Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 391. máls.

Þskj. 473  —  391. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2006–2009.

(Lögð fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að vinna að framkvæmd stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2006–2009. Með byggðaáætluninni verði stefnt að því að bæta búsetuskilyrði á landsbyggðinni og efla samkeppnishæfni landsins. Eftirfarandi meginmarkmið verði lögð til grundvallar:
     a.      Að landshlutakjarnar verði efldir en jafnframt hugað sérstaklega að leiðum til þess að treysta búsetu í þeim byggðarlögum sem glímt hafa við viðvarandi fólksfækkun.
     b.      Að byggðarlög nái að laga sig að örri samfélagsþróun og hröðum breytingum á atvinnuháttum.
     c.      Að atvinnulíf, menntun, menning og félagslegt jafnræði verði styrkt á landsbyggðinni.
    Sérstök áhersla verði lögð á gildi menntunar og menningar, aukna nýsköpunar- og atvinnuþróunarstarfsemi, bættar samgöngur og fjarskipti og styrkingu landshlutakjarnanna Akureyrar, Ísafjarðar og Miðausturlands.
    Helstu aðgerðir sem gripið verði til í því skyni að ná markmiðum áætlunarinnar verði eftirfarandi:
     1.      Bættar samgöngur: Unnið verði að mikilvægum samgöngubótum á landsbyggðinni samkvæmt samgönguáætlun og hugað að þróun almenningssamgangna.
     2.      Efling sveitarstjórnarstigsins: Áfram verði unnið að sameiningu sveitarfélaga í heildstæð atvinnu- og þjónustusvæði. Samhliða verði unnið að hugsanlegum breytingum á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og tekjustofnum sveitarfélaga.
     3.      Bætt fjarskipti: Unnið verði áfram að því að tryggja fjarskipti og bæta gagnaflutningsmöguleika á landsbyggðinni í samræmi við fjarskiptaáætlun og stuðlað að því að jafnaður verði mismunur á kostnaði við flutningana.
     4.      Gerð og framkvæmd vaxtarsamninga: Unnið verði að gerð og framkvæmd svæðisbundinna vaxtarsamninga, þar sem opinberir aðilar og einkaaðilar sameinast um aðgerðir til að efla samkeppnishæfni svæða og auka hagvöxt. Árangur af samningunum verði metinn reglulega.
     5.      Söfnun og úrvinnsla tölfræðilegra gagna um byggðaþróun: Árið 2006 verði skipulögð markviss söfnun og úrvinnsla tölfræðilegra gagna um byggðaþróun svo að reglubundin söfnun og úrvinnsla geti hafist hjá Byggðastofnun í upphafi árs 2007.
     6.      Undirbúningur að gerð landshlutaáætlana: Athugaðar verði niðurstöður verkefnis Norðurslóðaáætlunar Evrópusambandsins um gerð svæðisáætlana á norðlægum slóðum og kannaðir kostir þess að gera landshlutaáætlanir á þeim grunni, sem saman mundu ná yfir Ísland allt.
     7.      Athugun á stöðu byggðarlaga sem glíma við viðvarandi fólksfækkun: Gerð verði athugun á stöðu byggðarlaga sem glímt hafa við viðvarandi fólksfækkun. Styrkleikar þeirra og veikleikar verði metnir og greindir möguleikar til eflingar byggðarlaganna.
     8.      Styrking atvinnuþróunar: Stoðkerfi atvinnuþróunar og nýsköpunar á landsbyggðinni verði samhæft og starfið gert markvissara. Nýsköpunarmiðstöðinni á Akureyri og atvinnuþróunarfélögum verði áfram tryggður öruggur starfsgrundvöllur.
     9.      Efling rannsókna, tækniþróunar og nýsköpunar: Árið 2006 verði gerð áætlun um víðtæka eflingu rannsókna, tækniþróunar og nýsköpunar á landsbyggðinni, m.a. á sviði orkumála, sjávarútvegs, ferðaþjónustu og landbúnaðar. Í áætluninni verði skilgreind áherslusvið og fyrirkomulag samstarfs mótað. Samstarfið verði rekið sem þróunarverkefni út gildistíma byggðaáætlunarinnar.
     10.      Uppbygging þekkingarsetra/háskólasetra: Áfram verði unnið að uppbyggingu þekkingarsetra/háskólasetra á landsbyggðinni.
     11.      Efling dreifmenntunar á öllum skólastigum: Kostir dreifmenntunar, þar sem aðferðum fjarkennslu og staðbundinnar kennslu er beitt saman, verði nýttir til að veita fjölbreytt námsframboð á öllum skólastigum með samstarfi skóla. M.a. verði stuðlað að samstarfi háskóla um fjarkennslu. Skilgreind verði ákveðin marksvið í starfsmenntun á landsbyggðinni og unnið að eflingu þeirra í samstarfi framhaldsskóla, fyrirtækja og móðurskóla í starfsmenntun.
     12.      Efling símenntunar: Framboð símenntunar á landsbyggðinni verði aukið í samstarfi símenntunarmiðstöðva og Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins. Jafnframt verði stuðlað að samstarfi símenntunarmiðstöðva og framhaldsskóla um starfsmenntun fyrir fullorðna.
     13.      Efling menningarstarfsemi: Áfram verði unnið að gerð menningarsamninga við sveitarfélög. Stuðlað verði að auknu samstarfi safna á landsbyggðinni innbyrðis og við höfuðsöfn. Skoðaðir verði möguleikar þess að nýta nýja tækni, m.a. stafrænt sjónvarp, við gerð og miðlun menningar- og sjónvarpsefnis af landsbyggðinni. Unnið verði að eflingu íþrótta- og æskulýðsstarfs á landsbyggðinni.
     14.      Hagnýting upplýsingatækni: Unnið verði að því að gera afrakstur tilraunaverkefnisins um rafrænt samfélag aðgengilegan fyrir önnur byggðarlög á landsbyggðinni.
     15.      Bætt heilbrigðisþjónusta: Unnið verði að bættri heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni, m.a. með flutningi verkefna á sviði heilbrigðismála frá ríki til sveitarfélaga. Heilbrigðisnet, sem m.a. tengir saman heilbrigðisstofnanir og gerir fjarlækningar mögulegar, verði þróað áfram og tekið í fulla notkun.
     16.      Efling þjónustu við innflytjendur og aukin fjölmenning: Unnið verði markvisst að gagnkvæmri samfélagsaðlögun innflytjenda. Kannað verði að frumkvæði heimamanna í hverjum landshluta hvort kostur sé á að stofna þjónustumiðstöðvar fyrir innflytjendur.
     17.      Greining sóknarfæra hefðbundinna atvinnugreina – efling opinberrar þjónustu: Gerð verði úttekt á stöðu landbúnaðar, sjávarútvegs og iðnaðar á landsbyggðinni og greind helstu sóknarfæri og nýsköpunarmöguleikar þessara hefðbundnu atvinnugreina. Hugað verði að því hvort efla megi opinbera þjónustu við þessar atvinnugreinar á landsbyggðinni, t.d. með flutningi tiltekinna verkefna.
     18.      Uppbygging ferðaþjónustu: Unnið verði að öflugri uppbyggingu ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Áhersla verði lögð á sérkenni hvers landshluta og skipulagningu vaxtarsvæða. Þá verði unnið að því að bæta aðstöðu ferðamanna í þjóðgörðum og tryggja öruggt aðgengi þeirra.
     19.      Stuðningur við atvinnurekstur kvenna: Unnið verði að því að efla þátt kvenna í atvinnurekstri með ráðgjöf og námskeiðum. Hugað verði að leiðum til þess að gera stoðkerfi atvinnulífsins aðgengilegra fyrir konur.
     20.      Styrking skapandi greina: Unnið verði að eflingu skapandi greina í samræmi við ályktun Vísinda- og tækniráðs frá 2. júní 2005 með virkri þátttöku landsbyggðarinnar.
     21.      Efling umhverfisstarfs í sveitarfélögum: Umhverfisstarfsemi sveitarfélaga verði efld með áherslu á framkvæmd Staðardagskrár 21, einkum í fámennum sveitarfélögum á landsbyggðinni.
     22.      Þátttaka í Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins (NPP): Ísland verði áfram virkur þátttakandi í Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins.
     23.      Efling Norrænu Atlantsnefndarinnar (NORA): Ísland vinni áfram að því að útvíkka starfsemi NORA og beiti sér fyrir því að samstarfslöndin fjármagni starf nefndarinnar.
    Iðnaðarráðherra skipi verkefnisstjórn til þess að hafa umsjón með framvindu byggðaáætlunarinnar.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Iðnaðarráðherra leggur fyrir Alþingi, skv. 7. gr. laga um Byggðastofnun, nr. 106/1999, tillögu að stefnumótandi byggðaáætlun fyrir fjögurra ára tímabil. Áætlunin skal lýsa markmiðum og stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum, áætlunum um aðgerðir og tengsl byggðastefnu við almenna stefnu í efnahags- og atvinnumálum og áætlunum á sviði opinberrar þjónustu í landinu. Í henni skal einnig gerð grein fyrir ástandi og horfum í þróun byggðar í landinu. Í 2. mgr. 12. gr. reglugerðar um Byggðastofnun, nr. 347/2000, segir jafnframt að í byggðaáætlun skuli gerð grein fyrir framvindu gildandi byggðaáætlunar. Lögum samkvæmt vann iðnaðarráðherra að byggðaáætlun í samvinnu við Byggðastofnun og hafði við gerð hennar víðtækt samráð við önnur ráðuneyti, sveitarfélög, atvinnuþróunarfélög og fleiri.
    Haustið 2004 fól iðnaðarráðuneyti Byggðastofnun að vinna frumdrög að nýrri byggðaáætlun sem skyldi byggjast á grunni gildandi áætlunar fyrir árin 2002–2005. Segja má að einkunnarorð hennar hafi verið: Þróun byggðar á grundvelli þekkingar og nýsköpunar. Með áætluninni voru eftirfarandi meginmarkmið sett:
     a.      Að draga úr mismun á lífskjörum og afkomumöguleikum fólks milli byggðarlaga í landinu og skapa íbúum á landsbyggðinni sem hagstæðust búsetuskilyrði.
     b.      Að aðstoða byggðarlög á landsbyggðinni við að laga sig að örri samfélagsþróun og hröðum breytingum í atvinnuháttum með því að efla sveitarfélögin, veita markvissan stuðning við atvinnuþróun, menntun, trausta samfélagsþjónustu og uppbyggingu grunngerðar.
     c.      Að treysta búsetuskilyrði á landsbyggðinni með því að efla þau byggðarlög sem eru fjölmennust, hafa mest aðdráttarafl fyrir fólk og bestu möguleikana til uppbyggingar atvinnulífs, skóla, menningarlífs og opinberrar þjónustu.
     d.      Að auðvelda byggðum landsins að rækta menningu sína, auðga með því þjóðlífið og skapa fjölbreytilegri kosti fyrir borgarana í búsetu og lífstíl. Í því felst m.a. að stuðla að varðveislu byggðar sem á sér rótgróna sögu og hefur menningarsögulegt gildi, svo og að virða tengsl fólks í fámennum byggðarlögum við átthaga sína með því að gera því kleift að búa þar áfram.
     e.      Að stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi, jöfnun starfsskilyrða og að fyrirtæki á landsbyggðinni geti nýtt atvinnukosti sína sem best með sjálfbæra nýtingu auðlinda og góða umgengni um náttúru landsins að leiðarljósi.
    Markmiðin hafa verið dregin saman og einfölduð og hljóða nú þannig:
     a.      Að landshlutakjarnar verði efldir en jafnframt hugað sérstaklega að leiðum til þess að treysta búsetu í þeim byggðarlögum sem glímt hafa við viðvarandi fólksfækkun.
     b.      Að byggðarlög nái að laga sig að örri samfélagsþróun og hröðum breytingum í atvinnuháttum.
     c.      Að atvinnulíf, menntun, menning og félagslegt jafnræði verði styrkt á landsbyggðinni.
    Iðnaðarráðuneyti og Byggðastofnun kölluðu atvinnuþróunarfélög og landshlutasamtök sveitarfélaga til fundar um gerð nýrrar byggðaáætlunar 18. febrúar 2005. Á fundinum var kallað eftir hugmyndum fundarmanna um aðgerðir til þess að ná markmiðum áætlunarinnar. Fjölmargar tillögur komu fram á fundinum og í kjölfar hans. Iðnaðarráðuneyti fór yfir tillögurnar og tók mið af þeim við gerð áætlunarinnar. Byggðastofnun skilaði drögum að byggðaáætlun til ráðuneytisins í apríl 2005. Þá kallaði ráðuneytið önnur ráðuneyti til liðs við sig og óskaði eftir að þau skilgreindu hvert á sínu sviði aðgerðir til að ná markmiðum byggðaáætlunar. Uppkast að þingsályktunartillögu um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2006–2009 lá fyrir í byrjun október sl. og var þá sent til umsagnar hins breiða hóps sem komið hafði að gerð þess auk annarra sem sérstakra hagsmuna hafa að gæta. Uppkastið var jafnframt lagt fram á heimasíðu Byggðastofnunar. Hátt á fjórða tug umsagna bárust og var tekið tillit til þeirra athugasemda sem þar komu fram eins og völ var á.

Inngangur.

    Efling byggðar er meðal meginmarkmiða ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Stefnt er að því að treysta undirstöður byggðar í landinu og skapa jöfn skilyrði til atvinnu, menntunar og menningar. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á samvinnu dreifbýlis og þéttbýlis um efnahagslegan stöðugleika svo markmið um frekari framfarir, uppbyggingu atvinnulífs, bættar samgöngur og öryggi borgaranna náist. Í yfirlýsingunni segir að hagsmunir landsins felist í markvissu samstarfi höfuðborgar og landsbyggðar og gagnkvæmum skilningi.
    Eitt fjögurra meginstefnumiða iðnaðar- og viðskiptaráðherra fyrir árin 2004–2007 er að treysta búsetu á landsbyggðinni. Í stefnumörkun sinni hefur iðnaðarráðherra tekið mið af þeim aðgerðum sem skilgreindar voru í gildandi byggðaáætlun. Byggt er á því að menntun, hátt almennt þekkingarstig og nýsköpun í atvinnulífinu séu meginstoðir varanlegrar búsetu á landsbyggðinni og forsenda efnahagslegra framfara og félagslegrar velferðar íbúanna.
    Þingsályktunartillaga þessi og athugasemdir með henni hafa að geyma nánar útfærða stefnu stjórnvalda í byggðamálum fyrir árin 2006–2009. Sett eru fram markmið, lagðar áherslur og mótaðar áætlanir um aðgerðir. Greinargerð Byggðastofnunar um ástand og horfur í þróun byggðar, byggðaáætlanir og byggðaaðgerðir, fylgir tillögunni og skýrsla iðnaðarráðherra um framvindu byggðaáætlunar fyrir árin 2002–2005 er lögð fram samhliða.

Áherslur.

    Byggðaáætlun fyrir árin 2002–2005 byggist á eftirtöldum fimm meginstoðum: Traustu og fjölbreyttu atvinnulífi, öflugum byggðarlögum, aukinni þekkingu og hæfni, bættum samgöngum og áherslu á sjálfbæra þróun. Í stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2006–2009 verður áfram byggt á sömu stoðum en lagt er til að sérstök áhersla verði lögð á fernt:
     1.      Gildi menntunar og menningar.
     2.      Aukna nýsköpunar- og atvinnuþróunarstarfsemi.
     3.      Bættar samgöngur og fjarskipti.
     4.      Styrkingu landshlutakjarnanna Akureyrar, Ísafjarðar og Miðausturlands.

1. Gildi menntunar og menningar.
    Flest bendir til þess að efnahagsþróun muni í hratt vaxandi mæli byggjast á margs konar þekkingariðnaði. Aukin menntun, þekking og færni er því sameiginlegt hagsmunamál þjóðarinnar. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að tryggja eigi öllum jöfn tækifæri til náms án tillits til búsetu og efnahags. Háskólanám verði eflt og fjarnám þróað í samvinnu við menntastofnanir á framhalds- og háskólastigi. Öflugt símenntunarkerfi verði þróað áfram í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins og sérstök áhersla verði lögð á sókn á sviði starfs- og verkmenntunar. Sérstök áhersla er auk þess lögð á fjarnám til þess að sem flestir geti stundað nám í sinni heimabyggð.
    Menntunarstig á landsbyggðinni er umtalsvert lægra en á höfuðborgarsvæðinu þrátt fyrir að framboð og möguleikar til menntunar hafi aukist þar verulega á undanförnum árum, m.a. með fjölbreyttari fjarkennslu, tilkomu háskóla og háskóla- og þekkingarsetra. Rannsóknir hafa sýnt að menntunaráform eru meðal helstu ástæðna þess að ungt fólk fyrirhugar að flytja úr heimabyggð og þeir sem flytja á brott til þess að afla sér menntunar eru gjarnan tregir til þess að snúa aftur til varanlegrar búsetu.
    Staðbundnar aðstæður á landsbyggðinni eru tíðum uppspretta dýrmætrar þekkingar. Nám í heimabyggð stuðlar að því að sú þekking og staðbundin menning varðveitist. Líklegt er að vel menntað samfélag fæði af sér nýjar hugmyndir sem knýja atvinnulífið áfram. Með því að gera fleirum kleift að stunda nám í sinni heimabyggð, auka námsframboð á öllum skólastigum, efla rannsóknir og tengsl menntunar og atvinnulífs er því stuðlað að aukinni nýsköpun og jákvæðri þróun atvinnulífs. Þannig skapast forsendur efnahagslegra framfara og félagslegrar velferðar íbúanna.
    Menning er samfélagsgrunnur þjóðar, byggðar og einstaklings. Af henni myndast sérkenni, sjálfsmynd og hæfni til sköpunar, sóknar og aðlögunar. Það er stefna ríkisstjórnarinnar að standa vörð um íslenska tungu, sögu og þjóðmenningu. Markmið hennar er að sköpuð verði frekari vaxtarskilyrði fyrir blómlegt menningarlíf. Jafnframt verði öflugt listalíf aðgengilegt öllum landsmönnum og menningarstarfsemi búin viðeigandi aðstaða.
    Fjölbreytt menningarstarf, þar með talið útivist og íþrótta- og æskulýðsstarf, er mikilvægur samfélagsþáttur og stór áhrifaþáttur við val á búsetu. Í menningararfinum felast líka fjölmörg tækifæri til atvinnusköpunar Þannig er menningartengd ferðaþjónusta t.d. ört vaxandi atvinnugrein. Vöxtur atvinnulífsins hefur einnig verið hraður innan skapandi greina, og því hefur verið spáð að þær muni valda miklu um efnahagsþróun og atvinnu á komandi árum.

2. Aukin nýsköpunar- og atvinnuþróunarstarfsemi.
    Á síðustu árum hefur störfum í frumvinnslu innan hefðbundinna greina haldið áfram að fækka og litlar horfur eru á að þessi þróun snúist við. Því er nauðsynlegt að leita nýrra leiða til þess að efla atvinnulíf og styrkja samkeppnishæfni byggða með eflingu rannsókna, tækniþróunar og nýsköpunar. Það er stefna ríkisstjórnarinnar að styrkja rannsókna- og þróunarstarf og vinna að markvissri uppbyggingu rannsóknarstarfsemi og nýsköpunar á sem flestum sviðum í samræmi við stefnu Vísinda- og tækniráðs. Þá skal haldið áfram stuðningi við atvinnuþróun á landsbyggðinni.
    Margir aðilar mynda stoðkerfi atvinnuþróunar og nýsköpunar á landsbyggðinni; helstir þeirra eru Impra – nýsköpunarmiðstöð á Akureyri, Byggðastofnun og atvinnuþróunarfélögin. Starf þeirra hefur verið gott og árangursríkt en þyrfti að vera samhæfðara og markvissara. Alþjóðlegt samstarf er jafnframt mikilvægt, eins og m.a. hefur komið í ljós með þátttöku Íslands í Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins (NPP) og Norrænu Atlantsnefndarinnar (NORA). Gæta þarf að því að frumkvæði í þróunarstarfi sé sem víðast í höndum heimamanna. Svokallaðir vaxtarsamningar færa ábyrgð á framkvæmdum á sviði byggðamála til hagsmunaaðila í héraði, en með þeim vinna opinberir aðilar og einkaaðilar saman að uppbyggingu atvinnulífs á tilteknu svæði með það að markmiði að efla samkeppnishæfni og stuðla að auknum hagvexti.

3. Bættar samgöngur og fjarskipti.
    Samgöngur geta ráðið miklu um þróun byggðar. Gæði þeirra hafa afgerandi áhrif á stærð atvinnu-, verslunar- og þjónustusvæða. Þannig hafa bættar samgöngur þegar stuðlað að stækkun markaðssvæða og breytt um leið samkeppnis- og búsetuskilyrðum. Bættar samgöngur eru mikilvæg forsenda fyrir styrkingu landshlutakjarna og leggja grunninn að farsælli sameiningu sveitarfélaga.
    Alþingi samþykkti á vorþingi 2003 í fyrsta sinn samgönguáætlun þar sem sett eru markmið til tólf ára. Áætlunin er fyrir árin 2003–2014 og í henni er litið á samgöngur landsmanna sem eina heild. Innan ramma samgönguáætlunarinnar eru gerðar áætlanir til fjögurra ára sem taka til nánari sundurliðunar heildaráætlunarinnar. Samgönguáætlunin er leið til að nýta betur þá fjármuni sem varið er til samgöngumála og mikilvægt tæki til að móta framtíðarsýn í samgöngumálum, þar sem hagsmunir heildarinnar; landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis, eru hafðir að leiðarljósi.
    Góð fjarskipti eru grundvöllur fyrir þróttmiklu mannlífi. Greið og örugg fjarskipti eru þannig lykilþættir við rekstur fyrirtækja og forsenda þess að fólk geti notið þeirra lífsgæða sem nútíminn gerir kröfu um. Sem dæmi má nefna að hagnýting upplýsingatækni býður upp á fjölbreytt menntunartækifæri, veitir aðgengi að afþreyingu og margvíslegri þjónustu, gefur kost á fjarvinnu og er til þess fallin að stuðla að auknu lýðræði með bættu aðgengi að stjórnsýslunni. Þá eru traust fjarskipti ótvírætt mikilvæg öryggi borgaranna. Það er því mikilvægt hagsmunamál fyrir landsbyggðina að jafnað verði aðgengi að fjarskiptum og kostnaður við gagnaflutninga. Á þessu er m.a. tekið í fjarskiptaáætlun fyrir árin 2005–2010, þar sem sett er fram fjarskiptastefna stjórnvalda, og stefnu ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið fyrir árin 2004–2007.

4. Styrking landshlutakjarnanna Akureyrar, Ísafjarðar og Miðausturlands.
    Eitt meginmarkmiða gildandi byggðaáætlunar er að treysta búsetuskilyrði á landsbyggðinni með því að efla þau byggðarlög sem eru fjölmennust, hafa mest aðdráttarafl fyrir fólk og bestu möguleika til uppbyggingar atvinnulífs, skóla, menningarlífs og opinberrar þjónustu. Ríkisstjórnin hefur markað þá stefnu að áfram verði unnið að uppbyggingu byggðakjarna.
    Fólksflutningar til höfuðborgarsvæðisins síðustu árin hafa verið mestir af Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi þó að lítilsháttar fólksfjölgun hafi orðið á nokkrum þéttbýlisstöðum í þessum landshlutum. Með því að efla tiltekna byggðakjarna í hverjum þessara landshluta; svokallaða landshlutakjarna, er leitast við að styrkja byggð í landshlutunum í heild. Markmiðið er að mynda mótvægi við höfuðborgarsvæðið og freista þess að ná hliðstæðum áhrifum og styrk staða höfuðborgarsvæðisins hefur haft á umhverfi þess, þótt áhrifin verði ekki jafnvíðtæk.
    Á Norðurlandi hefur Akureyri yfirburðastöðu sem landshlutakjarni með fjölbreytta þjónustustarfsemi og listalíf, mikilvægar stofnanir og góðar flugsamgöngur. Svipuðu máli gegnir um stöðu Ísafjarðar sem landshlutakjarna á Vestjörðum, þótt samgöngur séu þar enn nokkuð örðugar. Með hliðsjón af mikilli uppbyggingu á Miðausturlandi, virkjun, álveri og áhrifum þess, ríður á að miðhluti Austurlands verði eitt atvinnu- og þjónustusvæði og þéttbýlisstaðirnir þar nái saman sem landshlutakjarni.
    Samhliða styrkingu landshlutakjarna þarf að huga heildstætt að þróun byggðar í landinu öllu og hlúa að svæðum sem standa höllum fæti. Bregðast þarf við vanda þeirra byggðarlaga sem búa við mikla fólksfækkun. Þannig þyrfti að mynda sameiginlega framtíðarsýn fyrir stærri svæði en hingað til hefur verið gert og móta sameiginlegar áherslur. Í framtíðarsýn fyrir hvert svæði þarf að horfa til menningar og menningararfs, félagslegra og hagrænna þátta og náttúrufars með það að markmiði að styrkja samkeppnishæfni svæðisins og skilyrði til sjálfbærrar þróunar.

Aðgerðir.

    Hér verður lýst áætlunum um helstu aðgerðir stjórnvalda til þess að ná markmiðum stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2006–2009. Skilgreindar hafa verið 23 aðgerðir, en með þeim er leitast við að ná samhljómi með annarri áætlanagerð og aðgerðum stjórnvalda. Aðgerðir byggðaáætlunar hafa almennt í för með sér eflingu opinberrar starfsemi á landsbyggðinni. Rétt er að taka fram að aðgerðirnar 23 eru fjarri því tæmandi fyrir aðgerðir stjórnvalda í byggðamálum á gildistíma byggðaáætlunarinnar.
    Greint er frá meginhugmynd að baki hverri aðgerð, ábyrgðaraðilum, öðrum hugsanlegum þátttakendum og tímasetningu aðgerðanna. Ekki ber að líta svo á að listi yfir þátttakendur sé bindandi eða tæmandi. Aðgerðirnar marka í flestum tilvikum ákveðinn ramma. Gert er ráð fyrir að iðnaðarráðuneyti skilgreini nánar í samstarfi við önnur ráðuneyti og fleiri aðila tiltekin samstarfsverkefni innan rammans. Verkefnin geta jafnframt falið í sér samstarf ráðuneyta og annarra aðila án beinnar aðkomu iðnaðarráðuneytis. Með þessum hætti hefur verið staðið að framkvæmd gildandi byggðaáætlunar. Náið samstarf iðnaðarráðuneytis við önnur ráðuneyti um framkvæmd verkefna á málefnasviðum þeirra er mikilvægt, enda nær byggðaáætlun til flestra þátta samfélagsins.
    Heildarkostnaður við framkvæmd aðgerða samkvæmt byggðaáætlun hefur ekki verið metinn, þar sem margar þeirra eru hluti af öðrum áætlunum ríkisins og erfitt að skipta þeim upp. Auk þess munu útgjöld tengjast verkefnum sem ekki eru fullmótuð á þessu stigi áætlunarinnar og verða ákveðin nánar við fjárlagagerð hvers árs. Þó liggur fyrir að kostnaðarsömustu aðgerðirnar snúa að eflingu sveitarstjórnarstigsins, samgöngumálum, og fjarskiptamálum. Í samræmi við viljayfirlýsingu frá 17. september 2004 hafa ríkissjóður og Jöfnunarsjóður sveitarfélaga heitið því að leggja fram allt að 2,4 milljarða kr. á næstu árum í fjárhagslegan stuðning við sameiningu sveitarfélaga í samræmi við reglur Jöfnunarsjóðs. Ekki er á þessu stigi ljóst hver endanleg fjárþörf verður vegna þessa en í ljósi niðurstöðu sameiningarkosninga 8. október sl. má reikna með að hún verði umtalsvert minni en áætlað var. Verkefni á sviði samgöngu- og fjarskiptamála verða fjármögnuð af fjárveitingum til samgönguráðuneytisins og eftir atvikum af einkaaðilum í samræmi við forgangsröðun þessara aðila. Gert verður ráð fyrir sérstöku ríkisframlagi til vaxtarsamninga og reksturs Impru, nýsköpunarmiðstöðvar á Akureyri, á lið byggðaáætlunar. Reiknað er með að aðrir aðilar, bæði opinberir og einkaaðilar, taki þátt í fjármögnun vaxtarsamninganna. Önnur verkefni hafa minni kostnað í för með sér, en reiknað er með að þau verði fjármögnuð sameiginlega af lið byggðaáætlunar, hlutaðeigandi ráðuneyta, Byggðastofnunar og annarra aðila, bæði opinberra og einkaaðila. Fjármögnun aðgerða krefst þess að ráðuneyti og stofnanir forgangsraði verkefnum sínum í þágu þeirra.



