Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 110. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 263  —  110. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Björgvins G. Sigurðssonar um þjónustuíbúðir fyrir aldraða.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hver eru áform ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu þjónustuíbúða fyrir aldraða í samstarfi við einkaaðila, sveitarfélög eða félagasamtök á næsta fjárlagaári?
     2.      Hvað er áætlað að þjónustuíbúðum fjölgi mikið næstu þrjú árin, skipt eftir árum, sveitarfélögum og kjördæmum?


    Ráðherra skipaði stýrihóp um stefnumótun í málefnum aldraðra hinn 12. apríl 2000. Var hópnum falið það hlutverk að móta stefnu í málefnum aldraðra til ársins 2015 og skyldi hann fyrst og fremst byggja starf sitt á fyrirliggjandi upplýsingum um málaflokkinn. Stýrihópurinn skilaði skýrslu til ráðherra í mars 2003.
    Í upphafi skýrslunnar er kafli með helstu tillögum um stefnumótun í málefnum aldraðra. Þar segir að það sé grundvallaratriði að aldraðir haldi sjálfstæði sínu eins lengi og kostur er þannig að sem minnst röskun verði á högum þeirra þegar aldurinn færist yfir. Forsenda þess sé að tekið sé mið af þörfum aldraðra á öllum sviðum samfélagsins, svo sem varðandi heilbrigði, félagslega þjónustu, efnahag, húsnæði og aðrar aðstæður.
    Í VI. kafla skýrslunnar er fjallað um húsnæðismál aldraðra en þar segir að markmið tillagna stýrihópsins sé að tryggja öldruðum húsnæði sem hentar þörfum þeirra með tilliti til félagslegra, heilsufarslegra og fjárhagslegra aðstæðna. Tilgangurinn sé að tryggja sjálfstæði aldraðra sem lengst með sjálfstæðri búsetu á eigin heimili og á eigin forsendum.
    Um stefnumótun segir í skýrslunni:
    „Móta þarf framtíðarstefnu þar sem áhersla er lögð á fjölbreytt úrræði í húsnæðismálum aldraðra þannig að aldraðir geti búið sem lengst á eigin vegum. Leggja þarf mat á kosti og galla þeirra valmöguleika sem nú standa öldruðum til boða og endurskoða áherslur í ljósi fenginnar reynslu. Við stefnumótun þarf að taka mið af ólíkum fjárhagslegum, félagslegum og heilsufarslegum þörfum og aðstæðum aldraðra. Tryggja þarf náið samráð og samstarf þeirra aðila sem fara með stofnanamál aldraðra, húsnæðismál aldraðra og þjónustu við aldraða í heimahúsum. Öll úrræði á hverju þessara sviða skulu saman miða að því að aldraðir geti búið sem lengst í heimahúsum. Gera þarf ráðstafanir sem fyrirbyggja að stjórnun og fjármögnun úrræða leiði til togstreitu á milli þessara þriggja sviða heldur verði það sameiginlegt markmið þeirra að veita öldruðum þjónustu og tryggja þeim úrræði sem henta best hagsmunum hvers og eins á hverjum tíma.“
    Stýrihópurinn lagði áherslu á eftirtalin atriði að því er varðar húsnæðismál:
     .      Að fram fari mat á eignarhaldi og rekstri íbúða fyrir aldraða.
     .      Að gerð verði úttekt á þörf fyrir byggingar næstu 10 árin og gerð framkvæmdaáætlun í kjölfarið.
     .      Að stuðlað verði að aðgerðum til að auðvelda eldri borgurum að aðlaga húsnæði sitt að breyttum þörfum á efri árum.
     .      Að gerð verði úttekt á fjármögnun og byggingarkostnaði með það fyrir augum að lækka rekstrarkostnað íbúða og heimila fyrir aldraða.
     .      Að kannaðir verði kostir þess að Íbúðalánasjóði verði falið aukið hlutverk við stefnumótun.
     .      Að efnt verði til tilraunaverkefna með það fyrir augum að efla nýsköpun varðandi hönnun, rekstur og fjármögnun íbúða og heimila fyrir eldri borgara.
     .      Að eflt verði fræðslustarf fyrir eldri borgara um valkosti í húsnæðismálum.

    Samkvæmt framansögðu hefur stýrihópur um stefnumörkun í málefnum aldraðra ekki lagt til að ríkið beiti sér fyrir byggingu á þjónustuíbúðum. Í skýrslunni kemur fram að valkostir í húsnæðismálum fyrir aldraða séu margir og að mikill vöxtur sé í uppbyggingu húsnæðis þar sem sérstaklega sé hugað að þörfum aldraðra. Sveitarfélög, félagasamtök og fyrirtæki hafi byggt íbúðir til sölu eða leigu eða látið þær í té með búseturétti, afnotarétti eða með hlutareign. Stýrihópurinn telur að skortur sé á greinargóðum upplýsingum um þessa valkosti í húsnæðismálum svo að unnt sé að meta þá reynslu sem fengist hefur af mismunandi fyrirkomulagi við byggingu, rekstur og eignafyrirkomulag íbúða fyrir aldraða og til að meta hvaða áhrif þessi þróun í húsnæðismálum aldraðra hefur haft á aðstæður fólks á efri árum.
    Ýmsir þættir sem fram komu í skýrslu stýrihópsins hafa verið til skoðunar í ráðuneytinu en þess má geta að stefnumótun í málaflokknum nær til 15 ára. Í samræmi við skýrsluna hafa ekki verið uppi áform af hálfu ráðherra um að byggja þjónustuíbúðir fyrir aldraða.
    Að lokum skal þess getið að ráðherra hefur skipað samstarfsnefnd þriggja ráðuneyta og Landssambands eldri borgara til að ræða um ýmsa þætti er tengjast sérstaklega öldruðum. Er lögð áhersla á að hafa samráð við Landssamband eldri borgara um málefni er tengjast þeim. Nefndin tók til starfa vorið 2005 og hefur ekki lokið störfum.