Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 379. máls.

Þskj. 435  —  379. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um bílaleigur, nr. 64/2000,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




1. gr.

    1. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
     Bílaleiga er starfsemi sem rekin er í atvinnuskyni þar sem almenningi eða fyrirtækjum er boðið til leigu skráningarskylt ökutæki að jafnaði um skemmri tíma, sbr. þó 2. mgr. 6. gr.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „samgönguráðuneytisins“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: Vegagerðarinnar.
     b.      Í stað fjárhæðarinnar „10.000 kr.“ í 3. málsl. 1. mgr. kemur: 25.000 kr.
     c.      Í stað orðsins „Samgönguráðuneytið“ í 2. mgr. kemur: Vegagerðin.
     d.      1. málsl. 4. mgr. orðast svo: Bílaleiga á grundvelli starfsleyfis skal rekin á fastri starfsstöð sem opin skal almenningi á tilgreindum tíma.
     e.      Á eftir 1. málsl. 4. mgr. kemur nýr málsliður sem orðast svo: Opnunartími skal auglýstur á skýran og ótvíræðan hátt og við hann skal staðið.
     f.      Í stað orðsins „samgönguráðuneytis“ í 1. málsl. 5. mgr. og orðsins „samgönguráðuneytisins“ í 2. málsl. 5. mgr. kemur: Vegagerðarinnar.

3. gr.

    Í stað orðsins „ráðherra“ í 1. málsl. 2. mgr. 4. gr. laganna kemur: Vegagerðin.

4. gr.

    Á eftir 2. mgr. 5. gr. laganna kemur ný málsgrein sem orðast svo:
    Bílaleigu er óheimilt að leigja út ökutæki nema það sé sérstaklega skráð hjá Umferðarstofu sem ökutæki sem leigt er í atvinnuskyni án ökumanns.

5. gr.

    Á eftir 1. mgr. 6. gr. laganna kemur ný málsgrein sem orðast svo:
    Leigusamningur milli bílaleigu og leigutaka skal að jafnaði takmarkast við þrjár vikur ef ökutæki sem leigt er hefur notið lægri vörugjalda sbr. 5. tölul. 2. mgr. 5. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993, með síðari breytingum. Ef ökutæki hefur ekki notið lægri vörugjalda eða 15 mánuðir eru liðnir frá nýskráningu ökutækis sem notið hefur lægri vörugjalda, sbr. 1. málsl., er bílaleigu heimilt að leigja það til lengri tíma.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                      Brot gegn 3., 5., 6. og 7. gr. laga þessara og reglugerðum settum samkvæmt þeim geta varðað sektum, nema þyngri refsing liggi við eftir öðrum lögum, og skal farið með mál út af slíkum brotum að hætti opinberra mála.
     b.      Í stað orðsins „Samgönguráðherra“ í 2. mgr. kemur: Vegagerðin.
     c.      Við bætist ný málsgrein sem orðast svo:
                      Vegagerðin skal hafa eftirlit með því að ákvæðum laganna sé fylgt. Bílaleigu er skylt að veita Vegagerðinni allar upplýsingar sem varða starfsleyfi hennar. Vegagerðin getur afturkallað starfsleyfi bílaleigu veiti hún Vegagerðinni ekki umbeðnar upplýsingar. Vegagerðinni er heimilt að fela faggiltum skoðunarstofum að sinna eftirlitshlutverki sínu samkvæmt lögunum.

7. gr.

    Við lögin bætist ný grein sem verður 10. gr. laganna og orðast svo ásamt fyrirsögn:

Stjórnsýslukæra.

    Ákvörðunum Vegagerðarinnar samkvæmt lögum þessum verður skotið til samgönguráðherra. Um málsmeðferð fer eftir ákvæðum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

8. gr.

    Lög þessi taka gildi 1. janúar 2006.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Við gildistöku laga þessara skulu starfsleyfi sem gefin hafa verið út halda gildi sínu í samræmi við leyfistímann.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Hjá samgönguráðuneytinu hefur verið unnið að frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 64/2000, um bílaleigur, í samráði við Vegagerðina auk þess sem hagsmunaðilum hefur verið sent það til umsagnar.
    Helsta breytingin sem ráðgerð er í frumvarpinu er að leyfisveitingar til að reka bílaleigur færast frá samgönguráðuneytinu til Vegagerðarinnar. Þannig er gert ráð fyrir að þeir sem vilji reka bílaleigur hafi starfsleyfi frá Vegagerðinni en ekki samgönguráðuneytinu. Þetta er í samræmi við grundvallarhugsun stjórnsýslulaga. Stjórnsýslulögin kveða á um þann grundvallarrétt borgaranna að þeir geti skotið stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds. Með því að veita undirstofnunum ráðuneyta heimild til að ákvarða um rétt og skyldu manna, svo sem um veitingu leyfa, eftirlit með því að skilyrðum fyrir þeim sé fullnægt o.s.frv., verður þessu viðkomið. Þessi skipan mála er jafnframt í samræmi við þá þróun sem verið hefur. Þannig hefur Vegagerðin með höndum útgáfu starfsleyfa til leigubifreiðastöðva og atvinnuleyfa til aksturs leigubifreiða, sbr. lög um leigubifreiðar, nr. 134/2001. Þá annast Vegagerðin jafnframt leyfisveitingar og eftirlit með fólksflutningum og farmflutningum, sbr. lög um fólksflutninga og farmflutninga á landi, nr. 73/2001, með síðari breytingum.
    Samkvæmt frumvarpinu er jafnframt gert ráð fyrir að Vegagerðin haldi skrá yfir þá sem leyfi hafa samkvæmt lögunum og birti hana með aðgengilegum hætti, t.d. á veraldarvefnum.
    Þá er lagt til að gjald fyrir útgáfu starfsleyfis hækki úr 10.000 krónum í 25.000 krónur. Vegagerðin hefur reiknað út kostnað við útgáfu starfsleyfa og aðra umsjón með bílaleigum, sbr. eftirfarandi töflu, og því er lagt til að gjaldið hækki þannig að það geti staðið undir þeim kostnaði:

Kostnaðaráætlun fyrir umsjón með bílaleigum.
(Unnið af Vegagerðinni.)

Kostnaðarliðir Klst. Kr./klst. Samtals
Leyfisveiting 20 3.000 60.000
Eftirlit 50 3.000 150.000
Niðurfelling leyfis 1 3.000 3.000
Endurnýjun 10 3.000 30.000
Álag vegna tölvunotkunar, húsnæðis o.fl. 20% 49.000
Samtals 292.000
55–60 leigur => Árlegt gjald pr. leigu. 5.000
Starfsleyfi gildir í 5 ár og er því lagt til að það verði: 25.000

    Aðrar breytingar á lögunum sem lagðar eru til í frumvarpinu eru:
     1.      Kveðið er á um að bílaleiga skuli rekin á fastri starfsstöð sem opin skal almenningi á tilgreindum tíma. Þá er einnig lögð sú skylda á bílaleigur að þær auglýsi opnunartímann á skýran og ótvíræðan hátt og skuli standa við hann. Það er nýmæli að gerð sé krafa um að starfsstöðin skuli opin almenningi á tilgreindum tíma og að bílaleigur skuli auglýsa opnunartímann á skýran og ótvíræðan hátt en talið er mikilvægt að viðskiptavinir geti náð persónulegu sambandi við þann sem skipt er við.
     2.      Áréttað er að bílaleigu er bannað að leigja út ökutæki sem ekki er sérstaklega skráð hjá Umferðarstofu sem ökutæki sem leigt eru í atvinnuskyni án ökumanns. Ástæðan er meðal annars sú að í umferðarlögum, nr. 50/1987, með síðari breytingum, og reglugerð nr. 378/1998 er kveðið á um að slík ökutæki skuli færa árlega til almennrar skoðunar frá og með næsta ári eftir skráningu en það er ríkari krafa en gerð er til ökutækja til einkanota.
     3.      Kveðið á um heimild fyrir bílaleigur til að leigja til lengri tíma ökutæki sem ekki hefur notið lægri vörugjalda og ökutæki þar sem 15 mánuðir eru liðnir frá nýskráningu ökutækis sem notið hefur lægri vörugjalda, sbr. 5. tölul. 2. mgr. 5. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993, með síðari breytingum. Þetta er talið nauðsynlegt þar sem aukin eftirspurn hefur verið eftir ökutækjum til leigu til lengri tíma en þriggja vikna. Þetta er einnig í samræmi við framkvæmd núgildandi laga en þau hafa verið túlkuð þannig að bílaleigum sé heimilt að leigja ökutæki sem ekki hafa notið lægri vörugjalda og ökutæki þar sem 15 mánuðir eru liðnir frá nýskráningu ökutækis sem notið hefur lægri vörugjalda, sbr. áðurnefnd lög, til lengri tíma en þriggja vikna. Talið er að þessi heimild raski ekki samkeppnisstöðu milli bílaleiga annars vegar og kaupleigu- eða fjármögnunarfyrirtækja hins vegar.
     4.      Refsiákvæði laganna er gert skýrara og tekið fram hvaða ákvæði þeirra geta falið í sér refsiverð brot.
     5.      Bætt er inn ákvæði sem kveður á um að Vegagerðin hafi eftirlit með framkvæmd laganna og er bílaleigum skylt að veita henni upplýsingar er varða starfsleyfi þeirra. Þá er Vegagerðinni veitt heimild til að fela faggiltum skoðunarstofum að sinna eftirlitshlutverki sínu samkvæmt lögunum.
     6.      Bætt er við nýju ákvæði þar sem aðilum er veitt heimild til að skjóta ákvörðunum Vegagerðarinnar á grundvelli laganna til samgönguráðherra.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Breytingin frá núgildandi lögum er að skilgreiningu á bílaleigu er breytt þannig að tekið er út að hún sé starfsemi þar sem ökutæki er að jafnaði ekki leigt út til lengri tíma en þriggja vikna. Áfram er þó gert ráð fyrir að bílaleiga sé starfsemi þar sem skráningarskylt ökutæki er boðið til leigu að jafnaði um skemmri tíma. Breytingin miðar að því að nánar verði kveðið á um leigutímann í 2. mgr. 6. gr. laganna. Sjá nánar umfjöllun um 5. gr. um leigutíma.