1. Bættar samgöngur.
Meginhugmynd Góðar og öruggar samgöngur hafa afgerandi áhrif á búsetuskilyrði á landsbyggðinni. Bættar samgöngur innan landshluta hafa þegar stuðlað að stækkun markaðssvæða, aukinni fjölbreytni þjónustu og fjölgun atvinnutækifæra. Rannsóknir hafa sýnt að með því að bæta samgöngur innan Austurlands, Norðurlands og Vestfjarða sé unnt að skapa þéttbýliskjarna sem bjóði upp á svipaða kosti og höfuðborgarsvæðið. Greiðar samgöngur milli landshlutakjarnanna og höfuðborgarsvæðisins eru jafnframt mikilvægar. Almenningssamgöngur gætu þegar til lengri tíma er litið skipt verulegu máli fyrir þróun byggðar í landinu. Nefnd skipuð af samgönguráðherra hefur lagt fram tillögur um málefni almenningssamgangna milli þéttbýliskjarna til næstu framtíðar, þar sem er m.a. lagt til að eftir samruna sveitarfélaga verði unnið að því að sveitarfélög takist á hendur meiri ábyrgð á uppbyggingu og stjórnun almenningssamgangna á landi en talið er að þetta muni m.a. stuðla að bættu þjónustustigi á landsbyggðinni.
Unnið verður að mikilvægum samgöngubótum á landsbyggðinni samkvæmt samgönguáætlun og hugað að þróun almenningssamgangna.
Ábyrgð á framkvæmd Samgönguráðuneyti.
Aðrir þátttakendur Samgönguráð, Alþingi vegna samgönguáætlunar, sveitarfélög.
Tímaáætlun 2006–2009.
Annað Samkvæmt samgönguáætlun fyrir árin 2005–2008 skal á tímabilinu unnið að verkefnum sem falla undir þau fjögur stefnumið sem lagt var upp með í samgönguáætlun 2003–2014, þ.e. markmið um greiðari samgöngur, um hagkvæmni í uppbyggingu og rekstri samgangna, um umhverfislega sjálfbærar samgöngur og um öryggi í samgöngum. Meira fé er veitt í þennan málaflokk á áætlunartímabilinu en nokkru sinni áður og þeir áfangar sem stefnt er að munu stórbæta samgöngur á landsbyggðinni en þar valda jarðgöng sennilega mestum straumhvörfum. Benda má á að ákvæði um eflingu almenningssamgangna er að finna í stefnumörkun stjórnvalda í loftslagsmálum.
2. Efling sveitarstjórnarstigsins.
Meginhugmynd Stækkun sveitarfélaga og efling sveitarstjórnarstigsins er mikilvægur þáttur í að styrkja stöðu byggðarlaga hvar sem er á landinu. Sjálfsforræði og sjálfsmynd byggðarlaga treystist og eflist, stjórnsýsla þeirra verður markvissari, gæði þjónustu betur tryggð og staðbundið lýðræði eflist. Haustið 2003 hófst samstarfsverkefni félagsmálaráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga um eflingu sveitarstjórnarstigsins. Lagðar hafa verið fram tillögur til breytinga á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, m.a. um að sveitarfélög taki meiri ábyrgð á sviði atvinnuþróunar og byggðamála, samhliða breytingum á uppbyggingu stoðkerfis atvinnu- og byggðamála. Einnig hafa verið lagðar fram tillögur til breytinga á tekjustofnum sveitarfélaga, sem einkum miða að því að styðja við sveitarfélög sem standa höllum fæti fjárhagslega, og jafnframt er nýhafin vinna við endurskoðun reglna Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Bæði ríki og sveitarfélög hafa litið svo á að sameining sveitarfélaga í öflugar stjórnsýslueiningar sé forsenda flutnings umfangsmikilla verkefna frá ríki til sveitarfélaga. Ljóst er að það markmið hefur ekki náðst sem að var stefnt með átaki um eflingu sveitarstjórnarstigsins, að ná fram grundvallarbreytingu á sveitarfélagaskipan í landinu og áfram verður töluverður fjöldi mjög fámennra sveitarfélaga. Ríki og sveitarfélög munu eiga viðræður um það hvort grundvöllur sé fyrir verkefnaflutningi í ljósi þessarar niðurstöðu.
Áfram verður unnið að sameiningu sveitarfélaga í heildstæð atvinnu- og þjónustusvæði. Samhliða verður unnið að hugsanlegum breytingum á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og tekjustofnum sveitarfélaga.
Ábyrgð á framkvæmd Félagsmálaráðuneyti.
Aðrir þátttakendur Samband íslenskra sveitarfélaga og landshlutasamtök sveitarfélaga.
Tímaáætlun 2006–2009.
Annað Efnahagur sveitarfélaga endurspeglar að jafnaði ágætlega efnahag þess samfélags sem sveitarfélagið nær yfir. Séu tekjur samfélagsins litlar, kemur það fram í litlum skatttekjum sveitarfélagsins. Því má ljóst vera að styrkja þarf undirstöður atvinnulífs þeirra sveitarfélaga sem standa höllum fæti fjárhagslega. Annað eru einungis tímabundnar aðgerðir en jafnhliða er m.a. mögulegt að skoða hvort þörf sé á að jafna tekjustofna sveitarfélaga enn frekar en nú er gert með tilliti til ólíkra tekju- og hagræðingarmöguleika þeirra. Nauðsynlegt er að huga að því hvernig bregðast eigi við fækkun opinberra starfa samfara hagræðingu við sameiningu sveitarfélaga.
3. Bætt fjarskipti
Meginhugmynd Nútíminn gerir kröfu um aðgengi að góðum og öruggum fjarskiptum hvar og hvenær sem er. Góð fjarskipti eru þannig mikilvægur þáttur í rekstrarumhverfi fyrirtækja á landsbyggðinni, þau draga úr neikvæðum áhrifum fjarlægðar og geta þannig ráðið miklu um samkeppnishæfni fyrirtækjanna. Mishár kostnaður við gagnaflutninga skekkir verulega samkeppnisstöðu fyrirtækja og stofnana eftir staðsetningu þeirra. Greið og traust fjarskipti eru jafnframt forsenda þess að fólk geti notið þeirra lífsgæða sem nútíminn gerir kröfu um og eru mikilvæg fyrir öryggi borgaranna.
Unnið verður áfram að því að tryggja fjarskipti og bæta gagnaflutningsmöguleika á landsbyggðinni í samræmi við fjarskiptaáætlun og stuðlað að því að jafnaður verði mismunur á kostnaði við flutningana.
Ábyrgð á framkvæmd Samgönguráðuneyti.
Aðrir þátttakendur Fjarskiptasjóður, fjarskiptafyrirtæki.
Tímaáætlun 2006–2009.
Annað Alþingi hefur samþykkt fjarskiptaáætlun fyrir árin 2005–2010. Í henni er gert ráð fyrir að allir landsmenn eigi að geta tengst háhraðaneti árið 2007 og aukið verði aðgengi að GSM-farsímaþjónustu á hringveginum, helstu stofnvegum, ferðamannastöðum og minni þéttbýlisstöðum árið 2006. Sama ár á háhraðafarþjónusta að standa til boða um allt land. Jafnframt kemur fram að langdrægt farsímakerfi sem þjóni landinu öllu og miðunum eigi að standa til boða eftir að rekstri NMT-kerfisins lýkur. Í fjarskiptaáætlun er einnig stefnt að því að allir landsmenn hafi aðgang að gagnvirku stafrænu sjónvarpi og gert er ráð fyrir að útvarpað verði stafrænt um gervihnött um allt land og næstu mið. Þá er eitt markmiða áætlunarinnar að stuðla að því að jafna verð á fjarskiptaþjónustu um land allt.
4. Gerð og framkvæmd vaxtarsamninga.
Meginhugmynd Með vaxtarsamningum skuldbinda opinberir aðilar og einkaaðilar sig til þess að vinna saman að uppbyggingu atvinnulífs á tilteknu svæði með það að markmiði að efla samkeppnishæfni og stuðla að auknum hagvexti. Vaxtarsamningar færa ábyrgð á framkvæmdum á sviði byggðamála til hagsmunaaðila í héraði. Byggt er á styrk hvers svæðis og unnið að því að þróa og styrkja vaxtargreinar og efla svæðisbundna þekkingu með uppbyggingu klasa og tengslaneta. Þegar hafa verið gerðir vaxtarsamningar um Eyjafjarðarsvæðið og Vestfirði og unnið er að gerð vaxtarsamnings fyrir Suðurland með áherslu á Vestmannaeyjar og samnings fyrir Austurland þar sem skal tekið tilliti til svæða á jaðri landshlutans, svo sem Hafnar í Hornafirði. Þá hefur verið ákveðið að ráðast í gerð vaxtarsamninga fyrir Norðvesturland og Vesturland.
Unnið verður að gerð og framkvæmd svæðisbundinna vaxtarsamninga, þar sem opinberir aðilar og einkaaðilar sameinast um aðgerðir til að efla samkeppnishæfni svæða og auka hagvöxt. Árangur af samningunum verður metinn reglulega.
Ábyrgð á framkvæmd Byggðastofnun og Iðntæknistofnun.
Aðrir þátttakendur Iðnaðarráðuneyti, önnur ráðuneyti, atvinnuþróunarfélög, sveitarfélög, Impra – nýsköpunarmiðstöð, skólastofnanir, Útflutningsráð Íslands, stéttarfélög, einkaaðilar o.fl.
Tímaáætlun 2006–2009.
Annað Mikilvægt er vaxtarsamningar séu vel kynntir og staða þeirra skýr. Vaxtarsamningar hafa verið gerðir með góðum árangri víða um heim. Vaxtarsamningur um Oulu- svæðið í Finnlandi hefur verið hafður til fyrirmyndar hér á landi, en þar náðist framúrskarandi árangur.
5. Söfnun og úrvinnsla tölfræðilegra gagna um byggðaþróun.
Meginhugmynd Mikilvægt er að tölfræðileg gögn um byggðaþróun séu ávallt tiltæk, enda eru slík gögn grundvallaratriði við stefnumótun og ákvörðunartöku. Mikils af þeim grunnupplýsingum sem þörf er á er þegar aflað hjá ýmsum opinberum aðilum en nokkuð hefur vantað upp á að gögnum sem snúa að byggðaþróun sé markvisst safnað, unnið úr þeim og þau birt með reglubundnum hætti. Upplýsingar um íbúaþróun, atvinnuþátttöku, tekjuþróun, afkomu atvinnugreina, nýsköpun og áhrif þessara þátta á hagkerfi og samfélag þurfa að vera aðgengilegar. Gögnin þurfa að vera samhæfð við alþjóðlegar samanburðarrannsóknir, bæði varðandi val grunnupplýsinga og framsetningu þeirra eftir úrvinnslu. Auk stöðugrar gagnaöflunar og miðlunar tölfræðilegra upplýsinga um byggðamál þarf að vera unnt að vinna sértækar greiningar með stuttum fyrirvara, t.d. þar sem búist er við breytingum, jafnt vegna nýrra sóknarfæra í atvinnulífi og aðsteðjandi vanda. Þannig er Byggðastofnun betur í stakk búin til að bregðast við nýjum aðstæðum og ráðleggja að eigin frumkvæði um viðbrögð ef á þarf að halda.
Á árinu 2006 verður skipulögð markviss söfnun og úrvinnsla tölfræðilegra gagna um byggðaþróun svo reglubundin söfnun og úrvinnsla geti hafist hjá Byggðastofnun í upphafi árs 2007.
Ábyrgð á framkvæmd Byggðastofnun.
Aðrir þátttakendur Iðnaðarráðuneyti, Hagstofa Íslands, Ríkisskattstjóri, Rannís, Ferðamálaráð, Bændasamtökin, Fiskistofa, Samband íslenskra sveitarfélaga, rannsóknastofnanir, háskólar o.fl.
Tímaáætlun 2006–2009.
Annað Samstarf þeirra sem safna tölfræðilegum upplýsingum er mikilvægt og til hagsbóta fyrir alla. Gæta þarf að því að ekki verði um tvíverknað að ræða við öflun grunnupplýsinga.
6. Undirbúningur að gerð landshlutaáætlana.
Meginhugmynd Mikilvægt er að víðtæk samstaða og samkennd ríki innan landshluta ef efla á samkeppnishæfni þeirra. Þannig skiptir máli að sveitarfélög innan landshluta beri sameiginlega ábyrgð á þróun hans alls en standi ekki í harðri samkeppni innbyrðis. Innan Evrópusambandsins er unnið skipulag fyrir stór landssvæði sem kallað er „Spatial Planning & Development“, þar sem mynduð er sameiginleg framtíðarsýn og stefnumótun svæða um sjálfbæra þróun efnahags, samfélags og náttúrufars. Íslendingar taka nú þátt í verkefni Norðurslóðaáætlunar Evrópusambandsins, um gerð svæðisáætlana á norðlægum slóðum (Spatial Planning in Northern Peripheral Regions) . Markmiðið með verkefninu er að reyna og kanna þessa skipulagsaðferð við okkar aðstæður. Verkefnislok eru áætluð snemma árs 2008.
Unnið verður með niðurstöður NPP-verkefnis um gerð svæðisáætlana á norðlægum slóðum og kannaðir kostir þess að gera landshlutaáætlanir á þeim grunni, sem saman mundu ná yfir Ísland allt.
Ábyrgð á framkvæmd Byggðastofnun.
Aðrir þátttakendur Skipulagsstofnun, ráðuneyti, einkum umhverfisráðuneyti, sveitarfélög og atvinnuþróunarfélög.
Tímaáætlun 2008–2009.
Annað Samhæfa þarf gerð landshlutaáætlana annarri opinberri áætlanagerð, svo sem samgönguáætlun, byggðaáætlun, fjarskiptaáætlun, ferðamálaáætlun o.s.frv.
7. Athugun á stöðu byggðarlaga sem búa við viðvarandi fólksfækkun.
Meginhugmynd Þótt víða hafi tekist að snúa vörn í sókn í byggðamálum hefur ýmsum byggðarlögum á landsbyggðinni reynst erfitt að glíma við fólksfækkun, sem sums staðar hefur verið viðvarandi um nokkurt skeið. Staðan hefur verið einna erfiðust hjá byggðarlögum sem liggja það fjarri þéttbýliskjörnum að ekki er hagkvæmt að sækja vinnu þangað og erfitt er um vik að njóta þeirrar þjónustu sem þar er í boði. Þrátt fyrir að efling landshlutakjarna styrki byggðina umhverfis, dugir hún ekki ein og sér fyrir þá sem fjærst búa. Því er mikilvægt að hugað verði sérstaklega að þessum byggðarlögum.
Gerð verður athugun á stöðu byggðarlaga sem glímt hafa við viðvarandi fólksfækkun. Styrkleikar þeirra og veikleikar verða metnir og greindir möguleikar til eflingar byggðarlaganna.
Ábyrgð á framkvæmd Byggðastofnun.
Aðrir þátttakendur Sveitarfélög, ráðuneyti o.fl., svo sem atvinnuþróunarfélög og Impra – nýsköpunarmiðstöð.
Tímaáætlun 2006–2007.
8. Styrking atvinnuþróunar.
Meginhugmynd Atvinnuþróunarfélögin eru hornsteinar svæðisbundinnar nýsköpunar atvinnulífsins, enda skiptir miklu að heimamenn gegni sem víðast forystuhlutverki í atvinnuþróun. Þeir hafa víðtæka þekkingu á umhverfi sínu og mesta möguleika til þess að stuðla að því að árangur starfsins varðveitist heima í héraði. Impra – nýsköpunarmiðstöð á Akureyri, sem stofnuð var 2002, er mikilvæg viðbót og bakhjarl við þá atvinnuþróunarstarfsemi sem Byggðastofnun og atvinnuþróunarfélög hafa staðið fyrir á landsbyggðinni. Tilgangur nýsköpunarmiðstöðvarinnar er að efla nýsköpun í atvinnulífi landsbyggðarinnar og hafa frumkvæði að þróun viðskiptahugmynda. Miðstöðin þjónar öllum atvinnugreinum og starfsemi hennar byggir á faglegri þekkingu um rekstur, markaðsmál og tækniþróun. Samstarf framangreindra aðila að atvinnuþróun er enn í mótun og mikilvægt er að það verði samhæft frekar til þess að sem bestur árangur náist.
Stoðkerfi atvinnuþróunar og nýsköpunar á landsbyggðinni verður samhæft og starfið gert markvissara. Nýsköpunarmiðstöðinni á Akureyri og atvinnuþróunarfélögum verður áfram tryggður öruggur starfsgrundvöllur.
Ábyrgð á framkvæmd Iðnaðarráðuneyti.
Aðrir þátttakendur Byggðastofnun, atvinnuþróunarfélög, Impra – nýsköpunarmiðstöð, Iðntæknistofnun, Vísinda- og tækniráð.
Tímaáætlun 2006–2009.
Annað Stuðningur við atvinnulífið er dreifður þótt nokkuð hafi áunnist í samhæfingu á síðustu missirum. Í lögum um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins, nr. 4/2003, er nýsköpunarmiðstöð falið að eiga frumkvæði að samstarfi þeirra opinberu aðila sem mynda stoðkerfi nýsköpunar fyrir atvinnulífið.
9. Efling rannsókna, tækniþróunar og nýsköpunar.
Meginhugmynd Efling rannsókna, tækniþróunar og nýsköpunar sem byggist á sérkennum lands og þjóðar er líkleg til árangurs og verðmætasköpunar á landsbyggðinni. Nefna má líftækni á grunni sjávarútvegs og landbúnaðar, margvíslegar rannsóknir á sviði fiskeldis, veiðarfæra, matvæla og svæðisbundinna hafrannsókna, nýjungar við meiri og fjölbreyttari nýtingu skógarafurða en þekkst hefur hér á landi, skapandi sóknarfæri á sviði orkumála, m.a. við nýtingu minni vatnsfalla og lághitasvæða í eigu bænda, og þróun menningartengdrar ferðaþjónustu. Mikilvægt er að rannsóknir og tækniþróun á fræðasviðum sem sérstaklega eru til þess fallin að styrkja nýsköpun í atvinnulífi fái varanlega fótfestu.
Árið 2006 verður gerð áætlun um víðtæka eflingu rannsókna, tækniþróunar og nýsköpunar á landsbyggðinni, m.a. á sviði orkumála, sjávarútvegs, ferðaþjónustu og landbúnaðar. Í áætluninni verða skilgreind áherslusvið og fyrirkomulag samstarfs mótað. Samstarfið verður rekið sem þróunarverkefni út gildistíma byggðaáætlunarinnar.
Ábyrgð á framkvæmd Iðnaðarráðuneyti.
Aðrir þátttakendur Önnur ráðuneyti, Vísinda- og tækniráð, háskólar, rannsóknastofnanir, atvinnuþróunarfélög, Impra – nýsköpunarmiðstöð, Rannsóknamiðstöð Íslands, þekkingarsetur, fræðasetur, náttúrustofur o.fl.
Tímaáætlun 2006–2009.
Annað Á síðustu árum hefur skilningur á mikilvægi rannsókna og þróunarstarfsemi í tengslum við starfsemi háskóla utan Reykjavíkur aukist. Efling þessara háskóla er ein af forsendum fyrir styrkingu byggðar og rannsóknir innan vébanda þeirra forsenda eflingar skólanna.
10. Uppbygging þekkingarsetra/háskólasetra.
Meginhugmynd Vorið 2005 var Háskólasetur Vestfjarða ses. stofnað á Ísafirði, en tilgangur þess er að stuðla að fjölbreyttri uppbyggingu háskólamenntunar og rannsókna- og þekkingarstarfs á Vestfjörðum, vera samstarfsvettvangur fyrir aðila er vinna að verkefnum á sviði rannsókna, háskóla- og símenntunar, fjölþjóðlegra samstarfsverkefna, nýsköpunar og byggða- og atvinnuþróunar. Slíkt nábýli og tengsl menntunar, opinberra rannsókna og atvinnulífs nýtir betur mannauð og fjárfestingar og stuðlar að bættum árangri og traustari búsetuskilyrðum: auknu framboði háskólanáms, öflugra rannsókna- og þekkingarstarfi, aukinni nýsköpun og markvissari atvinnuþróun. Til þess að sem bestur árangur náist er mikilvægt að þekkingarsetur/háskólasetur byggist á sérkennum og styrk þess landshluta sem þau eru staðsett í. Menntamálaráðherra hefur skipað starfshóp til undirbúnings þekkingarseturs á Austurlandi, sem byggist á þessari hugmyndafræði. Þá hefur Þekkingarsetur Þingeyinga verið starfrækt á Húsavík í á þriðja ár, en það er háskólanáms- og rannsóknastofnun með Þingeyjarsýslur sem starfssvæði. Auk þess eru starfandi þekkingar- og fræðasetur víða um land.
Áfram verður unnið að uppbyggingu þekkingarsetra/háskólasetra á landsbyggðinni.
Ábyrgð á framkvæmd Menntamálaráðuneyti.
Aðrir þátttakendur Önnur ráðuneyti, háskólar, háskóla- og þekkingarsetur, rannsóknastofnanir, Impra – nýsköpunarmiðstöð, fræðasetur, frumkvöðlasetur, ýmsir opinberir atvinnuráðgjafar, náttúrustofur o.fl.
Tímaáætlun 2006–2009.
Annað Vísinda- og tækniráð lýsti í ályktun sinni 17. desember 2004 yfir stuðningi við hugmyndir um þekkingarsetur á landsbyggðinni. Í ályktun Vísinda- og tækniráðs frá 2. júní sl. er einnig fjallað um þekkingarsetur. Þar segir: „Vísinda- og tækniráð fagnar stofnun Háskólaseturs Vestfjarða ses. og þeirri breiðu samvinnu sem tekist hefur um starfsemi þess. Ráðið leggur áherslu á mikilvægi þessa þekkingarseturs sem gæti orðið fyrirmynd annars staðar á landinu með sameiginlegu átaki ráðuneyta og stofnana þeirra í félagi við heimamenn.“ Eðlilegt er að hugsa sér að þekkingarsetur/háskólasetur á landsbyggðinni hafi þegar fram í sækir öflugan bakhjarl í hliðstæðri starfsemi á höfuðborgarsvæðinu, en Vísinda- og tækniráð hefur lagt áherslu á þá möguleika til nýrrar sóknar sem felast í sameiningu opinberra rannsóknastofnana á höfuðborgarsvæðinu og nábýli þeirra við háskóla og þekkingarfyrirtæki.
11. Efling dreifmenntunar á öllum skólastigum.
Meginhugmynd Efling atvinnulífs og varanleg styrking búsetu byggist að verulegu leyti á því að fólki gefist sem lengst kostur á að stunda fjölbreytt nám í heimabyggð, hvort tveggja bók- og verknám. Aukið framboð náms á öllum skólastigum á landsbyggðinni stuðlar að því að fleiri sæki sér menntun, dregur að sér fólk og eykur líkur á því að það staldri við en flytjist ekki til höfuðborgarsvæðisins. Nám í heimabyggð stuðlar einnig að því að staðbundin þekking og menning varðveitist og verði uppspretta nýrra atvinnuhátta. Með dreifmenntun, þar sem aðferðum fjarkennslu og staðbundinnar kennslu er beitt saman, skapast möguleikar á að koma á samstarfi skóla um námsframboð, stuðla að auknum gæðum og auka námsmöguleika einstaklinga.
Kostir dreifmenntunar verða nýttir til að veita fjölbreytt námsframboð á öllum skólastigum með samstarfi skóla. M.a. verður stuðlað að samstarfi háskóla um fjarkennslu. Skilgreind verða ákveðin marksvið í starfsmenntun á landsbyggðinni og unnið að eflingu á þeim í samstarfi framhaldsskóla, fyrirtækja og móðurskóla í starfsmenntun.
Ábyrgð á framkvæmd Menntamálaráðuneyti.
Aðrir þátttakendur Skólastofnanir, önnur ráðuneyti.
Tímaáætlun 2006–2009.
Annað Varðandi starfsmenntun er mikilvægt að huga að samstarfi framhaldsskóla og símenntunarmiðstöðva (sbr. aðgerð 12). Með dreifmenntun gefst ekki aðeins kostur á að auka námsframboð á landsbyggðinni heldur veitir hún einnig tækifæri á að breiða út þekkingu fólks á landsbyggðinni.
12. Efling símenntunar.
Meginhugmynd Símenntun eflir og styrkir atvinnulíf og samfélag og stuðlar þannig að bættum búsetuskilyrðum. Símenntunarmiðstöðvar á landsbyggðinni færa menntunarmöguleika nær íbúum þar og stuðla að hækkun menntunarstigs. Hlutverk miðstöðvanna er m.a. að efla símenntun í atvinnulífinu, sjá til þess að allir íbúar eigi kost á námi við hæfi, ná til fólks með stutta skólagöngu og vera virk upplýsingaveita um námsmöguleika fullorðinna. Námsframboð símenntunarmiðstöðvanna tekur mið af stöðu menntunar og atvinnulífi á hverjum stað. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur í auknum mæli stutt við þróun námsframboðs í símenntun og viðurkenningu þess í tengslum við atvinnulíf.
Framboð á símenntun á landsbyggðinni verður aukið í samstarfi símenntunarmiðstöðva og Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins. Jafnframt verður stuðlað að samstarfi símenntunarmiðstöðva og framhaldsskóla um starfsmenntun fyrir fullorðna.
Ábyrgð á framkvæmd Menntamálaráðuneyti.
Aðrir þátttakendur Skólastofnanir, símenntunarmiðstöðvar, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, Starfsfræðslunefnd fiskvinnslunnar, fyrirtæki o.fl.
Tímaáætlun 2006–2009.
13. Efling menningarstarfsemi.
Meginhugmynd Öflug menningarstarfsemi, þar með talið íþrótta- og æskulýðsstarf, er mikilvæg forsenda þess að mannlíf dafni á landsbyggðinni. Góður árangur hefur náðst með gerð menningarsamninga við sveitarfélög á landsbyggðinni, en þannig hefur fengist samstaða um uppbyggingu menningarstarfsemi og menningartengdrar ferðaþjónustu á tilteknum landssvæðum. Gildi menningarhúsa á landsbyggðinni er jafnframt ótvírætt, en ríkisstjórnin ákvað í janúar 1999 að taka þátt í að reisa menningarhús á fimm stöðum á landsbyggðinni: Ísafirði, Skagafirði, Akureyri, Austurlandi og Vestmannaeyjum. Þá er aukið samstarf safna á landsbyggðinni innbyrðis og við höfuðsöfn mikilvægt til að auka samlegð og bæta þjónustu. Mikilvægt er að nýta fjölbreyttar leiðir til þess að miðla menningararfi þjóðarinnar en þar getur upplýsingatækni leikið þýðingarmikið hlutverk. Þannig má jafnframt auka framboð fjölmiðlaefnis af landsbyggðinni.
Áfram verður unnið að gerð menningarsamninga við sveitarfélög. Stuðlað verður að auknu samstarfi safna á landsbyggðinni innbyrðis og við höfuðsöfn. Skoðaðir verða möguleikar þess að nýta nýja tækni, m.a. stafrænt sjónvarp, við gerð og miðlun menningar- og sjónvarpsefnis af landsbyggðinni. Unnið verður að eflingu íþrótta- og æskulýðsstarfs á landsbyggðinni.
Ábyrgð á framkvæmd Menntamálaráðuneyti.
Aðrir þátttakendur Samgönguráðuneyti, iðnaðarráðuneyti, önnur ráðuneyti, sveitarfélög, landshlutasamtök sveitarfélaga, menningarstofnanir, söfn, æskulýðs- og íþróttafélög.
Tímaáætlun 2006–2009.
14. Hagnýting upplýsingatækni.
Meginhugmynd Ljóst er að þróun búsetu og atvinnulífs á landsbyggðinni ræðst m.a. af því hvernig til tekst við hagnýtingu upplýsingatækni. Á grunni byggðaáætlunar fyrir árin 2002–2005 voru tvö byggðarlög valin til að reka tilraunaverkefni um svokallað „rafrænt samfélag“. Þetta eru annars vegar sveitarfélögin Árborg, Hveragerði og Ölfus og hins vegar sveitarfélögin Aðaldælahreppur, Húsavíkurbær og Þingeyjasveit. Markmiðið með tilraunaverkefninu, sem stendur fram á árið 2006, var að treysta stöðu upplýsingasamfélagsins á landsbyggðinni; að styrkja samfélagsgerð þar, m.a. með því að auka nýsköpun í atvinnulífi og bæta afkomu íbúanna, auka menntun og menningarstarfsemi, bæta heilsugæslu og félagslegar aðstæður og efla lýðræðið.
Unnið verður að því að gera afrakstur tilraunaverkefnisins um rafrænt samfélag aðgengilegan fyrir önnur byggðarlög á landsbyggðinni.
Ábyrgð á framkvæmd Byggðastofnun.
Aðrir þátttakendur Iðnaðarráðuneyti, samgönguráðuneyti, sveitarfélög og önnur ráðuneyti.
Tímaáætlun 2007–2009.
Annað Unnið verður að hagnýtingu upplýsingatækni í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið 2004–2007.
15. Bætt heilbrigðisþjónusta.
Meginhugmynd Greiður aðgangur að öflugri heilbrigðisþjónustu er mikilvægur þáttur í mati á búsetuskilyrðum. Nefnd skipuð af heilbrigðisráðherra kannar hvaða verkefni á sviði heilbrigðisþjónustu og þjónustu við aldraða sé mögulegt og æskilegt að flytja frá ríki til sveitarfélaga. Tilgangurinn með starfi nefndarinnar er m.a. að bæta þessa þjónustu á landsbyggðinni. Í inngangsorðum áfangaskýrslu nefndarinnar frá því í nóvember 2004 segir m.a.: „Staðbundnar aðstæður kalla vafalaust á mismunandi lausnir og útfærslu og mögulegt er að heilbrigðisþjónustan gæti orðið bæði sveigjanlegri og öflugri undir stjórn þeirra sem eru öllum hnútum kunnugir á sveitarstjórnarstiginu.“ Þá hefur verið unnið að heilbrigðisneti, sem getur bætt þjónustu við landsbyggðina verulega. Netið tengir m.a. saman heilbrigðisstofnanir og gerir fjarlækningar mögulegar. Uppbygging fjarlækninga gefur nýja möguleika á að nýta krafta sérhæfðs heilbrigðisstarfsfólks um land allt.
Unnið verður að bættri heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni, m.a. með flutningi verkefna á sviði heilbrigðismála frá ríki til sveitarfélaga. Heilbrigðisnet verður þróað áfram og tekið í fulla notkun.
Ábyrgð á framkvæmd Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti.
Aðrir þátttakendur Sveitarstjórnir, heilbrigðisstofnanir og öldrunarstofnanir.
Tímaáætlun 2006–2009.
Annað Í fjarlækningum er nútímafjarskiptatækni nýtt til þess að sérfræðingar á hátæknisjúkrahúsunum geti veiti sjúklingum og læknum læknisfræðilega ráðgjöf án þess að sjúklingar eða sérfræðingar þurfi að leggjast í löng ferðalög. Unnið verður að heilbrigðisneti í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið 2004–2007.
16. Efling þjónustu við innflytjendur og aukin fjölmenning.
Meginhugmynd Erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað umtalsvert á Íslandi á undanförnum árum, ekki síst á landsbyggðinni. Til að tryggja gagnkvæma aðlögun innfæddra og innflytjenda er nauðsynlegt að koma á skipulegu samstarfi milli þeirra sem geta sameiginlega tryggt að hún verði farsæl. Í því skyni hefur félagsmálaráðherra ákveðið að stofnað verði innflytjendaráð með þátttöku fulltrúa þeirra ráðuneyta sem mest koma að þessum málum auk fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga og innflytjenda. Reknar eru þrjár þjónustumiðstöðvar fyrir innflytjendur. Félagsmálaráðuneytið rekur Fjölmenningarsetur á Ísafirði sem gegnir veigamiklu hlutverki á landsvísu við aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi. Á meðal mikilvægra verkefna setursins er könnun um viðhorf og aðstæður innflytjenda utan EES-svæðisins, en þegar er búið að afla upplýsinga frá Vestfjörðum og Austurlandi og mun könnunin halda áfram á árinu 2006. Þá rekur Akureyrabær Alþjóðastofu sem veitir upplýsingar og ráðgjöf um málefni innflytjenda og Alþjóðahúsið í Reykjavík, sem er samstarfsverkefni nokkurra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, veitir innflytjendum margþættar upplýsingar og er vettvangur fjölmenningarlegra samskipta. Gera má ráð fyrir að stofnun fleiri þjónustumiðstöðva í öðrum landshlutum tryggi betur en nú er gert farsæla aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi.
Unnið verður markvisst að gagnkvæmri samfélagsaðlögun innflytjenda. Kannað verður að frumkvæði heimamanna í hverjum landshluta hvort kostur sé á að stofna þjónustumiðstöðvar fyrir innflytjendur.
Ábyrgð á framkvæmd Félagsmálaráðuneyti.
Aðrir þátttakendur Innflytjendaráð, iðnaðarráðuneyti, menntamálaráðuneyti, dómsmálaráðuneyti, Fjölmenningarsetur, Alþjóðahús, Alþjóðastofa, Samband íslenskra sveitarfélaga, landshlutasamtök sveitarfélaganna, aðilar vinnumarkaðarins, samtök innflytjenda, Rauði kross Íslands, skólar o.fl.
Tímaáætlun 2006–2009.
Annað Erlendir ríkisborgarar voru u.þ.b. 5 þúsund á Íslandi árið 1996, en 10.636 árið 2004, sem er fjölgun úr 1,5% af heildarmannfjöldanum í 3,5%. Verkefni innflytjendaráðs verða margþætt, m.a. að sjá um gerð þjónustusamninga um ákveðin verkefni sem lúta að bættum hag innflytjenda, vinnsla og útgáfa upplýsingaefnis, miðlun upplýsinga og aðstoð og ráðgjöf við sveitarfélögin. Innflytjendaráði verður ætlað að kynna sveitarfélögunum markvisst þarfir og aðstæður innflytjenda auk þess að gera tillögur um hlutverk þeirra við aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi. Áhersla verður lögð á heildræna þjónustu við fjölskyldur og sveitarfélögin hvött til að tryggja að innflytjendum verð kynnt réttindi sín og skyldur í samfélaginu, sbr. niðurstöður í skýrslu nefndar um aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi (félagsmálaráðuneytið 2005).
17. Greining sóknarfæra hefðbundinna atvinnugreina – efling opinberrar þjónustu.
Meginhugmynd Aukin framleiðni í frumvinnslu innan hinna hefðbundnu atvinnugreina, sjávarútvegs, landbúnaðar og iðnaðar, hefur m.a. leitt til fækkunar starfa á landsbyggðinni. Flest bendir til þess að þróunin muni verða í þá átt að þörf fyrir starfskrafta í frumvinnslu muni enn dragast saman. Þessi þróun hefur komið nokkuð hart niður á landsbyggðinni, sem víða hefur byggt atvinnulíf sitt að stórum hluta á þessari starfsemi. Því má hins vegar ekki gleyma að breyttar aðstæður geta haft í för með sér tækifæri fyrir hinar hefðbundnu atvinnugreinar að sækja fram á nýjum sviðum. Mikilvægt er að meta hver staða hinna hefðbundnu atvinnugreina er á landsbyggðinni og leita leiða til viðbragða. Jafnframt er mikilvægt að opinber þjónusta við atvinnugreinarnar sé öflug þar sem þær eru helst stundaðar.
Gerð verður úttekt á stöðu landbúnaðar, sjávarútvegs og iðnaðar á landsbyggðinni og greind helstu sóknarfæri og nýsköpunarmöguleikar þessara hefðbundnu atvinnugreina. Hugað verður að því hvort efla megi opinbera þjónustu við þessar atvinnugreinar á landsbyggðinni, t.d. með flutningi tiltekinna verkefna.
Ábyrgð á framkvæmd Sjávarútvegsráðuneyti, landbúnaðarráðuneyti og iðnaðarráðuneyti.
Aðrir þátttakendur Byggðastofnun o.fl.
Tímaáætlun 2006–2007.
18. Uppbygging ferðaþjónustu.
Meginhugmynd Vöxtur ferðaþjónustu á Íslandi er ör og gildi atvinnugreinarinnar fyrir landsbyggðina ótvírætt. Á grundvelli byggðaáætlunar fyrir árin 2002–2005 hefur verið ráðist í sérstök verkefni til eflingar ferðaþjónustu á landsbyggðinni, m.a. uppbyggingu upplýsingamiðstöðva á lykilstöðum á landinu, menningartengda ferðaþjónustu og þátttöku í vottunarkerfum. Mikilvægt er að nýta sóknarfæri ferðaþjónustunnar og vinna áfram að markvissri uppbyggingu greinarinnar með það að markmiði að tryggja sjálfbæra þróun hennar, bæta arðsemi og auka samkeppnishæfni einstakra svæða. Jafnframt er mikilvægt að byggja upp aðstöðu á fjölsóttum ferðamannastöðum til þess að minnka álag á náttúru landsins.
Unnið verður að öflugri uppbyggingu ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Áhersla verður lögð á sérkenni hvers landshluta og skipulagningu vaxtarsvæða. Þá verður unnið að því að bæta aðstöðu ferðamanna í þjóðgörðum og tryggja öruggt aðgengi þeirra.
Ábyrgð á framkvæmd Samgönguráðuneyti og umhverfisráðuneyti.
Aðrir þátttakendur Önnur ráðuneyti, fyrirtæki í ferðaþjónustu, upplýsingamiðstöðvar ferðamanna, Ferðamálaráð, Samtök ferðaþjónustunnar, Umhverfisstofnun, markaðsskrifstofur, sveitarfélög, atvinnuþróunarfélög o.fl.
Tímaáætlun 2006–2009.
Annað Unnið verður að uppbyggingu ferðaþjónustu í samræmi við ferðamálaáætlun fyrir árin 2006–2015, en með henni er stefnt að eftirfarandi meginmarkmiðum: 1. Náttúra Íslands, sterk byggð, menning þjóðarinnar og fagmennska verði ráðandi þættir í þróun íslenskra ferðamála. 2. Tryggð verði samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar sem stuðli að hámarksafrakstri í greininni. 3. Álagi vegna ferðaþjónustu verði jafnað á landið og íbúa þess og verði innan þolmarka í samræmi við niðurstöður rannsókna. 4. Ímynd Íslands sem ferðamannastaðar verði byggð upp og varin.
19. Stuðningur við atvinnurekstur kvenna.
Meginhugmynd Breytingar í atvinnuháttum og atvinnulífi með fækkun starfa í frumvinnslugreinum hafa einkum komið niður á atvinnumöguleikum kvenna á landsbyggðinni. Þá hafa kannanir ítrekað sýnt að mjög hallar á konur í frumkvöðlastarfi og fyrirtækjarekstri. Ein af ástæðunum fyrir því hefur verið talin sú að konur eigi af ýmsum ástæðum ekki eins greiðan aðgang að stoðkerfi atvinnulífsins og karlar. Iðnaðarráðuneyti fól Byggðastofnun í apríl 2005 að vinna úttekt á því hvaða árangur hefði náðst undanfarin ár af verkefnum sem hafa haft það að markmiði að örva frumkvæði kvenna í atvinnurekstri. Markmiðið er að niðurstöðurnar geti orðið grundvöllur að frekari aðgerðum til að efla þátt kvenna í atvinnurekstri. Mikilvægt er að aðgerðum til stuðnings atvinnureksturs kvenna á landsbyggðinni sé fylgt eftir heima fyrir svo árangur skili sér.
Unnið verður að því að efla þátt kvenna í atvinnurekstri með ráðgjöf og námskeiðum. Hugað verður að leiðum til þess að gera stoðkerfi atvinnulífsins aðgengilegra fyrir konur.
Ábyrgð á framkvæmd Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.
Aðrir þátttakendur Byggðastofnun, félagsmálaráðuneyti, Jafnréttisstofa, atvinnuþróunarfélög, skólastofnanir, Iðntæknistofnun, Impra – nýsköpunarmiðstöð o.fl.
Tímaáætlun 2006–2009.
Annað Í GEM, alþjóðlegri rannsókn á frumkvöðlastarfsemi, kemur fram að árin 2002, 2003 og 2004 töldust íslenskir karlmenn tvöfalt líklegri til að stofna fyrirtæki en konur og tölur um nýskráningu fyrirtækja sýna að árin 2003 og 2004 stofnuðu karlar 80% nýrra fyrirtækja og konur 20%. Tölur fyrirtækjaskrár Hagstofunnar sýna einnig að konur reka aðeins um 20% fyrirtækja á Íslandi. Frá 1993 til 2003 hefur fyrirtækjum kvenna aðeins fjölgað um 5%. Það er mun minni fjölgun en í Bandaríkjunum, en þar fjölgaði fyrirtækjum í eigu kvenna um 16% frá 1992–1997, og annars staðar á Norðurlöndunum fjölgaði þeim um 9–14%. Niðurstöður fjölþjóðlegrar könnunar um stöðu kvenna í atvinnurekstri, sem Byggðastofnun, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti og Bændasamtök Íslands tóku þátt í og birtar voru í mars 2005, benda til þess að kraftar kvenna til nýsköpunar og eflingar atvinnulífsins nýtist ekki eins og þeir ættu og gætu gert ef þeir væru nýttir til jafns við krafta karla.
20. Styrking skapandi greina.
Meginhugmynd Vöxtur atvinnulífsins hefur verið hraður innan skapandi greina, þar sem háþróuð tæknikunnátta og sérhæfð vísindaþekking fléttast margvíslegri lista- og menningarstarfsemi. Til skapandi greina teljast m.a. listsköpun, hönnun, fjölmiðlun, tölvunarfræði, verkfræði, tæknifræði, húsagerðarlist, kennsla, útgáfur, sýningarhald, stjórnun og starfsemi tengd listviðburðum. Að undanförnu hefur athygli beinst að efnahagslegu mikilvægi þessara greina og því hefur verið spáð að þær muni valda miklu um efnahagsþróun og atvinnu á komandi árum. Á þessu sviði hefur orðið mikil nýsköpun hér landi og frammistaða einstakra listamanna hefur skilað mikilvægri kynningu, efnahagslegum ávinningi, góðum fyrirmyndum og auknu sjálfstrausti. Í öflugri stöðu skapandi greina felast tækifæri til að bæta samkeppnisstöðu Íslands með virkri þátttöku landsbyggðarinnar, en þar er blómleg skapandi starfsemi og varðveitt mörg sérkenni þjóðarinnar sem títt eru uppsprettur framsækinnar sköpunar.
Unnið verður að eflingu skapandi greina í takt við ályktun Vísinda- og tækniráðs frá 2. júní 2005 með virkri þátttöku landsbyggðarinnar.
Ábyrgð á framkvæmd Menntamálaráðuneyti og iðnaðarráðuneyti.
Aðrir þátttakendur Vísinda- og tækniráð, samstarfsvettvangur um hönnun, tónlistarsjóður, Kvikmyndamiðstöð Íslands, Iðntæknistofnun, Impra – nýsköpunarmiðstöð o.m.fl.
Tímaáætlun 2006–2009.
Annað Í ályktun Vísinda og tækniráðs frá 2. júní 2005 segir um skapandi greinar: „Er því beint til menntamálaráðherra og iðnaðarráðherra að ýta undir frumkvæði og framþróun á þessu sviði og minna á gildi samspils milli lista og nýsköpunar á grunni vísinda- og tækniþekkingar.“
21. Efling umhverfisstarfs í sveitarfélögum.
Meginhugmynd Sjálfbær þróun miðar að því að samþætta efnahagsleg félagsleg og umhverfisleg sjónarmið. Með framkvæmd Staðardagskrár 21 geta sveitarfélög um land allt náð margvíslegum árangri. Helst ber að nefna beinan fjárhagslegan ávinning í bættum rekstri og stjórnun sveitarfélagsins þegar til lengri tíma er litið, samfélagslegan og menningarlegan ávinning, þar sem sveitarfélög móta sér stefnu til framtíðar, skapa sér sérstöðu og leggja áherslu á jákvæða þætti samfélagsins og skynsamlegri nýtingu náttúruauðlinda og verndun sérstæðra náttúrufyrirbæra.
Umhverfisstarfsemi sveitarfélaga verður efld með áherslu á framkvæmd Staðardagskrár 21, einkum í fámennum sveitarfélögum á landsbyggðinni.
Ábyrgð á framkvæmd Umhverfisráðuneyti.
Aðrir þátttakendur Önnur ráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, sveitarfélög, verkefnið Staðardagskrá 21 o.fl.
Tímaáætlun 2006–2009.
Annað Öflugt starf fer fram undir merkjum Staðardagskrár í fjölmörgum sveitarfélögum, en þörf er á að styðja við framkvæmd hennar í smærri sveitarfélögunum, m.a. með ráðgjöf og þekkingarmiðlun.
22. Þátttaka í Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins (NPP).
Meginhugmynd Með aukinni alþjóðavæðingu verður erlent samstarf æ mikilvægara. Ísland hefur verið þátttakandi í Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins (Northern Periphery Programme) frá miðju ári 2002 en núgildandi áætlunartímabili lýkur árið 2006. Reynslan af þátttöku í áætluninni hefur verið góð, en meginmarkmið hennar er að stuðla að eflingu atvinnu- og efnahagslífs svæða og byggða með svipaðar aðstæður. Á grunni áætlunarinnar hafa verið rekin samstarfsverkefni einstaklinga, fyrirtækja og stofnana yfir landamæri. Gert er ráð fyrir að nýtt áætlunartímabil með auknu fjármagni hefjist árið 2007 og gildi til ársins 2010.
Ísland verður áfram virkur þátttakandi í Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins.
Ábyrgð á framkvæmd Byggðastofnun.
Aðrir þátttakendur Einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir.
Tímaáætlun 2006–2009.
23. Efling Norrænu Atlantsnefndarinnar (NORA).
Meginhugmynd Norræna Atlantsnefndin, NORA, er ein af stofnunum Norrænu ráðherranefndarinnar. Nefndin er samstarfsvettvangur Íslands, Færeyja, Grænlands og Noregs og hefur að markmiði að styðja atvinnu- og byggðaþróun með styrkjum, myndun tengslaneta o.fl. Ísland hefur beitt sér á norrænum vettvangi fyrir eflingu NORA og útvíkkun á starfsemi nefndarinnar til fleiri byggðasvæða við Norður-Atlantshaf: Austurstrandar Kanada, Skotlands og skosku eyjanna. Taka þarf á fjármögnun starfs nefndarinnar, en hún hefur misst hluta tekna sinna frá Lánasjóði Vestur-Norðurlanda.
Ísland mun vinna áfram að því að útvíkka starfsemi NORA og beita sér fyrir því að samstarfslöndin fjármagni starf nefndarinnar.
Ábyrgð á framkvæmd Byggðastofnun.
Aðrir þátttakendur NORA, Norðurlandaskrifstofa forsætisráðuneytis.
Tímaáætlun 2006–2009.


