Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 392. máls.
Þskj. 474  —  392. mál.Frumvarp til laga

um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)
1. gr.

    Iðnaðarráðherra skal stofna hlutafélag um rekstur Rafmagnsveitna ríkisins og leggja til þess allar eignir þeirra og skuldir, réttindi og skuldbindingar.
    Skal iðnaðarráðherra annast undirbúning að stofnun hlutafélagsins í samráði við fjármálaráðherra.

2. gr.

    Ákvæði 2. mgr. 14. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995, gildir ekki um innborgun hlutafjár. Þá gildir 2. mgr. 3. gr. laganna ekki um tölu stofnenda í hlutafélaginu og 1. mgr. 20. gr. sömu laga gildir ekki um tölu hluthafa.
    Að öðru leyti skulu ákvæði hlutafélagalaga gilda um hið nýja félag að svo miklu leyti sem ekki er á annan veg kveðið í lögum þessum.

3. gr.

    Öll hlutabréf í hlutafélaginu skulu vera eign ríkissjóðs. Iðnaðarráðherra fer með eignarhlut ríkisins í hlutafélaginu.

4. gr.

    Tilgangur hlutafélagsins skal vera að framleiða, dreifa og eiga viðskipti með raforku og varmaorku í samræmi við ákvæði raforkulaga, nr. 65/2003, og orkulaga, nr. 58/1967, vegna hitaveitna, hvort heldur er í heildsölu eða smásölu, ásamt hverri þeirri starfsemi annarri sem nýtt getur rannsóknir, þekkingu eða búnað félagsins.
    Hlutafélaginu skal heimilt að gera hvers konar samninga við aðra aðila til þess að ná tilgangi sínum skv. 1. mgr. á sem hagkvæmastan hátt. Þá skal félaginu heimilt að standa að stofnun fyrirtækja og gerast eignaraðili að öðrum félögum.
    Tilgangi og verkefnum hlutafélagsins skal nánar lýst í samþykktum þess. Samþykktum félagsins má breyta á hluthafafundi samkvæmt almennum reglum.

5. gr.

    Hlutafélagið tekur við einkarétti Rafmagnsveitna ríkisins til starfrækslu hita- og/eða dreifiveitna á orkuveitusvæði Rafmagnsveitnanna.
    Í samræmi við 1. gr. yfirtekur hlutafélagið allar virkjanir Rafmagnsveitna ríkisins og þau réttindi og skyldur sem Rafmagnsveiturnar hafa samkvæmt lögum eða stjórnvaldsákvörðunum vegna virkjunarframkvæmda og reksturs virkjana.

6. gr.

    Stjórn hlutafélagsins setur gjaldskrá fyrir félagið í samræmi við ákvæði raforkulaga, nr. 65/2003, og orkulaga, nr. 58/1967, vegna hitaveitna.

7. gr.

    Þegar starfsemi Rafmagnsveitna ríkisins verður lögð niður, sbr. 1. gr., fer um réttindi og skyldur starfsmanna þeirra eftir lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum, og lögum nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, eftir því sem við á. Félagið skal bjóða störf öllum starfsmönnum Rafmagnsveitna ríkisins.
    Um biðlaunarétt starfsmanna Rafmagnsveitna ríkisins gilda ákvæði laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

8. gr.

    Starfsmaður sem hefur áunnið sér rétt til lífeyrisgreiðslna skv. 24. gr. laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, og ræðst til starfa hjá hlutafélaginu með minnst þriggja mánaða uppsagnarfresti í hálft starf eða meira getur ekki hafið töku lífeyris fyrr en hann lætur af því starfi.

9. gr.

    Stofna skal hlutafélagið á stofnfundi sem haldinn skal eigi síðar en 15. desember 2005. Allur kostnaður af stofnun hlutafélagsins og yfirtöku þess á rekstri Rafmagnsveitna ríkisins greiðist af hlutafélaginu.

10. gr.

    Iðnaðarráðherra skipar nefnd þriggja óvilhallra manna og skal a.m.k. einn þeirra vera löggiltur endurskoðandi. Hlutverk nefndarinnar er að meta eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar Rafmagnsveitna ríkisins og skal nefndin leggja mat á hvert stofnfé hlutafélagsins skuli vera. Við mat þetta skal nefndin hafa fullan aðgang að öllum gögnum Rafmagnsveitna ríkisins og skulu stjórnendur og starfsmenn fyrirtækisins veita nefndinni þá aðstoð er hún óskar. Nefndin skal leggja niðurstöður sínar fyrir iðnaðarráðherra eigi síðar en þremur dögum fyrir stofnfund.

