Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 102. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 582  —  102. mál.




Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Guðmundar Hallvarðssonar um útflutning á íslensku vatni í neytendaumbúðum.

     1.      Hve mörg fyrirtæki hafa verið stofnuð hér á landi á sl. tíu árum með það að markmiði að flytja út íslenskt drykkjarvatn?
    Ellefu fyrirtæki hafa verið stofnuð hér á landi síðastliðin tíu ár með það að markmiði að flytja út íslenskt drykkjarvatn en auk þess hafa verið stofnuð fyrirtæki vegna framleiðslu áfengra drykkja úr íslensku vatni.

     2.      Hve mikið magn drykkjarvatns í neytendaumbúðum hefur verið flutt út árin 2003, 2004 og 2005 og til hvaða landa?

2003 2004 2005 (til sept.)
Danmörk 351.474 Belgía 941 Bretland 112.576
Bandaríkin 1.931.016 Frakkland 105 Danmörk 462.224
Kanada 94.000 Bandaríkin 1.966.065 Frakkland 7.470
Japan 44.487 Danmörk 447.615 Japan 57.607
Jemen 219 Ítalía 17.467 Bandaríkin 2.559.417
Holland 860 Kúveit 18.144 Ítalía 37.963
Kúveit 55.764 Þýskaland 3.555 Taíland 39.600
Svíþjóð 55.944 Færeyjar 620 Samtals tonn 3.276.857
Finnland 468 Samtals tonn 2.454.512
Færeyjar 2.700
Samtals tonn 2.536.932

     3.      Þurfa þeir sem ætla að hefja útflutning á neysluvatni að sækja um framkvæmdar- og/eða starfsleyfi? Ef svo er, hversu margir hafa sótt um slík leyfi?
    Framleiðsla/átöppun neysluvatns fellur undir reglugerð nr. 522/1994 um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla. Þar segir að þeir sem framleiða eða dreifa matvælum skuli hafa starfsleyfi opinbers eftirlitsaðila, þ.e. viðkomandi heilbrigðiseftirlits. Jafnframt fellur framleiðsla/átöppun neysluvatns undir reglugerð um neysluvatn nr. 536/2001 og reglugerð um náttúrulegt ölkelduvatn og átappað lindarvatn nr. 405/2004.

     4.      Hefur ráðuneytið eða annar aðili unnið að markaðskönnun varðandi frekari möguleika á útflutningi íslensks drykkjarvatns?
    Ráðuneytið hefur látið vinna könnun á markaði fyrir vatn í neytendaumbúðum og tekið þátt í könnun ásamt Útflutningsráði og Byggðastofnun. Einnig hafa verið gerðar úttektir í tengslum við lokaverkefni í háskólum auk þess sem einstaka fyrirtæki hafa gert markaðskannanir en slíkt er trúnaðarmál viðkomandi fyrirtækja.

     5.      Hve háa styrki hafa ráðuneytið, Byggðastofnun og Iðnþróunarsjóður veitt vegna neysluvatnsútflutnings sl. tíu ár og til hvaða fyrirtækja (sundurgreindar fjárhæðir)?
    Byggðastofnun styrkti Hreint vatn ehf. um 500.000 kr. árið 2002. Að öðru leyti hefur ráðuneytið, Byggðastofnun og sjóðir á vegum ráðuneytisins ekki styrkt fyrirtæki til vatnsútflutnings með beinum hætti.

     6.      Hvert er álit ráðherrans á frekari útrás og á útflutningi neysluvatns í neytendaumbúðum?
    Ýmsar tilraunir hafa verið gerðar til að flytja út íslenskt ferskvatn með misjöfnum árangri. Íslenskt vatn er frekar efnasnautt og því ekki bragðmikið. Það er hins vegar sérlega mjúkt og varðveitir því bragðefni óvenjuvel. Útflutningur hefur verið að aukast á íslensku vatni og virðist sem tekist hafi að markaðssetja íslenskt vatn erlendis sem umhverfisvæna og holla framleiðslu. Til marks um það fékk fyrirtækið Icelandic Glacial frá Þorlákshöfn Best Overall Concept verðlaunin á Zenith International, Bottled Water World Congress í ár. Víða um heim er vatsnbrestur og mengun ógnar nýtanlegum vatnsauðlindum. Möguleikar fyrir íslenskan vatnsútflutning virðast því töluverðir ef varan er markaðssett á réttan hátt og bind ég miklar vonir við að útflutningurinn haldi áfram að aukast.