Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 300. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 687  —  300. mál.




Svar



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Gunnars Örlygssonar um Barnaspítala Hringsins.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hefur ráðherra í hyggju að beita sér fyrir hágæsluaðstöðu á Barnaspítala Hringsins í ljósi þess að upp hafa komið atvik þar sem foreldrar hafa þurft að hlaupa langar leiðir með lífshættulega veik börn?
     2.      Hvenær má búast við aðgerðum af hálfu ráðherra í þessu máli?


    Þörf fyrir hágæslu er mismunandi, en nú liggja fyrir upplýsingar um fjölda bráðveikra barna sem eru á legudeildum spítalans. Fjöldi bráðveikra barna eykst, þörf þeirra á þjónustu fer vaxandi og börnin sem liggja inni á spítalanum eru veikari en áður. Börn sem njóta mundu þjónustu á hágæslueiningu væru börn með alvarlega hjartasjúkdóma, börn sem hefðu farið í miklar skurðaðgerðir, börn með mikla og illvíga krampa, börn með alvarlega efnaskiptagalla og börn með alvarlegar sýkingar og aðra alvarlega sjúkdóma.
    Þess má geta að við hönnun og byggingu hins nýja Barnaspítala Hringsins var gert ráð fyrir hágæsluaðstöðu fyrir veikustu börnin. Því hefur hluti af stofnkostnaði þegar verið greiddur, en ljóst er að tækjabúnaður fyrir þessa þjónustu þarf ætíð að vera fyrsta flokks og tæknin í samræmi við það sem best gerist á hverjum tíma. Eitthvað af slíkum tækjum mun vera til á Barnaspítalanum nú, en gera þyrfti ráð fyrir viðbót ef ákveðið yrði að reka að staðaldri aðstöðu fyrir hágæslu innan vébanda spítalans. Þá er ljóst að rekstur hágæslueiningar fyrir mikið veik börn er dýr, en það gildir um alla gjörgæslu.
    Stjórnendur Landspítalans hafa nú til skoðunar með hvaða hætti mætti þróa og koma fyrir hágæsluaðstöðu á Barnaspítala Hringsins og reka hana með sem hagkvæmustum hætti. Er gert ráð fyrir að tillögur stjórnenda komi til skoðunar ráðherra áður en langt um líður. Að fengnum tillögum stjórnenda Landspítala – háskólasjúkrahúss um fyrirkomulag hágæslueiningar mun ráðherra taka ákvörðun um næstu skref í samráði við stjórnendur LSH.