunar með því að leggja bann við því að fjarlægja eða breyta rafrænum upplýsingum, auk dreifingar og framsal verka þar sem upplýsingar hafa verið fjarlægðar eða þeim breytt.
     Um 1. mgr. d-liðar (1. mgr. 50. gr. d).
    Samkvæmt ákvæðinu er bannað að fjarlægja eða breyta rafrænum upplýsingum um réttindaumsýslu. Í 2. tölul. 1. mgr. er jafnframt lagt bann við að dreifa, flytja inn til dreifingar eða miðla til almennings verkum eða öðru efni þar sem rafrænar upplýsingar um réttindaumsýslu hafa verið fjarlægðar eða þeim breytt án heimildar.
     Um 2. mgr. d-liðar (2. mgr. 50. gr. d).
    Hér er mælt fyrir um skilyrði fyrir beitingu 1. mgr. á þann veg að þar til greindar athafnir eru því aðeins refsinæmar að hlutaðeigandi einstaklingur sem þeim beitti eða stóð að gerningi hafi vitað eða mátt vita að með gerningnum hafi hann komið til leiðar, gert kleift, auðveldað eða leynt broti gegn rétti til verndaðs verks eða annars efnis. Í þessu felst skilyrði um huglæga afstöðu geranda til þeirra athafna sem 1. mgr. leggur bann við.
    Af 1. málsl. 2. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar leiðir að með hugtakinu „upplýsingar um réttindaumsýslu“ er átt við „upplýsingar, sem rétthafar veita og sem auðkenna verkið eða annað efni, sem um getur í þessari tilskipun eða sem fellur undir sinnar tegundar (sui generis) rétt sem kveðið er á um í III. kafla tilskipunar um lögvernd gagnagrunna 96/9/EB, og sem auðkenna höfundinn eða aðra rétthafa, eða upplýsingar um skilyrði og skilmála fyrir notkun verkanna eða annars efnis og um allar tölur og kóta sem tákna slíkar upplýsingar“.
    Í 2. málsl. 2. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar er svo fyrir mælt: „Fyrsta undirgrein gildir ef eitthvert þessara upplýsingaatriða tengist afriti af verkinu eða birtist í tengslum við miðlun á verkinu eða efninu eða birtist í tengslum við miðlun til almennings á verkinu eða öðru efni sem um getur í þessari tilskipun eða sem fellur undir sinnar tegundar (sui generis) rétt sem kveðið er á um í III. kafla tilskipunar 96/9/EB.“
    Af þessu leiðir að til þess að rafrænar upplýsingar um réttindaumsýslu njóti verndar á grundvelli 7. gr. tilskipunarinnar í tengslum við verk eða annað efni þurfa þær að njóta verndar samkvæmt höfundalögum. Í þeim tilvikum sem upplýsingar um réttindaumsýslu eru notaðar í tengslum við verk eða annað efni sem ekki nýtur verndar veitir 7. gr. ekki lögvernd gegn því að upplýsingum sé breytt eða þær fjarlægðar o.fl. þess háttar. Rétt þykir að benda á að nánari afmörkun á lögvernd rafrænna upplýsinga um réttindaumsýslu heyrir að síðustu undir EFTA-dómstólinn. Ákvæði d-liðar 12. gr. frumvarpsins (50. gr. d) verður beitt um öll vernduð verk, þ.m.t. tölvuforrit og önnað verndað efni. Brot gegn d-lið 12. gr. frumvarpsins (50. gr. d) geta varðað refsiábyrgð skv. 5. tölul. 1. mgr. 54. gr. laganna, sbr. 13. gr. frumvarpsins.

Um 13. gr.


     Um a-lið.
    Skv. 6. og 7. gr. tilskipunarinnar, sbr. 1. mgr. 8. gr., skulu aðildarríkin innleiða viðeigandi refsingar og úrræði vegna brota gegn þeim réttindum sem veitt eru í framangreindum ákvæðum tilskipunarinnar.
    Markmiðið með breytingunni er að að lögfesta sameiginlegt refsiákvæði fyrir brot gegn ákvæðum 12. gr. frumvarpsins sem verður að V. kafla A í lögunum. Lagt er til að nýjum ákvæðum, 50. gr. a, 50. gr. b og 50. gr. d, verði bætt við í upptalningu í 5. tölul. 1. mgr. 54. gr. laganna.
    Skv. 54. gr. gildandi laga geta brot gegn þar til greindum ákvæðum laganna sem framin eru af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi varðað sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Sömu saknæmisskilyrði mundu því eiga við brot gegn ákvæðum a- og b-liðar 12. gr. frumvarpsins (50. gr. a og 50. gr. b). Hvað varðar saknæmisskilyrði brota gegn d-lið 12. gr. frumvarpsins (50. gr. d) gengur 2. mgr. þess ákvæði framar 54. gr., aðeins yrði refsað fyrir slíkt brot ef hinn brotlegi vissi eða mátti vita að með verknaði sínum kom hann til leiðar, gerði kleift, auðveldaði eða leyndi broti gegn rétti rétthafa til verks eða annars efnis sem nýtur verndar samkvæmt lögunum.
    Um bótarétt rétthafa vegna brota á framangreindum ákvæðum V. kafla A fer eftir almennum reglum skaðabótaréttar, sbr. 56. gr. gildandi laga.
    Unnt er að krefjast upptöku og eyðileggingar þeirra tækja og búnaðar sem lagt er hald á vegna opinberrar rannsóknar ætlaðra brota gegn ákvæði 2. mgr. b-liðar 12. gr. frumvarpsins (2. mgr. 50. gr. b), sbr. 55. gr. gildandi laga.
     Um b-lið.
    Hér er lagt til að ný málsgrein, 4. mgr., bætist við 54. gr. laganna að fyrirmynd sambærilegs ákvæðis 2. mgr. 56. gr. a í finnsku höfundalögunum eins og lagt hefur verið til að því verði breytt með finnsku stjórnarfrumvarpi til innleiðingar á tilskipun 2001/29/EB (RP 28/2004 rd) þar í landi. Samkvæmt ákvæðinu er nánar tilgreind eintakagerð einstaklinga til einkanota undanþegin refsinæmi skv. 2. mgr. 54. gr. Hér er um að ræða eintakagerð eftir einstöku eintaki verndaðs tölvuforrits eða eintaki véllæsilegs gagnagrunns sem hefur verið gefinn út, seldur eða varanlega látinn af hendi með samþykki höfundar eða framleiðanda. Enn fremur fellur hér undir eintakagerð sem fram fer með sniðgöngu tæknilegra ráðstafana, andstætt 1. mgr. b-liðar 12. gr. frumvarpsins (1. mgr. 50. gr. b). Framangreindar athafnir eiga það sameiginlegt að þær fara fram innan veggja heimilisins og eru ætlaðar til einkanota eingöngu. Með undantekningunum er einstaklingum gert kleift að nýta sér ýmsan tæknibúnað sem í sjálfu sér er ekki ólögmætur en notkun hans kann að orka tvímælis vegna ákvæða 4. og 5. tölul. 2. mgr. 11. gr. gildandi laga, sem og 1. mgr. b-liðar 12. gr. frumvarpsins (1. mgr. 50. gr. b). Dæmi um slíkan búnað eru tölvur, mp3-spilarar og annar þess háttar búnaður sem er þeim eiginleikum búinn að eintakagerð eftir vernduðu eintaki tölvuforrits, eintaki véllæsilegs gagnagrunns eða hljómdiski er nauðsynlegur þáttur í löglegri notkun búnaðarins. Undantekningar eiga þó aðeins við um ráðstafanir sem hafa það að markmiði að gera einstaklingi kleift að njóta löglegra eintaka verka. Dæmi um slíka notkun, sem er refsilaus samkvæmt ákvæðinu, er til að mynda sniðganga afritunarvarnar á hljómdiski í því skyni að gera eintak til notkunar í tölvu eða mp3-spilara. Það er mat menntamálaráðuneytisins að framangreindar undantekningar, eins og þeim er lýst hér, stríði ekki gegn eðlilegri hagnýtingu verndaðra verka og efnis og skerði ekki með ósanngjörnum hætti lögmæta hagsmuni rétthafa.

Um 14. gr.


    Hér er um tæknilega breytingu að ræða. Af EES-rétti leiðir að Ísland er skuldbundið til að vernda verk aðila frá öðrum löndum innan hins Evrópska efnahagssvæðis (EES), þ.e. landa Evrópusambandsins, auk Noregs og Liechtenstein, með sama hætti og um verk íslenskra höfunda væri að ræða. Af því leiðir að reglan um innlenda meðferð (e. national treatment) gildir innan EES. Um þetta atriði er nú fjallað í 4. tölul. 1. mgr. 60. gr. gildandi laga sem lagt er til að verði leyst af hólmi með ákvæði þessu. Nauðsynlegt þykir að jafngildi allra EES-verka leiði beint af texta laganna og er að því stefnt með þeim breytingum sem felast í a-lið 14. gr. frumvarpsins sem jafnframt fellir í einn tölulið ákvæði 1. og 2. tölul. 1. mgr. 60. gr. gildandi laga. Samsvarandi breyting er svo lögð til á 2. mgr. 60. gr., sbr. c-lið 14. gr. frumvarpsins.

Um 15. gr.


    Ákvæðið felur í sér breytingu á gildandi reglum 61. gr. höfundalaga um svonefnd tengslaskilyrði (e. points of attachment, d. tilknytningskriterier) hvað varðar rétthafa skyldra réttinda (grannréttinda), þ.e. listflytjenda og framleiðenda hljóð- og myndrita. Markmiðið með breytingunum er að færa skilyrði verndar til samræmis við þá alþjóðlegu sáttmála sem gerðir hafa verið á þessu sviði, þ.e. Rómarsáttmálann frá 1961 og WIPO-sáttmálann um vernd listflytjenda og framleiðenda – WPPT (WIPO Performances and Phonograms Treaty) frá 1996. Fullgilding Íslands á síðarnefnda sáttmálanum verður í kjölfar lögfestingar frumvarps þessa, ásamt hinum EES/EFTA-ríkjunum, þ.e. Noregi og Liechtenstein. Í mars 2005 höfðu 79 ríki fullgilt Rómarsáttmálann en 51 ríki hafa gerst aðilar að WCT og 49 ríki hafa gerst aðilar að WPPT. Jafnframt þessu er markmiðið að taka beint fram í lagatextanum að upptökur sem gerðar eru í öðrum EES-ríkjum njóti sömu réttarverndar og upptökur sem gerðar eru hér á landi.
    Ákvæði gildandi laga um listflytendur og framleiðendur hljóð- og myndrita byggjast á svonefndu upptökuskilyrði, sbr. 61. gr., sbr. 47. gr. gildandi laga. Í því felst að hin íslensku lög vernda listflutning flytjenda, auk hljóð- og myndrita, sem fram fara hér á landi, án tillits til ríkisfangs framleiðanda. Með breytingum skv. 16. gr. laga nr. 60/2000 var verndin einnig veitt listflutningi og hljóðupptökum sem fram fóru í öðrum EES-ríkjum og öðrum aðildarlöndum Rómarsáttmálans. Beiting upptökuskilyrðisins byggist á aðildartilkynningu Íslands vegna 17. gr. Rómarsáttmálans við fullgildingu hans 15. júní 1994.
    Hvað varðar vernd fyrir útvarps- og sjónvarpsfyrirtæki var upptökuskilyrðið útvíkkað með valkvæðu ríkisfangsskilyrði þannig að fyrirtæki með höfuðstöðvar á Íslandi (eða í öðru EES- ríki eða aðildarlandi Rómarsáttmálans) fellur undir verndina, sbr. 4. mgr. 61. gr.
    Í WPPT, sem fjallar um vernd listflytjenda og framleiðenda hljóðrita, eru engin sjálfstæð tengslaskilyrði, heldur er vísað til Rómarsáttmálans að þessu leyti. Með tilliti til annarra landa er Ísland eitt af fáum löndum sem beitir eingöngu upptökuskilyrðinu. Flest önnur ríki beita jafnframt ríkisfangsskilyrðinu um framleiðendur hljóðrita. Nokkur ríki sameina ríkisfangsskilyrðið með útgáfuskilyrði í stað upptökuskilyrðisins. Vegna samræmis við aðildina að WPPT í gegnum tilskipunina og EES-samstarfið er talið skynsamlegt að EES-ríkin beiti öll sömu tengslaskilyrðunum, eftir því sem kostur er. Jafnframt þykir rétt að jöfn staða flutnings og upptaka frá öðrum EES-ríkjum við íslenskan flutning og upptökur komi fram með skýrum hætti í lagatextanum eins og nú er kveðið á um í 3. og 4. mgr. 61. gr. Í ljósi þessa er lagt til að í 3. mgr. 61. gr. bætist ríkisfangsskilyrði við upptökuskilyrðið. Hins vegar er talið of langt gengið að beita báðum skilyrðum samhliða. Af breytingum á 61. gr. í ákvæðinu leiðir að leggja verður til að listflytjendur njóti verndar óháð aðstæðum ef listflutningi þeirra er endurmiðlað af hljóðriti sem verndað er á grundvelli 61. gr. Hefur þetta raunhæfa þýðingu ef hljóðritið er verndað vegna hins nýja ríkisfangsskilyrðis í 2. eða 3. tölul. 3. mgr. Hugtakið „búsettir“ merkir að viðkomandi aðilar hafi hér heimilisfesti í skilningi lögheimilislaga og að sú búseta fullnægi að öðru leyti skilyrðum einkamálalaga um heimilisvarnarþing. Orðalagið aðalstöðvar í 61. gr. ber að skilja þannig að félag hafi höfuðstöðvar í því landi, með tilliti til reglna viðkomandi lands þar sem félagið er stofnað og þar sem félagið hefur höfuðstöðvar sínar, hefur lögheimili eða þar sem verulegur hluti starfseminnar fer fram. Ef tengsl fyrirtækis við ríki eru aðeins í gegnum stofnun þess og lögheimili í sama ríki getur þó verið um höfuðstöðvar að ræða ef um raunverulega starfsemi er að ræða og fyrirtækið hefur tengsl við efnahagskerfi viðkomandi ríkis. Félag getur þó aðeins haft einar höfuðstöðvar.
    Með tilliti til orðalagsins hljóðrit í 61. gr. leiðir af svonefndri samþykktri yfirlýsingu (e. Agreed Statement) við 2. mgr. 3. gr. WPPT að með upptöku er átt við undirbúning frumupptöku (e. masterband). Hvað varðar vernd fyrir framleiðendur myndrita, sbr. 2. mgr. 61. gr., er talið eðlilegast að láta tengslaskilyrðin fylgja sömu atriðum og lagt er til að vernd fyrir framleiðendur hljóðrita fylgi. Ákvæði 2. mgr. 61. gr. eiga því jafnt við um hljóð- og myndrit.
    Samkvæmt lögunum er flutningur og upptökur sem hafa tengsl við Ísland og önnur EES- ríki verndaðar. Sama gildir einnig um aðildarríki Rómarsáttmálans að sumu leyti, þ.e. rétturinn til endurgjalds. Skv. 2. mgr. 61. er verndin sem fyrr skilyrt við ríki sem veita íslenskum rétthöfum gagnkvæman rétt. Þegar Ísland gerist aðili að WPPT mun verndin jafnframt ná til annarra landa sem gerst hafa aðilar að samningnum. Þar sem vernd myndrita fellur ekki undir Rómarsáttmálann eða aðra alþjóðlega sáttmála mun verndin að því leyti einvörðungu ná til EES-ríkja.
    Á afmörkuðum sviðum nær verndin yfir allan flutning, hljóðrit o.fl., án tillits til hvort tengsl eru við aðildarríki Rómarsáttmálans.

Um 16. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Í ljósi hraðrar þróunar í notkun tæknilegra ráðstafana og upplýsinga um réttindaumsýslu til að vernda efni á stafrænu formi sem er háð höfundarétti er æskilegt að endurskoðun ákvæða b- og c-liðar 12. gr. frumvarpsins (50. gr. b og 50. gr. c) sæti endurskoðun að tveimur árum liðnum með tilliti til þess tjóns er hlýst af eintakagerð til einkanota og efnahagslegum áhrifum fyrrgreindra verndarráðstafana í því sambandi.
Fylgiskjal I.


Samanburður á ákvæðum frumvarpsins og gildandi höfundalögum.GILDANDI LÖG
         

II. KAFLI
Takmarkanir á höfundarétti.11. gr.

    Heimilt er að gera eintök af birtu verki til einkanota eingöngu. Enginn má þó gera eða láta gera fleiri en þrjú slík eintök til notkunar í atvinnu sinni.

    Ákvæði 1. mgr. veita ekki rétt til:
     1.      mannvirkjagerðar eftir verki sem verndar nýtur eftir reglum um byggingarlist,
     2.      eftirgerðar verka sem verndar njóta eftir reglum um höggmyndalist, nytjalist eða dráttlist ef leitað er til hennar aðstoðar annarra manna,
     3.      eftirgerðar verndaðra tónverka og bókmenntaverka sé leitað til hennar aðstoðar aðila sem taka slíka eftirgerð að sér í atvinnuskyni,
     4.      eftirgerðar verndaðra tölvuforrita,
     5.      eftirgerðar véllæsilegra eintaka gagnagrunns.
    Höfundar verka, sem útvarpað hefur verið eða gefin hafa verið út á hljóðriti eða myndriti, eiga rétt á sérstöku endurgjaldi vegna upptöku verka þeirra til einkanota á bönd, diska, plötur eða aðra þá hluti, í hvaða formi sem er, sem taka má upp á hljóð og/eða myndir með hliðrænum eða stafrænum hætti. Enn fremur skal greiða endurgjald af tækjum sem einkum eru ætluð til slíkrar upptöku. Gjöld þessi skulu greidd hvort sem um innlenda eða innflutta framleiðslu er að ræða og hvílir skylda til að svara gjöldunum á innflytjendum og framleiðendum.
    Gjöld skv. 3. mgr. skulu nema:
     1.      Af tækjum skal endurgjaldið vera 4% af innflutningsverði eða framleiðsluverði ef um innlenda framleiðslu er að ræða.
     2.      Af böndum, diskum, plötum eða öðrum hlutum til upptöku hljóðs eingöngu skal gjaldið nema 35 kr.
     3.      Af böndum, diskum, plötum eða öðrum hlutum til upptöku mynda, eftir atvikum ásamt hljóði, skal gjaldið nema 100 kr.
     4.      Gjöld skv. 2. og 3. tölul. eru miðuð við að lengd flutningstíma sé allt að 180 mínútur fyrir hluti til hljóðupptöku og allt að 240 mínútur fyrir hluti til myndupptöku. Sé flutningstími lengri hækkar gjaldið hlutfallslega sem því nemur.
    Menntamálaráðherra setur nánari reglur um gjöld skv. 3. og 4. mgr., þar á meðal af hvaða hlutum og tækjum gjöldin skuli greidd. Lækka má fjárhæðir, sem greindar eru í 4. mgr., af böndum, diskum, plötum eða öðrum hlutum ef ætla má að einungis hluti þeirra sé ætlaður til upptöku skv. 3. mgr.
    Samtök höfundaréttarfélaga, þar með talin félög listflytjenda og framleiðenda, sjá um innheimtu á gjöldum skv. 3. mgr. og ráðstafa þeim. Samtökunum er heimilt að fela tollyfirvöldum innheimtu á gjöldum þeim sem innflytjendur skulu standa skil á. Samtökunum skulu settar samþykktir í samvinnu við menntamálaráðuneytið og eru þær háðar staðfestingu þess. Í samþykktunum skal meðal annars ákveða skiptingu tekna með aðildarfélögum og þar má einnig mæla fyrir um framlög til styrktar útgáfu hljóð- og myndrita.

