Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 315. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 566  —  315. mál.
Svarheilbrigðisráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um heimahjúkrun aldraðra.

    Til að afla svara við fyrirspurninni var leitað upplýsinga hjá öllum þjónustuhópum aldraðra á landinu og hjá heilsugæslustöðvum og heilbrigðisstofnunum.

     1.      Hversu margir aldraðir njóta nú heimahjúkrunar, hversu hátt hlutfall er það af heild í neðangreindum aldursbilum og hve margir eru á biðlista eftir heimahjúkrun, skipt eftir kjördæmum:
                  a.      75–80 ára,
                  b.      81–90 ára,
                  c.      91 ára og eldri?


     Fjöldi aldraðra sem nýtur heimahjúkrunar í einstökum kjördæmum,
skipt eftir aldri og sem hlutfall af fjölda aldraðra í hverju aldursbili.

Aldursbil
Kjördæmi 75-80 ára 81-90 91+ Allir 75+
Reykjavík norður og suður + Seltjarnarnes
Fjöldi sem nýtur heimahjúkrunar 326 390 55 771
Heildarfjöldi í viðkomandi aldursbili 3.752 3.294 472 7.518
Fjöldi sem nýtur heimahjúkrunar, hlutfall af aldurshópi 8,69% 11,84% 11,65% 10,26%
Suðurkjördæmi
Fjöldi sem nýtur heimahjúkrunar 107 153 18 278
Heildarfjöldi í viðkomandi aldursbili 993 833 105 1.931
Fjöldi sem nýtur heimahjúkrunar, hlutfall af aldurshópi 10,78% 18,37% 17,14% 14,40%
Suðvesturkjördæmi
Fjöldi sem nýtur heimahjúkrunar 125 179 36 340
Heildarfjöldi í viðkomandi aldursbili 1.626 1.040 161 2.827
Fjöldi sem nýtur heimahjúkrunar, hlutfall af aldurshópi 7,69% 17,21% 22,36% 12,03%
Norðvesturkjördæmi
Fjöldi sem nýtur heimahjúkrunar 97 164 24 285
Heildarfjöldi í viðkomandi aldursbili 846 745 116 1.707
Fjöldi sem nýtur heimahjúkrunar, hlutfall af aldurshópi 11,47% 22,01% 20,69% 16,70%
Norðausturkjördæmi
Fjöldi sem nýtur heimahjúkrunar 149 154 26 329
Heildarfjöldi í viðkomandi aldursbili 1.234 982 123 2.339
Fjöldi sem nýtur heimahjúkrunar, hlutfall af aldurshópi 12,07% 15,68% 21,14% 14,07%
Allt landið
Fjöldi sem nýtur heimahjúkrunar 804 1.040 159 2.003
Heildarfjöldi í viðkomandi aldursbili 8.451 6.894 977 16.322
Fjöldi sem nýtur heimahjúkrunar, hlutfall af aldurshópi 9,51% 15,09% 16,27% 12,27%
    Samkvæmt upplýsingum frá heilsugæslustöðvum um allt land eru aðeins biðlistar eftir heimahjúkrun á tveimur stöðum, þ.e. í Borgarnesi og Þorlákshöfn, samtals 12 einstaklingar.

     2.      Hefur verið unnið kerfisbundið að því að komast í samband við aldraða sem búa í heimahúsum og fá ekki heimahjúkrun til að kynna þeim þjónustu sem í boði er? Ef ekki, er ráðherra reiðubúinn að beita sér fyrir því að slík kerfisbundin kynning fari fram um allt land um leið og kannaðar verði þarfir aldraðra fyrir heimahjúkrun?

    Víða um land standa heilsugæslustöðvar fyrir kerfisbundinni kynningu á þjónustu sinni fyrir aldraða, þótt nokkuð misjanft sé hvernig staðið er að þeirri kynningu. Á Akureyri er boðið upp á svokallaðar heilsueflandi heimsóknir til allra sem eru 75 ára og eldri og það er einnig gert á vegum Heilbrigðisstofnunar Suðausturlands. Sambærilegt verkefni er nýhafið í Hafnarfirði. Tilraun hefur verið gerð með heilsueflandi heimsóknir í Fjarðarbyggð, á Seyðisfirði og Egilsstöðum. Verkefninu er lokið, en áhugi er fyrir því að festa það í sessi. Í Reykjavík hafa sjö af tíu heilsugæslustöðvum sent öllum íbúm 75 ára og eldri bréf með boði um viðtal við hjúkrunarfræðing á heilsugæslustöð og ráðgert er að hinar þrjár taki þetta upp um áramótin. Sama fyrirkomulag er í Kópavogi og Mosfellsbæ og þetta er einnig gert á Blönduósi. Í Garðabæ hefur þjónusta við aldraða verið kynnt á kerfisbundinn hátt af hálfu sveitarfélagsins. Í svörum heilsugæslustöðvanna á Hólmavík og Patreksfirði, í Bolungarvík og Þorlákshöfn kemur fram að þar sé þjónustan kynnt öldruðum kerfisbundið. Á Suðurnesjum var opnuð sérstök öldrunarmóttaka árið 2004. Hún var vel sótt framan af en síðar dró úr aðsókn og þá var starfseminni hætt. Í svörum allmargra heilsugæslustöðva kemur fram það mat að starfsfólk stöðvanna hafi góða yfirsýn yfir stöðu aldraðra á sínu þjónustusvæði og sérstök kynning sé því óþörf.
    Eins og fram er komið hafa heilsugæslustöðvar víða um land hafið kerfisbundna kynningu við aldraða á þjónustu sem þeim stendur til boða. Af svörum þeirra að dæma er fyrirkomulag á kynningu þjónustunnar nokkuð mismunandi. Ráðuneytið telur mestu varða að þjónustan sé vel kynnt, hvernig sem að því er staðið. Það er mat ráðuneytisins að unnt sé að efla þjónustu við aldraða í heimahúsum með þeim árangri að aldraðir geti dvalið lengur heima, líkt og markmið laga um málefni aldraðra kveða á um. Þetta er eitt af þeim verkefnum sem unnið er að í ráðuneytinu um þessar mundir og ráðherra mun beita sér fyrir á næstu missirum. Sl. þrjú ár hafa verið veittar aukalega 50 millj. kr. á ári til að efla heimahjúkrun.

