Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 529. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 909  —  529. mál.




Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur um hafnaraðstöðu í Bakkafjöru.

     1.      Hvenær munu niðurstöður af athugnum á gerð hafnar í Bakkafjöru liggja fyrir?
    Skýrsla Siglingastofnunar Íslands, þar sem niðurstöður af athugunum á gerð hafnar í Bakkafjöru, liggur fyrir. Skýrslan: Ferjuhöfn við Bakkafjöru – Áfangaskýrsla um rannsóknir og tillögur, var afhent ráðherra 14. febrúar 2006. Meginniðurstaðan er sú að ekki séu sýnilegir neinir tæknilegir meinbugir á því að gera ferjulægi á Bakkafjöru og halda úti ferju á siglingaleiðinni milli Vestmannaeyjahafnar og Bakkafjöru með fullu öryggi og frátöfum innan viðmiðunarmarka. Gert er ráð fyrir að um eitt ár þurfi til að ljúka nauðsynlegum frumrannsóknum áður en fullnaðarhönnun mannvirkja getur hafist.
    Vakin skal athygli á því að nú er starfandi, á vegum ráðuneytisins, nefnd undir formennsku Páls Sigurjónssonar verkfræðings, sem leggur mat á hvernig best sé að haga samgöngum við Vestmannaeyjar í framtíðinni. Niðurstaðna nefndarinnar er að vænta bráðlega.

     2.      Hefur verið skoðaður sá möguleiki að önnur skip en ferjan, svo sem skemmtiferða- og flutningaskip, geti nýtt sér hafnaraðstöðuna?
    Tillögur Siglingastofnunar Íslands miða fyrst og fremst að því að skapa aðstæður fyrir áætlunarferju milli lands og Eyja sem er fyrst og fremst ætlað það hlutverk að annast fólks- og vöruflutninga milli lands og Eyja.