12. gr.

    Ákveða má í reglugerð, að tilgreindum opinberum bókasöfnum, skjalasöfnum og vísinda- og rannsóknastofnunum sé heimilt að ljósmynda verk til sjálfs sín nota. Greina skal skilyrði fyrir heimildinni, þar á meðal um umráð eintakanna og varðveislu. Ekki má lána þau né afhenda út fyrir stofnunina.


14. gr.

    Heimil er tilvitnun í birt bókmenntaverk, þar á meðal leiksviðsverk, svo og birt kvikmyndaverk og tónverk, ef hún er gerð í sambandi við gagnrýni, vísindi, almenna kynningu eða í öðrum viðurkenndum tilgangi, enda sé hún gerð innan hæfilegra marka og rétt með efni farið.
    Með sömu skilyrðum er heimilt að birta myndir og teikningar af birtum listaverkum og gögnum, sem getið er í 3. mgr. 1. gr.

    Nú eru birtar myndir eða teikningar af tveimur verkum eða fleiri hins sama höfundar í sambandi við meginmál, sem lýtur að almennri kynningu, og á hann þá rétt til þóknunar.

17. gr.

    Heimilt er að birta í safnverkum, sem tekin eru saman úr verkum margra höfunda og ætluð til notkunar við guðsþjónustu, skólakennslu eða útvarpskennslu:

     1.      Einstök bókmenntaverk eða tónverk, ef smá eru að vöxtum, og kafla úr stærri verkum, þegar liðin eru 5 ár frá næstu áramótum eftir útgáfu þeirra.
     2.      Myndir eða teikningar af listaverkum eða gögnum, sem getið er í 3. mgr. 1. gr., í tengslum við meginmál skv. 1. tölul., enda séu 5 ár liðin frá næstu áramótum, eftir að verkið var birt.
    Verk, sem samin hafa verið til notkunar við skólakennslu, má þó ekki án samþykkis höfundar taka að neinu leyti upp í safnverk, sem gefið er út í sama skyni.
    Þegar verk eða hluti af verki höfundar er birt í safnverki samkvæmt þessari grein, á hann rétt til þóknunar.

24. gr.

    Heimil er sala, lán, leiga og önnur dreifing til almennings á eintökum bókmenntaverks eða tónverks sem út hefur verið gefið. Útleiga og lán á eintökum tónverka er þó óheimil án samþykkis rétthafa.    Ákvæði 1. mgr. þessarar greinar taka einnig til kvikmyndaverka, þar á meðal myndbanda, en útleiga og lán þeirra til almennings er þó óheimil án samþykkis rétthafa. Sama gildir um útleigu tölvuforrita.

V. KAFLI
Ýmis réttindi, skyld höfundarétti.
45. gr.

    Listflytjandi hefur einkarétt til eintakagerðar af listflutningi sínum og hvers konar dreifingar hans til almennings, sbr. þó ákvæði 47. gr. Samkvæmt þessu eru óheimilar án hans samþykkis m.a. þær aðgerðir sem hér eru taldar:
     1.      Upptaka til endurflutnings á beinum listflutningi hans. Það telst beinn listflutningur sem listflytjandi flytur persónulega, þar á meðal flutningur í útvarp. Nú hefur útvarpsstofnun framkvæmt bráðabirgðaupptöku á persónulegum listflutningi og fer þá um útvarp eftir slíkri upptöku sem um beinan listflutning.
     2.      Útvarp á beinum listflutningi.
     3.      Dreifing beins listflutnings með tækniaðferðum, um þráð eða þráðlaust, frá flutningsstað til annarra tiltekinna staða sem almenningur á aðgang að.
     4.      Eftirgerð á upptöku listflutnings og dreifing til almennings uns 50 ár eru liðin frá næstu áramótum eftir að flutningur fór fram. Sé upptöku listflutnings dreift til almennings innan greinds verndartímabils skal vernd þó haldast í 50 ár frá næstu áramótum eftir fyrstu dreifingu hennar.
    Nú hefur listflytjandi veitt með samningi framlag til kvikmyndaverks og getur hann þá ekki, nema áskilnaður sé gerður á annan veg, hindrað leigu á eintökum kvikmyndaverksins.
    Um upptöku, eftirgerð og dreifingu listflutnings, sem um getur í 1. mgr., skulu eftir því sem við á gilda ákvæði 2.–6. mgr. 2. gr., 4. gr., 7. gr., 8. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 14. gr., 3. mgr. 15. gr., 18. gr., 21. gr., 2. mgr. 23. gr., 24. gr., 26.–31. gr., 3. mgr. 41. gr. og 53. gr. Ákvæði 1. mgr. 24. gr. gilda þó aðeins um upptökur sem fyrst eru seldar eða ráðstafað til eignar með öðrum hætti með samþykki rétthafa innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Standi fleiri en 12 listflytjendur að listflutningi nægir samþykki stéttarfélags flytjenda til eftirgerðar og endurnota, enda komi greiðsla fyrir flutninginn.46. gr.

    Óheimil er eftirgerð og hvers kyns dreifing til almennings á myndritum og hljóðritum, þar á meðal hljómplötum, án samþykkis framleiðanda uns liðin eru 50 ár frá næstu áramótum eftir að frumupptaka var framkvæmd. Sé upptöku dreift til almennings innan greinds verndartímabils skal vernd þó haldast í 50 ár frá næstu áramótum eftir fyrstu dreifingu.
    Beita skal, eftir því sem við á, ákvæðum 2.–6. mgr. 2. gr., 7. gr., 8. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 14. gr., 3. mgr. 15. gr., 18. gr., 2. mgr. 23. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. Ákvæði 1. mgr. 24. gr. gilda þó aðeins um upptökur sem fyrst eru seldar eða ráðstafað til eignar með öðrum hætti með samþykki rétthafa innan Evrópska efnahagssvæðisins.

47. gr.

    Nú er hljóðrit, sem út hefur verið gefið, notað á því tímabili sem í 46. gr. getur til flutnings í útvarpi eða til annarrar opinberrar dreifingar listflutnings, hvort heldur með beinni notkun eða eftir útvarpi, og ber þá notanda að greiða framleiðanda þess og listflytjanda sameiginlega þóknun fyrir afnotin.    Krafa til endurgjalds skv. 1. mgr. verður aðeins gerð af innheimtusamtökum framleiðenda og listflytjendafélaga. Samtökunum skulu settar samþykktir í samvinnu við menntamálaráðuneytið og vera háðar staðfestingu þess. Í samþykktum þessum skal m.a. kveða á um skiptingu tekna með aðildarfélögum samtakanna.
    Þegar framleiðandi hljóðrits eða listflytjandi á rétt til þóknunar samkvæmt þessari grein skal hún fara eftir heildarsamningi milli innheimtusamtaka skv. 2. mgr. og notanda eða samtökum hans. Ágreiningi um þóknun geta aðilar skotið til úrskurðarnefndar skv. 57. gr. Nefndin getur gert notanda að setja viðhlítandi tryggingu fyrir greiðslu þóknunar þar til hún hefur verið ákveðin en ella mælt fyrir um stöðvun á notkun verndaðra markaðshljóðrita uns trygging hefur verið sett. Innheimtusamtökunum skal þó heimilt að setja gjaldskrár um flutning af hljóðritum utan útvarps. Slíkar gjaldskrár skulu háðar samþykki menntamálaráðuneytisins.
    Beita skal, eftir því sem við á, 1. mgr. 14. gr., 3. mgr. 15. gr., 21. gr. og 54. gr. Sama gildir um 27.–31. gr. að því er listflytjendur varðar. Ákvæði þessi gilda ekki um kvikmyndir og myndbönd.

48. gr.

    Óheimilar eru eftirgreindar aðgerðir án samþykkis útvarpsstofnunar:
     1.      Endurvarp (samtímisútvarp) á útvarpi hennar og dreifing þess um þráð.
     2.      Upptaka endurflutnings á útvarpi hennar.

     3.      Birting á sjónvarpi hennar í atvinnuskyni eða ávinnings.
     4.      Eftirgerð á áður framkvæmdri upptöku útvarps hennar. Réttur útvarpsstofnunar samkvæmt þessum tölulið helst, uns liðin eru 25 ár frá næstu áramótum, eftir að útvarp fór fram.
    Beita skal, eftir því sem við á, ákvæðum 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 14. gr., 3. mgr. 15. gr., 18. gr., 21. gr. og 2. mgr. 23. gr.
49. gr.

    Eftirgerð ljósmynda, sem ekki njóta verndar laga þessara sem listaverk, sbr. 2. mgr. 1. gr., er óheimil án samþykkis ljósmyndara eða þess aðilja, sem rétt hans hefur hlotið. Nú er slík mynd birt opinberlega í atvinnuskyni eða ávinnings, og á ljósmyndari eða síðari rétthafi þá kröfu til þóknunar. Vernd ljósmyndar samkvæmt þessari grein skal haldast, uns liðin eru 25 ár frá næstu áramótum eftir gerð hennar.

    Ákvæði II. kafla laga þessara taka til ljósmynda þeirra, sem í 1. mgr. getur, eftir því sem við á.
VII. KAFLI
Refsiákvæði, bætur, ákærureglur o.fl.
54. gr.

    Fyrir brot á lögum þessum skal því aðeins refsa, að þau séu framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi.
    Sektum eða fangelsi, allt að 2 árum, varða:
     1.      Aðgerðir, sem brjóta í bága við einkarétt höfundar skv. 3. gr.
     2.      Vanræksla aðila sem fæst við endursölu listaverka í atvinnuskyni á að senda samtökum rétthafa skilagrein um seld listaverk skv. 4. mgr. 25. gr. b.
     3.      Brot á 1. og 2. mgr. 4. gr., 2. og 3. mgr. 26. gr., 1. mgr. 28. gr., 1. mgr. 39. gr., 53. gr. og fyrirmælum, sem getur í 2. mgr. 31. gr.
     4.      Brot á 1. mgr. 45. gr. og 3. mgr. sömu greinar, sbr. tilvitnanir þar í 4. gr., 1. mgr. 28. gr. og fyrirmæli sem getur í 2. mgr. 31. gr.
     5.      Brot á 1. mgr. 46. gr., 1. mgr. 48. gr., 1. mgr. 49. gr., 1. mgr. 50. gr., 51. gr. og 52. gr.

     6.      Innflutningur til landsins á eintökum af verkum eða annarri framleiðslu, sem verndar nýtur eftir V. kafla laga þessara, ef eintökin eru gerð erlendis og atvikum svo háttað, að gerð þeirra hér á landi hefði brotið í bága við lögin, enda séu eintökin flutt inn í þeim tilgangi að sýna þau opinberlega eða dreifa þeim til almennings.
     7.      Innflutningur og framleiðsla tækja og hljóð- eða myndbanda í því skyni að dreifa þeim til almennings og dreifing slíkra tækja eða banda til almennings án þess að greitt sé af þeim höfundaréttargjald skv. 3. og 4. mgr. 11. gr. eða reglum sem settar eru samkvæmt þeim, sbr. 3. mgr. 11. gr.
    Nú er brot framið á vegum félags eða annars fyrirtækis, og má þá dæma fésekt á hendur því.VIII. KAFLI
Gildissvið laganna.
60. gr.

    Ákvæði um höfundarétt í lögum þessum taka til:
     1.      Verka íslenskra ríkisborgara.
     2.      Verka erlendra ríkisborgara, sem eiga heimilisfang hér á landi.
     3.      Verka ríkisfangslausra manna og flóttamanna, sem hafa samfellt aðsetur hér á landi.
     4.      Verka, sem fyrst hafa verið gefin út hér á landi, sbr. og 2. mgr. 2. gr.
     5.      Bygginga, sem reistar hafa verið hér á landi, og listaverka, sem eru hluti af slíkum byggingum.
     6.      Kvikmyndaverka, ef atvinnufyrirtæki framleiðanda þeirra hefur aðalstöðvar sínar hér á landi eða framleiðandinn sjálfur á hér fast aðsetur.
    Ákvæði 25. gr. b taka til verka íslenskra ríkisborgara og erlendra manna sem búsettir eru hér á landi. Enn fremur til verka erlendra ríkisborgara þeirra ríkja sem veita íslenskum verkum hliðstæða vernd.
    Ákvæði 44. gr. a gilda um birtingu verka sem framkvæmd er af ríkisborgurum eða mönnum búsettum í landi innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Ákvæði 2. mgr. 4. gr. og 51.–53. gr. gilda um öll verk, sem falla undir ákvæði 1. gr., án tillits til uppruna þeirra eða þjóðernis höfunda.

61. gr.

    Ákvæði 45. gr. taka til:
     1.      Listflutnings íslenskra ríkisborgara, hvar sem hann hefur fram farið.

     2.      Listflutnings erlendra ríkisborgara og ríkisfangslausra manna sem hér segir:
                  a.      Ef listflutningur hefur farið fram hér á landi.
                  b.      Ef listflutningur hefur verið tekinn upp á hljóðrit sem verndar nýtur eftir ákvæðum 2. tölul. 3. mgr.
                  c.      Ef listflutningi, sem ekki hefur verið tekinn upp á hljóðrit, er útvarpað af útvarpsstofnun sem verndar nýtur eftir ákvæðum í 4. mgr.
    Ákvæði 46. gr. taka til myndrita og hljóðrita hvar og af hverjum sem þau hafa verið framleidd, en réttur til endurgjalds skv. 3. og 4. mgr. 11. gr. fylgir aðeins upptökum sem gerðar eru hér á landi eða í ríkjum sem veita íslenskum upptökum sams konar rétt.

    Ákvæði 47. gr. taka til:
     1.      Listflutnings íslenskra ríkisborgara sem tekinn hefur verið upp á hljóðrit.

     2.      Hljóðrita, svo og listflutnings þess er þau hafa að geyma, ef framleiðandi hljóðrits er íslenskur ríkisborgari eða fyrirtæki sem hefur aðsetur hér á landi.
    Ákvæði 48. gr. taka til útvarpsstofnana ef þær fullnægja öðru hvoru því skilyrði sem hér segir:
     1.      Að aðalstöðvar stofnunarinnar séu hér á landi.

     2.      Að útvarpað hafi verið með senditæki, staðsettu hér á landi.BREYTING, VERÐI FRUMVARPIÐ
AÐ LÖGUM


II. KAFLI
Takmarkanir á höfundarétti.
10. gr. a.

    Einkaréttur höfundar skv. 3. gr., sbr. 2. gr. gildir ekki um gerð eintaka sem
     1.      eru til skamms tíma eða tilfallandi,
     2.      eru órjúfanlegur og mikilvægur liður í tækniferli,
     3.      hafa þann tilgang einan að gera mögulega sendingu af hálfu milliliðar milli þriðju aðila um net eða löglega notkun á verki eða öðru efni og
     4.      hafa enga sjálfstæða fjárhagslega þýðingu.
    Ákvæði 1. mgr. gilda ekki um tölvuforrit og gagnagrunna.


11. gr.

    Heimilt er einstaklingum að gera eintök af birtu verki til einkanota eingöngu, enda sé það ekki gert í fjárhagslegum tilgangi. Ekki má nota slík eintök í neinu öðru skyni.
    Ákvæði 1. mgr. veita ekki rétt til:
     1.      mannvirkjagerðar eftir verki sem verndar nýtur eftir reglum um byggingarlist,
     2.      eftirgerðar verka sem verndar njóta eftir reglum um höggmyndalist, nytjalist eða dráttlist ef leitað er til hennar aðstoðar annarra manna,
     3.      eftirgerðar verndaðra tónverka og bókmenntaverka sé leitað til hennar aðstoðar aðila sem taka slíka eftirgerð að sér í atvinnuskyni,
     4.      eftirgerðar verndaðra tölvuforrita,
     5.      eftirgerðar véllæsilegra eintaka gagnagrunns.
    Höfundar verka, sem útvarpað hefur verið eða gefin hafa verið út á hljóðriti eða myndriti, eiga rétt á sérstöku endurgjaldi vegna upptöku verka þeirra til einkanota á bönd, diska, plötur eða aðra þá hluti, í hvaða formi sem er, sem taka má upp á hljóð og/eða myndir með hliðrænum eða stafrænum hætti. Enn fremur skal greiða endurgjald af tækjum sem einkum eru ætluð til slíkrar upptöku. Gjöld þessi skulu greidd hvort sem um innlenda eða innflutta framleiðslu er að ræða og hvílir skylda til að svara gjöldunum á innflytjendum og framleiðendum.
    Gjöld skv. 3. mgr. skulu nema:
     1.      Af tækjum skal endurgjaldið vera 4% af innflutningsverði eða framleiðsluverði ef um innlenda framleiðslu er að ræða.
     2.      Af böndum, diskum, plötum eða öðrum hlutum til upptöku hljóðs eingöngu skal gjaldið nema 35 kr.
     3.      Af böndum, diskum, plötum eða öðrum hlutum til upptöku mynda, eftir atvikum ásamt hljóði, skal gjaldið nema 100 kr.
     4.      Gjöld skv. 2. og 3. tölul. eru miðuð við að lengd flutningstíma sé allt að 180 mínútur fyrir hluti til hljóðupptöku og allt að 240 mínútur fyrir hluti til myndupptöku. Sé flutningstími lengri hækkar gjaldið hlutfallslega sem því nemur.
    Menntamálaráðherra setur nánari reglur um gjöld skv. 3. og 4. mgr., þar á meðal af hvaða hlutum og tækjum gjöldin skuli greidd. Lækka má fjárhæðir, sem greindar eru í 4. mgr., af böndum, diskum, plötum eða öðrum hlutum ef ætla má að einungis hluti þeirra sé ætlaður til upptöku skv. 3. mgr.
    Samtök höfundaréttarfélaga, þar með talin félög listflytjenda og framleiðenda, sjá um innheimtu á gjöldum skv. 3. mgr. og ráðstafa þeim. Samtökunum er heimilt að fela tollyfirvöldum innheimtu á gjöldum þeim sem innflytjendur skulu standa skil á. Samtökunum skulu settar samþykktir í samvinnu við menntamálaráðuneytið og eru þær háðar staðfestingu þess. Í samþykktunum skal meðal annars ákveða skiptingu tekna með aðildarfélögum og þar má einnig mæla fyrir um framlög til styrktar útgáfu hljóð- og myndrita.