Verkefnisstjórn.

    Til þess að tryggja árangur af byggðaáætluninni sem best skipar iðnaðarráðherra sérstaka verkefnisstjórn sem verður falin umsjón með framvindu áætlunarinnar. Verkefnisstjórnin verður m.a. skipuð fulltrúum þeirra ráðuneyta og stofnana sem er falin ábyrgð á aðgerðum áætlunarinnar. Byggðastofnun mun halda utan um störf verkefnisstjórnarinnar og vinna að setningu mælikvarða til að leggja mat á árangur byggðaáætlunarinnar.



Fylgiskjal.


Byggðastofnun:

Ástand og horfur í þróun byggðar.
Byggðaáætlanir og byggðaaðgerðir.


Formáli.
    Markaðsvæðing vestrænna þjóðfélaga var eitt af einkennum síðustu aldar, markaðsvæðing vex enn og framleiðsla á vörum og þjónustu fyrir markað knýr þessi þjóðfélög. Markaðssvæði hafa stækkað frá því að miðast við stað, síðan land og nú má tala um einn alþjóðlegan markað. Önnur þjóðlönd en hin vestrænu eru einnig að markaðsvæðast, bætast við hið alþjóðlega markaðssvæði og alþjóðavæðingin er eitt helsta einkenni samtímans.
    Vaxandi verkaskipting, sérhæfing og landrænn aðskilnaður verkþátta hefur fylgt markaðsvæðingunni ásamt stórfelldum fólksflutningum, miklum vexti borga og fólksfækkun til sveita. Stjórnvöld hafa hvarvetna brugðist við með byggðastefnu, áætlunum og aðgerðum til mótvægis. Byggðastefna og aðgerðir hafa breyst og þróast frá stuðningi við atvinnugreinar sem hafa látið undan síga á markaði og miðast æ víðar við að aðstoða borgir, héruð og landshluta við að taka þátt í alþjóðavæðingunni og bæta og jafna samkeppnisskilyrði svæða í efnahagslegu og félagslegu tilliti. Á sama hátt hafa stoðkerfi fyrir atvinnuvegi og byggðir í þessum löndum byggst sífellt meira á menntun, nýsköpun, rannsóknum og fjölþjóðlegu samstarfi. Nýsköpun og nýbreytni, einkum á Norðurlöndum, varðar ekki einungis fyrirtæki heldur jafnvel enn frekar opinbera stjórnsýslu og þjónustu ríkis, amta eða fylkja og sveitarfélaga. Áætlanir um byggðaþróun miða að styrkari samkeppnisstöðu með því að samþætta áætlanir hinna ýmsu ráðuneyta, sveitarfélaga og atvinnugreina. Áhersla er samt á lýðræðisþróun og aðild heimamanna að ákvörðunum og sífellt meiri áhersla er lögð á uppbyggingu sem byggist á staðbundnum sérkennum, menningu og náttúru. Norðurlöndin öll og Evrópusambandið leggja mikla áherslu á sjálfbæra þróun og í Evrópusambandinu er mikil áhersla lögð á byggðaþróun, rannsóknir, undirbúning og áætlanir, mikið starf unnið og stórir sjóðir til fjárveitinga.
    Íslensk samfélagsþróun hefur um margt líkst þróun annarra markaðsvæddra samfélaga, stöðugur fólksflutningur verið til höfuðborgarsvæðisins og raunar svo mikill að íbúafjöldi þar, sem hlutfall af heildarfjölda landsmanna, á sér vart hliðstæðu. Kannski stafar þetta af því hversu fámenn íslenska þjóðin er og lítill markaður. Fámenni margra sveitarfélaga í landinu veldur því að þau eru ekki fær um að veita íbúum þá þjónustu og skapa þau búsetuskilyrði sem þeir krefjast í auknum mæli. Höfuðborgarsvæðið hefur eflst til að verða samkeppnishæft í alþjóðlegu samhengi og þróun þess hefur mikla þýðingu fyrir aðra hluta landsins, ekki aðeins að fólk geti flust þangað, heldur skilar það aftur sérmenntuðu fólki og býður sérhæfða þjónustu og störf sem annars þyrfti að sækja yfir hafið.
    Með byggðaáætlun fyrir árin 2002–2005 var mörkuð byggðastefna með svipuðum áherslum og í öðrum löndum Vestur-Evrópu, að efla byggðir til sjáfbærni með því að styrkja samkeppnisstöðu þeirra, bæta búsetuskilyrði og samgöngur, stækka markaðssvæði með styrktum byggðakjörnum og efla menningar-, mennta- og rannsóknastarf. Að auki er lögð áhersla á stoðkerfi atvinnuveganna og á alþjóðlegt samstarf um byggðamál. Byggðaáætluninni hefur verið fylgt eftir með aðgerðaáætlunum, svæðisáætlunum og vaxtarsamningum fyrir nokkur svæði, nýjum samningum við atvinnuþróunarfélög og auknu fjölþjóðlegu samstarfi um rannsóknir í byggðamálum. Rannsóknastarf í byggðamálum fer vaxandi sem og aðild Íslendinga að fjölþjóðlegu rannsóknasamstarfi. Þetta starf er mikilvæg forsenda fyrir aðgerðir og nýsköpun í byggðamálum og árangur mun skila sér á komandi árum.
    Opinber fjárstuðningur við fyrirtæki í byggðum landsins hefur aðallega byggst á lánveitingum en slík fyrirgreiðsla er víða víkjandi byggðaaðgerð. Aðstæður á íslenskum lánamarkaði hafa breyst mikið á síðustu missirum og endurskoðun á formi og fyrirkomulagi opinbers fjárstuðnings við fólk og fyrirtæki undir formerkjum byggðastefnu er nú tímabær.
    Í þessu fylgiskjali með tillögu til byggðaáætlunar fyrir árin 2006–2009 er stiklað á stóru í þróun byggðamála síðustu ár hér á landi og leitast við að setja þau í samhengi við þróun byggðamála erlendis og lýsa þannig grundvelli byggðaáætlunar.
    Siðmenntað samfélag, sem virðir gildi menningar, velferðar, samhjálpar, samkeppnishæfni og framfara í frjálsu atvinnulífi, hlýtur að framfylgja byggðastefnu. Byggðastefna er víða umdeild en hvorki er deilt um mikilvægi þess fyrir þjóðlíf að hafa byggðastefnu né mikilvægi þess, að samfélagsþróun leiði til framfara og jafnræðis borgaranna.


1. Byggðaáætlanir og framkvæmd.

1.1 Byggðaáætlanir.
    Byggðaáætlun er eitt áhald stjórnvalda til að jafna skilyrði til atvinnu- og mannlífs í landinu og bæta samkeppnishæfni byggða. Störfum hefur fækkað í landbúnaði og fiskiðnaði á Íslandi líkt og í frumvinnslu og úrvinnsluiðnaði í öðrum markaðsvæddum þjóðfélögum og þeim hefur fjölgað í þekkingariðnaði og þjónustu sem þurfa annað umhverfi. Breyttir framleiðsluhættir leiða af sér breytta samfélagshætti, búsetu fólks og fyrirtækja. Markaðssvæði, verslunar-, þjónustu- og atvinnusvæði, og samkeppnishæfni þeirra verða mikilvægari en lítil sveitarfélög, vægi atvinnugreina breytist og arðsemiskrafan verður áhrifameiri.
    Vöxtur borganna er eitt af einkennum markaðssamfélagsins og það má sjá um allan heim þó vart finnist svo hátt hlutfall þjóðar í einni borg eins og á Íslandi. Í öllum löndum Vestur- Evrópu og Norður-Ameríku standa stjórnvöld fyrir byggðastefnu sem ekki er beint gegn meginstoðum markaðssamfélagsins og í Evrópubandalaginu fer mest til breytinga á svæðum þar sem markaðsaðstæður eru erfiðar og þá einkum í dreifbýli og jaðarbyggðum. Byggðastefna vísar að jafnaði til stefnumörkunar um stuðning hins opinbera við slík svæði, að stefnt sé að stuðningi til jöfnunar í samkeppni við önnur svæði innan ríkis eða ríkjabandalags vegna efnahags- eða félagslegs aðstöðumunar sem ekki er álitinn réttlætanlegur.
    Byggðastefna byggist á þeirri forsendu að metið sé eðli og umfang þess vanda sem steðjar að dreifbýli og jaðarbyggðum og á þeim auðlindum sem skipta mestu máli fyrir langtímaþróun þeirra og mikil áhersla er á byggðarannsóknir í flestum löndum Evrópu og Ameríku.
    Áherslur í byggðastefnu hafa verið að breytast á undanförnum árum. Bæði Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) og Evrópusambandið (ESB) hafa í stefnumörkun beint sjónum að aðgerðum sem auka líkur á því að byggðasvæði eigi auðveldara með að standa á eigin fótum í fjölþjóðlegu markaðsumhverfi. Dregið hefur úr aðgerðum sem beinast fyrst og fremst að einni atvinnugrein en sjónum verið beint að tilteknum svæðum og þeim möguleikum sem fólgnir eru í umhverfi þeirra og menningararfi. Í samræmi við það er fjármagn veitt til svæðisbundinna tilrauna- og þróunarverkefna. Árangur þeirra getur orðið grundvöllur að víðtækri stefnumörkun og orðið fordæmi fyrir önnur svæði. Í þeirri stefnumótunarvinnu sem nú stendur yfir hjá Evrópusambandinu og á vettvangi alþjóðaviðskipta með matvæli er áherslan að færast frá niðurgreiðslukerfi yfir á stuðning við afmörkuð svæði og umbætur í umhverfismálum framleiðslunnar (grænar greiðslur).
    Áherslur í byggðastefnu hafa verið færast yfir á að:
          virkja íbúa til fjárfestingar í nýjum tækifærum sem byggjast á hagnýtingu auðlinda sem fyrir eru,
          bæta samkeppnishæfni atvinnulífsins til lengri tíma litið,
          efla nýsköpun og að auka fjölbreytni atvinnustarfsemi,
          auka verðmæti og gæði vöru og þjónustu,
          styðja aðferðir sem uppfylla strangar kröfur um verndun umhverfisins.

Ísland: ESA-svæði.
ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, skilgreinir svæði sem ríkið má veita fjárhagsstuðning til uppbyggingar.
Starfssvæði Byggðastofnunar nær yfir allt Reykjanes en fjárstuðningur er takmarkaður.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




    Byggðarannsóknir og áætlanir eru líka umfangsmiklar vestanhafs, í Kanada og Bandaríkjunum, þar sem mikil áhersla er á þýðingu skipulags byggðar fyrir lífsgæði fólks. Uppbygging Kísildals í Kaliforníuríki er heimsþekkt og hefur víða orðið fyrirmynd, t.d. í Finnlandi, þangað sem sóttar hafa verið fyrirmyndir fyrir klasasamstarf og vaxtarsamninga á Íslandi.
    Byggðaáætlanir á Íslandi voru miðaðar við afmörkuð svæði, t.d. Vestfirði og Inn-Djúp, eða við atvinnugreinar eins og Hraðfrystihúsaáætlunin 1976. Þær voru gerðar af Byggðastofnun. Vinna á vegum Byggðastofnunar færðist þó yfir á það á 10. áratug síðustu aldar að skilgreina svæði eftir ríkjandi aðstæðum í atvinnuháttum, tekjum og öðrum samfélagsþáttum í þeirri viðleitni að skapa grundvöll fyrir markvissar svæðisbundnar áætlanir og aðgerðir.
    Öflun grunnupplýsinga og vinnsla þeirra hefur verið mikill hluti þeirrar vinnu sem lögð hefur verið í byggðaáætlanir. Tölulegar og landrænar upplýsingar um byggðir landsins hafa ekki verið mjög aðgengilegar og eru ekki enn. Mikilvæg forsenda allrar áætlanagerðar er gott aðgengi að vönduðum grundvallarupplýsingum og slíkt aðgengi er því enn mikilvægur þáttur við gerð byggðaáætlana.
    Eitt af einkennum svæðisbundinna byggðaáætlana var eflaust áhersla á þróun atvinnuvega sem fyrir voru þó þeir væru ekki vaxandi og á uppbyggingu opinberrar þjónustu. Þær voru grundvöllur fjárveitinga af hálfu ríkisins til uppbyggingar atvinnuvega í byggðum landsins meira en áætlanir um uppbyggingu opinberrar þjónustu. Sú þjónusta hefur að miklu leyti byggst upp á höfuðborgarsvæðinu.
    Byggðastofnun setti fram athyglisverða tillögu í framfylgd byggðaáætlunar 1999–2001 þar sem slegið var á nýja strengi. Tillagan snerist um að setja á laggirnar sérstök þróunarsetur á landsbyggðinni. Þau áttu að byggja á klasamyndun atvinnuþróunarfélaga, háskóla og rannsóknastofnana atvinnuveganna og verða vettvangur fyrir uppbyggingu rannsóknarstarfs og aðstoð við frumkvöðla með sérstaka áherslu á starfsemi tengda staðháttum. Markmið með þróunarsetrunum áttu að vera að
          veita atvinnuráðgjöf og aðstoða við stofnun nýrra fyrirtækja,
          auka rannsóknar- og þróunarstarf á landsbyggðinni og tengja það rannsóknar- og þróunarstarfi á höfuðborgarsvæðinu,
          veita fjármagn til rannsókna og nýsköpunar,
          efla félagslegar forsendur búsetu á landsbyggðinni.
    Þessi tillaga hefur orðið að veruleika að nokkru í breyttri mynd. Þekkingarstofnunum hefur fjölgað út um land á síðustu árum, öðrum vaxið fiskur um hrygg og starf atvinnuþróunarfélaga að rannsóknum hefur aukist mjög.
    Byggðaáætlun 2002–2005 markaði áherslubreytingar og nýjar áherslur. Meiri áhersla var lögð á menntun og menningu, á að efla atvinnuþróun og nýsköpun og á frumkvæði og þátttöku heimamanna í því starfi. Þessar áherslur voru undir merkjum sjálfbærrar þróunar og bættrar samkeppnishæfni byggðanna og var fylgt eftir með aðgerðaáætlun sem er í framkvæmd. Í þeirri framkvæmd hafa vaxtarsamningar fyrir skilgreind svæði verið farvegur nánari starfsáætlana og framkvæmd þeirra hefur verið falin svæðisbundnum atvinnuþróunarfélögum. Vaxtarsamningur hefur verið gerður fyrir Eyjafjarðarsvæðið í kjölfar þess að gerð var byggðaáætlun fyrir svæðið. Svipuðum vinnubrögðum var beitt fyrir Vestfirði þar sem vaxtarsamningur var undirritaður vorið 2005. Unnið er að gerð vaxtarsamninga á Suðurlandi með áherslu á Vestmannaeyjar og á Austurlandi með áherslu á Höfn og undirbúningur er hafinn að gerð vaxtarsamninga á Vesturlandi og Norðurlandi vestra.
    Með vaxtarsamningum skuldbinda opinberir aðilar og einkaaðilar sig til þess að vinna saman að uppbyggingu atvinnulífs á tilteknu svæði með það að markmiði að efla samkeppnishæfni og stuðla að auknum hagvexti. Vaxtarsamningar færa ábyrgð á framkvæmdum á sviði byggðamála til hagsmunaaðila í héraði. Byggt er á styrkleikum hvers svæðis og unnið að því að þróa og styrkja vaxtargreinar og efla svæðisbundna þekkingu með uppbyggingu klasa og tengslaneta.
    Undirbúningur að byggðaáætlun 2002–2005 var um margt ólíkur undirbúningi annarra byggðaáætlana, einkum að því leyti að skipaðir voru faghópar til vinnunnar með aðild fólks úr öllum landshlutum.
    Líta má á svæðisskipulagsgerð samkvæmt skipulags- og byggingarlögum sem eina gerð byggðaáætlana. Svæðisskipulag þarf að ná yfir tvö sveitarfélög hið minnsta en í flestum tilvikum taka fleiri sveitarfélög sig saman um slíkt skipulag og víða er miðað við gömlu sýslurnar. Sveitarfélög eru nú að sameinast í eitt í sumum sýslum og staðbundin markaðssvæði eru sums staðar orðin stærri en þær, t.d. þjónustusvæði sérhæfðrar þjónustu og verslunarsvæði lágvöruverðsverslana. Því er það svæði sem svæðisskipulag nær yfir víða orðið minna en þyrfti til þess að fullnýta kosti slíkrar áætlunargerðar.
    Svæðisskipulag og svæðisbundin byggðaáætlun hafa ekki verið gerð samhliða á Íslandi en það var þó nánast raunin í Eyjafirði þar sem byggðaáætlun var gerð í kjölfar svæðisskipulags og á eftir fylgdi síðan vinna við vaxtarsamning fyrir Eyjafjarðarsvæðið. Í þessari áætlanagerð fólst mikil undirbúningsvinna fyrir vaxtarsamninginn.

Staða svæðisskipulags í október 2005.
(Heimild: Skipulagsstofnun.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.






    Flest sveitarfélög gera ráð fyrir fólksfjölgun í aðalskipulagsáætlunum og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu gera ráð fyrir að fólksstraumurinn þangað haldi áfram eins og áður. Sveitarfélög gera ekki í aðalskipulagsáætlunum ráð fyrir samdrætti í þjónustu ríkisins. Ráðuneyti gera áætlanir og t.d. hefur heilbrigðisráðuneytið gengist fyrir samningum um samstarf heilbrigðisstofnana í landshlutum, samgönguráðuneyti gerir samgönguáætlun fyrir landið allt, ferðamálaáætlun og fjarskiptaáætlun og áætlanir á sviði mennta og menningar eru gerðar af menntamálaráðuneytinu.
    Ástæða er til að samhæfa þessar áætlanir, mynda samstöðu um framtíðarsýn fyrir stærri landshluta en sveitarfélög og þá með hliðsjón af áætlunum ríkisstofnana, breyta samkeppnisáherslum sveitarfélaga á sama markaðssvæði og færa til víglínur. Ástæða er líka til að samræma áherslur í áætlunum ríkisstofnana, byggðaáætlun og áætlunum sveitarfélaga og landssvæða. Samfelldur þróunarferill byggðaáætlunar fyrir landið allt er þess vegna áherslumál, að stungin séu út samstarfsverkefni og rannsóknarsvið sem aftur hafi áhrif á byggðaáætlunina og komi fram við endurskoðun hennar. Mikilvægt er að slíkri samhæfðri áætlanagerð sé fundinn lýðræðislegur farvegur þar sem íbúarnir eru virkir þátttakendur.
    Í þessu samfellda þróunarferli byggðaáætlunar er sambandið við svipaða starfsemi í öðrum löndum mikilvægt, einkum á Norðurlöndum og í Evrópusambandinu, ekki síst vegna þess að byggðaáætlanir og starfsreglur tengdar henni lúta tilskipunum sambandsins og eru teknar inn í íslenska löggjöf. Frumvarp til laga um mat á umhverfisáhrifum áætlana í samræmi við tilskipun ESB er í undirbúningi. Þannig er útlit fyrir að framvegis verði að meta áhrif byggðaáætlana og margra annarra áætlana ríkis og sveitarfélaga á umhverfi, náttúrufar, samfélag og efnahag, með tilliti til sjálfbærrar þróunar samkvæmt reglum ESB.
    Byggðastofnun hefur tekið upp samstarf við Skipulagsstofnun um verkefni á sviði landshlutaáætlana sem byggist á skipulagsviðhorfum og aðferðum sem tíðkast í Evrópusambandinu, „Spatial Planning and Development“. Verkefnið verður unnið á árunum 2005–2007 og þess er vænst að mynd fáist af því hvernig þessi aðferð hentar hér á landi og hvernig megi innleiða hana. Samkvæmt þessari aðferð eru aðstæður metnar með tilliti til sjálfbærrar þróunar, áætlanir samhæfðar og mótvægisaðgerðir skilgreindar á þeim þremur sviðum sem liggja til grundvallar sjálfbærri þróun: náttúrufari, samfélagi og efnahag.
    Landshlutaáætlun felur í sér sameiginlega framtíðarsýn og stefnumótun fyrir stórt svæði, þar sem stefnt er að sjálfbærri þróun og samkeppnishæfni. Hún byggist á faglegum og lýðræðislegum grundvelli og getur því orðið leiðarvísir fyrir framkvæmdaáætlanir um tiltekin mál og tiltekin svæði.
    Byggðaþróunarstarf á vegum atvinnuþróunarfélaga hefur vaxið á síðustu árum. Starf þeirra á sviði ráðgjafar, fræðslu, nýsköpunar, markaðssetningar, rannsókna og stjórnunarsamstarfsverkefna hefur allt aukist. Þau hafa sýnt fram á gildi sitt og þess að þetta starf fari fram í byggðum landsins. Átta atvinnuþróunarfélög byggja starf sitt á samningum við Byggðastofnun um byggða- og atvinnuþróun og um sérstök verkefni. Þessir samningar grundvallast á árlegum fjárveitingum Alþingis. Félögin átta eru grundvölluð á svæðisbundnum samtökum sveitarfélaga og starfa sjálfstætt. Starfshættir þeirra eru mismunandi en samstarf þeirra við Byggðastofnun og Impru – nýsköpunarmiðstöð er mikið. Þannig gangast þau fyrir námskeiðum um þessar mundir um klasa og klasasamstarf sem byggjast á samningi Impru og Byggðastofnunar. Auk þeirra átta félaga sem gert hafa starfssamning við Byggðastofnun eru starfandi nokkur staðbundin félög, t.d. í Vestmannaeyjum og á Akranesi. Byggðastofnun hefur einnig gert samstarfssamninga við aðrar stofnanir um samstarf þar sem einnig er kveðið á um samstarf þessara stofnana við atvinnuþróunarfélög. Þar á meðal eru Útflutningsráð, Bændasamtök Íslands, viðskiptaþjónusta utanríkisráðuneytisins, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Háskólinn á Akureyri, Rannsóknamiðstöð Íslands, Listaháskóli Íslands, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, Þjóðminjasafn Íslands, Hólaskóli, Háskóli Íslands og Iðntæknistofnun.
    Rannsóknir eru forsenda byggðaáætlana og mikilvægi þeirra fyrir byggðaþróunarstarf er vaxandi. Byggðastofnun hefur haft umsjón með hluta af styrkjakerfum sem tengjast Evrópusambandinu og norrænu samstarfi í byggðamálum. Því hefur stofnunin verið í samstarfi við sprotafyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu þar sem þau hafa skilyrði til viðgangs og þá með þeim væntingum að starfið muni skila sér út fyrir höfuðborgarsvæðið, hafa áhrif á fyrirtæki um allt land og að stofnunin geti átt þátt í því, m.a. með byggðaáætlunum og samstarfi við aðrar stofnanir.

1.2 Styrkir til sérstaks átaks 2003.
    Þann 14. mars 2003 ákvað ríkisstjórnin að verja 700 millj. kr. til atvinnuátaks á landsbyggðinni. Byggðastofnun var falið að ráðstafa 500 millj. kr. af þessu fé, 350 millj. kr. til fjárfestinga í álitlegum sprotafyrirtækjum og 150 millj. kr. til að styrkja verkefni sem til þess væru fallin að efla grunngerð nýsköpunar og atvinnuþróunar í byggðum landsins.
    Skilyrði fyrir kaupum á hlutafé í fyrirtækjum voru helst:
          Ríkt nýsköpunargildi og fjölgun starfa.
          Hæfir stjórnendur og raunhæfar áætlanir.
          Fjárhagslegur styrkur til að ljúka verkefninu.
          Heilbrigður rekstur og efnahagur.
          Skýr og afmörkuð framkvæmdaáætlun með upplýsingum um fjárþörf og fjárfestingu.
98 umsóknir bárust frá fyrirtækjum, alls að fjárhæð 1.750 millj. kr. en 23 voru samþykktar. Hlutafé sem keypt var skiptist svo á milli greina:
Sjávarútvegur og tengdar greinar 90.000.000
Iðnaður, landbúnaður, líftækni,
        upplýsingatækni og tengdar greinar
232.600.000
Ferðaþjónusta og tengdar greinar 25.000.000

    Hlutafé var keypt í eftirtöldum fyrirtækjum eins og tilgreint er:
ORF líftækni hf. Möðruvöllum 30.000.000 kr.
Baðfélag Mývatnssveitar ehf. Reykjahlíð 25.000.000 kr.
Íslenskur kúfiskur ehf. Þórshöfn 25.000.000 kr.
Primex ehf. Siglufirði 25.000.000 kr.
Skaginn hf. Akranesi 25.000.000 kr.
Feyging ehf. Þorlákshöfn 22.000.000 kr.
Globodent á Íslandi ehf. Akureyri 20.000.000 kr.
MT-bílar ehf. Ólafsfirði 20.000.000 kr.
Reykofninn ehf. Stykkishólmi 20.000.000 kr.
Doc hf. Húsavík 15.000.000 kr.
HEX-tækni ehf. Akureyri 15.000.000 kr.
HotMobileMail ehf. Bolungarvík 15.000.000 kr.
Bonus Ortho System Ísland hf. Ólafsfirði 10.000.000 kr.
Fjölnet hf. Sauðárkróki 10.000.000 kr.
Norðurós ehf. Blönduósi 10.000.000 kr.
Saxa smiðjufélag ehf. Stöðvarfirði 10.000.000 kr.
Sindraberg ehf. Ísafirði 10.000.000 kr.
Þvottatækni ehf. Seyðisfirði 10.000.000 kr.
Kjörorka ehf. Hvolsvelli 8.000.000 kr.
Trico ehf. Akranesi 8.000.000 kr.
Rennex ehf. Ísafirði 6.000.000 kr.
Íslenska polyolfélagið Vestmannaeyjum 5.000.000 kr.
Yrkjar ehf. Eyja- og Miklaholtshreppi 3.600.000 kr.

    Úr hinum hlutanum, sem Byggðastofnun var falið að nota til að styrkja verkefni sem til þess væru fallin að efla grunngerð nýsköpunar og atvinnuþróunar í byggðum landsins, voru 150 millj. kr. til ráðstöfunar. Fyrstu styrkveitingar voru samþykktar síðla árs 2003 og vinna við val verkefna stóð fram á árið 2005. Samþykktir voru styrkir til 45 verkefna eða til um helmings þeirra verkefna sem sótt var um styrki til. Styrkfjárhæðir fóru aldrei yfir 50% af kostnaði við verkefnin og í flestum tilvikum var styrkhlutfallið mun lægra.
    Verkefnin eru fjölbreytt og niðurstöður þeirra geta leitt til breyttra áherslna og aðgerðatillagna í byggðaáætlun. Til dæmis má nefna að mikil áhersla hefur verið lögð á ferðaþjónustu sem byggðamál, þótt arðsemi greinarinnar hafi verið umdeild, en bent hefur verið á þýðingu hennar fyrir aðrar greinar og samfélagið. Áhrifin hafa þó ekki verið metin en staðbundin áhrif ferðaþjónustu eru einmitt eitt þeirra verkefna sem Byggðastofnun veitti fjárstuðning úr fyrrnefndum sjóði. Niðurstaðan kann að skipta miklu, mestu fyrir jaðarsvæðin þar sem samkeppnishæfnin er minnst, fábreytni er í atvinnulífi og langt að sækja þjónustu og atvinnu utan heimilis. Þar geta góð sóknarfæri verið í ferðaþjónustu og mikilvægt að skilja hagræn og staðbundin áhrif hennar.
    Hér að neðan má sjá hvernig styrkir flokkast en flokkar geta þó skarast, t.d. getur verkefni flokkast bæði sem ferðaþjónusta og menning og verkefni sem flokkast til nýsköpunar- og þróunarverkefna geta fjallað um ýmsar atvinnugreinar.

Flokkur Fjöldi verkefna Styrkhlutfall %
Menning 5 15
Menntun 11 23
Rannsóknir 6 14
Nýsköpun og þróun 16 35
Ferðaþjónusta 7 13
Alls 45 100


    Flestar umsóknir bárust frá Norðurlandi vestra og eystra en úthlutun styrkja dreifðist nokkuð jafnt yfir landshluta, utan Reykjaness. Nokkrar umsóknir bárust frá Reykjavík. Í mörgum verkefnum stóðu nokkrir aðilar úr fleiri en einum landshluta saman að umsóknum og því er skipting eftir landshlutum ekki hrein. Að auki ná mörg verkefnanna til landsins alls eða nokkurra svæða á landinu og stundum verður hægt að nota þau til fyrirmyndar.

