Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 268. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 858  —  268. mál.
Nefndarálitum frv. til vatnalaga.

Frá meiri hluta iðnaðarnefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Helga Bjarnason, Guðjón Axel Guðjónsson og Pétur Örn Sverrisson frá iðnaðarráðuneytinu, Óðin Sigþórsson og Árna Snæbjörnsson frá Landssambandi veiðifélaga, Jón Gunnar Ottósson frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Árna Ísaksson frá Veiðimálastofnun, Pál Hannesson frá BSRB, Ólaf Pál Jónsson frá Náttúruverndarsamtökum Íslands, Halldór Jónsson hrl., Hákon Aðalsteinsson og Freystein Sigurðsson frá Orkustofnun, Þórð Skúlason og Trausta Fannar Valsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Davíð Egilson og Helga Jensson frá Umhverfisstofnun, Sigurgeir Þorgeirsson og Árna Snæbjörnsson frá Bændasamtökum Íslands, Jóhannes Rúnar Jóhannsson hrl. frá Lögmannafélagi Íslands, Geir Marelsson frá Kópavogsbæ, Tryggva Felixson og Björgólf Thorsteinsson frá Landvernd, Karl Axelsson hrl. og Eyvind G. Gunnarsson hdl. Jafnframt bárust nefndinni skriflegar umsagnir um málið frá Kópavogsbæ, Landssambandi eldri borgara, Náttúrufræðistofnun Íslands, Samtökum iðnaðarins, Landssambandi veiðifélaga, Byggðastofnun, Samorku, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Félagi heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa, Landvernd, Veiðimálastjóra, Bændasamtökum Íslands, Orkuveitu Reykjavíkur, Orkustofnun, Umhverfisstofnun, óbyggðanefnd, Lögmannafélagi Íslands og Alþýðusambandi Íslands.
    Frumvarpinu er ætlað að leysa af hólmi vatnalög nr. 15/1923, með síðari breytingum. Í athugasemdum með frumvarpinu er gerð ítarleg grein fyrir þeim breytingum sem í því felast og ástæðum þess að talin var þörf á að endurskoða lögin.
    Frumvarpið var lagt fram fyrst á 131. löggjafarþingi en var síðan endurskoðað. Þær breytingar sem gerðar hafa verið er aðallega að finna í 1., 15., 35. og 36. gr. frumvarpsins. Eins og fram kemur í frumvarpinu byggjast breytingarnar í fyrsta lagi á athugasemdum sem bárust iðnaðarnefnd við fyrra frumvarpið, í öðru lagi samráði við umhverfisráðuneyti og undirstofnanir þess og í þriðja lagi athugasemdum ráðgjafarnefndar um opinberar eftirlitsreglur.
    Í gildandi vatnalögum eru ítarleg ákvæði um ýmsa þætti vatnamála sem ekki er að finna í frumvarpinu. Á þeim tíma sem liðinn er frá setningu laganna hafa orðið miklar samfélagsbreytingar, tækniframfarir hafa orðið og vægi umhverfisverndar hefur aukist til muna. Frumvarpinu er ekki ætlað að taka til allra þátta sem lúta að vatni og vatnsnotum með sama hætti og núgildandi vatnalög enda er nú tekið á ýmsum þáttum vatnamála í öðrum lögum, m.a. á sviði umhverfis-, náttúru- og almannaréttar. Þá eru ýmis ákvæði í gildandi lögum einfölduð, m.a. í ljósi breyttra aðstæðna.
    Algengt er að einstakar heimildir eða þættir eignarréttar yfir fasteignum teljist sérstök réttindi. Dæmi um það eru vatnsréttindi en einnig má nefna rekaréttindi, námuréttindi og veiðiréttindi. Vatnsréttindi fjalla um þær heimildir fasteignareiganda sem beinlínis lúta að umráðum og hagnýtingu vatns á landareign. Ein helsta breytingin sem frumvarpið gerir ráð fyrir og fjallað var ítarlega um í nefndinni er að vatnsréttindi fasteignareiganda verða nú skilgreind á annan hátt en í núgildandi vatnalögum. Fram að þessu hefur verið byggt á jákvæðri skilgreiningu sem gerir ráð fyrir að taldar séu upp allar heimildir eiganda sem í eignarrétti geta talist. Frumvarpið gerir hins vegar ráð fyrir neikvæðri skilgreiningu en hún tilgreinir ekki með upptalningu hvaða heimildir eigandinn hefur heldur er gengið út frá því að eigandinn njóti allra heimilda nema þeirra sem eru með beinum hætti undanskildar eignarráðum hans hvort sem það hefur gerst með lögum eða samningi.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að hér sé um formbreytingu að ræða en ekki efnislega breytingu á inntaki eignarráða fasteignareiganda yfir vatni. Í athugasemdum með frumvarpinu þar sem fjallað er um skilgreiningu eignarréttar er tekið svo til orða að hér sé „fyrst og fremst“ um formbreytingu að ræða. Á fundi nefndarinnar með frumvarpshöfundum kom fram að orðin „fyrst og fremst“ hefðu átt að falla brott við endurskoðun frumvarpsins.