11. gr.

    Hlutafélagið skal taka til starfa 1. janúar 2006 og yfirtaka allar eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar Rafmagnsveitna ríkisins. Rafmagnsveitur ríkisins skulu lagðar niður frá og með þeim degi og fellur þá jafnframt niður umboð stjórnar fyrirtækisins.

12. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. IX. kafli orkulaga, nr. 58/1967, um Rafmagnsveitur ríkisins, fellur úr gildi þegar hlutafélagið tekur til starfa, sbr. ákvæði 11. gr.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Á stofnfundi skal kjósa stjórn félagsins og skal hún starfa þar til ný stjórn hefur verið kosin á fyrsta aðalfundi eftir að félagið hefur tekið til starfa. Hlutverk stjórnar fram að yfirtöku er að undirbúa yfirtöku á rekstri Rafmagnsveitna ríkisins, en eftir það að stjórna félaginu í samræmi við ákvæði laga.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Rafmagnsveitur ríkisins voru stofnaðar með raforkulögum 2. apríl 1946, en lögin komu til framkvæmda frá og með 1. janúar 1947. Þá voru felld úr gildi flest eldri lög um raforkumál nema vatnalögin frá 1923 sem fengu að standa óbreytt að mestu leyti. Rafmagnsveitur ríkisins tóku til starfa 1. janúar 1947.
    Árið 1965 urðu þáttaskil í sögu orkumála landsins og Rafmagnsveitnanna með setningu laga um Landsvirkjun. Á árinu 1967 voru síðan raforkulögin endurskoðuð við samþykkt orkulaga á Alþingi. Með þeim voru gerðar ýmsar meiri háttar breytingar á stórum þáttum í raforkulögunum, sérstaklega þeim sem tengdust rannsóknum, framkvæmdum í virkjunarmálum og hagnýtingu jarðhita. Með orkulögunum var einnig gerð sú breyting að Rafmagnsveitur ríkisins og Héraðsrafmagnsveiturnar voru sameinaðar í eitt fyrirtæki. Það var gert að sjálfstæðu fyrirtæki sem heyrði undir stjórn þess ráðherra sem færi með raforkumál.
    Á árinu 2003 urðu ný þáttaskil í sögu orkumála landsins með setningu nýrra raforkulaga, nr. 65/2003, sem komu til framkvæmda þann 1. júlí 2003. Með setningu þeirra laga voru skapaðar forsendur fyrir samkeppni í vinnslu og viðskiptum með raforku.
    Þann 18. júní 2004 tóku gildi lög um stofnun Landsnets hf., nr. 75/2004. Hlutverk félagsins er að annast flutning raforku og kerfisstjórnun samkvæmt ákvæðum III. kafla raforkulaga, nr. 65/2003, og annast þar af leiðandi rekstur allra flutningsvirkja. Hófst rekstur þessi þann 1. janúar 2005.
    Á árinu 1978 tók Orkubú Vestfjarða við rekstri Rafmagnsveitnanna á Vestfjörðum og árið 1985 tók Hitaveita Suðurnesja við rekstri Rafmagnsveitnanna á Reykjanesi.
    Á orkuveitusvæði Rafmagnsveitna ríkisins búa um 49.100 manns sem njóta þjónustu fyrirtækisins.
    Rafmagnsveitur ríkisins eiga og reka háspennukerfi sem er um 8.700 km að lengd. Hér er um að ræða rúmlega 5.800 km af dreifilínum á 11 og 19 kV sem byggðar hafa verið upp í sveitum landsins, ásamt um 1.600 km af 11 og 19 kV jarðstrengjum til sveita. Einnig er um að ræða stofnlínur á 33, 66 og 132 kV, svo og sæstrengi og jarðstrengi. Enn fremur eiga og reka Rafmagnsveiturnar dreifikerfi í um 50 þéttbýlisstöðum og um 55 aðveitustöðvar.