12. gr.

     Setja má í reglugerð reglur um heimild skjalasafna, bókasafna, safna og menntastofnana til að gera eintök af verkum til notkunar í starfsemi sinni samkvæmt nánari skilgreiningu í reglugerðinni, enda sé það ekki gert í fjárhagslegum tilgangi. Ekki má ekki án samþykkis höfundar lána slík eintök eða birta þau með öðrum hætti nema innan stofnunarinnar.

14. gr.

    Heimil er tilvitnun í birt bókmenntaverk, þar á meðal leiksviðsverk, svo og birt kvikmyndaverk og tónverk, ef hún er gerð í sambandi við gagnrýni, vísindi, almenna kynningu eða í öðrum viðurkenndum tilgangi, enda sé hún gerð innan hæfilegra marka og rétt með efni farið.
    Með sömu skilyrðum er heimilt að birta myndir og teikningar af birtum listaverkum og gögnum, sem getið er í 3. mgr. 1. gr., enda sé ekki um fjárhagslegan tilgang að ræða.
    Nú eru birtar myndir eða teikningar af tveimur verkum eða fleiri hins sama höfundar í sambandi við meginmál, sem lýtur að almennri kynningu, og á hann þá rétt til þóknunar.

17. gr.

    Heimilt er að birta í safnverkum, sem tekin eru saman úr verkum margra höfunda og ætluð til notkunar við guðsþjónustu, skólakennslu eða útvarpskennslu, enda sé ekki um fjárhagslegan tilgang að ræða:
     1.      Einstök bókmenntaverk eða tónverk, ef smá eru að vöxtum, og kafla úr stærri verkum, þegar liðin eru 5 ár frá næstu áramótum eftir útgáfu þeirra.
     2.      Myndir eða teikningar af listaverkum eða gögnum, sem getið er í 3. mgr. 1. gr., í tengslum við meginmál skv. 1. tölul., enda séu 5 ár liðin frá næstu áramótum, eftir að verkið var birt.
    Verk, sem samin hafa verið til notkunar við skólakennslu, má þó ekki án samþykkis höfundar taka að neinu leyti upp í safnverk, sem gefið er út í sama skyni.
    Þegar verk eða hluti af verki höfundar er birt í safnverki samkvæmt þessari grein, á hann rétt til þóknunar.

24. gr.


    Nú hefur eintak af verki með samþykki höfundar verið selt eða með öðrum hætti framselt til annarra innan Evrópska efnahagssvæðisins, og er þá frekari dreifing þess heimil. Ef um er að ræða dreifingu í formi láns eða leigu verður ákvæði 1. málsl. einnig beitt um sölu eða annars konar framsal til annarra utan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er óheimilt að dreifa eintökum af verkum til almennings með því að leigja þau án þess að samþykki höfundar liggi fyrir. Þetta gildir þó ekki um byggingar og nytjalist.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er óheimilt án samþykkis höfundar að dreifa til almennings eintökum af kvikmyndaverkum og tölvuforritum í stafrænu formi með því að lána þau út. Þetta gildir þó ekki þegar eintak af tölvuforriti í stafrænu formi er hluti af bókmenntaverki og er lánað með því.
    Ákvæði 1. mgr. hefur ekki í för með sér skerðingu á rétti til úthlutunar samkvæmt lögum um Bókasafnssjóð höfunda.


V. KAFLI
Ýmis réttindi, skyld höfundarétti.
45. gr.

    Listflytjandi hefur einkarétt til eintakagerðar af listflutningi sínum og hvers konar dreifingar hans til almennings, sbr. þó ákvæði 47. gr. Samkvæmt þessu eru óheimilar án hans samþykkis m.a. þær aðgerðir sem hér eru taldar:
     1.      Upptaka til endurflutnings á beinum listflutningi hans. Það telst beinn listflutningur sem listflytjandi flytur persónulega, þar á meðal flutningur í útvarp. Nú hefur útvarpsstofnun framkvæmt bráðabirgðaupptöku á persónulegum listflutningi og fer þá um útvarp eftir slíkri upptöku sem um beinan listflutning.
     2.      Útvarp á beinum listflutningi.
     3.      Dreifing beins listflutnings með tækniaðferðum, um þráð eða þráðlaust, frá flutningsstað til annarra tiltekinna staða sem almenningur á aðgang að.
     4.      Eftirgerð á upptöku listflutnings, dreifing til almennings uns 50 ár eru liðin frá næstu áramótum eftir að flutningur fór fram. Sé upptöku listflutnings dreift til almennings innan greinds verndartímabils skal vernd þó haldast í 50 ár frá næstu áramótum eftir fyrstu dreifingu hennar.
    Nú hefur listflytjandi veitt með samningi framlag til kvikmyndaverks og getur hann þá ekki, nema áskilnaður sé gerður á annan veg, hindrað leigu á eintökum kvikmyndaverksins.
    Um upptöku, eftirgerð og dreifingu listflutnings, sem um getur í 1. mgr., skulu eftir því sem við á gilda ákvæði 2.–6. mgr. 2. gr., 4. gr., 7. gr., 8. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 14. gr., 3. mgr. 15. gr., 18. gr., 21. gr., 2. mgr. 23. gr., 24. gr., 26.–31. gr., 3. mgr. 41. gr. og 53. gr. […]    Standi fleiri en 12 listflytjendur að listflutningi nægir samþykki stéttarfélags flytjenda til eftirgerðar og endurnota, enda komi greiðsla fyrir flutninginn.
     Sama rétt og listflytjandi samkvæmt þessari grein hefur flytjandi þjóðmenningarlegs efnis.

46. gr.

    Óheimil er eftirgerð og hvers kyns dreifing til almennings á myndritum og hljóðritum, þar á meðal hljómplötum, án samþykkis framleiðanda uns liðin eru 50 ár frá næstu áramótum eftir að frumupptaka var framkvæmd. Sé upptöku dreift til almennings innan greinds verndartímabils skal vernd þó haldast í 50 ár frá næstu áramótum eftir fyrstu dreifingu.
    Beita skal, eftir því sem við á, ákvæðum 2.–6. mgr. 2. gr., 7. gr., 8. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 14. gr., 3. mgr. 15. gr., 18. gr., 2. mgr. 23. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. […]
47. gr.

    Nú er hljóðrit, sem út hefur verið gefið, notað á því tímabili sem í 46. gr. getur til flutnings í útvarpi eða til annarrar opinberrar dreifingar listflutnings, hvort heldur með beinni notkun eða eftir útvarpi, og ber þá notanda að greiða framleiðanda þess og listflytjanda sameiginlega þóknun fyrir afnotin. Heimild til notkunar útgefins hljóðrits til flutnings í útvarpi eða annarrar opinberrar dreifingar listflutnings gildir ekki um þá miðlun hljóðrita, sem í því felst, að hljóðrit er gert aðgengilegt með þeim hætti, að hver og einn geti fengið aðgang að hljóðriti á þeim stað og á þeirri stundu, sem hver og einn sjálfur kýs.
    Krafa til endurgjalds skv. 1. mgr. verður aðeins gerð af innheimtusamtökum framleiðenda og listflytjendafélaga. Samtökunum skulu settar samþykktir í samvinnu við menntamálaráðuneytið og vera háðar staðfestingu þess. Í samþykktum þessum skal m.a. kveða á um skiptingu tekna með aðildarfélögum samtakanna.
    Þegar framleiðandi hljóðrits eða listflytjandi á rétt til þóknunar samkvæmt þessari grein skal hún fara eftir heildarsamningi milli innheimtusamtaka skv. 2. mgr. og notanda eða samtökum hans. Ágreiningi um þóknun geta aðilar skotið til úrskurðarnefndar skv. 57. gr. Nefndin getur gert notanda að setja viðhlítandi tryggingu fyrir greiðslu þóknunar þar til hún hefur verið ákveðin en ella mælt fyrir um stöðvun á notkun verndaðra markaðshljóðrita uns trygging hefur verið sett. Innheimtusamtökunum skal þó heimilt að setja gjaldskrár um flutning af hljóðritum utan útvarps. Slíkar gjaldskrár skulu háðar samþykki menntamálaráðuneytisins.
    Beita skal, eftir því sem við á, 1. mgr. 14. gr., 3. mgr. 15. gr., 21. gr. og 54. gr. Sama gildir um 27.–31. gr. að því er listflytjendur varðar. Ákvæði þessi gilda ekki um kvikmyndir og myndbönd.

48. gr.

    Óheimilar eru eftirgreindar aðgerðir án samþykkis útvarpsstofnunar:
     1.      Endurvarp (samtímisútvarp) á útvarpi hennar og dreifing þess um þráð.
     2.      Upptaka endurflutnings á útvarpi hennar.

     3.      Birting á sjónvarpi hennar í atvinnuskyni eða ávinnings.
     4.      Eftirgerð á áður framkvæmdri upptöku útvarps hennar, sem og það að birta slíka upptöku.

    Beita skal, eftir því sem við á, ákvæðum 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 14. gr., 3. mgr. 15. gr., 18. gr., 21. gr. og 2. mgr. 23. gr.
     Réttur útvarpsstöðva skv. 1. mgr. gildir uns liðin eru 50 ár frá næstu áramótum eftir fyrstu útsendingu.

49. gr.

    Eftirgerð ljósmynda, sem ekki njóta verndar laga þessara sem listaverk, sbr. 2. mgr. 1. gr., er óheimil án samþykkis ljósmyndara eða þess aðilja, sem rétt hans hefur hlotið. Enn fremur er óheimilt að birta slíkar ljósmyndir án samþykkis rétthafa. Nú er slík mynd birt opinberlega í atvinnuskyni eða ávinnings, og á ljósmyndari eða síðari rétthafi þá kröfu til þóknunar. Vernd ljósmyndar samkvæmt þessari grein skal haldast, uns liðin eru 50 ár frá næstu áramótum eftir gerð hennar.
    Ákvæði II. kafla laga þessara taka til ljósmynda þeirra, sem í 1. mgr. getur, eftir því sem við á.

V. KAFLI A
Tæknilegar ráðstafanir o.fl.
50. gr. a.

    Óheimilt er að eiga viðskipti með eða hafa undir höndum í fjárhagslegum tilgangi tæki eða gögn, sem hafa þann tilgang einan að auðvelda með ólöglegum hætti að fjarlægja eða komast fram hjá tæknilegum búnaði ætluðum til þess að verja tölvuforrit.

50. gr. b.


    Óheimilt er án samþykkis rétthafa að sniðganga tæknilegar ráðstafanir, sbr. 4. mgr.
    Óheimilt er að framleiða, flytja inn, dreifa, selja, leigja, auglýsa til sölu eða leigu eða eiga í viðskiptalegum tilgangi búnað, vörur eða íhluti, sem
     1.      eru kynnt eða auglýst sem leið til að komast fram hjá tæknilegum ráðstöfunum,
     2.      hafa aðeins takmarkað fjárhagslegt gildi eða notkunarmöguleika nema sem leið til að komast fram hjá tæknilegum ráðstöfunum, eða
     3.      eru fyrst og fremst hönnuð, framleidd, aðlöguð eða veitt í því skyni að gera kleift eða auðvelda að komast fram hjá tæknilegum ráðstöfunum.
    Ákvæði 2. mgr. gildir einnig um þjónustu.
    Með tæknilegum ráðstöfunum í 1. og 2. mgr. er átt við hvers konar skilvirkar tæknilegar ráðstafanir, sem samkvæmt eðlilegri notkun eru ætlaðar til þess að vernda verk og annað efni verndað með lögum þessum.
    Ákvæði 1.–4. mgr. gilda ekki um vernd tölvuforrita.
    Ákvæði 1.–4. mgr. eru því ekki til fyrirstöðu, að gerðar séu rannsóknir á dulritun.

50. gr. c.


    Úrskurðarnefnd skv. 57. gr. getur samkvæmt kröfu notanda gert rétthafa, sem gripið hefur til skilvirkra tæknilegra ráðstafana skv. 1. mgr. 50. gr. b., að veita notanda aðgang að þeim úrræðum, sem nauðsynleg eru til þess að hann geti nýtt sér ákvæðin í 1. mgr. 12. gr., 2. mgr. 14. gr., 1. mgr. 17. gr. að því er kennslu varðar, 1.–4. mgr. 19. gr., 1. tölul. 1. mgr. 21. gr., 1. og 2. mgr. 22. gr., 22. gr. a. og 5. mgr. 23. gr. Hafi rétthafi ekki farið að fyrirmælunum innan fjögurra vikna frá ákvörðun nefndarinnar, er notanda rétt, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 50. gr. b., að sniðganga hinar tæknilegu ráðstafanir. Ákvæðum þessarar málsgreinar verður aðeins beitt um þá notendur, sem eiga löglegan aðgang að viðkomandi verki eða efni.
    Ákvæði 1. mgr. verður því aðeins beitt, að rétthafi hafi ekki sjálfviljugur gert ráðstafanir, t.a.m. samninga við aðra hlutaðeigandi aðila, sem tryggja, að notandinn geti nýtt sér hin tilvitnuðu ákvæði í 1. mgr., hvað sem líður beitingu skilvirkra tæknilegra ráðstafana.
    Ákvæði 1. mgr. verður ekki beitt um verk og annað efni, sem á grundvelli samnings er gert almenningi aðgengilegt á þann hátt, að hver og einn geti haft aðgang að því á þeim stað og á þeirri stundu, sem hann sjálfur kýs, sbr. síðari hluta 1. tölul. 4. mgr. 2. gr.

50. gr. d.


    Óheimilt er án samþykkis rétthafa, að
     1.      fjarlægja eða breyta rafrænum upplýsingum um réttindaumsýslu, eða
     2.      dreifa eintökum, flytja inn í því skyni að dreifa eintökum eða miðla til almennings verkum og öðru efni, þar sem rafrænar upplýsingar um réttindaumsýslu hafa verið fjarlægðar eða þeim breytt án samþykkis.
    Ákvæði 1. mgr. verður því aðeins beitt, að sá, sem að gerningi stóð hafi vitað eða mátt vita, að með gerningnum komi hann til leiðar, geri kleift, auðveldi eða leyni broti gegn rétti til verks eða annars efnis, sem verndar nýtur samkvæmt lögum þessum.


VII. KAFLI
Refsiákvæði, bætur, ákærureglur o.fl.
54. gr.

    Fyrir brot á lögum þessum skal því aðeins refsa, að þau séu framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi.
    Sektum eða fangelsi, allt að 2 árum, varða:
     1.      Aðgerðir, sem brjóta í bága við einkarétt höfundar skv. 3. gr.
     2.      Vanræksla aðila sem fæst við endursölu listaverka í atvinnuskyni á að senda samtökum rétthafa skilagrein um seld listaverk skv. 4. mgr. 25. gr. b.
     3.      Brot á 1. og 2. mgr. 4. gr., 2. og 3. mgr. 26. gr., 1. mgr. 28. gr., 1. mgr. 39. gr., 53. gr. og fyrirmælum, sem getur í 2. mgr. 31. gr.
     4.      Brot á 1. mgr. 45. gr. og 3. mgr. sömu greinar, sbr. tilvitnanir þar í 4. gr., 1. mgr. 28. gr. og fyrirmæli sem getur í 2. mgr. 31. gr.
     5.      Brot á 1. mgr. 46. gr., 1. mgr. 48. gr., 1. mgr. 49. gr., 1. mgr. 50. gr., 50. gr. a, 50. gr. b, 50. gr. d, 51. gr. og 52. gr.
     6.      Innflutningur til landsins á eintökum af verkum eða annarri framleiðslu, sem verndar nýtur eftir V. kafla laga þessara, ef eintökin eru gerð erlendis og atvikum svo háttað, að gerð þeirra hér á landi hefði brotið í bága við lögin, enda séu eintökin flutt inn í þeim tilgangi að sýna þau opinberlega eða dreifa þeim til almennings.
     7.      Innflutningur og framleiðsla tækja og hljóð- eða myndbanda í því skyni að dreifa þeim til almennings og dreifing slíkra tækja eða banda til almennings án þess að greitt sé af þeim höfundaréttargjald skv. 6. og 7. mgr. 11. gr. eða reglum sem settar eru samkvæmt þeim, sbr. 10. mgr. 11. gr.
    Nú er brot framið á vegum félags eða annars fyrirtækis, og má þá dæma fésekt á hendur því.
     Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr., sbr. 4. og 5. tölul. 2. mgr. 11. gr. og 1. mgr. 50. gr. b, varðar eftirtalin eintakagerð einstaklinga til einkanota ekki refsingu:
     1.      eintakagerð eftir einstöku eintaki verndaðs tölvuforrits eða eintaki véllæsilegs gagnagrunns, sem hefur verið gefinn út, seldur eða varanlega látinn af hendi með samþykki höfundar eða framleiðanda,
     2.      eintakagerð sem fram fer andstætt 1. mgr. 50. gr. b.