    Með setningu vatnalaga nr. 15/1923 var tekið af skarið um það að landeigendur ættu einir rétt til að hagnýta það vatn sem á landareign þeirra finnst eða um hana rennur, þ.m.t. orkunýtingarrétt. Réttarframkvæmdin hefur og til fulls viðurkennt eignarrétt landeigenda að vatnsorku, m.a. þegar vatnsföll hafa verið tekin til virkjunar. Vatnsréttindi eru þannig þáttur í eignarrétti landeigenda og njóta verndar skv. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Landeigendur verða því ekki sviptir þessum rétti bótalaust. Til samræmis við það sem að framan segir hefur eignarnámi verið beitt samkvæmt vatnalögum eða öðrum sérstökum lögum þegar þurft hefur að afla í þágu virkjana vatnsréttinda í einkaeign.
    Í nefndinni urðu nokkrar umræður um almannarétt. Við gerð frumvarpsins var farin sú leið að fella ákvæði um umferð almennings um vötn inn í náttúruverndarlög, nr. 44/1999, þar sem þau lög hafa að geyma almenn ákvæði um umferðarrétt almennings. Í III. kafla náttúruverndarlaga er jafnframt að finna almennar umgengnisreglur sem gilda í náttúrunni og ákveðnar takmarkanir á umferðarrétti, svo sem varðandi merkingar o.fl. Litið er svo á að þau ákvæði gildi einnig um umferð um vötn eftir því sem við getur átt.
    Nokkrar umræður urðu einnig um skaðabótaábyrgð landeiganda ef vatn sem rennur um landareign hans veldur tjóni á landareign annars manns. Meiri hlutinn telur ólíklegt að skaðabótaábyrgð stofnist við slíkar aðstæður nema um sök sé að ræða, þ.e. landeigandi hefur með saknæmum hætti valdið því að tjón verður á landareign annars manns. Hlutlæg bótaábyrgð, þ.e. bótaábyrgð án sakar, á ekki við í slíkum tilvikum.
    Þá urðu í nefndinni nokkrar umræður um 35. gr. frumvarpsins. Í greininni ræðir um skyldu til að tilkynna Orkustofnun um allar framkvæmdir í eða við vötn vegna vatnsnýtingar. Í 2. mgr. er hins vegar kveðið á um að ekki þurfi að tilkynna Orkustofnun sérstaklega um framkvæmdir er snerta veiðivötn í skilningi laga um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970. Slíkar framkvæmdir eru háðar leyfi samkvæmt þeim lögum. Þegar sótt er um leyfi til framkvæmda skal senda Orkustofnun afrit af slíkum umsóknum. Meiri hlutinn telur mikilvægt að þeim sem fara með stjórn veiðimála verði ávallt tilkynnt um framkvæmdir í ám og vötnum sem áhrif hafa á fiskstofna og lífríki þeirra.
    Í 5. mgr. 35. gr. frumvarpsins er síðan kveðið á um samráð við umhverfisráðuneytið vegna reglugerðarsetningar, m.a. um framkvæmd tilkynningarskyldu og önnur atriði sem mælt er fyrir um í greininni. Að mati meiri hlutans er samráð við umhverfisráðuneytið afar mikilvægt varðandi þessi atriði.
    Samkvæmt frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á reglum um eignarnám og eignarnámsframkvæmd. Þar er fyrst og fremst um að ræða einföldun á þeim reglum sem gilda um mat á tjóni og ákvörðun um eignarnámsbætur. Þá er einnig m.a. lagt til að ákvörðunarvald um heimild til eignarnáms verði ávallt í höndum ráðherra. Þá er samkvæmt frumvarpinu lagt til að öll stjórnsýsla verði einfölduð en hún verður alfarið á hendi Orkustofnunar og iðnaðarráðherra sem hefur yfirstjórn mála á sinni hendi.
    Meiri hlutinn leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
     1.      Í 15. gr. frumvarpsins er kveðið á um forgangsröð að vatni. Í 3. mgr. kemur fram að sveitarfélög skuli hafa forgangsrétt til töku vatns til vatnsveitu innan sveitarfélags á eftir fasteignareigendum. Með orðunum „innan sveitarfélags“ er hugsunin ekki sú að setja einstökum sveitarfélögum staðbundin mörk um það hvar vatnstaka geti átt sér stað heldur er vísað til þess svæðis þar sem vatnsveitan starfar, þ.e. innan viðkomandi sveitarfélags. Í ljósi umræðu sem fram fór í nefndinni er lagt til að orðin „innan sveitarfélags“ falli brott.
     2.      Lögð er til breyting á 2. mgr. 35. gr. þar sem veiðimálastjóri heyrir nú undir landbúnaðarstofnun.
     3.      Lögð er til málfarsbreyting á 2. mgr. 36. gr.
     4.      Lagt er til að í 4. mgr. 42. gr. verði starfandi vatnafélögum gefinn frestur til 1. janúar 2007 til að laga starfsemi sína að lögunum.
     5.      Vegna athugasemda sem bárust og í ljósi umræðu sem fram fór í nefndinni er lagt til að í stað orðanna „Sveitarfélög sjá um að leggja fráveitur eftir því sem þörf er á“ í 1. tölul. 43. gr. komi „Sveitarfélögum er heimilt að leggja fráveitur.“
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er grein fyrir í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 27. febr. 2006.Birkir J. Jónsson,


form., frsm.


Kjartan Ólafsson.


Einar Oddur Kristjánsson.Sigurður Kári Kristjánsson.


Gunnar Örlygsson.