Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 357. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 680  —  357. mál.
Svarlandbúnaðarráðherra við fyrirspurn Þuríðar Backman um viðbrögð og varnir gegn fuglaflensu.

     1.      Hver er staða viðbragðsáætlunar yfirdýralæknis vegna yfirvofandi hættu á að alvarlegir smitandi dýrasjúkdómar, svo sem fuglaflensa, berist til landsins?
    Á vegum yfirdýralæknis og nú innan Landbúnaðarstofnunar er stöðugt unnið að áætlunum um viðbrögð ef upp koma smitsjúkdómar í dýrum. Upplýsingar um viðbragðsáætlanir má nálgast á slóðinni www.yfirdyralæknir.is/vidbrogd/index.htm. Tekið er til allra þátta í viðbrögðum við alvarlegum smitsjúkdómum í dýrum, svo sem tilkynninga, aðgerða til varnar smitdreifingu, sýnatöku, rannsókna á sýnum, aflífun, förgun hræja, þrifa og sótthreinsunar húsa o.s.frv. Árið 2004 fór fram æfing í viðbrögðum ef upp kæmi bráður smitsjúkdómur í búfé og í september sl. fór fram samnorræn æfing í viðbrögðum ef upp kæmi gin- og klaufaveiki. Á liðnu hausti stofnaði yfirdýralæknir vinnuhóp sérfræðinga til að vinna að sértækri viðbragðsáætlun vegna hugsanlegrar hættu á að fuglaflensa bærist til landsins.

     2.      Til hvaða aðgerða getur yfirdýralæknir gripið við rannsókn sýktra dýra, með tilliti til þess að hér er ekki til öryggisrannsóknarstofa eða P3-aðstaða, hvorki til að taka á móti fuglum sem taldir eru sýktir, til krufninga né að greina hættuleg smitefni?
     3.      Er hafinn undirbúningur að rekstri öryggisrannsóknarstofu og ef svo er, hvenær má búast við að starfsemi hennar geti hafist?

    Starfshópur á vegum Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði og yfirdýralæknis er að kanna möguleika á að keyptar verði til landsins færanlegar rannsóknastofur sem uppfylla allar öryggiskröfur. Einnig er til skoðunar að komið verði fyrir til bráðabirgða sérstaklega innréttuðum gámi við Tilraunastöð Háskólans, þar sem hægt væri að taka á móti hræjum af fuglum sem grunur gæti verið um að hefðu smitast af fuglaflensu. Hægt væri með fullnægjandi öryggi að taka sýni úr hræjum og senda til greiningar á P3 rannsóknastofu í Ármúla 1 eða erlendis. Framtíðarskipan mála Tilraunastöðvarinnar hefur verið til skoðunar um alllangt skeið á vegum menntamálaráðuneytisins og hlýtur að koma til skoðunar í þeirri stefnumörkun að stofnunin fái til umráða aðstöðu sem geri henni kleift að takast á við verkefni af þessu tagi.

     4.      Til hvaða varúðarráðstafana hefur yfirdýralæknir þegar gripið til að varna því að smit af fuglaflensu eða öðrum veiruafbrigðum berist til landsins?

    Landbúnaðarráðuneytið hefur allt frá árinu 2004, að fengnum tillögum yfirdýralæknis, sett sérstakar reglugerðir þar sem ítrekað hefur verið að bann sé við innflutningi á lifandi fuglum og öðru sem tengist fuglum frá löndum þar sem hið skæða afbrigði fuglaflensu hefur greinst. Á síðustu mánuðum hefur ráðuneytið ekki heimilað neinn innflutning á lifandi búr- og skrautfuglum. Í þessu sambandi hefur yfirdýralæknir haft samstarf, m.a. við sóttvarnarlækni og Náttúrufræðistofnun Íslands, vegna undirbúnings viðbragða við hugsanlegri uppkomu fuglaflensu hér á landi. Yfirdýralæknir og starfsmenn hans hafa sótt fundi á vegum ESB o.fl. aðila þar sem varnir og viðbrögð við fuglaflensu hafa verið á dagskrá. Fræðslu til almennings og alifuglabænda hefur einnig verið sinnt af sérfræðingum yfirdýralæknis.

     5.      Hver verða fyrstu viðbrögð annars vegar við hugsanlegu smiti í búpening og hins vegar hugsanlegu smiti milli dýrategunda eða í menn ef fuglaflensan eða afbrigði hennar berst hingað til lands?

    Berist fuglaflensa til landsins eru mestar líkur eru á því að það verði með farfuglum. Litlar líkur eru hins vegar taldar á því að sjúkdómurinn berist eftir þeirri leið í alifugla sem hafðir eru innan dyra ef ýtrustu smitvarna er gætt. Á vegum yfirdýralæknis hefur verið unnið að því að fá nákvæmt yfirlit um alla þá staði á landinu þar sem alifuglar eru og að allt kapp verði lagt á að koma í veg fyrir að veikin berist í alifugla, bæði utan og innan dyra. Komi slík staða upp verður farið eftir ákvæðum laga nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Fuglaflensa er A-sjúkdómur sem ber að útrýma með niðurskurði, en bólusetningar eru óheimilar. Starfandi er stjórnskipuð nefnd sem hefur það hlutverk að fjalla um aðgerðir vegna sjúkdóma sem geta borist á milli dýra og manna. Hana skipa sóttvarnarlæknir, sem er formaður, yfirdýralæknir og fulltrúi Umhverfisstofnunar. Vandamál sem gætu skapast ef fuglaflensa bærist landsins og hættan á að fólk smitist hafa verið og verða rædd í þessari nefnd, en hún starfar samkvæmt sóttvarnalögum, nr. 19/1997, og hefur víðtæk völd til aðgerða ef þörf krefur.

     6.      Hvenær verður viðbragðsáætlun gagnvart fuglaflensu kynnt bændum og almenningi?

    Finna má viðbragðsáætlanir yfirdýralæknis á vefsíðunni www.yfirdyraleknir.is

     7.      Hvaða áhrif telur ráðherra að flutningur embættis yfirdýralæknis til Selfoss hafi á náið samstarf embættisins og sýkla-, sníkjudýra- og meinafræðideildar Tilraunastöðvar Háskóla Íslands að Keldum við gerð viðbragðsáætlunar og vinnu vegna hugsanlegs heimsfaraldurs af völdum erfðabreyttra veira?

    Rík hefð er fyrir náinni samvinnu milli yfirdýralæknis og Tilraunastöðvar Háskóla Íslands að Keldum og verður engin breyting þar á með tilkomu Landbúnaðarstofnunar.