Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 394. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 563  —  394. mál.
Svarheilbrigðisráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um birgðir inflúensulyfja vegna fuglaflensu.

     1.      Eru enn til birgðir af inflúenslulyfjum (Tamiflú og Relansa) sem nægja fyrir þriðjung þjóðarinnar, eru áform um að auka þær birgðir, og þá hve mikið?
    Í landinu eru um þessar mundir 89.000 meðferðarskammtar af Tamiflú og Relensa. Unnið er að mati á frekari þörf inflúensulyfja og gerðar hafa verið ráðstafanir til að auka lyfjabirgðahaldið verði talin þörf á því.

     2.      Hvernig er haldið utan um þær birgðir inflúenslulyfja sem keyptar hafa verið á undanförnum mánuðum? Er lyfið geymt til notkunar ef heimsfaraldur skellur á eða hafa læknar getað ávísað því að vild sl. mánuði?
    Lyfin eru geymd á tilteknum miðlægum stað þar sem fyllsta öryggis er gætt. Þeim inflúensulyfjum, sem keypt hafa verið á þessu ári (82.000 meðferðarskammtar), er einungis hægt að ávísa ef Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin lýsir því yfir að heimsfaraldur inflúensu sé skollinn á. Árið 2004 voru keyptir 7.000 meðferðarskammtar en heimilt er í samráði við sóttvarnalækni að nota af þeim birgðum ef á þarf að halda í árlegri inflúensu enda bæti lyfjainnflytjendur slíka notkun með endurnýjun lyfjanna. Læknar hafa heimild til að ávísa inflúensulyfjum ef ábendingar eru fyrir hendi og hafa lyfjainnflytjendur flutt inn lyf á ári hverju í því skyni.

     3.      Hverjir munu fá lyfið ef heimsfaraldur brýst út, mun fólk í ákveðnum starfsstéttum, aldursflokkum eða með ákveðna sjúkdóma hafa forgang?
    Ekki er fyrir fram hægt að vita með hvaða hætti heimsfaraldur inflúensu leggst á fólk og hvaða aldurshópa. Í flestum þekktum heimsfaröldrum leggst inflúensa þyngst á eldra fólk og yngstu börnin. Undantekning þar á var spánska veikin en hún lagðist af ókunnum ástæðum hvað þyngst á fólk á aldrinum 20–40 ára. Í áætlunum um lyfjakaup hefur verið tekið mið af því að næsti inflúensufaraldur leggist þyngst á hefðbundna áhættuhópa, svo sem aldraða og fólk með tiltekna undirliggjandi sjúkdóma. Komi í ljós að áhættudreifingin verði önnur verður brugðist við því. Í áætlunum er gert ráð fyrir því að ákveðnar starfstéttir fái fyrirbyggjandi meðferð, einkum þeir sem lækna og líkna sjúkum og starfsfólk sem sér um allra nauðsynlegustu starfsemi í landinu.

     4.      Hver mun sjá um birgðahald og dreifingu á lyfinu ef heimsfaraldur skellur á?
    Sóttvarnalæknir sér um birgðahald og dreifingu á lyfinu ef heimsfaraldur skellur á. Gert er ráð fyrir að lyfinu verði dreift til heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa sem sjá um að koma lyfjum til þurfandi samkvæmt nánari fyrirmælum sóttvarnalæknis.

     5.      Hafa heilbrigðisyfirvöld einhverja samvinnu við yfirmenn herstöðvarinnar í Keflavík vegna hugsanlegs fuglaflensufaraldurs, hefur verið undirbúin aðgerðaáætlun fyrir íbúa varnarsvæðisins og, ef svo er, eru íslensk stjórnvöld sátt við hana?
    Íslensk heilbrigðisyfirvöld hafa á undanförnum árum haft samvinnu við yfirmenn varnarliðsins vegna hugsanlegra atburða af völdum sýkla, þ.m.t. farsótta, eiturefna og geilsavirkra efna. Íbúar á varnarsvæðinu munu falla undir almennan viðbúnað í landinu vegna hugsanlegs heimsfaraldurs inflúensu en um þessar mundir er unnið að slíkum viðbúnaðaráætlunum.