Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 310. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 330  —  310. mál.




Tillaga til þingsályktunar


                   
um átak í uppbyggingu héraðsvega.

Flm.: Jón Bjarnason, Þuríður Backman, Ögmundur Jónasson.



    Alþingi ályktar að gert skuli sérstakt átak í viðhaldi og uppbyggingu héraðsvega sem flokkast samkvæmt vegalögum oftast undir safn- og tengivegi. Sérstaklega skal hugað að lagningu bundins slitlags á þessa vegi. Til þess verði varið a.m.k. 4 milljörðum kr. sem dreifist jafnt á næstu fimm ár. Komi sú fjárveiting til viðbótar þeim fjármunum sem ætlaðir eru þessum vegaflokkum í núgildandi samgönguáætlun.
    Enn fremur skipi ráðherra þriggja manna nefnd er kanni hvernig breyta megi skilgreiningum og einfalda þær, sem og flokkun vega eftir tegundum í vegalögum og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga að teknu tilliti til breyttra þarfa og aukinna krafna sem gerðar eru til þessara vega. Nefndin skili áliti sínu fyrir 1. maí 2006.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var lögð fram á 131. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga og er nú lögð fram aftur lítið breytt.
    Í vegalögum er þjóðvegum skipt í stofnvegi, tengivegi, safnvegi og landsvegi. Hlutur safn- og tengivega, þ.e. héraðsvega, er afar mikilvægur í samgöngukerfi landsmanna. Þetta eru þeir vegir sem tengja einstök býli, náttúruvætti og sögustaði við aðalstofnvegina og skipta því miklu máli fyrir afkomu og framtíð fólks á stórum svæðum. Á þetta við um bændur og aðra þá sem vegna atvinnustarfsemi þurfa að sækja aðföng og koma frá sér afurðum með reglulegum hætti. Héraðsvegirnir eru líka mikilvægir fyrir akstur skólabarna og skipta miklu máli fyrir uppbyggingu í ferðaþjónustu. Þá má og nefna vegi að stórum sumarbústaðalöndum sem þurfa að anna mikilli umferð á vissum árstímum.

Fjárveitingar til vegamála.
    Fjármagn sem veitt hefur verið samkvæmt vegaáætlun skiptist, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni, á framkvæmdaflokka á eftirfarandi hátt:

2001 2002 2003 2004
Tengivegir 574 551 568 501
Brýr 328 238 311 225
Ferðamannaleiðir 106 400 324 234
Girðingar 59 64 65 66
Landsvegir 142 133 127 140
Safnvegir 335 315 301 319
Styrkvegir 67 62 60 64
Reiðvegir 48 45 43 48
Allar tölur í töflunni eru í millj. kr. og á áætluðu meðalverðlagi 2005.

Framlög til tengi-, safn- og landsvega af heildarfé til vegamála.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Neðsti flöturinn sýnir tengivegi, miðflöturinn safnvegi og sá efsti landsvegi.


(Heimild: Skýrsla samgönguráðherra um framkvæmdir í vegamálum, fjárlög 2004


og upplýsingar frá samgönguráðuneytinu.)



    Myndin sýnir hversu lágt framlag til tengi-, safn- og landsvega er sem hlutfall af heildarfé til vegamála og það fer lækkandi. Rétt er að geta þess að árið 2003 fóru 3 milljarðar kr. til sérstaks átaks í atvinnumálum. Sú fjárhæð fór til uppbyggingar á stofnvegakerfi landsins en ekki að neinu leyti til þeirra vegaflokka sem hér eru til umræðu. Akstur á vegum landsins hefur aukist mikið á undanförnum árum. Fjárveitingar til þessara þriggja tegunda vega hafa ekki nægt til að hægt væri að halda þeim við með viðunandi hætti og hefur ástand þeirra því versnað. Ástand þessara vega er mjög mismunandi og misjafnt hversu mikið er eðlilegt að byggja þá upp og styrkja. Þó er ljóst að miðað við framlög til þeirra um þessar mundir er lausn ekki í sjónmáli og má með eðlilegum rökum ætla að áratugir líði áður en þeir verða fullnægjandi.

