Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 164. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 264  —  164. mál.
Svarheilbrigðisráðherra við fyrirspurn Valdimars L. Friðrikssonar um hjúkrunarrými í Suðvesturkjördæmi.

     1.      Hversu mörg hjúkrunarrými eru í notkun í Suðvesturkjördæmi?
    
Í Suðvesturkjördæmi eru samtals 398 hjúkrunarrými fyrir aldraða á hjúkrunarheimilum og sambýlum í Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi. Á Hlein á Reykjalundi eru sjö hjúkrunarrými fyrir yngri hjúkrunarsjúklinga. Seltjarnarnesbær og Mosfellsbær hafa gert samkomulag við hjúkrunarheimilið Eir í Reykjavík um vistun ákveðins fjölda einstaklinga en þau rými eru ekki talin með hér þar sem þau tilheyra öðru kjördæmi en fyrirspurnin tekur til.

     2.      Hversu mörg ný hjúkrunarrými verða tekin í notkun á árunum 2005 til og með 2008 í Suðvesturkjördæmi?
    Ekki er fyrirsjáanlegt að tekin verði í notkun ný hjúkrunarrými í Suðvesturkjördæmi á árunum 2005–2008. Hins vegar er hafinn undirbúningur að deiliskipulagi svokallaðrar Lýsislóðar í Reykjavík þar sem á næstu árum mun rísa hjúkrunarheimili í samvinnu Reykjavíkurborgar og Seltjarnarnesbæjar. Á vegum ráðuneytisins og sveitarfélaga í Suðvesturkjördæmi, í samvinnu við einkaaðila, eru hafnar umræður um fjölbreyttari úrræði til að mæta hjúkrunarþörf aldraðra. Tekin hefur verið ákvörðun um byggingu 104 svonefndra öryggisíbúða á Álftanesi og svipaðar hugmyndir eru uppi í Mosfellsbæ. Í Kópavogi eru til skoðunar nýir valkostir í vistun fyrir aldraða hjúkrunarsjúklinga í stað vistunar á hefðbundnu hjúkrunarheimili. Hugsunin að baki er aukin áhersla á sjáfstæði og sjálfræði hinna öldruðu.