Yfirlit yfir verkefni sem styrkt voru.
     *      Efling frumkvöðlafræðslu, Frumkvöðlafræðslan SES, Höfn í Hornafirði. Undirbúningur að stofnun sjálfseignarstofnunar um frumkvöðlafræðslu á Íslandi. Markmiðið er að efla og styrkja frumkvöðlafræðslu með hliðsjón af grunn- og framhaldsskólum og fullorðinsfræðslu. Styrkfjárhæð 2.600.000 kr.
     *      Þróun og framfarir með þróun „vörumerkis bæja“, Brandr, Akureyrarbær. Þetta er NPP-verkefni með þátttöku Íslands, Noregs og Svíþjóðar og markmið þess er að styrkja ímynd sveitarfélaga sem þátt taka með markaðssetningu og kynningu. Styrkfjárhæð 2.700.000 kr.
     *      Rannsókn á nýsköpunarkerfum á jaðarsvæðum, Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri. NPP-verkefni sem snýst um upplýsingaöflun og greiningu á grunngerð nýsköpunarumhverfis í ákveðnum atvinnugreinum á völdum landsbyggðarsvæðum. Íslenska rannsóknin beindist að nýsköpunarumhverfi landbúnaðar og ferðaþjónustu á Norðurlandi vestra. Styrkfjárhæð 1.500.000 kr.
     *      Rannsókn á högum og viðhorfum innflytjenda, Fjölmenningarsetur á Ísafirði. Með verkefninu á að finna leiðir til að fá innflytjendur til að taka virkari þátt í samfélaginu, bæta þjónustu við þá og auðvelda sveitarfélögum að móta stefnu í málefnum útlendinga. Styrkfjárhæð 1.100.000 kr.
     *      Ungir frumkvöðlar, Young Entrepreneurship Factory, Atvinnuráðgjöf Vesturlands. NPP-verkefni sem byggist á að örva nýsköpun og frumkvöðlastarf meðal ungs fólks á landsbyggðinni. Haldin verða námskeið og staðið fyrir samkeppni. Styrkfjárhæð 3.200.000 kr.
     *      Einkahagur, gerð námsefnis fyrir grunnskóla og námskeiðahald, Junior Achievement á Íslandi. Verkefnið felst í námskeiðahaldi fyrir grunnskólanemendur með það að markmiði að auka skilning þeirra á markaðs- og efnahagsmálum. Styrkfjárhæð 2.450.000 kr.
     *      Greining á möguleikum á klasamyndun á norðanverðum Vestfjörðum, Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða. Greina möguleika á og stuðla að klasamyndun á Vestfjörðum. Með því verði atvinnulíf á svæðinu styrkt og nýsköpun aukin. Styrkfjárhæð 4.675.000 kr.
     *      Viðskiptanámskeið á Suðurlandi, Suðausturlandi og Austurlandi, Atvinnuþróunarsjóður Suðurlands og Þróunarstofa Austurlands. Halda á námskeið fyrir þá sem stunda atvinnurekstur eða ætla að stofna fyrirtæki til þess að styrkja atvinnulíf á svæðinu. Styrkfjárhæð 2.955.000 kr.
     *      Miðlun viðskipta- og upplýsingatæknilausna í dreifbýli, Rural Business Information Exchange System (RUBIES), Upplýsingatækni í dreifbýli. NPP-verkefni þar sem greina á þarfir í dreifbýli fyrir upplýsingakerfi og hugbúnað og láta smíða kerfi sem hentar. Gera á gagnaflutning í dreifbýli hraðvirkari og ódýrari. Styrkfjárhæð 2.700.000 kr.
     *      Máttur kvenna, Viðskiptaháskólinn á Bifröst. Rekstrarnám fyrir konur í atvinnurekstri í Norðvesturkjördæmi. Með náminu á að gera konur í atvinnurekstri hæfari til að reka fyrirtæki og efla þannig atvinnulíf á landsbyggðinni. Styrkfjárhæð 2.500.000 kr.
     *      Sögueyjan Ísland, Arthur Björgvin Bollason og Björn Emilsson. Gera á fjóra sjónvarpsþætti um sögustaði Íslendingasagna og styrkja með því menningartengda ferðaþjónustu auk þess sem þættirnir eiga að nýtast sem kennsluefni. Styrkfjárhæð 2.000.000 kr.
     *      Nature Based Tourism, Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða. NPP-verkefni með það að markmiði að efla þekkingu í afþreyingarfyrirtækjum, auka vöruframboð, styrkja umhverfisvitund og auka þekkingu í markaðsmálum. Styrkfjárhæð 3.000.000 kr.
     *      Iðnmenntun í netagerð, Fjölbrautaskóli Suðurnesja og Atvinnuráðgjöf SSS. Markmiðið með verkefninu er að viðhalda og efla sérþekkingu á sviði veiðarfæragerðar og að flytja út þessa þekkingu. Stofna á sjálfseignarstofnun um kennslu í veiðarfæragerð fyrir Íslendinga og útlendinga. Styrkfjárhæð 3.500.000 kr.
     *      Ferðaþjónustuverkefnið USEVENUE, Héraðsnefnd Snæfellsness og Ísafjarðarbær. NPP-verkefni með það að markmiði að efla ferðaþjónustu með áherslu á viðburði. Þróa á viðburði og hátíðir til að auka efnahagslegan ávinning utan hefðbundinna ferðamannastaða. Styrkfjárhæð 2.610.000 kr.
     *      Lífræn ræktun, Vottunarstofan Tún ehf. Markmið verkefnisins er að efla lífræna framleiðslu með því að gerð verði tilraun á nokkrum svæðum sem geti orðið til fyrirmyndar víðar. Styrkfjárhæð 1.200.000 kr.
     *      Rannsókn á stöðu kvenna í fiskeldi á Íslandi, Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum. Markmið verkefnisins er að meta stöðu kvenna í greininni, benda á leiðir til að fjölga konum sem starfa við fiskeldi og veita stjórnvöldum og fyrirtækjum leiðsögn um hvernig auka megi hlut kvenna í þessari atvinnugrein. Styrkfjárhæð 1.000.00 kr.
     *      Undirbúningur að uppbyggingu minjagarðs í Reykholti, Snorrastofa. Undirbúa á minjagarð í Reykholti, gera þróunaráætlun um framtíð Snorrastofu og nýrra mannvirkja, sem m.a. felur í sér að gera fornminjar sýnilegar og miðla þekkingu til ferðamanna og fræðimanna. Styrkfjárhæð 4.000.000 kr.
     *      Rannsóknir á samfélagsáhrifum og þróun byggðar og atvinnulífs á Austurlandi, Byggðastofnun, Byggðarannsóknastofnun og fleiri. Rannsókn á samfélagsáhrifum virkjana- og álversframkvæmda á Austurlandi í samvinnu við heimamenn. Styrkfjárhæð 10.000.000 kr.
     *      Bjólfskviða, P. Stephens og Friðrik Þ. Friðriksson. Stofna á félag með það að markmiði að byggja upp þjónustuiðnað sem tengist kvikmyndagerð. Gert verður samkomulag við þá aðila sem vinna að kvikmyndun Bjólfskviðu sem tekin verður að mestu í Austur-Skaftafellssýslu, þannig að kortleggja megi þá þjónustu sem slíkt verkefni krefst. Styrkfjárhæð 10.000.000 kr.
     *      Vocal training & Advisory Partnership (VoTAP), Félag ferðamálafulltrúa. Þetta er Evrópuverkefni á sviði starfsþjálfunar og endurmenntunar fyrir starfsfólk í ferðaþjónustu og felst í miðlun þekkingar á milli fagfólks og til starfsfólks í ferðaþjónustu. Styrkfjárhæð 1.600.000 kr.
     *      Þróun fyrirtækjaklasa í Borgarfirði, SSV – Þróun og ráðgjöf. Byggja á upp fyrirtækjaklasa í Borgarfirði og nágrenni með því að nýta þekkingu háskóla- og menningarsetra á svæðinu með samstarf fyrirtækja í huga. Styrkfjárhæð 2.247.800 kr.
     *      Námskeiðahald í Dalabyggð, SSV – Þróun og ráðgjöf. Verkefnið felst í nokkrum námskeiðum í Dalabyggð á vegum Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands og markmiðið er að styrkja byggð og atvinnulíf. Styrkfjárhæð 684.000 kr.
     *      Þróun fyrirtækjaneta á Austurlandi, Þróunarstofa Austurlands. Markmið verkefnisins er þróun fyrirtækjaneta sem hafa kjarna á landsbyggðinni en tengjast fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu og erlendis. Styrkfjárhæð 2.450.000 kr.
     *      Strandmenning, Northern Costal Experience (NORCE), Atvinnuþróunarfélag Norðurlands vestra. NPP- verkefni sem á að efla ferðaþjónustu í strandhéruðum við N-Atlantshaf og í Helsingjabotni með áherslu á varðveislu og kynningu náttúru- og menningarverðmæta við sjávarsíðuna. Íslensku strandsvæðin eru Breiðafjörður, Húnaflói og ströndin frá Húsavík að Langanestá. Styrkfjárhæð 6.000.000 kr.
     *      Snjór og menning, Snow Magic, Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga. NPP-verkefni um ferðaþjónustu að vetrinum. Greina á styrkleika vetrarferðaþjónustu í Mývatnssveit og auka samstarf við önnur svæði. Virkja á heimamenn og stuðla að sjálfbærri þróun. Styrkfjárhæð 3.000.000 kr.
     *      Yfirlitsrannsókn og skráning á íslenskum baðlaugum, Háskólasetrið í Hveragerði. Gera á gagnagrunn um allar náttúrulegar baðlaugar á landinu. Þessar upplýsingar munu nýtast ferðaþjónustunni og stuðla að lengingu ferðamannatímans. Styrkfjárhæð 4.250.000 kr.
     *      Ungmennabúðir að Laugum í Sælingsdal, Dalabyggð. Koma á upp og reka ungmenna- og tómstundabúðir að Laugum í Sælingsdal með áherslu á ræktun lýðs og lands. Búðirnar eru fyrir ungmenni úr 9. bekkjum grunnskóla. Styrkfjárhæð 5.000.000 kr.
     *      Uppbygging og framkvæmd fjarnáms í opinberri stjórnsýslu, Háskóli Íslands, Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála. Boðið hefur verið upp á fjarnám í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands frá árinu 2003 en með þessu verkefni var námsframboð aukið. Hægt er að ljúka diploma-prófi og einnig er boðið upp á tveggja ára meistaranám. Styrkfjárhæð 1.000.000 kr.
     *      Klasar á Íslandi, Impra – nýsköpunarmiðstöð. Markmið verkefnisins er að greina möguleika ólíkra svæða til klasamyndunar, kynna klasasamstarf og koma af stað undirbúningsverkefnum. Til verði a.m.k. fimm klasar með 20 eða fleiri fyrirtækjum innan fjögurra ára. Styrkfjárhæð 8.505.000 kr.
     *      Þjóðgarðar og sjálfbær þróun svæða, NEST, Háskólasetrið Nýheimar á Höfn í Hornafirði. NPP-verkefni sem felst í því að nýta þau tækifæri sem felast í búsetu í og nálægt þjóðgörðum og verndarsvæðum. Vinna á að sjálfbærri þróun í dreifbýli með aukningu á framboði afþreyingar fyrir ferðamenn í þjóðgörðum. Styrkfjárhæð 2.600.000 kr.
     *      Hagvöxtur á heimaslóðum, Útflutningsráð. Markmið verkefnisins er að aðstoða íslensk ferðaþjónustufyrirtæki við að nýta markaðstækifæri erlendis. Þetta er þróunarverkefni fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki og byggist á vinnufundum, ráðgjöf og vöruþróun. Styrkfjárhæð 3.000.000 kr.
     *      Northern Wood Heat, Héraðsskógar. Þriggja ára NPP-verkefni um notkun eldiviðar við húshitun á köldum svæðum. Styrkfjárhæð 2.000.000 kr.
     *      Frumkvöðlasetur ungs fólks í Húnaþingi vestra, Hagfélagið. Markmið verkefnisins er að stuðla að nýsköpun. Vinna á úr reynslu Frumkvöðlasetursins og gera viðhorfskannanir á svæðinu. Styrkfjárhæð 1.300.000 kr.
     *      Uppbygging náms fyrir samfélagstúlka á Íslandi, Fjölmenningarsetur. Markmiðið með verkefninu er að auðvelda innflytjendum aðlögun að íslensku samfélagi með því að bjóða upp á menntun samfélagstúlka. Gera á námsefni og mennta kennara til að sinna þessari kennslu. Styrkfjárhæð 2.300.000 kr.
     *      Jarðhitaauðlindir – tækifæri til atvinnusköpunar og byggðaeflingar, Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga. Markmið verkefnisins er að kortleggja jarðhitaauðlindir á Norðausturlandi og greina tækifæri sem felast í nýtingu jarðhita, m.a. fyrir heilsutengda ferðaþjónustu. Styrkfjárhæð 1.000.000 kr.
     *      Á slóð Vatnsdælasögu, SSNV-atvinnuráðgjöf. Með verkefninu á að gera Vatnsdælasögu skil í sínu eiginlega umhverfi með því að gera minjastaði aðgengilega. Með þessu á að efla ferðaþjónustu og atvinnulíf á svæðinu. Styrkfjárhæð 2.500.000 kr.
     *      Íþrótta- og viðburðastjórnunarnám, Nýsköpunarstofa Vestmannaeyja. Boðið verður upp á nám á framhalds- og háskólastigi, auk fornáms. Í náminu er lögð áhersla á nýtingu tækifæra sem til staðar eru og tengjast íþróttamannvirkjum og viðburðum af ýmsu tagi. Styrkfjárhæð 3.000.000 kr.
     *      Heilsuefling í Stykkishólmi, SSV – Þróun og ráðgjöf. Breyta á sjúkrahúsinu í Stykkishólmi í bakmeðferðarmiðstöð, byggja hvíldar- og hressingarhótel og smáhýsabyggð í tengslum við heitar laugar. Styrkfjárhæð 4.000.000 kr.
     *      Hagræn áhrif ferðaþjónustu, Ferðamálasetur Íslands. Meta á bein efnahagsleg áhrif ferðaþjónustu á Akureyri og mun aðferðafræðin nýtast víðar. Styrkfjárhæð 1.717.000 kr.
     *      Upplýsingatækni í dreifbýli, Broadband in Rural and Remote Areas (BIRRA), Byggðastofnun. NPP- verkefni með það að markmiði að skilgreina stöðu sveitarfélaga á sviði upplýsingatækni. Styrkfjárhæð 2.170.000 kr.
     *      Integrate to Innovate, Þróunarfélag Austurlands. NPP-verkefni með það að markmiði að kortleggja og tengja saman innlend og alþjóðleg tengslanet samkvæmt Triple Helix hugmyndafræði, þ.e. tengsl háskóla, atvinnulífs og hins opinbera. Styrkfjárhæð 1.000.000 kr.
     *      Máttur kvenna, Viðskiptaháskólinn á Bifröst. Námskeið fyrir konur í atvinnurekstri í Norðaustur-, Suður- og Suðvesturkjördæmi, sjá umfjöllun hér að framan. Styrkfjárhæð 2.500.000 kr.
     *      Þorskeldi í sjókvíum við Ísafjarðardjúp, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Kaupa á og setja upp sjókvíar við Ísafjarðardjúp vegna rannsókna á þorski, með áherslu á að þær nýtist vestfirskum nemendum við HÍ, nemendum við HA og Hólaskóla. Styrkfjárhæð 5.000.000 kr.
     *      Spatial planning in Northern Peripheral Regions, Byggðastofnun. NPP-verkefni sem miðar að því að fá innsýn í evrópska skipulagsaðferð. Styrkfjárhæð 4.000.000 kr. til kaupa á vinnu utan stofnunarinnar.
     *      Textílsetur á Blönduósi. Styrkfjárhæð 2.000.000 kr.


1.3 Fjárhagsstuðningur.
    Aðgerðir ríkisvaldins í þeim tilgangi að stuðla að jafnvægi byggðar í landinu eiga sér langa sögu. Má rekja þær aftur til ársins 1951 en frá því ári var árlega varið nokkru fé úr ríkissjóði til atvinnuskapandi verkefna í formi lána og styrkja.
    Á sjöunda áratug síðustu aldar voru starfandi Atvinnubótasjóður og síðar Atvinnujöfnunarsjóður sem hóf starfsemi sína árið 1966. Efnahagsstofnun hóf á sama tíma gerð atvinnumálaáætlunar fyrir Norðurland sem í upphafi fékk trausta stofnfjármögnun, auk þess sem Atvinnujöfnunarsjóði voru tryggðar skatttekjur af álverinu í Straumsvík þegar það tók til starfa 1970. Byggðasjóður var stofnaður í tengslum við lög um Framkvæmdastofnun ríkisins og hóf störf í ársbyrjun 1972. Sjóðurinn tók við eignum og skuldbindingum Atvinnujöfnunarsjóðs og fékk til starfsemi sinnar sérstakt ríkisframlag og hluta skatttekna af Álverinu í Straumsvík. Sérstök byggðadeild tók til starfa við Framkvæmdastofnun árið 1976. Byggðastofnun tók til starfa 1. október 1985 og tók við eignum og skuldbindingum Byggðasjóðs og verkefnum byggðadeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins.
    Með víðtækri uppstokkun á sjóðakerfi ríkisins var Byggðastofnun sett á fót með lögum nr. 64/1985, sem síðar var breytt með lögum nr. 106/1999 er nú gilda um stofnunina. Hlutverk Byggðastofnunar er skilgreint í 2. gr. laganna:
             „Hlutverk Byggðastofnunar er að vinna að eflingu byggðar og atvinnulífs á landsbyggðinni.
             Í samræmi við hlutverk sitt vinnur stofnunin að undirbúningi, skipulagi og fjármögnun verkefna og veitingu lána með það að markmiði að treysta byggð, efla atvinnu og stuðla að nýsköpun í atvinnulífi. Fjármögnun verkefna skal eftir föngum vera í samstarfi við aðra.
             Byggðastofnun fylgist með þróun byggðar í landinu, m.a. með gagnasöfnun og rannsóknum. Stofnunin skipuleggur og vinnur að atvinnuráðgjöf í samstarfi við atvinnuþróunarfélög, sveitarfélög og aðra. Stofnunin getur gert eða látið gera áætlanir um þróun byggðar og atvinnulífs í þeim tilgangi að treysta búsetu og atvinnu í byggðum landsins. Stofnunin getur einnig tekið þátt í gerð svæðisskipulags samkvæmt skipulags- og byggingarlögum.“
    Hlutverki sínu sinnir Byggðastofnun með tvennum hætti. Annars vegar með rannsóknar- og ráðgjafarstarfsemi á sviði byggða- og atvinnumála og hins vegar með fjármögnun atvinnuverkefna og lánveitingum.
    Byggðastofnun hefur veitt fjárhagslegan stuðning í því skyni meðal annars að bæta aðstöðu til búsetu í einstökum byggðarlögum og koma í veg fyrir óæskilega byggðaröskun, að lífvænlegar byggðir fari í eyði. Byggðastofnun hefur veitt langtímalán til fjárfestinga, hagræðingar og fjárhagslegrar endurskipulagningar fyrirtækja á landsbyggðinni. Fyrirtækjum á landsbyggðinni hafa ekki alltaf boðist jafn hagstæðir og fjölbreyttir möguleikar á fjármögnun og fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu. Sérstaklega hefur þetta átt við minni fyrirtæki og á minni stöðum. Því hefur lánastarfsemi Byggðastofnunar verið valkostur í fjármögnun sem stuðlar að hagstæðari lánskjörum og lánsframboði fyrir atvinnulíf landsbyggðarinnar. Byggðastofnun hefur einnig veitt styrki til nýsköpunar í atvinnulífi á landsbyggðinni. Þar má t.d. nefna vöruþróun og markaðssetningu, könnun á nýjum atvinnukostum, afþreyingu í ferðaþjónustu og útflutningsverkefni.
    Að auki er starf eignarhaldsfélaga, sem rekja má aftur til ályktunar Alþingis um stefnu í byggðamálum 1999–2001 en á þeim árum veitti Alþingi Byggðastofnun 900.000.000 kr. til hlutafjárkaupa í eignarhaldsfélögum. Markmiðið með félögunum er hlutafjárkaup í litlum og meðalstórum fyrirtækjum í iðnaði og þjónustu sem eru að hefja rekstur á landsbyggðinni og hlutafjárkaup í starfandi fyrirtækjum með góða vaxtarmöguleika. Eignarhaldsfélög leggja fram áhættufé í formi hlutafjár og eru viðskiptasjónarmið lögð til grundvallar með talsverðri ávöxtunarkröfu. Eignarhaldsfélög af þessu tagi eru starfandi í öllum landshlutum og á Byggðastofnun stóra hluti í þeim öllum, mest þó 40%.
    Byggðastofnun hefur nú starfað eftir lögum nr. 106/1999 frá 1. janúar 2000 og er ástæða til að taka til skoðunar hvort þörf sé á endurskoðun þeirra.
    Á undanförnum missirum hafa orðið miklar breytingar á aðstæðum stoðkerfis atvinnulífs á landsbyggðinni. Fleiri starfa nú á þeim vettvangi en áður og í einhverjum tilvikum skarast verkefni og viðfangsefni. Einkum á þetta við um styrkveitingar. Með tilkomu stuðningsaðila eins og Impru – nýsköpunarmiðstöðvar, Tækniþróunarsjóðs og fleiri aðila, hafa möguleikar á styrkveitingum til rannsókna og frumkvöðlastarfs í atvinnulífinu aukist verulega. Á undanförnum árum hefur opinberum lánasjóðum fækkað og má nú segja að aðeins séu eftir Byggðastofnun og Lánasjóður landbúnaðarins, sem sinnir afmörkuðu hlutverki við fjármögnun uppbyggingar í landbúnaði. Sjóðurinn fær hluta af svokölluðu búnaðargjaldi og er það nýtt til að greiða niður vexti á hluta af lánum sjóðsins. Reglur hans kveða á um að lán skuli vera á fyrsta veðrétti. Á haustdögum 2005 er unnið að sölu á útlánasafni sjóðsins og verður hann í framhaldinu lagður niður.
    Með vaxandi samkeppni á fjármagnsmarkaði undanfarna mánuði er nú svo komið að langtímavextir viðskiptabanka og sparisjóða hafa lækkað mjög, fyrirtækjum og einstaklingum á landsbyggðinni til hagsbóta. Þetta hefur leitt til þess að Byggðastofnun hefur undanfarna mánuði tapað miklum fjölda viðskiptavina sinna með þeim afleiðingum að tekjur stofnunarinnar dragast verulega saman. Enn verður þó að telja að full þörf sé á lánastarfsemi af því tagi sem rekin er innan stofnunarinnar, einkum til að tryggja aðgengi að fjármagni á viðunandi kjörum á starfssvæði hennar. Á það ber þó að líta að samkeppni við viðskiptabankana um lánakjör er ekki hlutverk opinberra lánastofnana. Mikilvægt er að samþætta krafta allra þeirra opinberu sjóða sem þjóna fyrirtækjum í öllum atvinnugreinum með höfuðáherslu á landsbyggðina og allra styrktarforma, lánastarfsemi, hlutafjárþátttöku, veitingu stofnstyrkja, ábyrgða, eða annars konar verkefnafjármögnun. Með nýjum áherslum yrði verkaskiptingin mun skýrari í stoðkerfi atvinnulífsins.
    Yfirlit yfir þá sjóði sem greiða fyrir fjármálum fyrirtækja í byggðum landsins er að finna á heimasíðu Byggðastofnunar, www.byggdastofnun.is.


2. Ástand og horfur.

2.1 Mannfjöldi og störf.
    Fólksflutningar til höfuðborgarsvæðisins frá öðrum landshlutum hafa haldið áfram síðustu ár eins og alla síðustu öld. Tímabilið frá 1.12 1995 til 1.12. 2004 fjölgaði landsmönnum úr 267.809 í 293.291 eða um 25.482 sem samsvarar 9,5%. Á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði íbúum á þessu tímabili um 16,0%, á Reykjanesi um 9,4%, á Vesturlandi um 1,9%, á Suðurlandi um 5,0% og á Norðurlandi eystra um 0,8%. Á tímabilinu fækkaði íbúum á Vestfjörðum um 14,6%, á Norðurlandi vestra um 12,0% og á Austurlandi um 2,7%.
    Breytingar á búsetu og flutningar fólks úr dreifbýli í þéttbýli eru ekki séríslenskt fyrirbæri, heldur hluti af þróun sem á sér stað um allan heim. Fólk kýs sér í vaxandi mæli búsetu í stærra þéttbýli og metur það svo að þar sé að finna fjölbreyttari möguleika á ýmsum sviðum. Aðgerðir stjórnvalda í byggðamálum verða að taka mið af þessum staðreyndum, sem og þeir mælikvarðar sem notaðir eru til að meta árangur byggðaaðgerða. Þeir mælikvarðar sem hér er litið til eru mannfjöldabreytingar og fólksflutningar, breyting á fjölda starfa, tekjum og atvinnuleysi.
    Ef hugað er að þróun byggðamála á gildistíma byggðaáætlunar 2002–2005 er hægt að fullyrða að víða hefur mikið áunnist þó þróunin hafi orðið mismunandi eftir svæðum. Við slíku er að búast. Eðlilegt er einnig að horfa til þróunar á stærri landssvæðum fremur en einstökum sveitarfélögum.
    Þegar tölur um íbúaþróun á landinu á tímabilinu 1996–2000 og svo aftur 2000–2004 eru skoðaðar kemur í ljós að á fyrra tímabilinu fækkaði íbúum landsbyggðar um rúmlega 2000 en fjölgaði um tæplega 1500 á síðara tímabilinu. 1996–2000 fækkaði í öllum gömlu kjördæmunum utan höfuðborgarsvæðisins nema á Reykjanesi og Suðurlandi. Á tímabilinu 2000–2004 hefur þróunin breyst á þann veg að nú er einungis fækkun í tveim gömlu kjördæmanna, þ.e. Vestfjörðum og Norðurlandi vestra. Á það er líka vert að benda að í þeim kjördæmum þar sem fækkar hefur hægt á fækkuninni. Innan gömlu kjördæmanna hefur íbúaþróunin verið afar mismunandi.
    Sé horft til þjónustusvæða þá styrkjast þau svæði sem næst eru Reykjavík, bæði á Vesturlandi, Suðurlandi og Reykjanesi. Einnig styrkist Akureyri og nálæg sveitarfélög og alger viðsnúningur hefur orðið á Miðausturlandi. Þar er nú mikil fjölgun en áður hafði verið mikil fólksfækkun um langt árabil.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Íbúafjöldi eftir landshlutum.
1. desember 1995 og 1. desember 1999.
(Heimild: Hagstofa Íslands.)

Alls árið 1995 Alls árið 1999 Breyting Breyting í %
Höfuðborgarsvæðið 158.597 171.514 12.917 8,1
Reykjanes 15.634 16.050 416 2,7
Vesturland 14.154 14.056 –98 –0,7
Vestfirðir 9.018 8.308 –710 –7,9
Norðurland vestra 10.208 9.449 –759 –7,4
Norðurland eystra 26.664 26.355 –309 –1,2
Austurland 12.780 12.127 –653 –5,1
Suðurland 20.754 20.843 89 0,4


Íbúafjöldi eftir landshlutum.
1. desember 2000 og 1. desember 2004.
(Heimild: Hagstofa Íslands.)

Alls árið 2000 Alls árið 2004 Breyting Breyting í %
Höfuðborgarsvæðið 175.000 183.990 8.990 5,1
Reykjanes 16.491 17.092 601 3,6
Vesturland 14.263 14.418 155 1,1
Vestfirðir 8.150 7.698 –452 –5,5
Norðurland vestra 9.432 8.984 –448 –4,7
Norðurland eystra 26.466 26.881 415 1,6
Austurland 11.924 12.435 511 4,3
Suðurland 21.119 21.793 674 3,2


    Sé skoðað hvernig atvinnuleysi hefur þróast á undanförnum árum þá var atvinnuleysi meira á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu árið 2001. Árin síðan og það sem af er árinu 2005 hefur atvinnuleysi verið meira á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. Rétt er þó að hafa í huga að atvinnuleysi er mjög lítið um þessar mundir.
    Hvað meðalatvinnutekjur varðar þá hefur þróunin verið sú á milli áranna 2001 og 2004 að á höfuðborgarsvæðinu hafa meðaltekjurnar hækkað um rúm 16% en utan höfuðborgarsvæðisins um rúm 12%. Árið 2001 voru meðallaun utan höfuðborgarsvæðisins rúmlega 13% lægri en meðallaun á höfuðborgarsvæðinu. Árið 2004 er þetta hlutfall komið í 16%. Athyglisvert er að Austurland er eina svæðið þar sem meðalatvinnutekjur hækkuðu meira en á höfuðborgarsvæðinu, um 19% á milli áranna 2001 og 2004.
    Myndin verður önnur ef horft er til minni svæða en þetta er hin stóra mynd.
    Íbúaþróunin hefur verið hagstæðari fyrir landsbyggðina en áður. Atvinnuleysið er minna á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Hins vegar hafa atvinnutekjur verið og eru lægri á landsbyggðinni og dregur raunar heldur í sundur.

Tekjur eftir svæðum 1999–2004.
(Heimild: Hagstofa Íslands.)

Alls 1999 2000 2001 2002 2003 2004
Landið allt 100,0 100,0 100,0 100,0 100,0 100,0
Höfuðborgarsvæði 105,1 106,2 105,6 105,3 106,0 106,8
Suðurnes 101,8 100,2 99,4 98,9 97,6 92,2
Vesturland 93,3 92,1 92,9 92,2 90,7 91,2
Vestfirðir 93,8 89,6 88,5 89,7 87,2 86,3
Norðurland vestra 86,6 83,9 84,0 85,6 84,7 83,1
Norðurland eystra 92,2 89,8 91,6 92,8 91,0 90,5
Austurland 91,1 89,7 91,5 93,8 92,5 94,3
Suðurland 87,8 86,3 87,6 87,4 87,1 84,1
Utan höfuðborgarsvæðis 92,4 90,4 91,3 91,8 90,6 89,1


    Meðallaun karla hafa breyst á svipaðan veg og launaþróun allra. Á höfuðborgarsvæðinu hafa meðallaunin hækkað úr 104,4% í 106,3%, en utan þess lækkað úr 94,0% í 90,7%. Á öðrum svæðum lækkuðu meðallaun nema á Austurlandi þar sem þau hækkuðu um 3,5 prósentustig. Langmesta lækkunin er á Suðurnesjum (10,5 prósentustig) og á Vestfjörðum (8,3 prósentustig).


Tekjur karla eftir svæðum 1999–2004.
(Heimild: Hagstofa Íslands.)

Karlar 1999 2000 2001 2002 2003 2004
Landið allt 100,0 100,0 100,0 100,0 100,0 100,0
Höfuðborgarsvæði 104,4 105,6 104,8 104,2 105,3 106,3
Suðurnes 104,8 103,3 102,4 101,6 100,2 94,3
Vesturland 94,8 93,8 94,7 94,0 92,1 93,0
Vestfirðir 96,1 91,5 90,3 91,8 88,7 87,8
Norðurland vestra 85,8 82,8 82,6 85,0 84,2 82,7
Norðurland eystra 95,5 92,8 94,7 96,2 93,6 93,3
Austurland 92,0 91,1 93,7 97,1 95,0 95,5
Suðurland 87,4 85,8 87,8 88,2 87,7 84,8
Utan höfuðborgarsvæðis 94,0 92,0 93,1 93,9 92,2 90,7


    Meðallaun kvenna hafa hækkað hlutfallslega á höfuðborgarsvæðinu og voru 109,3% af meðallaunum kvenna árið 2004. Meðallaun kvenna utan höfuðborgarsvæðisins hafa lækkað úr 86,3% árið 1999 í 84,0% árið 2004. Meðallaun allra landsvæða hafa lækkað nema á Austurlandi þar sem þau voru 85,4% í byrjun tímabilsins en 85,5% í lok þess en höfðu þá reyndar hækkað verulega frá árinu 2003. Lækkun meðallauna er mest á sömu svæðum og hjá körlum þó að lækkunin sé hlutfallslega mun minni. Þannig lækka meðallaunin um 5,7 prósentustig á Suðurnesjum og 4,9 prósentustig á Vestfjörðum.

Tekjur kvenna eftir svæðum 1999–2004.
(Heimild: Hagstofa Íslands.)

Konur 1999 2000 2001 2002 2003 2004
Landið allt 100,0 100,0 100,0 100,0 100,0 100,0
Höfuðborgarsvæði 108,5 109,1 108,7 108,7 108,7 109,3
Suðurnes 92,2 91,5 90,8 90,9 90,3 86,5
Vesturland 86,8 85,4 85,9 85,3 85,2 84,6
Vestfirðir 87,2 85,1 83,2 83,9 82,4 82,3
Norðurland vestra 84,5 82,9 83,6 84,2 83,6 82,4
Norðurland eystra 83,9 82,5 84,5 85,0 84,9 84,3
Austurland 85,4 83,5 83,4 83,4 83,7 85,5
Suðurland 85,3 83,6 83,9 83,4 84,0 81,7
Utan höfuðborgarsvæðis 86,3 84,8 85,2 85,3 85,1 84,0


    Á tímabilinu 1998–2003 fjölgaði störfum í þjónustu enn mest á höfuðborgarsvæðinu. Konum fjölgaði mjög í þjónustustörfum og meira á höfuðborgarsvæðinu en utan þess. Á þessu tímabili fjölgaði þjónustustörfum í öllum gömlu kjördæmunum en störfum í landbúnaði, fiskveiðum, fiskvinnslu og iðnaði fækkaði. Störfum fjölgaði á landinu um 7%, um 14% í þjónustugreinum en fækkaði í frumvinnslugreinum um 13,2%, mest um 41,9% í fiskveiðum á Vestfjörðum og um 12% í landbúnaði á Austurlandi, Norðurlandi vestra og eystra.

Fjöldi starfa á höfuðborgarsvæðinu og utan þess 1998–2003.
(Heimild: Hagstofa Íslands.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.






    Þjónustustörfum fjölgaði hlutfallslega mest, um 17%, á Suðurlandi. Á Suðurlandi, Reykjanesi og Vesturlandi fjölgaði þjónustustörfum umfram fækkun í öðrum atvinnugreinum en í öðrum landshlutum dróst heildarfjöldi starfa saman. Í fiskvinnslu fækkaði störfum á þessu tímabili um 32,6% á Suðurlandi, 28,1% á Norðurlandi eystra, 23,6% á Norðurlandi vestra og um tæplega 18% á Vestfjörðum og Reykjanesi.

