Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 289. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 565  —  289. mál.




Svar



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Guðjóns A. Kristjánssonar um skerðingarreglur lágmarksbóta.

     1.      Hvernig eru skerðingarreglur um samsettar lágmarksbætur íslenskra ellilífeyrisþega, sem búa hér á landi, í Danmörku, Svíþjóð, Noregi eða Finnlandi, vegna atvinnutekna, lífeyristekna, séreignarsparnaðartekna og fjármagnstekna? Svarið óskast sundurliðað eftir hverjum tekjuflokki, miðað við 0–10.000 kr. tekjur á mánuði, 10.001–20.000 kr. tekjur á mánuði, og svo áfram á 10.000 kr. bili upp í 200.000 kr.
    Í lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum, er fjallað um rétt til ellilífeyris, tekjutryggingar og tekjutryggingarauka. Þá er í lögum nr. 118/1993, um félagslega aðstoð, með síðari breytingum, fjallað um rétt til heimilisuppbótar og frekari uppbóta. Bætur þessar teljast lágmarksbætur frá Tryggingastofnun ríkisins.

Skilyrði ellilífeyris og bóta tengdum honum.
    Rétt til ellilífeyris eiga þeir sem eru 67 ára eða eldri og hafa verið búsettir á Íslandi a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs, sbr. 11. gr. laga um almannatryggingar. Fullur ellilífeyrir greiðist þeim sem hafa verið búsettir á Íslandi a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða greiðist ellilífeyrir í hlutfalli við búsetutímann. Heimilt er þó að miða bætur beggja hjóna, sem bæði fá bætur, við búsetutíma þess sem á lengri réttindatíma. Tekjutrygging og tekjutryggingarauki greiðist þeim sem fá greiddan ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins og gilda þá sömu reglur um búsetutíma á Íslandi.
    Heimilisuppbót er heimilt að greiða einhleypingum sem eiga lögheimili á Íslandi sem njóta óskertrar tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar og eru einir um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað, sbr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð. Eigi einhleypingur rétt á skertri tekjutryggingu er heimilisuppbótin lækkuð eftir sömu reglum og gilda um tekjutryggingu.
    Einnig er heimilt að greiða ellilífeyrisþegum frekari uppbætur ef þeir eiga lögheimili á Íslandi og ef sýnt þykir að þeir geta ekki framfleytt sér án þess, sbr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð.

Skilgreining á tekjum.
    Ef framangreind skilyrði eru uppfyllt þá ræðst fjárhæð bótanna af þeim tekjum sem einstaklingur hefur. Mikilvægt er að skilgreina vel hvaða tekjur eru lagðar til grundvallar við útreikning bótanna og er það gert í 10. gr. almannatryggingalaga. Þar segir að til tekna þegar um þessar bætur er að ræða teljist tekjur skv. II. kafla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki telst til tekna, og frádráttarliða skv. 1., 3., 5. og 6. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum. Þó skulu við ákvörðun tekjugrundvallar tekjur skv. C-lið 7. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, (fjármagnstekjur) metnar að 50 hundraðshlutum við útreikning á ellilífeyri, tekjutryggingu og tekjutryggingarauka skv. 11. og 17. gr. almannatryggingalaga.

