Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 606, 132. löggjafarþing 381. mál: greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi (hækkun eftirlitsgjalds).
Lög nr. 130 19. desember 2005.

Lög um breytingu á lögum nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
 1. Í stað dagsetningarinnar „15. september“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: 1. júlí.
 2. Í stað dagsetningarinnar „15. ágúst“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: 1. júní.


2. gr.

     2. mgr. 4. gr. laganna orðast svo:
     Hafi tveir eða fleiri eftirlitsskyldir aðilar sameinast skal miða álagningu við samanlagða ársreikninga þeirra fyrir næstliðið ár skv. 1. mgr. Sama á við um samruna eftirlitsskylds aðila við annað fyrirtæki eða einstaka rekstrarhluta þess.

3. gr.

     5. gr. laganna orðast svo:
     Eftirtaldir eftirlitsskyldir aðilar skulu greiða eftirlitsgjald af álagningarstofni í þeim hlutföllum og stærðum sem hér segir:
 1. Viðskiptabankar, sparisjóðir, lánafyrirtæki og rafeyrisfyrirtæki skulu greiða 0,00792% af eignum samtals, þó eigi lægri fjárhæð en 400.000 kr.
 2. Vátryggingafélög skulu greiða 0,341% af bókfærðum frumtryggingaiðgjöldum og 0,065% af bókfærðum fengnum endurtryggingaiðgjöldum, þó eigi lægri fjárhæð en 400.000 kr. Vegna söfnunarlíftrygginga greiðist þó eftirlitsgjald sem nemur 0,008% af nettómismun iðgjaldaskuldar að frádregnum hluta endurtryggjenda í iðgjaldaskuldinni.
 3. Félög eða einstaklingar sem stunda vátryggingamiðlun skulu greiða 0,131% af því iðgjaldamagni sem miðlað er á næstliðnu ári, þó eigi lægri fjárhæð en 200.000 kr.
 4. Verðbréfafyrirtæki skulu greiða 0,07% af eignum samtals, þó aldrei lægri fjárhæð en 400.000 kr. Verðbréfamiðlanir skulu greiða 0,07% af eignum samtals, þó aldrei lægri fjárhæð en 250.000 kr. Rekstrarfélög verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða og fjárfestingarsjóðir sem gefa út hlutabréf skulu greiða 0,01092% af eignum rekstrarfélags og viðkomandi sjóða samtals, þó aldrei lægri fjárhæð en 400.000 kr.
 5. Kauphallir og aðrir skipulegir tilboðsmarkaðir skulu greiða 0,6% af rekstrartekjum, þó aldrei lægri fjárhæð en 250.000 kr.
 6. Lífeyrissjóðir skulu samtals greiða 0,00745% af hreinni eign til greiðslu lífeyris. Greiða skal eftirlitsgjaldið sem 250.000 kr. fastagjald vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris undir einum milljarði króna, 400.000 kr. vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris frá einum til tíu milljarða króna, 700.000 kr. vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris frá tíu milljörðum króna til tuttugu og fimm milljarða króna, 1.300.000 kr. vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris frá tuttugu og fimm milljörðum króna til eitthundrað milljarða króna og 1.500.000 kr. vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris þar yfir. Það sem þá er ógreitt af eftirlitsgjaldi skv. 1. málsl. greiðist í hlutfalli við hreina eign til greiðslu lífeyris.
 7. Verðbréfamiðstöðvar skulu greiða 0,81% af rekstrartekjum, þó eigi lægri fjárhæð en 250.000 kr.
 8. Innlánsdeildir samvinnufélaga skulu greiða fastagjald sem nemur 250.000 kr.
 9. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins skal greiða 0,017% af eignum samtals, þó eigi lægri fjárhæð en 400.000 kr. Íbúðalánasjóður skal greiða 0,0015% af eignum samtals, þó eigi lægri fjárhæð en 400.000 kr.
 10. Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta og öryggissjóðir samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta skulu greiða fastagjald sem nemur 150.000 kr.

     Útibú erlendra eftirlitsskyldra aðila sem fengið hafa starfsleyfi hér á landi skulu greiða eftirlitsgjald samkvæmt viðeigandi tölulið 1. mgr.
     Þrátt fyrir 1. mgr. skal eftirlitsskyldur aðili, sem er að minnsta kosti að 9/ 10 hlutum í eigu annars eftirlitsskylds aðila, greiða 1/ 5 hluta eftirlitsgjalds samkvæmt viðeigandi tölulið 1. mgr., enda hafi móðurfélagið heimild til sömu starfsemi og dótturfélagið. Ákvæði þetta á þó ekki við um lágmarksgjald skv. 1. mgr.
     Eftirlitsgjald skal reiknast í heilum þúsundum króna. Við álagningu skal jafnframt færa álagningarstofna í þúsundir króna.

4. gr.

     5. mgr. 6. gr. laganna orðast svo:
     Vanræki eftirlitsskyldur aðili greiðslu eftirlitsgjalds er heimilt að afturkalla starfsleyfi í samræmi við þau lög sem um viðkomandi starfsemi gilda, enda séu liðnir sex mánuðir frá fyrsta gjalddaga í vanskilum.

5. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2006.

Samþykkt á Alþingi 9. desember 2005.