Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 304. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 830  —  304. mál.




Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Guðjóns A. Kristjánssonar um efnistöku úr botni Hvalfjarðar.

    Ráðuneytið leitaði upplýsinga og aðstoðar Orkustofnunar við að svara fyrirspurninni.

     1.      Hversu miklu af jarðefnum hefur verið dælt upp af botni Hvalfjarðar síðan efnistaka var leyfð þar?
    Í ágúst 1990 gaf iðnaðarráðherra út leyfi til efnistöku á grundvelli laga nr. 73/1990, um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins.Litlar upplýsingar eru í vörslum ráðuneytisins eða Orkustofnunar um efnistöku á árunum 1990 til 1999 enda voru engin ákvæði í leyfi Björgunar ehf. um upplýsingaskyldu eða skil gagna til stjórnvalda. Í skjalasafni ráðuneytisins fundust þó upplýsingar um efnistöku á tímabilinu frá september 1990 til október 1997 sem unnar höfðu verið úr dagbókum dæluskipa Björgunar ehf. Þar kemur fram að efnistaka í Hvalfirði á umræddu tímabili hafi numið 1.150.875 m 3. Þrátt fyrir eftirgrennslan hefur ráðuneytinu ekki tekist að afla upplýsinga um efnistöku í Hvalfirði á tímabilinu frá október 1997 til desember 1999.
     Orkustofnun hafa borist magntölur um efnistöku úr botni Hvalfjarðar frá Björgun ehf. fyrir árin 2000–2004. Á þessum árum hefur samtals verið dælt upp 1.906.090 m 3 af efni úr botni Hvalfjarðar.
     Samkvæmt þessu hefur efnistaka úr botni Hvalfjarðar frá árinu 1990 a.m.k. numið rúmum 3 milljónum rúmmetra á tímabilinum frá 1990 til 1997 og 2000 til 2004. Ef horft er til meðaltalstalna áranna 1990 til 1997 má gera ráð fyrir að efnistaka hafi verið í kringum 3.500.000 m 3.

     2.      Er efnistaka í firðinum svæða- eða tímabilaskipt? Ef svo er, hvernig er skiptingin?
    Samkvæmt gögnum ráðuneytisins og þeim upplýsingum sem Orkustofnun hafa borist frá Björgun ehf. fyrir árin 2000-2004 hefur efnistaka fyrirtækisins farið fram á fjórum afmörkuðum svæðum í Hvalfirði. Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu hefur efnistökunni ekki verið skipt niður í tímabil enda var ekki gerð krafa um það í leyfi Björgunar ehf.
    
     3.      Hefur farið fram vistfræðilegt eftirlit á svæðinu og ef svo er, hvernig hefur því verið fylgt eftir?
    Af hálfu opinberra aðila hefur ekki farið fram vistfræðilegt eftirlit með efnistökusvæðinu í Hvalfirði. Leyfi Björgunar ehf. frá árinu 1990 var eingöngu háð því að fyrirtækið gerði nauðsynlegar ráðstafanir til að forðast mengun og spillingu á lífríki láðs og lagar vegna efnistökunnar. Ekki var nánar kveðið á um með hvaða hætti það skyldi gert.
    Í greinargerð til umhverfis- og heilbrigðisnefndar Reykjavíkur um jarðefnanám á Faxaflóa, sem unnin var af Hjalta J. Guðmundssyni, Sigurði Ásbjörnssyni og Svövu Steinarsdóttur í október 2000, er kafli um áhrif efnistöku á lífríki. Þar kemur m.a. fram að engar vísindalegar rannsóknir hafi farið fram á áhrifum efnistöku í Faxaflóa á lífríkið. Þörf fyrir slíkar rannsóknir hafi margoft verið rædd hjá Hafrannsóknastofnuninni og Líffræðistofnun Háskóla Íslands, enda brýn nauðsyn talin á því að þær fari fram, en fjárskortur hafi hamlað verkinu. Starfsmenn Hafrannsóknastofnunarinnar hafi hins vegar farið með dæluskipum út á efnistökusvæðin og séð lifandi skeljar og dýr í því seti sem dælt var upp.

     4.      Hefur orðið veruleg breyting á einstökum botnsvæðum í firðinum?

    Breytingar á einstökum botnsvæðum hafa ekki verið rannsakaðar og því liggja ekki fyrir upplýsingar til að svara þessum lið fyrirspurnarinnar.

     5.      Verður áfram leyfð efnistaka án skoðunar á botnsvæðum?

    Björgun ehf. hefur hafið undirbúning þess að sækja um endurnýjun leyfis efnistöku af hafsbotni á 17 svæðum í Kollafirði með tilkynningu til Skipulagsstofnunar, dags. 23. nóvember 2005. Í sama bréfi kemur fram að í næstu framtíð verði útbúin og lögð fram tilkynning varðandi efnistöku í námum í Hvalfirði og síðar um efnistöku í Faxaflóa.
    Í því stjórnsýsluferli sem hafið er varðandi efnistöku Björgunar ehf. í Kollafirði mun koma í ljós hvort ráðist verður í skoðun á botnsvæðum í Kollafirði og að öðru jöfnu mun það sama eiga við í Hvalfirði þegar sótt verður um endurnýjun leyfis þar.