    Rafmagnsveiturnar eiga níu vatnsaflsvirkjanir í rekstri, flestar fremur litlar. Þær eru samtals um 19 MW og er Lagarfossvirkjun þeirra stærst, um 7,5 MW, en Skeiðsfossvirkjun næststærst, um 5 MW. Unnið er að því að stækka Lagarfossvirkjun um nær 20 MW og verður nýja vélin væntanlega gangsett á árinu 2007.
    Þá eiga Rafmagnsveiturnar um 30 dísilaflstöðvar með samtals um 40 MW afli auk tveggja kyndistöðva þar sem framleitt er heitt vatn með rafskautskötlum og 5 MW varaafl er til staðar.
    Raforkuöflun fer fram með tvennum hætti, annars vegar með orkukaupum af Landsvirkjun og nokkrum smærri aðilum og hins vegar með eigin framleiðslu í vatnsaflsvirkjunum og varmaafls- og kyndistöðvum. Eigin raforkuframleiðsla er um 14% af allri raforkuöflun.
    Á árunum 1972–1984 byggðu Rafmagnsveiturnar 132 kV byggðalínur, samtals 1.057 km að lengd, ásamt tólf aðveitustöðvum. Með byggðalínukerfinu voru öll raforkuveitusvæði landsins tengd saman í eitt landskerfi sem aukið hefur öryggi raforkunotenda landsbyggðarinnar verulega. Landsvirkjun tók yfir byggðalínukerfið til eignar og reksturs frá 1. janúar 1983 uns Landsnet hf. tók yfir þennan rekstur í ársbyrjun 2005. Rafmagnsveiturnar sáu hins vegar um rekstur og viðhald þess að hluta til á þessu tímabili.
    Á undanförnum árum hafa Rafmagnsveiturnar keypt nokkrar orkuveitur sem voru í eigu viðkomandi sveitarfélaga. Þær eru eftirfarandi:
         1991     Hitaveita Hafnar í Hornafirði
         1991     Rafveita og Hitaveita Siglufjarðar ásamt Skeiðsfossvirkjun
         1992     Hitaveita Seyðisfjarðar
         1995     Rafveita Borgarness
         2000     Rafveita Hveragerðis
         2001     Rafveita Sauðárkróks
         2003     Hitaveita Dalabyggðar
         2005     Hitaveita Blönduóss
    Reynslan hefur þegar leitt í ljós að fjárfestingar þessar hafa ekki eingöngu verið arðbærar Rafmagnsveitunum heldur einnig þeim sveitarfélögum sem hlut áttu að máli.
    Árið 1999 stofnuðu Rafmagnsveiturnar hlutafélagið Héraðsvötn ehf. ásamt heimamönnum í Skagafirði í þeim tilgangi að standa að virkjun Héraðsvatna við Villinganes. Þetta var unnt eftir að Alþingi samþykkti á vorþingi 1999 að heimila Rafmagnsveitunum að gerast aðilar að hlutafélögum í orkurekstri og eiga þær 50% hlutafjár í Héraðsvötnum ehf.
    Þá stofnuðu Rafmagnsveiturnar einnig á sama ári hlutafélagið Sunnlenska orku ehf. ásamt Hveragerðisbæ og Sveitarfélaginu Ölfusi í þeim tilgangi að standa að virkjun jarðhita í og við Grændal. Eignarhluti Rafmagnsveitnanna er 90%. Að auki eiga Rafmagnsveitur ríkisins hluti í sjö öðrum félögum.
    Starfsmenn Rafmagnsveitnanna voru 214 talsins í lok ársins 2004. Heildarorkusala Rafmagnsveitna ríkisins nam 1.252 GWst á árinu 2004. Smásala raforku nam 888 GWst, heildsala raforku 195 GWst og sala á heitu vatni 65 GWst.
    Fjárhagsstaða Rafmagnsveitna ríkisins er traust og nam eigið fé fyrirtækisins í árslok 2004 tæpum 10,8 milljörðum kr. Árið 2004 var veltan 6.431 millj. kr. Rekstrargjöld vegna orkukaupa námu 4.924 millj. kr. en almenn rekstrargjöld 696 millj. kr. Rekstrarafgangur fyrir afskriftir, fjármunatekjur og fjármagnsgjöld nam 1.507 millj. kr. Handbært fé frá rekstri var 1.782 millj. kr. og fjárfestingahreyfingar námu 1.226 millj. kr. Rekstrarhagnaður nam 472 millj. kr. eftir að afskrifaðar höfðu verið um 1.067 millj. kr.