Breytingar á fjárfestingum í nokkrum tegundum vega á verðlagi hvers árs.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Eins og sjá má af línuritinu hefur lítið miðað í þá átt að bæta úr ástandi safn- og tengivega á undanförnum árum. Ekkert er fyrirséð um það hvenær þessir vegir og vegaflokkar verða komnir í viðunandi horf. Framtíðarástand í samgöngum á stórum svæðum er því að segja má í lausu lofti. En þörfin er brýn og hún vex ár frá ári.

Fjárveitingar til vegagerðar á verðlagi hvers árs.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Neðsti flöturinn sýnir framlög til tengivega, sá næsti framlög til safnvega,
þriðji flötur að neðan framlög til landsvega og efsti flöturinn
heildarframlög til stofnkostnaðar í vegakerfinu.



Skipting vega.
    Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni var skipting vega 1. janúar 2004 þannig í kílómetrum talið:

Breytingar milli ára (km)
1 2 1+2 3 1+2+3 4 1+2+3+4
Ár Stofnvegir Tengivegir Samtals Safnvegir Samtals Landsvegir Samtals
1996 4.269,49 3.935,40 8.204,89 2.324,94 10.529,83 1.809,33 12.339,16
1997 4.306,37 3.873,83 8.180,20 2.340,48 10.520,68 2.170,76 12.691,44
1998 4.306,14 3.906,84 8.212,98 2.306,42 10.519,40 2.170,18 12.689,58
1999 4.303,79 3.898,08 8.201,87 2.308,85 10.510,72 2.170,23 12.680,95
2000 4.302,32 3.894,96 8.197,28 2.292,07 10.489,35 2.472,75 12.962,10
2001 4.309,84 3.897,39 8.207,23 2.301,08 10.508,31 2.490,02 12.998,33
2002 4.305,97 3.928,92 8.234,89 2.288,30 10.523,19 2.457,52 12.980,71
2003 4.276,74 3.961,76 8.238,50 2.267,25 10.505,75 2.467,29 12.973,04
2004 4.272,09 3.943,74 8.215,83 2.215,80 10.431,63 2.540,37 12.972,00
Kjördæmi (km)
1 2 1+2 3 1+2+3 4 1+2+3+4
Stofnvegir Tengivegir Samtals Safnvegir Samtals Landsvegir Samtals
Suður 939,70 1.092,12 2.031,82 559,21 2.591,03 983,71 3.574,74
Suðvestur 121,23 93,02 214,25 30,77 245,02 12,56 257,58
Reykjavík 72,08 11,19 83,27 25,37 108,64 9,40 118,04
Norðvestur 1.765,64 1.748,73 3.514,37 945,84 4.460,21 646,63 5.106,84
Norðaustur 1.373,44 998,68 2.372,12 654,61 3.026,73 888,07 3.914,80
Alls 4.272,09 3.943,74 8.215,83 2.215,80 10.431,63 2.540,37 12.972,00
Svæði (km)
1 2 1+2 3 1+2+3 4 1+2+3+4
Stofnvegir Tengivegir Samtals Safnvegir Samtals Landsvegir Samtals
Suður 842,33 988,45 1.830,78 552,34 2.383,12 935,66 3.318,78
Suðvestur 290,68 184,85 475,53 63,01 538,54 53,34 591,88
Norðvestur 1.777,53 1.773,79 3.551,32 945,84 4.497,16 649,13 5.146,29
Norðaustur 1.361,55 996,65 2.358,20 654,61 3.012,81 902,24 3.915,05
Alls 4.272,09 3.943,74 8.215,83 2.215,80 10.431,63 2.540,37 12.972,00



Heildarlengd bundins slitlags í árslok 2004, km.

Landsvegir og safnvegir eru taldir með.


Stofnvegir Tengivegir Safnvegir Landsvegir Alls
Suðurland 563,61 334,58 49,24 52,87 1.000,28
Reykjanes 280,80 94,00 1,24 14,40 390,44
Vesturland 478,65 97,42 8,69 1,64 586,40
Vestfirðir 524,23 38,24 0,97 563,44
Norðurland vestra 372,33 38,53 3,45 0,11 414,42
Norðurland eystra 494,68 114,70 10,16 21,30 640,84
Austurland 717,34 92,26 11,80 46,01 867,41
3.431,64 809,71 85,55 136,33 4.463,23


    Í eftirfarandi töflu eru þjóðvegir af flokknum tengivegir sem fallið hafa af vegaskrá á árunum 1981–2003. Margir þeirra eru nú þjóðvegir í flokki safnvega eða landsvega.