Skipting starfa á höfuðborgarsvæðinu 1998–2003.
(Heimild: Hagstofa Íslands.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




    Bættar samgöngur kunna að nokkru leyti að skýra þá breytingu að fólksfjölgun hefur orðið í nágrenni við höfuðborgarsvæðið og að atvinnu- og þjónustusvæði hafa stækkað. Hvalfjarðargöngin voru tekin í notkun 1998 en þau hafa haft mikil áhrif á Vesturlandi, einkum á því sunnanverðu, bæði á atvinnulíf og aðra búsetuþætti. Atvinnusvæðið stækkaði, fyrirtækjum og íbúum fjölgaði, aðgengi að þjónustu og afþreyingu batnaði og vöruverð lækkaði.

Skipting starfa utan höfuðborgarsvæðisins 1998–2003.
(Heimild: Hagstofan Íslands.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




    Um 15% starfsmanna álvers í Hvalfirði búa á höfuðborgarsvæðinu, 65% á Akranesi og 20% í Borgarnesi og í nágrenni verksmiðjunnar. Með stækkun álvers horfir til frekari íbúafjölgunar á þessu svæði sem og á Austurlandi með álversframkvæmdum þar. Á höfuðborgarsvæðinu hafa framkvæmdir verið miklar á sviði orkuvinnslu og veitna, samgangna og íbúðabygginga og horfur eru til að svo verði áfram. Sveitarfélög á svæðinu gera áfram ráð fyrir mikilli fólksfjölgun.
    Síðasta áratug voru karlar fleiri en konur í öllum landshlutum öðrum en höfuðborgarsvæðinu þar sem konur voru fleiri og í öllum landshlutum öðrum en höfuðborgarsvæðinu var fjöldi í aldurshópnum frá 25 til 35 ára undir landsmeðaltali. 87% kvenna á vinnumarkaði störfuðu í þjónustugreinum og 58% karla. Svipaða sögu má segja um nágrannalöndin, þar búa fleiri konur í borgum en karlar, færri konur en karlar búa í dreifbýli og konur starfa að stórum hluta í þjónustugreinum.
    Þó störfum í fiskvinnslu hafi fækkað, en þau hafa að stórum hluta verið kvennastörf á landsbyggðinni, hefur aðfluttu fólki fjölgað í þessum störfum. Niðurstöður rannsókna benda til þess að fjölskyldur séu líklegri til að flytja brott ef konurnar eru óánægðar í starfi. Hátt hlutfall kvenna af íbúum höfuðborgarsvæðisins og stór hlutur þeirra í þjónustustörfum, sem jafnframt eru flest og fjölbreyttust á höfuðborgarsvæðinu, bendir í sömu átt. Rannsóknir benda einnig til þess að aðrir búsetuþættir en atvinna ráði miklu um það hvar fólk vill búa. Fjölbreytni á flestum sviðum og aðgengi að hinum ýmsu kostum sem í boði eru í samfélaginu er mikilvægur búsetuþáttur. Fjölmenn atvinnu- og þjónustusvæði, sem gefa kost á slíkri fjölbreytni, eru því eftirsótt til búsetu. Höfuðborgarsvæðið hefur mest að bjóða að þessu leyti og sömuleiðis Akureyri ásamt næsta umhverfi. Nokkrir aðrir þéttbýlisstaðir hafa haldið íbúatölunni í horfinu og í sumum hefur íbúum fjölgað, einkum í nágrenni höfuðborgarinnar. Nágrennið við hana og batnandi samgöngur virðast skýra íbúafjölgun á suðvestanverðu landinu að talsverðu leyti og er vísbending um að áherslur kunni að vera að breytast varðandi búsetuval.
    Reykjavík hefur orðið öflugasti vaxtarkjarni Íslands, markaður sem stækkaði og grundvallaði frekari vöxt, ekki síst fyrir atbeina og uppbyggingarstarf á vegum ríkisins. Áhrif Reykjavíkur á nálægar byggðir hafa leitt af sér öflugt atvinnusvæði og knúið uppbyggingu í byggðum og bæjum suður um Reykjanes, austur yfir Hellisheiði og norður fyrir Hvalfjörð. Þetta svæði er að heita má eitt atvinnusvæði. Innan þessa svæðis eru öflug bæjarfélög sem eiga sitt eigið áhrifasvæði eins og Akranes og Selfoss. Mörk hins virka atvinnusvæðis höfuðborgarinnar virðast liggja í 30 til 60 mínútna akstursfjarlægð frá miðborginni. Með tvöföldun Reykjanesbrautar, Sundabraut og bættum vegi yfir Hellisheiði mun atvinnusvæði höfuðborgarinnar styrkjast enn og íbúum fjölga.
    Nokkur sveitarfélög í nágrenni höfuðborgarsvæðisins hafa á síðustu árum vakið athygli á kostum sínum til búsetu meðfram því að vinna sé sótt til höfuðborgarinnar, þau bjóði umhverfi sem betur henti barnafjölskyldum en borgarumhverfið, nábýli við lifandi náttúru og góða staðbundna þjónustu. Jarðir í nágrenni höfuðborgarinnar virðast líka eftirsóttar. Í nágrenni nokkurra þéttbýlisstaða má greina svipaða þróun, fólk kaupir jörð og sest þar að, nýtur kosta þess að búa í sveitinni en stundar vinnu í þéttbýlinu. Þróun upplýsingatækni og fjarskipta styður breytingar af þessu tagi. Sveitarfélög á Suðurlandi undirbúa um þessar mundir markvissar aðgerðir til að nýta sér þessa þróun til að fá fólk til að setjast þar að. Sú þróun að íbúar stórra borga flytji úr borgunum til smærri þéttbýlisstaða í nágrenni þeirra hefur verið stöðug í nágrannalöndunum á undanförnum árum. Breytingin á búsetumunstri hér á landi gæti bent til svipaðrar þróunar.
    Áhrif Reykjavíkur á aðrar byggðir landsins eru líka augljós, ekki aðeins þau að hún dregur þaðan íbúa heldur hefur byggst upp í borginni sérhæfð og samkeppnishæf starfsemi á ýmsum sviðum, verslun, þjónusta og menntun sem landsmenn geta sótt án þess að fara yfir haf. Hún hefur skilað aftur menntuðu fólki til þeirra byggða landsins sem hafa getað tekið við því, hún hefur skilað þangað framförum, tækninýjungum og markaðsaðgangi. Reykjavík er þannig bæði landskjarni og landshlutakjarni.
    Með fjölgun þjónustustarfa, samgöngubótum og stækkun atvinnu- og þjónustusvæða hefur ríkið stuðlað að bættum búsetuskilyrðum í landinu. Þjónusta og starf sveitarfélaga að bættum búsetuskilyrðum hefur líka skilað árangri. Ferðatími milli byggða á landinu hefur þó verið langur, vetrarfærð lengt hann enn, atvinnu- og markaðssvæði stækkað lítið og íbúafækkun þá gert stækkun að engu. Byggðakjarnar utan við áhrifasvæði Reykjavíkur hafa fáir náð því að verða öflugir, vöxtur þeirra stærri verið hægur og fleiri átt við íbúafækkun að stríða.
    Með því að efla nokkra kjarna sem hafa styrk í þeim landshlutum sem hafa búið við íbúafækkun, stækka áhrifasvæði þeirra með samgöngubótum og styrkja þessi svæði til að skapa sóknarfæri og samkeppnisstöðu virðist mega leggja grundvöll að sjálfbærum vexti. Áhrif þessara kjarna á landshlutana gætu orðið svipuð áhrifum Reykjavíkur á grannsvæði sín þó að þau verði ekki eins sterk.
    Vaxtarsamningur fyrir Eyjafjarðarsvæðið er skref í þessa átt og brýnt að stækka enn áhrifasvæði Akureyrar til Norðurlands alls með skilvirkum samgöngubótum.
    Með uppbyggingu á Austurlandi, virkjunum, álveri og samgöngubótum, eru að skapast forsendur fyrir öflugt atvinnu- og markaðssvæði á Miðausturlandi. Mikilvægt er að stækka atvinnusvæði enn til þess að nýta þau sóknarfæri sem skapast með álverinu í Reyðarfirði og bæta samkeppnisstöðu. Frekari samgöngubætur á svæðinu þurfa forgang til að gagnast á réttum tíma.
    Vaxtarsamningur fyrir Vestfirði er, á sama hátt og í Eyjafirði, skref í þá átt að efla samstarf þéttbýlisstaða á Vestfjörðum, skjóta stoðum undir virkt markaðssvæði þar og aðsetur fleiri ríkisstofnana á svæðinu.

2.2 Samgöngur og fjarskipti.
    Miðstöð áætlunarflugs hefur verið í Reykjavík en stöðum með áætlunarflug hefur fækkað, vöruflutningar með skipum milli hafna innan lands hafa nánast lagst af og þessi þróun hefur leitt af sér meiri umferð um þjóðvegina og mun meira álag á þá en áður, jafnvel meira en þeir eru byggðir fyrir. Góðar og greiðar samgöngur eru hvarvetna mikið áherslumál í byggðaþróun og stöðugt er unnið að endurbótum á þjóðvegum og þjónustu við bílaumferð, svo sem snjómokstri. Vegalengd í kílómetrum skiptir ekki ein máli, ferðatíminn og ferðaöryggið eru einnig mikilvægar mælistikur og ráða miklu um aðgengi og stækkun atvinnu- og þjónustusvæða og þar með um samkeppnishæfni byggða. Veggöng undir fjöll og firði hafa ekki síst áhrif að þessu leyti eins og sést af áhrifum þeirra vegganga sem tekin hafa verið í notkun á síðustu árum. Þannig hafa veggöngin milli Önundarfjarðar, Súgandafjarðar og Skutulsfjarðar skipt miklu fyrir þéttbýlisstaði vestra og Hvalfjarðargöngin hafa haft áhrif á stóran hluta landsins þótt þau séu mest á Vesturlandi. Á Austurlandi er verið að grafa tvenn veggöng og frekari stækkun atvinnusvæðis þar er mikilvæg til þess að styrkingaráhrif álverksmiðju í Reyðarfirði verði sem mest fyrir byggðir eystra.
    Íslendingar hafa sett sér það markmið að vera í fremstu röð þjóða í nýtingu upplýsingatækninnar. Aðgangur að fjarskipta- og upplýsingatækni skiptir sífellt meira máli fyrir fólk, fyrirtæki og opinberar stofnanir. Hann verður sífellt mikilvægari þáttur í almennum lífsskilyrðum fólks, svo sem aðstöðu þess til að afla sér upplýsinga, hafa áhrif á samfélag sitt, menntast og eiga samskipti við aðra. Slíkur aðgangur hefur einnig áhrif á möguleika á stofnun og starfsemi fyrirtækja og ekki síst fyrir opinberar stofnanir á borð við skóla, rannsóknasetur, bókasöfn og stjórnsýslustofnanir.
    Nýting fjarskipta- og upplýsingatækni felur í sér einstaka möguleika til að jafna aðstöðumun milli borgaranna, sem m.a. getur skapast af fjarlægð milli staða og strjálbýlis, t.d. til að afla sér háskólamenntunar án þess að þurfa að flytjast búferlum og til fjarlækninga, því í mörgum tilvikum gefur hin nýja tækni færi á því að bjóða sérhæfðari og fullkomnari heilbrigðisþjónustu um land allt en nú býðst. Með lagningu ljósleiðara og áherslum á upplýsingatækni hefur ríkið bætt aðgengi til náms og samkeppnishæfni stofnana og fyrirtækja um allt land. Nú eru fyrirliggjandi drög að nýrri fjarskiptaáætlun fyrir tímabilið 2005–2010. Þar er lagt til að upp verði tekin viðmið svokallaðrar samþjónustu sem er metnaðarfullt viðmið til viðbótar við þau lágmörk sem gilda í Evrópusambandinu.

2.3 Menning og menntun.
    Á síðustu árum hefur athygli beinst mjög að menningu og hlut hennar í byggðaþróun, einkum í tengslum við menningartengda ferðaþjónustu, fyrir sjálfsmynd byggðasamfélaga og áhrif á búsetu. Í nýlegri könnun á sænskum áætlunum um vöxt byggða þar í landi kom í ljós að í öllum byggðum með íbúafjölgun var athygli beint að þeirri þýðingu sem menning hefur fyrir byggðaþróun. Aukin starfsemi á sviði fornleifarannsókna og minjaverndar hefur vakið áhuga og vitund um verðmæti og gildi menningararfleifðar.
    Í nokkrum byggðarlögum hefur útlendingum fjölgað verulega og áhrif þeirra á staðbundna menningu og atvinnulíf geta orðið gjöful. Áhersla hefur verið á að auðvelda þessu fólki aðgengi að þjónustu samfélagsins og stuðla að farsælli aðlögun þess.
    Listviðburðir og listaverk hafa orðið útflutningsvara, bæði leikhúsverk og tónlist, og útlenskir ferðamenn koma langan veg til að njóta íslenskra listviðburða og annarra menningarviðburða, svo sem hestamannamóta. Ný hugtök eins og „viðburðatúrismi“ hafa komið fram og áhugi hefur aukist á sóknarfærum til atvinnusköpunar á menningarsviðinu.
    Rannsóknir gefa til kynna að gildi hafi breyst, fyrirmyndir unga fólksins séu aðrar en voru, að flutningur til náms rýri líkur á því að unga fólkið setjist að í heimahögum og að hlutur kvennastarfa hafi mikil áhrif á búsetuval fjölskyldna.
    Atvinnugreinum sem byggja á sérþekkingu hefur vaxið ásmegin, einkum á höfuðborgarsvæðinu, og útflutningur á framleiðslu þeirra og þekkingu er vaxandi. Áhrifa þessarar þróunar gætir þó vítt um landið. Fólk með verk-, tækni-, raungreina- og viðskiptamenntun er mikilvægt fyrir þróun hátæknigreina, nýsköpun og atvinnuþróun og því er þróun menntastofnana mikilvæg. Skilningur á þessu hefur aukist og leitt til breytinga á sviði menntunar á öllum stigum og aðgengi að menntun hefur batnað stórlega, bæði með fjarnámi, háskólum og háskóla- og þekkingarsetrum víða um land og þar hefur rannsókna- og fræðastörfum fjölgað. Mikill fjöldi fólks stundar nú fjarnám á háskólastigi.
    Aðgerðir ríkisins síðustu ár til þess að efla menntun og menningarstarf í byggðum landsins hafa verið fjölþættar. Skólar og þekkingarsetur á framhalds- og háskólastigi hafa verið styrkt, sem og safnastofnanir og rannsóknar- og fræðastarf, og samstarf hefur verið við sveitarfélög um gerð og starf menningarhúsa. Þá hafa verið settar á laggirnar stofnanir til styrktar nýsköpun og frumkvöðlastarfi og til hvatningar konum í atvinnulífi og með samgöngubótum hafa þjónustusvæði stofnana verið stækkuð, sem og starfssvæði félaga um listsköpun og afþreyingu.
    Ríkið hefur beitt sér fyrir mikilli uppbyggingu í Háskólanum á Akureyri, háskólar hafa verið stofnaðir á Bifröst, Hvanneyri og á Hólum, háskólasetur og rannsóknastofnanir á fleiri stöðum og áhersla á fjarnám á framhalds- og háskólastigi hefur skilað sér í menntunarstöðvum víða um land. Með sameiningu Tækniháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík verður til fjölbreytt menntastofnun í nánu samstarfi við fræðslu- og rannsóknastofnanir iðnaðarins, þar sem lögð verður aukin áhersla á meiri og fjölbreyttari verk- og tæknimenntun auk þess sem kennaramenntun þar verður í samræmi við þarfir atvinnulífsins m.a. með aukinni áherslu á vinnustaðakennslu.

2.4 Opinber starfsemi.
    Sveitarfélögum hefur fækkað um helming á síðustu tíu árum, til þeirra hafa flust stór verkefni frá ríkinu og er grunnskólinn þeirra stærst. Engu að síður er hlutur sveitarfélaga í útgjöldum hins opinbera miklu minni en annars staðar á Norðurlöndum.
    Fjárhagur sveitarfélaga hefur farið versnandi á undanförnum árum. Ástæður þess eru meðal annars að íbúar vænta sífellt meiri þjónustu sem sveitarfélögin hafa leitast við að veita, eftirlitshlutverk sveitarfélaga er vaxandi og krafa um faglega stjórnsýslu m.a. vegna tilskipana frá Evrópusambandinu. Aðstæður sveitarfélaga eru mjög misjafnar bæði hvað landsstærð og þéttleika byggðar varðar. Í lagasetningu er ekki tekið nægilegt tillit til sveitarfélaga sem ná yfir stór landsvæði og hafa tiltölulega fáa íbúa. T.d. má nefna lög um félagsþjónustu sveitarfélaga og skipulagslög.
    Ríkið hefur auk flutnings verkefna til sveitarfélaganna dregið sig út úr margvíslegri starfsemi og einkavætt hana, selt banka, Símann, sjóði og atvinnufyrirtæki og hlutafélagavætt sum ríkisfyrirtæki, svo sem Póstinn og Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Miklar breytingar hafa orðið á þjónustu banka, pósts og fjarskiptafyrirtækja, útibúum hefur fækkað eða starfsemin verið flutt og þjónusta er nú veitt á netinu meira en áður.
    Aðgerðir ríkisins skipta miklu fyrir byggðaþróun. Fjölgun opinberra starfa hefur orðið langmest á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri. Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri hefur verið markað ákveðið hlutverk og það eflt verulega. Áður hefur uppbyggingar Háskólans á Akureyri verið getið og jákvæðra áhrifa hennar.
    Unnið hefur verið að eflingu sveitarstjórnarstigsins og undirbúnar tillögur um sameiningu sveitarfélaga ásamt tillögum um verkefnatilflutning frá ríki til sveitarfélaga og að lausn á fjárhagsvanda sveitarfélaganna.
    Starfsemi ríkis og sveitarfélaga á sviði grunnþjónustu og grunngerðar er áhrifamikill búsetuþáttur. Þessari starfsemi fylgja líka störf fyrir fólk sem sótt hefur sér framhaldsmenntun sem í sjálfu sér er eftirsóknarvert fyrir byggðaþróunina. Það sama gildir um nýja og eflda þjónustu á vegum sveitarfélaga, henni hafa fylgt störf sem henta báðum kynjum. Samstarf sveitarfélaga er að sama skapi mikilvægt. Í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga er árlega ráðstafað til sveitarfélaganna u.þ.b. 10 milljörðum kr. vegna margvíslegra jöfnunargreiðslna og Lánasjóður sveitarfélaga hefur gegnt miklu hlutverki og fjármagnað uppbyggingu þýðingarmikilla mannvirkja í sveitarfélögum um allt land síðustu 30–40 árin.
    Áætlanagerð ríkisstofnana, sveitarfélaga og samtaka þeirra er líka áhrifaþáttur fyrir byggðaþróun, að sköpuð sé sameiginleg framtíðarsýn og markmið sett. Hins vegar þarf að samræma þessar áætlanir, laga þær að breyttum aðstæðum, svo sem í samgöngum og breyttum markaðssvæðum og í ljósi þeirra breytinga á skipulagslögum sem standa fyrir dyrum og byggjast á tilskipunum Evrópusambandsins.
    Íslendingum hefur að jafnaði gengið vel að nýta sér þau tækifæri sem þeim hafa boðist með þátttöku í fjölþjóðlegum verkefnum. Íslendingar eru þátttakendur í norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins (NPP). Meginmarkmið hennar er að stuðla að eflingu atvinnu- og efnahagslífs svæða og byggða með svipaðar aðstæður. Þátttaka Íslands hefur skilað sér í nýjungum í atvinnulífi og þjóðlífi, aukinni þekkingu og kunnáttu einstaklinga sem nýtist samfélaginu nú og í framtíðinni. Með aukinni alþjóðavæðingu er sífellt mikilvægara að vinna að alþjóðlegum verkefnum til að auka samkeppnishæfni byggða og atvinnulífs.

2.5 Atvinnuvegir.
    Þrátt fyrir efnahagslegan stöðugleika í landinu undanfarin ár hefur rekstrarumhverfi fyrirtækja á landsbyggðinni verið þeim erfitt að mörgu leyti. Störfum hefur haldið áfram að fækka í frumvinnslugreinum og fiskvinnslu en fjölgað í þjónustu, einkum á höfuðborgarsvæðinu en líka á stærri þéttbýlisstöðum. Fyrir þessu eru bæði efnahagslegar og náttúrufarslegar ástæður. Gengisþróun íslensku krónunnar undanfarin missiri hefur komið illa við höfuðatvinnuvegi á landsbyggðinni, útflutningsgreinar sem skipuleggja starfsemi sína langt fram í tímann, t.d. fiskvinnslu og ferðaþjónustu. Náttúrufarslegar ástæður hafa líka áhrif sem t.d. má sjá um þessar mundir á dræmri rækjuveiði og að skelveiðar á Breiðafirði hafa lagst af tímabundið vegna mikils náttúrulegs dauða í skelstofninum. Nokkur fyrirtæki í iðnaði hafa flutt hluta af starfsemi sinni úr landi þangað sem vinnuafl er ódýrara, svo sem fyrirtæki í hátækniiðnaði og textíliðnaði af ýmsu tagi.
    Íslenskt atvinnulíf hefur gengið í gegnum mikið breytingaskeið með hlutafélagavæðingu, samruna fyrirtækja, endursköpun og útrás á erlenda markaði og fjárfestingum erlendis. Af hálfu opinberra aðila hefur markvisst verið unnið að því að bæta rekstrarumhverfi fyrirtækjanna í landinu. Alþjóðavæðing atvinnulífsins hefur kallað eftir samræmdum starfsskilyrðum fyrirtækja ekki síst vegna reglna sem settar hafa verið vegna EES-samningsins en með honum varð Ísland hluti af innri markaði ESB. Skattar á fyrirtæki hafa verið lækkaðir og aðgengi að fjármagni til framkvæmda er greiðara en nokkru sinni. Unnið hefur verið að því að jafna aðgengi landsmanna að fjarskiptanetinu, bæði með uppbyggingu grunnnetsins og jöfnun kostnaðar. Hröð þróun hefur verið á sviði upplýsingatæknimála undanfarin ár, m.a. fyrir opinberan stuðning við þróunarverkefni á þessu sviði og vaxandi skilning á mikilvægi þess fyrir atvinnulíf og byggð.
    Hagfræðingar spá því að fram undan sé á Íslandi langt hagvaxtarskeið sem felur í sér sóknarfæri fyrir atvinnuvegina en líta þarf til þess að þau gefist um allt land og að staðbundar auðlindir verði nýttar til uppbyggingar.
    Hátæknigreinar eins og upplýsingatækni og framleiðsla lyfja, lækningatækja og sérhæfðs vélbúnaðar hafa vaxið hratt allra síðustu ár og er hlutur þeirra nú um 4% af landsframleiðslunni. Iðnaður aflar nú tæplega fjórðungs gjaldeyristekna þjóðarbúsins og hefur sú hlutdeild tvöfaldast frá gildistöku EES-samningsins eða úr 12% 1994 í 24% árið 2004. Helmingur af þessari aukningu kemur frá útflutningi hátæknigreina en hann var aðeins um 7% fyrir rúmum áratug. Í framtíðarsýn hátækniiðnaðarins er gert er ráð fyrir að gjaldeyristekjur af starfsemi íslenskra hátæknifyrirtækja muni verða ríflega fjórfalt hærri árið 2010 en þær voru árið 1998, eða um 75 milljarðar kr.
    Í löndum þar sem hátækni hefur fleygt mest fram býr atvinnulíf við hagstæð rekstrar- og samkeppnisskilyrði, öflugan stuðning við nýsköpun á sviði hátækni og gott aðgengi vænlegra sprota- og nýsköpunarfyrirtækja og eldri fyrirtækja að þolinmóðu áhættufjármagni. Þá eru hagstæð skilyrði fyrir almenna framtaksfjárfesta þýðingarmikil.
    Frumkvöðlafræðsla hefur verið stórefld undanfarin ár og fræjum hefur verið sáð sem vænta má að skili þjóðarbúinu uppskeru í formi nýrra atvinnutækifæra á komandi árum. Með tilkomu opinberra stuðningsstofnana og -sjóða hafa möguleikar á styrkveitingum til rannsókna og frumkvöðlastarfs í atvinnulífinu aukist og með því að efla stoðkerfi atvinnulífsins hefur verið leitast við að leiðbeina og styðja slíkt starf. Þar hefur starf atvinnuþróunarfélaganna sem starfa í öllum landshlutum reynst mikilvægt.
    Með vaxandi samkeppni á fjármagnsmarkaði hafa langtímavextir viðskiptabanka og sparisjóða lækkað mjög verulega, fyrirtækjum og einstaklingum á landsbyggðinni til hagsbóta. Þetta hefur hins vegar leitt til þess að opinberir lánasjóðir hafa tapað miklum fjölda viðskiptavina með þeim afleiðingum að tekjur þeirra dragast verulega saman. Enn verður þó að telja að full þörf sé á opinberri lánastarfsemi fyrir fyrirtæki í byggðum landsins, einkum til að tryggja aðgengi þeirra að fjármagni á viðunandi kjörum og þá ekki í samkeppni við viðskiptabankana um lánakjör. Mikilvægt er að samþætta krafta þeirra opinberu sjóða og stofnana sem þjóna fyrirtækjum í öllum atvinnugreinum með áherslu á landsbyggðina. Samþættingin þarf að ná til allra styrktarforma, lánastarfsemi, hlutafjárþátttöku, veitingu stofnstyrkja, ábyrgða og annars konar verkefnafjármögnunar auk aðgengis að sérfræðiþekkingu. Með nýjum áherslum yrði stoðkerfi atvinnulífsins skilvirkara og líklegra til að ná settum markmiðum.
    Með stuðningsaðgerðum og stofnanastarfi hefur ríkið leitast við að auðvelda aðgengi kvenna að vinnumarkaði, að jafna skilyrði kynjanna í atvinnulífi og að nýta kraft og viðhorf kvenna til uppbyggingar.
    Með byggingu raforkuvers við Kárahnjúka og samningum um byggingu álvers í Reyðarfirði hefur verið stigið eitt stærsta spor sem stigið hefur verið á síðari árum til að bæta lífskjör og afkomumöguleika fólks og fyrirtækja á Austfjörðum, þaðan sem fólksflutningar hafa verið einna mestir á undanförnum árum. Þessi framkvæmd hefur nú þegar haft mjög mikil áhrif á atvinnuástand og tekju- og íbúaþróun á Austurlandi þó svo að hún sé nýlega hafin.
    Ríkar orkulindir og mikil þekking á virkjun og hagnýtingu þeirra skapar Íslandi mikla sérstöðu og sóknarfæri til framtíðar. Orkulindirnar hafa fyrst og fremst verið nýttar til húshitunar og stóriðju og nokkrir góðir stóriðjukostir eru enn taldir vera fyrir hendi. Ný þekking og tækni þarf að leiða til þess að orkulindir verði hagnýttar á mun fjölbreyttari hátt í framtíðinni.
    Ferðaþjónusta hefur verið ört vaxandi atvinnugrein um allt land. Stjórnvöld hafa stutt uppbygginguna á ýmsan hátt og horfur eru á að stuðningur í framtíðinni muni beinast að því að ná hámarksafrakstri í greininni og jafna álagið á land og þjóð frekar en að hámarka fjölda ferðamanna. Mikilvægt er að bæta nýtingu fjárfestinga í ferðaþjónustu, beina markaðssetningu að héruðum sem síður hafa notið athygli ferðamanna og lengja ferðatímabilið. Ferðamálaáætlun fyrir árin 2006–2015 skapar forsendur fyrir markvissar aðgerðir á sviði ferðaþjónustu og dregur úr líkum á röngum fjárfestingum. Á sama hátt skapar samgönguáætlun 2003–2014 forsendur fyrir markvissar samgöngubætur með tilliti til byggðaþróunar og eftirsóknarverða stækkun markaðssvæða.
    Horfur eru til að störfum muni áfram fækka innan hinna hefðbundnu atvinnugreina, landbúnaðar, fiskveiða og fiskvinnslu, því orsakir þessarar þróunar síðustu áratuga eru að miklu leyti alþjóðavæðing, samkeppni og tækniþróun. Þessi þróun hefur leitt af sér vaxandi kröfu um samkeppnishæfni byggða og fyrirtækja, og eflingu rannsókna, tækniþróunar og nýsköpunar sem byggist á sérkennum lands og þjóðar og er líkleg til árangurs. Þessi þróun felur þó líka í sér sóknarfæri í landbúnaði eða í tengslum við hann, t.d. á sviði ferðaþjónustu, fiskeldis, garðyrkju, lífrænnar framleiðslu, hrossaræktar, líftækni og raforkuframleiðslu auk vöruþróunar í hefðbundinni framleiðslu.
    Innan sjávarútvegs mun nýsköpun að talsverðu leyti byggjast á bættri nýtingu afla sem m.a. mun grundvallast á nýjum fræðasviðum á borð við líftækni. Miklir möguleikar eru fyrir eldi sjávardýra og markvisst er unnið að rannsóknum og þróun framleiðsluaðferða á því sviði í samstarfi rannsóknastofnana og fyrirtækja í sjávarútvegi. Einnig virðast vera góð sóknarfæri á sviði menningar og skapandi greina, í starfi mennta- og rannsóknastofnana, opinberri þjónustu og orkufrekum iðnaði.
    Víða erlendis hafa fyrirtækjaklasar eflst, ekki síst til að tryggja aukna samkeppnishæfni atvinnulífs og svæða. Aukið mikilvægi klasa er hluti af alþjóðavæðingu og þeim breytingum sem orðið hafa í viðskiptaumhverfi á síðustu árum, ekki síst með auknu frjálsræði á öllum sviðum, svo sem innan EES-svæðisins. Klasar veita fyrirtækjum tækifæri til að vinna saman að verkefnum eða ákveðinni framtíðarsýn án þess að koma þurfi til samruna fyrirtækja, yfirtöku eða aukins fjárhagslegs styrks. Formið hentar þannig fyrirtækjum og stofnunum sem teljast of lítil til að ráða við stór og yfirgripsmikil verkefni og eykur sameiginlegan slagkraft þeirra. Markmiðið er sameiginleg framtíðarsýn fyrirtækja um að ná árangri á fjarlægum mörkuðum. Klasasamstarfið á jafnt við um fyrirtæki í samkeppni og fyrirtæki sem eru birgjar annarra fyrirtækja og hefur í för með sér bættar forsendur fyrir útrás fyrirtækja.
    Sóknarfæri íslensks atvinnulífs eru nátengd áframhaldandi virkri þátttöku okkar í Evrópusamvinnunni og alþjóðavæðingunni. Alþjóðavæðing íslensks athafnalífs á jafnt við um aukin umsvif erlendra fyrirtækja á Íslandi og aukin umsvif íslenskra fyrirtækja erlendis og mikilvægt er að tryggja hlut íslenskra byggða í þeirri þróun.

2.6 Landshlutar.
    Framtíðarhorfur fyrir byggðaþróun eru misjafnar eftir landshlutum og raunar eru skilyrði misjöfn innan landshlutanna. Alls staðar eru þó möguleikar fyrir hendi en samgöngur og samkeppnishæfni ráða miklu, svo og þekking til nýsköpunar og stjórn- og stoðkerfi sem er fært um að styðja nýsköpun og bæta búsetuskilyrði. Nú stendur yfir mikið hagvaxtarskeið sem spáð er að muni standa næstu missiri. Veltur á miklu að það nýtist sem víðast um landið.

Suðvesturland utan höfuðborgarsvæðisins.
    Sérstaða þessa svæðis byggist á nálægð við höfuðborgarsvæðið. Suðvesturland, allt frá Árnessýslu til Borgarfjarðar, er smám saman að verða eitt atvinnu- og þjónustusvæði. Greiðar samgöngur eru um svæðið og íbúar hafa góðan aðgang að allri þeirri þjónustu og þekkingarstarfsemi sem í boði er á höfuðborgarsvæðinu. Með áframhaldandi uppbyggingu orkufreks iðnaðar á Grundartanga, hafnasamstarfi á svæðinu og eflingu háskóla, Viðskiptaháskólans að Bifröst og Landbúnaðarháskólans að Hvanneyri, og samstarfi þeirra við atvinnulífið munu byggðarlög á suðurhluta Vesturlands halda áfram að eflast. Ákveðið hefur verið að ráðast í gerð vaxtarsamnings fyrir Vesturland.
    Á síðustu árum hefur fólki fjölgað í Árnessýslu og atvinnulíf eflst. Skilyrði virðast vera til þess að þessi þróun haldi áfram, góðir landkostir, þétt byggð og nálægð við höfuðborgarsvæðið. Selfoss er þjónustumiðstöð Suðurlands og uppbygging þar í þjónustugreinum hefur verið mikil. Þéttbýlisstaðirnir austan fjalls hafa stefnt að því að fá fólk til að flytjast þangað, ekki síst frá Reykjavík, og samstarf þeirra um rafrænt samfélag virðist geta leitt til meiri árangurs og bætt hinar hagstæðu aðstæður fyrirtækja. Suðurstrandarvegur mun bæta samband við alþjóðaflugvöll.
    Sama má segja um Suðurnes og nágrannasvæði höfuðborgarinnar í norðri og austri. Sérstaða Suðurnesja felst í staðsetningu alþjóðaflugvallarins og aðgengilegum háhitasvæðum. Uppbygging á sviði ferðaþjónustu hefur grundvallast á þessum aðstæðum og þær má nýta frekar. Hafnarskilyrði og nágrenni við fiskimið hafa skotið stoðum undir mikla útgerð og fiskvinnslu. Ástæða fyrir íbúafjölgun á Suðurnesjum síðustu ár er þó frekar nágrennið við höfuðborgarsvæðið og flugvöllinn.

Breiðafjarðarbyggðir.
    Íbúum hefur fækkað á Snæfellsnesi síðasta áratug nema í Grundarfirði. Með samgöngubótum síðustu ára, Hvalfjarðargöngum, Bröttubrekku, Vatnaleið og í Kolgrafarfirði, búa byggðir á nesinu við góðar samgöngur við höfuðborgarsvæðið. Á þéttbýlisstöðunum á norðanverðu nesinu er atvinnulíf fremur einhæft en næg atvinna. Sjávarútvegur er þó fjölbreyttur og byggist mjög á sókn á nálæg fiskimið. Ferðaþjónusta stendur traustum fótum og er vaxandi á Snæfellsnesi, m.a. vegna fjölbreyttrar náttúru á landi og sjó og góðra samgangna allan ársins hring. Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull var stofnaður árið 2001 og skapar hann ný sóknarfæri í ferðaþjónustu, t.d. má nýta land betur fyrir sumarhúsabyggð. Möguleikar eru í fiskeldi, kræklingarækt, frekari nýtingu jarðhita á svæðinu og í fullnýtingu sjávarfangs.
    Í Dalabyggð og Reykhólahreppi hefur fólki fækkað mikið og samdráttur verið í atvinnulífi, einkum í sauðfjárrækt. Möguleikar felast helst í vöruþróun í landbúnaði, ferðaþjónustu, frekari uppbyggingu Þörungaverksmiðjunnar á Reykhólum og víðtækari nýtingu jarðhita.

