Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 327. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 549  —  327. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., með síðari breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingva Má Pálsson og Ásu Ögmundsdóttur frá fjármálaráðuneyti, Indriða H. Þorláksson frá ríkisskattsstjóra, Sigurgeir Þorgeirsson og Þórarin E. Sveinsson frá Bændasamtökum Íslands, Einar Marinósson frá Olíuverslun Íslands hf., Gest Friðjónsson frá Olíudreifingu, Ólaf Jónsson frá Skeljungi hf., Knút Halldórsson frá Landssambandi vörubifreiðastjóra, Árna Jóhannsson frá Samtökum iðnaðarins og Jón Rögnvaldsson frá Vegagerðinni. Umsagnir bárust nefndinni frá Umhverfisstofnun, Landssambandi vörubifreiðastjóra, Samtökum iðnaðarins, Olíuverslun Íslands hf., ríkisskattstjóra, Viðskiptaráði Íslands, Landssambandi smábátaeigenda, Vegagerðinni, Umferðarráði, Samtökum atvinnulífsins, Bændasamtökum Íslands, Skeljungi hf., Olíufélaginu hf., Olíudreifingu ehf. og Umferðarstofu.
    Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögunum með hliðsjón af þeirri reynslu sem komin er á lögin frá gildistöku þeirra 1. júlí 2005. Vísast nánar til þess sem fram kemur í athugasemdum við frumvarpið.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að leitað verði leiða til að þau ökutæki sem hafa heimild til að nota litaða olíu verði sérstaklega auðkennd, t.d. á númeraplötu eða með miða í framrúðu.
    Við umfjöllunina var varpað fram spurningu um ábyrgð afgreiðslumanna olíufélaganna. Í því sambandi var bent á að olíufyrirtæki bæru samkvæmt ákvæðum laganna ábyrgð á greiðslu gjalds af gjaldskyldri olíu og litun ógjaldskyldrar olíu, auk þess sem þeim bæri að tryggja að ógjaldskyld ólituð olía til skipa færi ekki til annarra nota. Í 1. málsl. 2. mgr. 4. gr. laganna kemur fram að litaða olíu megi ekki nota sem eldsneyti í öðrum tilvikum en lýst er í 1. mgr. Af þessu má álykta að notandinn beri ábyrgð á því að lituð olía verði ekki notuð nema samkvæmt heimildum í 1. mgr. greinarinnar. Meiri hlutinn telur því að starfsmenn beri ekki ábyrgð á afgreiðslu olíunnar.
    Meiri hlutinn undirstrikar það sem kom fram í áliti 1. minni hluta í 849. máli 130. löggjafarþings, þ.e. að endurgreiðslur, sem bændur fengu á grundvelli laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, en misstu við gildistöku laga um olíugjald og kílómetragjald, verði bættar þeim með einhverjum hætti.
    Fram kom við umfjöllunina að ekki hefðu orðið breytingar á áformum Evrópusambandsins að taka í notkun mælitæki í bifreiðar árið 2011 til að mæla notkun á vegum eins og fram kom í fyrrgreindu nefndaráliti 1. minni hluta. Móta þurfi stefnu í álagningu umhverfisskatta á brennsluefni og notkunarskatta (þjónustugjalda) fyrir vegi fram til þess tíma.
    Meiri hlutinn leggur til að gjaldskrá sérstaks kílómetragjalds verði breytt frá því sem kveðið er á um í 4. gr. frumvarpsins. Ástæða þess er tvíþætt. Lagt hefur verið fram frumvarp um að framlengja skuli tímabundna lækkun á olíugjaldi úr 45 kr. í 41 kr. til 1. júlí 2006, sbr. 363. mál sem nefndin ræddi samhliða máli þessu. Það hefur áhrif á sérstakt kílómetragjald þar sem gæta þarf jafnræðis í skattlagningu þyngri ökutækja sem borga bæði olíugjald og kílómetragjald í samræmi við núgildandi lög. Í öðru lagi er byggt á nákvæmari og samhæfðari eyðslutölum þyngri ökutækja sem fengust frá Landsambandi vörubifreiðastjóra, nokkrum bifreiðaumboðum og Samtökum iðnaðarins. Þannig næst meira jafnræði í gjaldtöku milli ökutækja til sérstakra nota sem aka á gjaldfrjálsri olíu og annarra ökutækja svipaðrar gerðar miðað við sambærilegan akstur í almenna vegakerfinu.
    Samkvæmt frumvarpinu eiga allar dráttarvélar að fá heimild til að nota gjaldfrjálsa litaða olíu þar sem þær eru oftast notaðar sem vinnuvélar. Þess vegna leggur meiri hlutinn til að eftirvagnar sem eru þyngri en 5.000 kg og eru dregnir af dráttarvélum greiði sérstakt kílómetragjald. Undanþegnir gjaldskyldu eru eftirvagnar sem dregnir eru af bifreið á beltum eða dráttarvél og nær eingöngu notaðir utan opinberra vega. Með þessu er m.a. átt við eftirvagna í eigu bænda sem nýttir eru við eða innan landareignar lögbýla.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingsskjali.

Alþingi, 7. des. 2005.Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Dagný Jónsdóttir.


Birgir Ármannsson.Ásta Möller.


Siv Friðleifsdóttir.