Þjóðvegir af flokknum tengivegir sem féllu af vegaskrá 1981–2003.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



„Sveitavegirnir“ kalla.
    Við erum lítil þjóð í stóru og ógreiðfæru landi og samgöngur hljóta því að vera höfuðatriði fyrir samfélagið á hverju svæði. Nú hefur orðið áherslubreyting í vegamálum á síðasta áratug þar sem ofuráhersla hefur verið lögð á stórframkvæmdir og nokkra aðalvegi. Á sama tíma hafa vegir sem liggja af hringveginum setið hlutfallslega á hakanum.
    Héraðsvegirnir inn til dala og út til stranda eru samgönguæðar heils atvinnuvegar. En einnig býr fjölmargt fólk í dreifbýli sem sækir vinnu um langan veg til næsta þéttbýlis og börnum er ekið í skóla. Því eru takmörk sett hvað bjóða má ungum börnum í löngum skólaakstri á slæmum vegum. Góðir akvegir eru því hreinlega grundvallarforsenda fyrir byggð víðs vegar um landið. En það hangir fleira á spýtunni. Ferðaþjónustan er ört vaxandi atvinnugrein og miklar vonir bundnar við hana til að treysta atvinnu til sveita. Íslendingar vilja gjarnan laða til sín ferðamenn og auglýsa náttúrufegurð landsins á erlendri grundu og þeir vilja einnig njóta hennar sjálfir. En til þess að komast að helstu náttúruperlum landsins verður oftar en ekki að keyra langar vegalengdir eftir héraðsvegum og umferð um þá er oft stríð á sumrin. Oft eru þessar leiðir líka eftirsóttar af ferðamönnum, þar á meðal hjólreiðafólki, vegna þess hvernig vegirnir liggja í landinu og allt önnur upplifun er að aka þá en mikið uppbyggðar stofnbrautir. Með fjölgun ferðamanna mun umferð um þessa vegi aukast og þar með vex þörfin fyrir uppbyggingu og endurbætur á héraðsvegunum. Góðir héraðsvegir eru því ekki sérhagsmunamál bænda heldur hluti af því að byggja Ísland upp sem ferðamannaland. Góðir vegir eru forsenda nýsköpunar í atvinnulífi til sveita.

Áætlun um uppbyggingu og slitlag á héraðsvegi.
    Ástand héraðsveganna er mjög misjafnt en Vegagerðin verður að takmarka verk sín við fjárveitingar og virðist forgangsröðun að mestu miðast við flokkun vega samkvæmt vegalögum frekar en þarfir íbúa eða atvinnulífs á hverju svæði. Þannig njóta ýmsir mikilvægir tengivegir og safnvegir mjög takmarkaðrar þjónustu þótt þeir séu eina vegtenging íbúa á stórum svæðum við stofnvegi. Þá er viðhald tengivega í sveitum víða afar lítið og víst er að ferðamenn færu án efa meira um þá ef ástand þeirra væri betra. Má hér nefna vegi eins og þann sem liggur út á Látrabjarg, veginn um Strandir og vegina um Hólasand og út á Melrakkasléttu.
    Mjög hallar á tengivegi og safnvegi í samanburði við stofnvegi hvað varðar uppbyggingu með lagningu bundins slitlags á síðustu árum. Flutningsmenn telja þá þróun varhugaverða og geta leitt til þess að ákveðin svæði einangrist og missi af viðskiptum og öðrum tækifærum sem tengjast umferð ferðamanna. Bundið slitlag eykur og möguleika íbúanna til að komast örugglega til og frá heimili sínu. Vel má setja sérreglur um hámarkshraða á þessum vegum til að viðhalda fullnægjandi öryggisstigi. Ferðamenn hérlendis ferðast í síauknum mæli á eigin vegum og þá oft á litlum bílum, sem þola illa lélega vegi, en einnig í vaxandi mæli á reiðhjólum. Gæði veganna og umferðaröryggi ráða því miklu um samkeppnishæfni einstakra svæða til búsetu og ferðaþjónustu. Því er lögð áhersla á að átak verði gert varðandi þessa vegi, ekki hvað síst með lagningu varanlegs og bundins slitlags.