Undanskildar tekjur.
    Þegar um er að ræða ellilífeyri skv. 11. gr. almannatryggingalaga teljast þrátt fyrir framangreint ekki til tekna bætur samkvæmt þeim lögum og lögum um félaglega aðstoð, húsaleigubætur samkvæmt lögum um húsaleigubætur, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum, sbr. lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, og sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við skv. 64. gr. almannatryggingalaga. Eingöngu er litið til eigin tekna við útreikning á ellilífeyri.
    Þegar um er að ræða tekjutryggingu og tekjutryggingarauka skv. 17. gr. almannatryggingalaga og heimilisuppbót skv. 9. gr. laga um félagslega aðstoð teljast ekki til tekna bætur samkvæmt þeim lögum, húsaleigubætur samkvæmt lögum um húsaleigubætur, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við skv. 64. gr. almannatryggingalaga. Eigin tekjur og tekjur maka hafa áhrif á fjárhæð bótanna.
    Við mat á því hvort einstaklingur eigi rétt á frekari uppbótum er tekið tillit til eigna og tekna hans, þar á meðal bóta almannatrygginga, útgjalda vegna umönnunar, sjúkra- eða lyfjakostnaðar, heyrnartækja, húsaleigu o.fl. Frekari uppbætur eru þó ekki greiddar ef einstaklingur á eignir í peningum eða verðbréfum yfir 4 millj. kr. eða hefur heildartekjur, að meðtöldum bótum almannatrygginga, yfir 133.571 kr. á mánuði. Viðmiðunarmörk hjóna miðast við tvöfaldar þessar upphæðir.

Skerðingarhlutfall og tekjumörk.
    Ellilífeyrir skerðist vegna framangreindra tekna, sbr. 2. mgr. 11. gr. almannatryggingalaga, en þar segir að ellilífeyri skuli skerða ef tekjur einstaklinga eða hjóna hvors um sig eru hærri en 1.801.824 kr. á ári eða 150.152 kr. á mánuði. Ef tekjur eru umfram umrædd mörk skuli skerða ellilífeyri um 30% þeirra tekna sem umfram eru uns hann falli niður. Ellilífeyrir fellur niður við tekjur sem eru 2.681.544 kr. á ári eða 223.462 kr. á mánuði.
    Þær reglur sem gilda um hvernig tekjur, eins og þær eru skilgreindar hér að framan, skerða tekjutryggingu hjá einhleypingum eða hjónum eru í 2.–4. og 8. mgr. 17. gr. almannatryggingalaga. Þar segir að ef tekjur einhleyps ellilífeyrisþega eru ekki hærri en 578.189 kr. á ári skuli greiða tekjutryggingu til viðbótar ellilífeyri hans. Hafi ellilífeyrisþegi hins vegar tekjur umfram þessi mörk skuli skerða tekjutrygginguna um 45% þeirra tekna sem umfram eru. Tekjutrygging fellur niður við tekjur sem eru 1.727.869 kr. á ári. Ef einungis annað hjóna nýtur ellilífeyris og sameiginlegar tekjur hjónanna eru ekki hærri en 976.188 kr. á ári þá skuli greiða tekjutryggingu til viðbótar ellilífeyri. Hafi hjón hins vegar tekjur umfram þessi mörk skuli skerða tekjutrygginguna um 45% þeirra tekna sem umfram eru. Ef 2/ 3 tekna þess hjóna sem ellilífeyris nýtur nemi lægri fjárhæð en 424.932 kr. á ári skuli þrátt fyrir framangreint aldrei greiða því lægri tekjutryggingu en nemur því sem á vantar að 2/ 3 tekna þess nái þeirri fjárhæð. Ef bæði hjónin njóta ellilífeyris og sameiginlegar tekjur þeirra eru ekki hærri en 1.156.378 kr. á ári skuli greiða tvöfalda tekjutryggingu einhleypings. Hafi hjón hins vegar tekjur umfram 3.455.738 kr. á ári skuli skerða tekjutrygginguna um 45% þeirra tekna sem umfram eru. Ef 2/ 3 tekna annars hvors hjónanna nema lægri fjárhæð en 424.932 kr. á ári skuli þrátt fyrir framangreint aldrei greiða því lægri tekjutryggingu en nemur því sem á vantar að 2/ 3 tekna þess nái þeirri fjárhæð.
    Þær reglur sem gilda um hvernig tekjur, eins og þær eru skilgreindar hér að framan, skerða tekjutryggingarauka hjá einhleypingum eða hjónum eru í 9. og 10. mgr. 17. gr. almannatryggingalaga. Ef einhleypingur hefur eingöngu tekjur frá lífeyristryggingum skal hann til viðbótar við heimilisuppbót samkvæmt lögum um félagslega aðstoð eiga rétt á fullum tekjutryggingarauka. Hafi lífeyrisþegi aðrar tekjur skerða þær tekjutryggingaraukann um 45% uns hann fellur niður við 566.907 kr. tekjur á ári. Lífeyrisþegi í sambýli við einstakling 18 ára eða eldri á rétt á lægri tekjutryggingarauka en einhleypingur. Tekjur lífeyrisþega skerða tekjutryggingaraukann um 45% uns hann fellur niður við 455.067 kr. tekjur á ári. Við útreikning tekjutryggingarauka hjá hjónum skal leggja til grundvallar helming sameiginlegra tekna.
    Samkvæmt 9. gr. laga um félagslega aðstoð skerðist heimilisuppbót á sama hátt og tekjutrygging og hefur sömu tekjumörk. Ef tekjur eru umfram umrædd lægri tekjumörk tekjutryggingar skal skerða heimilisuppbót um 18,87%.