    Sveitakerfin sem fjármögnuð voru af ríkissjóði eru talin með í afskriftagrunni fyrirtækisins þannig að rekstrarreikningurinn endurspeglar tekjuþörf vegna endurnýjunar þessara kerfa. Styrking og endurnýjun hefur hin síðari ár að mestu verið fjármögnuð af sölutekjum fyrirtækisins og hefur það lengst af valdið viðvarandi hallarekstri og hærri gjaldskrá en hjá öðrum rafveitum. Fjármögnun þessa félagslega þáttar í starfsemi Rafmagnsveitnanna hefur nú verið leyst með lögum nr. 98/2004 og hefur hið nýja hlutafélag því öflugan fjárhagslegan grunn og góðar horfur eru á að unnt sé að skila nauðsynlegu fé úr rekstri til áframhaldandi uppbyggingar fyrirtækisins og viðunandi arðsemi.
    Röksemdirnar fyrir því að stofna hlutafélag um Rafmagnsveitur ríkisins eru margvíslegar:
     1.      Meginröksemdin er sú að hlutafélagsformið er mun hentugra rekstrarform fyrir rekstur sem þennan en það rekstrarform sem nú er notast við, jafnvel þó að ríkissjóður sé einn eigandi að hlutafélaginu, einkum þegar litið er til þess meginsjónarmiðs sem raforkulögin frá 2003 byggja á, sem er að reyna að stuðla að samkeppni í vinnslu og viðskiptum með raforku. Verður í þessu sambandi að hafa í huga að hlutafélagsformið er mjög fastmótað og þrautreynt. Í löggjöf sem um það hefur verið sett er vel skilgreind verkaskipting milli hluthafa- og aðalfunda (þ.e. eigenda), stjórnar og framkvæmdastjórnar. Þá eru reglur um endurskoðun og ársreikningsgerð, bæði rekstrarreikning og efnahagsreikning, mjög fastmótaðar og skýrar.
     2.      Ábyrgð ríkissjóðs á rekstri fyrirtækisins takmarkast við hlutafjáreign og ábyrgð stjórnenda eykst.
     3.      Með því að reka Rafmagnsveiturnar í hlutafélagsformi verður reksturinn sveigjanlegri. Fjárfestingar og nýjungar í rekstri verða auðveldari í framkvæmd og fjárhagsleg uppbygging fyrirtækisins sem hlutafélags stuðlar að aukinni hagræðingu og hagkvæmni í rekstri.
     4.      Öll önnur orkufyrirtæki hér á landi hafa valið þann kost að breyta rekstrarformi sínu yfir í hlutafélagsform að undanskildri Orkuveitu Reykjavíkur sem kaus fremur sameignarfélagsformið sem er sama rekstrarform og Landsvirkjun hefur notað. Um alla Evrópu hefur sama verið uppi á teningnum, hlutafélagsformið hefur þar verið langvinsælasta rekstrarform orkufyrirtækja hin síðari ár.
     5.      Með því að breyta rekstrarformi Rafmagnsveitna ríkisins, svo sem frumvarpið gerir ráð fyrir, er jafnframt opnað fyrir þann möguleika að aðrar orkuveitur geti gengið inn í hlutafélagið og orðið hluthafar í því. Með því gæti náðst aukin hagræðing í orkudreifingu. Í hlutafélagalögum eru ákvæði sem vernda rétt minnihlutaeigenda. Ef ríkið gengur til samstarfs við aðra aðila um atvinnurekstur er hlutafélagsformið því sérstaklega viðeigandi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um heimild iðnaðarráðherra til að standa að stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins og að ráðherra annist undirbúning að stofnun hlutafélagsins í samráði við fjármálaráðherra.