Vestfirðir.
    Þéttbýlisstaðir á Vestfjörðum byggja afkomu sína fyrst og fremst á sjávarútvegi. Atvinnulíf er fremur fábreytt nema á Ísafirði, atvinna hefur verið næg en íbúum hefur samt fækkað alls staðar síðasta áratug. Flytja hefur þurft inn vinnuafl til fiskvinnslu.
    Ferðaþjónusta hefur verið í sókn og markaðssetning Vestfjarða á því sviði vakið mikla athygli. Hin mörgu þjóðerni sem nú má finna á Vestfjörðum kunna að fela í sér möguleika til atvinnusköpunar og þróunar, t.d. á sviði ferðaþjónustu og skapandi greina. Sóknarfæri felast líka í uppbyggingu rannsókna- og menntastofnana í tengslum við fyrirtæki í hefðbundnum atvinnugreinum og tengdum greinum, svo sem eldi sjávardýra. Vetrarsamgöngur innan Vestfjarða hafa háð samstarfi þéttbýlisstaða, fyrirtækja og stofnana. Með greiðari og öruggari samgöngum milli þéttbýlisstaðanna opnast möguleikar og búsetuskilyrði batna. Vaxtarsamningur fyrir Vestfirði var gerður vorið 2005.
    Í Vestur-Barðastrandarsýslu hefur fólki fækkað mikið undanfarin ár. Atvinnuástand hefur þó verið gott og jafnvel hefur þurft að flytja inn erlent vinnuafl til fiskvinnslu. Atvinnulífið er einhæft og byggist mest á sjávarútvegi. Helstu sóknarfæri auk sjávarútvegs eru í ferðaþjónustu og fiskeldi.
    Í Strandasýslu hefur fólki fækkað stöðugt. Byggð er dreifð og atvinnulíf einhæft, hefur byggst á sauðfjárrækt og hlunnindanýtingu í sveitum og sjávarútvegi á Hólmavík og Drangsnesi. Nokkur vöxtur hefur þó verið í ferðaþjónustu og Galdrasetrið á Hólmavík er dæmi um velheppnaða nýsköpun á því sviði.
    Ákveðið hefur verið að ráðast í gerð vaxtarsamnings fyrir Vesturland.

Norðurland vestra.
    Fólki hefur fækkað mikið í Húnaþingi undanfarin ár og atvinna dregist saman, jafnt í þéttbýli sem sveitum, og útlit er fyrir að þessi þróun haldi áfram nema sérstaklega verði snúist gegn henni. Atvinnulíf byggist á landbúnaði, sjávarútvegi og þjónustu, tekjur eru almennt lágar nema á Skagaströnd og þar hefur fólksfækkun verið minnst. Ullarþvottastöð hefur hafið starfsemi á Blönduósi en annars hefur dregið úr vinnslu afurðastöðva á Blönduósi og Hvammstanga. Með veiðum og vinnslu innfjarðarrækju fyrir þremur áratugum varð mikil uppsveifla á Hvammstanga sem ekki hefur náðst að fylgja eftir.
    Aðstæður fyrir stóriðju hafa verið taldar góðar á svæðinu milli Skagastrandar og Blönduóss og með Þverárfjallsvegi stækkar atvinnu- og þjónustusvæðið til Sauðárkróks.
    Ferðaþjónusta hefur verið í sókn á svæðinu, einkum í tengslum við menningu, veiði og húnvetnsku heiðarnar, jarðhita og nágrenni við hringveginn.
    Íbúum hefur fækkað í Skagafirði en þar er atvinnulíf og opinber þjónusta tiltölulega fjölbreytt, einkum á Sauðárkróki. Menningartengd ferðaþjónusta hefur verið í þróun, t.d. tengd íslenska hestinum, vesturförum og safnastarfi. Á þessu sviði eru sóknarfæri sem og í fiskeldi og nýjum búgreinum, t.d. hrossarækt og kornrækt. Hólaskóli hefur eflst á undanförnum árum og starfar nú á háskólastigi. Háskóla- og rannsóknarstarf á sviði fiskeldis, sem fram fer í tengslum við öflug útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki, kann að fela í sér tækifæri til nýsköpunar. Vöruþróun í sauðfjárslátrun í samvinnu við Nýsjálendinga er athyglisverð og lofandi. Landkostir og hafnarskilyrði hafa verið talin góð fyrir orkufrekan iðnað austan við botn Skagafjarðar og þá með hliðsjón af mögulegri orkuframleiðslu jökulánna í Skagafirði.
    Ákveðið hefur verið að ráðast í gerð vaxtarsamnings fyrir Norðvesturland.
    Íbúum á Siglufirði fækkaði allan seinni hluta síðustu aldar og síðasta áratug fækkaði þeim um rúm 20%. Ekki hefur náðst að skapa fjölbreytni í atvinnulífi og sóknarfæri er helst að finna í fullnýtingu sjávarafla og ferðaþjónustu. Uppbygging síldarminjasafns hefur vakið athygli og hlotið viðurkenningu og aðstæður til skíðaíþrótta eru óvíða betri frá náttúrunnar hendi en á Siglufirði. Héðinsfjarðargöng munu auðvelda aðgang að fjölbreyttri þjónustu í Eyjafirði og bæta búsetuskilyrði.

Eyjafjörður.
    Nokkur íbúafjölgun hefur verið síðasta áratuginn á Akureyri, Grenivík, Svalbarðseyri og í Eyjafjarðarsveit. Íbúum hefur hins vegar fækkað í öðrum sveitarfélögum við Eyjafjörð, einkum út með firðinum að vestan. Störfum í iðnaði hefur fækkað, sjávarútvegur eflst en fyrst og fremst hefur störfum fjölgað í þekkingar- og þjónustugreinum. Akureyri hefur eflst sem skólabær á síðsta áratug með skólum á framhalds- og háskólastigi. Í Eyjafirði búa nú u.þ.b. 20 þúsund manns, í fjölmennasta og öflugasta þéttbýlissvæði utan Suðvesturlands og því sem líklegast er, ásamt Miðausturlandi, til þess að laða til sín fólk og fyrirtæki utan þess svæðis.
    Gerður hefur verið vaxtarsamningur fyrir Eyjafjarðarsvæðið, vinna er hafin í samræmi við hann og væntingar eru miklar um árangur af því starfi. Sameining sveitarfélaga og bættar samgöngur hafa í för með sér bætt búsetuskilyrði og starfsskilyrði fyrirtækja, meiri samkeppnishæfni svæðisins og betri skilyrði til að flytja þangað verkefni frá ríkinu, t.d. tengd sjávarútvegi.
    Sóknarfæri eru á flestum sviðum og byggjast þau á íbúafjölda, þéttbýli og þeirri fjölbreytni sem er að finna á Eyjafjarðarsvæðinu.

Þingeyjarsýslur.
    Íbúum hefur fækkað á Húsavík og atvinnulíf átt undir högg að sækja, bæði vegna tækniþróunar í fiskveiðum og fiskvinnslu og breytinga í vinnslu landbúnaðarafurða. Hins vegar hafa fyrirtæki í ferðaþjónustu verið í sókn. Nálægð við ríkar orkulindir skapar sóknarfæri til framtíðar, í iðnaði, hátækni og líftækni. Í þessu ljósi eru rannsóknir á háhitasvæðum í Þingeyjarsýslum mikilvægar.
    Í Mývatnssveit hefur staðið umbrotatímabil í atvinnumálum og horfur eru óljósar. Ferðaþjónusta er öflug og þar eru sóknarfæri. Áhersla hefur verið lögð á að lengja ferðamannatímann, efla afþreyingarkosti, eins og jarðböðin eru gott dæmi um, og að nýta nálægðina við þjóðgarð norðan Vatnajökuls.
    Í Norður-Þingeyjarsýslu hefur íbúum fækkað mikið undanfarin ár. Samgöngur eru erfiðar, vegalengdir langar, atvinnulíf er einhæft og tekjur lágar. Á svæðinu eru góð skilyrði til sauðfjárræktar og árstíðabundinnar ferðaþjónustu. Á Þórshöfn er staða útgerðar sterk og hefur hún leitt til nýsköpunar við veiðar og vinnslu á kúfiski. Samgöngubætur munu stækka atvinnu- og þjónustusvæði þéttbýlisstaðanna.

Austurland.
    Á Miðausturlandi er unnið að byggingu vatnsaflsvirkjana á hálendinu norðan Vatnajökuls, álvers í Reyðarfirði og að eflingu fiskeldis, allt frá Berufirði til Seyðisfjarðar. Sóknarfæri er líka að finna í nýjum búgreinum, einkum á Fljótsdalshéraði. Möguleikar eru í ferðaþjónustu, t.d. í sérstakri náttúru og nálægð við miðhálendið í tengslum við millilandaflugvöll á Egilsstöðum og ferjusiglingar milli Seyðisfjarðar og hafna á meginlandi Evrópu.
    Uppbygging orkufreks iðnaðar er mjög þýðingarmikil fyrir byggð á Austurlandi og áríðandi að ríki og sveitarfélög standi þannig að undirbúningi að til sem mestra hagsbóta verði fyrir svæðið. Til þessa verks heyra samgöngubætur milli byggða á Miðausturlandi, uppbygging menntastofnana og opinberrar þjónustu og bygging íbúðarhúsnæðis. Þessari uppbyggingu fylgja sóknarfæri fyrir fyrirtæki í landshlutanum.
    Eftir langt tímabil fólksfækkunar hefur íbúum fjölgað síðustu missiri á Miðausturlandi en íbúum hefur áfram fækkað í sveitarfélögum norðan við Fljótsdalshérað. Uppbygging á Miðausturlandi mun hafa áhrif til norðurs þótt Vatnsskarðið dragi úr þeim. Miklu skiptir fyrir byggð í Vopnafirði og norður um, þar sem atvinnulíf er einhæft, að vegasamband við Hérað verði bætt.
    Eftir mikla uppbyggingu síðustu 2–3 áratugi hefur verið afturkippur undanfarin ár í atvinnulífi á Hornafirði, m.a. vegna hagræðingar og samdráttar í landbúnaði og sjávarútvegi sem stendur þó nokkuð traustum fótum og felur í sér færi til sóknar. Þá skapar starfsemi Nýheima skilyrði til þekkingarstarfsemi í tengslum við sjávarfang og vinnslu þess auk þess sem lega Hornafjarðar og nálægð við Vatnajökul skapar sérstöðu fyrir ferðaþjónustu sem hefur verið í þróun og lofar góðu.
    Hafin er undirbúningsvinna við vaxtarsamning fyrir Austurland með áherslu á Höfn.

Suðurland.
    Íbúum hefur heldur fækkað síðasta áratuginn í Rangárþingum en mun meiri fækkun hefur orðið í Vestur-Skaftafellssýslu. Mikil uppbygging í ferðaþjónustu og einstakir náttúrustaðir fela í sér enn frekari sóknarfæri í þeirri grein. Nýjar fræðigreinar og bætt markaðssetning fela í sér möguleika til þróunar í vinnslu landbúnaðarafurða, nýjum búgreinum, matvælaiðnaði og ferðaþjónustu.
    Í vinnu við stefnumótun fyrir Suðurland og Vestmannaeyjar, sem hófst á árinu 2005, með undirbúningi vaxtarsamnings fyrir Suðurland með áherslu á Vestmannaeyjar, munu sóknarfæri í landshlutanum verða greind sérstaklega.

Vestmannaeyjar.
    Í Vestmannaeyjum hefur fólki fækkað mikið. Eyjarnar hafa mikla sérstöðu hér á landi vegna legu sinnar, mikilvægis sjávarútvegs, sérstakrar náttúru, fuglalífs og jarðsögu, byggðarsögu og eyjasamfélagsins. Á litlu svæði má fá yfirsýn yfir þetta allt og það, ásamt góðri þjónustu, hefur skapað Vestmannaeyjum sérstöðu sem ráðstefnustað og áfangastað ferðafólks. Þessa sérstöðu má nýta til þess að þróa ferðaþjónustu enn frekar og bjóða þekkingarfyrirtækjum hagstætt starfsumhverfi. Atvinnulíf er einhæft, tengt sjávarútvegi og fiskvinnslu, og sóknarfæri í þeim greinum er helst að finna í fullnýtingu sjávarfangs. Þekkingar- og rannsóknarstarf í Eyjum er því mikilvægt og bættar samgöngur milli lands og Eyja eru forsenda fyrir þá fjölbreytni í atvinnulífi sem annars eru góð skilyrði fyrir.
    Unnið er að stefnumótun fyrir byggð í Vestmannaeyjum og öðrum hlutum Suðurlands. Í þeirri vinnu munu verða stikaðar leiðir til sóknar á grundvelli staðhátta í Eyjum.


3. Áherslusvið byggðaáætlunar 2006–2009.

    Fólksflutningar til höfuðborgarsvæðisins og nágrannasvæða þess eru afleiðing af fækkun starfa í frumvinnslugreinum, fiskvinnslu og iðnaði, og af fábreytni í atvinnulífi, þjónustu og afþreyingu. Í byggðaáætlun þarf að leggja áherslu á að beina fyrirtækjum í vaxandi atvinnugreinum, þjónustu- og þekkingarfyrirtækjum, út á land og búa í haginn fyrir þau og starfsfólk þeirra. Þetta eykur áherslu á þéttbýlisstaði, samgöngur og aðgengi að rafrænu netsambandi. Stækka þarf markaðssvæði (atvinnu-, verslunar- og þjónustusvæði), styrkja með því grundvöll fyrir mjög sérhæfða starfsemi og skapa skilyrði til samstarfs milli þéttbýlisstaða. Nýsköpun er eftirsóknarverð á öllum sviðum, t.d. tæknisviðum og á sviðum sem byggjast á sérstöðu byggða, sérkennum þeirra í atvinnuháttum, menningu, náttúrufari og staðbundnum auðlindum. Áherslur sem hér eru nefndar voru lagðar í byggðaáætlun 2002–2005 og hafa leitt til aðgerða sem virðast gefa góða raun, þannig að þær leiði til sóknarfæra. Í byggðaáætlun 2006–2009 er því ástæða til að leggja áherslu á líka málaflokka og áður, einkum menntun og menningu, nýsköpunar- og atvinnuþróunarstarfsemi, samgöngur og fjarskipti og styrkingu landshlutakjarna.


4. Byggðaáætlanir og aðgerðir á Norðurlöndum.

    Byggðaaðgerðum á Norðurlöndum má í meginatriðum skipta í tvennt. Annars vegar eru aðgerðir sem ætlað er að jafna aðstöðumun á milli svæða og hins vegar aðgerðir sem beinast að því að örva hagvöxt hvarvetna innan lands. Til fyrrgreindu aðgerðanna teljast atriði er snúa að velferðarkerfi og tekjujöfnun en síðarnefndu aðgerðirnar fela í sér almennari hagstjórn. Þetta er nokkur breyting frá því sem áður var þegar meiri áhersla var lögð á sértækar aðgerðir á einstökum svæðum og á byggðajafnvægi.
    Áhrif flestra hagstjórnaraðgerða á einstaka landshluta eru mismunandi og ráðast m.a. af ólíkri uppbyggingu atvinnulífs í landshlutunum. Þau áhrif sem þessar almennu hagstjórnaraðgerðir hafa á svæðisbundna þróun hafa stundum verið skilgreind sem „breið byggðastefna“ en aðgerðir sem snúa að þróun einstakra svæða sem „þröng byggðastefna“. Sjaldnast er því nóg að líta eingöngu til þeirra ráðstafana sem sérstaklega er ætlað að bæta hag einstakra byggðarlaga, almenn hagstjórn getur einnig haft mikil áhrif á þróun atvinnulífs í hverju sveitarfélagi. Sem dæmi má nefna að enda þótt sömu stefnu sé fylgt við stjórn fiskveiða um allt Ísland geta áhrif þeirrar stefnu verið gerólík á einstök byggðarlög.
    Aðgerðum samkvæmt hinni þröngu byggðastefnu má skipta í nokkra undirflokka eftir áhrifum þeirra á fyrirtæki og einstaklinga, t.d. beinar fjárhagslegar aðgerðir, fjárfestingar í rannsókna- og þróunarstarfi, endurgreiðslur rekstrarkostnaðar og skattalegar aðgerðir. Beinar fjárhagslegar aðgerðir eru t.d. lán, ábyrgðir og áhættufé sem fyrirtækjum er veitt en fjárfestingar í rannsókna- og þróunarstarfi geta t.d. falið í sér fjárfestingar í fyrirtækjum, þróunarverkefni, styrki til rannsókna og þróunar og stuðning við frumkvöðlastarfsemi. Endurgreiðslur á rekstrarkostnaði eru t.d. endurgreiðslur á hluta flutningskostnaðar. Skattalegar aðgerðir fela í sér mismunun á sköttum eftir landssvæðum, t.d. mishátt tryggingagjald.
    Mikil áhersla er á að endurskipuleggja stjórnsýslueiningar, bæði sveitarfélög og ömt eða fylki á Norðurlöndum. Þannig hafa Danir nýlega kynnt hugmyndir um fækkun amta í fimm og breytingar á verkaskiptingu, í Noregi eru komnar fram hugmyndir um verulega fækkun fylkja og í Svíþjóð er einnig verið að endurskoða stjórnsýslueiningar og hlutverk þeirra. Jafnframt hefur byggðastefna margra landa breyst síðustu árum, frá því að ná aðeins til viðkomandi lands til þess að ná í vaxandi mæli til tveggja eða fleiri landa, m.a. fyrir áhrif frá Evrópusambandinu og stuðning þess við samvinnu yfir landamæri, t.d. Interreg-áætlunina.

4.1 Danmörk.
    Samkeppnisaðstaða Danmerkur er aðalmarkmið í danskri byggðastefnu og áhersla lögð á hagvöxt hvarvetna í landinu, bæði á sterkum og veikum svæðum. Þrátt fyrir það má greina ýmis vandamál á landsbyggðinni, m.a. tengd hnignun iðnaðar. Fjárveitingar til veikustu svæða landsins eru tengdar samfjármögnun úr uppbyggingarsjóðum Evrópusambandsins og byggðastefna Danmerkur er nátengd byggðastefnu ESB. Skilgreind hafa verið sérstök jaðarsvæði með tilliti til meðaltekna og atvinnuleysis. Á þessum svæðum búa um 20% þjóðarinnar. Aðaltilgangur svæðaskiptingarinnar er að geta stutt fyrirtæki í samræmi við reglur ESB. Engir sérstakir sjóðir eru til þess, heldur er reiknað með stuðningi úr uppbyggingarsjóðum ESB ásamt mótframlagi frá dönskum stjórnvöldum.
    Stjórnvöld geta veitt áhættufjármagn til lítilla og meðalstórra fyrirtækja þar sem 20% áhættufjármagns koma frá opinberum stjórnvöldum en 80% frá einkageiranum.
    Í árlegri skýrslu ríkisstjórnar til þingsins fyrir árið 2003 kom fram að rík þörf væri á að efla samkeppnishæfni svæða til þess að örva þróun og bæta lífsskilyrði. Ríkisstjórnin hefur í byggðaaðgerðum lagt áherslu á aukna hagkvæmni í stjórnsýslu og að skapa hagstætt rekstrarumhverfi. Gert er ráð fyrir að hvert ráðuneyti geri grein fyrir áhrifum lagafrumvarpa og tillagna á einstök svæði og að það mat verði fastur hluti af ákvarðanaferli í stjórnsýslunni.
    Stjórnarflokkarnir í Danmörku gerðu með sér samkomulag 2005 um að landið skiptist í fimm ömt, sem hvert hafi sinn kjarna. Svæðin eru Norður-Jótland með Álaborg sem miðstöð, Mið-Jótland með Viborg sem miðstöð, Suður-Danmörk með Vejle sem miðstöð, Sjáland með Sorö sem miðstöð og höfuðborgarsvæðið þar sem Hilleröd verður miðstöð. Helstu verkefni þessara amta verða heilsugæsla og öll þjónusta tryggingakerfisins, ábyrgð á áætlanagerð, bæði á sviði byggða og umhverfis, iðnaðar, ferðaþjónustu, menntamála og fleira. Þá munu ömtin sjá um málefni fatlaðra, hafa yfirumsjón með starfsemi áætlanafyrirtækja og að hluta til jarðlestakerfisins.
    Danir hafa lagt mikla áherslu á að stækka atvinnusvæði með samgöngubótum og aðgerðum á húsnæðismarkaði. Skilgreind atvinnusvæði teljast vera 34 og ná þau yfir stærstan hluta landsins. Utan þessara svæða falla jaðarsvæði, einkum eyjar, svæði nyrst og syðst í landinu og staðir háðir fiskveiðum á Vestur-Jótlandi. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að samhæfa stuðning ESB við þessi svæði og mynda þannig sjóð að fjárhæð 4.000 milljónir danskra króna. Markmið þessa átaks er að efla mannauð, styrkja búsetu, bæta fjarskiptakerfi og þjónustu og veita sérstakan stuðning við nýsköpun og stofnun fyrirtækja.

4.2 Finnland.
    Helsta markmið finnskrar byggðastefnu er að stuðla að jafnvægi í byggðaþróun. Helstu áætlanir sem unnið er eftir eru sérhæfingaráætlunin (Centre of Expertise Programme), svæðismiðstöðvaáætlunin (Regional Centre Development Programme) þar sem unnið er að uppbyggingu 34 svæðismiðstöðva, áætlun um borgarstefnu, áætlun um þróun á strjálbýlum svæðum og sérstök áætlun fyrir eyjasamfélög. Aðaláherslan er lögð á alþjóðlega samkeppnisstöðu, hagvöxt og atvinnu. Byggðavandinn telst ekki lengur vera einskorðaður við strjálbýlustu svæðin, heldur er lögð áhersla á að þróa þéttbýliskjarna sem eiga að vera eins konar vaxtarkjarnar víða um landið. Veita á forgang aðgerðum sem miða að því að þróa nýsköpunarumhverfi og fjölbreytt atvinnulíf. Einnig er stefnt að stækkun búa og hagræðingu í landbúnaði og bættum aðstæðum fyrir ferðaþjónustu, fjarvinnslu og búsetu almennt. Ennfremur á að leggja áherslu á samband þéttbýlis og dreifbýlis og áætlanir varðandi víxlverkan milli borga og nágrannasvæða þeirra.
    Búferlaflutningar í Finnlandi hafa svipuð einkenni og búferlaflutningar á Íslandi. Fólk flyst úr dreifbýli í þéttbýli og frá norðurhéruðum til Helsinki og nágrennis, syðst í landinu. Ástandið er hins vegar ólíkt að því leyti að nokkrir aðrir kjarnar hafa byggst upp, svo sem Tampere, Turku, Espoo og Oulu. Finnlandi er skipt í sex umdæmi fyrir stjórnsýslu ríkisins en sveitarfélög eru 446. Þar af eru 111 bæir eða borgir.
    Mikilvægasta viðfangsefni finnsku byggðastefnunnar á árunum eftir 1990 var að aðlaga framleiðslugreinar alþjóðlegri samkeppni og finna leiðir til að mæta mjög miklu atvinnuleysi, sem var allt að 20% og raunar enn hærra sums staðar. Höfuðáhersla var lögð á að byggja upp greinar sem byggðust á þekkingu fremur en hefðbundnar atvinnugreinar þar sem samdráttur hafði orðið. Umfangsmikið net háskóla og tækniskóla skapaði grunn fyrir þessar áherslur, ásamt vísindagörðum, svæðisbundnum rannsóknamiðstöðvum og endurmenntunarmiðstöðvum. Saman mynda þessir aðilar landsnet, sem gengur undir nafninu Centre of Expertise (CoE), sem er lagað að reglum ESB og byggist á ákveðnum, tímabundnum áætlunum. Vinna við að þróa þetta net miðstöðva var megináhersla í lögum um byggðastefnu sem sett voru 1994.
    CoE var upphaflega hrint í framkvæmd með byggðaáætlun sem samþykkt var fyrir árin 1994–1998. Samkvæmt henni var landinu skipt upp í 11 CoE-svæði og síðan markaði innanríkisráðuneyti Finnlands megináherslur í uppbyggingu á skilgreindum tæknisviðum. Að fenginni góðri reynslu var ákveðið að halda áfram með áætlunina og í gildandi áætlun fyrir árin 1999–2006 eru 14 miðstöðvar og tvö landsnet miðstöðva. Áherslur geta verið tiltölulega almennar, eins og í Oulu þar sem mikil áhersla er á fjarskiptalausnir og fyrirtækjaklasa sem hægt er að þróa með slíkum lausnum. Áherslur geta hins vegar einnig verið á mjög sértækum sviðum, eins og í litlu héraði í N-Finnlandi þar sem þróa á starfsemi sem tengist kammertónlist.
    Athyglisverð nýbreytni í finnskri byggðastefnu er tilraunaverkefni í Kainuu-héraði í Austur-Finnlandi. Þar hefur verið kosin héraðsstjórn í almennum kosningum og henni fengin verkefni sem í öðrum héruðum eru á forræði ríkisskipaðra ráða. Helstu verkefni eru á sviði atvinnuþróunar, vegagerðar og svæðisstjórnar, auk skógarhöggs- og umhverfismiðstöðvar.

4.3 Noregur.
    Norsk byggðastefna hefur byggst á því að halda beri öllu landinu í byggð. Þetta markmið hefur verið útfært nánar á síðustu árum þannig að það gildi um byggð í einstökum landshlutum sem samsvara NUTS 2 svæðaskilgreiningu og er m.a. notuð innan Evrópusambandsins. Gerður er greinarmunur á „litlu“ og „stóru“ byggðastefnunni í Noregi. Til stóru byggðastefnunnar teljast ýmis stefnumál stjórnvalda, t.d. á sviði aðgerða í skattakerfinu, grunngerðar (samgangna, fjarskipta, menntunar og heilsugæslu), landbúnaðar, vinnumála, menntunar, landvarna og velferðar. Til litlu byggðastefnunnar teljast hefðbundnar aðgerðir á sviði atvinnu- og markaðsmála sem víða er beitt í hinum vestræna heimi. Þar má einkum nefna svæðisbundna styrki til fyrirtækja og einstakra atvinnugreina.
    Í Noregi hefur skattaleg mismunun verið snar þáttur í byggðastefnu landsins. Atvinnurekendagjöld og tryggingagjöld hafa verið mishá eftir landsvæðum, hæst í þéttbýlinu í suðurhluta landsins en lækka eftir því sem norðar dregur. Þessar undanþágur verða lagðar af fyrir árslok 2006 nema í tveimur nyrstu fylkjum landsins. Eftirlitsstofnun EFTA hefur hins vegar samþykkt heimild til Norðmanna til að endurgreiða hluta flutningskostnaðar til og frá ýmsum byggðarlögum í Norður- og Vestur-Noregi.
    Hluti af byggðaaðgerðum í Noregi hefur verið flutningur opinberra stofnana frá Ósló út á land. Þessar áherslur hafa verið mismiklar og breytilegar en í nýlegri skýrslu, Effekter af utlokalisering av statlige arbeidsplasser, er þróun þessara aðgerða rakin undanfarna áratugi. Samkvæmt skýrslunni hefur flutningur starfa farið stigvaxandi og á árunum 2000–2006 á að flytja 17 stofnanir að hluta eða að öllu leyti með samtals 1.200 störf. Árið 2006 á að flytja stóran hluta, sjö stofnanir sem einkum hafa sinnt ýmiss konar eftirliti. Niðurstaða skýrsluhöfunda er að reynsla af flutningi stofnana hafi verið góð.
    Í Noregi hafa komið fram tillögur frá samtökum sveitarfélaga í landinu um að fækka fylkjum úr 19 í sjö sem hvert hafi ákveðinn fylkiskjarna. Helstu verkefni sem fylkjunum er ætlað að sinna eru byggðastefna, háskóla- og framhaldsmenntun, rannsóknir, skipulagsmál, umhverfismál og stjórnun auðlinda, samgöngumál, menningarmál, heilsugæsla og sjúkrahús.

4.4 Svíþjóð.
    Á síðustu árum hafa stjórnvöld beitt almennum aðgerðum sem miða að því að auka hagvöxt í öllu landinu. Jafnframt hefur verið tekið fyrir stækkun opinbera geirans en vöxtur opinberrar þjónustu var lengi drifkraftur byggðastefnunnar í mörgum strjálbýlli héruðum.
    Auk hinnar almennu byggðastefnu hefur ríkisvaldið gert svæðisbundna vaxtarsamninga, sem eru samkomulag milli aðila innan hvers svæðis, um hvernig eigi að vinna að hagvexti og byggðaþróun þess svæðis. Aðalmarkmiðið er að fá heimamenn til að koma sér saman um aðgerðir og stuðla að bestu nýtingu og samræmingu ríkisfjármagns á hverju svæði. Reiknað er með mótframlagi ESB en samningarnir eru ekki bundnir við hin hefðbundnu stuðningssvæði, heldur geta þeir átt við hvar sem er í landinu. Mikið kapp er lagt á að hið opinbera og einkafyrirtæki vinni saman á þessu sviði.
    Gefin var út skýrsla á árinu 2003 þar sem lagt var mat á vaxtarsamningana í Svíþjóð. Reynslan af samningunum virðist hafa verið nokkuð mismunandi eftir svæðum og talin er þörf á að gera þá markvissari og tengja þá betur viðskiptahagsmunum. Því var ákveðið að endurskoða áætlunina og gera svokallaðar vaxtaráætlanir. Þar verður tekið tillit til mismunandi fyrirkomulags svæðisstjórna í landinu.
    Flutningur ríkisstofnana frá Stokkhólmi hefur verið hluti af byggðastefnu Svía um árabil en á áttunda áratug síðustu aldar voru 48 stofnanir með samtals 10.000 störf flutt frá Stokkhólmi til 16 staða í Svíþjóð. Ekki hefur verið gert sambærilegt átak síðan en á árunum 1992–2002 var 23 af 88 nýjum stofnunum ríkisvaldsins valinn staður utan Stokkhólms. Flutningur opinberra starfa út á landsbyggðina hefur í mörgum tilvikum tengst samdrætti þar á vegum sænska hersins, t.d. á Gotlandi og víðar.
    Sænsk byggðastefna hefur tekið meira mið af svæðaþróunarstefnu ESB eftir að Svíþjóð gerðist aðili að ESB árið 1995 og aukin áhersla er nú lögð á almennar aðgerðir í stað sértækra. Við aldarlok voru um 62% Svíþjóðar skilgreind sem stuðningssvæði og þar bjuggu um 13,5% íbúa landsins. Styrki má þó einnig veita til verkefna utan þessara svæða ef það hefur áhrif á atvinnu eða ef hætta er á lokun eða meiriháttar endurskipulagningu fyrirtækja. Fyrirtæki sem vilja setja á stofn eða auka starfsemi sína á skilgreindum forgangssvæðum eiga kost á fimm tegundum styrkja og lánum, auk eftirgjafar á atvinnurekendagjöldum. Styrkirnir eru svæðaþróunarstyrkur fyrir fjárfestingar í byggingum og búnaði, starfsmannastyrkur, vöruflutningastyrkur og dreifbýlisstyrkur. Þessir styrkir eru veittir sjálfkrafa til allra fyrirtækja sem uppfylla skilyrði.


5. Norrænt samstarf um byggðamál.

5.1 NERP.
    Norðurlöndin hafa með sér samstarf á sviði byggðamála. Norræna embættismannanefndin um byggðamál (NERP) er samstarfsvettvangur embættismanna norrænu landanna sem fara með byggðamál. Samstarfið felst í að miðla reynslu, umræðum, kynnum af starfssystkinum og samvinnu um þróun þekkingar í því skyni að skapa traustari grunn fyrir stefnumótun í byggðamálum.
    NERP hefur samþykkt fjárveitingar til samstarfs yfir landamæri á átta norrænum svæðum þar sem stjórnmálamenn, yfirvöld og almenningur taka þátt í hagnýtu norrænu samstarfi. Af þessum grannsvæðum er langmestur fjárstuðningur við samstarfið á Norður-Atlantshafssvæðinu, NORA.
    Svæðisbundið samstarf á Norðurlöndum hefur fengið nýjar evrópskar áherslur með þátttöku Norðurlanda í Interreg, landamærasvæðaáætlun ESB. Svæðisbundna samstarfið tengist einnig grannsvæðunum á Eystrasalts-, Barentshafs- og Norður-Atlantshafssvæðunum. Ráðherrar byggðamála á Norðurlöndum hafa yfirumsjón með samstarfinu en framkvæmdin er í höndum NERP.
    Samstarfið byggist á samstarfsáætlun um byggðamál en núgildandi áætlun nær til áranna 2005–2008. Áætlunin var samþykkt af norrænum ráðherrum byggðamála á fundi undir forystu Valgerðar Sverrisdóttur haustið 2004. Markmiðið með hinu byggðapólitíska samstarfi er að:
          tryggja að sjónarmið Norðurlanda nái eyrum manna í Evrópusambandinu,
          stuðla að þróun byggðastefnu norrænna landa og svæða,
          efla samkeppnishæfni svæða og þar með landa á sjálfbærum grunni.
    Áætlunin tekur mið af að:
          byggðamál spanna mjög vítt svið,
          Norðurlöndin standa frammi fyrir nýrri stöðu í heimsmálunum.
    Áætlunin leggur áherslu á:
          miðlun reynslu og þekkingar, rannsóknir, eflingu samkeppnishæfni og samstarf milli svæða.
    Starfsáætlun 2005–2008 leggur áherslu á samstarf yfir landamæri. Þar er m.a. fjallað um „NordenPluss“ en með því er átt við að formfest verði samstarf Norðurlandanna við nágrannalönd svo sem Írland, Skotland, Eistland, Lettland og Litháen.
    Áætlunin tekur mið af að Norðurlönd standa frammi fyrir nýrri stöðu í heimsmálunum með aukinni pólítískri og efnahagslegri samþættingu í Evrópu og að samstarf í byggðamálum verður sífellt alþjóðlegra. Meginefni samstarfsáætlunarinnar er tvíþætt:

1. Samstarfsverkefni yfir landamæri.
    Í samstarfi yfir landamæri verður lögð áhersla á:
          að mynda breiðari samstöðu milli landanna frá Eystrasalti um Norðurlönd til Skotlands og Írlands með það markmið að vekja athygli á norrænum hagsmunum í stækkuðu Evrópusambandi,
          að þróa það norræna samstarf yfir landamæri sem þegar er fyrir hendi,
          að eiga samstarf um Interreg-áætlanir í framtíðinni,
          að örva samstarf milli landamærasvæða á grannsvæðum Norðurlanda.