Snjómokstur, rykbinding og viðhald héraðsvega.
    Sveitarfélög hafa vegna breyttra búsetuhátta orðið að efla vegaþjónustu á síðustu árum án þess að ríkið hafi aukið fjárframlög til þessara verka. Nú er algengara en áður að fólk búi í sveit en starfi jafnframt í þéttbýli og þurfi því að ferðast óhindrað nær alla daga ársins. Þá er börnum víða ekið um langan veg í skóla, m.a. vegna sameiningar sveitarfélaga, og vart bjóðandi að slíkum leiðum sé ekki haldið vel við. Þessi breyting þýðir t.d. að moka þarf þessa vegi reglulega að vetrinum, en moksturinn lýtur ýmist gamalli helmingaskiptareglu ríkis og sveitarfélags eða er alfarið á kostnað sveitarfélags og viðkomandi bónda. Þá er rykbinding á malarvegum afar brýn að sumri til. Því er nauðsynlegt að taka til endurskoðunar almenna þjónustu á þessum vegum og þá jafnframt verka- og kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga á þessum þáttum. Ljóst er að dreifbýl sveitarfélög hafa litla burði til að standa straum af auknum kostnaði við snjómokstur eða aðra vegþjónustu.

Ákvæði um skiptingu vega í flokka í vegalögum, nr. 45/1994.
    Skiptingu vega í flokka er að finna í III. og IV. kafla vegalaga. Í III. kafla um þjóðvegi segir:

„7. gr.

    Þjóðvegir eru þeir vegir sem ætlaðir eru almenningi til frjálsrar umferðar, haldið er við af fé ríkisins og upp eru taldir í vegáætlun, safnvegaáætlun og landsvegaskrá.

8. gr.

    Þjóðvegir skulu mynda eðlilegt, samfellt vegakerfi til tengingar byggða landsins. Vegakerfi þetta skal tengja öll býli á landinu, alla þéttbýlisstaði, flugvelli þar sem starfrækt er reglubundið áætlunarflug, hafnir og bryggjur ef þaðan eru stundaðar áætlunarsiglingar og aðra staði eins og nánar er lýst hér á eftir.
    Þjóðvegum skal skipað í flokka eftir eftirfarandi reglum:
     Stofnvegir:
    Vegir sem ná til 1.000 íbúa svæðis og tengja slík svæði saman. Víkja má frá reglunni um íbúafjölda ef um er að ræða tengingu kaupstaða eða kauptúna sem mynda samræmda heild frá atvinnulegu eða félagslegu sjónarmiði. Sama gildir um vegi sem hafa mikla árstíðabundna umferð eða þar sem innan 10 ára má búast við 1.000 bíla umferð á dag yfir sumarmánuðina. Við það stofnvegakerfi sem þannig fæst skal tengja með stofnvegi þéttbýli 400 íbúa eða fleiri enda sé tengingin ekki lengri en 20 km, svo og þéttbýli með 200–400 íbúa ef tenging er ekki lengri en sem svarar 5 km fyrir hverja 100 íbúa í þéttbýlinu. Þar sem stofnvegur endar í þéttbýli skal hann ná til þess svæðis sem mikilvægast er fyrir athafnalíf þéttbýlisins.
     Tengivegir:
    Vegir sem tengja safnvegi við stofnvegi og ná að þriðja býli frá vegarenda þar sem búseta er. Þetta ákvæði gildir þó ekki ef um er að ræða veg í kaupstað eða kauptúni. Einnig má telja tengiveg að innsta býli þar sem landsvegur liggur úr byggð.
    Þar sem tengivegur tengir þéttbýli við stofnvegakerfið skal hann ná til þess svæðis sem mikilvægast er fyrir athafnalíf þéttbýlisins.
    Vegir að flugvöllum þar sem starfrækt er reglubundið áætlunarflug og vegir að höfnum og bryggjum, ef þaðan eru stundaðar áætlunarsiglingar, skulu einnig vera tengivegir ef þeir eru ekki stofnvegir samkvæmt skilgreiningu um þann vegflokk.
     Safnvegir:
    Safnvegir tengja einstök býli, stofnanir o.fl. við tengivegi eða stofnvegi.
    Til safnvega teljast:
    Vegir að öllum býlum sem búseta er á og ekki eru tengd með stofnvegi eða tengivegi. Vegur samkvæmt þessum lið skal þó aldrei teljast ná nær býli en 50 m ef hann endar þar eða vera inni í þéttri byggð ef vegakerfi þar er styttra en sem svarar 50 m fyrir hvert býli eða íbúð.
    Vegir að kirkjustöðum, opinberum skólum og öðrum opinberum stofnunum í dreifbýli og í þéttbýli með minna en 200 íbúa.
     Landsvegir:
    Til þessa vegflokks skal telja þjóðvegi sem ekki tilheyra neinum af framangreindum vegflokkum. Þar er um að ræða vegi yfir fjöll og heiðar, þar á meðal vegi sem tengja saman landshluta, vegi innan þjóðgarða og vegi að fjölsóttum ferðamannastöðum.
    Á vegum þessum skal yfirleitt einungis gera ráð fyrir árstíðabundinni umferð og minna eftirliti og minni þjónustu en á öðrum þjóðvegum.“