Áhrif lífeyrissjóðs- og atvinnutekna á greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins.
    Í eftirfarandi töflum og myndum, sem birtar eru á heimasíðu Tryggingastofnunar ríkisins (www.tr.is), er að finna áhrif tekna á mánaðargreiðslur einhleyps ellilífeyrisþega árið 2004.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Lífeyrissjóðstekjur: Greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum, sbr. lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Séreignarlífeyrissparnaður og 50% af fjármagnstekjum teljast atvinnutekjur sem koma til frádráttar bótum Tryggingastofnunar ríkisins.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Upplýsingar um norræna almannatryggingalöggjöf.

    Í fyrirspurninni er spurt um skerðingarreglur samsettra lágmarksbóta ellilífeyrisþega í Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi. Ekki vannst tími til að útvega og vinna þau gögn innan svarfrestsins. Í þessu sambandi má benda á að almannatryggingakerfi Norðurlandanna eru ólík og ekki í öllum tilfellum hægt að bera þau saman. Norðurlöndin taka þátt í Evrópusambandssamstarfinu MISSOC (Mutual Information System on Social Security) en þar eru teknar saman upplýsingar um almannatryggingar ríkjanna og þær flokkaðar eftir því sem unnt er. Hægt er að nálgast upplýsingarnar á heimasíðu Tryggingastofnunar ríkisins (www.tr.is).
    Einnig er hægt að nálgast upplýsingar um almannatryggingar á Norðurlöndunum í riti NOSOSCO en nýjustu upplýsingarnar eru frá 2003 í riti nr. 26:2005. Í ritinu eru upplýsingar um ellilífeyri á Norðurlöndunum og er hægt að nálgast upplýsingarnar á heimasíðu NOSOSCO (www.nom-nos.dk/nososco.htm).

     2.      Hvernig breytast bætur íslensks ellilífeyrisþega vegna tekna og/eða eigna maka ef viðkomandi hefur búið annars staðar á Norðurlöndum?
    Um bótagreiðslur þegar einstaklingar hafa búið og/eða starfað í tveimur eða fleiri löndum gilda almannatryggingareglur EES-samningsins sem birtar hafa verið í reglugerðum heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra nr. 587/2000, 588/2000, 811/2000, 847/2001, 507/2002, 356/2003 og 777/2004. Einnig gilda ákvæði Norðurlandasamnings um almannatryggingar sem undirritaður var 18. ágúst 2003, sbr. lög nr. 66/2004 um lögfestingu Norðurlandasamnings um almannatryggingar.
    Þegar reiknaður er út réttur samkvæmt íslenskum almannatryggingalögum er tekið mið af upplýsingum sem koma fram í umsókn einstaklingsins hér á landi og jafnframt upplýsingum sem stofnun í öðru landi hefur gefið í samræmi við almannatryggingareglur EES- samningsins eða Norðurlandasamningsins um almannatryggingar. Eins og að framan greinir hafa eignir ekki áhrif á bætur samkvæmt almannatryggingalögum en þær geta haft áhrif þegar metið er hvort einstaklingur eigi rétt á frekari uppbótum samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.