Grannsvæðin og starfssvæði NORA.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




2. Miðlun reynslu og þekkingarþróun.
    Við miðlun reynslu og þekkingarþróun verður lögð áhersla á:
          samstarf um að fylgjast með þeim málum sem eru efst á baugi innan ESB/EES,
          að miðla reynslu milli norrænu landanna með hliðsjón af þróuninni í Evrópu,
          að fylgjast með breytingum á samfélagsskipan innan svæða á Norðurlöndum,
          að stuðla að framgangi norrænu rannsóknarstofnunarinnar Nordregio í Stokkhólmi.

5.2 Nordregio.
    Á vegum norrænu ráðherranefndarinnar starfar rannsóknarstofnunin Nordregio sem hefur það hlutverk að stunda rannsóknir á sviði byggða- og skipulagsmála og miðla þekkingu um þau til þeirra sem um byggðamál fjalla. Unnið er nú samkvæmt norrænu rannsóknaráætluninni innan Nordregio. Nýtt áætlunartímabil er að hefjast sem nær yfir tímabilið 2005–2008 og áherslur verða þá á svæðisbundna nýsköpunar- og vaxtarstefnu, stöðu Norðurlanda frá evrópskum sjónarhóli, svæðisbundin stjórnkerfi og lýðfræðilega þróun. Nordregio er orðin ein virtasta vísindastofnun í Evrópu á sviði rannsókna í byggðamálum. Það hefur háð þátttöku Íslands í rannsóknarverkefnum að á Íslandi eru ekki aðgengilegar svæðisgreindar tölfræðiupplýsingar sem stuðst er við í rannsóknum á ýmsum þáttum byggðamála. Íslendingar hafa tekið þátt í mótun rannsóknaáætlana og mati á styrkumsóknum.

5.3 NORA.
    Starfssvæði NORA er Ísland, Færeyjar, Grænland og strandhéruð Noregs.
    Markmið NORA er að efla samstarf innan starfssvæðis NORA með því að styðja við atvinnu- og byggðaþróun. Miðlun þekkingar og reynslu innan svæðisins er talin mikilvæg leið til að yfirvinna hindranir sem felast í miklum fjarlægðum og strjálbýli.
    NORA auglýsir árlega eftir umsóknum um styrki til samstarfsverkefna á milli Íslands og hinna NORA-landanna þ.e. Grænlands, Færeyja og norðurhluta Noregs. Veittir eru styrkir til verkefna sem stuðla að auknu samstarfi í atvinnulífi á milli landanna á eftirtöldum sviðum:
     *      Auðlindir sjávar. Verkefni sem stuðla á sjálfbæran hátt að:
                  –      fullnýtingu þekktra auðlinda, aukaafurða, nýrra auðlinda, eldi og sjávarvöruframleiðslu til manneldis og tengdra greina og
                  –      þróun framleiðsluaðferða og búnaðar.
     *      Ferðamál. Verkefni sem stuðla að sjálfbærri þróun náttúru- og menningartengdrar ferðaþjónustu í löndunum.
     *      Upplýsingatækni. Verkefni sem stuðla að:
                  –      hagnýtingu upplýsingatækni á svæðinu,
                  –      þróun hugbúnaðarlausna til eflingar atvinnulífs.
     *      Annað samstarf. Verkefni sem efla fámenn byggðarlög í löndunum.

    Styrkþegar geta verið fyrirtæki ein sér eða í samstarfi við rannsóknar- og þróunarstofnanir. Styrkir eru veittir til að koma á tengslanetum, til rannsóknatengdra forverkefna og aðalverkefna, t.d. innan Norðurslóðaáætlunarinnar (NPP). Umsóknir sem fela í sér samstarf við fyrirtæki og stofnanir í Norður-Skotlandi og á austurströnd Kanada eru eftirsóknarverðar.
    Styrki er lengst unnt að veita til þriggja ára og aðeins sem hluta af heildarfjármögnun verkefnis, gegn mótframlagi viðkomandi aðila. Umsóknir skulu fela í sér samstarf á milli tveggja eða fleiri NORA-landa.
    Íslendingar taka þátt í mörgum verkefnum sem styrkt eru af NORA. Hér á eftir er listi yfir verkefni sem styrkt hafa verið frá 2003, sum eru ný, önnur á lokastigi og sum eru framhaldsverkefni, byggð á verkefnum sem styrkt hafa verið áður:
     *      Ferðaþjónusta (Knarren, havet og silden). Ferðaþjónustuverkefni er byggist á tengslum Íslands og Noregs. Fyrirtækið Bjálkinn ehf., Sigurbjörg Árnadóttir leiðir verkefnið.
     *      Sauðfjárrækt (Fåreavlsprogram). Samstarfsverkefni Grænlands og Íslands á sviði kynbóta. Bændasamtök Íslands er þátttakandi í verkefninu.
     *      Framleiðsla á þangi (Tang II). Áhersla á þróun búnaðar til framleiðslu og uppskeru á þangi. Hafrannsóknastofnunin er þátttakandi í verkefninu.
     *      Ráðstefna um þorskeldi (Torskeopdrætsforum). Ráðstefna um þorskeldi þar sem saman koma fyrirtæki er starfa á sviði þorskeldis og rannsóknaraðilar. Fiskeldishópur AVS – Hafrannsóknastofnunin leiða verkefnið.
     *      Samstarf um vottun í fiskeldi (Økostandarder for akvakulture). Samstarf vottunarstofa í löndunum á sviði staðlasetningar og vottunar lífræns fiskeldis. Vottunarstofan Tún er þátttakandi í verkefninu.
     *      Ráðstefna um viðskipti með sjávarafurðir (Marin strategi konference).
     *      Ráðstefna Norðmanna og Íslendinga um viðskipti með sjávarafurðir. Bæði löndin standa utan stærsta markaðssvæðis síns, þ.e. landa Evrópusambandsins. Sendiráð Íslands í Ósló er meðumsækjandi.
     *      Rannsóknarnet um peptíða – líftækni (Bioaktive peptider). Verkefnið lýtur að því að koma á fót samstarfsneti um rannsóknir og framleiðslu á peptíðum úr sjávarfangi. Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins leiðir verkefnið.
     *      Rannsóknasamstarf innan þorskeldis (North Cod). Áherslur eru m.a. eldisaðferðir, stöðlun framleiðsluaðferða o.fl. Verkefnið er Norðurslóðaverkefni og er IceCod Ltd. þátttakandi.
     *      Sjálfbær ferðaþjónusta innan verkefnisins Grenselandet (Grænselandet). Verkefnið byggist á ferðaþjónustuverkefninu Grenselandet sem er á landamærum Svíþjóðar og Noregs. Háskóli Íslands er þátttakandi í verkefninu.
     *      Strandferðaþjónusta (Norce). Verkefnið er útvíkkun á Norðurslóðaverkefnunum Norce og Destination Viking, Sagas and Storytelling. Áhersla á þekkingaryfirfærslu og samstarf við Kanada. Þátttakendur í verkefninu eru Rannsóknarþjónusta ferðaþjónustunnar, Byggðasafnið á Reykjum og Minjasafnið á Hnjóti auk Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga.
     *      Menningar- og náttúrutengd ferðaþjónusta (Natur- og kulturturisme). Verkefni á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu. Markaðsstofa Austurlands er þátttakandi í verkefninu.
     *      Samstarfsverkefni um náttúrufræðikennslu (IKT-netværk for børn og unge). Samstarfsverkefni með markmið um að efla áhuga ungs fólks og kennslu í náttúrufræðum og á samstarf skóla og atvinnulífs. Barnasmiðjan er þátttakandi í verkefninu.
     *      Greining á möguleikum á ferjusiglingum til Norður-Ameríku (Færgesejlads). Verkefnið lýtur að greiningu á áhuga og möguleikum á farþegaflutningum til Norður-Ameríku. Jóhanna Róbertsdóttir leiðir verkefnið.
     *      Stofnun samtaka um nýtingu vetnis (Ny energy). Greina á þörf og möguleika á hagnýtingu vetnis ásamt því að stofna samtök um hagnýtingu vetnis á Norður-Atlantshafssvæðinu. Íslensk Nýorka leiðir verkefnið.
     *      Netsamstarf verkfræðistofa (Nordisk Ingeniør netværk). Verkefnið lýtur að stofnun netsamstarfs verkfræðistofa á Norður-Atlantshafssvæðinu. Markmiðið er að bæta möguleika einstakra fyrirtækja til að bjóða í verkefni með samstarfi við önnur fyrirtæki á svæðinu. Verkefnið lýtur að því að finna samstarfsaðila og að halda samstarfsfund þar sem netsamstarfinu verður komið á. Línuhönnun hf. leiðir verkefnið.
     *      Safnasamstarf (Narhvalskeletter). Verkefnið er samstarfsverkefni tveggja hvalasafna, annars vegar á Grænlandi og hins vegar á Íslandi, um frágang og uppsetningu á hvalabeinagrindum á báðum söfnunum auk aukins almenns samstarfs. Hvalasetrið á Húsavík leiðir verkefnið.
     *      Þróun staðlakerfis fyrir lífræna ræktun (Økologiske standarder II). Verkefnið miðar að því að þróa og setja af stað staðla fyrir vottun lífrænna afurða á Íslandi, Færeyjum og Grænlandi. Vottunarstofnan Tún leiðir verkefnið.
     *      Endurvinnsla á plasti (Genbrug í Nordatlanten). Kanna á möguleika þess að safna plastúrgangi á Færeyjum og Íslandi til endurvinnslu á Íslandi. Fyrirtækið Plastmótun ehf. leiðir verkefnið.
     *      Hlýraeldi (Opdræt – Plettet havkat). Rannsóknarverkefni um ræktun hlýra á Íslandi og í Noregi. Um er að ræða miðlun þekkingar og samstarf. Fyrirtækið Hlýri ehf. í Neskaupstað tekur þátt í verkefninu.
     *      Sjávarfang í Norður-Atlantshafi – Verðmætar hliðarafurðir (Marine råstof í Nordatlanten – Værdifulde biprodukter).
     *      Verkefni um þróun verðmætis úr fiskúrgangi. Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins leiðir verkefnið en aðrir íslenskir þátttakendur eru Síldarvinnslan hf., Samherji hf. og Útgerðarfélag Akureyringa ehf.
     *      Bætt orku- og efnisnýting í skipum (Energi og materialer i notbåde). Verkefni sem miðar að þróun orkustýringarkerfis um borð í skipum. Íslenska fyrirtækið Marorka ehf. leiðir verkefni og er í samstarfi við aðila í Færeyjum, Grænlandi og Noregi.
     *      Baldur – kortagagnagrunnur um ferðaþjónustu (Balder – GIS – Turisme). Gerð kortagagnagrunns um ferðaþjónustu. Ferðaþjónusta bænda tekur þátt í verkefninu ásamt færeyskum og norskum aðilum.
     *      Íþrótta- og menningarferðaþjónusta (Idræt og kulturturisme). Samstarf íslenskrar og færeyskar ferðaskrifstofu um að auka samstarf í ferðaþjónustu milli Íslands og Færeyja sérstaklega með tilliti til íþrótta- og skólaferða. IT-ferðir taka þátt í verkefninu ásamt færeyskri ferðaskrifstofu.
     *      BREIÐ – kræklingaeldi (BREID – muslingeopdræt). Þróun nýrra aðferða við kræklingaeldi. Fyrirtækið Breið og Veiðimálastofnun taka þátt í verkefninu ásamt fyrirtæki í Noregi.
     *      Villtur þorskur eða eldisþorskur (Vild eller opdrættet torsk). Skoða á mun á villtum þorski og eldisþorski. Rannsóknarstofnun Fiskiðnaðarins leiðir verkefnið en einnig taka þátt tvær færeyskar rannsóknarstofnanir.
     *      Seiðaeldi (Opdræt af torskelarver). Rannsaka á skilyrði fyrir hámarksvöxt þorskseiða í fiskeldi. Rannsóknarstofnun Fiskiðnaðarins, Hólaskóli og Fiskey hf. taka þátt í verkefninu ásamt færeyskri rannsóknarstofnun.
     *      Rafræn afladagbók (Elektronisk fiskerilogbog). Þróun á rafrænni afladagbók. Miðlun þekkingar frá Íslandi til Færeyja. Sjávarútvegsstofnun HÍ og fyrirtækið Radiomiðun leiða verkefnið.
     *      Litlir þorskhausar. (Små torskehoveder). Þróun tækis til að afhausa smáan þorsk um borð í togurum. Íslenska fyrirtækið MESA tekur þátt í verkefninu ásamt færeysku fyrirtæki.
     *      Köfunarbátur til hafbotnsrannsókna (U-Båd). Fyrirtækið Hafmyndir tekur þátt í verkefninu ásamt færeysku fyrirtæki.
     *      Framleiðsla sands 2. (Maskindsand 2). Framleiðsla sands til byggingariðnaðar. Hönnun hf. tekur þátt í verkefninu ásamt norskum og grænlenskum aðilum.
     *      Jarðaberjaræktun (Jordbærsorter). Garðyrkjuskóli ríkisins tekur þátt í verkefninu með norskum aðilum.
     *      Gluggi til heimsins (Vindue mod verden). Alþjóðlegt mót ungra leiðtoga, haldið Nuuk í mars 2004. NORA veitti ferðastyrk til þátttakenda frá NORA-löndunum.
     *      Nýsköpunarumhverfi smárra samfélaga (Kommunal læring). Rannsókn á nýsköpunarumhverfi smárra samfélaga á norðurslóðum. Umsækjendur eru á vegum UNESCO-verkefnisins MOST – CCPP (http://www.uit.no/MostCCPP/) en íslenskir aðilar munu einnig tengjast verkefninu.
     *      Syslab – tengslanet (Syslab international). Uppbygging tengslanets stofnana sem veita ráðgjöf til fyrirtækja í olíu- og gasiðnaði, fiskiðnaði, fiskeldi og framleiðsluiðnaði. Iðntæknistofnun tekur þátt í verkefninu ásamt aðilum frá Noregi, Færeyjum og Grænlandi.
     *      Tískusýning í miðnætursól (Midnight sun fashion show). Alþjóðleg tískusýning á Íslandi. NORA veitti ferðastyrk til þátttakenda frá NORA-löndunum.

5.4 Samstarf Norðurlandanna og Evrópusambandsins, NPP.
    Norðurslóðaáætlunin (Northern Periphery Programme – NPP) er hluti af Interreg III B áætlun Evrópusambandsins og nær til norðursvæða Finnlands, Svíþjóðar, Noregs og Skotlands, ásamt Grænlandi, Færeyjum og Íslandi. Meginmarkmið áætlunarinnar er að stuðla að eflingu atvinnu- og efnahagslífs byggða sem búa við svipaðar aðstæður á norðurslóðum. Með áætluninni er stuðlað að samstarfsverkefnum yfir landamæri á milli sveitarfélaga, fyrirtækja og stofnana í aðildarlöndunum og þar með reynt að koma í veg fyrir að landamæri þjóðríkja hindri samstarf og framþróun byggða- og atvinnulífs, þannig að tækifæri og styrkleikar svæðanna fái notið sín sem best.
    Markmið Norðurslóðaáætlunarinnar eru:
          hagsæl og sjálfbær þróun samfélaga,
          skynsamleg nýting menningarlegra og náttúrulegra auðlinda,
          að auka skilvirkni og nýta betur þá möguleika sem norðurslóðir hafa að bjóða,
          að bæta upp erfiðar aðstæður sem skapast af óblíðri veðráttu, miklum vegalengdum, erfiðum landsháttum og dreifðri búsetu.
    Ísland gerðist aðili að áætluninni á miðju ári 2002. Síðan þá hafa verið samþykkt 27 verkefni með íslenskri þátttöku og nokkur eru í undirbúningi. Þessu til viðbótar hefur Ísland stutt fjölmargar forverkefnisumsóknir á tímabilinu. Íslenskir þátttakendur í NPP-verkefnum eru um 60 talsins. Heildarkostnaður verkefna með íslenskri þátttöku er 2,4 milljarðar kr. og þar af er innlendur kostnaðarhluti rúmar 300 millj. kr. Meðalkostnaðar þátttaka er 35% hvað íslensk verkefni varðar.
    Heildarframlag Íslands var í upphafi um 130 millj. kr. og af þeirri fjárhæð fara 7% til greiðslu hluta Íslands í rekstrarkostnaði áætlunarinnar. Á árinu 2005 var ákveðið að auka framlag Íslands til áætlunarinnar vegna mikillar eftirspurnar og góðra verkefna um 8 millj. kr. og hefur nú öllu fjármagni verið ráðastafað (99,4%). Byggðastofnun er tengiliður NPP- áætlunarinnar og hefur umsjón með rekstri hennar og starfi hér á landi.
    Sú reynsla sem fengist hefur af samstarfi í alþjóðlegum rannsóknarverkefnum hefur verið mjög góð. Með aukinni alþjóðavæðingu verður slíkt starf, með nýsköpun og samkeppnishæfni byggða og atvinnulífs að markmiði, sífellt mikilvægara.

Svæði Norðurslóðaáætlunarinnar.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Megináherslur Norðurslóðaáætlunarinnar.
Áhersla 1. Samgöngur og fjarskipti.
    Áhersla er lögð á að auka virkni þeirra svæða sem áætlunin nær yfir með því að vega á móti þeim erfiðleikum sem eru fylgifiskar afskekktra og dreifðra byggða ásamt miklum vegalengdum. Áhersla er lögð á bætt fjarskipti, bætt aðgengi að upplýsingatækni og bættar samgöngur.
    Átak 1.1. Samgöngur, flutningar og innviðir samgöngukerfa.
    Átak 1.2. Aðgangur að upplýsingasamfélaginu.

Áhersla 2. Að styrkja sjálfbæra efnahagsþróun.
    Miklar náttúruauðlindir einkenna norðurslóðir og er þá horft til orkuvinnslu, skóga og auðlinda hafsins, náttúrufegurðar og umhverfisgæða. Þessar auðlindir norðursins eru viðkvæmar og að því steðja ýmsar hættur vegna mengunar, ofnýtingar og veðurfarsbreytinga. Þessi áhersla hvetur til sjálfbærrar nýtingar náttúruauðlinda þar sem sérstaklega er horft til samspils umhverfisverndar og efnahagslegrar nýtingar.
    Átak 2.1. Sjálfbær nýting náttúrunnar og náttúruauðlinda.
    Átak 2.2. Nýsköpun í atvinnulífi og efling mannauðs.

Áhersla 3. Uppbygging samfélaga.
    Stuðningur við samfélög norðurslóða með það að markmiði að styrkja fullnægjandi opinbera þjónustu. Til að svo megi verða er þörf fyrir nýja nálgun. Hin dreifða búseta norðurslóða gerir bæði erfitt og kostnaðarsamt að samræma þá þjónustu sem samfélagið veitir. Finna þarf og þróa hugvitsamlegar og árangursríkar leiðir til þess að bæta þessa þjónustu og víkka út það svæði sem getur notið hennar að fullu.
    Átak 3.1. Samfélagsþjónusta.
    Átak 3.2. Almenn stjórnsýsla og skipulagsmál.

    Norðurslóðaáætlunin hefur til ráðstöfunar samtals 50.469.000 evrur að meðtöldum mótframlögum aðildarlandanna. Framlag Byggðaþróunarsjóðs Evrópusambandsins (ERDF) er 21.275.000 evrur en aðildarríki ESB og ríki sem standa utan ESB leggja til 29.194.000 evrur. Áætlunin stendur út árið 2006, heildarframlag íslenskra stjórnvalda er 1.500.000 evrur og er þátttaka Íslands í verkefnum styrkt af þessu fjármagni, að undangengnu mati sérfræðinga frá öllum aðildarlöndunum. Stuðningur við íslensk verkefni er að hámarki 70.000 evrur og háður a.m.k. 50 % mótframlagi umsóknaraðila. Vegna mikillar eftirspurnar, góðrar reynslu og mikils fjölda umsókna sem borist hafa og að teknu tilliti til þeirra fjármuna sem til ráðstöfunar eru hefur framlag til íslenskra þátttakenda verið talsvert undir hámarkinu.

5.4.1 Verkefni Norðurslóðaáætlunarinnar.
    Hér á eftir er yfirlit NPP-verkefna með íslenskri þátttöku, flokkuð eftir áherslum.

Áhersla 1. Samgöngur og fjarskipti.
     *      Community Learning Networks (CLN-NPA II). Háskólinn á Akureyri tekur þátt verkefninu sem er um símenntun og fjarkennslu. Heildarfjármagn verkefnisins 2004–2006 er um 71 millj. kr.
         edge.ramk.fi
     *      Rural Business Information Exchange Systems. (RUBIES) er verkefni um upplýsingatækni í dreifbýli. Upplýsingatækni í dreifbýli og Iðntæknistofnun eiga aðild að verkefninu. Heildarfjármagn verkefnisins 2004–2006 er um 62 millj. kr. www.rubies.eu.com
     *      Broadband in Rural and Remote areas (Birra). Verkefnið miðar að því að skilgreina stöðu sveitarfélaga á sviði upplýsingatækni, flýta fyrir þróun upplýsingatækni og stuðla að jöfnu aðgengi á þessu sviði. Aðilar að verkefninu eru Byggðastofnun, Síminn, Póst- og fjarskiptastofnun, UD-verkefnið og IMG á Íslandi.

Áhersla 2. Að styrkja sjálfbæra efnahagsþróun.
     *      Rural Business Women. Verkefnið snýr að atvinnusköpun kvenna í dreifbýli. Atvinnu- og jafnréttisráðgjafar Byggðastofnunar koma að verkefninu fyrir Íslands hönd. Heildarfjármagn verkefnisins 2004–2006 er um 71 millj. kr. www.freyjur.is
     *      External Timber Cladding. Um öflun og miðlun þekkingar um bestu lausnir er varða hönnun, byggingu og viðhald timburklæðninga á norðurslóðum. Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins tekur þátt í verkefninu. Heildarfjármagn verkefnisins 2003–2005 er um 75 millj. kr.
     *      Destination Viking – Sagas & Storytelling. Verkefnið sem fjallar um uppbyggingu á menningarferðaþjónustu í tengslum við sögu víkinganna. Íslenskir þátttakendur eru Byggðastofnun, Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða, Dalabyggð, Safnahús Vesturlands, Grettistak sf. í Húnaþingi vestra, Reykjanesbær og uppsveitir Árnessýslu. Heildarfjármagn verkefnisins 2003–2005 er um 80 millj. kr.
         www.destinationviking.com
     *      Eco House North (Development and marketing of ecological wooden house systems for harsh climate areas). Viðfangsefnið er að sameina þekkingu og reynslu við framleiðslu og markaðssetningu timburhúsa fyrir norðlægar slóðir. Batteríið arkitektar ehf. er þátttakandi í verkefninu ásamt aðilum frá Finnlandi, Noregi, Skotlandi og Svíþjóð. Heildarkostnaður við verkefnið 2005–2007 er um 67 millj. kr.
     *      Siblarch (Decay resistant timber – Siberian larch compared to Scots pine in forestry and products). Rannsóknarverkefni á sviði skógræktar með áherslu á lerki til timburiðnaðar. Skógrækt ríkisins er þátttakandi í verkefninu ásamt aðilum frá Svíþjóð, Noregi, Finnlandi og Rússlandi. Heildarkostnaður við verkefnið 2005–2007 er um 114 millj. kr. Framlag Skógræktar ríkisins er eingöngu vinnuframlag en hún fær styrk frá Svíþjóð sem greiðir 71 % af íslenska kostnaðarhlutanum.
     *      Northern Wood Heat (Developing Small and Medium Scale Wood fuel Supply Chains). Tilraunaverkefni um nýtingu trjáviðar til orkuframleiðslu. Íslenskir þátttakendur í verkefninu eru Landbúnaðarháskólinn Hvanneyri, Héraðsskógar og Skógrækt ríkisins en aðrir þátttakendur eru frá Skotlandi og Finnlandi. Heildarkostnaður við verkefnið 2005–2007 er um 164 millj. kr. og íslenska þátttakan í verkefninu er um 12 % af honum.
     *      Northern Enviroment for Sustainable Tourism; potential of national parks and protected areas for rural development in the northern periphery (Nest). Verkefnið felst í að nýta til þróunar þau tækifæri sem felst í búsetu nálægt þjóðgörðum eða verndarsvæðum. Íslenskir þátttakendur í verkefninu eru Háskóli Íslands og Háskólasetrið Höfn í Hornafirði, Hornafjarðarbær, Skaftárhreppur og Þróunarstofa Austurlands. Aðrir þátttakendur eru frá Svíþjóð, Skotlandi og Finnlandi. Ísland leiðir verkefnið. Heildarkostnaður við verkefnið 2005–2007 er um 90 millj. kr. og íslenska þátttakan í verkefninu er 12 % af honum.
     *      Northern Costal Experince (Norce). Verkefnið miðar að auknu samstarfi og samstarfsneti sjávarbyggða á svæði NPP en Kanada (Nýfundnaland) er einnig aðili að verkefninu. Áhersla verður m.a. á að efla ferðamennsku og menningarleg tengsl. Íslenskir aðilar að verkefninu eru Atvinnuþróunarfélög Norðurlands vestra og Þingeyinga, Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna á Reykjum og Minjasafnið á Hnjóti í Vesturbyggð. Heildarupphæð verkefnis 2004–2007 er um 107 millj. kr.
     *      Snow Magic. Með verkefninu er stefnt að því að þróa vörur, þjónustu og atburði sem varða ferðaþjónustu á vetrum, í nánum tengslum við menningu og sérstöðu einstakra svæða. Aðilar á nokkrum svæðum í Svíþjóð og Finnlandi eru þátttakendur í verkefninu auk Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og ferðaþjónustufyrirtækja við Mývatn. Heildarupphæð verkefnis frá 2004–7 er um 63 millj. kr.
     *      Nature Based Tourism. Markmið verkefnisins er að þróa og efla frekari þekkingu á sviði náttúruvænnar ferðaþjónustu með ýmsum verkefnum, svo sem tengslanetum, nýjum vörum og þjónustu. Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða og Hólaskóli eru aðilar að verkefninu ásamt aðilum í Skotlandi, Noregi og Svíþjóð. Heildarfjármagn verkefnisins 2004–2006 er um 130 millj. kr.
     *      Young Entrepreneur Factory (YEF) er verkefni sem miðar að því að virkja unga frumkvöðla á norðurslóðum. Impra – nýsköpunarmiðstöð tekur þátt í verkefninu auk nokkurra atvinnuþróunarfélaga. Heildarfjármagn verkefnisins 2004–2006 er um 80 millj. kr. www.yefactory.com
     *      Usevenue. Verkefnið miðar að því að efla félags- og efnahagslegan styrk þeirra svæða sem það nær til með verkefnum sem miða að sköpun sjálfbærra verkefna og atburða. Verkefnið nær til Finnlands. Svíþjóðar, Skotlands og Íslands þar sem Ísafjarðarbær og Héraðsnefnd Snæfellsness eru aðilar að verkefninu. Heildarafjármagn verkefnisins er um 90 millj. kr.
     *      Outdoor and Fast Food. Verkefnið er á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu með áherslu á matarmenningu. Að verkefninu koma Háskólinn á Hólum í Hjaltadal, Iðntæknistofnun og Nýsköpunarmiðstöðin í Vestmannaeyjum.
     *      Integrade to Innovate (i2i). Markmið verkefnisins er að kortleggja og tengja saman staðbundin innlend og alþjóðleg tengslanet milli lítilla og meðalstórra fyrirtækja, háskóla og opinberra stofnana, skapa samskiptagrundvöll og auka skilning á gildi tengslaneta. Íslenskur þátttakandi í verkefninu er Þróunarstofa Austurlands.
     *      North Cod. Almennt þekkingarverkefni um eldi þorsks, þ.m.t. framleiðsluaðferðir, stöðlun framleiðslu og fleiri þátta. Íslenski þátttakandi verkefnisins er IceCod Ltd.
     *      Elav. Skipulagsverkefni innan skógræktar þar sem áhersla er lögð á víðtæka aðild hagsmunaaðila að skipulagsmálum greinarinnar. Íslenskur þátttakandi í verkefninu er Skógrækt ríkisins.

Áhersla 3. Uppbygging samfélaga.
     *      Delivering Services in Remote and Rural Areas (Deserve). Verkefnið lýtur að þjónustu í dreifbýli með áherslu á að miðla upplýsingum um aðferðafræði og fyrirmyndir. Íslenski hlutinn lýtur að yfirfærslu á þekkingu á rafrænum verkefnum í dreifbýli og því hvernig hægt er að bæta þjónustu á því sviði. Byggðastofnun er aðili að verkefninu en aðrir þátttakendur eru frá Skotlandi, Svíþjóð og Finnlandi. Heildarupphæð verkefnis 2004–2007 er um 142 millj. kr.
     *      Development by branding the trade mark (Brandr) er samstarfsverkefni fjögurra sveitarfélaga á norðurslóðum. Markmiðið er að skoða leiðir til markaðssetningar og ímyndarsköpunar sveitarfélaga, t.d. með því að þróa „vörumerki“. Akureyrarbær tekur þátt í þessu verkefni. Heildarfjármagn verkefnisins 2004–2006 er um 80 millj. kr. www.brandr.net
     *      Small Town Networks. Miðar að sameiginlegri vinnu að stefnumótun sveitarfélaga. Þróunarstofa Austurlands tekur þátt í verkefninu ásamt nokkrum sveitarfélögum á Austurlandi. Heildarfjármagn verkefnisins 2003–2005 er um 106 millj. kr. www.smalltownnetworks.com
     *      Northern Maritime Corridor. Um samgöngur á sjó með með tilliti til breyttra áherslna í flutningastarfsemi, aukinna tenginga og sjóflutninga. Norður–Atlantsnefndin (NORA) er tengiliður í verkefninu. Heildarfjármagn verkefnisins 2003–2005 er um 160 millj. kr. www.northernmaritimecorridor.no/
     *      Safety at Sea. Á að vinna 2005–2007. Um öryggismál sjófarenda í Norðurhöfum, sjálfvirk persónugreiningarkerfi, öryggismenningu, viðvörunarkerfi farþegaskipa, framtíðarþróun og framtíðarsamstarf um öryggismál í siglingum. Þátttaka í verkefninu verður frá Skotlandi, Noregi, Færeyjum og Grænlandi auk Siglingastofnunar, Landhelgisgæslunnar og Háskóla Íslands. Heildarkostnaður við verkefnið er áætlaður um 54 millj. kr. Íslenski kostnaðarhlutinn um 11 millj. kr.
     *      SCRI in action. Verkefni sem er í framhaldi af fyrra verkefni, SCRI, og verður unnið 2005–2006. Felur í sér vinnu með upplýsingar og tæki til atvinnuráðgjafar. Þátttakendur eru frá Noregi, Svíþjóð og Finnlandi auk Atvinnuþróunarsjóðs Suðurlands. Heildarkostnaður við verkefnið er áætlaður um 29 millj. kr. og íslenski kostnaðarhlutinn um 3 millj. kr.
     *      The Ambulance Transport and Services in the Rural Areas. Markmið verkefnisins er að setja fram tillögur um hvernig best verður staðið að skipulagi sjúkraflutninga í dreifbýli. Þátttaka er frá Skotlandi og Svíþjóð auk FSA – háskólasjúkrahúsi á Akureyri og Sjúkraflutningaskólanum þar. Heildarkostnaður við verkefnið er áætlaður um 54 millj. kr. og íslenski kostnaðarhlutinn um 16 millj. kr.
     *      SPN, Spatial Planning in the Northern Peripheral Regions. Markmiðið er að reyna og kanna skipulagsaðferð sem notuð er í ESB, Spatial Planning and Development. Þátttaka er frá Finnlandi, Svíþjóð og Skotlandi auk Íslands. Íslenski verkhlutinn verður samstarfsverkefni Byggðastofnunar og Skipulagsstofnunar. Gert er ráð fyrir aðild Færeyja, Grænlands og Noregs að hluta verksins. Heildarkostnaður við verkefnið er áætlaður um 151 millj. kr. og íslenski kostnaðarhluturinn um 21 millj. kr.