    Í vegalögum segir jafnframt:

„16. gr.

    Í vegáætlun er heimilt að veita fé til greiðslu kostnaðar við eftirfarandi samgönguleiðir: götur í þéttbýli, vegi yfir fjöll og heiðar sem ekki eru þjóðvegir, vegi að bryggjum, vegi að eyðibýlum, vegi að flugvöllum sem ekki eru áætlunarflugvellir en taldir upp í flugmálaáætlun sem þjónustuvellir eða lendingarstaðir, vegi að skipbrotsmannaskýlum, vegi að skíðaskálum og skíðasvæðum, vegi að fjallskilaréttum, vegi að leitarmannaskálum, vegi að fjallaskálum, vegi að fullgerðum orkuverum, vegi að félagsheimilum, vegi að og innan uppgræðslu- og skógræktarsvæða og ferjur sem ekki fullnægja skilyrðum 23. gr.
    Þeir aðilar, sem sækja um og er veitt fé til framkvæmda við vegi samkvæmt þessari grein, skulu annast veghald viðkomandi vegar.
    Heimilt er að binda fjárveitingu samkvæmt þessari grein skilyrði um afnot vegar og merkingu hans.
    Ráðherra ákveður skiptingu fjárveitinga til einstakra framkvæmdaflokka að fengnum tillögum vegamálastjóra og samgöngunefndar Alþingis.
    Engar skyldur hvíla á ríkissjóði vegna samgönguleiða samkvæmt þessari grein.“

Sammála um mikilvægi héraðsveganna en framkvæmdina vantar.
    Á 128. löggjafarþingi lagði fyrsti flutningsmaður fram fyrirspurn til samgönguráðherra um hvort til stæði að auka fjárveitingar til safn- og tengivega og jafnframt að endurskilgreina stöðu þessara vega (290. mál).
    Á það var bent að rök væru hæpin fyrir þessari flokkun vega. Vegir féllu niður um flokka og jafnvel alveg af þjóðvegaskrá, t.d. ef bær færi úr byggð, þó svo vegurinn væri áfram mikilvæg samgönguæð vegna landnytja og ferðaþjónustu. Sem dæmi má nefna að þegar áætlunarflug til flugvallar leggst niður fellur vegurinn að honum úr flokki þjóðvega og verður í raun einskismanns vegur þótt flugvöllurinn sé áfram sjúkraflugvöllur og þjónusti einkaflug. Í umræðu um fyrrnefnt þingmál kom fram hjá samgönguráðherra að þessi mál yrðu skoðuð fyrir gerð næstu samgönguáætlunar og að hann væri hlynntur uppbyggingu safn- og tengivega eftir því sem fjármagn gæfist til. Ekkert hefur þó bólað á þessari endurskoðun. Aðrir þingmenn sem tóku þátt í umræðu um málið, Ísólfur Gylfi Pálmason, Margrét Frímannsdóttir og Guðmundur Hallvarðsson, voru öll mjög jákvæð gagnvart athugasemdum flutningsmanns og nauðsyn þess að að auka fjármagn til safn- og tengivega. Jafnframt var tekið undir nauðsyn þess að taka til endurskoðunar skiptingu og flokkun vega í vegalögum.
    Ástand héraðsveganna brennur mjög á íbúunum og meðfylgjandi eru sýnishorn af þeim erindum sem þingmönnum berast vegna þeirra. Þessi hópur fólks er mjög dreifður um landið og getur því illa beitt hópþrýstingi á stjórnvöld til að fylgja málum sínum eftir. Engu að síður er hér um mikið hagsmunamál að ræða, ekki aðeins fyrir það fólk sem þetta mál snertir beint daglega heldur alla þjóðina. Ekkert er fyrirséð um það hvenær þessir safn- og tengivegir víðs vegar um landið verða komnir í viðunandi horf. Því er lagt til að gert verði raunverulegt átak í uppbyggingu safn- og tengivega, svokallaðra héraðsvega, á næstu fjórum árum. Fylgiskjal I.