VIII. KAFLI
Gildissvið laganna.
60. gr.

    Ákvæði um höfundarétt í lögum þessum taka til:
     1.      Verka manna, sem eru ríkisborgarar eða búsettir í landi innan Evrópska efnahagssvæðisins.
     2.      Verka ríkisfangslausra manna og flóttamanna, sem hafa samfellt aðsetur hér á landi.
     3.      Verka, sem fyrst hafa verið gefin út hér á landi, sbr. og 2. mgr. 2. gr.
     4.      Bygginga, sem reistar hafa verið hér á landi, og listaverka, sem eru hluti af slíkum byggingum.
     5.      Kvikmyndaverka, ef atvinnufyrirtæki framleiðanda þeirra hefur aðalstöðvar sínar hér á landi eða framleiðandinn sjálfur á hér fast aðsetur.
     Ákvæði 25. gr. b. taka til verka manna, sem ríkisborgarar eða búsettir í landi innan Evrópska efnahagssvæðisins. Enn fremur til verka erlendra ríkisborgara þeirra ríkja sem veita íslenskum verkum hliðstæða vernd.
    Ákvæði 44. gr. a gilda um birtingu verka sem framkvæmd er af ríkisborgurum eða mönnum búsettum í landi innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Ákvæði 2. mgr. 4. gr. og 51.–53. gr. gilda um öll verk, sem falla undir ákvæði 1. gr., án tillits til uppruna þeirra eða þjóðernis höfunda.

61. gr.

    Ákvæði 45. gr. taka til:
     1.      Listflutnings manna, sem eru ríkisborgarar eða búsettir í landi innan Evrópska efnahagssvæðisins.
     2.      Listflutnings annarra erlendra ríkisborgara og ríkisfangslausra manna sem hér segir:
              a.      Ef listflutningur hefur farið fram hér á landi.
              b.      Ef listflutningur hefur verið tekinn upp á hljóðrit sem verndar nýtur eftir ákvæðum 2. tölul. 3. mgr.
              c.      Ef listflutningi, sem ekki hefur verið tekinn upp á hljóðrit, er útvarpað af útvarpsstofnun sem verndar nýtur eftir ákvæðum í 4. mgr.
     Ákvæði 46. gr. taka til myndrita og hljóðrita hvar og af hverjum sem þau hafa verið framleidd, en réttur til endurgjalds skv. 3. og 4. mgr. 11. gr. fylgir aðeins upptökum, sem gerðar hafa verið í landi innan Evrópska efnahagssvæðisins eða í öðrum ríkjum sem veita íslenskum upptökum sams konar rétt.
    Ákvæði 47. gr. taka til:
     1.      Hjóðritaðs listflutnings manna, sem eru ríkisborgarar eða búsettir í landi innan Evrópska efnahagssvæðisins.
     2.      Hljóðrita, svo og listflutnings þess er þau hafa að geyma, ef framleiðandi hljóðrits er maður, sem er ríkisborgari eða búsettur í landi innan Evrópska efnahagssvæðisins.

    Ákvæði 48. gr. taka til útvarpsstofnana ef þær fullnægja öðru hvoru því skilyrði sem hér segir:
     1.      Að aðalstöðvar stofnunarinnar séu í landi innan Evrópska efnahagssvæðisins.
     2.      Að útvarpað hafi verið með senditæki, staðsettu í landi innan Evrópska efnahagssvæðisins. Fylgiskjal II.

Yfirlit yfir helstu ákvæði tilskipunarinnar
og samanburður þeirra við gildandi lög.

    Gildandi höfundalög eru að mörgu leyti í samræmi við tilskipunina. Hér að neðan er gerð grein fyrir ákvæðum tilskipunarinnar um höfundarétt og skyld réttindi í upplýsingasamfélaginu í samanburði við gildandi höfundalög. Í umfjöllun um einstök lagaákvæði er þess jafnframt getið hvort tilskipunin gefi tilefni til lagabreytinga.
    Rétt þykir að vekja athygli á nokkrum hugtökum sem fyrir koma í íslenskri þýðingu tilskipunarinnar en valið var að nota ekki í frumvarpinu. Hugtakið „réttindaþurrð“ er notað í íslenskri þýðingu tilskipunarinnar um það sem nefnt er í frumvarpinu „tæming réttinda“, sbr. 2. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar. Hugtakið „að fara fram hjá“ er notað í 6. gr. íslenskrar þýðingar tilskipunarinnar en í frumvarpinu er rætt um „sniðgöngu“ tæknilegra ráðstafana í b-lið 12. gr. frumvarpsins (50. gr. b). Í íslenskri þýðingu tilskipunarinnar er notað hugtakið „að rápa“ um þá athöfn að framkalla heimasíður og annað efni á netinu í vafra í tölvu. Í frumvarpinu er hugtakið „að vafra“ notað um þessa athöfn. Í tilskipuninni eru ýmis hugtök notuð um notkun sem fer fram í fjárhagslegum tilgangi við afmörkun undantekninga og takmarkana á einkarétti höfunda skv. 2. og 3. mgr. 5. gr., t.d. „efnahagslegt vægi“, „efnahagslegur eða viðskiptalegur ávinningur“, „í hagnaðarskyni“ og „viðskiptalegt eðli“. Í frumvarpinu er hins vegar notað hugtakið „fjárhagslegur tilgangur“ um framangreint og telst það fela í sér allt framangreint.
     1. gr. tilskipunarinnar, sem fjallar um gildissvæði og samhengi við aðrar tilskipanir á sviði höfundaréttar gefur ekki tilefni til breytinga á höfundalögum.
     2. gr. tilskipunarinnar um einkarétt höfunda til eftirgerðar felur í sér að bein eða óbein, tímabundin eða varanleg gerð eintaks af verki, í heild eða af hluta þess, með hvaða aðferðum sem er og í hvaða formi sem er fellur undir einkaréttindi höfundar. Sambærilegt ákvæði í 1. mgr. 2. gr. gildandi laga hefur ekki að geyma svo víðtæka skilgreiningu á einkarétti höfundar til eintakagerðar en hefur þó verið túlkað svo að það feli í sér öll þau réttindi sem talin eru upp í 2. gr. tilskipunarinnar. Af hálfu menntamálaráðuneytisins er lagt til að ekki verði gerðar breytingar á 1. mgr. 2. gr., sbr. 3. gr. gildandi laga af þessu tilefni, heldur verði lagt mat á þetta atriði við heildarendurskoðun höfundalaga. Að því er varðar listflytjendur og framleiðendur hljóð- og myndrita, ásamt útvarpsfyrirtækjum, hafa þeir sambærileg réttindi skv. 2. gr. tilskipunarinnar. Um einkarétt þessara aðila til eftirgerðar hljóðrita, myndrita o.fl. fer eftir 3. mgr. 45. gr. laganna.
     1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar fjallar um opinberan flutning, þ.e. einkaréttinn til miðlunar verks til almennings um þráð eða þráðlaust, þar á meðal þegar það er sent út í útvarpi og þegar það er gert aðgengilegt almenningi með þeim hætti að hver og einn getur fengið aðgang að verkinu á þeim stað og á þeirri stundu er hann sjálfur kýs. Þessu ákvæði tilskipunarinnar er ætlað að taka af allan vafa um einkarétt höfunda til miðlunar verka sinna á netinu. Að mati menntamálaráðuneytisins er skilgreining hugtaksins birting í 3. mgr. 2. gr. gildandi laga svo víðtæk að hún er til þess fallin að fela í sér réttinn til að miðla verki til almennings, þ.m.t. að gera verk aðgengilegt almenningi með þeim hætti að hver og einn geti fengið aðgang að verkinu á þeim stað og þeirri stundu er hann sjálfur kýs (e. on-demand). Af þessum sökum er lagt til að ekki verði gerðar breytingar á 3. mgr. 2. gr. laganna vegna tilskipunarinnar, heldur verði fjallað um þörf á breytingum við heildarendurskoðun höfundalaga.
     2. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar, sem fjallar um einkarétt flytjenda, framleiðenda hljóð- og myndrita og útvarpsfyrirtækja til að gera efni aðgengilegt almenningi, er í höfuðatriðum í samræmi við gildandi rétt. Þó er talið nauðsynlegt að gera breytingar á 1. mgr. 47. gr. gildandi laga þannig að tekið sé fram að listflytjendur og framleiðendur hljóðrita eigi óskilyrtan einkarétt á því að gera hljóðrit aðgengileg með þeim hætti að hver og einn geti fengið aðgang að hljóðriti á þeim stað og þeirri stundu sem hver og einn sjálfur kýs (e. on-demand). Enn fremur mun 3. mgr. 45. gr. gildandi laga tryggja að rétthafar svonefndra skyldra réttinda muni njóta sambærilegs réttar og höfundar á einkarétti til opinbers flutnings skv. 3. mgr. 2. gr. gildandi laga. Í a-lið 2. gr. WPPT-sáttmálans kemur fram að listflytjendur skuli njóta verndar vegna opinbers flutnings bókmenntaverka eða listaverka eða tjáningar þjóðmenningarlegs efnis (e. expressions of folklore/traditional cultural expressions). Að mati menntamálaráðuneytisins samsvarar þetta gildandi lögum. Almennt verður talið að þjóðmenning falli undir hugtökin bókmenntaverk og listaverk. Hins vegar er talið rétt að taka upp tilvísun til þjóðmenningarlegs efnis í 5. mgr. 45. gr. höfundalaga til að taka af allan vafa um vernd þess að höfundarétti.
     1. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar um einkarétt til dreifingar á eintökum verks til almennings með sölu eða öðrum hætti samsvarar hinum almenna dreifingarrétti skv. 2. mgr. 2. gr. í gildandi höfundalögum. Lagt er til í frumvarpinu að gerð verði breyting á 1. mgr. 24. gr. laganna til innleiðingar á ákvæði 2. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar um tæmingu dreifingarréttarins innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES), sbr. 6. gr. frumvarpsins. Eftirleiðis getur frjáls dreifing verka, svo sem hljómdiska og bóka, aðeins farið fram ef fyrsta sala innan EES er gerð með samþykki rétthafa.
     1. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar felur í sér skyldubundna undantekningu vegna tímabundinna eintaka sem eru skammvinn eða tilfallandi, sem eru órjúfanlegur hluti af tæknilegu ferli og hafa eingöngu þann tilgang að gera annaðhvort mögulega sendingu af hálfu milliliðar í neti á milli þriðju aðila eða löglega notkun á verki eða öðru efni sem hefur ekki sjálfstæða efnahagslega þýðingu. Lagt er til að undantekningin verði lögfest með í nýju ákvæði í 1. mgr. 10. gr. a, sbr. 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins.
     A-liður 2. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar felur í sér valfrjálsa undantekningu varðandi eintakagerð á pappír eða með ljósmyndatækni eða annarri sambærilegri aðferð. Samkvæmt gildandi lögum er engin sambærileg undantekning fyrir eintakagerð í stofnunum og fyrirtækjum þar sem slík eintakagerð fellur undir ákvæði laganna um heildarleyfi (samningskvaðir). Af 18. skýringargrein tilskipunarinnar leiðir að ekki er litið á heildarleyfi (samningskvaðir) sem undantekningu frá einkarétti höfunda, heldur er það fyrirkomulag um stjórnun réttinda.
     B-liður 2. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar felur í sér valfrjálsa undantekningu vegna eintakagerðar sem gerð er af einstaklingi til einkanota og til notkunar sem hvorki telst beint né óbeint vera í atvinnuskyni, að því gefnu að rétthafarnir fái sanngjarnar bætur í þess stað. Af þeirri takmörkun ákvæðisins að notkun sé ekki í atvinnuskyni er lagt til að gildandi ákvæði 1. mgr. 11. gr. höfundalaga verði framvegis takmörkuð við eintakagerð vegna notkunar sem ekki er í fjárhagslegum tilgangi, sbr. 2. gr. frumvarpsins. Krafa tilskipunarinnar um að rétthafar fái sanngjarnar bætur telst vera uppfyllt með 3. og 4. mgr. 11. gr. gildandi laga.
    B-liður 2. mgr. 5. gr. heimilar jafnframt að aðstoð verði fengin við eintakagerðina. B-liður 2. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar tekur ekki til lögaðila. Ákvæðið varðar 3. tölul. 2. mgr. 11. gr. laganna og gefur ekki tilefni til breytinga á því.
     C-liður 2. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar felur í sér valfrjálsa undantekningu varðandi eintakagerð sem fram fer á opinberum bókasöfnum eða söfnum eða skjalasöfnum og sem ekki fer fram beint eða óbeint í viðskiptalegum tilgangi. Ákvæðið veitir heimild til að útfæra nánar ákvæði 12. gr. gildandi höfundalaga. Lagt er til að 12. gr. verði löguð að tilskipuninni þannig heimildin verði bundin við eintakagerð sem ekki fer fram í fjárhagslegum tilgangi, sbr. 3. gr. frumvarpsins. Áhersla er lögð á að reglugerð um framangreinda heimild safna hefur ekki verið sett og brýnt er að bæta úr því verði frumvarpið að lögum.
    Í c-lið 2. mgr. 5. mgr. tilskipunarinnar er jafnframt talin felast heimild til varðveislu útvarpsstofnunar á eigin útvarps- og sjónvarpsútsendingum eins og mælt er fyrir um í 10. gr. laga um skylduskil til safna, nr. 20/2002.
     D-liður 2. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar felur í sér valfrjálsa undantekningu varðandi bráðabirgðaupptöku á hljóð- og myndrit til eigin nota og er sú heimild í samræmi við 5. mgr. 23. gr. höfundalaga.
     E-liður 2. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar felur í sér valfrjálsa undantekningu varðandi heimild félagslegra stofnana, svo sem fangelsa og sjúkrahúsa, til að taka upp útvarps- og sjónvarpsútsendingar gegn því að rétthafar fái sanngjarnar bætur og að slík upptaka fari ekki fram í hagnaðarskyni. Ekki er lagt til í frumvarpinu að sambærileg heimild verði tekin upp í höfundalög.
     A-liður 3. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar felur í sér valfrjálsa undantekningu um hagnýtingu vegna kennslu og vísindarannsókna. Ákvæðið heimilar framhald undantekningar sem er þegar í 1. og 2. mgr. 14. gr. Lagt er til að heimild 2. mgr. 14. verði framvegis bundin við að notkun sé ekki í viðskiptalegum tilgangi, sbr. 4. gr. frumvarpsins.
     B-liður 3. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar felur í sér valfrjálsa undantekningu um hagnýtingu verka og annars efnis í þágu fatlaðra. Ákvæðið veitir heimild fyrir framhaldi sambærilegs ákvæðis og nú er í 19. gr. laganna, er veitir heimild til útgáfu bókmenntaverka og tónverka á blindraletri, ásamt heimild til notkunar slíkra verka í heyrnleysingaskólum. Samkvæmt tilskipuninni eru undantekningar í þágu fatlaðra háðar því skilyrði að ekki sé um að ræða notkun í atvinnuskyni.
     C-liður 3. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar felur í sér valfrjálsa undantekningu um notkun verka og annars efnis í tengslum við umfjöllun og frásögn í fréttum af atburðum líðandi stundar. Tilskipunin veitir heimild fyrir framhaldi sambærilegs ákvæðis í 2. mgr. 15. gr. laganna.
     D-liður 3. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar felur í sér valfrjálsa undantekningu varðandi heimild til tilvitnunar vegna gagnrýni eða ritdóma að því tilskildu að þeir tengist verki eða öðru efni sem gert hefur verið aðgengilegt almenningi á löglegan hátt og að því tilskildu að heimildar sé getið, þar á meðal nafns höfundar. Sambærilega heimild er að finna í 1. mgr. 14. gr. höfundalaga og ekki er talið tilefni til breytinga á því ákvæði.
     E-liður 3. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar felur í sér valfrjálsa undantekningu um notkun vegna almannaöryggis eða til að tryggja rétta framkvæmd eða skýrslugjöf varðandi málsmeðferð í stjórnsýslu, fyrir þingi eða dómstólum. Ákvæðið heimilar framhald sambærilegs ákvæðis í 22. gr. a í gildandi lögum.
     F-liður 3. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar felur í sér valfrjálsa undantekningu um notkun á pólitískum ræðum og útdráttum úr opinberum fyrirlestrum eða svipuðum verkum eða efni, að því marki sem talið er eðlilegt í upplýsingaskyni. Ákvæðið heimilar framhald undantekningar í 22. gr. gildandi laga varðandi endurmiðlun umræðna á opinberum vettvangi í 1. mgr. og umræðna m.a. í útvarpi í 2. mgr. Í 3. mgr. 22. gr. höfundalaga er þó tekið fram að höfundur eigi einkarétt á að gefa út safn af framlagi sjálfs sín til umræðna og þeim gögnum er hann hefur þar lagt fram.
     G-liður 3. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar felur í sér valfrjálsa undantekningu vegna hagnýtingar verka og annars efnis í tengslum við trúarathafnir eða opinberar athafnir. Ákvæðið heimilar framhald undantekningar í 2., 3. og 4. tölul. 21. gr. gildandi laga um opinberan flutning í tengslum við góðgerðarsamkomur, mannfundi og samkomur sem ekki fara fram í atvinnuskyni og guðsþjónustur.
     H-liður 3. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar felur í sér valfrjálsa undantekningu um hagnýtingu höggmynda, bygginga o.fl. verka sem eru staðsett á opinberum stöðum. Ákvæðið heimilar framhald undantekningar í 16. gr. gildandi laga varðandi myndbirtingu af byggingum og listaverkum.
     I-liður 3. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar felur í sér valfrjálsa undantekningu vegna tilfallandi hlutdeildar birts verks í verki eða öðru efni. Ákvæðið heimilar framhald undantekningar í 15. gr. gildandi laga um sambærileg atriði.
     J-liður 3. mgr. 5. gr. felur í sér valfrjálsa undantekningu um hagnýtingu listaverka í því skyni að flytja fréttir af opinberri sýningu eða listmunauppboði. Sambærilega undantekningu er að finna í 3. og 4. mgr. 25. gr. gildandi laga. Ákvæði tilskipunarinnar tekur einnig til sýningarskráa listaverkasýninga þar sem slíkum skrám er ætlað að kynna sýningar eða einstök listaverk sem þar kunna að vera til sölu. Samkvæmt orðalagi 3. mgr. 25. gr. gildandi laga tekur ákvæðið einnig til bæklinga um listaverkasöfn, svonefndra safnmunaskráa. Eftir hljóðan j-liðar 3. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar er ekki heimilt að nota framangreindar skrár í öðrum viðskiptalegum tilgangi en þeim er varðar kynningu atburðar. Í athugasemdum með sambærilegu ákvæði dönsku höfundalaganna er á það bent að stilla beri upplagi kynningarefnis í hóf þannig að það nýtist eingöngu til kynningar viðkomandi atburðar. Ekki er lögð til breyting á 25. gr. gildandi laga af framangreindu tilefni.
     K-liður 3. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar felur í sér valfrjálsa undantekningu um hagnýtingu verka og annars efnis vegna skopmynda, skopstælingar og annarrar stælingar. Sambærileg undantekning er ekki í gildandi lögum og ekki er lagt til í frumvarpinu að slík heimild verði tekin upp í þau.
     I-liður 3. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar felur í sér valfrjálsa undantekningu um notkun verka eða annars efnis í tengslum við sýningu eða viðgerð á búnaði. Sambærileg undantekning er ekki í gildandi lögum og ekki er lagt til í frumvarpinu að slík heimild verði tekin upp í þau.
     M-liður 3. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar felur í sér valfrjálsa undantekningu um notkun listaverks í formi byggingar eða teikningar eða uppdráttar af byggingu í því skyni að endurgera bygginguna. Hliðstætt ákvæði er ekki í gildandi höfundalögum og ekki er lagt til að slík heimild verði tekin upp í lögunum.
     N-liður 3. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar felur í sér valfrjálsa undantekningu varðandi miðlun verka eða annars efnis í söfnum til almennings eða að þau verði gerð aðgengileg almenningi, til fræðistarfa eða einkarannsókna, með þar til gerðum endabúnaði á athafnasvæði stofnananna, enda falli verkin og efnið ekki undir kaup eða nytjaleyfisskilmála. Ekki er lagt til í frumvarpinu að slík heimild verði tekin upp í höfundalög.
     O-liður 3. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar felur í sér valfrjálst uppsöfnunarákvæði sem veitir aðildarlöndunum heimilt til að við halda gildandi undantekningum að landsrétti, sem hafa minni háttar þýðingu, svo framarlega að um sé að ræða hliðræna nýtingu sem ekki hefur áhrif á vöru- og þjónustufrelsi á innri markaðinum. Ákvæðið veitir heimild til að hafa áfram í lögum ákvæði 1. mgr. 20. gr. gildandi laga um opinberan flutning söngtexta fyrir áheyrendur á hljómleikum.
    Í 4. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar er tekið fram að þeim tilvikum sem aðildarríkjunum sé heimilt að kveða á um undanþágu eða takmörkun vegna réttar til eftirgerðar skv. 2. og 3. mgr. sé þeim á sama hátt heimilt að kveða á um undanþágu eða takmörkun vegna dreifingarréttar, eins og kveðið sé á um í 4. gr. að því marki sem réttlætanlegt sé miðað við tilganginn með hinni leyfilegu eftirgerð. Gildandi höfundalög hafa ekki að geyma skýrar undantekningar af þessum toga en almennt er viðurkennt að undantekningar frá einkaréttinum til eintakagerðar í II. kafla laganna feli jafnframt í sér undantekningu frá dreifingarréttinum að því marki sem nauðsynlegt er til að uppfylla tilganginn með undantekningunni.
    Í 5. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar er ákvæði um svonefnt þriggja þrepa skilyrði sem beita ber við útfærslu undantekninga og takmarkana á einkarétti höfunda og annarra rétthafa. Þegar hefur verið gerð grein fyrir þriggja þrepa reglunni í almennum athugasemdum við frumvarp þetta. Ekki er talið nauðsynlegt að lögfesta regluna í höfundalög.
    Í 6. gr. tilskipunarinnar er fjallað um réttarvernd tæknilegra ráðstafana sem lagt er til að verði lögfestar sem nýr kafli í höfundalögum, V. kafli A, 50. gr. a – 50. gr. d, sbr. 12. gr. frumvarpsins.
    Í 7. gr. tilskipunarinnar er fjallað um réttarvernd rafrænna upplýsinga um réttindaumsýslu sem lagt er til að verði lögfest í c-lið 12. gr. frumvarpsins (50. gr. c).
    Í 1. og 2. mgr. 8. gr. tilskipunarinnar er fjallað um viðurlög og úrræði gegn brotum sem teljast vera uppfyllt með 54. og 55. gr. höfundalaga, auk bótareglu í 56. gr. laganna. Lagt er til að brot gegn ákvæðum í nýjum kafla, V. kafla A, verði bætt við í upptalningu 5. tölul. 2. mgr. 54. gr., sbr. 13. gr. frumvarpsins.
    Í 3. mgr. 8. gr. tilskipunarinnar er fjallað um það úrræði rétthafa að fá lagt lögbann gegn þjónustu sem milliliður veitir þriðja manni og kann að fela í sér brot á höfundarétti. Ákvæðið telst þegar uppfyllt með úrræðum sem fram koma í V. kafla laga um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, nr. 30/2002, sbr. IV. kafla laga um kyrrsetningu og lögbann, nr. 31/1990. Af 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins, sem verður 10. gr. a í lögunum, mun leiða að tiltekin tilfallandi tæknileg eintök birtra verka, sem verða til fyrir sendingu gagna af hálfu milliliðar í neti á milli þriðju aðila, verða framvegis lögleg eintök.
    Í 9. gr. tilskipunarinnar kemur fram að henni sé ekki ætlað að hafa áhrif á ákvæði á öðrum réttarsviðum, þ.m.t. landsreglur um skylduskil safna, aðgang að opinberum upplýsingum o.fl.
    Í 10. gr. tilskipunarinnar er fjallað um tímafrest aðildarlanda EB til innleiðingar ákvæða hennar í landslög. Ákvæðið hefur ekki áhrif á innleiðingu tilskipunarinnar hér landi, sbr. almennar athugasemdir með lagafrumvarpi þessu.
     1. mgr. 11. gr. tilskipunarinnar um tæknilega aðlögun gefur ekki tilefni til lagabreytinga hér á landi.
    Í 2. mgr. 11. gr. tilskipunarinnar um er mælt fyrir um breytingu á útreikningi verndartíma hljóðrita skv. 2. mgr. 3. gr. tilskipunar 93/98/EBE.
    Ákvæði 12.–15. gr. tilskipunarinnar um innleiðingu og gildistöku gefa ekki tilefni til breytinga á gildandi lögum.