6. Byggðastefna og aðgerðir í Evrópusambandinu.

    ESB er ríkjasamband sem hefur það meginmarkmið að efla samstöðu og samstarf ríkja Evrópu og stuðla að auknum hagvexti og velsæld. Yfirstjórn ESB fer með ýmsa málaflokka, en framkvæmd þeirra er oft á höndum einstakra ríkja eða svæða. Svæði ESB eru margbreytileg og uppbygging þeirra og tengsl oft flókin. Það stafar m.a. af stofnbreytingum atvinnulífsins, tækniframförum og aukinni samvinnu milli svæða. Víða eru rík og nútímavædd svæði í nábýli við fátæk og vanþróuð svæði. Mörg svæði einkennast af fjölbreytni og framþróun meðan önnur, einkum óaðgengileg jaðarsvæði, hafa dregist aftur úr. Meðal þeirra síðarnefndu má finna hefðbundin landbúnaðarsvæði þar sem fólki hefur fækkað mjög, þar sem er dulið atvinnuleysi og ófullnægjandi grunngerð, t.d. samgöngukerfi. Þá má nefna svæði sem byggt hafa á einhæfum iðnaði sem nú er í hnignun og það hefur leitt til mikils atvinnuleysis.
    Eitt af aðalmarkmiðum Evrópusambandsins er að sporna við fólksfækkun á strjálbýlum svæðum. Svæðaþróun er því eitt af aðalverkefnum ESB og jöfnunaraðgerðir milli svæða eru þar mikilvægur þáttur. Einkunnarorðin eru samkeppnihæfni, samstarf og samstaða. Þriðjungur fjárveitinga ESB fer til svæðajöfnunaraðgerða. Markmiðið er að jafna samkeppnishæfni og lífskjör ólíkra svæða, stuðla að breyttum atvinnuháttum á svæðum með úreltan iðnað, sporna gegn svæðisbundnu atvinnuleysi, efla starfsmenntun á svæðum þar sem starfskunnátta íbúanna samsvarar ekki kröfum nútímafyrirtækja og styrkja sérlega strjálbýl svæði. Evrópusambandið hefur horfið frá því að stýra staðarvali stórra fyrirtækja með beinum styrkjum til þeirra, en mikil áhersla er lögð á eigið framtak á svæðunum, nýsköpun í atvinnuháttum og þróun lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þessar svæðajöfnunaraðgerðir byggjast að hluta til á aðgerðum ríkjanna sjálfra. Þau vinna sjálf sínar áætlanir og verða sjálf að fjármagna aðgerðir að hluta til.
    ESB leggur áherslu á bættar samgöngur og bætt lífsgæði sem lið í atvinnuþróun. Evrópusambandið hefur t.d. í auknum mæli tekið skipulags- og umhverfismál inn í stefnumörkun sína. Svæðastuðningur ESB kemur frá uppbyggingarsjóðum ESB (Structure Funds). Helmingur þessa fjármagns kemur frá svæðasjóðnum, 30% frá félagsmálasjóðnum og 20% frá landbúnaðar- og fiskveiðisjóðunum. Heildarfjármagn til svæðajöfnunaraðgerða á tímabilinu 1994–1999 er 145 milljarðar ECU, sem samsvarar um 12 þús. milljörðum íslenskra króna. 90% svæðajöfnunaraðgerða renna til þriggja skilgreindra aðalmarkmiða.
    Markmið 1: Stuðningur við skammt þróuð svæði og sérlega dreifbýl svæði. Skammt þróuð svæði teljast þau svæði þar sem verg þjóðarframleiðsla eða svæðisframleiðsla er undir 75% af meðaltali innan Evrópusambandsins. Þar er stutt við fjárfestingar í grunngerð, fjölbreytni atvinnulífs, þróun í landbúnaði og ferðaþjónustu, orkumál og fjarskiptatækni. Sérlega dreifbýl svæði eru til dæmis norðurhéruð Svíþjóðar og Finnlands. Þar er stutt við vöruþróun, nýja tækni, markaðssetningu, framleiðniaukningu, gæðaþróun, ferðaþjónustu, rannsóknir og þróunarsamstarf lítilla fyrirtækja, fjarskiptaþróun, upplýsingatækni og starfsmenntun. Tæp 20% af íbúum Evrópusambandsins búa á svæðum sem falla undir þennan flokk.
    Markmið 2: Uppbygging og endurnýjun á svæðum með einhæft og staðnað atvinnumynstur, sem ekki heyra undir markmið 1. Stutt er við endurnýjun iðnaðar, alþjóðavæðingu lítilla og meðalstórra fyrirtækja, stofnun nýrra fyrirtækja (einkum meðal kvenna), samstarf fyrirtækja og háskóla varðandi rannsóknar- og þróunarstarf, fjárfestingar, nýja tækni og vöruþróun, starfsþjálfun, ferðaþjónustu, náttúruvernd, sjálfbæra þróun, menningarmál og fjarskiptatækni. Tæp 18% af íbúum Evrópusambandsins búa á svæðum sem falla undir þennan flokk.
    Markmið 3: Aðgerðir gegn langtímaatvinnuleysi, einkum ungmenna, áhersla er lögð á endurmenntun starfsfólks í fyrirtækjum og bætta vinnutilhögun. Stutt er við starfsmenntun, leiðbeiningar og ráðgjöf, átaksmiðstöðvar og stofnun eigin fyrirtækja. Einnig er stutt við þróun vinnuskipulags, athuganir á þörfum starfsfólks og starfsmenntun á sviði vöruþróunar, upplýsingatækni og alþjóðavæðingar. Þetta markmið er ekki takmarkað við nein ákveðin svæði innan Evrópusambandsins eins og markmið 1 og 2.

6.1 Styrktaráætlanir og sjóðir.
Samstarfsverkefni:
    9% svæðajöfnunaraðgerða ESB renna til svonefndra samstarfsverkefna. Oftast er krafist samstarfs aðila frá tveimur eða fleiri ríkjum. Forgangsverkefni eru m.a. þróun landsbyggðar, einkum jaðarsvæða, atvinnuþróun, mannauðsþróun, vandamál vegna breyttra atvinnuhátta, vandamálasvæði í borgum og stofnbreyting á fiskveiðum. Þessi verkefni heyra undir fjórar megináætlanir:
     *      INTERREG miðar að samvinnu ríkja með samliggjandi landamæri eða ríkja sem tengjast með hafsvæði. Stutt er við atvinnuþróun, menntun o.fl. Meðal verkefnaáætlana sem heyra undir þessa áherslu eru ESDP, sem er sérstakt svæðaþróunarverkefni, og Norðurslóðaáætlunin NPP.
     *      LEADER miðar að þróun viðkvæmra dreifbýlissvæða, einkum landbúnaðarsvæða. Unnið er að atvinnuþróun, einkum á sviði smáfyrirtækja, umhverfismála, þjónustu, ferðamála, menningar, lífsgæða o.fl. Stutt er við nýsköpunaraðgerðir, sem nýtast sem fyrirmynd fyrir önnur svæði, og myndað er samstarfsnet svæðanna.
     *      EQUAL vinnur gegn hvers konar misrétti og ójöfnuði á vinnumarkaði.
     *      URBAN snýr að félagslegum umbótum í borgum.

Tilraunaverkefni:
    Um það bil 1% svæðajöfnunaraðgerða ESB renna til lítilla tilraunaverkefna á sviði nýsköpunar o.fl.:
     *      Svæðasjóðurinn styrkir m.a. samstarf á sviði menningar, skipulagsmála, útbreiðslu tækni, menntunar, landbúnaðar og fiskveiða.
     *      Félagsmálasjóðurinn styrkir m.a. verkefni á sviði almennrar menntunar, starfsmenntunar, vinnuskipulags, hreyfanleika starfsfólks og aðlögunar fólks sem fallið hefur út af vinnumarkaðinum.
     *      Landbúnaðarsjóðurinn styður þróunarverkefni á landbúnaðarsvæðum.
     *      Fiskveiðisjóðurinn styður nýsköpunarverkefni og rannsóknir á sviði sjávarútvegs.

6.2 Áherslur 2007–2013.
    Á tímabilinu 2007–2013 hefur verið samþykkt að verja um 336 milljörðum evra til byggðaaðgerða hjá Evrópusambandinu, um þriðjungi heildarútgjalda sambandsins. Höfuðáhersla er á sjálfbært og samkeppnishæft þekkingarhagkerfi og evrópska efnahagsstefnu með ríka áherslu á aðgerðir á svæðum með erfiðleika í atvinnulífi. Áhersla er einnig á aukna valddreifingu og gagnsæja og hagkvæma framkvæmd aðgerða.
    Þrír sjóðir standa að fjármögnun flestra verkefna. Þeir eru:
     1.      Byggðaþróunarsjóður Evrópu (ERDF) er stærstur svokallaðra þróunarsjóða ESB. Meginhlutverk sjóðsins er að jafna efnahagslega stöðu svæða innan sambandsins með því að styrkja nýsköpunar- og uppbyggingarverkefni. Eins og hjá öðrum þróunarsjóðum ESB er gert ráð fyrir mótframlögum frá aðildarríkjunum og/eða sveitarstjórnum.
     2.      Félagsmálasjóður Evrópu (ESF) gegnir mikilvægu hlutverki í atvinnumálastefnu Evrópusambandsins. Félagsmálasjóðurinn veitir fjármagn til baráttu gegn langtímaatvinnuleysi og brotthvarfi af atvinnumarkaði, til þjálfunar og endurmenntunar atvinnulausra og jöfnunar tækifæra kvenna og karla á atvinnumarkaði.
     3.      Aðlögunarsjóður Evrópu (Cohesion Fund (CF) hafði það hlutverk að stuðla að uppbyggingu grunngerðar og styðja verkefni í þeim fjórum löndum sem töldust búa við lökust skilyrði á tímabilinu 2000–2006, þ.e. Írlandi, Portúgal, Spáni og Grikklandi. Meginhlutverk hans á næsta tímabili verður að styrkja grunngerð og aðstæður í nýju aðildarríkjunum. Settar verða nýjar reglur um verkefni sem ná yfir landamæri.
    Að auki hafa tveir smærri sjóðir veitt byggðastuðning. Þeir eru:
     1.      Þróunar- og ábyrgðarsjóður evrópsks landbúnaðar, þróunarhluti, sem er ætlað að ýta undir hagræðingu í landbúnaði og að styrkja atvinnuþróunarverkefni í sveitum. Hinn hluti sjóðsins, svokallaður ábyrgðarhluti, er stærri í sniðum og um hann fer bróðurpartur styrkja til landbúnaðar í ESB. Þróunin hefur þó verið sú að meira stuðningsfé fer til hagræðingar og uppbyggingar en minna til framleiðslustyrkja.
     2.      Sjávarútvegssjóður ESB styrkir hagræðingu og uppbyggingu í sjávarútvegi í Evrópusambandinu. Sjóðurinn er minnstur svokallaðra þróunarsjóða.
             Um 1% af fjárlögum ESB fer til reksturs sjávarútvegsstefnu sambandsins. Sú fjárhæð samsvarar um 0,0115% af vergri þjóðarframleiðslu aðildarríkjanna. Til viðbótar við það koma þó ýmis útgjöld aðildarríkjanna sjálfra. Sérstök áætlun, nefnd PESCA, hefur verið sett á laggirnar til að aðstoða þau svæði þar sem sjávarútvegur þarfnast mestrar aðstoðar við hagræðingu.
    Byggt verður á þremur markmiðum, sem er ætlað að endurskapa evrópskt landslag í stækkuðu bandalagi og taka mið af alþjóðavæðingu og þróun þekkingarhagkerfisins. Markmiðin eru 1) samhæfing (convergence), 2) samkeppnishæfni og atvinnulíf (competitiveness and employment) og 3) svæðasamvinna (territorial cooperation). Þessum markmiðum er ætlað að taka við af markmiðum (Objectives) 1, 2 og 3 á núgildandi áætlanatímabili.
    Markmið 1: Samhæfing. Aðgerðir eru fjármagnaðar af ERDF, ESF og CF. Markmiði 1 er ætlað að örva þróun á vanþróuðum svæðum með því að fjárfesta í gunngerð og mannauði, nýsköpun og þekkingariðnaði og örva efnahagslegar og félagslegar breytingar, ásamt því að stuðla að verndun umhverfis og bættri stjórnsýslu. Svæði með minna en 75% af vergri landsframleiðslu (GDP) að meðaltali á íbúa af meðaltali Evrópusambandsins geta notið aðgerða samkvæmt Markmiði 1, einnig einstök svæði sem eftir stækkun sambandsins verða á mörkum þessa hlutfalls og nokkur jaðarsvæði t.d. eyjar. Svæði sem áður nutu stuðnings Aðlögunarsjóðsins (CF) og eru með minna en 90% af vergum þjóðartekjum að meðaltali á íbúa (GNI) Evrópusambandsins munu áfram njóta stuðnings úr CF. Markmið 1 fær samtals 264 milljarða evra og fara um 3/4 hlutar framlaganna til svæða með lága verga landsframleiðslu (GDP).
    Markmið 2: Samkeppnishæfni og atvinnulíf. Aðgerðir eru fjármagnaðar af ERDF og ESF. ERDF-verkefnum er ætlað að auka samkeppnishæfni með því að stuðla að efnahagslegum og félagslegum breytingum og styðja nýsköpun, þekkingarsamfélagið, frumkvöðlastarf og náttúruvernd og að takmarka áhættu. Með ESF-verkefnum á að aðstoða starfsfólk og fyrirtæki við að mæta breytingum á vinnumarkaði og stuðla að slíkum breytingum. markmiðið nær til allra svæða sem falla ekki undir markmið 1. Svæði sem féllu undir eldra markmið 1 (Objective 1 á tímabilinu 2000–2006) fá sérstök lækkandi aðlögunarframlög fram til ársins 2013. Framlög í markmið 2 verða 57,9 milljarðar evra og fara um 83% til svæða sem ekki voru á markmiðssvæði 1 árin 2000–2006 en um 16% til aðlögunarsvæðanna.
    Markmið 3: Svæðasamvinna. Aðgerðir eru fjármagnaðar af ERDF. Markmiðið á sér rætur í Interreg-verkefnum tímabilsins 2000–2006. Verkefnunum er ætlað að styrkja samvinnu á þremur stigum, sem eru samvinna yfir landamæri, fjölþjóðleg samvinna og netkerfi um samvinnu og þekkingaryfirfærslu. Samstarfsverkefni yfir landamæri geta náð til svæða beggja vegna landamæra og svæða sem liggja að sjó. Framlög til markmiðs 3 verða 13,2 milljarðar evra.

6.3 Svæðaeinkenni og aukinn kostnaðarhluti.
    Stækkun ESB mun leiða af sér að margar viðmiðanir breytast á næsta starfstímabili Urban- áætlunarinnar. Tilgangur með áætluninni er að stuðla að félagslegum umbótum í borgum, t.d. menntun ungs fólks og fólks án atvinnu.
    Á næsta tímabili mun sérstakt tillit verða tekið til borga og bæja sem notið hafa stuðnings við endurnýjun samkvæmt URBAN-áætluninni og horft til dreifbýlla svæða og svæða sem eru háð fiskveiðum. Einnig mun verða tekið tillit til eyja og strjálbýlla svæða sem áður nutu stuðnings frá markmiði 1 til skammt þróaðra svæða og sérlega dreifbýlla svæða á árunum 2000–2006.
    Kostnaðarhlutur ESB mun nema að lágmarki 20% í einstökum verkefnum en getur orðið mun hærri og allt að 85% á svæðum sem heyra undir Aðlögunarsjóðinn (CF), 75% á svæðum sem heyra undir samhæfingarmarkmiðið og allt að 50% á svæðum sem heyra undir samkeppnishæfnimarkmiðið. Hámark kostnaðarhluta samkvæmt markmiðinu um svæðasamvinnu verður 75%. Miðað er við 50% viðbótarkostnað fyrir jaðarsvæði (outermost regions) og allt að 85% fyrir rekstrarframlög á jaðarsvæðum. Að auki hafa verið gerðar tillögur um nokkur sérákvæði fyrir enn aukin framlög til jaðarsvæða, þau helstu eru á bilinu 5–10% og gilda þau einkum fyrir norðlæg strjálbýl svæði. Hámark kostnaðarhluta sambandsins mundi með þessum viðbótarframlögum geta numið 60%.

6.4 Um ESDP og ESPON.
    Mikil áhersla hefur verið á byggðamál í starfi Evrópusambandsins og að með byggðaþróun myndist skilvirk svæði án tillits til landamæra. Evrópusambandið hefur samþykkt stefnu sem rammar inn framtíðaráherslur þess um skipulag og byggðaþróun (European Spatial Development Perspective), ESDP. Aðdraganda að ESDP má rekja til umræðna á sjöunda áratug síðustu aldar en stefnan var þó ekki samþykkt fyrr en í aldarlok. Stefnt er að stöðugleika og sjálfbærni í byggðaþróun til þess að ná þremur höfuðmarkmiðum Evrópusambandsins, þ.e.:
          efnahagslegri og félagslegri aðlögun,
          varðveislu og stjórnun náttúruauðlinda og menningararfs,
          jafnari samkeppnishæfni svæða.
    ESDP er ekki bindandi samþykkt um miðstýrða áætlanagerð frá Brussel, heldur hentugur rammi um áherslur fyrir hin ýmsu starfssvið eða geira Evrópusambandsins, einstakra ríkja, landshluta og sveitarfélaga til þess að ná jafnri og sjálfbærri þróun. ESDP hvetur til samstarfs yfir landamæri og hefur leitt til áætlanagerðar á hinum ýmsu stjórnsýslustigum, „Spatial Planning and Development“. Leitast er við að samþætta skipulag byggða og bæja, samgöngur og þróunaráætlanir á grundvelli ESPD í þeim tilgangi að jafna aðstæður og samkeppnishæfni og nálgast sjálfbæra þróun. Á Íslandi má t.d. greina áhrif í skipulagslögum, þar sem nú er kvatt á um mat á umhverfisáhrifum skipulagstillagna og skráningu fornleifa, í lögum um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og raunar má líka greina áhrif í byggðaáætlun 2002–2005.
    Áherslur ESDP verða grundvöllur til fjárveitinga úr þróunarsjóðum Evrópusambandsins og stuðningur kemur fram við verkefni og stofnanir. Á Evrópusambandsstigi er þannig gert ráð fyrir:
               rannsóknum á framkvæmd og áhrifum stefnunnar á byggð og skilvirkni,
               samstarfi við fjölþjóðlegar stofnanir til þess að setja framkvæmdina í stærra samhengi,
               aðgerðum til þess að safna og skiptast á samanburðarhæfum upplýsingum um þau atriði sem mestu skipta fyrir áætlanagerð á grundvelli ESDP,
               miðlægri stofnun, Europen Spatial Planning Observation Network, ESPON, til þess að fylgjast með þróun svæða, verða samstarfsvettvangur evrópskra stofnana sem rannsaka byggðaþróun og styðja stefnumótun á sviði byggðamála.
    Á milliríkjastigi innan sambandsins er gert ráð fyrir:
               stuðningi frá Interreg III-áætluninni,
               stuðningi við samstarf, einkum yfir landamæri og við þriðja land, utan ESB.
    Á ríkisstigi er gert ráð fyrir:
               að ríkisstjórnir auki áherslu á byggða- og skilvirknisáætlanir,
               að ríkisstjórnir upplýsi almenning um hið evrópska samstarf á þessu sviði.
    Á landshluta- og sveitarstjórnastigi er gert ráð fyrir:
               víðtækara samstarfi yfir landamæri, t.d. um áætlanir um byggðaþróun, skipulag landnotkunar, umferðarkerfi, sjálfbæra þróun landbúnaðarhéraða, áætlanir um uppbyggingu á náttúru- og menningararfinum og bæjanetum eða -klösum með tilliti til þéttbýlisþróunar.
    Þeirri miðlægu stofnun sem sett var á laggirnar með ESDP var fundinn staður í Luxemborg og nefnd European Spatial Planning Observation Network, ESPON. Stofnunin er þó kannski frekar samstarfsvettvangur því að stofnanir um alla Evrópu hafa unnið saman að miklum rannsóknarverkefnum samkvæmt starfsáætlun um ESPON, sem nær yfir tímabilið 2000–2006. Starfið hófst raunar fyrst 2002 að undangengnu undirbúningstímabili. Starfsáætlunin er ein af áætlunum Interreg III og þykir þegar hafa skilað svo miklu að fyrir liggur að ákveða annað starfstímabil, frá 2007 til 2013.
    „ESPON-svæðið“ nær yfir ESB-löndin 25 og umsóknarlöndin Búlgaríu og Rúmeníu, auk Sviss og Noregs en Ísland hefur ekki verið með í þessu samstarfi.
    Rannsóknahópar sem vinna verkefni á vegum ESPON þurfa hver og einn að hafa þátttakendur frá minnst þrem löndum en margir hafa mun víðtækari þátttöku. Á þessu starfstímabili er unnið að 26 verkefnum með aðild á annað hundrað stofnana víðs vegar um Evrópu. Með starfinu safnast saman og verða aðgengilegar miklar og samanburðarhæfar upplýsingar um aðstæður og einkenni einstakra svæða í Evrópu. Eitt af einkennum ESPON-rannsóknanna er að miklar upplýsingar, greiningar og niðurstöður eru settar fram á uppdráttum, rafrænum kortum sem auðvelda yfirsýn og samanburð.
    Rannsóknarverkefni á vegum ESPON eru hagnýtar rannsóknir og eiga að þjóna þremur markmiðum:
     1.      að auka þekkingu um landrænar og samfélagslegar aðstæður í Evrópu,
     2.      að styrkja grundvöll fyrir stefnumörkun (ýmist innan Evrópu, ríkja eða landshluta),
     3.      að styrkja þverfaglegt, evrópskt umhverfi fyrir rannsóknir á málum sem varða land og samfélag.
Skipta má ESPON-verkefnum í fjóra áhersluflokka:
    Áhersla 1: Efnisflokkarannsóknir. Rannsóknir á grundvelli víðtækrar upplýsingaöflunar um áhrif stórfelldra breytinga á byggðaþróun með hliðsjón af formgerð byggðar og staðsetningu borga.
    Áhersla 2: Rannsóknir á áhrifum stefnumörkunar. Rannsóknir á grundvelli víðtækrar upplýsingaöflunar um byggðaáhrif af stefnu Evrópusambandsins á ýmsum starfssviðum þess, á stefnu aðildarríkja fyrir byggðir og mismunandi gerðir samfélaga.
    Áhersla 3: Þverunar- og samhæfingarrannsóknir sem lykilatriði. Árangursmat á öðrum rannsóknum með tilliti til samþættra niðurstaðna, svo sem mælinga og upplýsinga, formgerðar svæða, byggðaþróunarskilyrða og niðurstaðna um byggðaþróun.
    Áhersla 4: Vísindaleg upplýsingasamantekt og netsamstarf til þess að finna samvirkni milli ESB-styrkja og ríkisstyrkja til rannsókna og rannsóknagetu.


7. Byggðaáætlanir í Kaliforníu.

    Byggðastefna og byggðaþróun í Bandaríkjunum hafa vakið verulega athygli á undanförnum árum. Fæstir tengja þá hagþróun sem á sér stað þar í landi við byggðaaðgerðir en málaflokkurinn er engu að síður umfangsmikill í mörgum ríkjum Bandaríkjanna. Byggðaaðgerðir í Kaliforníu eru nýlegt fyrirbæri. Íbúafjöldi hefur vaxið ört og fjölgaði t.d. um 1,4 milljónir á síðasta áratug 20. aldar. Íbúar eru um 34 milljónir og búist er við að þeim fjölgi um 20 milljónir á næstu 15 árum. Svæðið býr yfir miklum mannauði og náttúrugæðum. Nefna má Kísildalinn, sem er miðstöð þróunar í tölvuheiminum, Biotech-ströndina í San Diego og geysistóran líffræðiklasa í San Fransisco. Í fylkinu er miðstöð skemmtiiðnaðar og þar er að finna stærsta landbúnaðarhérað í Bandaríkjunum ef tekið er mið af fjölbreytileika framleiðslunnar.
    Kalifornía hefur staðið framarlega í umhverfismálum og hefur t.d. miðað löggjöf sína við Kyoto-samninginn auk þess að byggja mjög á endurnýjanlegum orkugjöfum. Stjórnvöld hafa í raun fylgt viðskiptalífinu eftir með sinni uppbyggingu og áherslum. Þannig fylgdu ákvarðanir í opinberum framkvæmdum í kjölfar þess að tæknigeiri tölvuiðnaðarins tók að byggjast upp í Kísildalnum í nágrenni háskólarannsókna. Hliðstæð uppbygging hefur orðið í Los Angeles og San Diego í öðrum greinum.
    Áhersla hefur verið lögð á valddreifingu og miðast byggðaáætlanir við ákveðna skiptingu fylkisins í undirsvæði og eru aðferðir áætlunargerðar meira áberandi í fylkinu en víða annars staðar í Bandaríkjunum þar sem aðgerðir (action) er talin mikilvægasta aðferðafræðin.
    Megináhersla er á það sem hefur verið kallað hin þrjú e, þ.e. hagkvæmni (economy), umhverfi (environment) og félagslegt jafnræði (social equality). Þessi atriði eru undirstaða aðferðar sem er kölluð „smart growth“ og þýða mætti sem snjall vöxtur. Þetta þýðir í raun að allar framkvæmdir þurfa að standast ákveðna hagkvæmni innan borgarsvæðis. Í öðru lagi þurfa framkvæmdir að fullnægja markmiðum um umhverfisvernd. Í þriðja lagi er horft til hagkvæmni aðgerða fyrir hagkerfið og hvernig aðgerðir varða félagslegt réttlæti. Hið opinbera reynir síðan að stuðla að því að þessum markmiðum sé náð, t.d. með uppbyggingu samgöngumannvirkja og annarrar grunngerðar.
    Áhersla í snjöllum vexti er lögð á að samhæfa fjölgun starfa á vinnumarkaði og framboð af nýju húsnæði, með það að markmiði að íbúðarhúsnæði henti samsetningu vinnuaflsins, og að draga úr þörf fyrir umferð um langar vegalengdir. Endurbygging eldri miðbæjarkjarna er einnig eitt af markmiðum snjalls vaxtar og verndun náttúrugæða annað, enda eru gæði umhverfis hluti þess lífsstíls sem vilji íbúa stendur til. Í fylkinu er lögð mikil áhersla á jafnræði kynþátta, en töluverður meiri hluti íbúafjölgunar er vegna fólks af latneskum uppruna, þ.e. frá Mið- og Suður-Ameríku.
    Klasamyndun hefur haft mikil áhrif á byggðaþróun Kaliforníu og orðið fyrirmynd aðgerða víða annars staðar, t.d. í Finnlandi. Í Kísildalnum sunnan við San Francisco starfa nú yfir 7.000 hátæknifyrirtæki, mörg vel þekkt um allan heim. Starfsemi þeirra hefur fylgt mikil þörf fyrir íbúðabyggð, uppbyggingu þjónustu og samgöngumannvirkja og áhersla verið á samhæfandi skipulagsaðferðir.


Heimildaskrá.

    Í þessu yfirliti yfir ástand og horfur, byggðaáætlanir og byggðaaðgerðir, hefur víða verið leitað fanga, gögn og viðhorf túlkuð og metin með hliðsjón af öðrum. Því var sá kostur valinn að hafa ekki beinar tilvitnanir í texta heldur taka saman skrá yfir helstu rit og aðrar heimildir sem byggt er á ásamt ítarefni.
     *      Byggðarannsóknarstofnun og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, Fólk og fyrirtæki. Um búsetu og starfsskilyrði á landsbyggðinni, 2003.
     *      Byggðastofnun, Breyttar áherslur í byggðamálum, 1994.
     *      Byggðastofnun, svæðisbundnar byggðaáætlanir.
     *      Byggðastofnun, Tillögur að skilgreiningu sauðfjársvæða ásamt reglum um úthlutun andvirðis beingreiðslna af 7.500 ærgildum.
     *      Búnaðarþing 2002, ályktun (síðari u.) Byggðamál.
     *      Byplan nr. 1, 2005.
     *      Bæjarstjórn Garðabæjar, Aðalskipulag Garðabæjar 2004–2016, drög, www.gardabaer.is.
     *      Bæjarskipulag Kópavogs, Aðalskipulag Kópavogs 2000–2012, 2002, www.kopavogur.is.
     *      Castells, M. Rise of the network society, 2000.
     *      De Jong, G. F. Expectations, gender and norms in migration decision-making. Population Studies. 54, 2000, 307–319.
     *      Effekter af utlokalisering av statlige arbeitsplasser, Rogaland 2004.
     *      Eiríkur Tómasson og Árni Vilhjálmsson, Álitsgerð um samkeppnisumhverfi í landbúnaði og stöðu búvöruframleiðslu gagnvart samkeppnislögum, 2004 (á vef landbúnaðarráðuneytis).
     *      European Spatial Development Perspective, ESDP, skýrslur á heimasíðu europa.eu.int/ comm/regional_policy/sources/docoffic/official/reports/som_en.htm.
     *      European Spatial Planning Observation Network, ESPON, skýrslur og starfsáætlanir á heimasíðu www.espon.lu.
     *      Ferðamálaráð Íslands, Auðlindin Ísland. Ferðaþjónustusvæði, 2002.
     *      Ferðamálaráð Íslands, Ferðafréttir 1. tbl. 2004.
     *      Tal Finney, Proceedings from an International Conference on Territorial Development, Paris 2003.
     *      Forsætisráðuneytið, Auðlind í allra þágu. Stefna ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið 2004–2007.
     *      Frumvarp til laga um skipan ferðamála, þskj. 1097, 735. mál á 131. löggjafarþingi 2004–2005.
     *      Gerður G. Óskarsdóttir, The forgotten half: Comparison of dropouts and graduates in their early work experience, 1995.
     *      Gerður G. Óskarsdóttir, Frá skóla til atvinnulífs: Rannsókn á tengslum menntunar og starfs, 2000.
     *      Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, Íslenskur sjávarútvegur við aldahvörf. Félagfræðilegur sjónarhóll. Íslensk félagsfræði: Landnám alþjóðlegrar fræðigreinar, 2004.
     *      Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, Haustskýrsla 2002, Byggðir og búseta. Þéttbýlismyndun á Íslandi.
     *      Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, Flug og ferðaþjónusta á Íslandi, Skýrsla nr. C03:07.
     *      Hagstofa Íslands, hagtölur.
     *      Hagstofa Íslands, Landshagir, 2004.
     *      Hagtíðindi, Konur og karlar 2004, 2004, 1 og 40–41.
     *      Hagtíðindi, Fyrirtæki og umsvif, 16. febrúar 2004.
     *      IBM Business Consulting Services, Úttekt á verkefninu um íslenska upplýsingasamfélagið. Unnið fyrir forsætisráðuneytið, 2002.
     *      Ingi Rúnar Eðvaldsson,. Háskólamenntun og búseta: Rannsókn á áhrifum háskólamenntunar á búsetuþróun á Íslandi, 2000.
     *      Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið, Byggðaáætlun 2002–2005 með tilheyrandi aðgerðatillögum.
     *      Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið, Þróun byggðar á grundvelli þekkingar og nýsköpunar.
     *      Indenrigs- og sundhedsministeriet, Regionalpolitik og Regionernes konkurrenceevne, á heimasíðunni www.im.dk.
     *      Institutet för tillväxtpolitiska studier, Boendeflyttare och jobbflyttare – orsaker och drivkrafte till nya flyttemönster i det postindustriella samhället, Arbetsrapport. 2004.
     *      Ívar Jónsson og Vífill Karlsson, Borgarbyggð og Bifröst – Sambúð háskóla og byggðalags, 2002.
     *      Journal of NordRegio, júní 2002, september 2003, desember 2003, mars 2004, september 2004.
     *      Jón Torfi Jónasson, Vöxtur menntunar á Íslandi og tengsl hennar við atvinnulífið, 1992.
     *      Landbúnaðarráðuneytið, reglugerð nr. 910/2003.
     *      Landbúnaðarráðuneytið, reglugerð nr. 967/2003.
     *      Landbúnaðarráðuneytið, Samningur um framleiðslu sauðfjárafurða. 13. mars 2000.
     *      Landbúnaðarráðuneytið, Tillögur og greinagerðir „grænmetisnefndar“ til landbúnaðarráðherra, 2002.
     *      Landbúnaðarráðuneytið, Úttekt á lífskjörum bænda í hefðbundnum landbúnaði 1989–1996, 1998.
     *      Landvernd, Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Meginforsendur.
     *      Meginstefnumið iðnaðar- og viðskiptaráðherra árin 2004–2007, 2004.
     *      Nora, heimasíða www.nora.fo.
     *      Nordisk InnovationsCenter, heimasíða, www.nordicinnovation.net/.
     *      Nordregio, Regional planning in Finland, Iceland, Norway and Sweden, Working paper, 2004.
     *      Nordregio, heimasíða, www.nordregio.se.
     *      Norðurslóðaáætlunin Interreg III B, heimasíða, www.northernperiphery.net.
     *      Norræna ráðherranefndin, Kommunala utjämningssystem i Norden, 2001.
     *      Magnús Oddsson, Umfang ferðaþjónustu. Erindi haldið á ráðstefnu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar 29. apríl 2004.
     *      Reskin og Padavic, I. Women and men at work, 1994.
     *      Ríkisendurskoðun, Skógrækt, 2004.
     *      Samgönguráðherra, Ræða á ferðamálaráðstefnu 14. október 2004.
     *      Samgönguráðuneytið, Fjarskiptaáætlun fyrir árin 2005–2010, Drög til kynningar 2004.
     *      Samgönguráðuneytið, Íslensk ferðaþjónusta. Framtíðarsýn, 2003.
     *      Samtök iðnaðarins, Hátækniiðnaður, drög lögð fram á Iðnþingi 18. mars 2005-08-30 SI.
     *      Samvinnunefnd um svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins, Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins 2001–2024, Fylgirit 2, Skipulagstölur, 2002.
     *      Seyfrit, C.L. og Lawerence C. H., Who will leave? Oil migration and Scottish island youth. Society and Natural Reseources, 1992, 5, 263–276.
     *      Sigríður Elín Þórðardóttir, Bleikur og blár vinnumarkaður. 2000, BA-ritgerð, HÍ.
     *      Sjávarútvegsráðuneytið, Djúpið, 5 tbl. 2004.
     *      Sjávarútvegsráðuneytið, 5 ára átak til að auka verðmæti sjávarfangs.
     *      Sjávarútvegsráðuneytið, Sjávarútvegurinn í tölum 2004.
     *      Sjöfn Sigurgísladóttir, Stefna og hlutverk Rf, Rannsóknir á Norðurlandi, 2004.
     *      Skýrsla iðnaðarráðherra um framvindu byggðaáætlunar fyrir árin 2002–2005, þskj. 218, 216. mál á 131. löggjafarþingi 2004–2005.
     *      Smart growth, www.abag.ca.gov./planning/smartgrowth, 2005.
     *      Stefán Ólafsson, Búseta á Íslandi. Rannsókn á orsökum búferlaflutninga, 1997.
     *      Stefán Ólafsson, Kísildalur – Leiðarljós Íslands inn í þekkingarhagkerfi. Rannsóknir í félagsvísindum V, 2004, 243–259.
     *      Svar fjármálaráðherra við fyrirspurn um framlög til ferðaþjónustu, þskj. 742, 291.mál á 130. löggjafaþingi 2003–2004.
     *      Tillaga til þingsályktunar um ferðamál, þskj. 1032, 678. mál á 131. löggjafarþingi 2004–2005.
     *      Tillaga til þingsályktunar um stefnu í byggðamálum fyrir árin 2002–2005, þskj. 843, 538.mál á 127. löggjafarþingi 2001–2002.
     *      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/42/EB, 27. júní 2001, um mat á áhrifum tiltekinna skipulags- og framkvæmdaáætlana á umhverfið.
     *      Utanríkisráðuneytið, Horft til framtíðar, 2002.
     *      Valdimar Ingi Gunnarsson, Staða og framtíðaráform í íslensku fiskeldi, 2004.
     *      Vaxtarsamningur Eyjafjarðarsvæðis mars 2004, Vísbending, 6. tölublað 2004.
     *      Vísbending, 51. tölublað 2004.
     *      Vottunarstofan Tún, Lífræn byggðaþróun. Nýr kostur í íslenskum byggðamálum, drög 2004.
     *      Ifor Williams, Developing Clusters, 2003.
     *      Þór Sigfússon, Landnám. Útrás íslenskra fyrirtækja, 2000.
     *      Þóroddur Bjarnason, Leiðin að heiman … Forspárgildi viðhorfa unglinga fyrir búsetuþróun á Íslandi. Rannsóknir í félagsvísindum V. 2004, 303–312.