Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 129. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 256  —  253. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um legu þjóðvegar nr. 1 um Austur-Húnavatnssýslu og Skagafjörð.

Flm.: Jóhann Ársælsson, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir,


Guðjón A. Kristjánsson, Rannveig Guðmundsdóttir, Sigurjón Þórðarson.

    
    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að láta gera samanburð á bestu kostum á legu þjóðvegar nr. 1 um Austur-Húnavatnssýslu og Skagafjörð. Skýrslu um samanburðinn verði lokið á hausti komanda og verði höfð til hliðsjónar við næstu endurskoðun samgönguáætlunar.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var lögð fram á 130., 131. og 132. löggjafarþingi en varð ekki útrædd. Er tillagan flutt að nýju óbreytt.
    Samgöngur á landi eru einn mikilvægasti þátturinn í að tryggja búsetu og jákvæða byggðaþróun í landinu öllu og þjóðvegur nr. 1 gegnir þar lykilhlutverki.
    Breytingar á legu þjóðvegar nr. 1 í Austur-Húnavatnssýslu hafa verið til umfjöllunar hjá Vegagerðinni. Þær breytingar hafa allar miðað að því að vegurinn liggi áfram um sömu héruð og hann gerir nú.
    Uppbygging vegar yfir Þverárfjall hefur beint sjónum manna að því hvort ekki sé skynsamlegt að láta aðalþjóðveginn liggja um Þverárfjall, um Hegranes og Hjaltadal og loks í gegnum Tröllaskaga með jarðgöngum. Þessir kostir hafa verið nokkuð skoðaðir af heimamönnum. Athuganir þeirra benda til að viðlíka stytting næðist og nú er fyrirhuguð samkvæmt hugmyndum Vegagerðarinnar. Aðalkostir Þverárfjallsleiðarinnar eru að hún liggur í námunda við alla stærstu þéttbýlisstaðina á þessum slóðum og mjög nærri mikilvægum stöðum, t.d. háskólanum á Hólum. Þá liggur leiðin um Blönduós, umtalsvert nær Skagaströnd en nú er og í gegnum Sauðárkrók. Með henni mundu þessi byggðarlög tengjast betur en áður og styrkjast vegna áhrifa af meiri umferð og greiðari samgöngum. Byggðaleg áhrif þessarar leiðar yrðu og mikil og þarf að meta þau sérstaklega sem mikilvægan þátt málsins. Sú leið sem fyrirhuguð hefur verið fram að þessu liggur í öllum tilvikum fjær nefndum stöðum og auk þess yfir Vatnsskarð og Öxnadalsheiði. Jarðgöng hljóta síðar meir að leysa veginn af hólmi á þeim fjallvegum. Þverárfjallsvegur liggur miklu lægra en Öxnadalsheiði og líka lægra en Vatnsskarð. Þjóðhagslegur arður af þessari framkvæmd þarf einnig að metast og er eðlilegur hluti þess samanburðar á leiðunum sem hér er lagður til.


Fylgiskjal.

Lendisskipulag ehf.:


Varðar veggöng í aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar.

    Hjálagt fylgja að ósk þinni gögn um veggöng sem ég vona að svari væntingum; uppdráttur og stutt greinargerð sem lýsir forsendum fyrir því að við skipulagsráðgjafar sveitarfélagsins settum fram tillögu um veggöng milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar í aðalskipulagsvinnu sem enn stendur yfir. Þessi tillaga hefur hvarvetna fengið góðar viðtökur en afstaða til hennar hefur ekki verið tekin endanlega, bæði vegna þess að tillagan hefur ekki fengið almenna kynningu og hins að ábyrg afstaða hlýtur að byggjast á skýru mati á raunhæfni hennar og á víðtækum áhrifum hennar. Slíkt mat hefur Sveitarfélagið Skagafjörður ekki ráðist í og af hálfu skipulagsráðgjafa hefur verið lögð áhersla á að slíkt mat ætti að vera samstarfsverkefni þeirra sveitarfélaga sem göngin skipta mestu eða ríkisins.

Virðingarfyllst,
Árni Ragnarsson.



Um jarðgangatillögu í aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar.