Fylgiskjal III.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2001/29/EB
frá 22. maí 2001
um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagins, einkum 2. mgr. 47. gr., 55. gr. og 95. gr.
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ),
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndarinnar ( 2 ),
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 3 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
     1.      Sáttmálinn kveður á um stofnun innri markaðar og innleiðingu kerfis sem tryggir að samkeppni á innri markaðinum raskist ekki. Samræming laga aðildarríkjanna um höfundarétt og skyld réttindi stuðlar að því að þessum markmiðum verði náð.
     2.      Á fundi sínum á Korfu, dagana 24. og 25. júní 1994, lagði leiðtogaráðið áherslu á nauðsyn þess að móta almennan og sveigjanlegan lagaramma á vettvangi bandalagsins með það fyrir augum að stuðla að þróun upplýsingasamfélagsins í Evrópu. Ein af forsendum þessa er að fyrir hendi sé innri markaður fyrir nýjar vörur og þjónustu. Mikilvæg bandalagslöggjöf til að tryggja slíkan lagaramma hefur þegar verið sett eða er í þann mund að verða samþykkt. Höfundaréttur og skyld réttindi gegna veigamiklu hlutverki í þessu samhengi þar eð þau vernda og ýta undir þróun og markaðssetningu nýrra vara og þjónustu sem og sköpun og hagnýtingu frumlegs inntaks þeirra.
     3.      Fyrirhuguð samræming greiðir fyrir því að fjórfrelsi innri markaðarins verði komið á og tengist því að farið sé að meginreglum laga og þá sérstaklega að því er varðar eignarrétt, þar á meðal á hugverkum, tjáningarfrelsi og almannaheill.
     4.      Samræmdur lagarammi um höfundarétt og skyld réttindi mun, í krafti aukins réttaröryggis og víðtækrar hugverkaverndar, ýta undir verulegar fjárfestingar í hugviti og nýsköpun, þar á meðal í netgrunnvirkjum, og hafa í för með sér vöxt og aukna samkeppnishæfni evrópsks iðnaðar, bæði á sviði efnisframboðs og upplýsingatækni og almennt á ýmsum sviðum iðnaðar og menningar. Þetta mun tryggja atvinnu og hvetja til sköpunar nýrra starfa.
     5.      Tækniþróunin hefur margfaldað og aukið fjölbreytni þeirra þátta sem stuðla að sköpun, framleiðslu og hagnýtingu. Þótt ekki sé þörf á nýjum hugtökum er varða vernd hugverka er rétt að aðlaga og auka við gildandi lög um höfundarétt og skyld réttindi til að þau samsvari á fullnægjandi hátt hinum efnahagslega veruleika, svo sem nýjum formum hagnýtingar.
     6.      Án samhæfingar innan bandalagsins gæti lagasetning á innlendum vettvangi, en hún er þegar hafin í mörgum aðildarríkjanna til að koma til móts við þróun tækninnar, leitt til verulegs munar á réttarvernd og takmarkað þar með frjálsa þjónustustarfsemi og vöruflutninga sem fela í sér hugverk eða byggjast á hugverki en það gæti aftur leitt til skiptingar innri markaðarins og ósamræmis í lagasetningu. Áhrif þessa lagaósamræmis og réttaróvissu verða veigameiri eftir því sem upplýsingasamfélagið þróast en sú þróun hefur þegar aukið að mun hagnýtingu hugverka yfir landamæri. Þessi þróun heldur áfram og er ástæða til að efla hana. Veigamikill munur á löggjöf og óvissa í réttarvernd getur komið í veg fyrir að unnt sé að nýta hagkvæmni stórreksturs að því er varðar nýjar vörur og þjónustu með inntaki sem heyrir undir höfundarétt og skyld réttindi.
     7.      Því verður að aðlaga og auka við lagaramma bandalagsins um vernd höfundaréttar og skyldra réttinda í þeim mæli sem nauðsynlegt er fyrir snurðulausa starfsemi innri markaðarins. Í þessu skyni er því rétt að breyta þeim ákvæðum landslaga um höfundarétt og skyld réttindi sem eru mjög ólík milli aðildarríkja eða valda réttaróvissu sem hindrar snurðulausa starfsemi innri markaðarins og eðlilega þróun upplýsingasamfélagsins í Evrópu og forðast ber ósamræmi í því hvernig aðildarríkin bregðast við þróun tækninnar en hins vegar er ekki ástæða til að afnema eða koma í veg fyrir þann mun sem hefur ekki skaðleg áhrif á starfsemi innri markaðarins.
     8.      Mismunandi félagslegir, samfélagslegir og menningarlegir þættir upplýsingasamfélagsins útheimta að tekið sé mið af sérkennum í inntaki vara og þjónustu.
     9.      Öll samræming höfundaréttar og skyldra réttinda verður að byggjast á víðtækri vernd þar eð slík réttindi eru afar mikilvæg fyrir sköpun hugverka. Vernd þeirra stuðlar að því að tryggja framhald og þróun sköpunarstarfs en það kemur höfundum, listflytjendum, framleiðendum, neytendum, menningarstarfsemi, iðnaði og öllum almenningi til góða. Hugverkaréttur hefur því verið viðurkenndur sem órjúfanlegur hluti eignarréttar.
     10.      Eigi höfundar og listflytjendur að halda áfram skapandi og listrænu starfi sínu verða þeir að fá viðeigandi þóknun fyrir afnot af verkum sínum og sama máli gegnir um framleiðendur til að þeir geti fjármagnað þetta starf. Verulegrar fjárfestingar er þörf við framleiðslu á vörum, eins og hljóðritum, kvikmyndum eða margmiðlunarvörum, og við þjónustu eins og pöntunarþjónustu. Fullnægjandi lögvernd hugverkaréttinda er nauðsynleg til að tryggja slíka þóknun og gefa kost á viðunandi arði af fjárfestingunum.
     11.      Nákvæmt, skilvirkt kerfi til að vernda höfundarétt og skyld réttindi er ein helsta leiðin til að tryggja að sköpun og framleiðsla menningarverka í Evrópu fái nægilegt fjármagn og til að standa vörð um sjálfstæði og reisn listrænna höfunda og listflytjenda.
     12.      Einnig er mjög mikilvægt frá menningarlegu sjónarmiði að vernda á fullnægjandi hátt verk, sem njóta höfundaréttar, og efni sem nýtur skyldrar verndar. Skv. 151. gr. sáttmálans skal bandalagið í aðgerðum sínum taka tillit til menningarlegra þátta.
     13.      Það hefur grundvallarþýðingu að leitað sé í sameiningu að tæknilegum ráðstöfunum sem beitt skal á samræmdan hátt á evrópskum vettvangi og miða að því að vernda verk og annað efni og tryggja nauðsynlegar upplýsingar um réttindi á þessu sviði, svo fremi að lokamarkmiðið með þessum ráðstöfunum sé að tryggja raunverulega framkvæmd þeirra meginreglna og ábyrgða sem mælt er fyrir um í lögunum.
     14.      Með þessari tilskipun er stefnt að því að efla menntun og menningu með því að vernda verk og annað efni en gefa um leið kost á undanþágum eða takmörkunum í þágu almennings með nám og kennslu fyrir augum.
     15.      Á ráðstefnu sendierindreka, sem haldin var á vegum Alþjóðahugverkastofnunarinnar (WIPO) í desember 1996, voru samþykktir tveir nýir samningar: samningur Alþjóðahugverkastofnunarinnar um höfundarétt og samningur Alþjóðahugverkastofnunarinnar um flutning og hljóðritun og fjallar sá fyrri um vernd höfunda og sá seinni um vernd listflytjenda og framleiðenda hljóðrita. Í sáttmálum þessum er vernd höfundaréttar og skyldra réttinda uppfærð umtalsvert, ekki síst að því er varðar hina svokölluðu stafrænu verkaskrá, auk þess sem gefinn er kostur á fleiri úrræðum til að berjast gegn stuldi á vernduðu efni um heim allan. Bandalagið og meirihluti aðildarríkjanna hafa þegar undirritað sáttmálana og hafið undirbúning að fullgildingu þeirra. Tilskipunin miðar einnig að því að koma í framkvæmd ýmsum nýjum, alþjóðlegum skuldbindingum.
     16.      Skaðabótaskylda fyrir starfsemi í netumhverfi varðar ekki einungis höfundarétt og skyld réttindi heldur einnig önnur málefni, svo sem ærumeiðingar, villandi auglýsingar eða brot á vörumerkjarétti, og því er fjallað um hana á breiðum grundvelli í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/31/EB frá 8. júní 2000 um tiltekna lagalega þætti þjónustu, einkum rafrænna viðskipta, í tengslum við upplýsingasamfélagið á innri markaðnum („tilskipun um rafræn viðskipti“) ( 4 ) en þar eru útskýrð og samræmd ýmis lögfræðileg úrlausnarefni sem varða þjónustu í upplýsingasamfélaginu, þar á meðal rafræn viðskipti. Ákvæði þessarar tilskipunar ber að framkvæma samkvæmt svipaðri tímaáætlun og tilskipunina um rafræn viðskipti enda er í þeirri tilskipun mótaður rammi meginreglna og ákvæða sem varða m.a. mikilvæga hluta þessarar tilskipunar. Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á ákvæði um skaðabótaskyldu í fyrrnefndu tilskipuninni.
     17.      Nauðsynlegt er, einkum með hliðsjón af þeim kröfum sem gerðar eru í hinu stafrænu umhverfi, að ná fram meiri hagræðingu og gagnsæi hjá innheimtusamtökum að því er varðar samræmi við samkeppnisreglur.
     18.      Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á fyrirkomulag í aðildarríkjunum er varðar umsýslu réttinda, svo sem með samningskvöðum.
     19.      Siðferðileg réttindi rétthafa skulu sótt í samræmi við löggjöf aðildarríkjanna og ákvæði Bernarsáttmálans til verndar bókmenntum og listaverkum og samninga Alþjóðahugverkastofnunarinnar um höfundarétt og um flutning og hljóðritanir. Slík siðferðileg réttindi falla utan gildissviðs þessarar tilskipunar.
     20.      Þessi tilskipun byggist á meginreglum og öðrum reglum sem hafa þegar verið settar í tilskipunum sem nú eru í gildi á þessu sviði, einkum í tilskipunum 91/250/EBE ( 5 ), 92/100/EBE ( 6 ), 93/83/EBE ( 7 ), 93/98/EBE ( 8 ) og 96/9/EB ( 9 ), og í henni eru þessar reglur mótaðar frekar og tengdar upplýsingasamfélaginu. Ákvæði þessarar tilskipunar skulu ekki hafa áhrif á ákvæði framangreindra tilskipana nema kveðið sé á um annað í þessari tilskipun.
     21.      Í þessari tilskipun ber að skilgreina gildissvið aðgerða, sem falla undir réttinn til eftirgerðar, með tilliti til mismunandi rétthafa. Þetta skal gert í samræmi við réttarreglur bandalagsins. Aðgerðirnar þarf að skilgreina á víðtækan hátt til að tryggja réttaröryggi á innri markaðinum.
     22.      Því markmiði, að veita tilhlýðilegan stuðning við útbreiðslu menningar, má ekki ná með tilslökunum á strangri vernd réttinda eða með því að umbera ólögleg viðskipti með fölsuð listaverk eða ólöglegar eftirgerðir.
     23.      Með þessari tilskipun skal samræmdur frekar réttur höfundar til miðlunar til almennings. Þennan rétt ber að skilja á almennan hátt þannig að hann taki til allrar miðlunar til almennings sem er ekki staddur á þeim stað þar sem miðlunin fer fram. Þessi réttur skal ná yfir hvers kyns útsendingar eða endurvarp á verkum til almennings um þráð eða þráðlaust, þar á meðal útvarp (hljóðvarp og sjónvarp). Þessi réttur skal ekki ná yfir neinar aðrar aðgerðir.
     24.      Réttinn til að gera efnið, sem um getur í 2. mgr. 3. gr., aðgengilegt almenningi skal skilja með þeim hætti að hann nái yfir allar aðgerðir sem felast í að gera slíkt efni aðgengilegt almenningi sem er ekki staddur á þeim stað þar sem efnið er gert aðgengilegt, en að hann nái ekki yfir neinar aðrar aðgerðir.
     25.      Með því að kveða á um samræmda vernd innan bandalagins skal eytt réttaróvissu um eðli og stig verndar á aðgerðum á borð við útsendingar um net eftir pöntun á verkum sem njóta höfundaréttar og efni sem nýtur skyldrar verndar. Það skal koma skýrt fram að allir, sem eru viðurkenndir sem rétthafar samkvæmt þessari tilskipun, skulu njóta einkaréttar til að gera verk, sem njóta höfundaréttar, eða annað efni aðgengilegt almenningi með gagnvirkum útsendingum eftir pöntun. Einkenni slíkra gagnvirkra útsendinga eftir pöntun eru þau að hver og einn getur fengið aðgang að þeim á þeim stað og á þeirri stund sem hann sjálfur kýs.
     26.      Þegar útvarpsrekendur bjóða pöntunarþjónustu fyrir hljóðvarps- eða sjónvarpsefni sem tónlist, hljóðrituð í hagnaðarskyni, er órjúfanlegur hluti af skal hvetja til heildarsamninga um nytjaleyfi til að auðvelda afgreiðslu réttindamála.
     27.      Það eitt, að útvega aðstöðu þar sem miðlun fer fram eða getur farið fram, telst ekki í sjálfu sér miðlun í skilningi þessarar tilskipunar.
     28.      Samkvæmt þessari tilskipun felur höfundaréttarvernd einnig í sér einkarétt til að stjórna dreifingu verks sem er hluti af efnislegri vöru. Eftir fyrstu sölu í bandalaginu á frumverki eða afritum þess af hálfu rétthafa eða með leyfi hans er rétturinn til að stjórna endursölu þessa verks í bandalaginu tæmdur. Ekki kemur til réttindaþurrðar að því er varðar frumrit verks og afrit þess sem rétthafi selur eða eru seld með samþykki hans utan bandalagsins. Leigu- og útlánsréttur höfunda hefur verið ákveðinn með tilskipun 92/100/EBE. Dreifingarrétturinn, sem kveðið er á um í þessari tilskipun, hefur ekki áhrif á ákvæði um leigu- og útlánsrétt í I. kafla þeirrar tilskipunar.
     29.      Réttindaþurrð kemur ekki til álita þegar um þjónustu er að ræða og þá einkum beinlínuþjónustu. Þetta á einnig við um afrit verks eða annars efnis sem notandi slíkrar þjónustu hefur tekið með samþykki rétthafa. Það sama gildir því um útlán og leigu á frumriti og afritum verka eða öðru efni en hvorttveggja er í eðli sínu þjónusta. Ólíkt því sem gildir um geisladiska eða gagnvirka geisladiska, þar sem hugverkaréttur er fólginn í efnislegum hlut, með öðrum orðum vöru, er beinlínutengd þjónustustarfsemi í raun aðgerð sem skal háð leyfi enda sé gert ráð fyrir því í höfundaréttinum eða skyldum réttindum.
     30.      Heimilt er að framselja réttindin, sem um getur í þessari tilskipun, ánafna þeim eða veita öðrum samkvæmt samningsleyfi án þess að það hafi áhrif á viðeigandi innlenda löggjöf um höfundarétt og skyld réttindi.
     31.      Nauðsynlegt er að viðhalda réttlátu jafnvægi, að því er varðar réttindi og hagsmuni, milli mismunandi flokka rétthafa og einnig milli mismunandi flokka rétthafa og notenda verndaðs efnis. Endurmeta þarf gildandi undanþágur frá réttindum og takmarkanir á þeim í aðildarríkjunum með hliðsjón af hinu nýja, rafræna umhverfi. Sá munur, sem er á undanþágum og takmörkunum að því er varðar tilteknar aðgerðir sem heyra undir einkaréttindi, hefur bein, neikvæð áhrif á starfsemi innri markaðarins fyrir höfundarétt og skyld réttindi. Slíkur munur gæti hæglega aukist við frekari þróun í hagnýtingu verka yfir landamæri og starfsemi yfir landamæri. Til að tryggja eðlilega starfsemi innri markaðarins ber að skilgreina slíkar undanþágur og takmarkanir á samræmdari hátt. Hversu langt skal gengið í að samræma þær skal miðast við áhrif þeirra á snurðulausa starfsemi innri markaðarins.
     32.      Í þessari tilskipun er tæmandi skrá yfir undanþágur og takmarkanir er varða réttinn til eftirgerðar og réttinn til miðlunar til almennings. Sumar af þessum undanþágum og takmörkunum gilda eingöngu um réttinn til eftirgerðar eftir því sem við á. Í skránni er tekið tilhlýðilegt tillit til mismunandi lagahefða í aðildarríkjunum og um leið stefnt að því að tryggja starfhæfan innri markað. Aðildarríkjunum ber að beita þessum undanþágum og takmörkunum á samræmdan hátt og það verður metið þegar kemur að endurskoðun framkvæmdarlöggjafarinnar.
     33.      Einkaréttur til eftirgerðar skal háður undanþágu sem heimilar tilteknar tímabundnar aðgerðir til eftirgerðar sem eru til skamms tíma eða tilfallandi og eru órjúfanlegur og mikilvægur liður í tækniferli og eiga sér einungis stað í þeim tilgangi að gera mögulega annaðhvort skilvirka útsendingu af hálfu milliliðs í neti milli þriðju aðila eða löglega notkun verks eða annars efnis. Sjálfar aðgerðirnar skulu ekki hafa sjálfstætt efnahagslegt gildi. Svo fremi að aðgerðir til eftirgerðar uppfylli þessi skilyrði skal undanþágan taka til aðgerða sem gera það kleift að rápa á vefnum og skyndivista, þar á meðal aðgerðir til að tryggja að útsendingarkerfi starfi á skilvirkan hátt, að því tilskildu að milliliðurinn breyti ekki upplýsingunum og grípi ekki inn í löglega notkun tækni, sem er viðurkennd og notuð í atvinnugreininni, í þeim tilgangi að afla sér gagna um notkun upplýsinganna. Notkun telst lögleg ef hún er heimiluð af rétthafa eða ekki takmörkuð með lögum.
     34.      Aðildarríkjunum skal gefinn kostur á að kveða á um tilteknar undanþágur eða takmarkanir, t.d. vegna fræðslu- eða vísindastarfsemi, í þágu opinberra stofnana, svo sem bóka- og skjalasafna, vegna fréttamennsku, vegna tilvitnana, til notkunar fyrir fatlað fólk, vegna almannaöryggis og vegna stjórnsýslumeðferðar eða málareksturs fyrir dómi.
     35.      Þegar um er að ræða ákveðnar undanþágur eða takmarkanir ber rétthöfum sanngjarnar bætur til að þeim verði bætt afnot af vernduðum verkum sínum eða öðru efni með fullnægjandi hætti. Við ákvörðun á formi þessara sanngjörnu bóta og nánara fyrirkomulagi varðandi þær og hugsanlegri fjárhæð þeirra skal tekið mið af sérstökum aðstæðum í hverju tilviki. Við mat á þessum aðstæðum er við hæfi að hafa sem viðmiðun þann skaða sem viðkomandi aðgerð gæti hugsanlega valdið rétthafa. Í tilvikum, þar sem rétthafar hafa þegar fengið greiðslu með öðrum hætti, t.d. sem hluta af höfundarþóknun, er ekki víst að þeim beri tiltekin eða sérstök greiðsla. Við ákvörðun á fjárhæð sanngjarnra bóta skal tekið fullt tillit til þess í hve miklum mæli beitt hefur verið þeim tæknilegu verndarráðstöfunum sem um getur í þessari tilskipun. Í ákveðnum tilvikum, þar sem skaði rétthafa er óverulegur, kann að vera að ekki liggi fyrir greiðsluskylda.
     36.      Aðildarríkin geta einnig kveðið á um sanngjarnar bætur til rétthafa þegar þau beita valfrjálsum ákvæðum um undanþágur eða takmarkanir sem innihalda ekki kröfur um slíkar bætur.
     37.      Innlendar reglur um ljósritun, sem kunna að vera fyrir hendi, valda ekki miklum hindrunum fyrir innri markaðinn. Aðildarríkjunum skal vera heimilt að kveða á um undanþágu eða takmörkun að því er varðar ljósritun.
     38.      Aðildarríkjunum skal vera heimilt að kveða á um undanþágu eða takmörkun á réttinum til eftirgerðar fyrir tilteknar tegundir eftirgerðar á hljóðefni, myndefni og hljóð- og myndefni til einkanota gegn sanngjörnum bótum. Þetta getur falið í sér að tekin verði upp þóknunarkerfi eða að núverandi kerfum verði haldið til að bæta skaða rétthafa. Þótt munurinn á þessum þóknunarkerfum hafi áhrif á starfsemi innri markaðarins ætti hann ekki að hafa marktæk áhrif á þróun upplýsingasamfélagsins að því er viðvíkur hliðrænni eftirgerð til einkanota. Líklegt er að stafræn afritun til einkanota verði almennari og hafi meiri áhrif í efnahagslegu tilliti. Því ber að taka tilhlýðilegt tillit til þess munar sem er á stafrænni og hliðrænni afritun til einkanota og í tilteknum tilvikum skal gerður greinarmunur á þeim.
     39.      Þegar aðildarríkin beita undanþágu eða takmörkun viðvíkjandi afritun til einkanota ber þeim að taka tilhlýðilegt tillit til tæknilegrar og efnahagslegrar þróunar, einkum að því er varðar stafræna afritun til einkanota og þóknunarkerfi, ef völ er á skilvirkum tæknilegum verndarráðstöfunum. Slíkar undanþágur eða takmarkanir skulu hvorki hindra að tæknilegum ráðstöfunum sé beitt né að komið sé í veg fyrir að farið sé fram hjá þeim.
     40.      Aðildarríkjunum er heimilt að kveða á um undanþágu eða takmörkun í þágu tiltekinna stofnana sem ekki eru reknar í hagnaðarskyni, svo sem almenningsbókasafna og sambærilegra stofnana sem og skjalasafna. Það skal þó takmarkað við tiltekin sértilvik sem falla undir réttinn til eftirgerðar. Slík undanþága eða takmörkun skal ekki ná til afnota í tengslum við beinlínuafhendingu á vernduðum verkum eða öðru efni. Þessi tilskipun skal ekki hafa áhrif á möguleika aðildarríkjanna til að víkja frá ákvæðum um einkarétt til útlána til almennings í samræmi við 5. gr. tilskipunar 92/100/ EBE. Því er rétt að hvetja til að gerðir verðir sérstakir samningar eða veitt sérstök nytjaleyfi sem eru hagstæð þessum stofnunum og miðlunarhlutverki þeirra án þess þó að skapa misvægi.
     41.      Þegar undanþágu eða takmörkun er beitt gagnvart upptökum til skamms tíma hjá útvarpsfyrirtæki telst eigin búnaður útvarpsfyrirtækisins einnig ná yfir búnað aðila sem kemur fram fyrir hönd útvarpsfyrirtækisins og á þess ábyrgð.
     42.      Þegar undanþágu eða takmörkun er beitt vegna fræðslu eða vísindarannsókna sem fara ekki fram í hagnaðarskyni, þar með talið fjarnám, skal það ákvarðast af starfseminni sem slíkri hvort hún er í hagnaðarskyni. Stjórnskipulag og fjármögnunarleiðir viðkomandi stofnunar eru ekki úrslitaþættir í þessum efnum.
     43.      Í öllum tilvikum er mikilvægt fyrir aðildarríkin að samþykkja allar nauðsynlegar ráðstafanir til að auðvelda aðgang að verkunum fyrir einstaklinga, sem eru fatlaðir á þann hátt að það geri þeim erfitt um vik að njóta verkanna sjálfra, og gefa sérstakan gaum að aðgengilegum framsetningarhætti.
     44.      Þegar beitt er undanþágum og takmörkunum sem kveðið er á um í þessari tilskipun skal það gert í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar. Þessum undanþágum og takmörkunum skal ekki beitt á neinn þann hátt sem skaðar lögmæta hagsmuni rétthafa eða brýtur í bága við eðlilega hagnýtingu verka hans eða annars efnis. Ákvæði aðildarríkjanna um slíkar undanþágur eða takmarkanir skulu einkum endurspegla á tilhlýðilegan hátt aukin efnahagsleg áhrif sem undanþágurnar eða takmarkanirnar geta haft í tengslum við hið nýja rafræna umhverfi. Því verður gildissvið tiltekinna undanþágna eða takmarkana að vera jafnvel enn takmarkaðra að því er viðvíkur tiltekinni, nýrri notkun verka, sem njóta höfundaréttar, og annars efnis.
     45.      Undanþágurnar og takmarkanirnar, sem um getur í 2., 3. og 4. mgr. 5. gr., skulu þó ekki koma í veg fyrir skilgreiningu á samningsbundnum tengslum sem ætlað er að tryggja rétthöfum sanngjarnar bætur að því marki sem það er heimilt samkvæmt landslögum.
     46.      Sáttaumleitanir gætu komið að gagni við lausn ágreiningsmála milli notenda og rétthafa. Framkvæmdastjórninni ber, í samvinnu við aðildarríkin, að kanna ný lagaúrræði innan tengslanefndarinnar í því skyni að leysa ágreiningsmál um höfundarétt og skyld réttindi.
     47.      Tækniþróunin mun einnig gera rétthöfum kleift að nýta sér tæknilegar ráðstafanir sem ætlað er að koma í veg fyrir eða takmarka aðgerðir sem eru ekki heimilaðar af rétthafa höfundaréttar, rétthafa réttinda, sem eru skyld höfundarétti, eða rétthafa sinnar tegundar réttar ( sui generis) að gagnagrunni. Þó er sú hætta fyrir hendi að fram fari ólögleg starfsemi til að gera það kleift eða auðveldara að fara fram hjá þeirri tæknilegu vernd sem þessar ráðstafanir veita. Til að koma í veg fyrir að settar verði samhengislausar réttarreglur sem hindrað gætu starfsemi innri markaðarins þarf því að kveða á um samræmda lögvernd gegn því að farið sé fram hjá skilvirkum, tæknilegum ráðstöfunum og gegn sölu tækja og vara eða þjónustu í sama tilgangi.
     48.      Kveða ber á um slíka lögvernd að því er varðar tæknilegar ráðstafanir sem takmarka, á skilvirkan hátt, aðgerðir sem eru ekki heimilaðar af rétthafa höfundaréttar, rétthafa réttinda, sem eru skyld höfundarétti, eða rétthafa sinnar tegundar réttar að gagnagrunni, án þess þó að hindra eðlilega notkun rafeindabúnaðar og tæknilega þróun hans. Slík lögvernd felur ekki í sér skyldur til að hanna tæki, vörur, íhluti eða þjónustu sem samsvara hinum tæknilegu ráðstöfunum, svo framarlega sem þessi tæki, vörur, íhlutir eða þjónusta falla ekki á annan hátt undir bannákvæði 6. gr. Í slíkri réttarvernd ber að virða meðalhófsregluna og ekki má banna tæki eða starfsemi sem hafa annan efnahagslega mikilvægan tilgang eða eru notuð til annars en að fara fram hjá hinni tæknilegu vernd. Einkum má þessi vernd ekki hindra rannsóknir á dulkóðun.
     49.      Lögvernd tæknilegra ráðstafana hefur ekki áhrif á beitingu ákvæða landslaga sem kunna að banna einkaeign tækja, vara eða íhluta sem gera það kleift að fara fram hjá tæknilegum ráðstöfunum.
     50.      Þessi samræmda lögvernd hefur ekki áhrif á sérákvæði um vernd í tilskipun 91/250/EBE. Einkum skal hún ekki taka til verndar tæknilegra ráðstafana sem er beitt í tengslum við tölvuforrit sem fjallað er eingöngu um í þeirri tilskipun. Hún skal hvorki hamla né koma í veg fyrir þróun eða notkun neins konar úrræða til að fara fram hjá tæknilegri ráðstöfun ef slíkt er nauðsynlegt til að framkvæma aðgerðir í samræmi við skilmála 3. mgr. 5. gr. eða 6. gr. tilskipunar 91/250/EBE. Í ákvæðum 5. og 6. gr. þeirrar tilskipunar eru eingöngu tilgreindar undanþágur frá einkarétti að tölvuforritum.

