Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 528. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 908  —  528. mál.
Svarsamgönguráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur um rekstur Herjólfs.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hver var árlegur kostnaður ríkisins af rekstri Herjólfs sl. þrjú ár?
     2.      Hverjar hafa verið árlegar tekjur rekstraraðila af far- og farmgjöldum á sama tíma, og hvernig skiptast þær í
                  a.      almenn fargjöld,
                  b.      gjöld fyrir klefa,
                  c.      gjöld fyrir bíla, og
                  d.      farmgjöld?
     3.      Hefur verið skoðað að fella niður almenn fargjöld á milli lands og Eyja, þannig að Eyjamenn verði jafnsettir öðrum landsmönnum?


    Umbeðnar upplýsingar um árlegan kostnað ríkisins af rekstri Herjólfs koma fram í töflunni.

Árlegur kostnaður ríkisins af rekstri Herjólfs.


2003 2004 2005
Rekstrarstyrkur 167.341 185.153 216.988
Annar kostnaður 13.683 38.066 5.985
Afborganir og vextir af lánum 290.000 327.000 340.000
Samtals 471.024 550.219 562.973

    Samgönguráðuneytið/Vegagerðin rekur ekki Herjólf og hefur því ekki upplýsingar um tekjur af far- og/eða farmgjöldum. Samskip hf. hefur rekið Herjólf undanfarin fimm ár en frá og með áramótum 2006 tók Eimskipafélag Íslands ehf. við rekstrinum. Meðalhækkun á fargjöldum 1997–2005 er 20%. Á sama tíma hækkaði almennt verðlag í landinu um rúmlega 34%, miðað við vísitölu neysluverðs.
    Ekki hefur verið skoðað að fella niður almenn gjöld með Herjólfi. Rétt er að benda á að kostnaður fylgir því að ferðast á milli staða, óháð farkosti. Almenningur greiðir fyrir að komast á milli staða hvort sem farið er með flugi, ferju, langferðabíl eða einkabíl. Misjafnt er hversu mikilla styrkja þessir ólíku ferðamátar njóta en ekki verður séð að það sé sanngjarnt né að það geri íbúa Vestmannaeyja jafnsetta öðrum landsmönnum að fella niður fargjöld á milli lands og Eyja.