     3.      Á hvern hátt er verið að vinna að því að samþætta heimaþjónustu og heimahjúkrun þannig að hægt sé að fullnægja þörfinni m.a. fyrir sólarhringsþjónustu þegar við á? Hvenær má vænta þess að þessi þjónusta verði komin í viðunandi horf?

    Sveitarfélögin Akureyri og Hornafjörður hafa frá árinu 1996 séð um stjórnun og rekstur heilsugæslu á sínu svæði, samkvæmt samningi um reynslusveitarfélög og sjá því jafnt um að veita öldruðum heimahjúkrun og félagslega heimaþjónustu. Í lok árs 2003 var gerður samningur milli Reykjavíkurborgar og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis um samþættingu heimahjúkrunar og félagslegrar heimaþjónustu í tilraunaskyni og stendur það verkefni yfir. Enn sem komið er, er hvergi veitt sólarhringsþjónusta heimahjúkrunar nema í Reykjavík. Hins vegar er verið að ganga frá samningi milli heilbrigðisráðuneytisins og Heilbrigðisstofnunar Suðurlands um tilraunaverkefni til tveggja ára um aukna heimahjúkrun í Árborg og nágrenni. Miðað er við að heimahjúkrun verði veitt allan sólarhringinn alla daga vikunnar. Í svörum heilsugæslustöðva við fyrirspurn um samþættingu heimaþjónustu og heimahjúkrunar kemur fram að víðast er góð samvinna þarna á milli, þótt ekki sé um formlega samþættingu að ræða. Eins og fram er komið er nær hvergi bið eftir heimahjúkrun samkvæmt upplýsingum frá heilsugæslustöðvum, en sólarhringsþjónusta er aðeins veitt í Reykjavík auk þess sem slíkt er í undirbúningi í Árborg.
    Í október 2003 skipaði heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra nefnd um flutning verkefna á sviði heilbrigðismála frá ríki til sveitarfélaga og var nefndinni falið að kanna hvaða verkefni á sviði heilbrigðisþjónustu og þjónustu við aldraða væri mögulegt og æskilegt að flytja frá ríki til sveitarfélaga. Nefndin skilaði áfangaskýrslu í nóvember 2004. Þar er m.a. vísað til árangurs reynslusveitarfélaganna Akureyrar og Hornafjarðar á sviði þeirra verkefna sem þau tóku yfir og vitnað til álits matsaðila á verkefnunum á árunum 1997–2002 um að augljósustu áhrif aukinnar sjálfstjórnar sveitarfélaganna séu á sviði breytts fyrirkomulags öldrunarþjónustu. Er vísað til þess að magn heimaþjónustu og heimahjúkrunar hafi aukist stöðugt á tímabilinu um leið og dregið hafi úr stofnanaþjónustu.
    Reynslan sem þegar hefur fengist af því að fela einum og sama aðila að sinna öldrunarþjónustu bendir til þess að æskilegt fyrirkomulag öldrunarþjónustu sé að hafa hana á einni hendi og sem næst íbúunum. Samþætting heimahjúkrunar og heimaþjónustu fyrir aldraða er mikilvæg leið til þess að efla þjónustuna. Hins vegar yfirvinnur samþætting ekki þá annmarka sem fylgja því að þessir þjónustuþættir eru ekki á sömu hendi. Því er æskilegast að sveitarfélögin sinni þessari þjónustu alfarið sjálf, að því gefnu að þau eflist með frekari sameiningu og hafi burði til að taka við þjónustunni.

     4.      Hvað má ætla að margir þeirra sem nú eru á biðlistum eftir dvalar- eða hjúkrunarheimilum gætu verið heima ef þeir nytu fullnægjandi heimahjúkrunar og heimilisþjónustu?

    Samkvæmt vistunarmati 1. nóvember bíða samtals 1.019 aldraðir eftir vistun í dvalar- eða hjúkrunarrými. Fyrirspurn var beint til allra þjónustuhópa aldraðra í landinu sem meta vistunarþörf aldraðra og matshópsins sem sér um vistunarmat í Reykjavík, samtals 43 hópar. Fullnægjandi svör um þetta efni bárust ekki frá 14 þjónustuhópum. Að baki þeim þjónustuhópum sem svöruðu fyrirspurninni eru 768 aldraðir sem bíða eftir vistun í dvalar- eða hjúkrunarrými. Af þeim gætu rúmlega 400 einstaklingar verið heima með fullnægjandi heimahjúkrun og heimaþjónustu. Þessar upplýsingar ber að túlka með fyrirvara þar sem þær byggjast ekki á formlegu endurmati á þörfum þeirra einstaklinga sem eiga vistunarmat, heldur á mati fulltrúa þjónustuhópanna og matshópsins í Reykjavík á fyrirliggjandi gögnum og innsýn þeirra í aðstæður viðkomandi einstaklinga. Einnig verður að hafa í huga að spurt er um þá sem gætu verið heima ,,ef þeir nytu fullnægjandi heimahjúkrunar og heimilisþjónustu“ án þess að skilgreint sé hvað teljist ,,fullnægjandi“.