     51.      Lögvernd tæknilegra ráðstafana gildir með fyrirvara um allsherjarreglu, í samræmi við ákvæði 5. gr., eða almannaöryggi. Aðildarríkin skulu hvetja til þess að gripið verði til valfrjálsra ráðstafana af hálfu rétthafa, þar á meðal gerð og framkvæmd samninga milli rétthafa og annarra hagsmunaaðila, til að unnt sé að ná markmiðunum með tilteknum undanþágum eða takmörkunum sem kveðið er á um í landslögum í samræmi við þessa tilskipun. Hafi ekki verið gerðar slíkar valfrjálsar ráðstafanir eða samningar innan eðlilegs tíma skulu aðildarríkin gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að rétthafar, með því að breyta tæknilegri ráðstöfun sem hefur verið gerð eða með öðrum hætti, veiti þeim sem eiga rétt á slíkum undanþágum eða takmörkunum viðeigandi tækifæri til að nýta þær. Til að koma í veg fyrir misnotkun á slíkum ráðstöfunum sem rétthafar gera, m.a. innan ramma samninga, eða sem aðildarríki gerir skulu þó allar tæknilegar ráðstafanir njóta lögverndar ef þeim er beitt til framkvæmdar slíkum ráðstöfunum.
     52.      Þegar undanþága eða takmörkun vegna afritunar til einkanota, í samræmi við b-lið 2. mgr. 5. gr., kemur til framkvæmda skulu aðildarríkin með sama hætti hvetja til notkunar valfrjálsra ráðstafana til að unnt sé að ná markmiðunum með undanþágunni eða takmörkuninni. Ef ekki hafa verið gerðar slíkar valfrjálsar ráðstafanir innan sanngjarns tíma til að gera eftirgerð til einkanota mögulega geta aðildarríkin gert ráðstafanir til að gera þeim sem eiga rétt á undanþágunni eða takmörkuninni kleift að nýta sér hana. Valfrjálsar ráðstafanir rétthafa, þar á meðal samningar milli rétthafa og annarra hagsmunaaðila, og ráðstafanir aðildarríkjanna koma ekki í veg fyrir að rétthafar geti gripið til tæknilegra ráðstafana sem samrýmast þeim undanþágum eða takmörkunum í landslögum, viðvíkjandi afritun til einkanota, sem eru í samræmi við ákvæði b-liðar 2. mgr. 5. gr., að teknu tilliti til skilyrðis um sanngjarnar bætur samkvæmt því ákvæði og hugsanlegs greinarmunar sem gerður er á mismunandi skilyrðum um notkun í samræmi við 5. mgr. 5. gr., svo sem eftirliti með fjölda eftirgerða. Til að koma í veg fyrir að slíkar ráðstafanir verði misnotaðar skulu allar tæknilegar ráðstafanir til framkvæmdar þeim njóta lögverndar.

