Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 3. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 481  —  3. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

Frá 2. minni hluta fjárlaganefndar.    Sú lagasetning sem ríkisstjórnin beitir sér fyrir með frumvarpi þessu er málamyndagerningur. Í texta laganna leitast þingmeirihluti sem situr hið mesta til vors 2007 við að ákveða fjárveitingar fyrir þau þing sem síðar verða kjörin. Alþingi hefur í þingsályktunartillögum gefið út viljayfirlýsingar um uppbyggingaráætlanir í einstökum málaflokkum en að með lögum séu veittar fjárveitingar fram í tímann með þessum hætti er fátítt, ef ekki nýlunda, enda eru næstu þing sem kjörin verða ekki bundinn af lögum þessum og munu taka eigin ákvarðanir um fjárveitingar. Til marks um sýndartillöguna er að ósk fjárlaganefndarmanns um að fengnar yrðu umsagnir um málið eins og venja er um lagafrumvörp var hafnað.
    Annar minni hluti lýsir almennum stuðningi við þau verkefni sem tilgreind eru í lögunum þó að aðferðafræði þeirra sé honum ekki að skapi. Sérstaklega lýsir hann ánægju með hlut Landspítala – háskólasjúkrahúss en nokkrir þingmenn Samfylkingar undir forustu Kristjáns Möllers fluttu þingsályktunartillögu um það efni á 130. löggjafarþingi, sjá 542. mál. Þó er aðfinnsluvert við heildarmynd tillagnanna hve hlutur aldraðra er fyrir borð borinn. Þá gerir 2. minni hluti alvarlega athugasemd við að í greinargerð sé sérstaklega vísað til innri leiðar Sundabrautar. Leið þjóðvega um þéttbýli er skipulagsmál viðkomandi sveitarfélaga og verður að leysa í samvinnu við íbúa en ekki ákveða fyrir fram við fjárveitingar á Alþingi.

Alþingi, 5. des. 2005.Helgi Hjörvar,
frsm.

    Einar Már Sigurðarson.