Bréf frá Ferðamálafélagi Barðastrandarsýslu.
(27. janúar 2004.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal II.


Bréf frá sveitarstjórn Öxarfjarðarhrepps.
(26. febrúar 2004.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal III.


Bréf frá sveitarstjórn Þingeyjarsveitar.
(19. apríl 2004.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal IV.


Bréf frá Ingunni Guðmundsdóttur, sveitarstjóra Skeiða- og
Gnúpverjahrepps, til þingmanna Suðurkjördæmis.

(26. ágúst 2004.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal V.


Bréf frá sveitarfélaginu Ölfusi.
(27. september 2004.)




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Fylgiskjal VI.

Bréf frá sveitarstjórn Kaldrananeshrepps.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal VII.


Bréf frá ábúendum að Dæli í Víðidal.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal VIII.


Bréf frá ábúendum og eigendum jarðanna í Flókadal í Borgarfirði.
(September 2003.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.












Fylgiskjal IX.


Úr bréfi frá sveitarstjórn Húnaþings vestra til fjárlaganefndar.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal X.


Úr bréfi frá hreppsnefnd Rangárþings ytra til fjárlaganefndar.
(27. september 2004.)




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal XI.


Úr bréfi frá Norður-Héraði til fjárlaganefndar.
(2004.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal XII.

Úr bréfi frá sveitarstjórn Dalabyggðar.
(Haustið 2004.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.





Fylgiskjal XIII.


Bréf frá Byggðasamlagi Húnavallaskóla.


(24. ágúst 2005.)




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal XIV.


Úr greinargerð sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar til fárlaganefndar.


(September 2005.)




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal XV.


Úr bréfum til fjárlaganefndar um tengi- og safnvegi.




Úr bréfi bæjarráðs Borgarbyggðar.


(Haustið 2005.)



     2. Tengi- og safnvegir. Sameining sveitarfélaga í Borgarfirði byggir á því að samgöngur innan sveitarfélagsins séu góðar og að íbúar í dreifbýli geti nýtt sér uppbyggingu í atvinnumálum og þjónustu í þéttbýli. Jafnframt sem góðar samgöngur eru lykilatriði í uppbyggingu ferðaþjónustu. Tengivegir í Borgarbyggð eru um 160 km. Nánast allir þessir vegir eru malarvegir og ástand þeirra er mjög misjafnt. Vegna fjölgunar nýbýla í Borgarbyggð stefnir í það að fé til viðhalds safnvega fer nánst allt í nýframkvæmdir við heimreiðar að nýbýlum. Fjármagn til að byggja upp tengi- og safnvegi í Borgarbyggð hefur verið af skornum skammti og því er afar brýnt að auka fjárveitingu til þessara vega.



Úr bréfi sveitarstjórnar Rangárþings ytra.


(27. september 2005.)



    Vegakerfið er lífæð hinna dreifðu byggða á Suðurlandi. Án viðunandi vega fær byggð varla þrifist í sveitum Suðurlands til langrar framtíðar. Íbúar sækja vinnu og skóla í auknum mæli daglega frá heimilum sínum í sveitunum og þurfa nauðsynlega á góðu samgöngukerfi að halda. Viðhald og uppbygging safn- og tengivega hefur verið í lágmarki undanfarin ár. Mjög brýnt er að auknum fjárveitingum verði beint til þessara verkefna á Suðurlandi þegar á næsta ári.