Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 236. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 494  —  236. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Frá félagsmálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur frá félagsmálaráðuneyti, Bjarna Þór Eyvindsson frá Félagi ungra lækna, Guðríði Þorsteinsdóttur frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti og Gunnar Björnsson frá starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytis. Nefndinni bárust skriflegar umsagnir frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, landlæknisembættinu, Læknafélagi Íslands og Samtökum atvinnulífins. Nær allir umsagnaraðilar taka undir með efnisatriðum frumvarpsins.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Breytingarnar felast meðal annars í innleiðingu tilskipunar Evrópubandalagsins, nr. 2003/88/EB, frá 4. nóvember 2003, um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma lækna í starfsnámi, sbr. einnig tilskipun nr. 2000/34/EB, um breytingu á tilskipun ráðsins nr. 93/104/EB, þannig að hún taki til þeirra starfsgreina sem falla utan gildissviðis þeirrar tilskipunar. Lagt er til að vikulegur vinnutímafjöldi lækna í starfsnámi verði styttur í áföngum. Frá gildistöku laganna, verði frumvarpið að lögum, fram til 31. júlí 2007 skal hámarksvinnutími lækna í starfsnámi, að yfirvinnu meðtalinni, ekki vera umfram 58 klukkustundir að meðaltali á hverju fjögurra mánaða tímabili. Frá 1. ágúst 2007 til 31. júlí 2009 skal hámarkið vera 56 klukkustundir á viku. Þannig er veittur sérstakur aðlögunartími og stefnt að því að meginregla vinnutímatilskipunarinnar um 48 klukkustunda vikulegan hámarksvinnutíma verði komin til framkvæmda hér á landi 1. ágúst 2009. Jafnframt er kveðið á um að reglur sem settar voru fyrir gildistöku laga nr. 68/2003 skuli halda gildi sínu, en nokkur vafi hefur leikið á um gildi þeirra.
    Rétt er að taka fram að skipuð var nefnd til að fjalla um hugtakið ,,læknir í starfsnámi“ og með hliðsjón af niðurstöðum nefndarinnar hefur heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið komist að þeirri niðurstöðu að hin faglega skilgreining á hugtakinu sé þessi:
     a.      Læknakandídatar sem hafa lokið læknaprófi en eru ekki komnir með lækningaleyfi og starfa í kandídatsstöðu sem er viðurkennd til öflunar lækningaleyfis.
     b.      Læknar sem starfa í stöðum sem auglýstar eru sérstaklega sem námsstöður vegna sérnáms og uppfylla skilyrði reglugerðar nr. 305/1997, um veitingu lækningaleyfa og sérfræðileyfa
    Við umfjöllun málsins komu fram athugasemdir af hálfu ungra lækna sem sneru að því að vinnuveitandi þeirra hefði ekki haft við þá samráð um fyrirkomulag vinnutíma, svo sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Hins vegar kom í ljós samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðis- og tryggingamálráðuneyti að þó nokkur vinna hefur verið í gangi með ungum læknum og hafa þeir til dæmis átt fulltrúa í starfshópi um vaktakerfi og vinnufyrirkomulag unglækna sem skipaður var í maí 2005. Starfshópurinn skilaði áfangaskýrslu í lok júní 2005 og þar hafa læknarnir átt þess kost að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.
    Í umsögn fjármálaráðuneytis, í fylgiskjali með frumvarpinu, kemur fram að erfitt sé að meta fjárhagsleg áhrif frumvarpsins þar sem lögleiðing þess hefði í för með sér breytingu á skipulagi vinnu lækna í starfsnámi innan stærstu sjúkrahúsanna. Auk þess sé óvíst hversu marga lækna þurfi að ráða er lögin verði komin til framkvæmda að fullu, en ekki sé óraunhæft að gera ráð fyrir að stöðum unglækna við sjúkrahúsin fjölgi um tíu ár hvert vegna innleiðingar tilskipunarinnar. Ráðuneytið nefnir 35 millj. kr. sem árlega aukningu útgjalda ríkissjóðs og gerir það samtals 140 millj. kr. á þessum fjórum árum. Unglæknar gera hins vegar ráð fyrir að stöðum fjölgi um 37–39 og að kostnaðaraukning muni nema um 150–160 millj. kr. þegar frumvarpið er að fullu komið til framkvæmda.
    Jóhanna Sigurðardóttir, Lúðvík Bergvinsson, Magnús Þór Hafsteinsson, Pétur H. Blöndal og Valdimar L. Friðriksson skrifa undir álitið með fyrirvara.
    Steingrímur J. Sigfússon sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu, með fyrirvara.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.


    Alþingi, 5. des. 2005.


                                  

Siv Friðleifsdóttir,


form., frsm.


Birgir Ármannsson.


Jóhanna Sigurðardóttir,


með fyrirvara.



Bjarni Benediktsson.


Lúðvík Bergvinsson,


með fyrirvara.


Pétur H. Blöndal,


með fyrirvara.



Magnús Þór Hafsteinsson,


með fyrirvara.


Birkir J. Jónsson.


Valdimar L. Friðriksson,


með fyrirvara.