    Tillaga að aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar er í vinnslu og hefur ekki enn verið kynnt almenningi. Almennir kynningarfundir eru áætlaðir um næstu áramót. Tillaga um veggöng milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar (Hjaltadals og Hörgárdals) er ein af þeim tillögum sem skipulagsráðgjafar settu fram og er til meðferðar hjá skipulags- og byggingarnefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Tillagan hefur ekki verið rædd við sveitarstjórn Hörgárbyggðar. Hún hefur verið kynnt fyrir samvinnunefnd um svæðisskipulag Austur-Húnavatnssýslu og fékk þar afar góðar undirtektir og fyrir bæjarstjóra og forsvarsmönnum skipulagsmála á Akureyri þar sem hún þótti athyglisverð og ástæða til þess að skoða hana nánar. Afstaða manna til tillögu um veggöng milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar, bæði Skagfirðinga og annarra, hefur einkennst nokkuð af því að örðugt er að meta áhrifin af göngunum, bera saman kostnað, ávinning og tap, fjárhagslega, atvinnulega og félagslega og þar með raunhæfni tillögunnar. Tillagan hefur líka verið borin undir forsvarsmenn Vegagerðar ríkisins. Að þeirra hyggju yrðu göngin viðráðanlegt verkefni ef ákvörðun yrði tekin um að ráðast í gerð þeirra og þeir löttu ekki til þess að tillagan yrði sett fram. Hins vegar hefur Vegagerð ríkisins ekki mælt með neinni ákveðinni legu vegganga og skipulagsráðgjafar hafa litið svo á að endanleg lega yrði fyrst ákveðin í kjölfar rannsókna.
    Tillögu um veggöng byggðu skipulagsráðgjafar á þrem meginatriðum, ríkjandi byggðastefnu, stærra atvinnu- og þjónustusvæði og styttri og öruggari leið milli Akureyrar og Reykjavíkur:

1.     Ríkjandi byggðastefna.
    Sá þáttur byggðastefnu, að efla Akureyri, virðist eiga vaxandi fylgi, bæði hjá stjórnvöldum og almenningi. Tillaga um veggöng milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar er til þess fallin að styrkja þennan þátt og bæri vott um vilja Skagfirðinga til að laga sig að ríkjandi byggðastefnu.
    Skipulagsráðgjafar hafa haldið því fram við umræður í nefndum Sveitarfélagsins Skagafjarðar að veggöng milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar séu ekki sérstakt hagsmunamál Skagfirðinga heldur hagsmunamál á landsvísu; göngin myndu breyta svo miklu á svo stóru svæði að örðugt sé að sjá áhrifin fyrir og það sé sameiginlegt viðfangsefni margra að reiða þau út, ekki Skagfirðinga einna.

2.     Stærra atvinnu- og þjónustusvæði.
    Í vinnslu aðalskipulags hafa veggöngin verið lögð milli Hofsdals sem gengur til suðausturs úr Hjaltadal, rétt innan við Hóla, og Barkárdals sem gengur til norðvesturs úr Hörgárdal. Þar virðast göngin verða löng en leiðin styttast mest. Miðað við þessa legu styttast leiðir þannig að skipulagsráðgjafar hafa haldið því fram að virkt þjónustu- og atvinnusvæði Akureyrar stækki til muna. Þar eru fyrirtæki sterkust á þessu svæði (hafa þegar fjölmennt uppland) og sérhæfð fyrirtæki eru þar flest. Akureyri hefði sterkustu stöðu á svæðinu til að draga til sín ný sérhæfð fyrirtæki sökum stærðar sinnar, eflast á því að þjónusta betur stærra uppland og grundvöllur skapast fyrir fleiri sérhæfð fyrirtæki. Það er vænlegri leið til að efla Akureyri en að Norðlendingar flytjist þangað búferlum. Hins vegar má leiða rök að því að sérhæfð fyrirtæki alls staðar á svæðinu gætu notið góðs af stækkuðu þjónustusvæði og ef sveitarstjórnir á svæðinu skilgreindu sig sem eitt svæði, stæðu saman og létu einu gilda hvar á svæðinu góðir hlutir gerðust, gæti það styrkt svæðið allt. Svæðið yrði líka eftirsóknarverðara fyrir þá sem vildu setja fyrirtæki á laggirnar og valkostirnir yrðu fleiri. Í drögum að kafla 3.4.4 Atvinnumál og atvinnusvæði í greinargerð aðalskipulagsins er fjallað um veggöng. Þar segir m.a.:
    „Akureyringum hefur fjölgað mjög hægt og virðist sem umhverfið standi ekki undir stærri bæ; fyrirtæki og stofnanir þurfi stærra uppland. Akureyringar hafa því horft mjög til þess að stóriðja hefjist í Eyjafirði en við það hefur verið andstaða sem mest hefur byggst á náttúrufari og staðháttum í Eyjafirði, þröngum og lygnum með þéttbýla landbúnaðarbyggð. Þá hafa Eyfirðingar viljað stækka atvinnu- og þjónustusvæði Akureyrar með jarðgöngum til Siglufjarðar og undir Vaðlaheiði. Jarðgöng til vesturs eru erfiðari framkvæmd og dýrari en íbúafjöldinn líka mun meiri.
    Á sínum tíma greindi Staðarvalsnefnd fyrir stóriðju vænlegan stað fyrir slíka starfsemi norðan við Blönduós og rannsóknir benda nú til að góðar aðstæður séu skammt innan við Kolkuós í Viðvíkursveit og trúlega mun betri en í Eyjafirði. Ef grafin yrðu jarðgöng milli Hörgárdals og Hjaltadals myndi sá staður vera nokkurn veginn mitt á milli Akureyrar og Blönduóss og það tæki um 45 mínútur að keyra á milli. Heldur styttra er til Siglufjarðar og mun styttra til Sauðárkróks og Hofsóss. Íbúafjöldi á þéttbýlisstöðum frá Siglufirði að Varmahlíð og frá Akureyri að Blönduósi er nálægt 22.000.“