Um 2. gr.

    Breytingin miðar að því að færa þau verkefni sem samgönguráðuneytið hefur haft með höndum er varðar veitingu starfsleyfa til bílaleiga og aðra umsýslu tengda því, svo sem að halda skrá yfir leyfishafa, til Vegagerðarinnar. Þá er kveðið á um að gjaldið fyrir útgáfu starfsleyfis verði 25.000 krónur.
    Breytingin sem lögð er til á 1. málsl. 4. mgr. miðar að því að leyfishafar verði að reka bílaleigu á fastri starfsstöð sem opin skal almenningi á tilgreindum tíma. Þá er lagt til að við 4. mgr. bætist nýr málsliður þar sú skylda er lögð á bílaleigu að auglýsa á skýran og ótvíræðan hátt opnunartímann og að við hann skuli staðið. Leyfishafa er hins vegar í sjálfsvald sett að ákveða hvernig opnunartíma hans er háttað.

Um 3. gr.

    Breytingin miðar að því að færa þau verkefni sem samgönguráðuneytið hefur haft með höndum er varðar bílaleigur til Vegagerðarinnar. Starfsábyrgðartrygging sem umsækjandi um starfsleyfi til að reka bílaleigu verður að leggja fram verður því metin af Vegagerðinni en ekki samgönguráðherra.

Um 4. gr.

    Breytingin miðar að því að tryggja að öll skráningarskyld ökutæki sem bílaleigur leigja út séu sérstaklega skráð í notkunarflokk hjá Umferðarstofu sem bílaleigubílar. Þannig er tryggt að eftirlit með þessum skráningarskyldu ökutækjum sé í samræmi við umferðarlög, nr. 50/1987, með síðari breytingum, og reglugerð nr. 378/1998 sem sett hefur verið á grundvelli 67. gr. þeirra laga.
    Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 5. gr.

    Þessi breytingin miðar að því að kveða nánar á um leigutíma þannig að lögin séu í samræmi við framkvæmd núgildandi laga. Þannig er gert ráð fyrir því að leigusamningur milli bílaleigu og leigutaka um leigu á ökutæki til afnota gegn gjaldi skuli að jafnaði takmarkast við þrjár vikur ef ökutæki sem leigt er hefur notið lægri vörugjalda, sbr. 5. tölul. 2. mgr. 5. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993, með síðari breytingum. Bílaleigum er hins vegar heimilt að leigja út til lengri tíma en þriggja vikna ökutæki sem ekki hafa notið lægri vörugjalda og ökutæki sem notið hafa lægri vörugjalda, sbr. áðurnefnd lög, ef 15 mánuðir eru liðnir frá nýskráningu þeirra.

Um 6. gr.

    Breytingin miðar að því að gera refsiheimildina skýrari þar sem vísað er til þeirra ákvæða laganna sem geta falið í sér refsivert brot. Þá er bætt við nýrri málsgrein sem kveður á um að Vegagerðin skuli hafa eftirlit með því að ákvæðum laganna sé fylgt. Til að framkvæma þetta eftirlit er svo skýrt kveðið á um skyldur bílaleiga til að veita Vegagerðinni upplýsingar er varða starfsleyfi þeirra svo að hún geti sinnt eftirlitsskyldu sinni. Þá getur Vegagerðin afturkallað starfsleyfi bílaleigu ef hún veitir Vegagerðinni ekki þær upplýsingar sem óskað er eftir. Jafnframt er Vegagerðinni veitt heimild til að fela faggiltum skoðunarstofum að sinna eftirlitshlutverki sínu samkvæmt lögunum.

Um 7. gr.

    Með því að færa leyfisveitingu og stjórnsýslu er henni tengist til Vegagerðarinnar er komið á málskotsleið til ráðuneytisins og er það í samræmi við reglur stjórnsýsluréttar.

Um 8. gr.

    Lagt er til að lögin taki gildi 1. janúar 2006.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Hér er tekið fram að þau leyfi sem þegar hafa verið gefin út halda gildi sínu út leyfistímann. Bílaleigur sem þegar hafa fengið leyfi þurfa því ekki að endurnýja leyfin við gildistöku laganna.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um bílaleigur,
nr. 64/2000, með síðari breytingum.

    Helsta breyting frumvarpsins er að leyfisveitingar til að reka bílaleigur færast frá samgönguráðuneytinu til Vegagerðarinnar. Þá er lagt til að gjald fyrir útgáfu starfsleyfis hækki úr 10.000 kr. í 25.000 kr. Með tillit til fjölda bílaleiga og að starfsleyfin eru til fimm ára er tekjuhækkunin óveruleg.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.