     53.      Vernd tæknilegra ráðstafana skal tryggja öruggt umhverfi fyrir veitingu gagnvirkrar pöntunarþjónustu með þeim hætti að hver og einn geti fengið aðgang að verkum eða öðru efni á þeim stað og á þeirri stund sem hann sjálfur kýs. Ef slík þjónusta fellur undir samningsbundin tengsl gildir fyrsta og önnur undirgrein 4. mgr. 6. gr. ekki. Beinlínunotkun, sem er ekki gagnvirk, skal áfram heyra undir þessi ákvæði.
     54.      Miklar framfarir hafa orðið í alþjóðlegri stöðlun tæknikerfa til að auðkenna verk og verndað efni sem er með stafrænu sniði. Í umhverfi, sem verður sífellt netvæddara, getur munur á tæknilegum ráðstöfunum leitt til ósamrýmanleika milli kerfa í bandalaginu. Hvetja skal til samræmis og rekstrarsamhæfis milli mismunandi kerfa. Mjög æskilegt væri að stuðlað yrði að þróun hnattrænna kerfa.
     55.      Tækniþróunin mun auðvelda dreifingu verka, einkum um netkerfi, en það hefur í för með sér að rétthafar verða að auðkenna betur verkin eða annað efni og höfundinn eða annan rétthafa og veita upplýsingar um skilyrði og skilmála fyrir notkun verkanna eða annars efnis með það fyrir augum að auðvelda umsýslu réttindanna sem fylgja þeim. Rétthafar skulu hvattir til að nota merkingar, þegar verk eða annað efni er sett á netin, þar sem fram kemur heimild þeirra ásamt upplýsingunum sem um getur hér að framan.
     56.      Sú hætta er þó fyrir hendi að fram fari ólögleg starfsemi í þeim tilgangi að fjarlægja eða breyta rafrænum upplýsingum um umsýslu höfundaréttinda eða til að dreifa með öðrum hætti, flytja inn til dreifingar, útvarpa, miðla til almennings eða gera aðgengileg almenningi verk eða annað verndað efni sem slíkar upplýsingar hafa verið fjarlægðar úr í heimildarleysi. Til að koma í veg fyrir að settar verði samhengislausar réttarreglur sem hindrað gætu starfsemi innri markaðarins þarf því að kveða á um samræmda lögvernd gegn hvers konar starfsemi af þessu tagi.
     57.      Öll slík kerfi upplýsinga um réttindaumsýslu, sem um getur hér að framan, geta um leið unnið persónuupplýsingar um neyslumynstur einstaklinga í tengslum við verndað efni, ef þau eru hönnuð þannig, og gert það kleift að kortleggja hegðun þessara einstaklinga á netum. Þessi tæknibúnaður skal m.a. innihalda tæknilega tálma til að vernda friðhelgi einkalífsins í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 95/46/EB frá 24. október 1995 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga ( 10 ).
     58.      Aðildarríkin skulu kveða á um skilvirk viðurlög og úrræði að því er varðar brot á réttindum og skyldum sem kveðið er á um í þessari tilskipun. Þau skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að þessum viðurlögum og úrræðum sé beitt. Viðurlögin, sem kveðið er á um, skulu vera skilvirk, í réttu hlutfalli við brotið og letjandi og í þeim skal kveðið á um möguleika á því að fara fram á skaðabætur og/eða lögbann og, þar sem það á við, að ólöglega efnið verði gert upptækt.
     59.      Þriðju aðilar geta í auknum mæli nýtt sér þjónustu milliliða til brotlegrar háttsemi, einkum í hinu stafræna umhverfi. Í mörgum tilvikum eru slíkir milliliðir í bestri aðstöðu til að binda enda á brotlega háttsemi af þessu tagi. Með fyrirvara um önnur viðurlög og úrræði sem bjóðast skulu rétthafar eiga þess kost að fara fram á lögbann gegn millilið sem miðlar um net afrakstri af broti þriðja aðila á rétti að vernduðu verki eða öðru efni. Þessi kostur skal einnig vera fyrir hendi þótt aðgerðir milliliðarins séu undanþegnar skv. 5. gr. Aðildarríkin skulu setja skilyrði og nánari ákvæði um slíkt lögbann í landslög sín.
     60.      Verndin, sem kveðið er á um í þessari tilskipun, skal ekki hafa áhrif á ákvæði í landslögum eða bandalagslögum á öðrum sviðum, svo sem ákvæði um hugverkarétt á sviði iðnaðar, gagnavernd, skilyrtan aðgang, aðgang að opinberum skjölum og regluna um tímaröðun á nýtingu miðla, sem geta haft áhrif á höfundarétt eða skyld réttindi.
     61.      Til að fara að ákvæðum samnings Alþjóðahugverkastofnunarinnar um flutning og hljóðritun ber að breyta tilskipunum 92/100/EBE og 93/98/EBE.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

I. KAFLI
MARKMIÐ OG GILDISSVIÐ
1. gr.
Gildissvið

1.     Þessi tilskipun varðar lögvernd höfundaréttar og skyldra réttinda innan ramma innri markaðarins með sérstakri áherslu á upplýsingasamfélagið.
2.     Ef ekki er um að ræða tilvik sem um getur í 11. gr. skal þessi tilskipun ekki skerða eða hafa á neinn hátt áhrif á núverandi bandalagsákvæði er varða:
a)    lögvernd tölvuforrita;
b)    leigurétt, útlánsrétt og tiltekin réttindi, sem eru skyld höfundarétti, á sviði hugverkaréttar;
c)    höfundarétt og skyld réttindi vegna útsendinga um gervihnött og endurvarps um kapal;
d)    verndartíma höfundaréttar og tiltekinna skyldra réttinda;
e)    lögvernd gagnagrunna.

II. KAFLI
RÉTTINDI OG UNDANÞÁGUR
2. gr.
Réttur til eftirgerðar

Aðildarríkin skulu kveða á um einkarétt til að heimila eða banna, með beinum eða óbeinum hætti, tímabundna eða varanlega eftirgerð með hvaða hætti sem er og í hvaða formi sem er, í heild eða að hluta:
a)    til handa höfundum vegna verka þeirra;
b)    til handa listflytjendum vegna upptakna á flutningi þeirra;
c)    til handa framleiðendum hljóðrita vegna hljóðrita þeirra;
d)    til handa framleiðendum frumupptakna kvikmyndaverka þegar um er að ræða frumrit og afritanir verka þeirra;
e)    til handa útvarpsfyrirtækjum að því er varðar upptökur á útsendingum þeirra, hvort sem útsendingar eru um þráð eða þráðlaust, þar með taldar útsendingar um kapal eða gervihnött.

3. gr.
Réttur til miðlunar verka til almennings og réttur til að gera annað efni aðgengilegt almenningi

1.     Aðildarríkin skulu kveða á um einkarétt til handa höfundum til að heimila eða banna hvers konar miðlun verka sinna til almennings, um þráð eða þráðlaust, þar með talið að gera verk sín aðgengileg almenningi með þeim hætti að hver og einn geti fengið aðgang að verkunum á þeim stað og á þeirri stund sem hann sjálfur kýs.
2.     Aðildarríkin skulu kveða á um einkarétt til handa eftirtöldum aðilum til að heimila eða banna að eftirtalin verk verði gerð aðgengileg almenningi, um þráð eða þráðlaust, með þeim hætti að hver og einn geti fengið aðgang að verkunum á þeim stað og á þeirri stund sem hann sjálfur kýs:
a)    til handa listflytjendum vegna upptakna á flutningi þeirra;
b)    til handa framleiðendum hljóðrita vegna hljóðrita þeirra;
c)    til handa framleiðendum frumupptakna kvikmyndaverka þegar um er að ræða frumrit og afritanir verka þeirra;
d)    til handa útvarpsfyrirtækjum að því er varðar upptökur á útsendingum þeirra, hvort sem útsendingar eru um þráð eða þráðlaust, þar með taldar útsendingar um kapal eða gervihnött.
3.     Réttindi, sem um getur í 1. og 2. mgr., tæmast ekki við neins konar miðlun til almennings eða við það að almenningi sé veitt aðgengi eins og kveðið er á um í þessari grein.

4. gr.
Dreifingarréttur

1.     Aðildarríkin skulu kveða á um einkarétt til handa höfundum til að heimila eða banna hvers konar dreifingu til almennings með sölu eða á annan hátt að því er varðar frumrit eða afrit verka þeirra.
2.     Dreifingarréttur tæmist ekki innan bandalagsins að því er varðar frumrit eða afrit verks nema rétthafi annist fyrstu sölu á viðkomandi eintaki eða annað framsal eignarréttar innan bandalagsins eða það sé gert með leyfi hans.

5. gr.
Undanþágur og takmarkanir

1.     Tímabundnar aðgerðir til eftirgerðar, sem um getur í 2. gr., sem eru til skamms tíma eða tilfallandi og eru órjúfanlegur og mikilvægur liður í tækniferli í þeim tilgangi einum að gera mögulega:
a)    sendingu af hálfu milliliðar í neti milli þriðju aðila, eða
b)    löglega notkun
á verki eða öðru efni en hafa ekkert sjálfstætt efnahagslegt vægi, skulu undanþegnar réttinum til eftirgerðar sem kveðið er á um í 2. gr.
2.     Aðildarríkin geta kveðið á um undanþágur eða takmarkanir á réttinum til eftirgerðar, sem kveðið er á um í 2. gr., í eftirfarandi tilvikum:
a)    þegar um er að ræða eftirgerð á pappír, eða svipaðan miðil, með hvers konar ljósmyndatækni eða öðru vinnsluferli sem gefur svipaðan árangur, að hljóðfæranótum undanskildum, svo fremi að rétthafar fái sanngjarnar bætur;
b)    þegar um er að ræða eftirgerð einstaklings með hvers konar miðli til einkanota og í tilgangi sem er ekki viðskiptalegs eðlis, hvorki beint né óbeint, með því skilyrði að rétthafar fái sanngjarnar bætur þar sem tekið er mið af því hvort þeim tæknilegu ráðstöfunum, sem um getur í 6. gr., hafi verið beitt vegna viðkomandi verks eða efnis eða ekki;
c)    þegar um er að ræða tilteknar eftirgerðir af hálfu almenningsbókasafna, menntastofnana eða safna eða skjalasafna sem eru hvorki gerðar vegna beins eða óbeins efnahagslegs eða viðskiptalegs ávinnings;
d)    þegar um er að ræða upptökur til skamms tíma á verkum hjá útvarpsfyrirtæki með eigin búnaði og til eigin útsendinga; heimilt er að leyfa varðveislu á þessum upptökum í opinberum skjalasöfnum vegna sérstaks heimildargildis þeirra;
e)    þegar um er að ræða eftirgerðir félagslegra stofnana á útvarpssendingum, með því skilyrði að rétthafar fái sanngjarnar bætur, enda séu þessar stofnanir, svo sem sjúkrahús eða fangelsi, ekki reknar í hagnaðarskyni.
3.     Aðildarríkin geta kveðið á um undanþágur eða takmarkanir á réttindunum, sem kveðið er á um í 2. og 3. gr., í eftirfarandi tilvikum:
a)    ef um er að ræða notkun sem einungis er til skýringar við kennslu eða við vísindarannsóknir, að því tilskildu að heimildar sé getið, þar á meðal nafns höfundar, nema það reynist ógerlegt, og að því marki sem telja má réttlætanlegt miðað við tilgang sem ekki er viðskiptalegs eðlis;
b)    ef um er að ræða notkun í þágu fólks sem er fatlað og notkunin er í beinu sambandi við fötlunina og ekki viðskiptalegs eðlis og að svo miklu leyti sem nauðsynlegt er vegna þessarar tilteknu fötlunar;
c)    ef um er að ræða að birtar dægurgreinar um hagfræðileg efni, stjórnmál eða trúmál eða útvarpsefni eða annað efni af sama toga sé tekið upp í fréttamiðlum, miðlað til almennings eða gert aðgengilegt almenningi í tilvikum þar sem slík notkun er ekki bönnuð berum orðum og að því tilskildu að heimildar sé getið, þar á meðal nafns höfundar, eða, ef um er að ræða notkun verka eða annars efnis í tengslum við fréttir af dægurmálum, að því marki sem eðlilegt er í upplýsingaskyni og að því tilskildu að heimildar sé getið, þar á meðal nafns höfundar, nema það reynist ógerlegt;
d)    ef um er að ræða tilvitnanir vegna gagnrýni eða ritdóma, að því tilskildu að þær tengist verki eða öðru efni sem hefur verið gert aðgengilegt almenningi á löglegan hátt og að því tilskildu að heimildar sé getið, þar á meðal nafns höfundar, nema það reynist ógerlegt, og notkun þeirra sé í samræmi við góðar starfsvenjur og að því marki sem nauðsynlegt er í þessum sérstaka tilgangi;
e)    ef um er að ræða notkun vegna almannaöryggis eða til að tryggja rétta framkvæmd eða skýrslugjöf varðandi málsmeðferð í stjórnsýslu, fyrir þingi eða fyrir dómstólum;
f)    ef um er að ræða notkun á pólitískum ræðum og útdráttum úr opinberum fyrirlestrum eða svipuðum verkum eða efni, að því marki sem eðlilegt er í upplýsingaskyni og að því tilskildu að heimildar sé getið, þar á meðal nafns höfundar, nema það reynist ógerlegt;
g)    ef um er að ræða notkun við trúarhátíðir eða opinber hátíðahöld sem opinbert yfirvald skipuleggur;
h)    ef um er að ræða notkun verka, svo sem byggingarlistaverka eða höggmyndaverka, sem gerð eru með það fyrir augum að vera til frambúðar á almannafæri;
i)    ef um er að ræða að verk eða annað efni sé tilfallandi tekið með í enn annað efni;
j)    ef um er að ræða notkun í því skyni að auglýsa opinbera sýningu eða sölu á listaverkum, að því marki sem nauðsynlegt er til að kynna atburðinn og að undanskilinni hvers konar annarri notkun í viðskiptaskyni;
k)    ef um er að ræða notkun vegna skopmyndar, skopstælingar eða annarrar stælingar;
l)    ef um er að ræða notkun í tengslum við sýningu eða viðgerð á búnaði;
m)    ef um er að ræða notkun listaverks í formi byggingar eða teikningar eða uppdráttar af byggingu í því skyni að endurgera bygginguna;
n)    ef um er að ræða að verkum eða öðru efni í söfnum stofnananna, sem um getur í c-lið 2. mgr., sé miðlað til almennings eða þau gerð aðgengileg almenningi, til fræðistarfa eða einkarannsókna, með til þess gerðum endabúnaði á athafnasvæði stofnananna enda falli verkin og efnið ekki undir kaup- eða nytjaleyfisskilmála;
o)    ef um er að ræða notkun í ákveðnum öðrum tilvikum sem hafa óverulega þýðingu og þar sem landslög kveða þegar á um undanþágur og takmarkanir, að því tilskildu að aðeins sé um að ræða hliðræna notkun og þetta hafi ekki áhrif á frjálsa dreifingu vara og þjónustu í bandalaginu, sbr. þó aðrar undanþágur og takmarkanir samkvæmt þessari grein.
4.     Í tilvikum þar sem aðildarríkjunum er heimilt að kveða á um undanþágu eða takmörkun vegna réttar til eftirgerðar, skv. 2. og 3. mgr., er þeim á sama hátt heimilt að kveða á um undanþágu eða takmörkun vegna dreifingarréttar, eins og kveðið er á um í 4. gr., að því marki sem réttlætanlegt er miðað við tilganginn með hinni leyfilegu eftirgerð.
5.     Undanþágum og takmörkunum, sem kveðið er á um í 1., 2., 3. og 4. mgr., skal aðeins beitt í tilteknum sértilvikum sem stríða ekki gegn eðlilegri hagnýtingu verks eða annars efnis og skerða ekki með ósanngjörnum hætti lögmæta hagsmuni rétthafa.