3.     Styttri og öruggari leið milli Akureyrar og Reykjavíkur.
    Veggöng milli Hofsdals og Barkárdals með gangnamunna í um 300 metra hæð virðast verða löng, rúmir 20 km. Eftir því sem skipulagsráðgjafar vita gerst, eru heimsins lengstu veggöng í jarðskjálftalandinu Japan, um 53 km og liggja undir sjó að hluta. Göng þarna og leiðin um Þverárfjallsveg myndu stytta veg milli Akureyrar og Reykjavíkur um 8 km og hvorki þyrfti að fara Öxnadalsheiði né Vatnsskarð. Trúlega má stytta þessa leið enn um 10 km með vegstyttingum. Vegstyttingar á hringveginum um Austur-Húnavatnssýslu og Skagafjörð hafa verið í umræðu og mat skipulagsráðgjafa er að þær styttingar verði ekki eins miklar og fást með veggöngunum og Þverárfjallsvegi og þá þarf enn að fara Heiðina og Skarðið. Vegur á Öxnadalsheiði liggur hæst í 540 metrum yfir sjó, á Vatnsskarði í 420 metrum og á Þverárfjalli í 322 metrum. Á Holtavörðuheiði liggur vegur hæst í 407 metrum yfir sjó og þar lægi hann hæst á leiðinni milli Akureyrar og Reykjavíkur ef farið yrði um Þverárfjall og veggöng.
    Vegalínur og vegalengdir hafa verið færðar inn á upplýsingakort sem fylgir hér með. Þar má m.a. sjá að vegur milli Akureyrar og Blönduóss er nú 145 km eftir þjóðvegi 1 en yrði 136 km um Þverárfjall og veggöng eins og vegur liggur nú og 127 með vegstyttingum á þeirri leið. Milli háskólastaðanna Akureyrar og Hóla í Hjaltadal eru nú 131 km en yrðu 59 km með veggöngum. Sá er líka munur á þessum styttingum að stytting á þjóðvegi 1 virðist aðallega verða þannig að vegurinn fjarlægist þéttbýlisstaði og yrði meiri „fjallabaksleið“ en vegur um Þverárfjall og veggöng sem tengir þéttbýlisstaði betur saman en nú er. Þá minnkar þjónusta við umferðina á styttum þjóðvegi 1.
    Rétt er að undirstrika að vegastyttingar byggja á grófum útreikningum skipulagsráðgjafa en ekki rannsóknum eða úttektum sem Vegagerð ríkisins kann að hafa gert.
    Í fyrirliggjandi drögum að aðalskipulagi fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð er einföld tillaga um veggöng, svohljóðandi:
    „Veggöng verði gerð milli Hjaltadals og Hörgárdals til að sameina þjónustu- og atvinnusvæði þéttbýlisstaða á Norðurlandi. Með göngunum verði styttur vegur milli Akureyrar og Reykjavíkur. Meta þarf áhrif ganganna á náttúrulegt og félagslegt umhverfi.“


Árni Ragnarsson,
Páll Zóphóníasson
.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.