Um 2. gr.

    Í greininni eru nauðsynlegar undanþágur frá ákvæðum hlutafélagalaga, m.a. með tilliti til þess að ríkissjóður er eini stofnandi og hluthafi félagsins í upphafi. Að öðru leyti en fram kemur í greininni skulu ákvæði hlutafélagalaga gilda um hlutafélagið.

Um 3. gr.

    Öll hlutabréf félagsins verða í eigu íslenska ríkisins við stofnun þess og lagt er til að iðnaðarráðherra fari með eignarhlut ríkisins í félaginu. Skv. 29. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, skulu ríkisaðilar í A-hluta hverju sinni afla heimildar í lögum, m.a. til að selja eignarhluti í félögum. Af þessum sökum getur ekki komið til sölu á hlutum ríkisins í hlutafélaginu nema með sérstakri heimild Alþingis.

Um 4. gr.

    Í greininni er megintilgangur hlutafélagsins skilgreindur. Samkvæmt henni er það tilgangur félagsins að framleiða, dreifa og eiga viðskipti með raforku og varmaorku í samræmi við ákvæði raforkulaga, nr. 65/2003. Hlutverk félagsins tekur til alls orkuiðnaðar, hvort heldur orkugjafinn er vatnsafl, jarðvarmi, olía eða annað. Enn fremur er tilgangur félagsins öll önnur starfsemi sem nýtt getur rannsóknir, þekkingu eða búnað félagsins.
    Til að ná þessum tilgangi sínum á sem hagkvæmastan hátt er gert ráð fyrir því í 2. mgr. 4. gr. að félaginu sé heimilt að gera hvers konar samninga við aðra aðila og að því sé heimilt að standa að stofnun fyrirtækja og gerast eignaraðili í öðrum félögum.
    Jafnframt er gert ráð fyrir að nánar sé kveðið á um tilgang félagsins í samþykktum þess. Tilgangi félagsins má síðan breyta á hluthafafundi samkvæmt almennum reglum. Með því gefst nauðsynlegt svigrúm til að laga hlutverk félagsins að aðstæðum hverju sinni.

Um 5. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um að hlutafélagið taki yfir einkarétt þann sem Rafmagnsveitur ríkisins hafa til starfrækslu hita- og/eða rafveitu á orkuveitusvæði Rafmagnsveitnanna. Fær félagið að þessu leyti sömu stöðu og Rafmagnsveiturnar hafa nú.
    Í 2. mgr. er sérstaklega áréttað að virkjanir og virkjunarréttur Rafmagnsveitna ríkisins færist yfir til hlutafélagsins og að það hafi jafnframt sömu skyldur vegna virkjana og Rafmagnsveiturnar hafi haft samkvæmt lögum eða stjórnvaldsákvörðunum.

Um 6. gr.

    Í greininni er kveðið á um að stjórn hlutafélagsins skuli setja gjaldskrá fyrir félagið og að gjaldskráin skuli vera í samræmi við ákvæði raforkulaga, nr. 65/2003.

Um 7. gr.

    Þegar starfsemi Rafmagnsveitna ríkisins verður lögð niður, sbr. 1. gr., fer um réttindi og skyldur starfsmanna þeirra eftir lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum, og lögum nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Gert er ráð fyrir að öllum núverandi starfsmönnum verði boðið starf hjá hinu nýja fyrirtæki. Um biðlaunarétt þeirra fer eftir lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Um 8. gr.

    Í greininni er fjallað um þá starfsmenn sem hafa áunnið sér lífeyrisrétt í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og ráðast til starfa hjá hlutafélaginu með minnst þriggja mánaða uppsagnarfesti í hálft starf eða meira. Lagt er til að sama regla gildi um þessa starfsmenn og almennt gildir um sjóðfélaga í B-deild lífeyrissjóðsins. Réttur til töku lífeyris úr B-deild er bundinn við starfslok viðkomandi, þ.e. starfslok úr því starfi sem veitt hefur aðild að deildinni. Sjá nánar 1. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997. Lagt er til að sambærileg regla gildi um sjóðfélaga B-deildar sem þiggja störf hjá hlutafélaginu.

Um 9. gr.

    Lagt er til að sett verði tímamörk um stofnun félagsins og er miðað við að stofnfundur skuli haldinn eigi síðar en 15. desember 2005. Á stofnfundi skal leggja fram til afgreiðslu drög að stofnsamningi og samþykktum eins og skylt er við stofnun hlutafélaga. Þá skal félaginu jafnframt kosin stjórn samkvæmt samþykktum þess til fyrsta aðalfundar. Í greininni er gert ráð fyrir að hlutafélagið beri allan kostnað af stofnun félagins og kostnað við yfirtöku þess á rekstri Rafmagnsveitna ríkisins.

