Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 288. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 709  —  288. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.

(Eftir 2. umr., 30. jan.)1. gr.

    Við 1. mgr. 1. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Lögin taka einnig til rannsókna á vatnsafli til raforkuframleiðslu.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      Við bætist ný málsgrein sem verður 2. mgr. og orðast svo:
                      Rannsóknarleyfi skal veitt einum aðila á hverju svæði. Þó er heimilt að veita fleiri en einum aðila slíkt leyfi sameiginlega hafi þeir staðið saman að rannsóknarleyfisumsókn og gert með sér samning um skiptingu rannsóknarkostnaðar.
     b.      Á eftir orðinu „nýtingarleyfi“ í 2. mgr. kemur: fyrir hitaveitur.

3. gr.

    Við 7. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Nú fær annar en rannsóknarleyfishafi leyfi til að nýta viðkomandi auðlind og getur þá sá sem kostaði rannsóknir krafið virkjunar- eða nýtingarleyfishafa um sannanlegan kostnað vegna rannsókna eða markaðsvirði þeirra, sé það fyrir hendi, gegn afhendingu á niðurstöðum rannsóknanna, enda geti þær nýst leyfishafa. Rísi ágreiningur um greiðsluna skal skorið úr því með mati dómkvaddra matsmanna.

4. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „2. mgr. 5. gr.“ í 1. mgr. 23. gr. laganna kemur: 3. mgr. 5. gr.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Við gildistöku laga þessara skal iðnaðarráðherra skipa nefnd fulltrúa allra þingflokka sem sæti eiga á Alþingi. Í nefndinni skulu jafnframt eiga sæti þrír fulltrúar frá Samorku. Þá skal iðnaðarráðherra skipa tvo fulltrúa og skal annar þeirra vera formaður nefndarinnar. Hlutverk nefndarinnar er að gera tillögu um með hvaða hætti valið verði milli umsókna um rannsóknar- og nýtingarleyfi á grundvelli laga þessara og marka framtíðarstefnu um nýtingu þeirra auðlinda sem lögin ná til. Nefndin skal skila tillögum sínum í formi lagafrumvarps til iðnaðarráðherra eigi síðar en 15. september 2006.