III. KAFLI
VERNDUN TÆKNILEGRA RÁÐSTAFANA OG UPPLÝSINGA FYRIR RÉTTINDAUMSÝSLU
6. gr.
Skyldur að því er varðar tæknilegar ráðstafanir

1.     Aðildarríkin skulu kveða á um fullnægjandi lögvernd gegn því að farið sé fram hjá hvers konar skilvirkum, tæknilegum ráðstöfunum enda viti viðkomandi aðili eða hafi fulla ástæðu til að vita að hann stefnir að því marki.
2.     Aðildarríkin skulu kveða á um fullnægjandi lögvernd gegn framleiðslu, innflutningi, dreifingu, sölu, leigu, auglýsingum um sölu eða leigu eða eign, í viðskiptaskyni, tækja, vara eða íhluta eða veitingu þjónustu:
a)    sem eru kynnt eða auglýst sem leið til að fara fram hjá hvers konar skilvirkum, tæknilegum ráðstöfunum, eða
b)    hafa aðeins takmarkað viðskiptalegt gildi eða notkunarmöguleika nema sem leið til að fara fram hjá hvers konar skilvirkum, tæknilegum ráðstöfunum, eða
c)    eru fyrst og fremst hönnuð, framleidd, aðlöguð eða veitt í því skyni að gera kleift eða auðveldara að fara fram hjá hvers konar skilvirkum, tæknilegum ráðstöfunum.
3.      Í þessari tilskipun er merking hugtaksins „tæknilegar ráðstafanir“ sem hér segir: hvers konar tækni, tæki eða íhlutur sem er hannaður með það fyrir augum að koma, við eðlilega notkun, í veg fyrir eða takmarka aðgerðir sem varða verk eða annað efni og hafa ekki fengið samþykki rétthafa höfundaréttar eða annarra réttinda, sem eru skyld höfundarétti, eins og kveðið er á um í lögum, eða rétthafa sinnar tegundar réttar ( sui generis) eins og kveðið er á um í III. kafla tilskipunar 96/9/EB. Tæknilegar ráðstafanir teljast „skilvirkar“ ef rétthafa tekst að ná verndarmarkmiðinu með því að stýra notkun verndaðs verks eða annars efnis með aðgangsstjórn, verndaraðgerð, svo sem dulkóðun, brenglun eða annarri breytingu á verkinu eða öðru efni, eða með afritunarstjórn.
4.     Þrátt fyrir lögverndina, sem kveðið er á um í 1. mgr., og hafi rétthafar ekki gripið til valfrjálsra ráðstafana, svo sem samninga milli rétthafa og annarra hagsmunaaðila, skulu aðildarríkin gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að rétthafar gefi þeim sem eiga rétt á undanþágu eða takmörkun, sem kveðið er á um í landslögum í samræmi við a-, c-, d- eða e-lið 2. mgr. 5. gr. eða a-, b- eða e-lið 3. mgr. 5. gr., kost á að nýta þessa undanþágu eða takmörkun í þeim mæli sem nauðsynlegt er til að nýta undanþáguna eða takmörkunina, að því tilskildu að sá sem nýtir hana hafi löglegan aðgang að viðkomandi verki eða efni.
Aðildarríkjunum er einnig heimilt að gera slíkar ráðstafanir með tilliti til undanþágu eða takmörkunar sem kveðið er á um í samræmi við b-lið 2. mgr. 5. gr. nema rétthafi hafi þegar gert eftirgerð til einkanota mögulega að því marki sem nauðsynlegt er til að nýta viðkomandi undanþágu eða takmörkun og í samræmi við ákvæði b-liðar 2. mgr. 5. gr. og 5. mgr. 5. gr. en án þess að koma í veg fyrir að rétthafar beiti fullnægjandi ráðstöfunum að því er varðar fjölda eftirgerða í samræmi við þessi ákvæði.
Tæknilegar ráðstafanir, sem rétthafar beita af frjálsum vilja, þar á meðal ráðstafanir vegna framkvæmdar valfrjálsra samninga, og tæknilegar ráðstafanir vegna framkvæmdar ráðstafana, sem aðildarríkin hafa gripið til, skulu njóta lögverndar sem kveðið er á um í 1. mgr.
Ákvæði fyrstu og annarrar undirgreinar gilda ekki um verk eða annað efni sem gert er aðgengilegt almenningi samkvæmt samningsskilmálum á þann hátt að hver og einn geti fengið aðgang að verkunum á þeim stað og á þeirri stund sem hann sjálfur kýs.
Þegar þessari grein er beitt með skírskotun til tilskipana 92/100/EBE og 96/9/EB gildir þessi málsgrein að breyttu breytanda.

7. gr.
Skyldur að því er varðar upplýsingar vegna réttindaumsýslu

1.     Aðildarríkin skulu kveða á um fullnægjandi lögvernd gegn hverjum þeim sem vitandi vits og án heimildar grípur til eftirfarandi aðgerða:
a)    fjarlægir eða breytir rafrænum upplýsingum um réttindaumsýslu;
b)    dreifir, flytur inn til dreifingar, útvarpar, miðlar eða gerir aðgengilegt almenningi verk eða annað efni sem nýtur verndar samkvæmt þessari tilskipun eða skv. III. kafla tilskipunar 96/9/EB þar sem rafrænar upplýsingar um réttindaumsýslu hafa verið fjarlægðar eða þeim breytt án heimildar,
ef viðkomandi veit eða hefur fulla ástæðu til að vita að með þessum aðgerðum hvetur hann til brota á höfundarétti samkvæmt lögum eða hvers konar réttindum, sem eru skyld höfundarétti, samkvæmt lögum eða til brota á sinnar tegundar rétti, sem kveðið er á um í III. kafla tilskipunar 96/9/EB, eða gerir brotin möguleg, auðveldar þau eða leynir þeim.
2.     Í þessari tilskipun er merking hugtaksins „upplýsingar um réttindaumsýslu“ sem hér segir: upplýsingar, sem rétthafar veita og sem auðkenna verkið eða annað efni, sem um getur í þessari tilskipun eða sem fellur undir sinnar tegundar rétt sem kveðið er á um í III. kafla tilskipunar 96/9/EB, og sem auðkenna höfundinn eða aðra rétthafa, eða upplýsingar um skilyrði og skilmála fyrir notkun verkanna eða annars efnis og um allar tölur og kóða sem tákna slíkar upplýsingar.
Fyrsta undirgrein gildir ef eitthvert þessara upplýsingaratriða tengist afriti af verkinu eða efninu eða birtist í tengslum við miðlun til almennings á verkinu eða öðru efni sem um getur í þessari tilskipun eða sem fellur undir sinnar tegundar rétt sem kveðið er á um í III. kafla tilskipunar 96/9/EB.

IV. KAFLI
SAMEIGINLEG ÁKVÆÐI
8. gr.
Viðurlög og úrræði

1.     Aðildarríkin skulu kveða á um viðeigandi viðurlög og úrræði að því er varðar brot á réttindum og skyldum samkvæmt þessari tilskipun og gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að þessum viðurlögum og úrræðum sé beitt. Viðurlögin skulu vera skilvirk, í réttu hlutfalli við brotið og letjandi.
2.     Hvert aðildarríki skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að rétthafar geti höfðað skaðabótamál og/eða krafist lögbanns, ef brotleg háttsemi á yfirráðasvæði þess skaðar hagsmuni þeirra, og krafist þess, þar sem það á við, að ólöglega efnið, sem og tæki, vörur eða íhlutir, sem um getur í 2. mgr. 6. gr., verði gert upptækt.
3.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að rétthafar séu í aðstöðu til að krefjast lögbanns gegn milliliðum ef þriðji aðili notar þjónustu þeirra til að brjóta gegn höfundarétti eða skyldum rétti.

9. gr.
Áframhaldandi beiting annarra lagaákvæða

Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á ákvæði sem varða einkum einkaleyfisréttindi, vörumerki, hönnunarréttindi, nytjamynstur, svæðislýsingar hálfleiðara, leturgerð, skilyrtan aðgang, aðgang að kapli til útvarpsútsendinga, vernd þjóðarverðmæta, skilaskyldu, lög um samkeppnishömlur og óréttmæta samkeppni, viðskiptaleyndarmál, öryggi, trúnaðarskyldu, gagnavernd og friðhelgi einkalífsins, aðgang að opinberum skjölum og samningalög.

10. gr.
Tímamörk

1.     Ákvæði þessarar tilskipunar skulu gilda að því er varðar öll verk og annað efni sem um getur í þessari tilskipun og njóta verndar 22. desember 2002 samkvæmt löggjöf aðildarríkjanna á sviði höfundaréttar og skyldra réttinda eða sem fullnægja viðmiðunum fyrir vernd samkvæmt ákvæðum þessarar tilskipunar eða ákvæðunum sem um getur í 2. mgr. 1. gr.
2.     Tilskipun þessi hefur ekki áhrif á aðgerðir sem hafa verið samþykktar fyrir 22. desember 2002 og réttindi sem hefur verið aflað fyrir framangreindan dag.

11. gr.
Tæknileg aðlögun

1.     Tilskipun 92/100/EBE er breytt sem hér segir:
a)    7. gr. falli brott.
b)    Í stað 3. mgr. 10. gr. komi eftirfarandi:
    „3.     Takmörkununum skal aðeins beitt í tilteknum sértilvikum sem stríða ekki gegn eðlilegri hagnýtingu efnisins og skerða ekki með ósanngjörnum hætti lögmæta hagsmuni rétthafa.“
2.     Í stað 2. mgr. 3. gr. tilskipunar 93/98/EBE komi eftirfarandi:
    „2.     Réttindi framleiðenda hljóðrita falla niður 50 árum eftir að upptaka fer fram. Ef hljóðritið er gefið út á löglegan hátt á þessu tímabili falla réttindin þó niður 50 árum eftir fyrsta dag löglegrar útgáfu. Ef ekki á sér stað lögleg útgáfa á tímabilinu sem nefnt er í fyrsta málslið og ef hljóðritinu hefur verið miðlað til almennings á löglegan hátt á þessu tímabili falla réttindin niður 50 árum eftir fyrsta dag löglegrar miðlunar til almennings.
    Ef réttindi framleiðenda hljóðrita eru ekki lengur vernduð 22. desember 2002, vegna þess að þá er runninn út verndartíminn sem veittur var samkvæmt þeirri útgáfu þessarar málsgreinar sem er í gildi fyrir samþykkt tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/29/EB frá 22. maí 2001 um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu ( *), felur þessi málsgrein þó ekki í sér að hljóðritið njóti verndar á ný.
    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


( *)     Stjtíð. EB L 167, 22.6.2001, bls. 10.“

12. gr.
Lokaákvæði

1.     Eigi síðar en 22. desember 2004 og á þriggja ára fresti eftir það skal framkvæmdastjórnin leggja skýrslu fyrir Evrópuþingið, ráðið og efnahags- og félagsmálanefndina um beitingu þessarar tilskipunar þar sem hún fjallar sérstaklega, m.a. á grundvelli tiltekinna upplýsinga sem aðildarríkin veita, um beitingu 5., 6., og 8. gr. í ljósi þróunarinnar á stafræna markaðinum. Að því er varðar 6. gr. skoðar framkvæmdastjórnin sérstaklega hvort sú grein veiti nægilega vernd og hvort aðgerðir, sem eru leyfðar samkvæmt lögum, verði fyrir skaðlegum áhrifum vegna notkunar skilvirkra tæknilegra ráðstafana. Ef nauðsyn krefur, einkum til að tryggja starfsemi innri markaðarins skv. 14. gr. sáttmálans, skal hún leggja fram tillögur að breytingum á þessari tilskipun.
2.     Vernd réttinda, sem eru skyld höfundarétti, samkvæmt þessari tilskipun skal ekki skerða eða hafa á neinn hátt áhrif á vernd höfundaréttar.
3.     Tengslanefnd er hér með komið á fót. Hún skal skipuð fulltrúum lögbærra yfirvalda aðildarríkjanna. Fulltrúi framkvæmdastjórnarinnar skal gegna formennsku í nefndinni og skal nefndin funda að frumkvæði formanns hennar eða að beiðni sendinefndar aðildarríkis.
4.     Hlutverk nefndarinnar er sem hér segir:
a)    að rannsaka áhrif þessarar tilskipunar á starfsemi innri markaðarins og vekja athygli á öllum vandkvæðum;
b)    að skipuleggja samráð um öll álitamál sem rísa vegna beitingar þessarar tilskipunar;
c)    að greiða fyrir skiptum á upplýsingum um viðeigandi þróun á sviði löggjafar og dómaframkvæmdar og um viðeigandi þróun á sviði efnahags-, félags-, menningar- og tæknimála;
d)     að vera vettvangur mats á stafræna markaðinum fyrir verk og annað efni, þar með talið afritun til einkanota og notkun tæknilegra ráðstafana.

13. gr.
Framkvæmd

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari fyrir 22. desember 2002. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær verða birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.
2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni þau ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til.

14. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á þeim degi sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

15. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Brussel 22. maí 2001.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
N. FONTAINE M. WINBERG
forseti. forseti.


Fylgiskjal IV.ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 110/2004

frá 9. júlí 2004

um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR,

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir „samningurinn“, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        XVII. viðauka við samninginn var breytt með samningnum um þátttöku Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu á Evrópska efnahagssvæðinu, sem undirritaður var 14. október 2003 í Lúxemborg ( 11 ).

2)        Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/29/EB frá 22. maí 2001 um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu ( 12 ), með leiðréttingum sem birtust í Stjtíð. EB L 6, 10.1.2002, bls. 70, skal felld inn í samninginn.

ÁKVEÐIÐ EFTIRFARANDI:

1. gr.

XVII. viðauki við samninginn breytist sem hér segir:

1.    Eftirfarandi bætist við á undan aðlögunarákvæðunum í 7. lið (tilskipun ráðsins 92/100/EBE) og 9. lið (tilskipun ráðsins 93/98/EBE):

    „ , eins og henni var breytt með:

    -             32001 L 0029: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/29/EB frá 22. maí 2001 (Stjtíð. EB L 167, 22.6.2001, bls. 10), með leiðréttingum sem birtust í Stjtíð. EB L 6, 10.1.2002, bls. 70.“

2.    Eftirfarandi liður bætist við á eftir lið 9d (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/44/EB):

    „9e.     32001 L 0029: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/29/EB frá 22. maí 2001 um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu (Stjtíð. EB L 167, 22.6.2001, bls. 10), með leiðréttingum sem birtust í Stjtíð. EB L 6, 10.1.2002, bls. 70.

                Ákvæði tilskipunarinnar skulu, að því er samning þennan varðar, aðlöguð sem hér segir:

                EFTA-ríkjunum skal boðið að senda fulltrúa á fundi tengslanefndarinnar.“

2. gr.

Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2001/29/EB, með leiðréttingum sem birtust í Stjtíð. EB L 6, 10.1.2002, bls. 70, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.

Ákvörðun þessi öðlast gildi hinn 10. júlí 2004 að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( *).

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


( *)     Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.

4. gr.

Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 9. júlí 2004.

     Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
    Formaður

    Kjartan Jóhannsson


    Ritarar
    sameiginlegu EES-nefndarinnar

    Ø. Hovdkinn     M. Brinkmann
Fylgiskjal V.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á höfundalögum,
nr. 73/1972, með síðari breytingum.

    Tilgangur frumvarpsins er að leiða í lög ýmis atriði úr tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2001/29/EB frá 22. maí 2001 sem varða samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélagi þar sem beita má stafrænni tækni til að framleiða, afrita, breyta og dreifa ýmiss konar efni á nýjan hátt.
    Að mati fjármálaráðuneytisins hefur frumvarpið að öðru óbreyttu í för með sér aukin útgjöld notenda vegna efnis sem fellur undir höfundarétt. Ástæðan er sú að óheimilt verður að beita stafrænni tækni til að miðla efninu og gera afrit af því án samþykkis höfundar og annarra rétthafa efnisins nema þá til einkanota, þ.e. að segja eintökin séu ekki gerð í fjárhagslegum tilgangi. Takmarkanir á afritun og notkun efnis eða hugsanlega aukin gjaldtaka fyrir aðgang að efninu getur þó leitt til breyttrar eða minni notkunar, m.a. vegna viðleitni til að draga úr kostnaði við að útvega efnið. Á þessum forsendum telur fjármálaráðuneytið að samþykkt frumvarpsins hefði óveruleg áhrif á útgjöld ríkisins.
Neðanmálsgrein: 1
    1 Stjtíð. EB C 108, 7.4.1998, bls. 6 og áfram.
      Stjtíð. EB C 180, 25.6.1999, bls. 6.
Neðanmálsgrein: 2
    2 Stjtíð. EB C 407, 28.12.1998, bls. 30.
Neðanmálsgrein: 3
    3 Álit Evrópuþingsins frá 10. febrúar 1999 (Stjtíð. EB C 150, 28.5.1999, bls. 171), sameiginleg afstaða ráðsins frá 28. september 2000 (Stjtíð. EB C 344, 1.12.2000, bls. 1) og ákvörðun Evrópuþingsins frá 14. febrúar 2001 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB). Ákvörðun ráðsins frá 9. apríl 2001.
Neðanmálsgrein: 4
    4 Stjtíð. EB L 178, 17.7.2000, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 5
    5 Tilskipun ráðsins 91/250/EBE frá 14. maí 1991 um lögvernd fyrir tölvuforrit (Stjtíð. EB L 122, 17.5.1991, bls. 42). Tilskipuninni var breytt með tilskipun 93/98/EBE.
Neðanmálsgrein: 6
    6 Tilskipun ráðsins 92/100/EBE frá 19. nóvember 1992 um leigu- og útlánsrétt og önnur réttindi tengd höfundarétti á sviði hugverkaréttar (Stjtíð. EB L 346, 27.11.1992, bls. 61). Tilskipuninni var breytt með tilskipun 93/98/EBE.
Neðanmálsgrein: 7
    7 Tilskipun ráðsins 93/83/EBE frá 27. september 1993 um samræmingu á tilteknum reglum varðandi höfundarétt og réttindi tengd höfundarétti vegna útsendingar um gervihnött og endurvarps um kapal (Stjtíð. EB L 248, 6.10.1993, bls. 15).
Neðanmálsgrein: 8
    8 Tilskipun ráðsins 93/98/EBE frá 29. október 1993 um samhæfingu á [verndartíma] höfundaréttar og tiltekinna skyldra réttinda (Stjtíð. EB L 290, 24.11.1993, bls. 9).
Neðanmálsgrein: 9
    9 Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 96/9/EB frá 11. mars 1996 um lögverndun gagnagrunna (Stjtíð. EB L 77, 27.3.1996, bls. 20).
Neðanmálsgrein: 10
    10 Stjtíð. EB L 281, 23.11.1995, bls. 31.
Neðanmálsgrein: 11
(11)    Stjtíð. ESB L 130, 29.4.2003, bls. 3 og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 23, 29.4.2003, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 12
(12)    Stjtíð. EB L 167, 22.6.2001, bls. 10.