Um 10. gr.

    Við yfirtöku félagsins á eignum og rekstri Rafmagnsveitna ríkisins og stofnunar félagsins er nauðsynlegt að fram fari mat á því hvert stofnfé félagsins skuli vera. Í greininni er gert ráð fyrir að iðnaðarráðherra skipi þriggja manna nefnd sem hafi þetta hlutverk. Í nefndinni sitji a.m.k. einn löggiltur endurskoðandi. Nefndin skal leggja fram niðurstöður sínar fyrir iðnaðarráðherra eigi síðar en þremur dögum fyrir stofnfund, sbr. ákvæði 8. gr. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 11. gr.

    Í greininni er lagt til að hlutafélagið taki til starfa 1. janúar 2006 og að yfirtaka þess á Rafmagnsveitum ríkisins miðist við sama tímamark. Jafnframt verða Rafmagnsveitur ríkisins í núverandi mynd lagðar niður þann dag. Umboð stjórnar Rafmagnsveitna ríkisins fellur niður frá og með sama degi.

Um 12. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Í 9. gr. frumvarpsins er kveðið á um að stofna skuli hlutafélag um Rafmagnsveitur ríkisins hf. á stofnfundi sem haldinn skal eigi síðar en 15. desember 2005. Í 11. gr. frumvarpsins er hins vegar gert ráð fyrir að hlutafélagið taki til starfa 1. janúar 2006 og yfirtaki þá allar eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar Rafmagnsveitnanna. Þetta er gert svo að ráðrúm gefist til að ganga frá ráðningu forstjóra og starfsmanna hlutafélagsins áður en það tekur við rekstri Rafmagnsveitnanna. Í ákvæði til bráðabirgða er gert ráð fyrir að kosin sé stjórn á stofnfundi félagsins og að hún starfi þar til ný stjórn hefur verið kosin á fyrsta aðalfundi eftir að félagið tekur til starfa. Í ákvæðinu er lagt til að stjórninni verði falið að undirbúa yfirtöku á rekstri Rafmagnsveitna ríkisins með ráðningu forstjóra og starfsfólks og öðrum aðgerðum sem nauðsynlegar eru til að hlutafélagið geti sinnt hlutverki sínu.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

    Tilgangurinn með frumvarpinu er að fela ríkisstjórninni að stofna hlutafélag sem taki við rekstri Rafmagnsveitna ríkisins. Gert er ráð fyrir að eignir og skuldir núverandi fyrirtækis renni til hins nýja hlutafélags, Rarik hf. Þar á meðal eru taldar lífeyrisskuldbindingar sem verði greiddar LSR með skuldabréfi. Skv. 10. gr. frumvarpsins verður allur kostnaður af stofnun hlutafélagsins og yfirtöku á öðrum rekstri greiddur af félaginu, þar með taldar hugsanlegar biðlaunagreiðslur. Einnig mun Rarik hf. taka við einkarétti Rafmagnsveitna ríkisins til starfrækslu hita- og rafveitna á orkusvæði Rafmagnsveitnanna. Samkvæmt samningi milli fjármálaráðherra, iðnaðarráðherra og Rafmagnsveitna ríkisins frá janúar 1995 við yfirtöku lána skulu Rafmagnsveitur ríkisins greiða arð í ríkissjóð, sem nemur tveimur hundraðshlutum af bókfærðu eigin fé við næstliðin áramót. Vegna þessa ákvæðis mun arðgreiðsla, til ríkissjóðs nema 210 m.kr. árið 2005. Samkvæmt sjóðstreymisáætlunum Rarik er gert ráð fyrir 153 m.kr. rekstrarframlagi úr ríkissjóði árið 2006. Samkvæmt rekstraruppgjöri Rariks fyrir árið 2004 eru langtímaskuldir fyrirtækisins rúmlega 3,2 milljarðar kr. annars vegar skuldabréf vegna lífeyrisskuldbindinga að fjárhæð rúmlega 1,5 milljarðar og hins vegar níu lán hjá NIB að fjárhæð rúmlega 2 milljarðar kr. sem voru tekin með ríkisábyrgð. Til stendur að taka 1 milljarðs kr. langtímalán sem mun einnig vera með ríkisábyrgð. Allar nýjar skuldbindingar munu alfarið verða á ábyrgð Rarik hf.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.